Frímann og Margrét á Hamri og Efstalandi
Hér segir frá búskap Frímanns Guðmundssonar og Margrétar Jónsdóttur frá Laugalandi. Ekki hefur tekist að afla mikilla upplýsinga um búskap þeirra hjóna þannig að frásögnin er brotakenndari og styttri en vert væri.
Frímann Guðmundsson (1878-1926) og Margrét Egedía Jónsdóttir (1876-1956) frá Laugalandi, þá vinnukona á Akureyri, giftu sig 20. maí 1905 á Akureyri, en þau bjuggu í Garðshorni á móti Pálma og Helgu á árunum 1905 til 1908 eða á meðan Pálmi lá þar heima rúmfastur í berklum. Eftir það fluttu þau í Hamar og þá flutti Steinunn Anna, móðir Frímanns, til þeirra frá Rauðalæk og var hjá þeim til ársins 1915. Bæjarhúsin á Hamri brunnu árið 1898 eins og Guðmundur L. Friðfinnsson segir frá í bók sinni „Örlögum og ævintýrum“ (bls. 40) og þá var það sem Sláttu-Gvendur, faðir Valdemars í Bólu og afi Guðmundar, bjargaði barni út úr brennandi húsunum. En Frímann og Margrét hafa sem sagt flutt inn í nýlegt hús á Hamri en jörðin þótti heldur rýr.
Á meðan þau Frímann og Margrét bjuggu á móti Pálma og Helgu í Garðshorni 1905-1908 áttu þau eina kú og 18 ær auk 18 gemlinga á meðan Pálmi og Helga áttu 2 kýr, 22 ær og 3 gemlinga.
Á Hamri bjuggu þau með 1 kú, 36 ær og 16 gemlinga árið 1910 auk þess sem 1 hestur var á bænum en á sama tíma voru 2 kýr í Garðshorni, 40 ær, 15 gemlingar og 1 hross. Garðshornsbúið var þá talsvert yfir meðallagi í hreppnum en Hamarsbúið nokkuð undir meðallagi. Árið 1915 voru Frímann og Margrét komin með meðalbú, 2 kýr og 47 ær, 10 gemlinga og 2 hross. Í Garðshorni voru þá 2 kýr, 60 ær, 10 gemlingar og 3 hross. Hamar var ekki stór jörð, 11 hundruð á meðan Garðshorn var helmingi dýrari talin og Frímann og Margrét hafa greinilega ætlað sér stærri hluti því árið 1917 fluttu þau í Efstaland sem var 26 hundraða jörð.
Elsta barnið fæddist í Garðshorni, Sigurbjörg eða Sigurbjörg Steinunn Anna eins og hún hét fullu nafni en hún fæddist 1906. Hún var ekki skírð eftir afa og ömmu Frímanns, Sigurði og Arnbjörgu, heldur eftir Sigurbjörgu móður Margrétar og að sjálfsögðu eftir Steinunni Önnu móður Frímanns. Guðmundur Júlíus fæddist á Hamri 1910, væntanlega skírður eftir Guðmundi föður Frímanns og Jóní Júlíusi föður Margrétar. Anna Guðrún fæddist á Hamri 1912 og Ásta fæddist á Efstalandi 1921.
„Frímann var atorkumaður mikill en dó ungur,“ segir Eiður á Þúfnavöllum í Búskaparsögu II, bls. 26. Eiður segir líka um Frímann á öðrum stað: „Hann var dugnaðarbóndi, fálátur maður og seintekinn en drengur góður.“ (Mannfellirinn mikli bls. 136). Stefán V. Sigurjónsson á Blómsturvöllum sagði í ræðu sem hann flutti yfir moldum Frímanns: „... um hann verður ekki sagt að hann væri eins og opin bók, auðþekktur strax fyrir hvern sem vildi kynnast honum. Hann lét ekki vináttu sína í ljós með fjálgleik og fögrum orðum en hann sýndi það því betur í verkum hver maður hann var. Allir sem þekktu Frímann sáluga munu hafa kynnst honum sem alvörumanni, ef til vill hefur sumum fundist hann vera of mikill alvörumaður ... “ (Sjá ræðuna í heild hér fyrir neðan). Jóhanna bróðurdóttir hans sagði að hann hefði verið „þungur“. Ef einhverjir sjá þessi einkenni á afkomendum hans og öðrum skyldmennum, þá er það þeirra mál.
