Sandgerðisbót 9. 4. 1911
Kæra, góða stallsystir mín!
Hjartans þakklæti fyrir allt gamalt og gott. Ef ég man rétt þá er þetta fyrsta bréfið sem ég skrifa þér og stend ég mig verr en þú því ég á eitt bréf frá þér sem þú skrifaðir mér fyrir löngu síðan og mætti þig því vera farið að lengja eftir bréfi frá mér en það verður fátæklegt af fréttunum þá loksins það kemur.
Fyrir hálfum mánuði fór ég vesturfyrir að finna fólkið okkar. Því leið öllu vel, samt er mamma1 ekki orðin góð í fætinum ennþá, hún er að vísu óhölt en hún sagði að fóturinn væri sár. Ég er hissa hvað hún er ern ennþá, aumingja gamla konan, mér sýnist henni ekkert fara aftur. Litli frændi ... á Hamri er stór og fjörugur. Ég kom fyrst þangað og var þar um nóttina, daginn eftir fór ég upp í Garðshorn og var þar tvær nætur. Svo fór ég ofan í Hamar, var þar nóttina og daginn eftir fór ég heim. Viðtökunum þarf ég ekki að lýsa, þær veist þú heima hjá þér. Það var eins og að heimsækja móður og systkini. Ég saknaði þess mikið að þið voruð komin burt frá Rauðalæk því mig langaði til að sjá ykkur; við vorum að óska eftir að þið væruð komin þangað aftur til þess að við gætum fundist en ekki hefði það verið búskaparlegur hagnaður fyrir ykkur að hafa sveitaskipti því alltaf er mér sagt að í Norðurárdalnum sé sól og sumar og getið þið þá sungið eins og Símon Dalaskáld: „Sæludal sælt er í að búa“ o.s.frv.
Veturinn hefur verið hér góður líka, fremur snjólítið en óstillt og umhleypingasamt annað slagið og núna undanfarandi hefir verið besta tíð svo að nú er alveg snjólaust hér niður við sjóinn.
Af mér og mínu fólki er allt hið besta að segja. Við erum öll vel frísk en dóttir mín er alltaf lítil. Þú ert líklega búin að frétta að hún heitir Pálína Sumarrós. Fyrra nafnið er föðurnafn Siggu en síðara nafnið er út í bláinn, ég held til prýðis. Hún er nú 44 vikna. Sigga vill vera í kaupavinnu í sumar en ekki veit ég hvar hún verður. Ég held að fáir vilji Pálínu fyrir kaupakonu.
Næsta ár er ég ráðinn hérna í klæðaverksmiðjunni við móttöku og afgreiðslu. Ég held að kaupið verði 570 kr. Það er að vísu ekki mikið og leggja sér allt til en það er talsvert betra en ég hef með því að vinna bara yfir vorið og sumarið og þar að auki er vorvinnan stopul. En þarna er maður jafnvel(?) bundinn 10 tíma á hverjum virkum degi. Þá hef ég ekki tíma til að fara vestur í Skagafjörð. En verst þykir mér að ég býst ekki við að geta byrjað fyrr en í júlí, einmitt þegar kaupið er hvað hæst. Þegar ég réðist á verksmiðjuna átti ég von á að geta byrjað í maí en nýlega sagði framkvæmdastjórinn mér að ekki yrði byrjað að vinna vaðmál fyrr en í júlí og lítið yrði að gera þangað til.
Einar og Nonni2 eru nú á fiskiskipinu Talisman. Nonni verður kyrr næsta ár í Auðbrekku. Bogga kona Einars er ráðin í vor og sumar á Ásláksstöðum hjá Sigurjóni og pabbi er ráðinn þar yfir sláttinn. Ég held að Stjáni3 verði við fiskróðra út í Hrísey en ég veit ekki hvar Tóta verður. Mamma4 er svona með svipaða heilsu.
Við vonum að þú komir í vor og flýtir þér ekki svo mikið að þú gefir þér tíma til að stansa ögn hjá okkur.
Þér er beðið ósköp vel að heilsa og mamma biður svo mikið að heilsa þér að mér er ómögulegt að skila því með orðum. Ég bið kærlega að heilsa bóndanum og Kristfinni.
Líði þér ætíð betur en ég fæ óskað. Það mælir þinn stallbróðir
St. Sigurjónsson
1 Hér er Stefán greinilega að tala um fósturmóður sína Steinunni Önnu. Og skömmu síðar nefnir hann litla frænda sem væntanlega er Guðmundur Frímannsson en í sjálfu sér óskyldur Stefáni eins og Steinunn að því að best er vitað.
2 Einar a.m.k. var bróðir Stefáns. Nonni gæti hafa verið Sigurjón bróðir þeirra.
3 Hver skyldu Stjáni og Tóta hafa verið? Stjáni gæti hafa verið Kristján Hallfreður bróðir Stefáns og afi Odds Helga Halldórssonar bæjarfulltrúa en Tóta gæti hafa verið Þórey Oktoina, systir hans.
4 Hér er Stefán að tala um móður sína, Sigríði Helgadóttur, sem hann bjó hjá í Bótinni á þessum tíma.
Garðshorni 14. október 1911
Kæra frænka mín!
Hjartans þökk fyrir allt gott en sér í lagi tilskrifið sem þú sendir með ömmu og var ég ekki lítið glöð þegar amma kom uppeftir sunnudaginn næstan eftir að hún kom vestan að og kom hún þá með 2 bréf þó þau væru bæði á sömu örkinni.
Jæja, Bogga mín, þá er nú líklega mál að fara að byrja á fréttunum ef ég annars hefði þær nokkrar til. Við fórum nú niður að Glæsibæ1 og Dagverðareyri sunnudaginn sem þið fóruð vestur og þótti okkur það mjög gaman. Í Glæsibæ drukkum við og borðuðum við dekkað borð og með hnífapörum. Svo voru okkur sýndar myndir og ljómandi fallegur blómsturgarður og hnísa í heilu líki og margt fleira sem við höfðum aldrei séð fyrr. Anna2 lánaði mér Toppu og reiðtygi, svo reið mamma á Sokka en drengirnir tvímenntu á Brúnku.
Nú er komið sunnudagskveld og nú ætla ég að reyna að klára þetta rugl því að ekki var ég svo dugleg að koma því af í gær kveld og gat því ekki sent það með Valdemar3. Pabbi fór inneftir í gær með rokkinn þinn og líklegt að hann fari ekki aftur í kaupstaðarferð í haust. Svo er búið að slátra fyrir það mesta og við lausar við slátrið fyrir það mesta og getum því fljótt að öllu sjálfráðu farið að byrja á skónum þínum hvenær sem þeir verða svo til og hvernig sem við förum að koma þeim vestur. Oft hef ég óskað þess að ég væri orðin stærri og duglegri en ég er og gæti farið vestur og verið hjá þér ofurlítinn tíma því að ég hefði nú kannski mátt vera að því af því að nú vilja þeir margir ekki prjónasaum og bregður nú mörgum við það því að sumir hafa þá tætt til drátta4.
Góða Bogga mín! Ennþá byrja ég á þessu bréfi og aldrei ætla ég að geta klárað það en nú er kominn miðvikudagur og nú þarf ég að koma því út í Bl.5 og biðja Guðm. fyrir það vestur.
Nú er seinasti sláturpotturinn yfir hlóðunum og nú getum við farið að útbúa ofaní litinn og bandið í skóna þína en svo er leiðinlegast ef allar ferðir verða úti þegar þeir verða til. Nú er Björsi á Vindheimum hjá pabba í dag og þeir eru báðir að stinga upp ofurlítinn kartöflugarð, hvernig sem hann reynist nú. Svo fer ég að hætta þessu rugli. Það biðja allir hér að heilsa ykkur öllum. Svo bið ég góðan guð að gefa þér og ykkur góða heilsu eftir því sem menn geta búist við og annast ykkur öll. Það mælir af hjarta þín ónýt frænka
Jóhanna G Pálmadóttir.
Svo bið ég þig innilega að skrifa mér aftur þegar þú hefur tækifæri. Ég bið ósköp vel að heilsa Nunna6 mínum og lofaðu honum að heyra þetta rugl ef hann hefur gaman af.
1 Líklega var Helga fyrst og fremst að heimsækja vinkonu sína Katrínu Jóhannsdóttur á Dagverðareyri en þær voru þremenningar og höfðu verið samtíða á Skipalóni. Katrín og Haraldur Pálsson fluttu í Efri-Rauðalæk 1917 og bjuggu þar til 1927. Alla tíð var mikið vinfengi milli fjölskyldnanna, t.d. voru Frímann sonur Helgu og Árni Haraldsson miklir mátar til æviloka. Þegar Katrín lést 1927 skrifaði Helga minningargrein um hana, sem fátítt var að konur gerðu á þeim tíma.
2 Anna Sigríður Sigurðardóttir f. 1852 var 58 ára húskona í Garðshorni. Hún var þar á árunum 1909 – 1915 eða þangað til Steinunn kom aftur í Garðshorn. Steindór Pálmason segir svo um Önnu:
„Faðir hennar var Sigurður Kristjánsson á Geirhildargörðum. Kona hans, móðir Önnu, var Sigríður Pálsdóttir frá Leyningi [föðursystir Steinunnar Önnu, innsk. GFr]. Sigurður bjó á Geirhildargörðum frá 1850 – 1858 og Sigríður ekkja hans til 1871. Anna giftist Árna Helgasyni. Þau bjuggu í Gloppu 1872 - 1873. Síðar munu þau hafa flutt að Vöglum. Þau eignuðust 2 börn sem ekki munu hafa komist til þroska. Sambúð Önnu og Árna mun hafa verið skammvinn og Anna mun hafa verið á ýmsum bæjum eftir það, Staðartungu, Myrká og að Syðri-Bægisá mun hún hafa flutt 1908. Þá bjó hún með manni sem hét Jónas. Þar mun hann hafa dáið úr lungnabólgu. Vorið 1909 flutti hún í Garðshorn og var þar í 6 ár til 1915. Þaðan fór hún í Heiðarhús og var þar eitt ár. Þaðan fluttist hún að Steinsstöðum og síðar að Bryta en síðast að Neðri-Rauðalæk og þar dó hún.
Anna var stór kona og þrekgóð (enda kölluð Anna stóra). Hún vann jafnt karlmannsverk sem kvenna og vildi jafnvel heldur sinna karlmannsverkum. Hún gekk að slætti og vildi heldur standa við orfið en taka hrífuna og raka. Hún var greiðug og gjafmild þó að af miklu væri ekki að taka. Hún var vel vitiborin og gat gert vísu ef svo stóð á.“
3 Vafalítið Valdemar maður Arnbjargar. Á þessum tíma bjuggu þau á Fremri-Kotum þangað sem þau fluttu frá Efri-Rauðalæk en þar bjuggu þau 1905 – 1910. Hugsanlega var Valdemar hér þegar byrjaður á nautgriparekstri úr Skagafirðinum norður á Akureyri.
4 Hvað skyldi nú þetta orðalag, „tætt til drátta“, merkja?
5 Í bréfinu stendur Bl. eða jafnvel Bd. og þá er vandséð hvað átt er við. Þarna gæti hins vegar átt að standa Rl. sem merkir þá (Efri-)Rauðilækur hver svo sem Guðmundur hefur verið. Var þetta e.t.v. Guðmundur eldri á Egilsá, faðir Valdemars á Kotum?
6 Nunni var Gunnar Valdemarsson og Arnbjargar, síðar bóndi á Framri-Kotum til dauðadags. Hann fæddist á Efri-Rauðalæk árið 1907.
Garðshorni 21. nóvember 1911
Kæra Bogga mín!
Ég pára þér þessar fáu línur í flýti að gamni mínu, hvenær sem það kemst nú alla leið vestur til þín og með þessum litla miða óskum við ykkur hjónunum til lukku með litla drenginn1 ykkar og Nunna litla með bróður sinn og jafnframt biðjum við öll innilega að heilsa Kidda2 fyrir bréfið til mömmu hans því að hún lofaði okkur að lesa það og var okkur sannarlega orðið mál á því. Við vorum farin að hugsa svo mikið vestur bæði nótt og dag og okkur var farið að dreyma þig svo mikið og pabba var líka farið að dreyma þig svo við hugsuðum að þér mundi líða eitthvað illa. En okkur hefur nú líklega dreymt þig af því að þú hefur verið að hugsa til okkar.
Ég vildi að ég væri horfin smátt og smátt vestur til þín að vera með litla drenginn þinn þegar að þér liggur mikið á því mér þótti alla tíð gott að vera hjá þér.
Jæja, Bogga mín! Eiginlega átti aðalbréfsefnið að vera að segja þér að loksins eru skórnir búnir og ætla ég að senda þá niður að Hamri3 og þennan miða með og biðja ömmu að lofa því að vera með brókinni hans Gunnars litla, hvenær sem að það kemst nú vestur. Ég vildi að þeir gætu nú orðið mátulegir á þig og þér yrði hlýrra á fótunum með þá. Amma auminginn hefur nú verið lasin núna undanfarið. Læknirinn sagði að það væri víst litla kóleran en henni er nú mikið batnað. Krakkarnir urðu líka lasnir. Við höfum ekki mátt fara niðureftir nú langan tíma en pabbi hefur farið, stundum með mjólkurdropa í flösku því það er svo lítil mjólk þar.
Nú er kominn 26. nóvember og ekki er bréfið farið enn og nú hef ég skrifað þér litlar fréttir og man nú ekki heldur eftir að ég geti sagt þér annað en það að skólinn verður víst á Rauðalæk eins og verið hefur og Einar4 verður kennari okkar og skólinn byrjar líklega svo sem hálfum mánuði eftir nýár. Ég er að myndast við að búa mér til einhverja skólatöskuómynd. Septína5 á Bryta ætlar að búa sér til tösku og hafa hana eins og mína. Hún kom á fimmtudaginn til að fá tilsögn við að sauma innan í hana. Svo eigum við hálfpartinn von á henni í dag því hún ætlaði að fá tilsögn við það að sauma innan í hana. Þær verða nú víst ekki merkilegar því það er bara strigi í þeim og saumað í með bandi.
Nú er komin hláka og þótti okkur vænt um hana, bæði skepnanna vegna og svo var nú einu sinni þvegið hversdagspilsið mitt og litað um leið sem ekki er nú í frásögur færandi. Svo í rökkrinu um kveldið hvessti og fór að hríða svo það fýkur og svo var nú leitað að því daginn eftir og fannst ekki svo að ég hef alltaf mátt ganga í sparipilsinu. Við vorum farin að hugsa að það mundi aldrei finnast og mamma lofaði hverjum þeim sem fyndi pilsið sætum kaffibolla. Svo þutu nú allir af stað úr kotinu að fara í pilsleit og allir vildu verða til þess að finna það og fá svo kaffið. Svo fann mamma það og getur nú tekið bollann hjá sjálfri sér.
Í gærkveldi þóttist Anna endilega þurfa að baka sér lummur til þess að eiga í dag ef einhver kynni að koma og fer þá mamma að tala um að hún þyrfti að gera það líka og dettur mér í hug að hún geri það af því að hún vilji ekki láta Önnu gefa okkur öllum lummur. Svo fara þær nú báðar að baka í rökkrinu og okkur dettur nú ekki neitt í hug. Svo biður mamma okkur að segja pabba ekkert frá lummunum og byrgir þær nú niður en þegar pabbi er kominn inn er kallað á okkur krakkana fram til að bera inn kaffidótið. Spyr pabbi okkur að hvort þetta sé nú kvöldskatturinn. Við vitum ekkert fyrr en við komum fram aftur að það er farið að láta hangið kjöt og brauð á diskana og þetta var þá kvöldskatturinn. Þær höfðu þá getað soðið þetta svo að við krakkarnir höfðum enga hugmynd um það en pabbi karlinn sem var alltaf úti við, fann hangikjötslyktina en hann fann samt ekki lummulyktina svo þær gátu leikið á hann með það.
Svo vík ég nú frá þessu efni og ætla að segja þér að Gunna á Syðri-Bægisá, systir Snæbjarnar6, var hjá okkur að sauma treyjuna mína og svo saumaði hún treyjuna hans Manna en svo saumaði mamma treyjuna hans Steindórs og buxurnar og vestin. Ég keypti mér bleik silkibönd á treyjuna fyrir það sem þú gafst mér og drengirnir keyptu sér sitt leðurbeltið hvor við nýju fötin sín.
Svo biðjum við að heilsa öllum þínum og óskum að guð gefi ykkur öllum heilsu. Svo kveð ég þig með kossi í anda og óska að þér líði eftir bestu óskum þinnar frænku
Jóhönnu Pálmadóttur.
Góða skrifaðu mér strax sem þú hefur tíma og tækifæri, þín sama
J.G.P.d.
1 Guðmundur Valdemarsson f. í október 1911, síðar bóndi í Bólu til dauðadags.
2 Kiddi kemur mikið við sögu í þessum bréfum, sjá þátt um Kristfinn Guðjónsson.
3 Á Hamri bjuggu á þessum tíma Margrét Jónsdóttir og Frímann bróðir Arnbjargar á Kotum og Pálma í Garðshorni. Hjá þeim var í húsmennsku Steinunn Anna Sigurðardóttir móðir Frímanns og Pálma.
4 Einar Gísli Jónasson á Laugalandi, síðar hreppsstjóri Glæsibæjarhrepps um langan aldur. Einar kenndi börnum í sveitinni í baðstofunni sem enn stendur á Efri-Rauðalæk, fyrsta timburhúsinu í sveitinni. Á þessum tíma munu börn hafa fengið um 6 vikna skólagöngu samtals en líklega hafa þær vikur dreifst á 2 – 3 ár. Einar og Valdimar á Fremri-Kotum voru þremenningar.
5 Septína á Bryta varð skammlíf eins og segir frá í öðru bréfi Jóhönnu til Arnbjargar.
6 Björnssonar sem bjó á Syðri-Bægisá 1910 – 1912.
Hamri 3. desember 1911.
Guð gefi að þessi miði heimsæki þig glaða og heilbrigða, elsku Bogga mín, og hann á að færa þér mitt hjartans þakklæti fyrir bréfið þitt sem mér þótti mjög vænt um. Svo óska ég ykkur til lukku með litla drenginn ykkar og mundu eftir að fara varlega með heilsuna þína því hún er dýrmæt. Frímann ætlar að reyna til að gera það sem þú baðst hann. Það er gjört ráð fyrir að hann fari í kaupstaðinn viku af jólaföstu en það er nú eftir að vita hvernig það gengur að koma því og sendi ég þér brókina hans Nunna míns. Mér er farið að leiðast að geta aldrei sent hana.
Af sjálfri mér er það að segja að ég lagðist eftir veturnæturnar, var í rúminu í viku og var nokkuð mikið veik, að minnsta kosti fannst mér það. Það fengu flestir á heimilinu þessa vesöld en ég varð mikið verst haldin. Það voru sótt meðul, læknirinn sagði það væri snertur af litlu kóleru og væri best að hafa ekki samgöngur. Nú er fólk farið að koma hér og smitar engan.
