Jóhann Sigurðsson

Jóhann Sigurðsson

Í 19. hefti Heimaslóðar (2022) birtist grein um Sigurlaugu Sigfúsdóttur sem átti heima á 31 bæ í byggðum í og við Eyjafjörð á sinni 54 ára ævi. Hér fer á eftir grein um Jóhann Sigurðsson sem var óskyldur Sigurlaugu, þó svo að foreldrar þeirra væru hjón í nokkur ár, en hann átti heima á a.m.k. 33 bæjum í Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslum enda varð hann talsvert eldri en Sigurlaug.

Um það má deila hvað í því felst að eiga viðburðaríka ævi. Fólk átti varla mjög viðburðaríka ævi hér áður fyrr ef það bjó alltaf á sama stað en nú á dögum getur fólk búið lengi á sama stað en ferðast víða. Það er þó allt annars konar reynsla en af því að skipta oft um heimili. Jónas heitinn Hallgrímsson sagði eitt sinn:

Ég er kominn upp á það,
allra þakka verðast,
að sitja kyrr á sama stað
en samt að vera að ferðast.

Jónas þvældist þó ekki um á netinu en hann ferðaðist reyndar meira en margur á hans dögum. Á 19. öld ferðuðust fáir langar leiðir, a.m.k. ekki á okkar mælikvarða sem getum flakkað heimshorna á milli þó að við búum alltaf í sama sveitarfélaginu, jafnvel í sama húsinu. Vilborg Arna Gissurardóttir á viðburðaríka ævi með því að ganga á heimsskautin og hæstu fjallatinda en getur þess vegna átt sama lögheimilið ævina á enda. Ekki þekki ég það. Forfaðir hennar einn, fyrrnefndur Jóhann Sigurðsson, átti líka á sinn hátt viðburðaríka ævi þó að hann eyddi mestum hluta hennar í Hörgárdal, Hjaltadal og nágrannasveitum þar út með Skagafirði austanverðum. Líklega kleif hann engan fjallstind því að slíkt flandur var aðeins iðja menntamanna og annarra ónytjunga þess tíma og ekki kom hann í nema eitt skaut svo vitað sé auk móðurskautsins. Hann bjó þó víða innan þessa litla hrings og 32 sinnum hafði hann vistaskipti, flutti af einum bæ á annan, fyrst með móður sinni, svo einn, síðan með konu sinni, þá með konu og börnum, aftur með konunni einni og loks einn með syni sínum.

Guðrún hét kona og var Friðfinnsdóttir (1808-1846), stórmerkileg, komin af afdalafólki. Foreldrar hennar hokruðu fyrst í Baugaseli í Barkárdal en síðan í Stóragerði í Myrkárdal á fyrri hluta 19. aldar. Þau hétu Friðfinnur Loftsson og Herdís Jónsdóttir, eignuðust 14 börn og var Guðrún sú áttunda í röðinni. Tvö yngstu börnin dóu um eða innan við tveggja ára aldur og tvö innan 10 ára aldurs. Öll börnin ólust upp hjá foreldrum sínum nema tvær stúlkur, María og Guðrún, sem voru fóstraðar af móðursystkinum sínum. María ólst upp með móðursystur sinni og nöfnu sem var vinnukona og húskona á bæjum í Hörgárdal en Guðrún fór ómálga í fóstur til móðurbróður síns, Jóns Jónssonar (1771-1832), sem var þá ógiftur bóndi á Grjótgarði á Þelamörk, tæplega fertugur. Líklega hefur ómegðin í Baugaseli verið orðin íþyngjandi fyrir Friðfinn og Herdísi, þau töldust ekki til höfðingja þó að séra Gamalíel á Myrká færi um þau fögrum orðum í kirkjubókinni. Þvert á móti benda hreppsbækur til að þau hafi verið bláfátæk, samt sjálfbjarga. Jón bróðir Herdísar virðist ekki hafa gifst um dagana en á Grjótgarði hafði hann hafið sæmilegan búskap með ráðskonu, Ragnheiði Bjarnadóttur (1773-1855) sem hafði með sér son sinn, Svein Ólafsson (1801-1876) sem var nokkur ár á framfærslu Skriðuhrepps, efnilegur í æsku. Ragnheiður hafði áður búið með Ólafi nokkrum Sveinssyni (1777-1841) í Þverbrekku og Gloppu í Öxnadal en þau skildu að borði og sæng. Þau höfðu orðið gjaldþrota 1802 og Ólafur fór eftir það með Davíð (1800-1865) son þeirra vestur að Svínavatni í Svínadal þar sem Ólafur var það sem hann átti ólifað. Davíð kom til baka eftir nokkur ár og var á sveitarframfæri þangað til hann fermdist 17 ára, þótti gáfnalítill. Lítið annað er hægt að segja um bernsku þessara bræðra því að göt eru í kirkjubækur Bægisár- og Bakkasókna á fyrstu tveimur áratugum 19. aldarinnar. Aðeins Sveinn kemur lítillega við þessa sögu og því ástæðulaust að eyða á þá miklu sagnfræði­legu púðri.

