Gunnar Frímannsson
Um heimsókn úr Vesturheimi sumarið 2022.
Kynslóðabilið tekur á sig ýmsar myndir. Það getur til dæmis verið langt á milli kynslóða – eða stutt. Algengt er að aðeins séu 20 til 40 ár á milli kynslóða, nútíma afi eða amma er ekki meira en 40 til 60 árum eldri en barnabarnið. Mörg okkar sem nú erum á áttræðisaldri áttum afa og ömmur sem fæddust öðru hvoru megin 1880.
Þess vegna kom það mörgum á óvart þegar fréttist af Barry Johnson sem væri væntanlegur til Akureyrar og langaði til að sjá staðinn þar sem afi hans fæddist árið 1850. Eftir krókaleiðum barst Stefáni Vilhjálmssyni, mági mínum, beiðni um að taka á móti Barry þessum sem vissi að hann væri afkomandi Guðmundar Einarssonar Johnsen sem var prestur á Möðruvöllum 1846 til 1856, en sonur Guðmundar, Ólafur, var faðir Kjartans föður Barrys, Kjartan fæddur árið 1900 og Barry árið 1941. Því má svo bæta við að langafi Barrys, Guðmundur E. Johnsen sem þessi grein snýst mest um, fæddist 1812, þ.e. fyrir meira en 200 árum.
Þar sem Stefán taldi mig kunnugri en hann í Hörgárdal leitaði hann til mín með þetta erindi og við vorum strax sammála um að þessum gestum yrðum við að sinna. Barry hafði ákveðið að fljúga ásamt konu sinni Lydiu til Amsterdam í Hollandi og taka sér far þaðan með skemmtiferðaskipinu Rotterdam sem var væntanlegt til Akureyrar 5. ágúst og þaðan ætlaði Barry að komast á ættarslóðirnar í Hörgárdal. Við fengum í lið með okkur frændfólk Barrys á Akureyri sem grein verður gerð fyrir hér á eftir. Rotterdam átti að leggjast að Tangabryggju um kl. 10 en skipið átti svo að leggja frá landi kl. 19 um kvöldið.
Barry og Lydia Johnson. Myndina sendi hann til að við gætum þekkt þau hjónin í farþegahópnum.
Það gafst því ekki langur tími til að skoða sig um hér en ekki var heldur þörf á löngum tíma af því að fæðingarstaður Ólafs, afa Barrys, var ekki langt undan, Litli-Dunhagi í Hörgárdal.
Barry var búinn að grúska nokkuð í sögu Ólafs afa síns með því að nýta sér ýmsa ættfræðigrunna, ekki síst Icelandic Roots, eða nóg til þess að hann gat sett fram óskir sínar í 5 liðum en þær voru eftirfarandi. Hann vildi
- fá að sjá Litla-Dunhaga þar sem Ólafur afi hans fæddist.
- sjá kirkjuna á Möðruvöllum þar sem sr. Guðmundur, langafi hans, þjónaði.
- skoða kirkjugarðinn því að þar gæti verið legsteinn yfir Ólafi, skammlífu fyrsta barni sr. Guðmundar, frá árunum 1847 til 1849.
- fá að sjá landslag á þeim slóðum sem Ólafur og systkini hans uxu úr grasi.
- sjá torfbæ eins og afi hans gæti hafa fæðst í. Barry hafði upplýsingar um torfbæ í Laufási en áttaði sig ekki á hversu nálægt Akureyri Laufás er.
Barry hafði snúið sér til Stefáns bónda Magnússonar í Fagraskógi sem gat sent honum úrklippu úr Möðruvallasögu Torfa K. Hjaltalín Stefánssonar, „Eldur á Möðruvöllum, saga Möðruvalla í Hörgárdal frá öndverðu til okkar tíma,“ en þar segir:
„Sr. Guðmundur E. Johnsen var klausturprestur á árunum 1846-1856. Hann var fyrst í húsmennsku en bjó svo í Litla-Dunhaga (árin 1849-1852) og Þrastarhóli (árin 1853-1856). Hann var sagður málsnjall, viðfelldinn og vinsæll. Prófastur Eyfirðinga var hann frá árinu 1851. Hann varð síðan prestur í Arnarbæli í Ölfusi (árið 1856). Ástæða brottflutnings hans var ósamlyndi við amtmann, Pétur Havstein, eins og glögglega kemur fram í dagbók Sveins Þórarinssonar. Reyndar kemur þar fram að sr. Guðmundur fer ekki alfarinn suður fyrr en 25. júní 1857. Var þá komin upp óvinátta milli hans og amtmanns eins og áður sagði. Mun prestur hafa álitið að Sveinn hafi tekið málstað amtmanns en það hafi verið „af öldungis tilefnislausri ímynd“ að sögn Sveins sjálfs.“
Þessar upplýsingar um sr. Guðmund Möðruvallaklerk segja fátt um æviferil hans, jafnvel ekkert um í hverju ágreiningur sr. Guðmundar og amtmannsins var fólginn, og því var ljóst að gestgjafar Barrys yrðu að hafa ítarlegri gögn um sr. Guðmund til að geta tekið sómasamlega á móti afkomanda hans. Því var lagst í kirkjubækur og aðrar tiltækar heimildir og niðurstaðan varð eftirfarandi.
