Um börn Friðgerðar

Um börn Friðgerðar

Guðfinna var hjá foreldrum sínum í Bolungarvík fram til 9 ára aldurs en vegna veikinda (skyrbjúgs) var hún þá sett í fóstur til Sigurðar Jónassonar (1886-1963) og Bergþóru Jónsdóttur (1900-1985) í Botni í Mjóafirði þar sem móðir hennar var fóstruð áður. Þessi hjón, sem voru óskyld Guðfinnu, höfðu flutt í Botn árið áður og eignast þar sitt eina barn, Friðgerði (1924-2011). Um vist Guðfinnu í Botni er fjallað nánar í Jónubók, pistli um móður Bjarna Bjarnasonar, föður hennar, og afkomendur hennar og aðstandendur. Um tvítugt Guðfinna vetrarpart á Héraðsskólanum í Reykjanesi og í vist þar hjá Aðalsteini Eiríks­syni skólastjóra eða Eiríki Stefánssyni kennara.

Hjónin í Botni áttu aðeins eina dóttur, Friðgerði, en þau ólu upp 4 fóstur­börn. Kristinn (1911-1971) bróðir Berg­þóru ólst þar upp hjá systur sinni en hann flutti til Akureyrar og gerðist þar umboðs­maður Flugfélags Íslands, oft kallaður flugmarskálkur. Hin börnin voru Jóhannes Páll Guðnason (1925) sem var systursonur Bergþóru, síðar bóndi í Svansvík, og Halldór Kristjánsson (1923-2011) glerslípunar­meistari á Akureyri frá Hjöllum í Skötufirði. Hann kom í Botn 1929 eftir að hafa misst föður sinn en hann fluttist einnig til Akureyrar þar sem hann bjó til æviloka. Hann var óskyldur Botnshjónunum.

Guðfinna fór til Akureyrar sem barn­fóstra hjá Kristni uppeldisbróður sínum 1940 en réð sig síðan sem vinnukonu að sumarlagi, fyrst að Munka­þverá í Eyjafirði 1941 en síðan í Garðshorn á Þelamörk 1942 þar sem hún giftist Frímanni Pálmasyni (1904-1980) bónda og eignaðist með honum 8 börn, Friðgerði, Pálma, Gunnar, Helgu, Sigurð, Jónu, Bjarna og Steinar. Auk eigin barna hafði hún fósturbörn um lengri og skemmri tíma þannig að heimilið var oft stórt en það þurfti utanaðkomandi sumargest til að taka eftir að hún hefði mikið að gera og hafa orð á því löngu síðar. Börn hennar tóku ekki eftir því, fannst líklega sjálfsagt og eðlilegt að hún væri sívinnandi, þekktu ekki annað. Engu að síður var hún bókhneigð og gaf sér tíma til að lesa þrátt fyrir mikla nærsýni sem hugsanlega mátti rekja til skyrbjúgs sem hún þjáðist af í bernsku. Hún hvatti og studdi börn sín til bóknáms sem þótti þó ekki sjálfsagt mál í þeirri sveit. Um það leyti sem hún hafði komið öllum börnum sínum af höndum sér og átti að geta séð fram á minni annir fékk hún heilablóðfall eða heilablæðingu og lamaðist vinstra megin þegar hún var rúmlega fimmtug og var mikið á sjúkrastofnunum eftir það til æviloka 1981. Þessi síðustu ár hennar voru henni eðlilega þungbær en það var óbrigðult ráð til að hressa hana að spyrja hana út í fólkið hennar fyrir vestan og lífið þar. Þá hefði verið gott að hafa vit á að skrifa hjá sér margt af því sem nú væri gaman að vita.

Jóna Bjarnadóttir – Jóna frænka – var í vist á ýmsum heimilum á uppvaxtar­árunum og einn vetur eða vetrarpart „kom heimiliskennari á Galtarvita sem var Jóna Bjarnadóttir frá Hrauni í Skálavík“ (Finnbogi Hermannsson: Griðrof á Galtarvita í „Vestfirskum konum í blíðu og stríðu“, bls. 102). Eftir dauða móður sinnar flutti Jóna til Reykja­víkur þar sem hún fór að vinna á saumastofu. Hún fór þó vestur aftur eitt ár og var ráðskona hjá bróður sínum, Jóni Ólafi, í Hnífsdal 1945-1946. Fyrst eftir að Jóna fór að vera í Reykjavík bjó hún hjá Bergþóru móður­systur sinni. Þar var oft þröngt í búi og Jóna þurfti stundum að leggja ríflega með sér til heimilisins auk þess sem Sigurjón Svanberg, bróðir Bergþóru, hljóp oft undir bagga. Árið 1947 fór hún í hálfa vist hjá Óskari B. Erlends­syni apótek­ara og Laufeyju Jóhannesdóttur en hjá þeirri fjölskyldu bjó hún það sem eftir var ævinnar, síðustu árin í íbúð á Meistara­völlum sem synir Óskars og Laufeyjar áttu. Hún vann lengi bæði hjá Loftleiðum á Kefla­víkur­flugvelli og Flug­leiðum á Reykja­víkur­flugvelli eða meðan heilsan leyfði. Hún var alltaf einhleyp, „fékk ekki það sem ég vildi og vildi ekki það sem ég fékk“ eins og hún sagði sjálf. Jóna frænka kom flest sumur vestur í Bolungar­vík og öll sumur var hún um tíma hjá Guðfinnu systur sinni í Garðs­horni og sá til þess að börn hennar þvæju sér bak við eyrun á meðan hún stóð við. Það var þó alltaf tilhlökkun í Garðs­horni þegar von var á Jónu frænku á sumrin. Jóna var glaðlynd og félagslynd kona og alstaðar vel liðin, jafnvel í uppáhaldi.