Jón, Guðrún, Ragnheiður og Sveinn voru á Grjótgarði 1811 en nokkrum árum síðar fluttu þau öll í Lönguhlíð og voru þar í tvíbýli á móti Guðmundi Þorsteinssyni sem var „bóndi og fjölhæfur smiður“ og bjó í Lönguhlíð fram yfir miðja öld og átti eftir að koma síðar við sögu Guðrúnar. Í Lönguhlíð voru Jón og Guðrún til 1824, hann fyrst titlaður bóndi en fljótlega húsmaður, og frá Lönguhlíð fermdist Guðrún í Myrkárkirkju, „afbrigðis unglingur að gáfum og kunnáttu“. Árið 1825 voru Jón og Guðrún aftur komin í Grjótgarð, nú vinnuhjú, og voru þar næstu 2 ár, reyndar hluta úr seinna árinu á Pétursborg í Kræklingahlíð. Þangað var þá komin Rósa, systir Jóns. Friðfinnur í Stóragerði lést 1826 en árið eftir fóru Jón og Guðrún fram í Hörgárdal. Jón var þar á nokkrum bæjum, síðast í Stóragerði, en hún var vinnukona á Féeggstöðum, Flögu og fleiri bæjum þar sem þau voru stundum samtíða. Guðrún var nú komin í nágrenni við Stóragerði, þar sem móðir hennar og systkini bjuggu, en hún hafði ekki kynnst þeim mikið fram að þessu. Þau áttu eftir að reynast henni vel. 1830 var Guðrún vinnukona á Þúfnavöllum og 1832 var hún vinnukona í Sörlatungu en það ár dó Jón hjá systurbörnum sínum í Stóragerði.

Ragnheiður og Sveinn, sonur hennar, höfðu á sama tíma þvælst milli bæja í vinnumennsku eins og títt var um fátækt fólk. Sveinn fékk heldur góðar einkunnir fyrir hegðun en þótti fáfróður um almættið.

Árið 1833 bar það til tíðinda að Guðrún giftist Sveini Ólafssyni sem hún hafði alist upp með frá barnæsku þó að leiðir hafi skilið um tíma eftir að Guðrún var komin vel yfir fermingu. Þau hófu búskap á Sólborgarhóli í Kræklingahlíð og með þeim í heimili var Ragnheiður móðir Sveins og einn húsmaður var þar að auki. Búskapurinn hefur greinilega ekki verið upp á marga fiska. Heimilisfólkið var óbreytt árið eftir nema í stað húsmannsins var komin léttastúlka. Síðan er alls ekki fullljóst hvað gerðist. Manntalið sem gert var 1835 segir Guðrúnu enn gifta konu á Sólborgarhóli en sóknarmannatalið segir hana vinnukonu á Einarsstöðum. Þetta getur auðvitað vel staðist ef manntalið er gert fyrr á árinu en sóknarmannatalið en svo mikið er víst að Guðrún skildi við Svein. Þessi skamma sambúð þeirra er auðvitað umhugsunarefni og eins og oftast, þegar slitnar upp úr sambúð, geta margar ástæður legið að baki. Það er ljóst að Sveinn stóð Guðrúnu langt að baki í andlegu atgervi og þetta getur hafa farið í taugarnar á henni þegar á reyndi. Hugsanlega þoldi Guðrún ekki tengdamóður sína, þess eru mörg dæmi úr mannkyns­sögunni. En svo gæti Sveinn einfaldlega hafa verið hommi sem reyndist Guðrúnu ekki betur en Hrútur Unni hér um árið. Guðrún átti þó engan Gunnar á Hlíðarenda að til að sækja eigur sínar í búið á Sólborgarhóli eftir skilnaðinn. Þær voru sjálfsagt ekki umtalsverðar en svo voru þær jafnvel gefnar eftir með góðu. Alltént er ljóst að um þessar mundir var Guðrún í tilfinningalegu ójafnvægi.