Guðmundur Einarsson Johnsen (1812-1873) fæddist í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi, sonur Einars Jónssonar (1776-1839) stúdents, verslunarstjóra og kaupmanns í Reykjavík og Ingveldar Jafetsdóttur (1776-1837). Bróðir Einars var Sigurður (1777-1855) prestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð, faðir Jóns, forseta Hafnardeildar Hins íslenska þjóðvinafélags, og Jens rektors Lærða skólans í Reykjavík. Dóttir Einars og systir Guðmundar var Ingibjörg kona Jóns forseta en þau voru bræðrabörn. Mörg dæmi eru um það að íslensk yfirstétt á þessum tíma vílaði ekki fyrir sér umtalsverða skyldleikaræktun og hér á eftir sjást dæmi um að enn lengra hafi verið gengið en með giftingu systkinabarna.
Guðrún Pétursdóttir Hjaltested og Guðmundur Einarsson Johnson
Fjölskylda Einars var í Jacobæusarhúsi í Reykjavík 1816 og í Einarshúsi 1824 en þá voru börn þeirra fjögur ekki skráð þar til heimilis þótt þau hafi eflaust verið þar. Þau voru hinsvegar skráð hjá foreldrum sínum í Johnsenshúsi 1826. Búseta Guðmundar hefur ekki verið rakin frekar næstu árin enda er sálnaregistur Seltjarnarnesþings ærið gloppótt á þeim tíma. Sem unglingur stundaði hann sjómennsku og búðarstörf en lærði undir skóla hjá síra Ólafi E. Hjaltested, sem síðar kemur við sögu, en þau kynni urðu örlagarík. Hann var í Bessastaðaskóla á árunum 1832 til 1838 og lauk þaðan stúdentsprófi. 1840 var hann á Eyvindarstöðum í Bessastaðasókn, titlaður stúdent á heimili Sveinbjarnar Egilssonar skólakennara og síðar rektors Lærða skólans í Reykjavík. Að stúdentsprófi loknu fór Guðmundur rakleitt í Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi í guðfræði 1845 en með svo lélegri einkunn að hann fór aftur í prófið árið eftir og stóð sig þá heldur skár. Hann hefur þó talist vel menntaður prestur á þeirra tíma mælikvarða og í Höfn hefur hann umgengist Fjölnismenn, Jón Sigurðsson frænda sinn og aðra baráttumenn fyrir efnahagslegum, menningarlegum og pólitískum framförum á Íslandi.
Árið 1845 og á árunum á undan hafði Guðrún Pétursdóttir (1825-1916) verið hjá föður sínum, Georg Pétri Hjaltested (1798-1846) hreppstjóra í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, sem bjó þar, en bróðir hans, fyrrnefndur sr. Ólafur Einarsson Hjaltested, var þar prestur. Kona Péturs var Guðríður Magnúsdóttir (1802-1864) ljósmóðir. Árin 1845 og 1846 var Guðrún ráðskona hjá sr. Ólafi föðurbróður sínum sem lést ógiftur og barnlaus 1848. Halldóra B. Björnsson segir frá sr. Ólafi í Sunnudagsblaði Tímans í apríl 1966, hann hafi verið brjóstveikur og ekki treyst sér til að gegna prestsstörfum í Saurbæ fyrstu árin eftir að hann fékk brauðið og hélt þá aðstoðarprest, sr. Arngrím Halldórsson sem síðar var prestur á Bægisá 1843 til dauðadags 1863. Síðan segir Halldóra: „Guðrún Pétursdóttir var falleg stúlka, greind og skemmtileg. Hún var aðeins 16 ára þegar séra Ólafur kom að Saurbæ og varð hann svo hrifinn af bróðurdóttur sinni að hann fékk konungsleyfi til að fá að kvænast henni. Af því varð þó ekki. En þau voru heitbundin nokkur ár.“ Hugsanlega leist Guðrúnu sjálfri ekkert á þennan ráðahag en þá og um langan aldur var ekki til siðs að konur fengju miklu að ráða um makaval sitt. Þær máttu þakka fyrir ef þær sjálfar töldust gott gjaforð og gátu fengið sæmilega stöndugan mann til að eiga börn með.
Þessa sögu þarf svo að barna með því að hafa eftir Halldóru að Guðrún, fyrsta kona sr. Arngríms, hafi dáið frá tveimur ungum börnum þeirra sem hafi farið í fóstur. Það er þó ekki rétt. Guðrún bilaðist á geði og var stundum hjá ættingjum sínum eða á framfæri þeirra, fyrst hjá móður sinni í Þorlákshöfn 1840 en eftir það vinnukona á bæjum í Árnessýslu, lengst á Hvoli og hún var í Vossabæ 1860. Börn þeirra sr. Arngríms voru vissulega í fóstri á bæjum í sókninni fyrstu árin en ekki lengi því að þau fluttust með föður sínum norður í Bægisá 1843 og ílentust þar í sveit. Ári eftir dauða Arngríms var Guðrún komin norður í Hörgárdal og var næstu ár hjá Guðrúnu dóttur sinni á Barká og var þá titluð „prestsekkja“. Árið 1867 var hún komin til Bjarna sonar síns á Vöglum. Næstu ár hafa systkinin skipst á að hafa hana hjá sér, hún var hjá Bjarna á Vöglum 1870 og hún lést í Fornhaga hjá Guðrúnu 1871.