Pálmi minn færði mér mjólkurflösku á hverjum degi meðan ég var í rúminu og mér er sent alltaf að öðru hverju síðan því hér er nærri mjólkurlaust. Nú er ég orðin nokkuð frísk og hef verið að hamast við sjóvettlinga en ég held það borgi sig illa því það er sagt þeir gefi lítið fyrir þá og er ég hrædd um að fólk kaupi minna til jólanna en að undanförnu.
Ég get ekki sagt þér neitt í fréttum nema þau hafa skrifað mér bæði Haraldur1 og Hólmfríður2. Hún segir það sé allt frískt og líði vel en Haraldur á erfitt eins og oftar hefur verið. Hann er orðinn svo heilsulítill. Þau biðja að heilsa þér ásamt hinum systkinunum3.
Ég bið þig segja Kidda að ég sé honum mjög þakklát fyrir bréfið hans, það kom þegar ég var að byrja að klæða mig og held ég mér hafi best batnað við svo góðar fréttir. Ég vonast eftir að þið lofið Kidda að koma einhvern tíma í vetur. Nú fæ ég ferð og ætla því að senda brókina og skóna frá Garðshorni. Það verður reynt að senda hitt seinna ef mögulegt er. Frímann er ófarinn enn. Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla en sjálfa með kossi hjartans.
Þig kveð ég og bið guð að vera þér allt í öllu. Það mælir þín vesöl móðir
Steinunn Anna Sigurðardóttir
Ef þið vissuð um einhverja ferð, þá biðjið að koma við.
1 Haraldur (1858-1946) var bróðir Steinunnar og flutti frá Akureyri til Ameríku 1907, sjá kafla um systkini Steinunnar. Tengslin við þetta fólk rofnuðu aldrei alveg. Gunnlaugur Haraldsson Hólm kom til Íslands, m.a. í Garðshorn 1963 og aftur 1966. Olga Hólm Egilsdóttir kom oftar en einu sinni til Íslands og Rósalind dóttir hennar hefur komið nokkrum sinnum. Vilfríður Haraldsdóttir kom líka oftar en einu sinni og ýmsir fleiri afkomendur vesturfaranna hafa komið til Íslands og heilsað upp á ættingjana.
2 Hólmfríður (1850-1932) á Draflastöðum, systir Steinunnar.
3 Ekki er gott að segja hvað Steinunn á við með „hinum systkinunum“ en líklega á hún við að Haraldur og Hólmfríður hafi beðið að heilsa Arnbjörgu, Pálma og Frímanni. Eftirlifandi systkini Haraldar á þessum tíma voru Jóhannes, Bárður og Margrét í Kanada auk Hólmfríðar á Draflastöðum en Haraldur virðist ekki hafa haft mikið samband við systkini sín þar vestra enda vegalengdir talsverðar þó að þau hafi öll búið í nágrenni Winnipeg.
Garðshorni 29. apríl 1912
Kæra frænka mín!
Hjartanlega óska ég ykkur öllum gleðilegs og góðs sumars. Loksins sest ég þá niður og rissa þér þessar fáu línur af því ég var sá trassi að skrifa þér ekki með Kidda í vetur. Það eru allir bærilega frískir nema Anna hefur verið hálflasin annað slagið seinni partinn í vetur. Pabbi hefur verið bærilega frískur í vetur. Þá er nú líklega best að fara að byrja á einhverju fréttarugli og ætla ég þá að segja þér það fyrst og fremst að prófið var haldið að Bægisá á sumardaginn fyrsta og vorum við 17 með Siggu1 litlu á Bægisá. Svafa2 litla á Laugalandi var á prófinu, svo var einn drengur frá Krossastöðum, ekki veit ég hvað hann heitir nema hann var kallaður Björsi. Svo voru 2 frá Vöglum, Aðalsteinn3 og Svanfríður4, Mundi5 frá Steðja og svo frá Skógum: Marinó Laxdal, Þorbjörg og Sigurrós6. Svo var nú Anna7 frá Ási og Kiddi og Tryggvi frá Vindheimum, Septína frá Bryta, Fríða frá Rauðalæk og við Steindór héðan og þegar þetta var allt komið saman sýndist það býsna hópur. Nú er Karl kominn svo langt í burtu að hann gat ekki prófað okkur svo það var nýr prófdómari og hét hann Snorri Sigfússon8 frá Tjörn í Svarfaðardal. Ég er hrædd um að hann þyki heldur kröfuharðari en Karl en samt held ég að honum hafi líkað við Einar9. Snorri sagði okkur þegar hann var búinn að prófa okkur að hann sagðist ekki gefa okkur háar einkunnur en hann sagði að við mættum vera viss um það að þegar hann gæfi okkur 8 fyrir þá ættum við það. Ég fæ líklega einhverja ögn hærri aðaleinkunn en í fyrra, ég fékk 8 fyrir lestur en 7 fyrir allt nema 6,5 fyrir réttritun og hefði ég líklega fengið 7 fyrir hana líka ef ég hefði ekki verið sá klaufi að skrifa hringlandi vitlaust stílinn minn á prófinu.
Ekki veit ég hvað Steindór fær í aðaleinkunn fyrir það að Einar vissi ekki eða gat ekki lesið hvað hann fær fyrir lestur en aðaleinkunnin verður líklega eitthvað um 6. Pabbi bað mig að segja þér að rokkurinn þinn er kominn hingað heim, hvenær sem hann kemst heim til þín og líka bað hann mig að segja þér að aðgerðin á honum kostar 2 krónur og bað hann ykkur að senda sér þær svo fljótt sem þið gætuð. Svo má ég til að fara að hætta þessu rugli í kvöld því klukkan er orðin margt og allir komnir ofanundir en sumir sofnaðir og þetta bréfsefni á enda en ég ætla að skrifa þér annan miða ...
...
Jæja Bogga mín! Þá er ég að hugsa um að setjast á kontórinn í annað sinn og verð að flýta mér af því að mér finnst ég hafa svo mikið af fréttum til að segja þér en hef nú fremur lítinn tíma af því að pabbi fékk lánaða kerru út á Vindheimum og þarf að skila henni svo fljótt að hann þarf að flýta sér að koma áburðinum á túnið svo við höfum í allan dag verið að hjálpa honum við það svo nú er klukkan orðin mikið gengin og Anna ætlar í fjósið fyrir mig svo ég megi vera við að skrifa.
Þá er líklega best að fara að byrja á öllum þessum fréttum sem ég þykist vera svo byrg af og ætla ég þá fyrst að segja þér að það er nýfædd stúlka10 á Hamri. Margrét lagðist á laugardag og Þórdís11 var sótt um kvöldið og telpan litla fæddist klukkan að ganga 3 um nóttina. Ég veit ekki annað en allir séu frískir þar. Margrét klæddi sig í gær en aldrei hef ég nú komið niður eftir síðan barnið fæddist.
Við fórum til kirkju í gær og lýsti presturinn með Þórdísi Ólafsdóttur12 og Gísla Friðfinnssyni og höfum við heyrt að þau færu í Sörlatungu en ekki taka þau neinn part af kotinu. Í dag er presturinn að gefa saman hjón og heita hjónaefnin Eiður Sigurðsson, Steinsstöðum, og Valgerður13, ekki veit ég hvers dóttir hún er, ég veit bara það að hún er vinnukona á Steinsstöðum. Svo fara þau bæði í Efstalandskot. Bína dóttir Jóns og Sólrúnar14 í Skjaldarvík átti barn í blóðláti fyrir stuttu. Það var telpa og var 6 merkur að þyngd því hún var ekki fullaldra. En seinast þegar við fréttum af því þá lifði hvor tveggja og var frískt eftir vonum.
Nanna og Geiri15 á Nýjabæ eru búin að eignast krakka og gekk það svo erfitt að það varð að sækja lækninn. Svo þegar hann kom þótti honum víst heldur fátæklegt og óþrifalegt og hélt fyrst að þetta væru aumustu fátæklingar en þegar hann vissi að Geiri átti bæði jörðina og þar að auki mikið í sjóðum, þá held ég að honum hafi heldur blöskrað. Ekki eru þau enn búin að gifta sig en það er haldið að þau ætli að gera það. Við vitum ekki annað en bæði Nanna og eins krakkinn séu frísk.
Við mamma erum að hugsa um að fara út í Ólafsfjörð16 í vor ef við getum en fari ég ekki út eftir þá verð ég nú ekki í rónni fyrr en ég fæ að koma vestur til þín. Ég er alltaf að spyrja fólkið heima að hvort það sé ómögulegt að ég gæti gengið vestur í Kot á einum degi en það treystir mér ekki til þess. Þá spyr ég hvort það sé mikið lengra en inn í kaupstað því ef það væri ekki mikið lengra en þangað, treysti ég mér til að ganga það á einum degi en af því að ég trúi ekki fólkinu hvað sé langt ...
(óundirritað af Jóhönnu G. Pálmadóttur)
1 Valgerður Sigríður Theodórsdóttir (1901-1990), dóttir sr. Theodórs Jónssonar frá Auðkúlu sem var prestur á Bægisá í 51 ár (1890-1941) og frú Jóhönnu Valgerðar Gunnarsdóttur. Mikið vinfengi var með Helgu í Garðshorni og Jóhönnu á Bægisá, t.d. hjálpaði Jóhanna Helgu með stórveislur.
2 Svafa þessi var þroskaheft (fáráður skv. kirkjubók) og dvaldi á Laugalandi með móður sinni.
3 Aðalsteinn Sigurgeirsson (1900-1966), „Steini fíni“ sem svo var nefndur síðar. Sjá síðar.
4 Sigurlína Svanfríður Sigurgeirsdóttir (1898-1989), giftist Guðna bróður Einars kennara og hreppstjóra.
5 Guðmundur Stefán Snorrason (1898-1981) síðar bílstjóri á Akureyri. Gárungarnir sneru nafnaröðinni við og kölluðu hann Stephan G á Steðja eftir Klettafjallaskáldinu.
6 Marinó Laxdal, Þorbjörg og Sigurrós voru Stefánsbörn en Skógasystkinin voru 9. Marinó varð síðar kennari í Reykjavík. Þorbjörg giftist Jóhanni Ó. Haraldssyni tónskáldi. Yngvi Rafn sonur þeirra ólst upp í Skógum með Sverri Baldvinssyni. Sigurrós fórst í flugslysinu í Héðinsfirði 29. 5. 1947, ógift. Eiríkur bróðir þeirra Stefánsson, afi Haraldar Haukssonar læknis og Eiríks söngvara, var jafnaldri Frímanns í Garðshorni og vinur til æviloka. Þeir hafa greinilega verið of ungir til að fara í prófið á þessum tíma. Eiríkur giftist Laufeyju Haraldsdóttur Pálssonar organista á Rauðalæk, systur Jóhanns Ó., Árna á Hallfríðarstöðum og Elísabetar á Öxnhóli.
7 Anna (1899-1968) frá Ási var Sigurjónsdóttir, síðar ljósmóðir og húsfreyja á Þverá í Öxnadal, kona Ármanns Þorsteinssonar. Anna tók á móti öllum börnum Frímanns og Guðfinnu í Garðshorni nema Steinari.8 Snorri var bróðir Halldórs föður Björns rakara föður Júlíu. Snorri var síðar skólastjóri á Akureyri og námsstjóri. Snorri fæddist á Brekku í Svarfaðardal og skrifaði síðar æviminningar sínar í bókina „Ferðin frá Brekku“. Á unglingsárum var hann hjá prestshjónunum á Tjörn en þegar hér var komið sögu bjó hann á Dalvík.
9 Einar kennara Jónasson á Laugalandi.
10 Anna Guðrún Frímannsdóttir (1912-1995) móðir Baldurs Sigfússonar röntgenlæknis í Reykjavík, Sigmundar geðlæknis á Akureyri og Rúnars verkfræðings í Reykjavík.
11 Þórdís yfirsetukona var Ólafsdóttir (1888-1920), fædd í Stóra Dunhaga.
12 Þórdís yfirsetukona og Gísli bjuggu í Hátúni 1914-1917 og síðan á Neðri-Vindheimum þar til Þórdís lést. Gísli bjó þar áfram til 1925 og giftist Rannveigu Pálsdóttur frá Þúfnavöllum.
13 Eiður og Valgerður Stefanía Júlíusdóttir bjuggu síðar á Ingvörum í Svarfaðardal.
14 Jón Hannes Jóhannesson (1856-1936) f. í Garðshorni og Sólrún Oddsdóttir (1855-1947) f. í Flöguseli. Hann var dóttursonur Jóns Bergssonar sem bjó í Garðshorni á fyrri hluta 19. aldar. Faðir Sólrúnar var Benediktsson frá Flöguseli. Sólrún og Jón bjuggu í Skjaldarvík 1904-1912. Sonur þeirra var Stefán klæðskeri sem stofnaði elliheimilið í Skjaldarvík.
15 Nanna Soffía Guðmundsdóttir (1892-1973) og Sigurgeir Sigurðsson (1865-1935) bjuggu seinast í Ásgerðarstaðaseli í Hörgárdal. Það var síðasti torfbærinn í Hörgárdal sem búið var í. Hann fór í eyði 1979 þegar sonur þeirra, Sigmundur f. 30. 4. 1913, fór þaðan. Guðmundur faðir Nönnu átti fyrst barn með Þóru Rósu dóttur Odds Benediktssonar frá Flöguseli. Síðan giftist hann Rósu systur Odds sem þá var komin úr barneign en þau höfðu vinnukonu sem átti fjögur börn með Guðmundi sem ólust upp hjá þeim Rósu í sátt og samlyndi.
16 Helga Sigríður, móðir Jóhönnu, átti systur á Ólafsfirði, Þorgerði Guðrúnu. Guðrún var 13 árum eldri en Helga og ól hana upp eftir að heimili þeirra leystist upp við fráfall föður þeirra.
Innskot úr „Ferðinni frá Brekku“
„Á Ytri-Bægisá skyldu börnin prófuð úr innri hluta Glæsibæjarhrepps. Kennslu var þar með lokið og skyldi presturinn sjá um prófið með mér. Er þangað kom hitti ég sr. Theódór Jónsson og hina glaðlegu og söngelsku konu hans, frú Jóhönnu Gunnarsdóttur og Valgerðar kvennaskólastjóra á Laugalandi, á sinni tíð. Tóku þau mér tveim höndum og settist frúin strax við hljóðfærið, vildi hafa söng að forspili prófsins og gast mér vel að því en þótti þó ganga full seint að komast að verki.
Allt munnlega prófið höfðum við í kirkjunni en reikning og stíl í smáhópum inni í bæ. Þetta var því fremur losaralegt í böndum en gekk samt prýðilega því að börnin voru vel að sér og hin prúðustu í allri framgöngu. Það lá því vel á öllum þennan dag og við og við var tekið til við hljóðfæraleik og söng. En prófið stóð til kvölds og kvaddi ég þá kóng og prest með virktum.“
Snorri Sigfússon: Ferðin frá Brekku, bls. 267.
Hamri (ódagsett)
Elsku Bogga.
Bestu þökk fyrir síðast og allt gott, elsku barnið mitt. Ég veit að Helga hefur sagt þér ferðasöguna norður. Var hún nú leiðinleg að sumu leyti en mér hefur batnað fyrr í fætinum en ég bjóst við. Samt er ég ekki jafngóð. Mér batnaði fljótt það sem ég var lasin fyrir vestan. Sigurbjörg1 kom og saumaði peysuna mína. Líkar mér hún vel. Ég ætli2 biðja þig að láta mig vita einhvern tíma hvort þér detti í huga að fá pilsið eða ekki. Þegar ég kom heim voru þau komin hjónin frá Svíra3 með litlu stúlkuna sína. Mátti ég ekki seinna koma heim og gjörði það sem ég var búin að segja við þig. Við fórum öll til kirkju á sunnudaginn. Var litla stúlkan skírð, hún heitir Anna Guðrún. Það var aðkomandi Sigurbjörg á Krossastöðum og systkinin þaðan og allir frá Garðshorni. Svo held ég megi fara að hætta þessu ljóta klóri.
En þó má ég til að segja þér að mér fannst þegar Norðurárdalur var að hverfa mér sjónum að hann geymi það í skauti sínu sem mér fannst ég eiga ein. Mundi hann aldrei skila mér aftur. Svo má ég til með að kveðja þig því Anna litla vill ekki lofa mér að skrifa meira. Svo bið ég Guð að annast ykkur öll í bráð og lengd. Það mælir þín elskandi móðir
Steinunn Anna Sd.
Ég bið að heilsa öllum hjá þér. Mundu að láta engan sjá miðann.
1 Væntanlega Sigurbjörg, móðir Margrétar á Hamri, en hún var vinnukona á Krossastöðum á þessum árum.
2 Þetta er ekki ritvilla heldur talaði fólk svona. Þetta var kallað „að hneigja upp á i“ og þýddi að veikar sagnir í 1. beygingaflokki sem enduðu á –aði í þátíð fengu sömu endingu í framsöguhætti og sagnir í 3. og 4. flokki (t.d. segja og mæla). Talsmátinn var algengur við Eyjafjörð, t.d. í Svarfaðardal, fram í byrjun 20. aldar en lagðist af með auknum bóklestri og skólagöngu að sögn Gísla Jónssonar menntaskólakennara. Nokkur dæmi um þennan talsmáta koma fyrir í öðrum bréfum en aðeins hjá Steinunni Önnu.
3 Stefán V. Sigurjónsson og Sigríður Helgadóttir ásamt Pálínu.
Hamri 10. júlí 1912
Elsku dóttir mín, hjartans þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir síðasta samfund okkar og allt annað gott. Okkur gekk ágætlega heim. Svo fórum við upp í Garðshorn daginn eftir. Svo fór Rúna1 daginn eftir og varð samferða þeim bræðrum. Þeir fóru á hreppaskilin2. Hún gaf mér prjónaþríhyrnu, mórauða og hvíta. Hún er mikið lagleg en nokkuð ljósleit handa mér. Svo nú þarf ég ekki að bera umhyggju fyrir því lengur en systir mín sendi mér smjör. Rúna gaf Jóhönnu í Garðshorni laglegt tau í treyju. Hún er búin að skrifa mér og þér líka og segir það hafi verið gott að koma heim og líta svo til baka fyrir þá fáu daga sem ég var hjá ykkur eins og hvern annan sólskinsblett á lífsleiðinni.
Mér datt í hug það mættu fleiri segja að gott er að vera hjá góðum foreldrum og góðum börnum.
