Júní 1921
- Miðvikudagur. Sunnan rosastormur og hríðarhaglél allan daginn, ónáðugt veður. Sex vikur af sumri, örís í byggð en dálítill snjór í fjöllunum. Jörðin mikið til þíð en þó er gróðurinn ekki mikill. Samt er farið að grænka í úthaga og túnin spangræn þó hægt fari að spretta. Ærnar naga alltaf túnið jafnóðum sem sprettur. Ærnar eru flestar bornar, um tuttugu tvílemdar. Einlembdar ær er hætt að hýsa en tvílembdar eru allar hýstar enn. Lauru haldið.
- Klárað að gera við girðinguna.
- Þorsteinn[1] á Féeggstöðum kom og fékk 110 pund af töðu. Stungið út úr húsunum og klofið[2].
- Steina og Ágústa[3] komu og töfðu lengi. Óskar[4] á Steðja kom með boð frá Guðrúnu[5], systur mömmu, að hún biður að sækja sig inn í kaupstað á morgun. Steini og Steindór stungu upp kartöflugarðinn en ég, pabbi og Jóhanna möluðum og jusum taðmolunum úr húsunum og er þar með búið að koma ofan í túnið til fulls. Við pabbi tókum til tófta. Steini sýndi okkur hvernig karlmanns og kvenmanns hár fara að fljúgast á og þótti öllum gaman að.
- Pabbi fór til Akureyrar og sótti Guðrúnu. Steini fór fram í Efstaland. Hreggi kom og Laufey og Jón Hólm. Jón Baldvinsson kom með boð frá frúnni um að fá keypt smjör fyrir 1 krónu. Hann fékk það.
- Þá var sett niður í kartöflugarðinn. Laufey kom, Jóhanna kveikti taði. Ég vakti yfir túninu.
- Mokað og pælt í flaginu. Mamma fór með Guðrúnu út í Rauðalæk.
- Pabbi, mamma og Kári fóru í kaupstað og fylgdu Guðrúnu. Þau komu heim eftir háttatíma. Ég vakti fyrir vellinum til kl. 4. Steini og Steindór fóru að leita og taka ofan af sverði. Laufey kom með þing- og hreppaskilaboð.
- Steini var við að gera við girðinguna i Neðri-Rauðalækjarlandi með Tryggva. Rósa[6] á Rauðalæk kom og fékk að tína úr útsæðisafgangnum. Sófus kom til að sækja fötin hennar Báru, hún fór í Skúta. Við pabbi bárum saman tað. Kúnum var hleypt út í fyrsta sinn.
- Jafnað flagið og keyrt í það mykju og borið saman tað. Siggi[7] á Neðri-Rauðalæk kom til að sækja Steina til að taka við kvígildis ánum. Sesselía[8] á Bryta kom til að biðja Steina að vera hjá Þorláki á morgun en Steini gat það ekki.
- Þá var tekinn upp svörður. Jón Baldvinsson kom til okkar hvað eftir annað. Ég vakti yfir vellinum og er það sjötta og síðasta nóttin að líkindum á þessu vori. Jóhanna byrjaði að hreinsa túnið.
- Pabbi fór út í Rauðalæk og ofan í N-Rauðalæk. Mamma fór með Kára suður að Bægisá því Aðalheiður[9] ætlaði að bólusetja þar en hún kom á ekki. Þorlákur gekk um. Fénu var hleypt upp fyrir girðingu. Ég fór út í Rauðalæk með 1 pund sykur sem var lánað og fékk um leið leyfi fyrir að taka straubolta úti í Ási. Svo fór ég út í Ás með fulla tösku af bókum, fékk boltann og bækur og fór svo heim fullklyfjaður.
- Ég bar af fyrripartinn en breiddi nýju sléttuna en piltarnir þöktu hana. Stúlkurnar hreinsuðu
- Ég bar af, pabbi bar út og klauf svörð. Steini og Steindór tóku ofan af þúfum. Þorlákur kom og bað pabba að vera hjá sér í svarðargröf á morgun.