Hér er greinarhöfundur reyndar kominn á heimavöll því að Bjarni Arngrímsson var faðir Gísla Rósenbergs og afi Marinós og Eiríks Stefánssona sem komu mjög við sögu sem kennarar í Hörgárdal og sagt er frá í grein í Heimaslóð 2022. En það er enn einn útúrdúrinn í þessari frásögn.
Halldóra segir í grein sinni: „Haft var það á orði að þunglyndi og ömurleiki sækti á séra Arngrím eftir að hann missti konu sína. Var hann þá heimilismaður í Saurbæ og kom því mest í hlut Guðríðar húsfreyju að hafa ofan af fyrir honum. Og eins og allar góðar húsmæður hafði hún jafnan tíma til alls. Þegar tóm gafst frá önnum sátu þau oft að tafli, hún og kapelláninn, og varð það honum helst til hugarbóta. Það skal tekið fram strax að svo vel fór fram þeirra dægrastytting að ekki féll minnsti skuggi á heimilislífið af þeim sökum né heldur barst neinn grunsemdarorðrómur um sveitina og síður en svo að þetta væri lagt þeim til hnjóðs. ... Séra Arngrímur hafði setið ókvæntur maður norður í landi um þriggja ára bil er Georg Pétur andast [1846] ... .“ Er nú ekki að orðlengja það að Halldóra heldur því fram að Bægisárklerkur hafi sent Guðríði bréf og boðið henni að koma norður með börn sín öll og gefur í skyn að hann hafi ekki einungis ætlað að rifja upp Sikileyjarvörnina með henni. Guðríður á að hafa borið erindið undir Sigurlaugu dóttur sína sem ku hafa svarað: „O, brenndu andskotans bréfið, mamma.“ Svo mikið er víst að Guðríður hafnaði boði Arngríms sem fann sér aðra konu. Engu að síður fóru þrjú börn Guðríðar norður í Hörgárdal, Guðrún prófastsfrú á Möðruvöllum, Einar og Margrét. Síðar áttu Ólafur Guðmundsson Johnsen, barnabarn Guðríðar, og Jóhannes Arngrímsson, sonur sr. Arngríms á Bægisá, eftir að verða samferða til Vesturheims árið 1872.
Það bar hinsvegar til tíðinda um svipað leyti og Georg Pétur Hjaltested féll frá að Guðmundur Einarsson Johnsen kom heim og fékk veitingu fyrir Möðruvallaklaustri 3. desember 1846. Jón Jónsson lærði, sem verið hafði Möðruvallaklerkur árin á undan, var þá nýlátinn. En Guðmundur var kominn á skeljarnar, eins og sagt er, því að Möðruvallaklerkur þurfti að eiga maka við hæfi og fyrir valinu varð Guðrún Pétursdóttir í Saurbæ sem hann hefur eflaust kynnst þegar hann var í læri hjá séra Ólafi Hjaltested. Þessi fyrri kynni Guðmundar og Guðrúnar gætu jafnvel hafa átt þátt í því að ekki varð af hjúskap Guðrúnar og Ólafs, föðurbróður hennar. Það var þó ekki fyrr en 30. ágúst 1847 að þau Guðrún og Guðmundur giftust í Saurbæjarkirkju „án lýsinga af predikunarstól eftir leyfisbréfi“, eflaust gefin saman af föðurbróður brúðarinnar og fyrrum heitmanni, séra Ólafi Hjaltested.
Möðruvallaklausturskirkja 1856
Teikning úr riti Orra Vésteinssonar um Möðruvelli.
Ungu hjónin hafa strax flutt norður í Hörgárdal því að í árslok 1847 voru Guðmundur Einarsson (35 ára) og k.hs Guðrún Pétursdóttir Hjaltested (22 ára) komin sem húsfólk í Litla-Dunhaga en þar hafði fyrirrennari Guðmundar í starfi verið áður, einnig í húsmennsku. Ábúendur í Litla-Dunhaga voru Sigurður Hallgrímsson (35) og Ingibjörg Jónsdóttir (39) sem höfðu í heimili tveggja ára fósturbarn og 8 ára uppeldisson, 14 ára vinnudreng, 19 ára vinnukonu og 29 ára vinnumann. Þetta fólk var svo óheppið að lenda utan sögusviðs bóka Bernharðs Haraldssonar um Skriðuhreppinn forna og komast því ekki á spjöld sögunnar að sinni. Litli-Dunhagi var jú löngum í Arnarneshreppi.
Árið 1850 tóku sr. Guðmundur og Guðrún við búi í Litla-Dunhaga og bjuggu þar með 3 kýr, 50-60 lembdar ær, 25 sauði og 30 gemlinga, þrjú tamin hross og 2 ótamin sem hefur verið gott meðalbú í sveitinni á þessum tíma. Auk þess er tilgreint að í Litla-Dunhaga hafi verið tvær garðholur fyrir kartöflur og kál. Þarna bjuggu presthjónin til 1853 með börnum og vinnufólki en fluttu þá út í Þrastarhól þar sem þau voru til 1857. Þar stækkaði búið og þau áttu 4 kýr, 52 lembdar ær, 24 sauði og hrúta, 37 gemlinga, 6 tamin hross og 3 trippi. Kálgarður var hinsvegar enginn á Þrastarhóli en þeir voru á mörgum bæjum í hreppnum enda höfðu Þorlákur í Skriðu, Grímur amtmaður og fleiri höfðingjar í sveitinni hvatt mjög til þeirrar ræktunar og gengið á undan með góðu fordæmi.