En ýmislegt fleira en ummæli Eiðs og Jóhönnu bendir til þess að Frímann og Margrét hafi haft bæði metnað og burði til að komast til betri efna en þau voru í á Hamri. Efstaland var talin mun betri jörð en Hamar og mynd Ástu Frímannsdóttur af bæjarhúsum þar sýnir að þar var meiri húsakostur en t.d. í Garðshorni á þeim tíma. Þau hafa því færst talsvert í fang með því að kaupa Efstaland því að þau áttu ekki Hamar sem var kirkjujörð.
Frímann og Margrét á Hamri fóru snemma að hafa hjú. Steinunn Gunnlaugsdóttir, 15 ára, sú sem síðar giftist Magnúsi Gunnarssyni, afa Kára Larsen, kom til þeirra sem vinnukona 1911 og var til 1914 en þá tók María systir Margrétar við og var hjá þeim þangað til þau fluttu í Efstaland. Á Efstalandi höfðu þau fyrst Jóhönnu Magnúsdóttur vinnukonu auk þess sem Ólafur Jónsson frá Skjaldarstöðum, kona hans og dóttir voru þar í húsmennsku. Tvær húskonur voru þar árið eftir en árið 1919 var Salóme Bjarnadóttir, 56 ára húskona, komin í stað Jóhönnu svo og Bjarni Kristjánsson, 21 árs vinnumaður. Salóme var á Efstalandi til ársins 1923. Eftir það voru þau ein að mestu, Frímann og Margrét, enda komin með 4 börn og Sigurbjörg – Bogga – komin undir tvítugt.
Á jólaföstu 1924 kenndi Frímann sér þess meins sem dró hann til dauða á rúmu ári. Hann veiktist af magakrabbameini eins og faðir hans rúmum tveimur áratugum áður og var lengi rúmliggjandi heima á Efstalandi áður en hann dó. Þá brá Margrét búi og flutti í Grjótgarð og síðan í Laugaland en var einn vetur á Bægisá 1928-29. Hún var lengst af ráðskona hjá Einari G. Jónassyni hreppstjóra eða þangað til 1947 en þá fór hún til Guðmundar sonar síns sem þá hafði tekið við kennara- og skólastjórastöðu á Hjalteyri. Margrét lést þar 1956, tæplega áttræð að aldri.
Minningarorð
Stefáns V. Sigurjónssonar um Frímann Guðmundsson
mælt fram við gröf hans 31. mars 1926.
Með örfáum orðum langar mig til að kveðja þennan minn hjartfólgna vin. Það verða síðustu orðin sem ég fæ að tala til hans áður en jörðin felur hann sínum kalda faðmi.
En þegar síðasta kveðjustundin er komin, þá vill það oft verða svo að erfitt er um kveðjuorðin, því söknuður og sár harmur hafa truflandi áhrif á hugsanirnar. Innan um hugsanirnar fléttast atburðir liðinna daga, endurminningar um óvita og ósjálfbjarga barnið sem hrifið var burt úr faðmi foreldranna og flutt til þess fólks sem það hafði ekki fyrr séð og þekkti ekkert. Ég veit að allir geta sett sig inn í ástand barnsins, menn geta gert sér í hugarlund harm og hugarangur þessa vanmáttuga og vesala einstæðings sem engu gat af sér hrundið og aðeins tárin, þessi svalandi sorgarlind, gæfu til kynna hversu mikinn harm það hafði að dylja.