Þegar Guðrún fór sem vinnukona í Einarsstaði var þar líka Páll Pálsson vinnumaður, hegðun hans sögð í meðallagi en hjónaband hans var í upplausn, það áttu þessi vinnuhjú sameiginlegt. Reyndar voru kvennamál Páls skrautleg, hafði áður eignast börn með tveimur systrum frammi í Öxnadal en það er önnur saga. Í júní 1836 eignaðist Guðrún dóttur, Önnu. Foreldrar hennar voru sagðir Guðrún Friðfinnsdóttir, gift kona á Sólborgarhóli, og Páll Pálsson, giftur maður í Hraukbæjarkoti þangað sem hann var þá kominn sem fyrirvinna ekkjunnar þar. Anna lést tæplega ársgömul. Í Einarsstaði var þá kominn vinnumaður í stað Páls, Sigurður Einarsson að nafni framan úr Eyjafirði, skikkanlegur en illa að sér. Kirkjubókin segir að Guðrún hafi það ár verið vinnukona í Syðsta-Samtúni. Með þessum Sigurði eignaðist Guðrún son í ágúst 1837 en var þá flutt á náðir Lilju systur sinnar í Stóragerði sem hafði tekið þar við búi eftir foreldra sína ásamt manni sínum, Bjarna Gunnlaugssyni. Sonurinn var nefndur Jóhann og er viðfangsefni þessa pistils. Hann átti eftir að eiga mörg heimili án þess að fara mjög víða.

Jóhann Sigurðsson (1837-1914) hafði líklega aldrei neitt af föður sínum að segja en ólst upp hjá móður sinni og fólkinu hennar í Stóragerði fyrstu tvö árin. Engar kvittanir eru til sem sýna að Sigurður hafi greitt meðlag með barninu en það gerði hið opinbera ekki heldur. Lilja og Bjarni fluttu vestur að Reykjum í Hjaltadal 1840 en fjallvegurinn upp úr botni Hörgárdals yfir í botn Hjaltadals um Hjaltadalsheiði var nokkuð fjölfarinn á þessum árum. En þarna skildu aftur leiðir með þeim systrum því að Guðrún fór með Jóhann í vinnumennsku í Einhamar 1839-40, í Féeggstaði 1840-41, Sörla­tungu 1841-43 og loks í Lönguhlíð til 1846. Þá hafði Guðrún tekið saman við Sigfús Benediktsson (1805-1863) frá Flöguseli og þau voru í húsmennsku í Lönguhlíð á heimili Guðmundar smiðs.

Sigfús hafði ekki verið við eina fjölina felldur frekar en Guðrún og hafði eignast börn með tveimur konum. Aðeins annað þeirra lifði, Sigurlaug sem ólst fyrstu 7 árin upp hjá foreldrum og systkinum Sigfúsar í Flöguseli. Sigfús var enginn lærdómsmaður og stóð þar Guðrúnu langt að baki, hann var kominn um tvítugt þegar séra Gamalíel á Myrká taldi hann kunna nóg í biblíusögunum til að geta fermst. Eitthvað annað hefur hann þó haft til brunns að bera og eitthvað hefur Guðrún séð við hann eins og hinar barnsmæður hans tvær. Guðrún og Sigfús eignuðust son 1843 og skírðu hann í höfuðið á Guðmundi bónda og smið í Lönguhlíð sem hafði lengi reynst Guðrúnu stoð og stytta. Barneignin var þriðja lausaleiksbrot beggja því að þau höfðu ekki komið því í verk að gifta sig þegar barnið fæddist. Þau giftu sig þó fáum vikum síðar, eignuðust síðan Guðjón 1844 og Maríu 1846 en hún dó vikugömul og Guðrún nokkrum mánuðum síðar af barnsfararsótt.