Heimili Guðmundar og Guðrúnar stækkaði eins og bústofninn. Áður en búskap þeirra á Þrastarhóli lauk höfðu þau eignast 7 börn og á Þrastarhóli höfðu þau tvær vinnukonur og tvo vinnumenn auk þess sem hjá þeim voru tvö systkini Guðrúnar en faðir þeirra hafði látist í Saurbæ 1846 eins og áður segir, tæplega fimmtugur að aldri. Systkinin voru Einar (1837-1888), síðar söðlasmiður í Reykjavík, og Margrét (1828-1865) sem síðar giftist Jóhanni Stefáni (1832-1904) syni Ólafs læknis í Hofi Thorarensen. Þau eignuðust tvo syni áður en hún lést eftir 9 ára hjónaband. Sagnaþulurinn Eiður Guðmundsson segir um Margréti í þætti um Stefán að hún hafi þótt „kvenna fegurst“. Fríðleikinn hefur verið ættlægur því að auk þess sem áður segir um fegurð Guðrúnar má bæta því við að Björn bróðir Guðrúnar og Margrétar var langafi fegurðardrottninganna Guðrúnar Sigríðar (Sirrýar) og Önnu Geirsdætra. Fleiri dæmi um fagrar konur í hópi afkomenda Georgs Péturs og Guðríðar mætti nefna hér en ég kann ekki við það.
Stefán Thorarensen frá Hofi var smiður og síðar bóndi og eftir lát Margrétar giftist hann Rósu dóttur Jóns „ríka“ Bergssonar í Lönguhlíð sem segir frá í Heimaslóð 2020. Greinilega var vinfengi milli læknisins í Hofi og prestsins í Litla-Dunhaga og Þrastarhóli því að læknishjónin voru skírnarvottar barna sr. Guðmundar og Guðrúnar. Þetta voru höfðingjar sveitarinnar og í fjölskyldum beggja skorti ekkert á presta, sýslumenn og amtmenn sem voru aðallinn á Íslandi á 19. öldinni.
Það er ljóst að Guðmundur naut virðingar og álits þar sem hann hafði aðeins verið fjögur ár í embætti þegar biskup skipaði hann prófast í Eyjafjarðarprófastsdæmi frá 1851 sem fól í sér að hann skyldi hafa eftirlit með kirkjulegu starfi, embættisfærslum presta og starfi sóknarnefnda. Hann lenti hinsvegar upp á kant við Pétur amtmann eins og fram kemur hjá Torfa Hjaltalín hér að framan. Pétur þótti erfiður í samskiptum og ýmsar ákvarðanir hans gerræðislegar, jafnvel geðveikislegar - þó ekki endilega geggjaðar samkvæmt nútímamálvenju - einkum þegar á leið enda var honum að lokum vikið úr embætti. Guðmundur var því engan veginn sá eini sem varð fyrir barðinu á honum. Hann tók það til bragðs að sækja um prestsembætti í Arnarbæli í Ölfusi sem á þeim tíma þótti mjög gott brauð. Guðmundi var veitt Arnarbæli í maí 1856 en fjölskyldan hefur ekki flust suður fyrr en sumarið eftir því að Ingveldur dóttir þeirra fæddist í janúar 1857 á Þrastarhóli og dó þar í júní sama ár.
Á blómatíma Arnarbælis átti kirkjan m.a. ítök í reka á svonefndri Hraunsskeið austan við Þorlákshöfn, „skipauppsátur í Þorlákshöfn og Selvogi, einnig lax- og selveiði í Ölfusá. Prestur leigði slægjur til flestra bænda í Ölfusi,“ eins og segir á upplýsingaskilti sem nú hefur verið komið upp við kirkjugarðinn í Arnarbæli. Á seinni hluta 19. aldar féll rekinn undir stórbýlið Hraun og smám saman fjaraði undan prestsetrinu. Þrjár sóknir voru sameinaðar þar um slóðir og kirkjan aflögð 1909. Bæjar- og gripahús gjöreyðilögðust í Suðurlandsskjálftunum 1896 en kirkjan stóð.
Arnarbæli um 1890
Teikning á upplýsingaskilti við kirkjugarðinn
Bærinn var endurbyggður og þegar Friðrik 8. Danakóngur kom til Íslands 1907 og heimsótti Þingvelli með fríðu föruneyti fékk hann að gista í nýja húsinu í Arnarbæli á heimleiðinni ásamt Haraldi prinsi og Hannesi Hafstein ráðherra. Aðrir lágu í tjöldum á árbakkanum. Arnarbæli hefur nú verið í eyði um áratugi en kirkjugarðurinn var lagfærður á árunum 2013-2015 með miklum myndarbrag að frumkvæði Páls Steinþórssonar sem er upprunninn í Ósgerði í næsta nágrenni við Arnarbæli.
Mikil frjósemi einkenndi prófastshjónin og marga afkomendur þeirra. Í Litla-Dunhaga eignuðust Guðmundur og Guðrún 4 börn en þau voru:
- Anna (1848-1919) sem eignaðist 15 börn með Oddgeiri Þórðarsyni Guðmundsen sem var prestur, síðast í Vestmannaeyjum. Sonur þeirra var m.a. Páll faðir Ísleifs sem var faðir Ólafs hagfræðings og alþingismanns. Dóttir Páls var líka Bergljót móðir Akureyringanna Páls unglingageðlæknis, Georgs flugumferðarstjóra og Önnu Margrétar hjúkrunarfræðings, Tryggvabarna, sem koma við sögu hér á eftir.
