Barneignir Jónu Jónsdóttur

Barneignir Jónu Jónsdóttur

Þegar Bjarni Þorláksson fórst á Bolungarvíkinni í nóvember 1894 höfðu þau Jóna eignast Steinþóru[1] og Helgu[2], sem báðar dóu á fyrsta ári, og Hafliða Sæmund[3] en Jóna var barnshafandi og fæddi son 29. júní 1895 sem nefndur var Bjarni[4] eftir föður sínum. Hafliði var þá settur í fóstur hjá móðurforeldrum sínum á Breiðabóli, Jóni og Margréti, þar sem hann ólst upp til fullorðinsaldurs. Jóna var næstu misserin með Bjarna son sinn hjá tengdamóður sinni og mágkonum á Ísafirði, síðan vinnukona í Engidal inn af Skutulsfirði og síðast á Bolungarvíkurmölum í verbúðum sem voru á sjávarkambinum neðan við Ytribúðir.

Malirnar um 1890. Myndin er úr bók Hjálmars R. Bárðarsonar: Vestfirðir, Rvk. 1993

Því er skemmst frá að segja að á næstu 10 árum eftir slysið á Bolungarvík eignaðist Jóna þrjú börn með þremur mönnum. Þetta varð til þess að henni var brugðið um lauslæti en Bjarni sonur hennar andmælti því harðlega. Hann benti réttilega á að hún hafi verið komin í þá stöðu að hún varð að fá sér fyrirvinnu og komast í fasta búsetu til að geta alið önn fyrir sonum sínum, þó ekki væri nema fyrir öðrum þeirra. Það er hinsvegar jafnljóst að henni hafa verið mislagðar hendur í þessari viðleitni, hugsanlega vandaði hún ekki alltaf valið sem skyldi og vissulega hafði hún ekki úr mörgum að velja, þegar hún reyndi að finna sér sambýlismann, ef samgöngur þeirra tíma eru hafðar í huga. Svo gat hún líka hafa verið óheppin þannig að elskhugar, sem urðu fyrir valinu, stóðu ekki undir vænt­ingum og brugðust með einum eða öðrum hætti. Og í síðasta tilvikinu er nokkuð ljóst að heilsa hennar sjálfrar brást þó ekki hefði annað komið til.

En hvað um það, árið 1897 var Jóna vinnukona í Engidal í Skutulsfirði og Bjarni sonur hennar með henni. Þar féll hún fyrir kyntöfrum vinnumannsins Sigurbjörns Gíslasonar[5] sem gerði henni barn. Frá Sigurbirni segir nánar í kafla um son þeirra hér á eftir. Sonur Jónu og Sigurbjörns, Sigurjón[6], fæddist í febrúar 1898. Henni hefur líklega verið meinað að hafa barnið hjá sér því að húsráðendum í Engidal hefur eflaust þótt kappnóg að vinnukonan væri með eitt barn með sér í vistinni. Sigurjóni var því komið í fóstur út í Ísafjarðarkaupstað til barnlausra hjóna, Kristínar Hákonardóttur og Þórarins Guðbjartssonar, sem hétu henni því að láta drenginn aldrei frá sér. Þórarinn dó reyndar árið 1905, þegar Sigurjón var 7 ára, en Kristín stóð við loforð sitt og ól hann upp til fullorðinsára sem sinn eigin son.

Ári eftir að Sigurjón fæddist var Sigurbjörn kominn í sambúð með annarri konu og hafði eignast með henni barn. Árið 1900 var Jóna hinsvegar húskona á Bolungarvíkurmölum með Bjarna með sér og þangað út eftir var þá líka kominn Sigurbjörn, barnsfaðir hennar, ásamt Guðríði, sem kölluð var í manntalinu „hjú hans“ (Sigurbjörns) en varð síðar eiginkona, og Hafliði sonur þeirra. Sigurbjörn var þá sjómaður á þilskipi.

Malirnar, líklega um 1940. Báturinn sem næstur er á myndinni hét Húni og var í eigu Sigurgeirs Sigurðssonar sem Bjarni Bjarnason vann hjá fyrst eftir að hann flutti utan úr Skálavík um 1940. Myndina átti Hjörleifur Hafliðason sem var sonur Sigurðu Sigurðardóttur.

Ári síðar var Jóna ráðskona í sjóbúð í Ytribúðum í Bolungarvík hjá Jóni Jónssyni[7] ekkjumanni og enn var Bjarni hjá henni. Í júní 1902 ól Jóna sjötta barn sitt og lýsti Jón, húsbónda sinn, föður að því og hann gekkst við barninu.