Lítið get ég nú sagt þér í fréttum annað en það. Ég er ein heima og litlu stúlkurnar líka, hjónin fóru í kaupstað með Munda litla. Það átti að bólusetja hann í þinghúsinu og Jóhönnu í Garðshorni líka. Svo ég nota tímann til að rispa þessar fáu línur mér til dægrastyttingar. Ég hef oft verið hálflasin síðan ég kom heim, mest í bakinu, þó ekki mjög mikið en þó liggur mér við stundum að kvíða fyrir sumrinu en ég treysti því að Guð leggi líkn með þraut eins og hann gjörir ævinlega.
Ég er að hugsa um að senda þér myndarómyndina sem ég er óánægð með. Mér þykir hún allt of stórgerð og óska að ég hefði aldrei setið fyrir. Það sýnist sitt hverjum með myndina3 eins og vant er. Ég hef líklega setið of nærri maskínunni en það er ekki til neins að fást um það. Ég bið þig að sýna ekki mörgum hana. Það var svo heimskulegt af mér að vera að þessu fikti.
Margrét gaf mér þegar hún kom úr kaupstaðnum ofurlitla kastarholu og sápustykki.
Guðrún systir Helgu í Garðshorni kom meðan ég var fyrir vestan. Er hún orðin heldur heilsulítil og mikið farið að fara aftur. Svo ætli ég að senda þennan miða með Valdemar þegar hann kemur og bréfið hennar Rúnu með.
Ó hvað það verður langur tími að frétta ekki neitt af ykkur fyrr en í haust en máski þú komir þá með Gunnar litla.
Svo held ég sé best að fara að hætta þessu ljóta klóri og biðja þig að lesa í málið fyrir mig og fyrirgefa þetta rugl og láta engan sjá það. Svo bið ég hjartanlega að heilsa öllum á þínu heimili en sjálfa þig kyssi ég kossi hjartans og bið Guð að vera þér allt í öllu. Það mælir til dauðans þín elskandi mamma,
Steinunn Anna Sigurðardóttir.
Ég sendi þér ekki mórauða toghárið. Ef þú vilt get ég búið til úr því borða seinna ef ég lifi enn því vantar í randirnar4. Þín sama mamma.
1 Hér hefur Guðrún Kristjánsdóttir á Draflastöðum, systurdóttir Steinunnar, verið í heimsókn og þær frænkur hafa farið saman vestur í Kot að heimsækja Arnbjörgu.
2 hreppsfundinn, tveir slíkir voru haldnir árlega í hverjum hrepp, að hausti og vori. Bændur gerðu grein fyrir eignum sínum og tekjum og á þeim gögnum byggði hreppsnefndin útsvarið.
3 Þarna er Steinunn nýbúin að láta taka af sér einu myndina sem til er af henni
4 Skemmtilegt máltilbrigði. Rendurnar segja menn líklega núna.
Garðshorni 19. júlí 1912
Bréf frá Jóhönnu til Nunna, Gunnars á Fremri-Kotum
Kæri frændi og vin!
Bestu þakkir okkar systkina á miði þessi að færa þér fyrir allt gott en sér í lagi síðustu sendinguna sem við aldrei getum borgað þér. Ég pára þér þessar línur í flýti því nú er naumur tími. Binni1 á Steinsstöðum er hjá pabba í dag og ætlar að vera hjá honum á morgun líka svo þú getur ímyndað þér hvort þau þrjú slái ekki blett yfir daginn en við stöndum okkur svo vel núna að við eigum litla ljá því drengirnir rökuðu með okkur í dag en svo vill nú Steindór fara að slá svo það er nú við búið að við missum hann í miðju kafi.
Jæja, Nunni minn, þá ætla ég nú að fara að byrja á aðalfréttunum sem verða kannski fáar og ætla ég að segja þér að við fórum öll krakkarnir og pabbi skeiðríðandi inn að þinghúsi þann 23. júní til þess að við verðum bólusett þó það reyndist árangurslaust því bólan kom ekki út á neinu okkar. Við fórum öll héðan til kirkju á sunnudaginn var nema Anna, hún var ein heima. Litla stúlkan á Hamri var skírð í kirkjunni og heitir hún Anna Guðrún2 og var ekki annað fólk við kirkju en við og Sigurbjörg, Gunna, María, Steini og Franklín3, allt frá Krossastöðum. Svo fórum við niður eftir eftir messu og vorum í heilmikilli veislu.
Svo má ég til að fara að slá botninn í þetta bull sem þú hefur ekkert gaman af. Það biðja allir ósköpin öll að heilsa og ég ætla að biðja þig að segja mömmu þinni að hún megi ekki láta sér þykja það leiðinlegt þó hún fái ekki bréf frá mér í þetta sinn því ég hef hvorki fréttir né tíma en einhvern tíma ætla ég að skrifa henni og ég vildi að það gæti orðið fyrr en seinna. Svo bið ég ósköp vel að heilsa öllu þínu fólki og óska að ykkur geti ævinlega liðið vel en sjálfan þig kveð ég með einlægri ósk um að björt og fögur framtíð blasi við þér.
Þín einlæg
Jóhanna Pálmadóttir
1 Binni var Brynjólfur Sveinsson, síðar bóndi í Efstalandskoti. Hann var sonur Soffíu Björnsdóttur sem kemur lítillega við ferðasögu Jóhönnu vestan frá Kotum en Björn faðir hennar var sonur Benedikts í Flöguseli og bróðir Sigfúsar föður Guðmundar föður Arnbjargar, Frímanns og Pálma.
2 dóttir Frímanns og Margrétar.
3 Sigurbjörg var móðir Margrétar á Hamri en hin voru systkini hennar. Steini – Kristján Steinstrup – varð síðar maður Jóhönnu.
Garðshorni 30. nóvember 1912
Kæra frænka mín!
Loksins læt ég verða af að skrifa þér því ég sé að þú borgar mér aldrei bréfin sem ég á hjá þér. Gunnar litli á að flýta sér að stækka og læra að skrifa svo hann geti skrifað mér fyrir þig því ég sé að þú ert orðin svo óttalega löt að skrifa og er þér nú kannski vorkunn þar sem þú hefur nú líklega ekki góðan tíma til að sitja við skriftir og verð ég víst að gefa þér upp þessa bréfaskuld og minnast ekki á hana framar nema ef það fellur þá ný skuld á og þá er óvíst að ég verði eins eftirgefanleg og núna.
Jæja, Bogga mín! Kannski ég fari að tína til eitthvert fréttarugl. Mig minnir að ég væri búin að minnast á það við þig að pabbi stakk upp ofurlítinn kartöflugarð, að setja niður í hann og girða í kringum hann en í haust fengum við upp úr honum 2 tunnur og var margt af því meðalkartöflur en náttúrulega var nú sumt smátt en við hugsum að hann komi nú til með tímanum. Svo bætti pabbi ögn við hann í haust en samt er ögn eftir að stinga upp af því sem gert var í kringum.
Það var gert við baðstofuna í vor, settur nýr biti og nýjar stoðir og svo í haust þá keypti pabbi 1 papparúllu sem kostaði hálfa fjórðu krónu og var tjaldað fyrir stafninn fyrir framan og hrökk hún allstaðar nema upp yfir rúminu mínu og þar var keypt betrekk svo hvergi sér í torf inni í baðstofunni. Þetta kallast nú líklega ekki fréttir, ekki síst af því að Kiddi1 segir ykkur líklega frá þessu en af því að ég hafði ekkert til að skrifa þér þá set ég þetta rugl og segi svo að ég eigi mörg bréf hjá þér fyrir svoddan bréf því alltaf er að ræða.
Gaman hefði verið ef að ég hefði getað farið með Kidda vestur núna en bæði er það að mér hefði ekki verið treyst og annað hitt að skólinn á að byrja strax eftir nýárið svo það er ekki víst að ég hefði getað verið komin heim fyrir þann tíma. Svo erum við að sperrast við að láta í kaupstaðinn fyrir jólin því pabba langar til að geta látið Kristján Árnason2 hafa eitthvað upp í skuldirnar en það er lítið sem búið er því við byrjuðum svo seint á því. Við látum einfalda vettlinga og tvinnaða hálfsokka en lítill verður nú kannski ávinningurinn því þeir gefa víst lítið fyrir prjónasaum eftir sem við höfum heyrt.
Leiðinlegt að vera sá ræfill að geta ekki sent litlu drengjunum neitt úr því maður fær svo góða ferð. Það lítur svo út sem að við séum búin að gleyma hvað þú … til neins að tala um það. Orðin tóm eru til einskis. Láttu Gunnar litla aldrei gleyma okkur því við gleymum honum ekki. Það biðja allir að heilsa ykkur og kysstu Gunnar litla fyrir mig marga kossa en sjálfa þig kveð ég með kossi alls góðs. Það mælir
þín Jóhanna Pálmadóttir.
1 Kristfinnur Guðjónsson hefur greinilega farið oft á milli byggðarlaga og sagt fréttir.
2 Kristján Árnason (1880-1970) kaupmaður í Verzluninni Eyjafirði f. í Lóni í Kelduhverfi. Faðir Kristjáns var Árni Kristjánsson frá Ærlækjarseli Árnasonar Þórðarsonar frá Kjarna í Eyjafirði. Synir Kristjáns voru Árni píanóleikari og Gunnar Höskuldur kaupmaður í Verzluninni Eyjafirði.
Garðshorni 26. febrúar 1913
Kæri frændi!
Nú skrifa ég þér fáar línur að gamni mínu, ég hlakka mjög mikið til þess að þú farir sjálfur að geta skrifað mér bréf og verður víst ekki langt þangað til ef þú ert duglegur að læra að lesa og skrifa því mig minnir að þú værir á föstudaginn var 5 ára. En svo býst ég við að þú verðir nú að biðja mömmu þína að skrifa fyrst fyrir þig. Auðvitað get ég lesið þó ekki sé vel skrifað, að minnsta kosti þætti mér gaman að ef þú gætir sett eitt G eða eitthvað neðan undir bréfin hennar.
Héðan er fátt að frétta nema að við erum öll frísk. Það er nýfætt barn á Rauðalæk hjá Jóni Baldvinssyni1 og Guðrúnu Hallgrímsdóttur og er það stúlka. Hún fæddist tvöföld og gekk fæðing þar af leiðandi heldur erfitt. Brynjólfur og Laufey á Steinsstöðum eignuðust stúlku í haust og var hún skírð í gær, Sveinbjörg Soffía2. Lúther í Lönguhlíð er trúlofaður Fríðu dóttur Sigurðar sem var í Steinsstaðakofunum og er sagt að þau séu búin að draga upp hringana. Við höfum heyrt að það eigi að verða einhver ungmennaskóli á Þverá svo sem hálfsmánaðartíma eftir páskana í vetur. Það kostar krónu fyrir þá sem eru allan tímann út en ekki nema 75 aura fyrir þá sem ætla ekki að vera með nema í sumu og þó maður komi og hlýði á einn eða tvo fyrirlestra, þeir þurfa ekki að borga neitt því það á að kenna í fyrirlestrum og eru kennararnir þessir: Bernharð3 í Hrauni, Brynjólfur á Steinsstöðum og Freysteinn4 á Bakka. Líka á að kenna söng og glímur.
Einar er búinn að kenna á Rauðalæk 6 vikur en er nú að kenna seinni mánuðinn út á Vöglum. Manni litli hefur verið með okkur á skólanum þó hann sé ekki búinn að fá aldur til þess. Ef þið hafið ekki frétt látið hennar Seftínu sem var á Bryta, þá ætla ég að setja það hér og vildi það svo til að hún fór þennan morgun á skóla út að Skriðulandi5 eins og hún var vön og var þá ekki vont veður, auðvitað ekki vel bjart. Hún var á skólanum um daginn og svo fylgdi maður henni frá Skriðulandi suður að túninu á Ytri-Reistará en þar sneri hann við en Seftína sáluga hélt áfram. Svo talaði hún við Guðjón á hlaðinu á Ytri-Reistará og var hún þá kát eins og hún var vön en lítilli stundu seinna fann Villi hana þar skammt fyrir sunnan. Þá var hún dáin og var blóð hjá henni. Svo var farið inn til læknisins og sagði hann að hún væri áreiðanlega dáin og sagði að það mundi ekki þurfa að hann færi fram eftir en hann sagði að það hefði eitthvað sprungið í henni.
Ekki veit ég annað en amma sé við þessa sömu heilsu eins og verið hefur og allt Hamarsfólkið nema Anna litla hefur haft lífsýkju6 nú um tíma.
Svo held ég að fréttirnar fari að minnka og ég megi fara að slá botninn í þetta rugl sem þú hefur líklega lítið gaman af sem ekki er heldur von.
Nú förum við að eiga von á Kidda. Kannski hann verði svo heppinn að vera hér fyrir norðan um það bil sem þessir fyrirlestrar verða haldnir á Þverá svo hann geti farið frameftir að gamni sínu. Ég gæti trúað því að honum þætti þessi tími lítið skemmtilegur hér fyrir norðan því ekki er skemmtilegt heimili á Bægisá8 núna eftir því sem við höfum frétt en svo ber nú kannske ekki mikið á því þessa stund sem hann verður suður frá.
Gaman hefði mér þótt hefði ég getað farið aftur vestur með Kidda en það vill líklega ekki svo vel til því það stendur líklega svo á að annaðhvort verður skólinn á Rauðalæk eða ég þarf þá að lesa undir prófið.
Það er líklega best fyrir mig að fara að hætta þessu bulli og bið ég þig að fyrirgefa mér hvað það er ómerkilegt. Það biðja allir ósköp vel að heilsa og ég bið þig að kyssa mömmu þína marga kossa fyrir mig fyrir allt gott sem hún hefur sýnt mér en sjálfan þig kveð ég með kossi í anda og óska að þér líði ætíð betur en ég fæ beðið. Það mælir þín ónýt
Jóhanna Pálmadóttir.
Biddu mömmu þína að skrifa mér svo fljótt sem hún hefur tíma til og mundu eftir að vera vænn að læra að skrifa svo þú getir skrifað mér bæði fyrir þig sjálfan og mömmu þína … við ætlum að senda tvö kerti með þessum miða og biðjum ykkur að fyrirgefa hvað það er lúsarlegt. Ég sendi þér rauðu kertin en Steindór sendir nafna sínum8 bláa kertið. JP
1 Jón Baldvinsson f. 1877 á Moldhaugum og Guðrún Hallgrímsdóttir f. um 1895 frá Úlfsstaðakoti í Blönduhlíð, systir Kristínar sem síðar bjó á Neðri-Rauðalæk. Þau bjuggu m.a. í Geirhildargörðum 1918-19 en fluttu til Akureyrar þar sem Jón var skipstjóri. Dóttirin hét Þorbjörg Stefanía f. 1. febr. 1913 sem bjó á Akureyri og giftist Hans S.N. Hansen verkstjóra á Gefjun á Akureyri.
2 Barnið hefur verið skírt eftir foreldrum Brynjólfs, Sveini og Soffíu Björnsdóttur Benediktssonar frá Flöguseli.
3 sonur Stefáns Bergssonar í Hrauni, síðar alþingismaður. Stefán var frá Efri-Rauðalæk, bjó þar fá ár um 1880 og byggði timburhúsið sem nú er í niðurníðslu.
4 Freysteinn á Bakka var Freysteinn Sigtryggur Sigurðsson (1886-1967) búfræðingur, bróðursonur Rósants á Hamri og Jóhannesar eldri á Vindheimum en Sigurður, faðir Brynjólfs, hafði búið á nokkrum bæjum í Öxnadal tvo undanfarna áratugi. Á Bakka bjuggu á þessum tíma Þorsteinn Jónsson úr Aðaldal, S.Þing. og Ólöf Guðmundsdóttir úr Víðidal í V-Hún., foreldrar Þórs á Bakka, Ármanns á Þverá, Rúts í Engimýri, Kára í Hólum, Ingimundar á Dvergasteini o.fl. Freysteinn átti það sameiginlegt með Brynjólfi að hafa verið á Bændaskólanum á Hólum og var þess vegna fær um að miðla af nýfenginni þekkingu til uppvaxandi sveitunga sinna.
5 Skriðuland í Arnarneshreppi. Þuríður Septína Tryggvadóttir (1899-1913) var þá flutt með foreldrum sínum í Syðri-Reistará.
6 Lífsýkja, oftar nefnd lífsýki, niðurgangur.
7 Ætli hér sé ekki átt við Syðri-Bægisá? Þar skipti oft um ábúendur á þessum árum eða þangað til 1914 að Snorri Þórðarson flutti þangað en sú fjölskylda hefur búið þar síðan.
8 Steindór hét Steindór Guðmundur eftir Steinunni ömmu sinni og Guðmundi afa sínum eins og Guðmundur Valdemarsson. Hér biður Steindór sem sagt að heilsa Guðmundi bróður Gunnars sem bréfið er stílað til.
Draflastöðum 27. júní 1913
Kæra frænka.
Bestu þökk fyrir síðasta samfund okkar. Í mesta flýti skrifa ég þér fáar línur meðan fólkið sefur um miðjan daginn því pabbi ætlar í kaupstað á morgun en ég hef lítinn tíma því við erum að keppast við að hreinsa túnið því grasið þýtur upp á því síðan hlýindin og skúrir komu en ég vona að við verðum búnar á morgun. Ferðin gekk ágætlega heim. Við mamma þín fengum dálitlar skúrir yfir heiðina og eins þegar kom út í dalinn en að öðru leyti var veðrið mjög gott. Við töfðum dálitla stund á Gili og drukkum kaffi hjá Sigurlögu1 en hjónin voru ekki heima. Svo fórum við yfir í Háls en hittum svo á að hjónin voru ekki heima. Þau voru riðin á þingmálafund í Staðartungu svo við stönsuðum þar ekkert. Heim í Hamar komum við klukkan að ganga 10 um kvöldið. Daginn eftir fórum við mamma þín upp í Garðshorn og töfðum þar fram á kvöld. Daginn eftir lagði ég af stað heim og varð ég bræðrum þínum og Jóni á Rauðalæk samferða inn í hlíðina, því þeir voru að fara á hreppaskilin2 og riðu þeir með mér út að Hörgárbrú. Eftir ég skildi við þá var ég ein inn á Akureyri. Þar stansaði ég dálitla stund en um kvöldið fór ég fram í Vaglir3. Svo urðu hjónin mér samferða þaðan og heim, fóru fram í Þormóðsstaði4 að finna foreldrana. Um morguninn þegar við fórum af stað, var besta veður en þegar við komum fram í sveitir kom regn og hvassviðri á móti okkur en þegar ég kom fram undir dalinn, birti upp með sólskini svo við vorum þurr og þokkaleg þegar heim kom. Heima voru allir frískir og allt hafði gengið vel meðan ég var burtu.
Það er gott að koma heim, ferðlúin, sé að nokkrum heimayl að hverfa og ég þóttist heppin að vera komin heim áður árnar fóru að vaxa og líta svo til baka til ykkar allra sem tókuð mér svo vel. En oft hugsa ég um litla drenginn sem lá í rúminu þegar ég fór frá þér en að öðru leyti þótti mér ferðin ágæt. Hún er eins og sólskinsblettur á lífsleiðinni sem okkur finnast oft svo fáir.