- Ólafur (1850-1947), afi Barrys Johnson, fluttist fyrst til Vesturheims 1872 og aftur 1876 og bjó þar víða eins og fram kemur síðar í þessum pistli. Það er misskilningur að Guðmundur og Guðrún hafi átt annan Ólaf áður eins og rakið verður síðar. Þetta er þó skráð í ættfræðigrunn mormóna, FamilySearch.org, og var skráð í IcelandicRoots.com en hefur nú verið leiðrétt, og þaðan fékk Barry þessar röngu upplýsingar um Ólaf eldri.
- Einar (1851-?) fluttist til Vesturheims 1883 frá Sauðlauksdal en hann var gullsmiður þar vestur frá. Annars er fátt vitað um þann mann.
- Ingibjörg (1852-1944) fór til Vesturheims frá Egilsstöðum í Ölfusi 1876 ásamt Ólafi bróður sínum. Hún giftist Bjarna Davíðssyni Westmann sem var kaupmaður og stórbóndi vestur þar.
Á Þrastarhóli bættust við þessi þrjú börn:
- Guðríður (1853-1940) sem átti 2 börn með manni sínum Ólafi Ólafssyni sem var prestur á Suðurlandi, fríkirkjuprestur í Hafnarfirði og Reykjavík og alþingismaður á Suðurlandi. Þau bjuggu m.a. í Arnarbæli. Guðmundur sonur þeirra, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík, giftist Sigríði Grímsdóttur dóttur Ingveldar systur Guðríðar. Guðmundur og Sigríður voru því systrabörn. Hinn sonurinn, Ólafur, dó ungur og var grafinn við hlið afa síns í Arnarbæli.
- Margrét (1855-1918) sem giftist Jóhannesi Davíð Ólafssyni sem bjó á Gili í Borgarsveit í Skagafirði og var sýslumaður Skagfirðinga 1884 til æviloka 1897. Ólafur faðir hans var bróðir sr. Guðmundar þannig að þau Margrét voru bræðrabörn, enn eitt dæmið um nána inngiftingu í þessari fjölskyldu. Margrét og Jóhannes áttu 5 börn og þeirra á meðal var dr. Alexander Jóhannesson prófessor, málvísindamaður og þrívegis rektor Háskóla Íslands.
- Ingveldur (1857-1857). Dó „úr niðurgangi“.
Eftir að Guðmundur og Guðrún fluttust suður í Arnarbæli eignuðust þau fimm börn sem voru:
- Ingveldur (1858-1861), dó úr barnaveiki.
- Sigríður (1859-1955) sem giftist Anton Gísla Emil Bjarnasen sem var verslunarstjóri og kaupmaður í Vík í Mýrdal, Reykjavík og Vestmannaeyjum. Þau áttu tvö börn.
- Georg Pétur (1861-1862). Dó „úr kvefsótt“.
- Ingveldur (1864-1935) en hún giftist Grími Jónasi Jónssyni guðfræðingi sem var kennari, skólastjóri og síðar verslunarmaður á Ísafirði. Þau áttu fjögur börn, m.a. framangreinda Sigríði.
- Guðrún (1867-1868). Dó „úr tannkomu“ eða tanntöku eftir því sem skráð er í kirkjubókina. „Margt hafa menn ritað öfugt um tannkomu barna og kennt henni ranglega um ýmsa sjúkdóma.“ (Bernhard Hirschel: Homöópaþisk lækningabók eða leiðarvísir í meðferð sjúkdóma handa leikmönnum).
Í Arnarbæli hafði Guðmundur stærra bú en á Þrastarhóli. Vinnuhjú voru 8 fyrstu árin en þegar prestsbörnin uxu úr grasi fækkaði vinnuhjúum en fjölgaði svo aftur þegar elstu börnin fóru að fara að heiman, væntanlega m.a. í skóla. Guðmundur þjónaði þremur sóknum, Hjallasókn, Reykjasókn og Arnarbælissókn sem hefur verið ærinn starfi því að eftirmaður hans í embætti hafði aðstoðarprest sem Guðmundur hafði ekki.
Guðmundur hefur verið farsæll prestur en engar heimildir finnast um prestverk hans eða búskap, hvorki á Möðruvöllum né í Arnarbæli, en þeim mun víðar er fjallað um ævilok hans. Laugardaginn 28. febrúar 1873 var hann kallaður til að skíra barn á Hraunshóli í Ölfusi sem var hjáleiga í túnfætinum á Hrauni. Þá var hann sextugur að aldri. Meðfylgjandi mynd gefur nokkra hugmynd um skyldur prestsins og embættisverk því að leið hans frá Arnarbæli í Hraunshól gæti hafa verið einir 14 km. Bóndi af Arnarbælistorfunni var á leið í verið í Þorlákshöfn og fylgdi Guðmundi í Hraunshól og valdi þá leið langt upp með svonefndum Þorleifslæk sem er framhald Varmár sem skiptir um nafn skammt sunnan við Hveragerði. Fylgdarmaðurinn taldi ekki óhætt að fara neðar yfir Þorleifslækinn, sem þó var á ís, en þetta var vissulega töluverður krókur á leiðinni að Hraunshóli. Í skírnarveislunni á Hraunshóli var veitt vín eins og alsiða hefur líklega verið á þessum tíma, en meðal veislugesta var Jón Halldórsson bóndi á Hrauni sem var fenginn til að fylgja Guðmundi áleiðis heim aftur í Arnarbæli. Eins og títt er enn þann dag í dag gæti áfengisneyslan hafa slævt dómgreindina og þeir félagar gerst áhættusæknari en ella og talið óhætt að treysta ísnum á Þorleifslæknum.
