Aðalheiður Jónsdóttir

Aðalheiður Jónsdóttir
ljósmóðir og húsfreyja á Barká.

Inngangur

Í Heimaslóð birtast margar greinar um merkisfólk úr sveitinni okkar, sumt lífs, annað liðið. Þetta er fólk sem setti og setur svip á mannlífið með því að vera öðruvísi en annað fólk í góðri merkingu. Nú er kominn tími til að Aðalheiður frá Barká fái grein um sig. Hún var ekkert fyrir að láta skrifa um sig á meðan hún lifði en nú ræður hún engu um það.

Æskuheimili mitt í Garðshorni á Þelamörk var lengi mannmargt, systkinin voru mörg og oft eitt eða fleiri fósturbörn að auki. Vélvæðing var þá orðin nokkur, bæði innanhúss og utan, en engu að síður bar það stundum við á 6. áratugnum og raunar lengur að á heimilinu var vinnukona um lengri og skemmri tíma eða bara vinkona, Aðalheiður Jónsdóttir frá Barká, ævinlega kölluð Alla. Við eldri systkinin héldum mikið upp á Öllu sem gekk með okkur að verkum bæði úti og inni. Við þrjú þau elstu, Fríða, Pálmi og Gunnar, kynntumst henni líklega best því að það bar oft við, þegar hún var hjá okkur að sumarlagi, að við þrjú vorum send með henni út á tún að snúa með hrífum. Reyndar voru til snúningsvélar á bænum, frekar tvær en ein, sem hægt var að hengja aftan í Farmalinn en vélarnar voru ekki eins vandvirkar og hrífurnar, þær náðu ekki að snúa við öllum blautum grastuggum. Vélarnar voru eflaust afkastameiri en þar sem börnin voru mörg á bænum gekk talsvert undan okkur þegar við röðuðum okkur á flekkina.

Þegar við þrjú framangreind fórum út að snúa með Öllu lét hún gjarnan dæluna ganga, sagði okkur sögur og fór með kveðskap eftir sjálfa sig en þó aðallega aðra. Sögurnar þættu líklega ekki allar við hæfi barna nú til dags og þóttu e.t.v. ekki þá heldur enda máttum við ekki segja foreldrum okkar frá þeim og yngri systkinin máttu ekki vera með í flekknum. Mig langar til að tína saman fáeinar sögur um Öllu og jafnvel einhver dæmi um sögur sem hún sagði okkur krökkunum og urðu minnisstæðar. En fyrst svolítið um Aðalheiði á Barká og hennar fólk.

Ætt og uppruni

Aðalheiður fæddist í Efstalandskoti í Öxnadal 7. mars 1893 – Íslendingabók segir reyndar 4. mars og hefur það eftir prestþjónustubók Bægisársóknar – en Aðalheiður hélt upp á bæði sextugs- og sjötugsafmæli sitt 7. mars og í Ljósmæðratalinu er sú dagsetning notuð svo að hún hefur greinilega litið á þann dag sem fæðingardag sinn. Hún hefur eflaust haft gild rök til þess. Faðir hennar var Magnús Jón Jónsson, jafnan nefndur og skrifaður Jón, fæddur árið 1850 á Völlum í Svarfaðardal og dáinn árið 1900 á Skjaldarstöðum. Móðir hennar var Anna Magnúsdóttir fædd árið 1863 í Garðsvík á Svalbarðsströnd, dáin 1948, þá heimilisföst á Skjaldarstöðum. Þau fluttu í Varmavatnshóla í Öxnadal 1883 þar sem Jón var skráður bóndi en Anna vinnukona. Á heimilinu var Sigríður Jónsdóttir (1816–1895) móðir Jóns og ári síðar var Ragnhildur Jónsdóttir (1831–1921) móðir Önnu komin á heimilið sem húskona. Árið 1885 voru Jón og Anna gift og það ár fæddist elsta barnið, Jón. Árið 1888 flutti fjölskyldan frá Varmavatnshólum í Vaglir á Þelamörk en síðan í Efstalandskot í Öxnadal þar sem þau bjuggu 1889 – 1894. Þau voru síðan í Dunhagakoti í Möðruvallasókn 1894 – 1896 en þá fluttu þau í Skjaldarstaði í Öxnadal þar sem fjölskyldan bjó upp frá því.