Þegar Guðrún féll frá var Jóhann nýorðinn 9 ára og hafði átt heima á fimm bæjum og raunar sex af því að vorið 1846 höfðu Guðrún og Sigfús flutt sig fram í Barká þar sem þau höfðu hafið búskap á hjáleigu, Sigfús titlaður bóndi í sóknarmannatalinu. Jóhann hafði því átt heima á Barká í nokkra mánuði þegar móðir hans dó. En tæpum mánuði áður en Guðrún dó andaðist einnig Ingveldur barnsmóðir Sigfúsar, móðir Sigurlaugar sem hafði verið í fóstri hjá foreldrum og systkinum Sigfúsar í Flöguseli en síðustu 2 árin hjá móður sinni á Miðlandi. Við dauða Ingveldar lá fyrir að Sigfús yrði að eða vildi taka dóttur sína til sín sem hann gerði raunar þegar kom fram á næsta ár. Sigfús hafði þá tvo unga syni þeirra Guðrúnar á framfæri sínu svo að það varð að ráði að Jóhann færi í fóstur vestur að Reykjum í Hjaltadal til Lilju móðursystur sinnar og Bjarna manns hennar sem áður höfðu skotið skjólshúsi yfir mæðginin. Jóhann ólst upp hjá þeim á Reykjum og var fermdur frá þeim með eftirfarandi vitnisburði árið 1852: „Dável að sér í kunnáttu og bóklestri; viðfelldinn og siðsamur.“

Mörg systkini Guðrúnar fluttust vestur í Skagafjörð og dreifðu sér þar á bæi, giftust þar og eignuðust afkomendur sem margir báru nöfn Herdísar og Friðfinns frá Stóragerði. María Friðfinnsdóttir var lengi vinnukona á Reykjum hjá systur sinni, ógift og barnlaus, átti við andlega vanheilsu að stríða. Friðfinnur Friðfinnsson giftist Unu Benjamínsdóttur frá Kelduvík á Skaga og bjó með henni á Fjalli í Kolbeinsdal og síðar á Nautabúi í Hjaltadal. Þau áttu mörg börn sem sum hver fengu nöfn úr föðurfjölskyldunni, Gísli, María og Lilja, reyndar þrjár Maríur en tvær urðu skammlífar. Flest börn þeirra fluttust til Kanada, þeirra á meðal Lilja sem fluttist vestur 1883 og bjó í Djúpadal á Geysisbyggð sem er skemmtilegt örnefni af því að þar er sléttlendi svo langt sem augað eygir. Og nú þarf höfundur að hnýta litla ættfræðislaufu til að tengja sig við þetta fólk: 

 

Dóttir Lilju í Djúpadal, Una Friðný Jónas­dóttir, var móðir tónlistar­mannsins og smiðsins Jóhannesar Jónssonar Pálsson sem giftist Olgu Egilsdóttur Hólm. Faðir hennar, Egill Hólm Haraldsson, var bróður­sonur Steinunnar Önnu Sigurðar­dóttur sem giftist Guð­mundi Sigfússyni, syni framan­greindrar Guðrúnar Frið­finns­dóttur. Dóttir Jóhannesar og Olgu er Una Rósalind Vigfússon, hjúkrunar­fræð­ingur og kórstjóri í Geysis­byggð í Kanada sem rækt hefur tengslin við Ísland mörgum Vestur-Íslendingum betur. Rósa­lind hefur komið nokkrum sinnum til Íslands, m.a. með unglingakórinn sinn, og maður hennar, Einar Vigfússon tré­skurðar­meistari, kom yfirleitt með henni og stundum sýndi hann fuglana sína, listavel gerða.

Þegar höfundur þessa pistils hafði fyrst samband við Rósalind til að afla upplýsinga um frændfólk sitt á Íslendinga­slóðum vestra og hún fékk að heyra um skyldleikann í gegnum móður hennar, afa og langafa sagði hún strax: „Svo við erum þá fírmenningar!“ Þannig hefur þessi dönsku­sletta varðveist meðal Vestur-Íslendinga þó að hún sé nánast horfin úr íslensku nútímamáli. Við tölum þó um fírtommu­nagla ennþá. En á þessum tíma vissi pistilshöfundur ekki um tengslin við Rósalind gegnum Stóra­gerðisættina en þau eru í fimmta lið.

Sigurður sonur Frið­finns og Unu fluttist til Kanada 1883 frá Kjarvalsstöðum og bjó í Fagradal í Geysisbyggð. Afkomandi hans er Joel Friðfinnsson, bóndi þar vestra sem margir kannast við sem fengið hafa leiðsögn hans um Íslendingabyggðir.

Guðbjörg Friðfinnsdóttir frá Stóragerði fluttist vestur í Skagafjörð og varð þar seinni kona Þorleifs Stefánssonar og bjó með honum á Bæ og Mannskaðahóli á Höfðaströnd. Þau eignuðust einn son, Guðmund, sem bjó í Hagakoti, Nautabúi og Hrafnhóli í Hjaltadal og átti 10 börn með konu sinni. Meðal langafabarna Guðmundar eru Ásmundur Jónsson menntaskólakennari og Hreinn Pálsson heimspekingur og prófstjóri við HÍ.