Hugsanleg leið sr. Guðmundar E. Johnsen í hinstu ferð hans
Þeir völdu sér því mun styttri leið til baka yfir svonefnda Ósa eða Hraunsósa sem hafa verið á þeim slóðum þar sem nú mætast Lambeyrar og Nauteyrar sitt hvoru megin við Þorleifslækinn þar sem hann fellur út í meginstraum Ölfusárinnar. Þessi leið í Arnarbæli hefði ekki verið nema um 5 km þannig að til nokkurs var að vinna að stytta leiðina frá því fyrr um daginn. Éljaveður var og farið að skyggja þegar þeir voru á ferð og gæti það hafa orðið til þess að Jón bóndi sá ekki vök á ísnum og reið ofan í. Hestur hans fannst í vökinni en lík Jóns fannst á mánudag undir skörinni við vökina. Hestur Guðmundar sást hinsvegar með reiðtygjum við vökina og vettlingar Guðmundar á ísnum. Talið er að hann hafi reynt að bjarga Jóni úr vökinni en fallið sjálfur ofan í í átökunum. Lík hans fannst nokkrum dögum seinna í Ölfusá.
Þjóðskáldið Matthías Jochumsson orti erfiljóð um sr. Guðmund en Ingveldur Ólafsdóttir, önnur kona Matthíasar sem hann missti eftir eins árs hjónaband, var bróðurdóttir Guðmundar. Ljóðið hefst á þessum orðum:
„Hvað er nú orðið hér að sök?
Hví hímir blakkur við auða vök?“
Pétur Guðmundsson frá Grímsey segir reyndar að hesturinn hafi ekki hímt við vökina þar sem þeir félagar létu lífið heldur hafði hann ranglað áleiðis heim undir Arnarbæli. Það var þó ekki svo. Matthías segir réttilega í erfiljóðinu að hesturinn sé ekki til frásagnar um það sem gerðist en leggur honum samt orð í munn og lætur hann rekja atburðarás slyssins. Matthías endar erfiljóðið á eigin boðskap:
„En ríð þú með varúð veraldarál
því veikur er ísinn og brautin hál.“
Sr. Guðmundur var ekki jarðsunginn fyrr en 24. mars, „erfingjar ómyndugir og erlendis.“ Gröf hans var framundan kirkjunni og við hlið hans var síðar jarðaður Ólafur Ólafsson, dóttursonur hans. Á gamla járnkrossinn á leiðinu eru skráð orðin „Sælir eru hreinhjartaðir“ ásamt nafni Guðmundar, fæðingar- og dánadegi. Steinninn er hinsvegar frá árinu 2014 en steinninn á leiði Ólafs er eldri. Þar er villa í fæðingardegi Ólafs, hann er sagður fæddur 5. júní 1893 en hann fæddist 13. júní en lést tæpra fjögurra ára gamall.
Madamma Guðrún Pétursdóttir þurfti að víkja af prestsetrinu í Arnarbæli eftir lát Guðmundar, þó ekki fyrr en „náðarárið“ var liðið en prestsekkjur áttu rétt á að búa á prestssetrinu í eitt ár eftir að presturinn lést. Eftir það átti hún athvarf hjá börnum sínum og síðar barnabörnum, einkum dætrum Önnu.
Leiði sr. Guðmundar í Arnarbæliskirkjugarði
Þegar manntalið var gert 1880 var hún til heimilis hjá Önnu dóttur sinni og sr. Oddgeiri Þórðarsyni Gudmundsen en hann var þá prestur í Sólheimasókn í Mýrdal. Þarna var Guðrún einnig 1881 en 1882 hafði Oddgeir fengið brauð í Miklaholti í Miklaholtshreppi þar sem hann var til 1886. Árið 1890 var hún hjá Ingveldi dóttur sinni og Grími Jónssyni kennara, manni hennar, en þau áttu heima á Ísafirði. Árið 1893 fór hún þaðan til Margrétar dóttur sinnar sem átti heima á Gili, skammt sunnan við Sauðárkrók.
Árið 1901 var Guðrún hjá Jóhönnu Andreu, dóttur Önnu og Oddgeirs, sem var gift Magnúsi Jónssyni sem þá var sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann var síðar bæjarfógeti í Hafnarfirði og þar lést Jóhanna 1906. Tveimur árum síðar giftist Magnús Guðrúnu Sigríði systur Jóhönnu. Árið 1910 er Guðrún í manntali skráð „ættingi“ hjá þeim Guðrúnu Sigríði og Magnúsi á heimili nr. 1 í Hafnarfirði. Ekki er vitað hvar Guðrún var síðustu árin nema hvað í Vísi 8. mars 1916 birtist tilkynning frá Guðríði, dóttur hennar, og sr. Ólafi Ólafssyni fríkirkjupresti, tengdasyni hennar, um að hún hafi látist á heimili þeirra kvöldið áður, níræð að aldri. Hún var jarðsett í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík (P-501).