Anna Magnúsdóttir á Skjaldarstöðum

Gömlu konurnar á heimilinu, Sigríður og Ragnhildur, voru með þeim á þessum þvælingi og þegar honum lauk var Sigríður nýlátin en Ragnhildur bjó með Önnu og börnum hennar á Skjaldarstöðum til æviloka. Hún hafði eignast Önnu með með Magnúsi nokkrum Benediktssyni (1840–1926) þegar hún var vinnukona í Garðsvík á Svalbarðsströnd en Magnús kennari og bóndi á Ytra-Hóli í Kaupvangssveit. Ekkert varð meira úr sambandi þeirra Ragnhildar og Magnúsar, hún eignaðist ekki önnur börn en hann giftist löngu síðar og eignaðist einn son í því hjónabandi, Stefán sem var verkamaður og sjómaður á Akureyri, ógiftur og barnlaus. Aðalheiður hélt því gjarnan á lofti að Magnús afi hennar og Jóhann faðir Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar hefðu verið bræðrasynir.

Jón eldri á Skjaldarstöðum lést fáum árum eftir að þau Anna fluttu þangað en þá höfðu þau eignast 5 börn, Jón (1885–1967) sem lengst bjó á Skjaldarstöðum, Ólaf (1987–1971) sem bjó á Miðlandi og Hraunshöfða 1920–1938 áður en hann flutti til Akureyrar, Aðalheiði sem var þriðja barnið í röðinni, Kristmann (1894–1975) sem var sjómaður í Reykjavík og yngst var Ragnhildur (1898–1952) sem var vinnukona og ráðskona hjá Jóni bróður sínum á Skjaldarstöðum til æviloka.

Jón yngri varð snemma svokölluð fyrirvinna fjölskyldunnar á Skjaldarstöðum eftir að faðir hans lést og frá 1913 telst hann hafa verið bóndinn en amma hans Ragnhildur, Anna móðir hans og Ragnhildur systir hans voru þar húskonur, vinnukonur og bústýrur á meðan þeirra naut við. Anna móðir Skjaldarstaðasystkinanna lést hátt á níræðisaldri 1948 og Ragnhildur móðir hennar varð einnig háöldruð á þess tíma mælikvarða, lést 1921 89 ára að aldri.

Ragnhildur eldri á Skjaldarstöðum átti fjögur hálfsystkini samfeðra og þrjú hálfsystkini sammæðra en ekkert alsystkini. Förum ekki nánar út í það en hálfsystir hennar sammæðra var Guðrún Tómasdóttir (1840–1903) sem var ljósmóðir og forstöðukona Sjúkrahússins í Reykjavík og prófdómari þar í ljósmóðurfræðum. Alsystir Guðrúnar var Halldóra (1842–?) sem vann á Sjúkrahúsinu hjá Guðrúnu systur sinni um tíma. Guðrún lést reyndar árið 1903 þegar Aðalheiður var 10 ára gömul en ekki er ósennilegt að þessi tengsl hafi átt einhvern þátt í því að Aðalheiður lærði ljósmóðurfræði í Reykjavík og starfaði síðan sem ljósmóðir í hálfan fjórða áratug í Öxnadal og Skriðuhreppi á meðan hún bjó þar.