Jón hafði síðustu árin búið á einu Breiðabólskotinu með Matthildi Þorsteinsdóttur, konu sinni, í barnlausu hjónabandi. Hún lést árið 1900 og eftir dauða hennar flutti Jón sig inn í Bolungarvík og var þar sjómaður. Eins og áður segir eignaðist hann þar stúlkubarn með Jónu Jónsdóttur en það var skírt Matthildur Guðbjörg[8] eftir nýlátinni konu hans og móður hans. Líklega varaði Jóna sig ekkert á því að barnleysið í hjónabandi þeirra Jóns og Matthildar hafði ekki verið honum að kenna. En samvistir Jóns og Jónu urðu ekki lengri en þennan eina vetur því að Jón hefur sennilega misst heilsuna og orðið að hætta sjómennskunni. Hann var skráður til heimilis á Hóli þegar barnið fæddist. Hálfu öðru ári seinna lést Jón rúmlega fimmtugur eða í árslok 1903, þá til heimilis á Ósi í Bolungarvík.

Jóna stóð nú uppi með tvö börn á framfæri sínu en átti auk þeirra Hafliða, sem var í fóstri hjá móðurfólki sínu á Breiðabóli, og Sigurjón sem var fóstraður af vandalausum á Ísafirði. Hvort sem það var nú tilraun til að útvega fyrirvinnu til að geta haft a.m.k. þessi tvö börn hjá sér eða af öðrum ástæðum, eignaðist Jóna loks son í október 1904 með Guðjóni nokkrum Jenssyni[9], sjómanni úr Dýrafirði, tæplega fertugum manni, ógiftum, sem hafði þó eignast soninn Ásgeir 12 árum áður. Guðjón og Jóna voru skyld í 3. og 4. lið. Drengurinn, sonur Jónu og Guðjóns sem skírður var Guðjón Álfur, dó tæplega tveggja mánaða gamall og Jóna sjálf fjórum mánuðum síðar, 35 ára að aldri. Banamein hennar var lungnabólga.

Guðjón giftist skömmu síðar Ögmundínu Sigríði Kristjánsdóttur frá Múlanesi við Kvígindisfjörð í Barðastrandarsýslu og eignaðist með henni 8 börn, elstur þeirra var barnakennarinn og rithöfundurinn Böðvar frá Hnífsdal (Strákarnir sem struku o.fl. bækur). Guðjón eignaðist líka soninn Hreggvið með tvítugri systurdóttur sinni þegar hann hafði verið 4 ár í hjónabandi með Ögmundínu. En það er allt önnur saga.

Þessi mynd frá 2016 er ekki af Mölunum heldur af Bökkunum utan við Malir. Ófæra nær í sjó fram undir Traðarhyrnu. Handan hennar er Stigahlíð sem nær út fyrir Skálavík.

Þessi fjögur börn Jónu, sem komust á legg, nutu ekki langra samvista við móður sína, Bjarni þó lengst enda átti hann minningar um hana sem fallega og góða konu sem bakaði alltaf pönnukökur á Sumardaginn fyrsta. Eflaust hitti Hafliði hana líka oft því ekki var svo löng leið úr Bolungarvík út í Skálavík. Hafliði gaf það í skyn við dóttur Sigurjóns, hálfbróður síns, þegar hann hitti hana barnunga að hún mundi verða falleg kona þegar hún yrði stór ef hún líktist ömmu sinni. Hann reyndist sannspár þó að hún líktist ekki ömmu sinni endilega svo mjög. Annars áttu þeir bræður allir það sammerkt að vera fáorðir um æsku sína og fátt annað hafa þeir sagt um móður sína sem varðveist hefur. Jóna mun hafa verið myndarleg kona með mikið og þykkt, dökkt eða jarpt hár. Synir hennar voru ekki ólíkir menn í sjón, Hafliði þeirra hávaxnastur en Sigurjón fíngerðastur. Þegar Sigurjón kom í jarðarför Bjarna hálfbróður síns hafði einn kirkjugesta á orði, þegar hann sá til Sigurjóns, reyndar úr nokkurri fjarlægð, að sér þætti merkilegt að sjá Bjarna þar kominn í sína eigin erfidrykkju, svo líkir fannst honum þeir Bjarni og Sigurjón í sjón.