Sigríður Friðfinnsdóttir giftist Bjarna Jónssyni og bjó með honum á Mannskaðahóli og átti tvö börn sem komust upp og tvö sem dóu ung. Afkomendur hennar eru margir á Ólafsfirði.

Börn Lilju frá Stóragerði og húsfreyju á Reykjum urðu 12 en aðeins 4 komust á legg, Friðfinnur, Herdís, Guðrún og Lilja. Þau bjuggu flest í Hjaltadal og nágrenni. Friðfinnur bjó á Hrappsstöðum (nú Hlíð) og Hvammi í Hjaltadal. Herdís tók við búinu á Reykjum. Guðrún bjó á Hringveri og Réttarholti í Viðvíkursveit. Lilja Bjarnadóttir fluttist til Húsavíkur.

En snúum okkur aftur að Jóhanni sem ólst upp hjá móðursystur sinni á Reykjum. Þegar hann var 24 ára 1862 tók hann fyrstu varfærnu skrefin að heiman frá Reykjum og gerðist vinnumaður á næsta bæ, Hvammi í Hjaltadal, og var þar tvö ár. Lilja fóstra hans og móðursystir var þá orðin ekkja en bjó áfram á Reykjum með börnum sínum, Friðfinni og Guðrúnu sem nú var komin með eiginmann inn á heimilið. Ári síðar hafði Herdís dóttir Lilju tekið við búinu á Reykjum ásamt manni sínum en Lilja sjálf var þar þó enn húskona til að byrja með. Lilja var um tíma bústýra hjá Friðfinni syni sínum á Hrappsstöðum en flutti aftur í Reyki og dó þar af ellikröm, 83 ára.

Árin 1864 og 1865 var Jóhann vinnumaður í Nýjabæ í Hjaltadal, nýbýli frá Hólum. Sá bær mun ekki hafa orðið gamall en þar bjó þetta ár uppgjafaprestur með margt heimilisfólk. Í maí 1865 fæddist Jóhanni sonurinn Friðfinnur en móðirin var Karitas Sveinsdóttur frá Sleitustöðum, dóttir Sveins Sveinssonar (Yfirsetu-Sveins eða Sveins „hómópata“) og konu hans Rannveigar Erlendsdóttur. Karitas hafði slitið barnsskónum í foreldrahúsum, m.a. í Smiðsgerði sem er skammt ofan við Sleitustaði. Vinnuhjúin Jóhann og Karitas, sem þá voru bæði á Hólum, höfðu ekki burði eða aðstæður til að fóstra son sinn þannig að Friðfinni Jóhannssyni (1865-1898) var komið í fóstur til vandalausra í Kringlugerði sem var útbýli frá Sleitustöðum. Jóhann og Karitas giftu sig reyndar ekki fyrr en árið 1866 og það segir sína sögu um efnahag þeirra að þau hófu ekki sambúð fyrr en ári síðar. Árið 1866 var Jóhann vinnumaður í Víðinesi en hún vinnukona á Efraási, reyndar ekki lengra á milli bæjanna en svo að þar á Efraási fæddist þeim sonurinn Sigurður í janúar 1867. Hann lést mánaðargamall.

Árin 1867 og 1868 voru Jóhann og Karitas vinnuhjú í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit en Friðfinnur var enn tökubarn í Kringlugerði sem þýddi að hann var þar í fóstri án meðgjafar frá hreppnum. Foreldrarnir hafa þó líklega lagt eitthvað til með honum. Í Ásgeirsbrekku hefur þeim fæðst dóttirin Herdís sem varð skammlíf og hvorki fæðing hennar né dánardægur er fært í kirkjubók. Þegar hér var komið sögu hafði Jóhann átt heima á 10 bæjum, orðinn rúmlega þrítugur.

Jóhann færðist nú í aukana og gerðist bóndi á Mannskaðahóli á Höfðaströnd 1868-69 en sá búskapur stóð aðeins árið. Jóhann var húsmaður á Hofi 1869 en ekki er vitað um Karitas það ár en þegar manntalið var tekið 1870 voru þau húshjón í Hofsgerði og höfðu tekið Friðfinn son sinn til sín.