Aðalheiður var heimilisföst á Skjaldarstöðum þangað til hún giftist en hafði þó verið vinnukona á nágrannabæjum, einkum á sumrin, m.a. á Bakka og Ytri-Bægisá. Hún lauk prófi í ljósmóðurfræðum í Reykjavík vorið 1915 og hóf strax störf sem ljósmóðir í Öxnadal það ár. Þar var hún ljósmóðir til 1930 eða þangað til hún flutti úr dalnum en Skriðuhreppsumdæmi sinnti hún miklu lengur eða frá 1918 til 1951. Fyrir kom líka að hún var kölluð til hjálpar út fyrir embættið, m.a. á Þelamörkina. Allt bendir til að Aðalheiður hafi verið góð ljósmóðir og vinsæl í heimabyggð. Svo mikið er víst að sveitungar hennar úr Hörgárdal og Þelamörk héldu henni rausnarlegt samsæti á sextugsafmæli hennar og færðu henni góða gjöf.

Búskaparár á Barká

Vorið 1923 giftist Aðalheiður Manases Guðjónssyni en hann var fæddur 14. 5. 1891 og dáinn 9. 1. 1938. Foreldrar hans voru Guðjón Einar Manasesson (1864–1941) frá Ási og Rósa Kristjánsdóttir (1865–1955) frá Hamri og Lönguhlíð. Þau höfðu hafið búskap í Ási en flosnuðu fljótlega upp þaðan, börnin urðu 12 sem þau réðu ekki við að framfleyta svo að sumum þeirra var komið í fóstur hér og þar eins og siður var á þeim tíma, titluð niðursetningar í prestþjónustubókum. Manases var næstelstur og var meðal þeirra systkinanna sem fengu að alast upp hjá foreldrum sínum.

Aðalheiður Jónsdóttir og Manases Guðjónsson á Barká

Manases var farinn að reyna fyrir sér við búskap áður en þau Aðalheiður tóku saman. Árið 1920 bjó hann einn í Hallfríðarstaðakoti á móti Ólafi bróður Aðalheiðar og má leiða líkum að því að þar hafi þau Manases og Aðalheiður kynnst. Næstu tvö ár var Manases einn af þremur skráðum bændum í Lönguhlíð en árið 1923 hófu þau Aðalheiður búskap á Barká, hann 32 ára en hún þrítug. Á Barká bjuggu þau til 1938 eða þar til Manases lést. Hann hafði verið meðhjálpari við Bægisárkirkju og fór þangað til messu á nýársdag. Á heimleið brast ísbrú á Öxnadalsánni undan hesti hans og hann féll í ána og blotnaði. Kaldur og hrakinn komst hann heim í Barká en veiktist af lungnabólgu og dó rúmri viku síðar.

Börn þeirra Manasesar voru Stefán f. 25. 3. 1925, d. 21. 7. 1985, og Sigríður f. 6. 8. 1937. Stefán vann að búverkum með móður sinni á Barká fram undir tvítugt en var síðan verkamaður á Dalvík og í Reykjavík. Hann eignaðist tvo syni.

Fyrstu árin eftir dauða Manasesar var Sigríður dóttir þeirra Aðalheiðar í fóstri hjá Guðrúnu föðursystur sinni og Rósinkar Guðmundssyni manni hennar sem bjuggu þá í Syðri-Haga á Árskógsströnd. Þau brugðu búi 1942 og skildu, Rósinkar flutti í Skriðuland til sonar síns en Guðrún út á Dalvík með Sigríði. Árið eftir, þegar Sigríður var á 6. ári, fór hún í Barká til móður sinnar og var þar þangað til Aðalheiður brá búi 1950.