En það er meira lán, meiri hamingja en með orðum verði lýst þegar hinn algóði Guð sem öllu ræður, lét barnið munaðarlausa fyrirhitta sanna foreldra og góð og elskuleg systkin. Ég var aðeins á fjórða árinu þegar foreldrar Frímanns sáluga tóku mig til fósturs og hjá þeim var ég þangað til ég var orðinn sjálfbjarga, sem kallað er. Foreldra hans kallaði ég foreldra mína og ætíð síðan hefur mér verið það svo einkar ljúft að kalla hann og systkini hans systkini mín. Og oft varð ég var við það hjá Frímanni sáluga, bæði í orði og verki, að hann bar eins hlýjan vinarhug til mín eins og ég væri bróðir hans. Með fullorðinsárum mínum fannst mér ég alltaf vera að þekkja hann betur og betur og læra að meta manngildi hans, því um hann verður ekki sagt að hann væri eins og opin bók, auðþekktur strax fyrir hvern sem vildi kynnast honum. Hann lét ekki vináttu sína í ljós með fjálgleik og fögrum orðum en hann sýndi það því betur í verkum hver maður hann var. Allir sem þekktu Frímann sáluga munu hafa kynnst honum sem alvörumanni, ef til vill hefur sumum fundist hann vera of mikill alvörumaður en „að svíkjast undan alvöru þessa lífs, getur ekki verið góður undirbúningur undir annað líf“ segir einn mikill vitmaður og einmitt bak við alvöruna faldist viðkvæmni hans, ást hans og eðallyndi, sem ef til vill þeir hafa orðið mest varir við sem þekktu hann best og hann kallaði vini sína.
Sönn vinátta, órjúfandi tryggð og stöðuglyndi fannst mér vera áberandi eiginleikar í fari og breytni Frímanns sáluga og það veit ég með vissu að hann vildi ekkert það vísvitandi gera sem varpað gæti skugga á sóma hans eða mannorð og það er mín hjartans sannfæring að fáir munu halda heim úr hildarleik þessa lífs með hreinni skjöld en Frímann sálugi hafði og einmitt það er besta huggunin þeim sem sárast syrgja hann. Enginn skilnaður er sárari en skilnaður dauðans, það gerir vissan um það að aldrei framar hér í þessu lífi fáum vér að sjá eða tala við hinn framliðna vin.
En algóður Guð leggur græðandi hönd á sár hinna sáru og hann hefur heitið okkur því að við skulum aftur fá að sjást á landi friðar og sælu og aldrei aftur skilja. Þar munum við mætast að enduðum ævidögum og því er ekki nema um örlítið tímaspursmál að ræða því „þann kost undirgengust allir að skiljast við“ og mér finnst jafnvel þessi framliðni vinur segja til vor sem hér erum:
„Gleðjist þó ei geti ég tafið,
grátið ei því stutt er bið,
ég fer aðeins yfir hafið
augnabliki fyrr en þið.“
„Hvers þér biðjið föðurinn í mínu nafni, það mun hann veita yður“ sagði bróðir vor og frelsari Jesús Kristur og það er sælurík hugsun að vita það að hvenær sem vér lyftum huga vorum í hreinni, innilegri og heitri bæn til vors himneska föður, þá heyrir hann bænirnar okkar og meira en það, hann bænheyrir okkur. Því vil ég á þessari stundu biðja:
Algóði miskunnsami, eilífi Guð og faðir, þú sem hefur skapað vináttu í hjörtu vor og lætur dauðann svifta oss þeim vinum sem við höfum eignast:
Ég bið þig:
Tak þú þennan burtsofnaða vininn minn í náðararma þína og lát þú honum ævinlega líða vel svo ekkert geti skyggt á sælu hans í samfélagi við engla þína og útvalda og gef þú oss öllum að við að loknu lífsstarfi fáum aftur að hittast og vera saman í ást og eindrægni í þínu föðurlandi.
Bænheyr þú mig faðir, í Jesú nafni.
Vertu sæll, vinur og fóstbróðir1.
1 Frumritið hefur varðveist hjá Steindóri Pálmasyni en auk þess hefur varðveist á Fremri-Kotum afrit með rithönd Steindórs.
Það var lengi til siðs að óprestvígðir mæltu minningarorð yfir gröf hins látna en ekki inni í kirkju. Þannig talaði Gestur Sæmundsson (1903-2004) frá Efstalandi blaðalaust yfir gröf Steins Snorrasonar (1925-1999) á Bægisá, Gestur þá 96 ára gamall.