Árið 1871 var Karitas vinnukona á Efraási, barnlaus eins og Jóhann sem var aftur vinnumaður í Víðinesi en Friðfinnur, sonur þeirra, var á sveitarframfæri á Kálfsstöðum hjá mágkonu Herdísar á Reykjum, dóttur Lilju og Bjarna frá Reykjum. Herdís var gift Jóhannesi Þorfinnssyni. Mágkonan, Margrét Þorfinnsdóttir á Kálfsstöðum, var gift Árna Arngrímssyni sem um tíma var hreppstjóri í Hjaltadal þannig að ekki hefur væst um Friðfinn enda var hann á þessu heimili fram á fullorðinsaldur. Fyrsta árið var hann skráður tökubarn en mörg ár eftir það var hann „á meðgjöf“ þannig að hreppurinn borgaði hreppstjóranum fyrir að hafa hann. Þegar hann var kominn fram yfir fermingu var hann skráður léttadrengur og loks vinnumaður.

Gloppur eru í kirkjubækur Hólaprestakalls á þessum árum en það er þó vitað að árið 1871 fæddist þeim Jóhanni og Karitas sonur sem nefndur var Friðrik sem dó rúmlega ársgamall. Ekki er vitað með vissu hvar Jóhann og Karitas voru 1872 en líklega voru þau vinnufólk á Efráási eins og 1873.

Árið 1874 voru Jóhann og Karitas á Neðraási og höfðu þar hjá sér son sinn, Svein (1874-1937), á fyrsta ári. Árið 1875 voru þau vinnufólk með Svein í Brekkukoti og 1876 á Hólum og þar voru þau vinnuhjú til 1885, bjuggu hvergi jafnlengi samfellt. Anna Guðrún (1877-1956) bættist við í mars 1877, Lilja (1880-1943) 1880 og Bjarni (1882-1933) 1882. Síðast voru þau á Traðarhóli á Hólum, sem var væntanlega útbýli eða hjáleiga frá staðnum.

Árið 1885 gerðist Jóhann aftur bóndi og nú í Hagakoti í Hjaltadal sem var tuttugasti dvalarstaður hans. Búskapurinn gekk illa enda voru árin milli 1880 og 1890 mikil harðindaár og urðu mörgum öðrum þung í skauti. Þau þurftu að koma Lilju og Sveini í fóstur hjá Herdísi á Reykjum 1887 og árið eftir var Sveinn léttadrengur í Garðakoti og Anna Guðrún léttatelpa á Sleitustöðum aðeins 10 ára gömul. Aðeins Bjarni var hjá foreldrum sínum. Engan þarf að undra þótt Jóhann og Karitas hafi gefist upp á búskapnum í Hagakoti 1888 og þá fór kotið í eyði. Þau fóru í húsmennsku að Hrappsstöðum í Hjaltadal og höfðu Bjarna og Lilju hjá sér en Anna Guðrún var hreppsómagi á Efraási. Þar var hún næstu ár og var aðeins einu sinni skráð til heimilis hjá foreldrum sínum eftir það. Lilja fór fljótlega að heiman líka og var vinnukona í Hjaltadal, lengst hjá frændfólkinu á Reykjum. Sveinn var léttadrengur og síðan vinnumaður hjá venslafólki sínu á Kálfsstöðum, náði sér í konu og bjó með henni á Hrappsstöðum 1900 til 1902 þaðan sem hann fór til Kanada. Anna Guðrún og Lilja fóru líka til Vesturheims um svipað leyti, Anna fyrst þeirra systkina 1899, þá vinnukona í Ásgeirsbrekku, og Lilja síðust 1903 frá Viðvík.

Á Hrappsstöðum voru Jóhann og Karitas í húsmennsku 1890 með tvö yngstu börnin en síðan voru þau aftur í Brekkukoti á Höfðaströnd með Bjarna einan en Lilja var þá léttatelpa á Skúfstöðum en þar var Friðfinnur bróðir hennar einnig í vinnumennsku en kominn með konu. Ekkert liggur fyrir um hvers vegna Jóhann og Karitas þvældust milli bæja á þessum árum og raunar hvorki fyrr né síðar heldur. Þau voru oftar en einu sinni á sama bænum sem bendir til að þau hafi ekki komið sér illa en aðstæður á þeim bæjum hafa getað breyst þannig að þau hafi þurft að víkja fyrir öðrum en verið velkomin síðar þegar betur stóð á. Eflaust hafa þau líka leitað að betri afkomumöguleikum en ekki fundið. Þau héldu alltént áfram að flakka milli bæja.

Árið 1892 voru Jóhann og Karitas í Brekkukoti með Bjarna en systurnar báðar á Skúfstöðum, Lilja sögð dável að sér en öll börnin fengu góðar umsagnir hjá prestinum, Bjarni var t.d. sagður „greindur, sæmilega að sér eftir aðstæðum.“ Árið eftir fóru Jóhann og Karitas með Bjarna upp í Kolbeinsdal og voru fyrst á Bjarnastöðum, síðan í Bjarnastaðaseli og loks á Fjalli.