Einhverra hluta vegna hafði Hafliði alltaf mest samband við Sigurjón hálfbróður sinn, ekki síst eftir að báðir voru fluttir til Reykjavíkur, en það samband hafði þó komist á fyrr því að eftir að Hafliði var fluttur suður en Sigurjón bjó enn á Ísafirði sendi Hafliði Sigurjóni og fjölskyldu jólapakka á hverju ári. Minna er vitað um samband Hafliða við Matthildi, hálfsystur sína, og samband hans við Bjarna hálf­bróður sinn mun hafa verið lítið lengst af, jafnvel eftir að Bjarni fluttist suður á Akranes 1953. Jóna dóttir Bjarna fékk botnlangabólgu á meðan hún bjó fyrir vestan og þurfti að fara til Reykjavíkur þess vegna. Bjarni hringdi í Hafliða og bað hann að greiða götu hennar en Hafliði taldi sér það ekki fært af einhverjum ástæðum sem hafa þó eflaust verið gildar. Eftir að Friðgerður dó fór Bjarni til Reykjavíkur og hitti Hafliða og við það tækifæri á Hafliði að hafa skensað Bjarna eitthvað fyrir að vera að frílysta sig í Reykjavík á meðan aðrir þyrftu að vinna. Bjarni tók því illa og hafði ekkert samband við Hafliða eftir það.

Bjarni mun ekki hafa haft mikið samband við systkini sín en eflaust hefur hann þó þekkt Matthildi, á meðan hún var í Bolungarvík, en framan af var Bjarni reyndar frammi á Gili í Syðridal og síðar inni í Skötufirði. Eftir að Matthildur flutti til Suðureyrar hafa samgöngur hamlað samskiptum þeirra þó ekki væri annað. Þó mundi Jón Ólafur, sonur hans, eftir því að Bjarni fór til Súgandafjarðar til að heimsækja hana, þegar hann bjó á Hanhóli, og afkomendur Matthildar muna eftir að Bjarni hafi heimsótt hana fyrir vestan eftir að hann varð blindur. Bjarni hafði heldur ekki mikið samband við móðursystkini sín en þó heimsótti hann Kristínu eftir að bæði voru flutt suður. Honum var í nöp við Ingimund vegna þess að sá síðarnefndi hafði fengið eigur Jónu við lát hennar, þar á meðal kistil sem Bjarna fannst að hann hefði átt að eiga. Í þessu samhengi ber þess að minnast að Matthildur fór í fóstur til Ingimundar, þegar móðir hennar dó, og átti þess vegna tilkall til eigna hennar ekki síður en Bjarni.

Vitað er að Matthildur heimsótti Sigurjón hálfbróður sinn á meðan hann bjó á Ísafirði og Bjarni hafði líka eitthvert samband við Sigurjón.

Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að á árunum 1915-1920 voru afkomendur Jóns og Margrétar frá Ytribúðum og Breiðabóli margir í Bolungarvík. Þar bjó Ingimundur Jónsson frá 1918 og Elísabet dóttir hans frá 1915. Þar bjó Kristín Jónsdóttir með fjölskyldu sinni á þessum tíma. Hafliði var í Bolungarvík í nokkur ár og þar hefur hann væntanlega kynnst Sigríði Bachmann Jónsdóttur sem bjó þar hjá foreldrum sínum og með Lilju dóttur sinni eftir að hún kom til sögunnar. Bjarni var í Bolungarvík á þessum árum, hóf þar sambúð og barneignir með Friðgerði Skarphéðinsdóttur sem flutti til Bolungarvíkur 1912. Matthildur hafði búið hjá Ingimundi móðurbróður sínum þangað til hann flutti út í Skálavík 1913 en þá varð hún eftir í Bolungarvík og var tökubarn á bænum Jaðri í 3 ár. Af börnum Jónu Jónsdóttur var það því aðeins Sigurjón sem var ekki í Bolungarvík, t.d. árið 1915. Og af eftirlifandi börnum Jóns og Margrétar var það aðeins Vigdís Steinunn sem bjó ekki í Bolungarvík á þessum árum því að hún var þá flutt til Noregs.

 

[1] Steinþóra Bjarnadóttir f. 6. 6. 1891, d. 9. 6. 1891
[2] Helga Bjarnadóttir f. 30. 3. 1894, d. 16. 4. 1894
[3] Hafliði Sæmundur Bjarnason f. 9. 10. 1892, d. 11. 3. 1970
[4] Bjarni Bjarnason f. 29. 6. 1895, d. 13. 2. 1980
[5] Sigurbjörn Gíslason f. 7. 7. 1866, d. 17. 7. 1940
[6] Sigurjón Sigurbjörnsson f. 6. 2. 1898, d. 23. 11. 1982
[7] Jón Jónsson f. 17. 1. 1852, d. 23. 12. 1903
[8] Matthildur Guðbjörg Jónsdóttir f. 11. 6. 1902, d. 10. 11. 1982
[9] Guðjón Jensson f. 3. 9. 1866, d. 23. 8. 1946