Á þriðjudaginn eftir ég kom heim var rekið saman og rúið um nóttina svo þú getur séð að ekki hef ég þurft að stirðna af iðjuleysi eftir ég kom heim. Þegar ég var að núa stýrurnar úr augunum á miðvikudaginn, kemur Sigurður5 á Ánastöðum og biður mig að sauma föt handa litla drengnum sínum. Ég var einn dag fyrir handan og sagði fólkið ég hefði gott af að æfa mig í að sauma barnaföt og verð ég því sjálfsagt orðin vel æfð þegar ég þarf að sauma föt handa krökkunum mínum6.
Jæja, frænka mín, ég má nú víst til að hætta þessu rissi sem þú getur líklega ekki lesið. Það er svo mikið flýtisverk en ég vona þú skrifir mér línu einhvern tíma og látir mig vita hvernig þér líður þó ég eigi það ekki skilið fyrir þennan ómerkilega miða.
Svo kveð ég þig og ykkur öll með óskum bestu. Það mælir þín frænka
Guðrún Kristjánsdóttir7
Mamma og pabbi biðja að heilsa þér og skilaðu kveðju frá mér til hjónanna á Egilsá.
1 Þannig var nafnið oft skrifað í kirkjubókum frá því á 19. öld og sá ritháttur hefur greinilega verið enn við lýði á þessum tíma. Sigurlaug þessi Svanlaugsdóttir var móðir húsfreyjunnar á Gili, ótengd og óskyld þeim frænkum.
2 Hreppaskil voru eins konar þing sem haldin voru í hverjum hrepp tvisvar á ári, vor og haust að viðstöddum sýslumanni. Á hreppaskilum voru hreppsómagar boðnir upp og úthlutað til þeirra sem buðust til að hafa þá gegn lægstu gjaldi frá hreppnum. Þarna voru útsvör ákveðin og önnur mál rædd sem vörðuðu hreppsbúa sameiginlega. Hreppaskil í Glæsibæjarhreppi voru haldin heima hjá hreppstjóranum sem var á þessum tíma Jón Einarsson, afi Margrétar á Hamri og Steina sem síðar giftist Jóhönnu í Garðshorni. Svo virðist sem Guðrún hafi farið neðri leiðina inn Kræklingahlíðina en hún lá nálægt sjónum og sést enn móta fyrir henni í Krossanesborgum.
3 Rúna hefur gist hjá Benedikt Tryggvasyni og Ólöfu Guðmundsdóttur sem var fædd á Finnastöðum í Sölvadal eins og Rúna, báðar fæddar 1888.
4 Ábúendur á Þormóðsstöðum voru Guðmundur Jónasson og Jóna Jónsdóttir en Guðmundur fæddist á Æsustöðum 1864, þ.e. á meðan Sigurður Bárðarson og Arnbjörg bjuggu þar. Guðmundur var bróðir Kristjáns Jónassonar á Draflastöðum og var því föðurbróðir Rúnu.
5 Sigurður Sigurðsson f. 1884 og Sigrún Jóhannsdóttir f. 1877 bjuggu þá á Ánastöðum en þar bjuggu líka Jóhannes Jóhannesson f. 1879 og Sigurbjörg Ágústsdóttir f. 1881, dóttir Helgu systur Hólmfríðar og Steinunnar Önnu.
6 Krakkinn varð aðeins einn, Hólmfríður Sigfúsdóttir í Villingadal f. 1920.
7 Guðrún Kristjánsdóttir (1888-1954) giftist fyrst Sigfúsi Páli Sigurðssyni (1888-1924) á átti með honum Hólmfríði. Síðar giftist hún Kristni Sigubirni Einarssyni (1874-1948) en þau áttu ekki börn saman.
Hamri 1. febrúar (1914)
Elsku Bogga mín.
Hjartans þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir síðustu sendinguna frá þér sem ég fékk með góðum skilum. Það kom mátulega til að hafa af því í brauðið mitt til jólanna. En heldur þótti mér leiðinlegt að geta ekki sent jólatréð. Mundi1 sagðist ómögulega geta tekið það. Það er líka vandfarið með það. Það var til síðan snemma í vetur. Mér var og er ómögulegt að senda það. Ég hélt það gæti skeð að Kiddi kæmi í góðu tíðinni eftir nýárið. Skyrtan hans er líka til. Ég spann í hana í haust svo hún gæti verið með jólatrénu. Ég útvegaði ögn til að prýða það og veit ég að aumingja litlu bræðurnir hefðu orðið hýrir þegar búið hefði verið að kveikja á því en ég voni það verði seinna.
Hér var slæm tíð alla jólaföstuna og fram yfir nýár. Þá hlánaði og var besta tíð fram undir miðjan vetur. Síðan hefur oftar verið heldur slæmt.
Ég fór upp í Garðshorn milli jóla og nýárs og var þar fram yfir nýár. Það byrjaði skólinn á Rauðalæk eftir nýárið og er Einar2 í Garðshorni um skólatímann. Þar gengur allt eins og í sögu. Anna3 verður þar eftirleiðis og líklega Kári litli líka.
Það fæddist drengur á Efri-Rauðalæk stuttu eftir nýárið. Gekk það allt ágætlega vel. Þórdís var sótt og er Sigrún orðin vel frísk en drengurinn litli er að öðru hverju alltaf lasinn. Þess vegna var hann skírður fljótt. Heitir hann Sigurður Jóhann4. Það fæddist drengur á Steðja í vetur en er óskírður.
Ekkert bréf hef ég fengið í vetur frá fólkinu mínu og enginn komið að finna mig nema Vaglahjónin hérna um daginn. Þau fóru fram að Syðri-Bægisá.
Ég hef verið sæmilega frísk í vetur eftir því sem ég get búist við. Ég er búin að fá mér tvær flöskur af Kína og finnst mér hann hafi bætt mér heldur. Ég er oft slæm í bakinu og alltaf á ég bágt með að geta sofið. Þá verður oft að hugsa of margt og ég finn þá til þess að ég er einmana en ég á nú ekkert bágt fyrir það. Ég hef verið alltaf að tæta verkefni síðan á nýári.
Nú er ég að spinna fyrir Helgu í Garðshorni. Áður spann ég fyrir Rósu5 á Vindheimum og fékk skyr fyrir. Ég enti skyrið frá þér fram að jólum og held ég hafi þá hugsað til þín eins og oftar.
Nú held ég sé mál að hætta þessu ljóta klóri og biðja þig að fyrirgefa mér það og láta engan sjá það. Svo bið ég hjartanlega að heilsa piltunum en sjálfa þig kveð ég þig kossi hjartans og bið Guð að vera þér allt í öllu. Það mælir þín elskandi móðir
Steinunn A Sigurðardóttir
Skyldfólkið biður að heilsa.
1 Hvaða Mundi var það?
2 Einar G. Jónasson (1885-1977) á Laugalandi var barnakennari á Þelamörkinni á þessum tíma, bóndi og síðar hreppstjóri lengi.
3 Anna Sigríður Sigurðardóttir (1855-1922) var húskona í Garðshorni á þessum tíma, komin undir sextugt. Hún og Steinunn Anna voru hálfsystkinabörn. Meira um hana síðar.
4 Sigrún Sigurðardóttir, móðir Sigurðar Jóhanns, var systir Aðalsteins á Öxnhóli. Sigurður bróðir Sigrúnar og Aðalsteins var afi Sigurðar Jóhanns Sigurðssonar sem lengst allra var bæjarfulltrúi á Akureyri.
5 Sigurrós Pálsdóttir (1872-1926), átti 11 börn. Maður hennar var Friðrik Daníel Bjarnason (1864-1915), þau bjuggu á Neðri-Vindheimum til dauða Friðriks og hún áfram til 1917. Þá giftist hún Karli Guðmundssyni og bjó með honum á Efri-Vindheimum til dauðadags. En hvernig ætli skyrið hafi geymst, var það farið að súrna undir lokin?
Garðshorni 15. febrúar 1914
Kæra frænka mín!
Mikið má ég skammast mín fyrir að hafa trassað svo lengi að skrifa þér en þetta bréf á að verða svo gott að það bæti það allt saman upp því margt og mikið hefur sjálfsagt skeð hér um pláss síðan þú komst í haust en það er það versta að ég man aldrei neitt þegar ég ætla að fara að skrifa.
Þau komu upp eftir í dag, Hamarskrakkarnir1, Bogga, Guji og amma og eru nýlega farin. Amma er nýlega búin að skrifa þér og færð þú það bréf líklega fyrr en þetta því ég veit ekki af neinni ferð fram í dalinn, hvað þá lengra.
Það fæddist drengur á Efri-Rauðalæk í vetur, rétt áður en skólinn byrjaði og gekk fæðingin vel. Sigrún2 lá í rétta viku en þegar drengurinn var nálægt því að vera hálfsmánaðar, veiktist hann svo að það var rokið í að skíra hann og var hann skírður Sigurður Jóhann því Sigurður á Öxnhóli heitir líka Jóhann en svo held ég að hann sé frískur núna. Líka fæddist drengur á Steðja í vetur en hann er óskírður.
Friðbjörn og Ranka á Bryta fara í Efri-Rauðalæk í vor en Þorlákur tekur allan Bryta og hef ég heyrt að Lauga á Neðri-Rauðalæk færi þangað að hálfu en að hálfu í Neðri-Vindheima en ekki veit ég hvort það er satt.
Árni Jónsson, bróðir Margrétar á Hamri, og Steini bróðir hans eru búnir að taka Auðni í Öxnadal en Steini ætlar víst að hirða fyrir Jón3 gamla á Krossastöðum að vetri. Ekki veit ég hver bústýran verður en það verður sjálfsagt einhver systirin. Sigurbjörg ætlar að fara í Laugaland en ég veit ekkert um Marju og veit ekkert hvort hún verður kyrr á Hamri eða ekki.
Nú þykist ég vera búin að tína nokkuð til í þetta bréf og er mér líklega skammarminnst að fara að hætta því línurnar hallast svo mikið og þetta er svo illa skrifað að þú mátt hafa þig alla við ef þú átt að geta komist fram úr að lesa það.
Það biðja allir ósköp vel að heilsa þér og þínu fólki en sjálfa þig kveð ég með kossi í anda og óska að ykkur líði ætíð eftir því sem ég fæ best óskað. Það mælir þín frænka
Jóhanna Pálmadóttir.
Skrifaðu mér svo aftur þegar þú hefur tíma og tækifæri og segðu mér hvort það er satt að Rænka á Hólum fari til ykkar og eins hvað þau láta tvíburana sína heita, Jóhanna og Halli4, og hvert þau fara í vor.
Þín sama
Jóhanna
Amma biður að heilsa þér, hún verður víst kyrr hjá okkur.
Innan í þessa komfilóttu læt ég bréf til Kidda, Gunnars og Guðmundar litla og bið ég þig að koma því öllu til skila.
Góða Bogga mín! Mikið langar mig til að koma í haust eins og búið var að tala um þó það sé ekki víst að ég geti það.
1 Hamarskrakkarnir voru Sigurbjörg Steinunn Anna og Guðmundur Frímannsbörn. Steinunn var þá enn til heimilis á Hamri.
2 Sigrún Sigurðardóttir og Jón Júlíus Guðmundsson bjuggu á Efri-Rauðalæk 1910 – 1915 að Jón dó en Sigrún bjó áfram fram á næsta ár en Árni og Kristján Steinstrup Jónssynir fóru í Efri-Rauðalæk 1915 frá Auðnum.
3 Jón Guðmundsson á Krossastöðum var viðriðinn matarmálið fræga í Möðruvallaskóla. Hann var ríkur stórbóndi og átti margar jarðir þar um sveitir. Steini ólst að einhverju leyti upp á Krossastöðum hjá Jóni.
4 Jóhanna og Halli voru Jóhanna og Haraldur sem bjuggu í Flatatungu í Austurdal í Skagafirði og síðar í Fagranesi í Öxnadal. Haraldur var bróðir Rósants á Hamri, föður Þorleifs og Hallfríðar, Jóhannesar föður Jóa á Vindheimum og fleiri. Tvíburarnir voru Tryggvi og Sesselía og fæddust í Flatatungu á Kjálka 7. okt. 1913. Tryggvi var faðir Georgs, Hersteins og Bjarka. Systir Tryggva og Sesselíu var Pálmey (1909-1994) móðir Valgerðar Nikólínu Sveinsdóttur konu „Gunna sót“.
Garðshorni 15. júní 1914.
Kæra frænka mín!
Í mesta flýti rissa ég þér þessar fáu línur því nú hef ég nauman tíma til að skrifa. Tíðin hefur verið mjög slæm hér í vor, svo menn muna ekki eftir öðru eins vori, margir hafa orðið heylausir og er búið að taka öll lifandi ósköp af mat handa skepnum en þó held ég að menn hér á Mörkinni hafi farið nærri best úr úr því. Pabbi fór að gefa kúnum mat um páska til þess að geta gefið ánum aftur töðu, kýrnar voru látnar fyrst út í gær því þá var gott verður.
Nú er búið að koma ofan í túnið hérna og á morgun á að setja ofan í garðinn ef gott verður veður, hvernig sem uppskeran verður í haust og fer það sjálfsagt eftir sumrinu.
Það var fermt á uppstigningardag á Bægisá, þá var mjög vont veður, sunnanstormur og talsverð hríð og svo var mikið frost að gluggana hélaði eftir að við komum heim frá kirkjunni, enda var mjög fátt fólk við kirkju. Ég var í faldbúningi innan úr kaupstað, að öðru leyti var ég í öllu nýju sem ég átti sjálf, nema ég var í gamla sparipilsinu mínu á leiðinni og með klútinn sem nafna gaf mér þegar ég var á öðru árinu og hefur hann tvisvar verið þveginn. Pabbi gaf mér danska skó sem hann lofaði mér þegar hann lá1 ef hann fengi heilsuna aftur. Mamma gaf mér millipils og vasaklút og svo gáfu þau mér sjalið sem pabbi tók fyrir jólin í fyrra en mamma tók sér sjal þegar hún fór inn eftir í vor. Svo gaf nafna mér í skyrtu í fyrravor þegar hún kom og var ég í henni og bol sem ég keypti fyrir það sem Gunnar litli gaf mér í haust þegar hann kom. Svo var ég í nýjum vaðmálsnærbuxum. Ég var í nýrri treyju og gaf Rúna2 á Draflastöðum mér í hana þegar hún kom. Amma gaf mér nýja sálmabók sem kostaði 2 ½ krónur og nafna3 gaf mér 5 krónur og ætla ég að verja því fyrir koffort það sem hrekkur. Svo þú sérð nú að ég er bara orðin rík. Svo á ég nú eina á og er hún borin og er hrútur undir henni.
Mikið langar mig til að koma vestur og finna ykkur en mér finnst ég vera hálf vondauf um að það geti orðið í haust, að minnsta kosti er víst of snemmt að hlakka til þess undir eins.
Við biðjum öll ósköp mikið að heilsa öllum á þínu heimili en sjálf kveð ég með kossi í anda og óska þér líði ætíð betur en ég fæ beðið, það mælir þín ónýt frænka
Jóhanna Guðrún Pálmadóttir.
Skrifaðu mér aftur, ég veit að þú hefur ekki góðan tíma og má þess vegna ekki vera mjög heimtufrek,
sama Jóhanna.
1 Pálmi í Garðshorni veiktist af berklum skömmu eftir að hann fluttist í Garðshorn en náði nokkurn veginn fullri heilsu þótt eitthvað kunni að hafa skort á úthald.
2 Rúna á Draflastöðum var Guðrún Kristjánsdóttir (f. 1888) dóttir Hólmfríðar systur Steinunnar Önnu.
3 Jóhanna prestfrú á Bægisá. Einhverstaðar er við hæfi að koma því að að Gunnar faðir hennar var bróðir Tryggva bankastjóra og framkvæmdastjóra Gránufélagsins, Kristjönu móður Hannesar Hafstein ráðherra, Þóru sem Jónas Hallgrímsson á að hafa ort „Ferðalok“ til og fleira framáfólks á þeim tíma.
Hamri 16. júní 1914
Elsku dóttir mín.
Bestu óskir og þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir bréfið þitt og allt annað gott. Oft hef ég hugsað til þín í vetur og vor því ég hef verið með lakara móti til heilsunnar og held ég það hafi verið mest fyrir þennan langsama kulda og ..ið sem alltaf hefur verið. Nú finnst mér ég vera orðin frískari síðan skánaði í tíðinni. Getur vel verið að ég hefði drifið mig með feðgunum ef ég hefði átt hross sjálf en það er nú ekki að tala um það sem aldrei verður og sé ég það getur ekki orðið í vor héðan af. En ég voni nú eftir þú látir nú ekki bregðast að þú komir í haust ef Guð lofar okkur að lifa. Ég er nýkomin heim, ég fór í kaupstað og kom í Bótina um leið. Mér var tekið þar eins og vant er. Þar voru allir frískir. Stjáni fór á skip í vor. Sigurjón1 var í vinnu og Stebbi var nýkominn í vinnu og heldur til í Bótinni. Mæðgurnar2 verða í Skriðu í sumar. Þau fengi ekki að hafa partinn til ábúðar lengur en þau verða þar í húsunum og langar til að reyna að hafa kúna einhvernveginn. Það bað allt að bera þér kveðju sína hvort heldur yrði munnlega eða skriflega.
Ég keypti mér léreft í treyju og skýluklút og svolítið smádót. Ég var búin að hugsa mér að fá mér í peysupils en hætti við það því mér finnst tíðin ekki leyfa manni nema það sem nauðsynlegast er.
Ég ætla að senda skyrtuna, sokkana og borðana. Ég ætlaði þér svolítið dót sem ég keypti og þori ég ekki að senda það fyrr en Valdemar kemur. Ég bað að prjóna handstúkur handa Kidda úr afganginum og litar þú þær fyrir hann.
Það eru allir hér bærilega frískir og skepnurnar í bærilegu lagi eftir því sem nú gerist en búið er að gefa þeim talsvert af mat3. Þeir höfðu hey, bræðurnir, einkum Pálmi.
Það var fermt á Bægisá á uppstigningardag, fjórar stúlkur og einn drengur. Jóhanna ekki nema ein hér úr sókninni. Hún var á kyrtilbúningi. Það er eftirminnilegur dagur það sem veðrið snerti. Það var norðan bálviður og stórhríðarútlit og var öllum kalt. Ég fór til kirkju vegna þess Jóhanna var fermd og út í Garðshorn um kvöldið og svo heim.
Rúna frænka mín skrifaði mér í vetur og var það allt frískt þá en mikil harðindi þar framfrá í vetur en ég hef heyrt að Kristján hafi haft hey í vor og hjálpað öðrum. Svo held ég sé best að hætta þessu rugli því ég hræðist það sjálf og biðja þig lesa í málið fyrir mig og láta engan sjá það.