Í grein sem Ólafur Ísleifsson hagfræðingur skrifaði um sr. Oddgeir langafa sinn í Morgunblaðið 11. ágúst 1999 tilfærir hann orð Oddgeirs um tengdamóður sína:
„Hún var mjög vel gefin til sálar og líkama, næm, skörp, stálminnug, trúrækin, ljóselsk; skrifaði kvenna best, stílaði lipurt og ritaði hreint mál vonum framar. – Hún vann allan ævidaginn dyggilega, frá dagmálum til skafthárrar kvöldsólar.“
Ólafur Guðmundsson Johnsen og síðar Johnson var í hópi 10 Íslendinga sem fluttust til Kanada árið 1872 en kom heim eftir að hann frétti af dauða föður síns ári síðar. Hann flutti aftur vestur 1876 ásamt Ingibjörgu systur sinni og Sigþrúði Guðríði Guðbrandsdóttur (1858-1943) unnustu sinni en þau giftust á Íslandi 3. ágúst 1876. Hálfum mánuði síðar héldu þau vestur til Winnipeg og síðan til Gimli þar sem þau bjuggu til 1879. Þau bjuggu síðan í Norður-Dakota, Churchbridge í Saskatchewan í Kanada og eftir það í Manitoba þar sem þau bjuggu síðast í Winnipeg. Þau eignuðust 10 börn, Kjartan (1900-1991) faðir Barrys var næstyngstur og átti sjálfur 11 börn. Kona hans var Gladys Irene Watchorn (1910-1994) af kanadískum ættum. Barry (1941-) fæddist og ólst upp í Manitoba í Kanada en fór í skóla í Minnesota í Bandaríkjunum, náði sér þar í konu og ílentist þar. Hann er því kanadískur Bandaríkjamaður.
Nú er lokið að segja frá sr. Guðmundir E. Johnsen og fjölskyldu hans og komið að því að segja frá heimsókn Barrys Johnson, sem átti sr. Guðmund fyrir langafa, til helstu staða sem tengjast sögu Ólafs afa hans í Hörgárdal. Skemmtiferðaskipið Rotterdam lagði að Tangabryggju á auglýstum tíma kl. 10 að morgni föstudagsins 5. ágúst á einhverjum fegursta degi sumarsins til þessa, golan var hæg og himinninn heiður og blár. Á skipinu voru 2.650 farþegar og rúmlega 1000 manna áhöfn þannig að það var ekki hlaupið að því að finna þau hjónin í allri þvögunni, þó að við hefðum vissulega séð mynd af þeim. En með því að hringjast á gátum við mælt okkur mót við þau og hittum þau ásamt frændfólki hans, Páli og Önnu Margréti Tryggvabörnum, við fyrirtæki sem eitt sinn hét Kjötiðnaðarstöð KEA og síðar Norðlenska. Barry og Lydia reyndust vera hið elskulegasta fólk og skemmtilegir ferðafélagar þennan dag. Barry var 81 árs, hagfræðingur og tölvuforritari, og Lydia, f. 1948, hafði starfað sem grunnskóla- og leikskólakennari. Hún er af sænskum og þýskum ættum en móðir Barrys var kanadísk.
Af Oddeyrartanganum var ekið rakleitt út á heimreiðina að Grjótgarði þaðan sem hjónin höfðu útsýni yfir sögusviðið og gátu tekið myndir. Hörgárdalurinn skartaði sínu fegursta. Litli-Dunhagi blasti við handan Hörgár og þangað var ekið og upp fyrir bæjarhólinn þar sem talið er að bæjarhúsið hefði staðið um 1850 þegar Ólafur fæddist þar. Megintilgangi Íslendsferðar Barrys var nú náð en sögu Ólafs í Hörgárdal þó ekki lokið. Frá Litla-Dunhaga ókum við rakleitt út að Þrastarhóli þar sem við höfðum fengið upplýsingar um hvar torfbærinn hafði staðið frá því á fyrri hluta 19. aldar þangað til hann var rifinn 1963. Staldrað var góða stund við á báðum bæjum þar sem fróðleikur flæddi um garða.
Nú var eftir að skoða kirkju og kirkjugarð á Möðruvöllum þar sem Barry hafði búist við að sjá legstein á leiði Ólafs sem átti að hafa verið fyrsta barn sr. Guðmundar og Guðrúnar en látist 1849. Í kirkjugarðinum tók Barry mynd af legsteini Péturs Havstein amtmanns sem átti líklega mestan þátt í því að Guðmundur flutti frá Möðruvöllum suður í Arnarbæli.
Tveir ungir drengir að nafni Ólafur Guðmundsson létust reyndar í Möðruvallaklaustursprestakalli á þessum tíma en þeir voru sannanlega börn annars fólks, giftra vinnuhjúa á Hofi sem fluttu í Hraukbæ áður en þau fluttust í einbúasetrið í Friðriksgáfu á Möðruvöllum. Barry sannfærðist um að afi hans hefði ekki átt eldri alnafna í systkinahópnum og að Anna hefði verið elst þeirra systkina.