Árið 1897 fóru Jóhann og Karitas aftur í Ásgeirsbrekku og síðan Miklahól í Viðvíkursveit en síðan voru þau fjögur ár á Hrapp­sstöðum til 1904, tvö fyrri árin hjá Sveini syni sínum. Friðfinnur, sonur þeirra, lést 1898, rúmlega þrítugur, og eftir að Sveinn, Anna Guðrún og Lilja voru farin til Vesturheims bjuggu Jóhann og Karitas í nágrenni við Bjarna son sinn sem var þá einn eftir barnanna. Þau fluttu aftur í Miklahól og síðan í Litlahól þar sem Karitas lést 1907. Eftir það voru Jóhann og Bjarni saman til heimilis, fyrst á Litlahóli, síðan á Miklahóli þar sem Jóhann var í þriðja sinn en frá 1910 bjuggu þeir á Bakka í Viðvíkursveit þar til Jóhann dó 1914. Banameinið var sagt ókunnugt, „mest hrumleiki, elli og brjóstveiki“. Síðasta árið var Bjarni kominn með konu.

Vistaskipti Jóhanns voru samtals að minnsta kosti 32 en fimm sinnum var hann tvisvar á sama bænum með einhverra ára millibili og þrívegis á einum. Jóhann varð 77 ára þannig að hann náði því ekki að skipta um dvalarstað annað hvert ár ævinnar en því fór þó ekki mjög fjarri. „Jóhann var alla tíð fátækur og barðist í bökkum. Ekki er vitað um bústærð hans á Mannskaðahóli og í Hofsgerði en á Hagakoti tíundaði hann einungis 1,5 hundruð lausafjár.“ (Skagfirskar æviskrár 1850 – 1890, V. bindi bls. 143 - 144).

Í lokin er rétt að draga saman og endurtaka það sem áður er sagt af börnum Jóhanns og Karitasar en sú spurning hlýtur alltaf að vakna hvort börn, sem alast upp í sárri fátækt, eiga einhverja möguleika á að verða „menn með mönnum“. Á þetta reyndi reyndar ekki hvað Friðfinn varðaði. Hann ólst að mestu upp hjá sæmilega vel stæðu venslafólki sínu á Kálfsstöðum en varð ekki langlífur. Hann giftist og þau hjón voru í vinnumennsku á Hofi í Hjaltadal þar til hann lést 1898. Þau eignuðust ekki börn.

Sveinn Jóhannsson giftist á Íslandi og bjó hér fram yfir aldamót en flutti þá vestur til Kanada. Elsti sonur hans, Gissur Sveinn, varð eftir á Íslandi sem fóstursonur bóndans á Grindum á Höfðaströnd, reyndar fyrst tökubarn hjá þeim hjónum en þar sem konan var 27 árum eldri en bóndinn var Gissur miklu lengur fóstursonur hans eins og hans eina barn þangað til eiginkonan var dáin en þá eignaðist bóndinn barn með vinnukonu sinni eins og mjög var til siðs fyrr á árum. Gissur Sveinn starfaði sem trésmiður í Reykjavík. Frá honum eru komnir margir afkomendur, sem flestir eru á höfuðborgar­svæðinu og sá þekktasti er líklega framangreind Vilborg Arna Gissurardóttir ferðagarpur, langafabarn Gissurar Sveins Sveinssonar.

Í Skagfirskum æviskrám 1850-1890 V er kafli um Svein og honum lýst svo: „Hann var greindur og glaðlegur í viðmóti við alla, réttsýnn, hreinn og beinn í lund, frjálsmannlegur í framkomu og hafði ekkert að fela eða breiða yfir. Skapstór var hann að eðlisfari og gat manna best sagt meiningu sína, hver sem í hlut átt. Sveinn var hraustmenni á yngri árum, þolinn og þrautseigur, liðugur og glíminn og fór manna hraðast á handahlaupum. Hann var liðlegur verkmaður, barðist vel fyrir sér og sínum og bjargaðist vel. Hann var bókhneigður og fróðleiksfús, vel heima í Íslendingasögum og öðrum þjóðlegum fróðleik og svo minnugur að hann kunni heilu rímurnar utanbókar.“