Svo bið ég hjartanlega að heilsa öllum en sjálfa þið kveð ég með kossi hjartans og bið Guð að annast þig í lífi og dauða. Það mælir þín elskandi móðir
Steinunn Anna Sigurðardóttir.
Ég voni eftir Valdemar komi við. Frændfólkið biður að heilsa ykkur.
1 Sigurjón var faðir Stefáns, síðar á Blómsturvöllum, fóstursonar Steinunnar og Guðmundar. Stefán kom til þeirra á Einarsstöðum og var þá titlaður niðursetningur.
2 Mæðgurnar voru líklega Sigríður Pálsdóttir, kona Stefáns, og Pálína Sigurrós, dóttir þeirra. Samkvæmt ábúendatali bjuggu Stefán og Sigríður í Svíra á þessum tíma en hafa e.t.v. verið húsfólk eða a.m.k. haft svo lítinn búskap að þau hafa framfleytt sér að hluta til með launavinnu.
3 „Matur“ var fóðurbætir, þ.e. mjöl. Þessi málvenja tíðkaðist í Garðshorni síðar, ánum og kúnum var gefinn matur.
Hamri 10. október (1914?)
Elsku dóttir mín.
Guð gefi að þessi miði hitti ykkur öll glöð og heilbrigð.
Mig langar til að rispa fáar línur til þín þó lítið verði af fréttunum eins og vant er hjá mér því ég vona að piltarnir þínir lofi mér að sjá sig ef þeir koma norður sem ég vona að verði. Allir eru frískir hér á þessum næstu bæjum og búið að heyja vel í meðallagi. Þeir hættu að slá bræðurnir eins og vant er, var því búið að gera fyrir öll hey og bera inn eldivið þegar spilltist. Þeir eru báðir búnir að kaupa sér kerrur og hér komin heim eldavél og búið að setja hana niður í eldhúsinu því ekki var annarsstaðar pláss.
Þeir eignuðust sinn drenginn hvor, Bótarbræðurnir, Einar og Stefán1 og einn er nýfæddur í Ási. Það fæðist fjöldi af börnum hér um pláss.
Jóhanna í Garðshorni hefur verið að gjöra ráð fyrir að fara vestur í haust að finna þig. Ef það verður þá fer hún með piltunum þegar þeir koma. En hvað það er barnalegt að skrifa svona en ég má til með að gjöra það nú því tíminn leyfir það síður seinna.
Af mér er það að segja að ég er aldrei vel frísk, ekki heldur mikið lasin. Ég var við innanbæjarverkin eins og ég hef verið í sumar og fór út þegar þurrkur var en alltaf finnst mér meir og meir til um að vera einmana því mér fannst það vera svo. Ég hef von um að geta látið lifa jafnmargt af skepnunum mínum eins og hefur verið fyrirfarandi.
Ég var frammi í Hálsi í sumar á þriðju viku. Helga2 átti barn og hafði aungva stúlku og hefðu þau verið til með að hafa mig í allt sumar en Frímann vildi heldur ég væri heima. Helga auminginn á mikið stríð því hún er líka svo heilsulítil. Hún var mér mikið góð og notaleg.
Hjartans þakklæti fyrir sendinguna og máttu geta nærri mér hafi komið hún vel því ég átti ekkert af hvorugu og bið ég Guð að launa þér það betur sem ég get óskað eða beðið. Ég sendi þér nátttreyju en það er leiðinlegt það vantar blúndurnar og drengjunum pappakassa af því lítið er ungs manns gaman og bið ég ykkur að fyrirgefa mér hvað þetta er ómerkilegt. Mér þætti vænt um ef Jóhanna litla gæti fundið þig. Ég veit þér þætti gaman að því og mér líka því alltaf er hún eins góð við mig eins og hún var og langar mig alltaf til að vera henni samtíða. Ég vildi ég yrði svo frísk í vor ef Guð lofar að ég gæti fundið þig en alla tíð vantar mig hross nema þú hjálpir mér en máske þú getir nú komið í vor. Mér finnst oft illþolandi hvað langt er á milli okkar. Svo er nú mál að hætta þessu ljóta klóri og biðja þig, elsku Bogga mín, að lesa í málið fyrir mig og láta engan sjá miðann. Svo kveð ég þig með kossi hjartans3 og bið Guð að vera ykkur allt í öllu. Það mælir þín vesæl móðir,
Steinunn A. Sigurðardóttir.
1 Stefán í Bótinni (Sandgerðisbót) var Stefán Valdimar Sigurjónsson, síðar á Blómsturvöllum. Baldur hét sonur hans sem þarna var nýfæddur. Mikael hét sonur Einars. Barnið sem fæddist í Ási hét Hermann Sigurjónsson, hálfbróðir Önnu ljósmóður, og dó 8 ára.
2 Helga Guðbjörg Sveinsdóttir (1885-1924) og Baldvin Sigurðsson (1872-1942) bjuggu í Hálsi 1910-1920 og höfðu áður búið á Syðri-Bægisá 1904-1906 og 1908-1909. Hún var systir Brynjólfs í Efstalandskoti, amma Magnúsar Ólafssonar læknis á Akureyri. Helga hafði verið vinnukona í Garðshorni hjá Steinunni og Guðmundi 1901 og síðar á Rauðalæk hjá Arnbjörgu 1907 en þá var Steinunn þar til heimilis. Helga þessi og Pálmi í Garðshorni voru sem sagt þremenningar og Baldvin og Pálmi voru líka þremenningar, Sigurður faðir Baldvins var sonur Sigríðar hálfsystur Sigurðar föður Steinunnar Önnu. Helga og Baldvin áttu 10 börn, 3 þeirra létust mjög ung og eitt tæplega tvítugt.
3 Þessi kveðja er oft notuð í þessum bréfum og mætti endurvekja. Sjáið fyrir ykkur þessi kveðjuorð í tölvuskeytum í stað „Bestu kveðjur“, „Kveðjur“ o.s.frv. „Ég kveð þig með kossi hjartans“ er málið.
Garðshorni 29. október 1914
Kæra frænka, ætíð sæl.
Nú sest ég niður við að skrifa þér hvernig mér gekk heim og ætla að byrja á ferðasögunni þar sem Kiddi skildi við mig fyrir norðan Grjótána1. Mér skilaði býsna mikið áfram þegar fór að halla undan fæti ofan af heiðarbrúninni. Svo hélt ég rakleiðis áfram þangað til ég kom út að Gili. Þar barði ég að dyrum og kom Anna2 fram. Hún sagði mér að ég gæti fengið fylgd yfir ána og bauð mér inn á meðan væri verið að ná hrossinu því það var ekki við. Ég stansaði svo í klukkutíma þar og drakk sætt kaffi. Áin var ósköp lítil og mér gekk vel yfir hana. Ég þóttist nú heppin að vera komin yfir ána og þrammaði heilmikið áfram og þegar ég var komin dálítið út fyrir Gloppu fannst mér að mundi vera kominn miðdagsmatartími og fór að líta í nestisböggulinn og fá mér bita úr honum.
Þegar ég kom milli Fagraness og Geirhildargarða fór ég að sjá þoku og færðist hún alltaf fram dalinn og þegar ég var fyrir ofan Engimýri, sá ég svo sem ekkert fyrir þoku. Samt hélt ég áfram og sá lítið fyrr en ég var fyrir neðan Hóla, þá rofaði ögn svo ég sá heim þangað, en ekki datt mér í hug að setjast þar að, og svo dimmdi aftur svo ég sá ekki nema svolítið bæði upp fyrir og ofan fyrir veginn. En hann sá ég alltaf glöggt því það var svo bjart af degi. Ég fór yfir Þverána á brúnni og þá sá ég götu upp af veginum sem ég vissi að mundi liggja heim að Þverá en hana fór ég ekki heldur hélt ég áfram eftir veginum og var alltaf að líta upp af veginum til að vita hvort ég sæi ekki rofa í Steinsstaði en aldrei sá ég það. En svo birti svolítið svo ég sá glóra í Bakkakirkju. Þá demdi ég mér upp af veginum því ég vissi að Steinsstaðir eru rétt á móti Bakka. Síðan rambaði ég heim og barði ég þar. Soffía Björnsdóttir3 kom þar til dyra og var engin fyrirstaða að ég fengi að vera þar um nóttina. Þegar ég kom inn í baðstofuna á Steinsstöðum var klukkan gengin þriðjung í sex og heldur þú nú að ég hefði haft mig heim ef bannsett þokan hefði ekki komið því ég var ekki orðin svo lúin að ég gæti ekki haldið áfram fyrir það.
Ég vaknaði nokkuð snemma og var þá öll þoka horfin en ekki fór ég í býti af stað því klukkan var orðin hálfellefu, þá loksins rólaði ég af stað og hélt tafarlaust áfram og heim.
Nú ætla ég að segja þér hvernig á stóð heima þegar ég kom. Það var verið að slátra 2 kindum til að fá í hrossblóðið því það var dregið að slátra hrossinu þangað til að ég kæmi heim. Ég heilsaði svo pabba og mömmu upp við hús þar sem slátrað var en ömmu og Manna4 heima í fjósi. Þau voru að rista ristlana en hinu fólkinu heilsaði ég inni. Amma kom upp eftir sama sunnudaginn sem ég lagði af stað vestur og hefur verið hérna síðan. Henni er nú heldur að skána það sem hún meiddi sig þegar hún datt þó hún sé ekki orðin nærri jafn góð af því. Ekki get ég sagt þér neinar fréttir í þetta sinn. Ég verð að skrifa þér þær aftur seinna. Ég bið að heilsa öllum á þínu heimili og kysstu litlu bræðurna fyrir mig en þig sjálfa kveð ég með kossi í anda og óska að þér líði ætíð sem best. Það mælir þín
Jóhanna Guðrún Pálmadóttir.
Segðu Kidda fyrir mig að Pétur5 hafi orðið eftir á Steinsstöðum og ég viti svo ekkert um hann meir.
1 Á þessum tíma hefur Kiddi verið á Silfrastöðum en hefur fylgt Jóhönnu austur yfir Grjótá á Öxnadalsheiði.
2 Anna Ólafsdóttir var móðir og bústýra bóndans á Gili, Þorsteins G. Halldórssonar. Tveir yngri bræður hans voru hjá þeim á Gili. Hann eignaðist síðar 10 börn með tveimur konum. En Jóhanna þurfti sem sagt að komast yfir um á og annar hvor bræðranna hefur reitt hana yfir.
3 Sjá það sem áður segir um Soffíu frænku Jóhönnu og Brynjólf son hennar.
4 Frímann í Garðshorni var löngum kallaður Manni og við hann var kjötið kennt sem hann færði stundum fjölskyldunni í Laxagötu.
5 Pétur hefur varla verið með Jóhönnu í för því hún hefur ekki minnst á hann áður. Líklega er þetta eitthvert spaug milli hennar og Kristfinns.
Hamri 10. mars (1915)
Elsku dóttir mín.
Guð gefi þér allar stundir gleðilegar. Ég rispi þessar fáu línur ef skeð gæti að einhver kæmi að vestan. Héðan er ekkert að frétta nema dauði og sorg, þar af leiðandi sem fleiri finna til en þeir sem nánastir eru. Það er óhætt að segja að Jóns1 heitins er almennt saknað. Frímann er að sækja kistuna utan um hann í dag inn á Akureyri. Þeir bræðurnir hafa hjálpað það sem þeir hafa getað.
Af sjálfri mér er það að segja að ég hef ekkert verið lakari til heilsunnar en að undanförnu nema ég hef verið svo slæm fyrir hjartanu og á svo bágt með að sofa og mörg ónot sem því fylgir. Mér finnst ég vera svo einmana og engum geta sagt hvorki þetta né annað og finn ég oft sárt til þess hvað langt er milli okkar og er mér nú þetta máski að kenna sjálfri. Það er enginn slæmur við mig en mér finnst mig þó eitthvað vanta.
Ég býst við að fara í Garðshorn í vor ef ég þarf á að halda. Mig hefur alltaf langað til að vera Jóhönnu litlu samtíða. Ég held hún verði mér góð. En þó er eins og ég kvíði fyrir að róta mér því helst hefði ég viljað vera í sama stað alltaf. Nú er útséð að enginn kemur til að fara með þennan miða. Ég ætli að senda hann eitthvað fram í dalinn. Ég fór út og upp í Rauðalæk þegar Jón heitinn var jarðaður að heyra húskveðjuna. Beið ég þar meðan farið var suður að Bægisá. Það var [svo] óttalega hvasst að ég treysti mér ekki. Það vantaði margt af fólkinu sem boðið var. Guðrún móðir Sigrúnar er í rúminu svo það er nú heldur erfitt allt.
Sigurgeir2 á Vöglum skrifaði mér til að kveðja mig. Hann segist ekki treysta sér frameftir. Ég var búin að skrifa honum áður því mig langaði til að kveðja hann áður en [hann] færi en það var mér ekki hægt fyrir ótíðinni. Bréfið er mikið gott og held ég hann berist af eftir öllum vonum því bágt á hann og fólkið hans og gleðilegt hefði verið að fylgja til grafarinnar hjá þessu mótlæti.
Það var safnað saman gjöfum handa hönum hér í hreppnum og held ég það hafi allir gjört með góðu.
Það má ég til með að segja þér að mér finnst ég ekki geta búist við að hafa kringumstæður til að komast vestur í vor því það er nú meira að gjöra í Garðshorni en hér. Svo vantar mig ævinlega hross sem ekki er nú minnst og er það nú leiðinlegt. Elsku Bogga mín, ef þú getur ekki komið í vor sem ég voni nú en það er ekki von ef þú ert ein. Svo held ég sé best að hætta þessu rugli og biðja þig lesa í málið. Svo kveð ég þig með brennheitum kossi hjartans og bið Guð að vera ykkur allt í öllu. Það mælir þín vesæl móðir
Steinunn A Sigurðardóttir.
1 Jón Júlíus Guðmundsson f. 23.7.1875, d. 28.2.1915, giftur Sigrúnu Sigurðardóttur f. 1875, d. 1957, hálfsystur Aðalsteins á Öxnhóli. Jón var bróðir Valdemars í Bólu og tók við búi á Efri-Rauðalæk þegar bróðir hans flutti vestur í Fremri-Kot.
2 Sigurgeir var holdsveikur og hefur hér líklega verið að fara á spítala til Reykjavíkur en þar var hann nokkur ár.
Garðshorni 20. júní 1915
Elsku dóttir mín.
Bestu þökk fyrir tilskrifið. Mig langar til að rispa fáar línur og segja þér af ferðalaginu inn í Bótina. Það eru allir frískir þar og mér var tekið þar vel eins og er en ekki var ég þar lengur en einn dag um kyrrt og þótti bæði mér og því það stutt stund. Þau fluttu þangað, Stefán1 og Sigríður, með börnin sín. Pálína er lítil en heldur lagleg, drengurinn heitir Baldur og er bæði stór og efnilegur. Þau eiga kúna sína svo nú er mjólk í Bótinni en ég er hrædd um að þau eigi erfitt að hafa fóður handa henni í vetur. Þau eru samt glöð og ánægð þó þau séu fátæk. Það bað mig allt að bera þér kæra kveðju frá sér á pappírnum fyrst ekki er hægt öðruvísi. Það er verið að byggja handa Einari hús fyrir sunnan Brautarholt en hann er á skipi og Guðbjörg er enn í Bótinni. Drengurinn þeirra heitir Mikael.
Ég keypti mér í peysupils og svuntu og koddaver, skýluklút og er nú að mesta talið og í skyrtuna sem ég lofaði þér og langar þær til að sauma hana en tíminn er naumur. Það er verið að hreinsa túnið og byggja hlöðu og nú er ég ein heima hjá drengjunum. Hitt fór til kirkju. Ef Ingibjörg2 kemur vildi ég geta sent þennan miða og vettlingana og þráðinn en sokkana veit ég ekki hvort mér verður mögulegt að prjóna í vor. En verst þykir mér ef þessi ferð bregst og ég get ekki sent þér þetta.
Það sem sjálfa mig snertir líður mér bærilega en aldrei er ég vel frísk, alltaf slæm í bakinu og ég kvíði fyrir sumrinu en það eru allir mér góðir og mér þykir skemmtilegra en að undanförnu. En ég veit ég hef meira að gera og vildi ég óska að Guð gæfi mér heilsu til þess. Það gladdi mig að þú hafðir skemmtun af ferðinni í vor og varst frísk á eftir og vildi ég mætti eiga von á þér oftar, elsku Bogga mín, ef ég lifi, en langt finnst mér á milli þess sem við finnumst. En ekkert gleður mig eins mikið og það að þið systkinin elskið hvert annað sem ég vona að sé.
Svo held ég sé best að hætta þessu rugli og biðja þig fyrirgefa og lesa í málið fyrir mig. Svo kveð ég með brennheitum kossi hjartans þig og bið Guð að vera ykkur allt í öllu, þess óskar þín vesöl móðir
Steinunn Anna Sigurðardóttir
Það biður allt skyldfólk að heilsa.
1 Stefán á Blómsturvöllum. Stefán hefur búið í Brautarholti í Bótinni, skammt innan við Krossanes, en fólkið í Garðshorni hefur greinilega aðeins talað um Bótina (Sandgerðisbót).
2 Hver skyldi Ingibjörg hafa verið? Skyldi það ekki hafa verið Ingibjörg Gunnarsdóttir í Sólheimagerði, systir Helgu í Garðshorni, sem hafði farið í kaupstað til Akureyrar? Sjá kafla um Gásaættina.
Garðshorni 30. júní 1915
Kæra frænka, ætíð sæl.
Í mesta flýti rissa ég þér fáar línur en engar fréttir get ég sagt þér því hér ber fátt til tíðinda. Það eru allir bærilega frískir nema það er kvefvella í okkur núna. Með þessum miða sendum við þér mynd og það er meira en hálftannað ár síðan við sátum fyrir og við fengum myndirnar á mánudaginn var. Við vorum steinhætt að eiga von á nokkrum myndum en aðalgallinn á myndunum er sá að þær eru allar meira og minna skemmdar. Fólkið segir að þær séu fjarska líkar okkur en mér finnst mín mynd ekki lík mér, er svo bjálfaleg á myndinni og kemur það til af því að myndin er tekin úti og mér var hálfkalt. Myndir eru ævinlega blæljótari þegar þær eru teknar úti.
Amma sendir þér skyrtu með þessu bréfi en jafnframt verðum við að biðja þig innilega að fyrirgefa okkur að hún er óhrein. Við höfðum svo mikið að gjöra að við vorum á hlaupum við að sauma hana og kláruðum hana ekki fyrr en í morgun en viljum heldur gera okkur það til skammar að senda þér hana svona en að verða af þessari góðu ferð en svo ætlar amma að bæta ögn úr því og senda þér sápuspil með.