Sigríður var léttastúlka á nágrannabæjum á sumrin, m.a. Hallfríðarstaðakoti og Sörlatungu, og hún var í vist með móður sinni á Ytri-Bægisá veturinn eftir að Aðalheiður hætti búskap. Aðalheiður hafði sem unglingur verið vinnukona á Ytri-Bægisá og bundist þá vináttuböndum prestdótturinni Sigríði Theódórsdóttur. Sr. Theódór á Bægisá lést í október 1949 og fáum dögum síðar gengu þau í hjónaband, Sigríður Theódórsdóttir og Bjarni Friðriksson, síðar garðyrkjumaður í Hveragerði og Kópavogi, bæði komin um fimmtugt. Veturinn eftir og raunar nokkrum árum betur bjó prestsekkjan Jóhanna Valgerður áfram á Ytri-Bægisá ásamt dætrum sínum, Valgerði Sigríði og Valgerði Kristjönu, en Sigríður hafði alla tíð verið bundin við heimili sitt á Ytri-Bægisá, var sögð mun meiri verkmaður en systir hennar, „alveg hamhleypa í verki“ eins og Jón í Garðsvík hefur eftir Stefáni á Rauðalæk sem var eitt sinn með henni í heyskap á Bægisá. Aðalheiður fór þangað í vist, eftir að hún hætti búskap á Barká, til þess að Sigríður gæti flutt að heiman með manni sínum sem þau gerðu sumarið eftir að þau giftu sig. Sigríður dóttir Aðalheiðar var með henni þennan vetur en fór þaðan sem vinnukona í Dagverðartungu vorið sem hún fermdist 1951. Sigríður giftist Davíð Guðmundssyni bónda í Glæsibæ og bjó þar öll sín búskaparár. Þau eignuðust fimm börn.

Eftir að Aðalheiður flutti frá Barká var hún vinnukona og ráðskona um lengri og skemmri tíma á bæjum í Hörgárdal, eftirsótt til allra verka, þótti m.a. drjúgur liðsauki í sláturtíð. Hún var hamhleypa til vinnu hvort sem hún gekk til heyverka eða tíndi ber handa sér og sínum og jafnvel seldi. Hún var stundum í Skriðu og af einhverjum ástæðum var hún oft í Garðshorni, eins og áður sagði, og vera má að um það hafi einhverju ráðið að Jón, faðir hennar, og Steinunn Anna, móðir Pálma í Garðshorni, voru systrabörn. Fleira gat hafa tengt heimilin saman fyrr á árum. Kristfinnur bróðir Manasesar á Barká var fósturbarn í Garðshorni, sem Steinunn Anna lét sér mjög annt um, og Steindór sonur Kristfinns var í fóstri um tíma í Garðshorni áður en hann fór í fóstur í Skjaldarstaði þar sem hann var nokkur ár fram yfir fermingu. Líklega hafði Jón á Skjaldarstöðum hann í huga þegar hann sagði að það væri ábyrgðarmeira að ala upp annarra manna börn en sín eigin. Jón átti samt aldrei eigin börn þótt hann fóstraði bæði Steindór Kristfinnsson (1921–2010) rafvélavirkjameistara á Akureyri og síðar Baldur Ragnars Ragnarsson (1936–2016) flutningabílstjóra, son Ragnhildar systur sinnar sem var 16 ára þegar hún dó.

Aðalheiður var heimilisföst hjá dóttur sinni og tengdasyni í Glæsibæ eftir að hún fór úr vistinni á Bægisá en flutti til Akureyrar 1959, leigði fyrst kjallaraherbergi í Eyrarlandsvegi, var nokkur ár í Vanabyggð en flutti aftur í Eyrarlandsveginn þar sem hún bjó til dauðadags 1976.

Sögurnar

Ýmsar sögur fóru af Aðalheiði á meðan hún bjó á Barká sem bera þess merki að hún fór ekki alltaf alfaraleiðir og gaman þótti henni að ganga fram af sveitungum sínum með tilsvörum og tiltækjum. Hún sagði sjálf að hún hefði brotið hefðir og siðareglur þegar hún tók upp á því að klæðast síðbuxum af bónda sínum í göngum. Hún var feministi. Og Alla á að hafa sagt einhverju sinni þegar fráfall bónda hennar barst í tal: „Verst að hann Manases minn skyldi deyja einmitt núna. Við vorum komin upp á svo assgoti gott lag með að hafa samfarir.“

Aðalheiður Jónsdóttir

Sögurnar sem hún sagði okkur eldri Garðshornssystkinunum bera það líka með sér að hún var hispurslaus þegar kom að tali um kynlíf og hafði jafnvel hálfgaman af því sem einu sinni var kallað „létt klám fyrir byrjendur.“ „Ég hef nú aldrei heyrt verra klám en lunga,“ hafði Alla eftir konu sem var örugglega ekki úr Hörgárdalnum en sagði þetta til marks um siðgæði sitt. Alla var ekki svo siðprúð.

