Af Pálínu Árnadóttur og systkinum

Af Pálínu Árnadóttur og systkinum

Fjórum árum eftir lát Petrínu eða 23. október 1894 giftist Skarphéðinn aftur. Seinni kona hans var Pálína Árna­dóttir (1866-1924) og fór athöfnin fram í Ögurkirkju eftir þrjár lýsingar. Frumburður þeirra hafði reyndar fæðst tæpum tveimur árum áður, Petrína Sigrún (1892-1933).

Pálína Árna­dóttur fæddist í Hænuvík í Patreks­firði þar sem móðir hennar, Ingibjörg Ólafsdóttir (1828-1883), hafði fæðst og alist upp hjá foreldrum sínum, elst nokkurra systkina. Faðir Pálínu var Árni Pálsson (1822-1876) sem fæddist á Vatneyri þar sem nú er kauptúnið Petreksfjörður. Foreldrar hans voru ógiftir og giftust hvort í sína áttina en á uppvaxtarárum sínum var Árni tökupiltur í Vatnadal norðan við Breiðuvík og þar eignaðist hann dótturina Vilborgu með vinnukonu árið 1841 en hún dó í frumbernsku. Upp frá því var hann vinnumaður á bæjum, t.d. á Hvallátrum 1845 og Látrum 1850. Hann eignaðist aðra dóttur og nú með prestdótturinni í Sauðlauksdal 1851 en barnið dó á 1. ári og móðirin fáum árum síðar. Í september 1853 voru Árni og Ingibjörg bæði vinnuhjú í Hænuvík þegar þau stofnuðu til hjúskapar og eignuðust sitt fyrsta barn, Brand, hálfu ári síðar. Þau tóku við búi af foreldrum hennar og bjuggu að því er virðist góðu búi í Hænuvík fram yfir 1867 ef marka má fjölda vinnuhjúa en ómegðin var þó alltaf mikil.

Árni og Ingibjörg eignuðust 11 börn en af þeim komust 6 upp, Pálína þeirra yngst. Brandur fæddist 1854, eins og fyrr segir, Ólafur 1855, Guðbjörg 1856 og Árni 1859 en hann dó 1864 úr barnaveiki. Árið 1860 fæddust tvíburarnir Magnús og Kristján en sá síðarnefndi dó fjögurra daga gamall. Guðríður fæddist 1861 og dó 1864 og 1862 fæddist andvana piltbarn. Árið 1864 fæddist og dó Halldór og 1865 fæddist Arndís Guðríður. Pálína fæddist 1866.

1867 eða 1868 leystist heimilið upp og þau Ingibjörg og Árni hrökkluðust suður að Sjöundaá á Rauðasandi og höfðu aðeins eitt barna sinna hjá sér, Magnús, sem var þó skráður sveitarómagi. Arndís Guðríður og Pálína fóru á sveit en hin höfðu aldur til að fara í vinnumennsku á aðra bæi. Árni drukknaði í lendingu í Breiðuvík 1876 en Ingibjörg var vinnukona á Fífustöðum 1880 en lést 1883.

Rétt er að geta hér að nokkru þeirra barna Ingibjargar og Árna sem upp komust því að afkomendur þeirra eru náskyldir afkomendum Skarphéðins Elíassonar af seinna hjónabandi. Af þessum börnum er það að segja að Brandur (1854-1892) var vinnumaður í Sauðlauksdal 1870 og næsta áratuginn og giftist þar Sigþrúði Einarsdóttur (1855-1922). Þau bjuggu á Hnjóti í Örlygs­höfn 1890. Brandur lést 2 árum síðar en Sigþrúður var þar áfram í þurrabúð ásamt börnum þeirra þremur.

Ólafur (1855-1876) var léttapiltur í Breiðuvík 1870 en hann drukknaði 1878.

Guðbjörg (1856-1911) hefur líklega verið vinnukona í Hænuvík 1870, á Grundum í Breiðu­víkursókn 1880 og 1890 er hún vinnukona á Vatneyri (ytri hluti kauptúnsins í Patreksfirði) en í þann veginn að giftast Ingva Einarssyni(1863-1924) vinnumanni á Geirseyri (í innri hluta kauptúnsins). Þau bjuggu þar í þorpinu, áttu 4 börn en 2 komust á legg og urðu langlíf.

Magnús (1860-1911) fór með foreldrum sínum að Sjöundaá þegar heimilið í Hænuvík leystist upp en hann varð síðar bóndi á Hnjóti, eignaðist 12 börn og af þeim 10 með eiginkonu sinni, Sigríði Sigurðardóttur frá Vesturbotni.

Arndís Guðríður (1865-1946), kölluð og skráð Guðríður, var niðursetningur í Kollsvík sunnan við mynni Patreksfjarðar 1870 en 1880 var hún léttastúlka á Sjöundaá og vinnukona í Neðri-Tungu í Örlygshöfn 1890. Árið 1894 eignaðist hún dóttur með Hjalta Þorgeirs­syni (1840-1918) sem áður var bóndi í Krókshúsum á Rauðasandi en var nú orðinn ekkjumaður, 25 árum eldri en Guðríður. Dóttirin Etilríður Marta Hjaltadóttir, kölluð Marta, ólst upp hjá móður sinni þangað til hún gat farið að vinna fyrir sér. Marta giftist og eignaðist 5 börn sem urðu langlíf en þær mæðgur bjuggu síðast í Mosfells­sveit/-bæ.

Erfitt hefur reynst að rekja slóð Pálínu fyrstu árin. Hún var niðursetningur á Bæ í Kollafirði í Barðastrandarsýslu 1870 og 1872 er hún sögð flytjast frá Saurbæ á Rauðasandi til Ísafjarðar en hún kemur líka fyrir á Kirkjubóli á Bæjar­nesi í Gufu­dalssveit (milli Kollafjarðar og Kvígindisfjarðar). Líklega hefur hún þó ekki snúið aftur á bernskuslóðir eftir að hún flutti norður í Djúp. Árið 1878 var hún í Hnífsdal, þá skráð fósturdóttir húshjónanna Gísla Gíslasonar (1836-1907) og Margrétar Halldórs­dóttur (1836-1881), og 1880 var hún vinnukona á Ísafirði hjá Halldóri (1848-1921) bróður Margrétar og Kristínu Pálsdóttur (1851-1920). Árið 1882 var hún hjá Margréti Halldórsdóttur, móður og alnöfnu Margrétar konu Gísla Gíslasonar, þannig að hún var hjá sömu stórfjölskyldunni þessi ár en enginn náinn skyldleiki virðist hafa verið milli Pálínu og þessa fólks. Þetta ár var sérstaklega tekið fram í kirkjubók að hún læsi ágætlega. Árið 1881 var hún vinnukona hjá Guðmundi Pálssyni (1844-1904) og Margréti Kristjánsdóttur (1849-1908) í Innri-Hnífsdal. Frá 1883 til 1886 var hún vinnuhjú á Ísafirði, eitt ár hjá hverri fjölskyldu nema 2 hjá Teiti Jónssyni gestgjafa og Guðrúnu Gísladóttur konu hans. Frá árinu 1887 var hún vinnu­kona á Garðstöðum og þaðan fór hún í Strandsel og árið 1892 hafa þau Skarphéðinn hafið sambúð í hús­mennsku í Hagakoti þar sem frumburð­urinn Petrína Sigrún fæddist í nóvember. Pálína var þá 26 ára en Skarphéðinn 31 árs.