- Þorlákur tók upp svörð, pabbi var hjá honum og Siggi á N-Rauðalæk. Fríða á Bryta kom.
- Pabbi og Steini fóru á hreppaskil. Ég, Steindór og Jóhanna bárum út svörð og klufum.
- Það hefur verið grimmdarfrost í nótt, stálfrosin jörðin eins og á haustdegi.
- Tekinn upp svörður, borinn út og klofinn.
- Steini fór að vísinda og aðgæta óðal sitt. Tryggvi bóndi kom og Frændi. Allir eru sykurlausir. Frændi fékk 1 ½ pund af sykri hérna til láns.
- Pabbi fór á manntalsþingið ríðandi á Bleik sínum. Ég bar af[10] en Steini og Steindór keyrðu í flagið og byrjuðu að þekja það. Stúlkurnar hreinsuðu.
- Steini fór að gera við girðinguna upp með Fossánni með Karli[11] á Vindheimum. Þorlákur kom og bar út svörðinn sinn. Jón Baldvinsson kom með rekstur. Steindór og Kári fóru með hann út í Rauðalæk. Jóhanna fór út og ofan að Rauðalæk og byrjaði að hreinsa fyrir Steina.
- Steini og Steindór ristu torf. Jóhanna brenndi sig á öðrum fætinum ofan á ristinni. Pabbi fór í kaupstað til að finna lækni og fékk brunabindi sem látin voru utan um sárið. Ég fór út og ofan í N-Rauðalæk til að bera af. Brynjólfur á Steinsstöðum kom og var nóttina.
- Steindór og Steini unnu í vegabót ofan undan Hamri fyrir 6,50 kr. kaup fyrir manninn. Jóhanna lá í rúminu og var slæm í fætinum. Ég og mamma fórum út og ofan að N-Rauðalæk, heimatúnið var klárað að hreinsa og bera af því. Pabbi var við að hrauka upp sverði.
- Steini og Steindór voru í vegabótinni fyrripartinn en ristu reiðinga seinni partinn. Mamma kláraði að hreinsa út og niður en ég kláraði að bera af.
- Steindór var í hreppavegavinnu. Ég og Steini ristum torf fyrripartinn og gerðum við réttina seinnipartinn. Jóhanna er svipuð í fætinum.
- Ég, Steini og Steindór fórum á fund út í Ás. Frændi kom með ömmu. Sigvaldi kom til að semja við pabba um Gránu sína sem hann vill lána honum í sumar.
- Þá var rekið saman til rúnings fyrra sinn. Margir komu og við fórum út og suður í kindaerindum. Allar geldar kindur voru rúnar en fáar ær.
- Pabbi fór inneftir til að sækja lækni því Jóhönnu batnar lítið. Hann fékk Steingrím Einarsson[12]. Hann hreinsaði upp úr sárinu og lét svo ný bindi. Steindór fylgdi honum inneftir aftur og kom heim kl. 3 um nóttina. Steini var að rífa og byggja á óðali sínu. Ég fór út og ofan og fékk Steina með mér suður að Hamri til að rýja hrút sem var þar inni. Jón[13] í Koti kom og fékk lánaða kerru. Ég fór suður að Bægisá til að sækja húsfans.
- Ingibjörg[14] systir mömmu og Gunnar[15] sonur hennar komu um morguninn og höfðu verið á ferðinni alla nóttina. Þau dvöldu hér fram yfir miðjan dag og héldu síðan til Akureyrar. Við Steindór fluttum torf úr flagi á hrossum og seinnipartinn var hleypt vatni á túnið. Steini var við byggingar sínar.
- Þá var byrjað að grafa skurð fyrir lækinn út og niður svo að hann renni ekki ofan í engið. Gunnar kom innanað um nóttina og svaf það sem eftir var af nóttunni inni í rúmi.