Okkur langar til að biðja þig að koma annarri myndinni til Ingibjargar1 í Sólheimagerði. Amma biður þig að koma minnispeningnum til Kidda á Silfrastöðum2. Hún lætur hann innan í þetta bréf.
Það biðja allir hjartanlega að heilsa ykkur. Vertu svo ævinlega blessuð og sæl og líði þér ætíð sem best. Þess óskar af hjarta þín frænka
Jóhanna G. Pálmadóttir
1 Ingibjörg Gunnarsdóttir, systir Helgu Sigríðar í Garðshorni
2 Hér er Kristfinnur Guðjónsson vinnumaður á Silfrastöðum eins og segir frá í sögu Guðmundar G. Hagalín um „Konuna í dalnum og dæturnar sjö“.
Ódagsett kort til húsfrúr Arnbjargar Guðmundsdóttur á Fremri-Kotum í Skagafirði:
Kæra frænka mín!
Ég skrifa þér nokkrar línur á þessa stúlkumynd sem mér þykir svo leiðinleg að ég get varla fengið af mér að senda þér hana. Lítið hef ég ferðast síðan ég kom vestan að til kirkju og á eitt ball út á Rauðalæk. Ekki skrifa ég þér neinar fréttir því Kiddi segir þér þær allar. Ég bið að heilsa þínu fólki. Líði þér ætíð sem óskar þín frænka
Jóhanna Pálmadóttir1
1 Ekki er gott að segja hvenær kortið er sent en hér er altént Jóhanna nýkomin að vestan. Ekki er vitað hversu oft hún fór en greinilega voru gagnkvæmar heimsóknir tiltölulega tíðir viðburðir.
Ódagsett kort til Herra Kristfinns Guðjónssonar,
Fremri Kotum, Norðurárdal, Skagafirði.
Góði vinur minn. Ég óska þér góðs og gleðilegs nýárs og sendi þér þessa mynd af því ég veit að þú hefur svo gaman af stúlkum. Með kærri kveðju, þinn einlægur vinur
Pálmi Jónsson1
1 Líklega var Pálmi þessi fæddur í Engimýri 1901, var síðan í Hólum í Öxnadal og síðar verkamaður á Akureyri. Ekki er heldur vitað hvort Kristfinnur var enn heimilisfastur á Fremri-Kotum þegar þetta var skrifað eða hvort hann var vinnumaður á Silfrastöðum.
Garðshorni 27. september 1915
Elsku Bogga mín, kæra þökk fyrir síðast og allt annað gott mér auðsýnt hefur.
Mig langar til að rispa fáar línur til þín því ég er að vona að Valdemar1 komi við. Það eru allir frískir hér á þessum bæjum og heyskapurinn í meðallagi. Pálmi tekur af mér fimm ær en Frímann tvær ær. Ég keypti heyið handa annarri, svo er tekin af mér ein ær og lamb á Vöglum2.
Ragnhildur3 gamla kom hér út á bæina í sumar og kom með sokka og vettlinga handa drengjunum þínum og þæfði ég þá fyrir hana. Hún biður þig að fyrirgefa sér hvað það væri ómerkilegt. Við Jóhanna fórum fram að Skjaldarstöðum í sumar. Svo hef ég ekki farið annað. Svo langar mig til að fara út að Vöglum einhvern tíma í haust ef ég verð frísk og hef tíma til því alla tíð er mikið til að gjöra. Það er komið það sem þú baðst Maríu4 að panta. Ég lánaði þér fyrir það hún vildi ekki eiga á hættu að panta pottinn svo hann skemmdist ekki en hitt kostar 1,85. Svo sendi ég þér 12 klemmur og einu sinni í bollann þinn súkkulaði og litlu bræðrunum einn pakka af kertum til að kveikja á jólunum og vildi ég þá vera komin til ykkar því ég veit að litlu andlitin eru þá hýr og brosandi. En ég hugga mig við að þið munið eftir mér eins og ég eftir ykkur. Rúna5 frænka okkar skrifaði mér snemma í sumar og voru þá allir frískir en hún segir að foreldrarnir hafi bæði oft verið lasin í vetur.
Ekki fæ ég neitt bréf frá systkinum mínum síðan í fyrrahaust að Margrét6 skrifaði mér og þykir mér það leiðinlegt.
Af sjálfri mér er það að segja að ég hef verið heldur vel frísk í sumar eftir því sem ég get búist við og mér hefur liðið heldur vel. Það eru allir mér góðir en meira hef ég haft að gjöra en undanfarin sumur. Ég gerði í bænum að mestu leyti. Svo fór ég oft út seinnipartinn.
Ég hef verið betri í bakinu en oft að undanförnu en aldrei fundið til í handleggjunum fyrr en í sumar og ég hef oft getað sofið heldur vel en framan af í sumar var ég slæm af magaveiki. Ég brúkaði kína og hefur hann bætt mér það.
Svo má ég til að hætta þessu rugli og biðja þig að lesa í málið fyrir mig. Ég rispa eina línu í senn því það er verið að keyra svörð. Svo á að fara að slátra fyrir mig í kaupstaðinn en nú er ég búin að sjóða slátrið og hjálpaði Jóhanna mér til við það meðan hjónin voru í kaupstaðnum. Hjartans þakklæti fyrir sendinguna og bið ég Guð að launa ykkur það. Svo þarftu þá ekki að borga það sem ég lánaði þér fyrir pöntunina. Svo kveð ég þig með kossi hjartans og bið guð að annast ykkur. Það mælir þín móðir
Steinunn Sigurðardóttir
1 Valdemar á Fremri-Kotum sem gæti hafa verið í kaupstaðarferð til Akureyrar. Hér er Steinunn flutt frá Hamri upp í Garðshorn og er þar í húsmennsku og lifir af arði af nokkrum ám.
2 Á þessum tíma bjuggu þar Sigurgeir Guðmundsson og Ólöf Manasesdóttir (ábúendur 1899-1929, þau bjuggu síðan 1 ár á Grjótgarði), foreldrar Aðalsteins bónda á Grjótgarði (1930-1946). Ólöf var systir Guðjóns föður Kristfinns. Vinfengi var milli Vaglafólksins og Steinunnar sem gæti hafa ráðið einhverju um að Kristfinnur var tekinn í fóstur í Garðshorn.
3 Ragnhildur gamla frá Skjaldarstöðum, amma Jóns, Aðalheiðar, Ólafs, Ragnhildar og Kristmanns. Ragnhildur hefur verið 82 ára.
4 María á Laugalandi, systir Margrétar og Steina.
5 Guðrún á Draflastöðum, dóttir Hólmfríðar, systurdóttir Steinunnar og móðir Hólmfríðar í Villingadal.
6 Anna Margrét f. 1857 systir Steinunnar. Hún fluttist í Einarsstaði á eftir Guðmundi og Steinunni 1878. Hún fór til Kanada á eftir bræðrum sínum og hefur skrifað þaðan. Þessi ummæli Steinunnar benda til að þau systkinin hafi skrifast á þó að bréfasendingar hafi ekki verið tíðar.
Garðshorni 16. mars 1916
Elsku dóttir mín!
Guð gefi að þessi miði hitti þig glaða og heilbrigða. Mitt innilegasta þakklæti á þessi miði að færa þér en engar fréttir aðrar en af sjálfri mér því Jóhanna segir þér þær allar. Af mér er það að segja að ég var nokkuð frísk fram að jólum, þá varð ég svo slæm af giktinni. Líka fékk ég kvef og vondan hósta og hef ég hann enn, þó nokkuð vægari en engan dag hef ég verið alveg í rúminu. Það máttu allir koma sem vildu að Bægisá í vetur þegar Valgerður1 sáluga var jarðsungin og sá ég mikið eftir því að geta ekki farið. Það var svo slæmt veður en það hefur verið skemmtilegt að heyra til prestanna. Þeir voru þrír, séra Jón, séra Geir og séra Þorsteinn. Öllum þótti best að heyra til hans. Það hefur verið sorgarheimili þar í vetur.
Mér var boðið þegar Guðrún2 sálaða á Rauðalæk var jarðsungin. Þá var líka svo vont veður að ég gat ekki farið. Mér var boðið þegar Jón3 sálaði á Laugalandi var jarðsunginn en þá var mikil ófærð. En ég var heima hjá Hamarsbörnunum svo hitt gæti farið. Það eru allir frískir og María4 verður þar kyrr. Guji5 litli kom til mín og var hjá mér tvær nætur og Ólöf6 á Vöglum kom að finna mig og var hjá mér í tvær nætur. Sigurgeir skrifar með hverjum pósti og er hann heldur á batavegi og kann nú orðið betur við sig þó heimþráin sé hin sama. Ekki máttu hugsa, elsku Bogga mín, að ég sé búin að gleyma þér. Enn man ég best eftir þér á kveldin þegar ég er háttuð og get ekki sofnað og vildi þá geta beðið til Guðs fyrir mér og ykkur, elsku börnin mín.
Það er meira af vilja en mætti gert að rissa þessar línur en þú lest í málið fyrir mig. Mér líður vel það sem mennirnir geta að gert og ég vona ég verði kyrr hérna eftirleiðis.
Ég vildi ég mætti óska og vona þú komir í vor að finna mig því ég er nú orðin eins og barn. Svo bið ég hjartanlega að heilsa þínu fólki, Gunnari litla með þakklæti fyrir bréfið hans sem ég gat lesið viðstöðulaust. Svo kveð ég þig í anda og bið Guð að varðveita ykkur öll í bráð og lengd. Það mælir þín móðir
Steinunn Anna Sigurðardóttir.
1 Valgerður var 11 ára dóttir presthjónanna á Bægisá.
2 Guðrún Árnadóttir (?-1916) lést úr meinlætum á Efri-Rauðalæk 62 ára gömul. Hún var móðir Sigrúnar húsfreyju þar sem var hálfsystir Aðalsteins á Öxnhóli. Guðrún og Rósant á Efstalandi og Jóhannes í Fagranesi voru systkinabörn.
3 Jón Einarsson á Laugalandi f. 1830, var faðir Sigurbjargar móður Margrétar á Hamri og Kristjáns Steinstrups sem um þessar mundir bjó á Efri-Rauðalæk ásamt Árna bróður sínum, Árni titlaður bóndi. Þeir bjuggu á móti Sigrúnu sem þá var nýorðin ekkja.
4 María systir Margrétar.
5 Guðmundur Júlíus Frímannsson á Hamri, þá 6 ára.
6 Ólöf Manasesdóttir á Vöglum var föðursystur Kristfinns Guðjónssonar. Hér er Sigurgeir maður hennar greinilega kominn á holdsveikraspítalann í Reykjavík.
Garðshorni 8. október 1916
Elsku Bogga mín, ætíð sæl.
Hjartans þakklæti fyrir sendinguna sem ég bið Guð að launa ykkur. Ég hef nóg fyrir mig en ekkert af því sem þú sendir mér.
Hér gengur allt eins og í sögu. Það eru allir frískir nema Pálmi er ekki vel frískur. Þó gjörir hann öll sín vanalegu haustverk. Það varð góður heyskapur hér, bæði taða og úthey með meira móti. Það var kaupamaður eina viku á engjaslættinum. Hitt slógu drengirnir og Pálmi ofurlítið seinnipartinn. Hann tekur af mér fimm ær í vetur. Frímann tekur af mér eina á og á Vöglum verða tvær og lamb á Skjaldarstöðum. Svona verður mér alltaf vel til. Ég kveið svo mikið fyrir þessu sumri en nú er það næstum því á enda og hefur það verið gott og hagstætt síðan batnaði og finn ég hvað mikil heimska það er að kvíða ókomna tímanum og er búin [að] reyna svo oft á ævinni sem er nú orðin nokkuð löng að sá algóði faðirinn hefur alltaf haldið sinni verndarhendi yfir mér og treysti því hann gjöri það framvegis.
Af mér er það að segja að ég er aldrei vel frísk. Framan af í sumar var ég slæm af giktinni en nú er ég mikið betri af henni. En þá er aftur annað: Ég er svo slæm fyrir hjartanu sem er nú langt síðan ég hef fundið til en ég var orðin svo slæm að ég fór í kaupstað og fann Valdimar lækni. Sagði hann það væri í taugunum sem lægju frá hjartanu en hjartað sjálft væri frítt. Ég fékk meðul og er ég mikið skárri síðan. Ég get sofið því mér fannst það mundi alveg eyðileggja mig að geta það ekki.
Ég hef alltaf druslast við að gjöra bæjarverkin frá því útivinna byrjaði til gangna og fór stundum út þegar þurrkað var. Ég fór fram í Háls í sumar eitt laugardagskveld og heim á sunnudaginn. Ég kenndi í brjósti um aumingja Helgu. Mér sýndist hún vera svo fjarska lúaleg. Ég óska það skipti um fyrir henni til þess betra.
Svo fór ég út að Vöglum einn sunnudag í sumar svo ég er nú búin að ferðast heilmikið. Mér finnst ég frískast alla tíð að koma á hestbak.
Elsku Bogga mín, ég hef aldrei verið eins ógerðarleg þegar þú hefur sent mér eins og nú. Það er ekki gott að útvega sér í það sem mann vantar. Sumt fæst ekki en sumt svo dýrt [að] það er ókaupandi. Ég sendi þér svolítið af súkkulaði og kaffi og enn litla sykurkassann því sykurinn er skammtaður í vetur. ... (niðurlag vantar)
(Steinunn Anna Sigurðardóttir)
Garðshorni 15. nóvember 1916
Kæra frænka, ætíð sæl!
Nú loksins læt ég verða af að rissa þér nokkrar línur ef ske kynni að þú hefðir gaman af að lesa þær. Og ætla ég þá að byrja á að segja þér eitthvað af okkur en það er nú reyndar ekki annað hægt að segja en okkur líði vel. Pabbi hefur betri heilsu núna en hann hafði í vor og sumar. Hann gerir talsvert af útiverkum með drengjunum en losar ekki hey. Amma er núna niður á Hamri. Hún er búin að vera þar undir hálfan mánuð. Margrét er inn frá undir læknishendi. Hún hefur verið slæm í augunum til fleiri ára en í sumar versnaði henni allt í einu svo mikið að hún varð að fara inn eftir og sagði læknirinn henni þá að ef henni ekki batnaði af því sem hann lét hana þá hafa, yrði hún að koma inn eftir og vera inn frá en svo dró hún að fara inn eftir þangað til sláturtíð var úti. Hann bjóst nú ekki í fyrstunni við að hún þyrfti að vera inn frá nema viku en svo sagði hann aftur seinna að hún þyrfti að vera hálfan mánuð. En amma verður neðra á meðan Margrét er inn frá.
Af mér er það að segja að ég hef verið út á Rauðalæk núna undanfarna daga að sauma mér reiðföt. Ég hef alltaf gengið heimanað og heim svo það hafa verið svona 6-7 tímar sem ég hef saumað á dag enda var ég vikuna við það. Ég er bæði sein að sauma og svo hálfleiðist mér það líka. Ég held þú fréttir það aldrei af mér að ég verði saumakona. Ég á líka efni í treyju sem Sigurbjörg1 ætlar að segja mér til að sauma helst fyrir jólin ef ekkert kemur fyrir.
Mislingarnir eru alltaf að útbreiðast. Þeir eru komnir í Skóga og Vindheima. Marinó2 fékk þá fyrstur í Skógum en svo höfum við frétt að hann væri núna kominn á fætur en það lægju þar 5 í mislingum. Á Vindheimum liggja þeir Tryggvi og Kiddi3. Svo var Karli ekið á sleða inn eftir í gær dauðvona og átti að skera hann upp. Það var eitthvað í görnunum í honum. Þú ert víst búin að frétta að þau giftu sig í sumar, Rósa og Karl4, og fór hún inn eftir núna með honum ásamt 3 mönnum sem fengnir voru af bæ til að flytja hann inn eftir. Maður innan frá Einarsstöðum gerir útiverkin þar núna.
Það hefur verið góð tíð hér í haust en núna fyrir stuttu gerði hríðar og snjó, nokkuð mikinn, en svo hefur verið hláka og gott veður í gær og dag svo það er orðið mikið rauðflekkótt jörðin.
Jæja, Bogga mín! Kannski þú hafir ekkert gaman af að lesa þetta rugl. Við Manni sitjum úti í nýja húsinu sem verið var að byggja í vor þegar þú komst. Hann er að skrifa Kidda og við erum farin að heyra hroturnar úr fólkinu sem er víst allt steinsofnað inni í baðstofunni. Við erum að strekkja við að skrifa þetta núna af því við fáum svona góða ferð með Gunnari5 því að það er ekki víst að við hefðum haft mannskap í okkur að gera það seinna þó skömm sé nú frá að segja og sannarlega ættir þú það skilið af mér að ég skrifaði þér mikið oftar en ég geri ef þú hefðir nokkurt gaman af að fá bréf frá mér.
Svo er nú víst best að fara að hætta þessu rugli. Skilaðu kærri kveðju frá mér til litlu drengjanna og segðu Gunnari að okkur ömmu þætti ósköp vænt um ef hann vildi skrifa okkur einhvern tíma í vetur.
Að endingu óska ég að guð gefi að þér megi ætíð líða sem best. Þess óskar þín ónýt frænka
Jóhanna Guðrún Pálmadóttir
Það biðja allir ósköp vel að heilsa ykkur öllum. Vonast eftir bréfi frá þér seinna í vetur.
1 Sigurbjörg (1882-1976) systir Margrétar á Hamri var saumakona á Akureyri. Hér hefur hún verið ráðskona hjá Árna og Steina, bræðrum sínum.
2 Marinó Laxdal Stefánsson (1901-1993) í Skógum, bróðir Eiríks, var kennari og gerði skriftarkennslubækur.
3 Kristinn Friðriksson, sonur Sigurrósar Pálsdóttur (1872-1926) sem nú var flutt upp í Efri-Vindheima og gift Karli Guðmundssyni sem var 13 árum yngri en hún. Með henni fluttust frá Neðri-Vindheimum 7 börn hennar en Karl átti 8 ára dóttur fyrir. Ekki er vitað með vissu hver Tryggvi var en hann gæti hafa verið Sigtryggur Sigtryggsson, faðir Maríu.
4 Karl Guðmundsson (1885-1974) hefur lifað af uppskurðinn, nýgiftur Sigurrósu á Neðri-Vindheimum.
5 Ekki er vitað hvaða Gunnar þetta var sem var þarna á leið vestur yfir heiði.
Garðshorni 15. janúar 1917
Elsku dóttir mín.