„Grunaði mig ekki, fæðist fótur,“ hafði Alla eftir starfssystur sinni, ljósmóðurinni sem fór rúmavillt þegar hún kom í dimma baðstofuna til að hjálpa konu í barnsnauð en bóndi enn í hvílu.

Og svo var það sagan um bóndann sem býsnaðist yfir því hvað mikið væri að gera hjá honum og allt erfitt á meðan konan væri í makindum heima í húsverkunum. Konan bauð honum þá að skipta um hlutverk, hún skyldi ganga í útiverkin ef hann sæi um heimilisstörfin. 

Svo þegar konan kom heim frá slætti eftir langan dag hafði allt gengið á afturfótunum hjá bónda. Hún byrjaði á að segja sem svo að gott væri nú að fá mjólkursopa en bóndi svaraði „Og ekki held ég það nú, ég drap nú kúna.“ Hann hafði þá tjóðrað hana uppi á fjósþaki en hún dottið niður og hengt sig í tjóðurbandinu. „Æi, ósköp var það nú leitt,“ sagði konan, „en það gerir nú svo sem ekki svo mikið til fyrir okkur, það er verra með barnið. Það verður erfitt að fá mjólk handa því.“ – „Og ekki held ég það nú,“ sagði bóndi. „Ég drap nú barnið.“ Með einhverjum hætti hafði karl ætlað að hemja barnið á meðan hann sinnti húsverkunum en þá tókst ekki betur til en svo að barnið slasaðist til dauðs. „Ósköp eru að heyra þetta,“ sagði konan mædd, „en við getum svo sem eignast annað barn.“ – „Og ekki held ég það nú,“ sagði bóndi, „folinn beit nú undan mér.“ Karl hafði þá verið að sinna hestinum en farið eitthvað illa að honum svo að hann glefsaði aftur með sér með þessum afleiðingum fyrir bónda. Ég er ekki frá því að slysin hafi verið fleiri, sem hentu bóndann, en þau hafa ekki orðið mér minnisstæð. Þessi saga er vissulega til í fleiri útgáfum, gott ef ein þeirra var ekki í einhverri lestrarbókinni frá Ríkisútgáfu námsbóka, sem fólk á mínum aldri las í barnaskóla, en einhvern veginn á þessa leið var hún í munni Öllu.

Svona voru sögurnar hennar Öllu. Fleiri dæmi verða ekki tilfærð hér enda vafasamt að menningarsaga Hörgársveitar verði bættari þó að þær verði allar færðar í letur.

Alla sagðist vera trúlaus og hefur eflaust sagt það satt og ekki trúði hún á hindurvitni og hégiljur. Hún gerði grín að trúgjörnum sagnaritara í sveitinni sem uppveðraðist þegar Alla sagði honum að hún hefði haldið sig sjá draug í Bægisárkirkju þegar hún var þar vinnukona. Hún hafði farið út í kirkju til að vitja um þvott sem hafði verið breiddur til þerris á kirkjubekki og þegar hún kom inn úr kirkjudyrum flögraði draugur á móti henni. Þetta var að sjálfsögðu þvotturinn sem hreyfðist í súgnum þegar dyrnar opnuðust og þess vegna varð sagan aldrei að draugasögu hjá sagnaritaranum. Það kom hinsvegar fyrir í Garðshorni á aðfangadag að Frímann bóndi var búinn að útbúa jólasvein sem átti að koma með jólagjafirnar til barnanna. Hann hafði ætlað að setja þennan spýtukall út á tröppur fyrir útidyrum en vegna veðurs þurfti hann að setja gaurinn á pallinn við kjallaratröppurnar. Nú átti Alla erindi niður í kjallara og krossbrá þegar hún sá þennan óvænta gest og sagði stundarhátt: „Guð minn almáttugur.“ Mamma heyrði þetta til hennar og stríddi henni á því að trúleysið risti líklega ekki eins djúpt og hún vildi vera láta en auðvitað táknaði þessi upphrópun frekar málvenju en að Alla væri að ákalla æðri máttarvöld.