Anna Guðrún og Lilja Jóhannsdætur fóru báðar til Kanada um aldamótin og giftust þar, Anna giftist íslenskum manni og átti með honum börn. Um hana segir í Skagfirskum æviskrám: „Hún var dagfarsprúð og góð kona, mild og réttlát í dómum sínum í garð samferðafólksins og rósemi hugar hennar og sálar í svo miklu samræmi að fágætt var. Hún var trúkona mikil og sem eiginkona og móðir átti hún sér fáar fremri.“

Lilja giftist þarlendum en ekki er vitað um afkomendur. Skagfirskar æviskrár segja að hún hafi verið „greind kona og bókhneigð.“

Yngsti sonur Jóhanns og Karitasar, Bjarni, vildi ekki fara frá foreldrum sínum á meðan þau lifðu enda átti Jóhann athvarf hjá honum síðustu æviárin. Bjarni giftist Þóru Jónsdóttur frá Hrafnhóli í Hjaltadal. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Viðvíkursveit en hann reri jafnframt á bátum frá Kolkuósi. Í Skagfirskum æviskrám 1910-1950 VI, bls. 43, er góð grein eftir Hjalta Pálsson um Bjarna. Þar segir m.a.: „Bjarni hafði góða greind, orðskár og orðfimur og ef hann gerði grín að einhverjum gat það verið svo neyðarlegt að engu tali tók. ... hann var góður frásagnarmaður, lá hátt rómur en málfarið gott og áheyrilegt. Látbragð hans og málrómur varð til þess að gera hann minnisstæðan og lengi kunnu menn sögur af Bjarna. Út í frá a.m.k. var hann alltaf kátur og hressilegur í viðræðum, kvæðamaður ágætur, með góða rödd og kunni óhemju af vísum og kvæðum, einkum skop- og kersknikveðskap. ... Bjarni var mikið laus við heimili sitt. Bústofn hans var aldrei stór í Hólakoti ... Bjarni var kempulegur maður, stórvaxinn og herðabreiður með falleg brún augu, dökkskolhærður og venjulega skeggjaður, með mikið og brúnleitt skegg, tilhaldslaus með sjálfan sig, oft í kafíum eða mussum sem náðu niður á mið læri. Burðamaður ágætur og hraustmenni ... Annars var hann heldur þungur til vinnu, einkum lítið drífandi fyrir sjálfan sig, fékk heldur aldrei bjarglegt jarðnæði til ábúðar. Varð því hlutskipti hans að basla í fátækt allt sitt líf. En hann lét ekki fátæktina smækka sig og bar sig jafnan vel, ekki með neina minnimáttarkennd fyrir sínum lífsstíl, frjálsmannlegur í viðmóti og talaði við hvern sem var.“

Þau Þóra eignuðust fjórar dætur, Lilju Rannveigu, Jónínu Björgu, Karitas Jóhönnu og Önnu Nikólínu, sem allar urðu aldraðar, ólust upp í Skagafirði en fluttu fullorðnar til Reykjavíkur. Frá elstu systrunum þremur eru margir afkomendur sem flestir búa á suðvesturhorninu. Greinarhöfundur hafði fyrir mörgum árum samband við Jónínu sem sagði þá sögu af Lilju systur sinni að hún hafi sem smábarn verið sett upp á hest í Hólakoti og send eftir fiski niður á Kolkuós þaðan sem faðir hennar reri til fiskjar. Hesturinn rataði niður eftir þar sem Bjarni hengdi fiskpoka á hestinn sem tölti svo sína leið til baka með barnið, fiskinn og hund sem var með í för. Aldur barnsins var ekki tilgreindur nákvæmlega en líklega hefði einhver barnaverndar­nefndin gert athugasemd við þetta tiltæki ef þetta gerðist nú á dögum. Viðhorf til barna og þátttöku þeirra í lífsbaráttunni hafa vissulega breyst síðan og ekki að öllu leyti til batnaðar.

Ekki veit ég hve dæmigerður æviferill Jóhanns Sigurðssonar er fyrir lífskjör almúgafólks á Íslandi á ofanverðri 19. öld en hann er ekki með öllu ólíkur ævi Sigurlaugar Sigfúsdóttur jafnöldru hans, dóttur Sigfúsar þess sem giftist og eignaðist börn með Guðrúnu móður hans. Það var þó helst líkt með lífshlaupum þeirra að þau áttu mörg heimili um dagana. Sigurlaug flæmdist víða og náði svipuðum bústaðafjölda og Jóhann en náði þó ekki sama aldri og hann, varð aðeins 53 ára.