Guð gefi þér og ykkur gott og gleðilegt ár. Hjartans þakklæti fyrir bréfið þitt í vetur sem mér þótti vænt um eins og ævinlega þegar ég fæ bréf frá þér. Nú loksins fer ég að rispa þér fáar línur þó ég viti nú enga ferð. Hér hefur verið fjarska mikill snjór síðan viku fyrir jól og má heita svo að ómögulegt hafi verið að fara nokkuð nema á skíðum en nú er þítt svo snjórinn sígur eitthvað. Okkur var öllum boðið út að Rauðalæk1 á gamlaárskvöld og fórum við öll. Allir frá Hamri voru þar, svo var þar fólk utan af bæjunum. Það var dansað og spilað á spil inni í baðstofu. Það komu allir frá Hamri milli jóla og nýárs upp í Garðshorn en við fórum á þrettánda í jólum niður að Hamri og ég var þar tvær nætur. Það verður nú að öllum líkindum í seinasta sinn sem þetta fólk getur gert það sér til gamans að finnast því nú ætlar það burt frá Hamri í vor fram í Efstaland sem ég veit þú hefur heyrt og kvíði ég fyrir að sjá ekki litlu börnin eins og ég finn sárt til við svona tækifæri að þig vantar í hópinn og þitt fólk.
Ég var á Hamri í mánuð í vetur á meðan Margrét var innfrá. Hún var í Bótinni en fór til Valdimars læknis á hverjum degi og kostaði hans hjálp tuttugu krónur. Eitthvað er hún betri í auganu en hvort það verður til lengdar veit ég ekki.
Það held ég bróður þínum kæmi vel ef þú gætir hjálpað honum um skæði því hann hafði ekki annað að ganga á en nýju skóna. Ég fór snöggvast heim og bað Helgu að hjálpa mér um [skó á] móti skógarmi sem til var og gjörði hún það en daginn eftir kom Pálmi með nýja leðurskó og gaf bróður sínum. Þótti mér vænna um það en þó mér hefði verið gefið mikið meira.
Ég get ekki sagt þér um skápinn. Árni2 sagðist ekki geta sagt um það fyrr en seinna. Jóhanna biður mig að segja þér hún geti ekki látið þig hafa brúðuna því það fæst ekki brúðuhaus í öllum kaupstaðnum en sokkaböndin færðu einhvern tíma.
Það eru allir frískir nú sem stendur en nú er von á mislingum á hverri stundu. Þeir eru komnir í Efri-Rauðalæk og stendur yfir skólinn. Sigurbjörg3 á Laugalandi hefur verið þar síðan snemma í sumar, svo kom Bogga dóttir hennar og ætlaði að vera þar um tíma en nú er hún lögst í mislingunum.
Þú skrifar mér línu ef þú færð þennan miða ...
... óundirritað af Steinunni Sigurðardóttur.
1 Jólaboð milli bæjanna fremst á Mörkinni urðu föst venja næstu árin. Eftir að Haraldur Pálsson flutti í Rauðalæk, heimsóttu fjölskyldurnar í Garðshorni og Rauðalæk hvor aðra um hver jól og mikil vinátta var þar á milli. En hér kemur það fram að Frímann og Margrét eru að flytja fram í Efstaland sumarið 1917. Efstaland þótti þá betri jörð en Hamar. Frímann og Margrét voru líklega leiguliðar á Hamri en þurftu að kaupa Efstaland hærra verði en Margréti þótti hæfilegt.
2 Árni smiður frá Laugalandi, þá nýfluttur frá Efri-Rauðalæk í Krossastaði þar sem hann var lausamaður en Kristján Steinstrup bróðir hans var enn á Efri-Rauðalæk, titlaður bóndi á móti Haraldi Pálssyni.
3 Líklega er hér um að ræða Sigurbjörgu Jónsdóttur móður Margrétar, Steina og þeirra systkina frekar en Sigurbjörgu saumakonu, systur þeirra.
Kort til húsfrúr Arnbjargar Guðmundsdóttur, Fremri Kotum
Garðshorni 17. febrúar 1917
Kæra frænka mín!
Mitt innilegasta þakklæti á þetta kort að færa þér.
Af okkur er ekkert að frétta nema við erum öll bærilega frísk. Amma er ekki heima núna, hún fór í gær út að Vöglum og gerir ráð fyrir að vera 3 – 4 daga. Tíðin hefur verið góð alltaf annað slagið, hláka á þorranum og það sem liðið er af góunni svo nú er mikið rautt, ólíkt minni snjór núna en í fyrra, hvernig sem tíðin verður nú í vor, óskandi að hún yrði líka betri.
Ég ætla ekki að skrifa þér nema svona fáar og ómerkilegar línur núna en langar til að skrifa þér aftur seinna og bið þig að fyrirgefa hvað þetta er ómerkilegt.
Svo bið ég góðan guð gæta ykkar allra um tíma og eilífð, það mælir
Jóhanna Pálmadóttir
Garðshorni 7. maí 1917
Elsku dóttir mín.
Guð gefi að þessi miði hitti þig glaða og heilbrigða. Ég vildi vera orðin góður skrifari svo ég gæti skrifað þér. Kiddi skrifaði Manna. Þá óskaði ég að ég gæti skrifað þér líka því margt mætti tína til í eitt bréf. Það hefur alltaf verið hér slæm tíð síðan fyrir páska, hríð meira og minna flesta daga svo mönnum er ekki farið að lítast á það en enginn er heylaus enn sem ég veit til.
Það verður nokkuð mikil breyting hér á flestum bæjum sem ég veit þú hefur heyrt. Sigurbjörg á Laugalandi hefur verið á Rauðalæk síðan í fyrra en nú fer hún aftur heim til sín. Árni verður við smíðar til og frá en Steini1 verður hér til heimilis en hefur þó þriðja partinn af Rauðalæk. Verður hann í samvinnu við fólkið hérna. Svo verður þessi breyting á Hamri2 sem ég veit þú hefur nú heyrt. Kvíði ég nú fyrir að fá ekki að sjá litlu börnin sem var mesta ánægjan mín meðan ég var þar. Mér finnst það nú verða nokkuð langt í burtu frá mér.
Ég veit ekki hvernig það er, mér finnst alltaf ég fái að sjá þig í vor en þó er ég nú vonarveik að það verði og máski að enginn komi norður í vor því nú sem stendur er lítið að sækja í kaupstaðinn. Enn á ný búið að skipta sykrinum og þótti mörgum vænt um það. Ekki var ég orðin alveg sykurlaus svo ég get gefið þér að smakka kaffi ef þú kemur.
Af sjálfri mér er það að segja að ég er lík til heilsunnar og hefur verið. Ég hef slæman hósta, svo er giktin ekki búin að yfirgefa mig. Það hefur verið hlýtt og notalegt hér inni í vetur og er mér það fyrir miklu. Haraldur bróðir minn skrifaði mér í vetur. Lætur hann ekkert vel af lífinu þar. Mikill brestur á uppskeru og allt svo voðalega dýrt. Kaupið fjórir dollarar á dag. Það eru margir komnir í stríðið. Þó er verst finnst aumingja Haraldi hann þolir enga stranga vinnu.
Stebbi3 í Bótinni skrifaði mér í vetur og sagði mér nafni sinn á Hlöðum væri búinn að byggja sér hálfan Grjótgarð og ætlaði að lána sér hálfa kú og fleira og var hann eða þau vel ánægð að fara þangað. Hann sagðist hvergi mundu una sér betur svo hann bað mig að koma og dvelja hjá þeim ofurlítið. Hann hefur verið kennari í vetur og hefur haft gott upp úr því en nú fyrir tíma – ég veit ekki hvað langt er síðan hann fékk illt í hálsinn og var orðinn mállaus þegar hann kom á spítalann. Nú er hann kominn heim en sjötíu krónur kostaði veran hans þar. Er það mikið fyrir hann og tapa svo kennslulaunum. Ég óska af alhug að Guði þóknaðist að gefa honum heilsu til að vinna fyrir sér og sínum.
Svo held ég sé best að hætta þessu klóri og biðja þig, elsku Bogga mín, að lesa í málið fyrir mig og fyrirgefa mér þetta klór. Svo bið ég hjartanlega að heilsa þínu fólki en sjálfa þig kveð ég með brennheitum kossi hjartans. Það mælir þín móðir
Steinunn Anna Sigurðardóttir
Ég skrifa þér í vetur. Svo bið ég [þig að] skrifa mér línu ef þú færð þennan miða.
Ég heyrði núna rétt að Stebba sé batnað í hálsinum en sé að fá illt í annan fótinn. Svo biðja allir hér að heilsa ykkur og óska ykkur gleðilegs sumars.
1 Steini – Kristján Steinstrup Jónsson – bjó áfram á Efri-Rauðalæk á móti Haraldi Pálssyni fyrsta árið eftir að Haraldur flutti þangað með Katrínu konu sinni og börnum. Þó að það sé hvergi sagt í bréfunum er ljóst að Steini var farinn að stíga í vænginn við Jóhönnu í Garðshorni 18 ára gamla, fluttur þangað en búinn að taka á leigu þriðjung af Neðri-Rauðalæk en þar bjó þá Sigvaldi Baldvinsson faðir Rósants síðar bónda í Ási. Sigvaldi og Baldvin faðir Sverris í Skógum voru systkinasynir. Árni bróðir Steina var lausamaður á Krossastöðum og var við smíðar „til og frá“ en móðir þeirra átti enn heima á Laugalandi.
2 Frímann og Margrét eru að flytja frá Hamri í Efstaland en Rósant bóndi á Efstalandi er að flytja í Hamar ásamt Guðrúnu konu sinni og börnum sínum Þorleifi, Hallfríði, Ragnheiði og Bjarna. Þorleifur og Hallfríður – Fríða á Hamri – voru þar til 1968 þegar Þorleifur fékk hjartaslag í fjárragi heima á túni, þá flutti Fríða til Sigurðar Sigmarssonar fóstursonar þeirra. Ragnheiður lést á Hamri 26 ára en Bjarni starfaði sem múrarameistari á Akureyri.
3 Stebbi í Bótinni var Stefán V. Sigurjónsson fóstursonur Steinunnar, upphaflega niðursetningur hjá þeim Guðmundi á Grjótgarði.
Garðshorni 26. janúar 1918
Elsku dóttir mín.
Hjartans þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir bréfið þitt og allt annað gott. Mér þykir skemmtilegt að heyra að þér líður vel því ekkert gleður mig eins mikið sem það að vita að ykkur líði bærilega, börnunum mínum. Það var ..riðlegt á Efstalandi í haust, það voru veikindi bæði á mönnum og skepnum. Frímann fékk snert af blóðeitrun í aðra höndina og var fjóra daga inni á Akureyri. Þegar hann kom heim var sumt af ánum hans veikar af lungnabólgu og var læknis vitjað. Fjórar missti hann en hinar tórðu af. Svo veiktist Guji litli fjarska mikið og var það liðagikt sem að honum gekk. Pabbi hans fór tvær ferðir að útvega meðul og batnaði honum fljótt. Svo var Anna litla lengi lasin og vinnukonan var í rúminu. Henni var illt í fæti. Nú er það allt orðið frískt. Þeir eru báðir í kaupstað núna bræðurnir og Guji litli er nú sem gestur hjá mér og Steingrímur1 frændi Helgu er hér líka.
Þú hefur máski frétt að það fjölgaði á Grjótgarði2 á aðfangadaginn. Það er drengur. Það gekk allt vel og Sigríður frískaðist fljótt. Hún klæddi sig á nýársdag og hafði ekki nema lítið stúlku en Stebbi meiddi sig og var eitthvað í rúminu. Svo var hann kominn á flakk seinast þegar ég frétti en ekki þætti mér ólíklegt því væri kalt að búa í stofunni og hafa ekki nema lítinn ofn til að hita upp og svo að sækja eldiviðinn inn í Sólborgarhólsgrafir. Hef ég oft hugsað um það í vetur því mér finnst ég ætla að frjósa þegar ég kem fram í bæinn, þar frýs allt sem frosið getur3 en það er heldur góður hiti í baðstofunni.
Hér eru allir frískir nema ég sem við er að búast. Ég hef haft vondan hósta í vetur og svo á ég bágt með svefninn eins og fyrr. Ég reyni samt til að gera ofurlítið í höndunum. Ég tætti fyrir jólin fjörutíu pör af sjóvettlingum. Parið var á fimmtíu aura og keypti ég mat fyrir það.
Ég er helst að hugsa um að reyna til að druslast svona hjá sjálfri mér ef mér hnignar ekki mjög mikið en ekki má nú muna miklu að ég geti gjört yfir sumarið það sem mér er ætlað en satt að segja langar mig ekkert til að vera hér ef ég þarf að vera hjá öðrum. Mér finnst ég aldrei hafa fyrir neinum að kvarta og þar af leiðandi einmana. Það eru allir svo langt í burt sem ég ann(?) mest og ekki langar mig eins mikið til að vera hjá neinum eins og þér ef mikið þarf að hjálpa mér. Svo held ég sé mál að hætta þessu rugli og biðja þig að lesa í málið fyrir mig.
Svo kveð ég þig og bið Guð að annast þig og þína, það mælir þín mamma,
St. Sigurðardóttir
Ég var búin að biðja Árna4 fyrir bréf en hann fór ekki með póstinum í þetta sinn. Við fréttum að Jóhannes í Engimýri ætli vestur, verður hann beðinn fyrir það..
1 Steingrímur Baldvinsson sonur Guðrúnar Gunnarsdóttur á Ólafsfirði.
2 Hjá Stefáni Sigurjónssyni og Sigríði. Þorsteinn fæddist 24. des. 1917.
3 Enda „frostaveturinn mikli“, heljarfrost í janúar og fram í byrjun febrúar. 37,9 gráðu frost mældist á Grímsstöðum sem er met sem enn stendur.
4 Líklega Árna H. Jónsson frá Laugalandi
Garðshorni 26. febrúar 1918
Kæra frænka mín!
Nú loksins læt ég verða af því að rissa þér nokkrar línur ef ske kynni að þú hefðir gaman af að lesa þær. Héðan er fátt að frétta sem verulegum tíðindum sætir. Okkur hefur þótt tíðin fremur óstillt í vetur og framúrskarandi, frost annað slagið, snjórinn er heldur lítill því þó hríði annað slagið hefur alltaf hlánað og bleytt í snjónum á milli svo það eru einlæg svell og gaddur yfir allt. Af okkur er það að segja að við erum öll bærilega frísk og líður þar af leiðandi vel. Það hefur verið þónokkuð mannmargt hjá okkur annað slagið í vetur. Einar1 fékk keypt fæði hér yfir skólatímann og stúlkukrakki frá Tréstöðum2. Svo voru 2 börn hér frá Vöglum en þeim var lagt til fæði. Svo eru þeir hérna núna Einar og Helgi í Garðshorni3. Þeir fengu stofuna á Rauðalæk til að vera í við að taka uppdrætti af öllum jörðum í Glæsibæjar- og Öxnadalshrepp en þeir gátu ekki fengið fæði þar svo þeir eru hér á nóttunni og kaupa fæði. Þú getur nú ímyndað þér hvort ekki muni vera hálf þröngt í kotinu þegar svona margir eru aðkomandi en svo finnst þér nú kannski ekki ósköp amalegt að fá að hringla innanum þennan hóp af yngismönnum!!!!
Manni er ekki heima núna, hann fór af stað í morgun fram í Efstaland, með fram að gamni sínu, og ætlaði að vera þar í nótt. Ég fór fram eftir á sunnudaginn milli jóla og nýárs og kom heim aftur á gamalársdag. Það er nú víst lengsti túrinn sem ég hef tekið mér í vetur. Út að Rauðalæk fer ég á hverjum laugardegi síðan á nýári. Haraldur4 kennir þá ungmennafélagsfólkinu söng í tvo klukkutíma og tekur allt að því 20 manns þátt í þeirri kennslu.
Ekki veit ég annað en fólk hér á bæjum hafi bærilega heilsu nema Þórunn5 í Skógum hefur legið nú um tíma. Læknir segir að það sé bronkitis sem að henni gengur og hefur víst von um bata.
Það hefur verið fremur (stríðsamt?) á Bryta í vetur. Ninna6 kom þangað í haust og átti þar barn litlu seinna og gekk það allt vel og hún frískaðist fljótt en svo stuttu eftir nýár lagðist hún í botnlangabólgu svo það varð að flytja hana inn á spítala og er hún þar víst enn. Það átti að skera hana upp en svo hefur það ekki orðið ennþá. Við heyrðum að læknirinn hefði átt að segja að hún væri of mögur til þess. Líka höfum við heyrt að hún hafi átt að tapa sér eitthvað eða einhver undarlegheit hafi gripið hana á spítalanum en svo er hún nú víst orðin betri af því nú og líklega á batavegi. (Ekki vitum við hver er faðir barnsins hennar Ninnu, það er föðurlaust ennþá. Sagt er að hún kenni einhverjum Gunnlaugi það sem hefur verið í Litla-Dunhaga).
Þorlákur7 missti kú í haust, hún var alveg nýborin. Dýralæknir var sóttur en hann gat ekki reist hana við. Dauðamein hennar var doði. Þetta kom sér mjög illa því hann hefur verið mjólkurlaus síðan því hin kýrin hefur mátt heita geld í allan vetur en á nú bráðum að fara að bera. Þetta mjólkurleysi hefur verið mjög bagalegt því Fríða hefur verið svo heilsulítil í vetur. Hún er vanfær og fer víst að styttast þangað til fjölgar hjá henni. En þó allt sýnist ganga erfiðlega er Þorlákur víst að kaupa Bryta og lætur engar torfærur hræða sig.
Jæja, Bogga mín. Mér er víst best að fara að hætta þessu bulli og bið þig að fyrirgefa hvað þetta bréf er ómerkilegt. Ef Árni fer vestur núna með póstinum, segir hann ykkur allar fréttir. Hann er hérna í nótt og ég heyrði að pabbi var áðan að tala um það við hann að gaman hefði sér þótt ef hann hefði getað orðið honum samferða vestur en það er til lítils að óska sér því maður hittir aldrei á óskastundina og allt situr við það sama.
(óundirritað af Jóhönnu G. Pálmadóttur)
1 Einar G. Jónasson kennari sem hóf búskap á Laugalandi 1925 eftir að Steini og Jóhanna höfðu búið þar árin 2 á undan.
2 Líklegast er að stúlkukrakkinn frá Tréstöðum hafi verið Margrét Halldórsdóttir, elsta dóttir Halldórs Árnasonar og Kristjönu Gunnarsdóttur á Tréstöðum. Hún gæti hafa komið með Einari kennara og verið í Garðshorni á meðan kennsla stóð yfir. Kristjana á Tréstöðum var reyndar óskyld Garðshornsfólkinu en faðir hennar hafði eignast hana framhjá konu sinni Helgu Andrésdóttur, systur Jóhönnu móður Helgu Sigríðar í Garðshorni.