Alla var hagmælt þótt hún flíkaði ekki kveðskap sínum mikið. Á yngri árum setti hún saman brag við lagið um Gamla Nóa um dansskemmtun sem hún sótti í sveitinni með öðru ungu fólki, eflaust var það einhver ungmennafélagsskemmtunin. Mér er ekki kunnugt um að bragurinn hafi varðveist og ég kann ekki úr honum nema brot úr einni vísunni um eftirköst samkomunnar:

„Heila viku og hálfa
hafði ég verk í kálfa.
Annan fótinn, annan fótinn
eftir mér ég dró.“

Alla söng ekki braginn þegar hún fór með hann fyrir okkur heldur mælti hann af munni fram með áherslum.

Einhverju sinni fór Alla með vinkonu sinni, Sigríði á Steðja, að heimsækja Grím gamla á Vöglum. Með í för var Haki sonur Sigríðar, barnungur. Þetta var á meðan Hallgrímur bjó enn í gamla Vaglabænum uppi á hjallanum ofan við Klifið, áður en þeir Dóri fluttu sig í Tukthúsið niður við þjóðveginn. Þær menningarminjar sem fólust í þessum Bretaskúrum við Vaglir hafa nú allar verið eyðilagðar en það er önnur saga. Grímur tók þeim stöllum forkunnarvel og vildi allt fyrir gesti sína gera. Þær vildu þó ekki þiggja hjá honum kaffi því að þeim leist ekki á þrifnað á borðbúnaðinum en þær þáðu hinsvegar hænuegg sem hann sauð handa þeim. Grímur áttaði sig á að hann gat ekki boðið þeim að nota snyrtingu heimilisins því að þar hefur flórinn líklega verið látinn koma í stað postulínsins sem þá var yfirleitt farið að nota á bæjum. En hann bauð fram koppinn sinn, sérstaklega ef barnið þyrfti á því að halda. Þær þáðu hann ekki frekar en kaffið. Alla hafði gaman af að segja frá þessari heimsókn í Vaglir og lét þessa vísu fylgja með:

Gott var hjá þér, Grímur minn,
glæný egg að éta
en keraldsvíðan koppinn þinn
kunnum við ekki að meta.

Eins og áður segir flutti Alla til Akureyrar og bjó fyrst í kjallaraherbergi við Möðruvallastræti en í þessum sama kjallara leigði nemandi í Menntaskólanum, lífsglaður piltur sem fékk oft heimsóknir frá félögum sínum. Greinilega hefur hljóðeinangrun milli vistarvera í kjallaranum ekki uppfyllt Evrópustaðla frekar en títt var í timburhúsum fyrri tíma. Um þessar heimsóknir til nágrannans orti Alla:

Gegnum þilið glöggt má heyra
gaspur pilta um skólann sinn.
Um stelpur tala miklu meira
en menntaskólalærdóminn.

Aðalheiður Jónsdóttir lést 3. október 1976. Annaðhvort hefur lát hennar og jarðarför farið fram hjá mér eða samviskusemin verið svo að drepa mig að ég hafi ekki tímt að fara frá kennslu þessa fyrstu skóladaga haustsins en ég var ekki viðstaddur þegar hún var jarðsett við hlið Manasesar eiginmanns síns í Bægisárkirkjugarði. Væntanlega hefur sr. Þórhallur ekki farið með neina ofangreinda sögu við útför hennar.

(Greinin birtist í Heimaslóð, árbók Hörgársveitar, 16. hefti 2019)