Því þurfti hann ekki að leita að legsteini í kirkjugarðinum enda hefði steinn varla verið settur yfir ungbarn í Möðruvallakirkjugarði á þeim tíma jafnvel þótt fyrirfólk ætti í hlut. Möðruvallakirkja var opin þannig að hjónin gátu skoðað þetta fallega hús að utan og innan. Þar var þó ekki um að ræða sömu kirkju og langafi Barrys hafði messað í því að sú kirkja brann 1865. Nýja kirkjan var byggð á næstu tveimur árum undir stjórn Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni og var þá stærsta timburkirkja á landinu. En líklega þótti Johnson-hjónunum ekki mikið koma til legsteinanna í gamla kirkjugarðinum á Möðruvöllum í samanburði við steinana sem reistir hafa verið á leiðum Vestur-Íslendinga í Íslendingabyggðum vestanhafs. Þau höfðu þó ekki orð á því.
Nú var búið að uppfylla allar óskir Barrys nema um að fá að skoða torfbæ í líkingu við húsin sem afi hans hafði fæðst og alist upp í fyrstu árin, jafnvel til fullorðinsaldurs. Barry hafði sjálfur spurst fyrir um Laufás og þess vegna var ekið þangað, frekar en í Baugasel, enda ekki um aðra torfbæi að ræða þar í grenndinni. Vafalaust er Laufásbærinn, þar sem flestar vistarverur eru þiljaðar í hólf og gólf, mun stærri, reisulegri og vistlegri en bæirnir í Litla-Dunhaga og Þrastarhóli voru en einhverja hugmynd hafa þau hjón þó fengið um aðbúnað fólks á betri bæjum í Hörgárdal um miðja 19. öld.
Fyrir heppni eða tilviljun höfðum við komist að því að Barry átti býsna náin skyldmenni á Akureyri sem gerð er grein fyrir hér að framan í tengslum við Önnu, elstu dóttur sr. Guðmundar og Guðrúnar, en Bergljót móðir systkinanna á Akureyri var barnabarn Önnu, systur Ólafs afa Barrys. Bergljót og Barry voru því þremenningar sem er athyglisverður skyldleiki með tilliti til þess að Anna og Ólafur fæddust 1848 og 1850.
Systkinin Páll og Anna Margrét Tryggvabörn, börn Bergljótar Pálsdóttur, slógust í för með okkur þennan dag og fylgdu frænda sínum og konu hans um söguslóðir ættarinnar. Við Stefán skildum við Barry og Lydiu í Laufási í höndum þessara frændsystkina sinna sem sáu um að koma þeim aftur á skipsfjöl. Hjónin héldu ferð sinni áfram til Ísafjarðar og þaðan til Reykjavíkur þar sem þau hittu Ólaf Ísleifsson, fyrrnefndan frænda Barrys, sem sýndi þeim borgina, og í Hólavallakirkjugarði fann Barry leiði langömmu sinnar.
Heimildir:
Barry Johnson: Tölvuskeyti ýmis frá 22. júlí til 24. sept. 2022.
Eiður Guðmundsson: Stefán Ólafsson Thorarensen. Hörgdælingaþættir. Súlur VIII. árg. 1978.
FamilySearch.org, ættfræðivefur The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints.
Guðlaugur E. Einarsson: Drukknun séra Guðmundar E. Johnsen og Jóns bónda Halldórssonar á Hrauni. Lesbók Morgunblaðsins 20. febr. 1955.
Gunnar Frímannsson: Garðshornsbúar. Heimaslóð, 17. hefti, 2020.
Halldóra B. Björnsson: Sungið og kveðið í Saurbæjareldhúsi. Sunnudagsblað Tímans, 24.4.1966.
Haraldur Jósefsson: Símaviðtal 22. júlí 2022.
Hirschel, Bernhard: Homöópaþisk lækningabók eða leiðarvísir í meðferð sjúkdóma handa leikmönnum. Þýðendur M. Jónsson og J. Austmann. Akureyri 1882.
Hrafnkell Karlsson bóndi á Hrauni í Ölfusi: Símaviðtal 22. júlí 2022.
Hreppsbók Arnarneshrepps 1843-1865, aðgengileg á vef Héraðsskjalasafnsins á Akureyri.
IcelandicRoots.com, ættfræðivefur um Vestur-íslendinga.
Íslandsatlas, Edda útgáfa ehf. 2006.
Íslendingabók. Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf.
Manntöl, prestþjónustubækur og sóknarmannatöl.
Matthías Jochumsson: Ljóðmæli, fyrri hluti, frumort ljóð, Reykjavík 1956
Páll Eggert Ólason o.fl.: Íslenskar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Reykjavík 1948-1976.
Páll Steinþórsson: Símaviðtöl í september og október 2022.
Pétur Guðmundsson frá Grímsey: Annáll 19. aldar, IV bindi 1870-1883, bls. 102-103.
Róbert Fanndal Jósavinsson: Símaviðtal 4. ágúst 2022.
Orri Vésteinsson: Möðruvellir í Hörgárdal, fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
ólafur Ísleifsson: Oddgeir Gudmundsen – 150 ára minning. Morgunblaðið 11. ágúst 1999, bls. 35.
Ólafur Ísleifsson: Símaviðtal 25. júlí 2022.
Tilkynning um lát Guðrúnar Pétursdóttur Hjaltested, Vísir 8. mars 1916.
Torfi K. Hjaltalín Stefánsson: Eldur á Möðruvöllum, saga Möðruvalla í Hörgárdal frá öndverðu til okkar tíma. Flateyjarútgáfan 2001.
Upplýsingaskilti við Arnarbæliskirkjugarð.