3 Einar og Helgi gætu hafa verið búfræðingarnir Einar kennari og Helgi Tryggvason frá Garðshorni í Kræklingahlíð.
4 Haraldur Pálsson organisti, faðir Árna á Hallfríðarstöðum, Jóhanns Ó. tónskálds, Elísabetar á Öxnhóli og Laufeyjar konu Eiríks Stefánssonar frá Skógum. Haraldur bjó með konu sinni, Katrínu Jóhannesdóttur, á Dagverðareyri þegar Helga í Garðshorni fór með börnum sínum í heimsókn þangað og þau borðuðu með hnífapörum eins og segir frá í bréfi dags. 14. okt. 1911. Hjá Haraldi lærði Frímann í Garðshorni o.fl. að spila á orgel eins og fram kemur í ljóðabréfi hans, sjá síðar. Amma Katrínar var Katrín systir Andrésar Tómassonar á Syðri-Bægisá, afa Helgu í Garðshorni.
5 Þórunn í Skógum
6 Ninna var Jónína Karitas Tryggvadóttir, systir Fríðu á Bryta. Barnið hét Septína Þórunn Gunnlaugsdóttir.
7 Þorlákur Thorarensen á Bryta. Fríða, sem var svo heilsulaus, var Hólmfríður Tryggvadóttir, kona hans.
Garðshorni 13. september 1918
Elsku dóttir mín, ætíð sæl.
Hjartans þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir síðast og allt annað gott. Fátt get ég nú sagt þér í fréttum þó margt mætti segja ef skrifarinn væri góður. Nú er ég ein heima því fólkið er allt úti á Rauðalæk að binda hey þar heim og finnst mér oft rólegt að vera ein. Ég hef aldrei verið eins lasin og framan af í sumar. Nú er ég mikið skárri. Ég hef verið slæm af giktinni í öllum neðri partinum. Mér hefur oft fundist á morgnana ég geta ekki klætt mig. Svo hefur mér skánað þegar fram á daginn kom og að mestu leyti hef ég druslast að innanbæjarverkum en oft hefur mér fundist það erfitt en lof sé Guði það er bráðum á enda í þetta sinn. Ég tel dagana eins og börnin því ég veit ég verð skárri þegar ég fæ að hvíla mig og vinna inni kjurt.
Ég er helst að hugsa um að vera eins og ég hef verið ef ég lifi og verð ekki lakari til heilsunnar. Ég sé það er svo erfitt að flytja sig svo langt. Samt ætla ég að biðja ykkur að lofa mér að eiga ykkur að. Ekki veit ég hvort Pálmi tekur af mér nokkra kind. Ég hef orðað það. Það er nú fokið í öll skjól með það fyrir mér. Það er ekki til nokkurs að biðja nokkurn mann að taka kind svo verður það svo voðalega dýrt að það borgar sig varla. Það er óttalega lítill heyskapur allstaðar hér um pláss. Hér er mikið minni hey en verið hefur fyrirfarandi sumur sem þó ekki fjarska lítil. Ég hef oft hugsað til ykkar í sumar, hvort það yrði ekki lítill heyskapur hjá ykkur í sumar.
Ég bið kærlega að heilsa Kidda með þakklæti fyrir bréfið hans og myndina af kærustunni sem hann sendi mér. Ég hef oft lesið bréfið þegar mér hefur leiðst og þykir mér leiðinlegt að geta ekki skrifað honum. Það vildi ég þú værir svo rík að þú gætir sent mér svolítinn hnefa af fjallagrösum. Mér var ráðlagt að drekka af þeim við hóstanum.
Elsku Bogga mín, ég bið þig fyrirgefa mér þetta klór og lesa í málið fyrir mig. Ég bið kerlinguna vestan að fyrir bréfið. Hún var hér í nótt og bíður eftir því. Ég var stundum í sumar svo barnaleg að hugsa það gæti skeð þú kæmir í haust en nú á ég ekki von á því þegar tíðin er svona vond. Svo kveð ég þig í anda með kossi hjartans og bið Guð annast þig og þína. Það mælir þín vesöl mamma
Steinunn Sigurðardóttir.
Ég bið hjartanlega að heilsa öllum á þínu heimili.
Stödd á Efstalandi 16. júní 1919
Elsku dóttir mín!
Hjartans þakklæti á þessi litli miði að færa þér fyrir bréfið þitt og allt gott sem þú hefir auðsýnt mér. Ég fór að ferðast þetta þó að ég sé nú ekki fær um það. Frímann var að flytja Söllu1 ofan í Hamar og kom upp í Garðshorn um leið og kom með laust hross og vildi fólkið láta mig reyna að fara og vita hvort mér skánaði ekki og er það nú líka að mér er heldur að skána þó að það fari nú hægt. Ég er alltaf mesti garmur, ég lá svo þungt í þessari veiki sem var að ganga. Það var bæði það að veikin var vond og svo slóst líka inn í mín gamla vesöld og margt fleira þess háttar og fannst mér það tæplega að ég mundi geta lifað það af og hefði mér verið það eins kært að deyja eins og að lifa en þetta er mér sjálfsagt fyrir bestu.
Steindór lagðist svipað og ég, lá heldur þungt í tæpar þrjár vikur en ég lá í liðugar þrjár vikur. Það var farið tvisvar eftir meðulum handa okkur og má ég ekki annað segja en að okkur batnaði nokkuð af þeim og fyrir liðugar 20 krónur er ég búin að kaupa meðul og ég lofa Guð fyrir að ég átti nóg sjálf fyrir meðulin. Jóhanna hjálpaði mér sem að ég þurfti með meðan ég lá og gerði hún það vel eftir því sem maður getur búist við af öðrum.
Ég get ekkert gert ennþá nema ofurlítið í höndunum og get ég búist við að það verði í sumar lítið sem ég geri. En það verður að taka því eins og það gefst og kvíða engu því að það er ekki að vita hvort lengur endist líf eða litlir aurar2.
Það eru allir frískir hér og í Garðshorni líka nema Steindór, hann er ekki orðinn líkt því jafn góður. Þau á Efstalandi hafa engan nema sig og börnin og unglingspilt að hálfu, Bjarna3 frá Efstalandskoti.
Það eru litlar fréttir sem ég segi þér nema þessi raunarolla frá sjálfri mér sem þú mátt ekki láta þér finnast mikið til um. Ég var búin að biðja Einar að taka af mér bréf þegar að hann færi vestur. Svo veit ég ekki hvort hann kemur hér við.
Bogga4 skrifar bréfið fyrir mig því að mér finnst ég eiga svo bágt með að skrifa. Svo bið ég þig innilega að skrifa mér aftur því að ég veit að ég má ekki eiga von á þér í vor, því að þú átt máski ekki hægt með það en oft langaði mig til að þú værir komin meðan ég lá en það er of langt á milli okkar, elsku Bogga mín.
Svo bið ég kærlega að heilsa öllum á þínu heimili en sérstaklega Gunnari litla, með þakklæti fyrir bréfið hans og þykir mér skemmtilegt að sjá hvað hann er farinn að skrifa vel og ég bið hann að skrifa mér aftur þó að ég geti ekki skrifað honum.
Svo held ég að það sé mál komið að fara að hætta þessu rugli og ég bið þig að fyrirgefa mér það. Svo kveð ég þig með kossi hjartans og bið Guð að varðveita þig í lífi og dauða. Það mælir þín vesöl móðir,
Steinnunn A. Sigurðardóttir
Ég fer nú að fara heim, ég veit ekki hvern daginn.
1 Þegar hér er komið sögu eru Frímann og Margrét flutt í Efstaland. Salla var Salóme Bjarnadóttir, 56 ára húskona á Efstalandi. Systkinin Þorleifur, Hallfríður, Ragnheiður og Bjarni Rósantsbörn flytja í Hamar um þetta leyti, ásamt foreldrum sínum Rósant Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur sem flytja frá Efstalandi 1917. Salóme var systri Guðrúnar. Samkvæmt því hafa fjölskyldurnar haft makaskipti á jörðunum en þó hafa Frímann og Margrét þurft að borga á milli eftir því sem fram kemur hjá Margréti síðar að Efstaland hafi verið dýru verði keypt.
2 Þetta orðatiltæki er í Skagfirskum æviskrám eignað Guðmundi föður Valdemars í Bólu en þetta er eldra því að það er til í „Safni af íslenskum orðskviðum“ eftir Guðmund Jónsson (1763-1836) prófasti í Snæfellsnessýslu.
3 Bjarni Kristjánsson (1901-1969), Skagfirðingur, giftist síðar Halldóru dóttur Sigfúsar á Steinsstöðum. Bjarni og Halldóra voru foreldrar Dýrleifar píanókennara, Bjarna Rúnars hljóðmeistara hjá Ríkisútvarpinu og fleiri systkina.
4 Bogga var Sigurbjörg Frímannsdóttir, elst þeirra barna Frímanns og Margrétar, móðir Áslaugar, Einis og Sturlu Þorleifsbarna. Bogga bjó lengi á Sólvöllum skammt ofan við gömlu Glerárbrúna sem var neðan við stífluna.
Garðshorni 30. september 1919
Elsku dóttir mín, ætíð sæl.
Mér datt í hug að rispa þér fáar línur þó ég segi þér ekki neitt í fréttum nema einhverja raunarollu af sjálfri mér. Ég hef alltaf verið lasin í sumar, mest innvortis en lítið fundið til giktarinnar. Ég hef alltaf þurft að brúka meðul við hægðaleysi og líka hef fengið meðul við hóstanum og er ég ekki neitt lakari af honum en verið hefur. Ég fór með Pálma seint í sumar og fann Jónas lækni, bað hann að skoða mig og segja mér hvort ég smitaði aðra með hóstanum en hann sagði það væri engin hætta með það en ég ætti að passa hrákana og það ættu allir að gjöra. Það gladdi mig mikið, það er óskemmtilegt að vera allra viðurstyggð því ég varð vör við það af sumum.
En hitt sem að mér gengur sagði hann ristilbólgu og batnaði helst við að brúka pípu og hefur það verið gjört nokkrum sinnum og ímynda ég mér það sé gott ef hægt væri að koma því við. Svo er ég upp á aðra komin með það eins og fleira og geturðu nú ímyndað þér að ég sé ekki ævinlega róleg eða ánægð. En ég veit það smástyttist eymdar- og einmanaskapurinn. Ég er nú frískari en ég var í sumar og veitti oft erfitt að gjöra það sem ég þurfti að gjöra svo mig langar til að vera hjá sjálfri mér eins og verið hefur í vetur. Ég hef verið óttalega ónýt að borða í sumar og ég veit mér væri notalegra að vera hjá öðrum en það verður nú svona í vetur ef ég lifi.
Ég á nú þrjár ær lifandi og finnst mér nú smáfækki fjaðrirnar en ég kvíði því nú ekki því ég veit þið systkinin hjálpið mér. Bara að ég væri frískari. Ég er nú búin að kaupa meðul síðan í vor nokkuð yfir þrjátíu krónur. Pálmi tekur af mér tvær ærnar en Frímann eina.
Ég kom í Bótina í sumar þegar ég fór inneftir. Ég treysti mér ekki lengra um kveldið, það var svo kalt. Var ég þar í tvo daga, voru þau bara heima hjónin, Sigurjón1 í vinnu en kom heim á kvöldin. Svo sótti Stebbi2 mig á sunnudag og var ég á Grjótgarði þrjá daga. Svo var ég sótt. Þau áttu hálfsmánaðar gamlan dreng3 og Sigríður farin að fara út frá hópnum að raka og gjöra öll sín verk. Svo get ég ekki sagt meira um það nema það eru líkindi til að það verði þar heldur erfitt. Svo held ég sé mál að hætta þessu rugli og biðja þig að fyrirgefa mér það. Svo kveð ég þig og ykkur öll og bið guð að vera ykkur allt í öllu um tíma og eilífð.
Þess óskar þín vesöl móðir
Steinunn Sigurðardóttir.
(með eigin hendi)
1 Sigurjón Jónsson (1864-1947) var faðir Stefáns í Bótinni, fóstursonar Steinunnar og Guðmundar.
2 Stefán Sigurjónsson og Sigríður Pálsdóttir bjuggu á Grjótgarði 1917-1922.
3 Sigurjón Guðmundur f. 18. ágúst 1919. Hét hann eftir Guðmundi í Garðshorni?
Garðshorni 19. des. 1919
Elsku dóttir mín!
Mitt innilegasta þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir bréfið síðasta og gladdi það mig mjög að vita að þér gekk vel heim því ég veit líka að þú hefur gjört það mikið mín vegna að leggja á þig að fara þessa ferð. Héðan er fátt að frétta; allir eru frískir á heimilinu. Af mér er það að segja að ég er að sumu leyti frískari en þegar þú komst, ég er frískari innvortis og hef ekki þurft að brúka pípu nú um tíma, aftur hef ég verið slæm af gigt nú um tíma og haft tannpínu öðru hvoru.
Frímann kom að finna mig, og var hann að segja mér að ég ætti að koma frameftir í vetur ef ég yrði svo frísk og ætla ég að gera það ef ég get.
Pálmi kom úr kaupstaðnum í kvöld, hann fór með 84 pör af sjóvettlingum en þar af átti ég 25. Hann fékk 1,50 kr fyrir parið og erum við hæstánægð og jafnvel montin yfir því. Jóhanna var lánuð yfir að Lönguhlíð og var hún þar fyrstu vikuna af jólaföstunni. Sigurlaug Sigvaldadóttir1 var ráðin þar fram að jólum en svo kom það allt í einu öllum á óvart að hún varð að yfirgefa sín vanastörf og sinna öðru sem var að leggjast á sæng og fæða lítinn dreng en ekki veit ég hver vill vera pabbi hans. Ekki man ég eftir fleiru sem ég get skrifað þér, tíminn er svo naumur, allir eru víst sofnaðir og þessu bréfi ásamt bókunum sem Pálmi keypti fyrir þig þarf að koma niður að Hamri tímanlega á morgun því við vitum ekki annað en Grímur2 fari þar hjá og ætlar hann að taka það. Ég bið þig að fyrirgefa hvað þetta er ómerkilegt bréf og langar mig til að skrifa þér aftur seinna. Svo kveð ég þig með kossi hjartans og bið guð að vera ykkur allt í öllu, það mælir
Steinunn Sigurðardóttir.
Það biðja allir ósköp vel að heilsa með innilegri ósk um gleðileg jól og gott og farsælt nýár.
1 Sigurlaug Anna Sigvaldadóttir (1899-1964) var frá Neðri-Rauðalæk, systir Rósants síðar bónda í Ási. Drengurinn sem fæddist var Adólf Rósenberg Gíslason (1919-1995) og sá sem vildi verða faðir hans var Gísli Rósenberg Bjarnason (1882-1936) bóndi á Hálsi í Öxnadal 1920-1925 og síðar kennari á Vestfjörðum. Adólf Gíslason var kranabílstjóri og faðir Hauks pípara á Akureyri.
2 Grímur Valdemarsson, systursonur Helgu í Garðshorni.
Garðshorni 20. júní 1920
Elsku dóttir mín.
Mig langar til að rispa þér fáeinar línur af því ég fæ svo góða ferð en varla verða þær skemmtilegar fremur en vant er. Ég er nú með eitt kastið af tannpínunni. Ég held hún ætli að gjöra út af við mig. Líka er ég svo slæm í höfðinu. Þegar ég er svona lasin treysti ég mér ekki til að gjöra neitt nema í höndunum öðru hverju. Ég kvíði nú fyrir lífinu ef ég get ekkert gjört og vera svo einmana sem mér finnt ég nú vera. Ég veit enn ekki hvernig ég verð í sumar. Ég hef enn druslast svona eins og hefur verið. Mér finnst ég vera orðin eins og barn og vildi ekki þurfa að hugsa eins mikið fyrir lífinu og að einhver sýndi mér hlýlegheit.
Bárður bróðir minn skrifaði okkur systrunum1. Ég fékk mitt bréf á sumardaginn fyrsta. Hann tilkynnir mér dauðsfall Margrétar systur okkar. Þeir sáu um allan kostnað, hann og Jóhannes, en hún lét eitthvað eftir sig sem er í banka og segir það standi fast þangað til nöfn erfingjanna komi og segir við þurfa að koma sama dag á Akureyri og skrifa nöfnin okkar. Pálmi fór svo fram að Draflastöðum eftir sumarmálin og var þar tvo daga hríðtepptur. Þá var tiltekinn dagurinn sem við ættum að finnast, ég, Jón2 og Pálmi líka en Hólmfríður kom ekki. Veit ég enn ekki hvað því hefur valdið að hún kom ekki. Ég veit það einasta var áríðandi hún hefði komið. Ég hlakkaði til að sjá hana í síðasta sinn á lífsleiðinni. En það fór eins og margt fleira að allt getur brugðist í veröldinni.
Ég frétti í vor það væri fjölgunar von hjá Rúnu3. Getur skeð að mamma hennar hafi ekki getað komið þess vegna. Þau fara að búa á hálfri jörðinni nú í vor. Ég kom ekki í Bótina því ég þurfti að kaupa hross inneftir en á Grjótgarði varð ég eftir. Ég treysti mér ekki lengra og var þar nærri viku. Pálmi fór þá í kaupstað. Fór ég með honum heim. Mér var tekið þar svo vel sem get óskað mér. Þar finn ég innilegheit og hlýlegheit ekki síður en hann væri sonur minn. Það var allt frískt og líður eftir því sem von er til en hrædd er ég um það verði eitthvað erfitt. Þar er enginn nema þau og börnin og er það rólegt fyrir þau. Yngsti drengurinn heitir Sigurjón Guðmundur.
Ég þakka þér hjartanlega fyrir tilskrifið í vor og sendinguna og húfuna. Ég hélt hún ætti að fara til mín. Ingibjörgu4 minnti hún ætti að fara til Jóhönnu, ég sé eftir að vera [að] ágirnast hana. Máski þú eigir enga húfu sjálf.
Nú held ég sé komið nóg af svo góðu. Ég bið þig, elsku Bogga mín, fyrirgefa mér þetta ljóta klór og lesa í málið fyrir mig og láta engan sjá það. Vertu svo blessuð og sæl. Algóður Guð blessi þig og varðveiti alla ófarna ævidaga í blíðu og stríðu í lífi og dauða. Þess biður af einlægu hjarta þín vesöl móðir
Steinunn A. Sigurðardóttir.
Ég bið hjartanlega heilsa öllu þínu fólki, ég vona þú skrifir mér línu.
1 Bárður og Jóhannes bjuggu í Winniepeg og líklega hefur Margrét búið þar líka. Hér eru Bárður og Jóhannes um sextugt en Bárður tæplega sjötugur. Talið er að Margrét hafi fyrirfarið sér.
2 Hver var Jón? Af hverju þurfti einhver Jón að vera viðstaddur?
3 Hólmfríður Sigfúsdóttir, dóttir Guðrúnar á Draflastöðum, er fædd 24. maí 1920 og hefur verið fædd þegar bréfið var skrifað. Tilgáta Steinunnar um ástæður fyrir því að Hólmfríður systir hennar kom ekki, er ekki ósennileg.
4 Ingibjörg í Sólheimagerði, systir Helgu í Garðshorni, móðir Péturs á Rauðalæk og Gríms?