[1] Þorsteinn Þorsteinsson (1860-1957) bjó víða, m.a. á Neðri-Rauðalæk 1922-24 og á Grænhóli, ættaður utan af Flateyjardal. Óskyldur Tryggva Þorsteinssyni skólastjóra ef einhverjum dytti það í hug.
[2] Taðhnausarnir voru klofnir í 4-5 sneiðar sem voru þurrkaðar og notaðar sem eldiviður og til að reykja kjöt.
[3] Gæti verið Ágústa Halldóra Friðfinnsdóttir (1885-1974) frá Dagverðartungu, móðir Páls í Tungu og þeirra systkina. Hugsanlega var Steina Guðrún Steinunn Sigurjónsdóttir (1891-1975) sem átti líka heima í Dagverðartungu á þessum tíma, móðir Stefáns bónda á Hlöðum.
[4] Óskar Snorrason (1909-1980) bróðir Stefáns Guðmundar vörubílstjóra.
[5] Þorgerður Guðrún Gunnarsdóttir (1862-1949) átti heima á Ólafsfirði. Hún fóstraði Helgu ömmu og hafði með sér í vistum frá því að amma var 6-7 ára, fyrst á Ytri-Bægisá en síðan á bæjum í Kræklingahlíð. Guðrúnarnafn Jóhönnu Pálmadóttur er vafalítið frá þessari Guðrúnu komið, Jóhönnunafnið frá móður Helgu ömmu.
[6] Sigurrós Sigtryggsdóttir (1888-1942) móðir Maríu Sigtryggsdóttur.
[7] Sigurður Sveinbjörnsson (1896-1969), hálfbróðir Tryggva (Sigtryggs)
[8] Sesselía var engin skráð á Bryta um þessar mundir. Hólmfríður Tryggvadóttir (1890-1977), Fríða á Bryta, hét kona Þorláks á Bryta en þar var ekki annað heimilisfólk en Mars Friðjón Rósantsson (1912-1981), tökubarn, síðar bóndi í Bakkaseli og á Steðja.
[9] Aðalheiður Jónsdóttir (1893-1976), ljósmóðir á Barká.
[10] Pabbi var afburðamaður en hér hefur taðið verið herfað ofan í túnið, síðan var taðið rakað af túninu og borið af því. Líklega hefur skíturinn verðið settur í flagið sem Steini og Steindór voru að þekja.
[11] Karl Guðmundsson (1885-1974) bóndi á Efri-Vindheimum. Karl var seinni maður Sigurrósar Pálsdóttur (1872-1926) á Neðri-Vindheimum, hann var tvígiftur en átti ekki börn. Sigurrós átti hinsvegar mörg börn með fyrri manni sínum, Friðriki Daníel Bjarnasyni, sem bjó líka á Neðri-Vindheimum.
[12] Steingrímur Eyfjörð Einarsson (1894-1941) var læknir á Akureyri og síðar á Siglufirði.
[13] Jón Jónsson (1866-1939) faðir Gísla í Engimýri, Hvammi, Reistará, Grjótgarði og víðar. Jóhanna Sigfríður Sigurðardóttir (1885-1973), kona Jóns, var systir Rósants á Hamri, Jóhannesar eldri á Neðri-Vindheimum, Sigurðar Jóhanns fyrri tengdaföður Rósants í Ási, og fleiri systkina.
[14] Ingibjörg Gunnarsdóttir (1866-1948) bjó á þessum tíma í Sólheimagerði í Blönduhlíð hjá Pétri Valdemarssyni, syni sínum, og Kristínu Hallgrímsdóttur sem seinna fluttu í Neðri-Rauðalæk. Hún var móðir Gríms sem kom í Garðshorn í janúarbyrjun og Gunnars sem fylgdi móður sinni til Akureyrar.
[15] Gunnar Jóhann Valdemarsson (1900-1989), bróðir gamla Péturs á Rauðalæk, bjó á Víðivöllum í Blönduhlíð.