Gunnhildur Guðfinna, Jóna Bjarnveig, Skarphéðinn Sigmundur og Jón Ólafur Bjarna- og Friðgerðarbörn

Col Þegar Magnús á Ósi hóf búskap á Heimabæ í Hnífsdal var Jón Ólafur vinnu­maður hjá honum um sumar, var í frysti­húsinu um vetur. Magnús flutti síðan til Ísafjarðar en Jón gerðist ráðs­maður hjá honum í Heima­bæ með Jónu systur sína sem ráðskonu eitt ár 1945-1946. Þá var Jón búinn að fara þrjá mánuði á Héraðs­skólann á Reykja­nesi og tvo vetur á Bænda­­skólann á Hólum. Jón Ólafur flutti fyrst til Keflavíkur þar sem hann starfaði sem lögreglumaður á Kefla­víkur­flugvelli og var í Lögreglu­skól­anum í Reykjavík 1948-49. Hann starfaði síðan sem lögreglumaður í Hafnarfirði með hléum til 1959 en stundaði byggingavinnu inn á milli á sumrin auk skrifstofu­starfa á Bæjar­skrifstofu Hafnar­fjarðar og Skattstofu Hafnar­fjarðar. Jón Ólafur var bókari og innheimtu­stjóri á sýsluskrifstofunni í Hafnarfirði frá 1960 til 1966, var svo gjaldkeri hjá Grænmetis­verslun landbúnaðarins til 1981 og loks fjármálastjóri Rafveitu Hafnarfjarðar til starfsloka 1995. Hann var virkur í félags­málum, starfaði í Lions­hreyfingunni og Frímúrarareglunni og var m.a. formaður Bolvíkingafélagsins í Reykjavík og nágrennis 1985 til 1994.

Jón Ólafur kvæntist Þorgerði Maríu Gísladóttur (1925) íþróttakennara og eignuðust þau eina dóttur, Sigríði (1953). Áður hafði Jón eignast Bentínu (1950) með Gyðu Guðvarðardóttur.

Jón frændi gerði sér mannamun, átti það til að hunsa sumt fólk, jafnvel sér nákomið, en viðraði sig upp við aðra, ekki síst ef þeir höfðu komist til einhverra mannvirðinga. Hann var enginn gleðipinni í daglegri umgengni en traustur maður eins og frami hans í félagsmálum ber vitni um.

Skarphéðinn Bjarnason var einn vetur á Héraðs­skólanum á Núpi í Dýrafirði en mun ekki hafa lokið gagnfræðaprófi. Um haustið 1943 fór hann til Reykjavíkur á eftir Jónu systur sinni og fór að vinna hjá Eimskipafélaginu og þar var hann næsta áratug rúman á Selfossi, Súðinni, Gull­fossi og e.t.v. fleiri skipum sem kyndari, kokkur og aðstoðar­vélstjóri þangað til hann fór að læra flug­umferðar­stjórn. Hann starfaði sem flug­umferðarstjóri á árunum 1956 til 1987 en þá lét hann af störfum af heilsufars­ástæðum. Jafnframt stundaði hann skipasölu svo lengi sem heilsan leyfði.

Skarphéðinn var lífsglaður maður, þótti strax í æsku skarpur og kraftmikill, hýr og glaður en þungur til sveitastarfa, þó sagður efnilegur sláttumaður á unglings­aldri. Hann var gamansamur og þótti lífga upp á tilveruna hvar sem hann kom. Í bókinni „Gullfoss. Lífið um borð“ eru sagðar af honum sögur sem lýsa vel uppá­tækjum hans, glaðværð og gáska.

Skarphéðinn giftist fyrst Höllu Jónsdóttur (1935) bankafulltrúa og átti með henni tvo syni, Jón Ólaf (1956) og Bjarna Friðgeir (1960). Þau skildu og Skarphéðinn giftist að nýju Sigríði Karlsdóttur (1944-2018) útstillinga­hönnuði en þau eignuðust þrjá syni, Karl (1968), Hjálmar (1969) og Óskar Bjarna (1980).