Guðmundur, Steinunn og afkomendur
Árið 1899 fluttu í Garðshorn Guðmundur Sigfússon (1843-1904) Benediktssonar frá Flöguseli og Steinunn Anna Sigurðardóttir (1845-1929) frá Æsustöðum í Eyjafirði, börn þeirra og tvö tökubörn. Guðmundur fæddist í Lönguhlíð. Móðir hans, sem var frá Stóragerði í Myrkárdal, lést úr barnsfararsótt þegar hann þriggja ára gamall en fyrstu árin eftir það var hann með föður sínum og systkinum, lengst í Tittlingi ofan Akureyrar, en fyrir fermingu fór hann í vist til sr. Daníels Halldórssonar í Glæsibæ og fluttist með honum fram í Hrafnagil þegar Daníel tók við embætti þar.
Þar fremra kynntist hann elstu systurinni á Æsustöðum, Steinunni Önnu, sem var úr stórum systkinahópi. Fimm af 8 systkinum, sem upp komust, fluttu til Kanada en tvær systur aðrar en Steinunn ílentust í Eyjafjarðarbyggðum. Guðmundur og Steinunn hófu búskap sinn í Hraungerði í Hrafnagilshreppi og bjuggu þar árið 1875-1876 en fluttu þaðan í Einarsstaði í Kræklingahlíð þar sem þau bjuggu á hálfri jörðinni 1876-1886. Þaðan fluttu þau í Grjótgarð á Þelamörk og bjuggu þar þangað til þau fluttu í Garðshorn.
Fyrstu árin var tvíbýli í Garðshorni eða þar til Guðmundur dó og raunar lengur. Pálmi (1876-1947) sonur Guðmundar og Steinunnar og Helga Sigríður Gunnarsdóttir (1875-1958) kona hans hófu þar búskap og bjuggu á móti foreldrum hans þangað til Guðmundur dó en um svipað leyti veiktist Pálmi af berklum og lá rúmfastur 2-3 ár. Á meðan, eða á árunum 1905-1908, bjuggu Frímann (1878-1926) bróðir hans og Margrét E. Jónsdóttir (1876-1956) á móti Helgu og Pálma í Garðshorni en Margrét var dóttir Jóns Árnasonar ljósmyndara og þúsundþjalasmiðs á Laugalandi og Sigurbjargar konu hans. Eftir það fluttu Frímann og Margrét niður í Hamar þar sem þau bjuggu til 1917 að þau fluttu fram í Efstaland, höfðu makaskipti á jörðum við Rósant Sigurðsson og Guðrúnu Bjarnadóttur, foreldra systkinanna Þorleifs og Hallfríðar sem bjuggu á Hamri til 1968. Frímann og Margrét bjuggu þó ekki lengi á Efstalandi því að Frímann veiktist af magakrabbameini og dó 1926 eftir erfiða sjúkdómslegu.
Þegar Guðmundur og Steinunn fluttu í Garðshorn fluttust börn þeirra þrjú öll með þeim ásamt tökubörnunum Stefáni V. Sigurjónssyni (1886-1973) síðar bónda og hreppstjóra á Blómsturvöllum og Kristfinni Guðjónssyni (1896-1974) síðar ljósmyndara á Siglufirði.
Arnbjörg (1880-1938) dóttir Guðmundar og Steinunnar fór fljótlega sem ráðskona til Valdemars Guðmundssonar sem þá bjó á Efri-Rauðalæk, giftist honum og fluttist með honum vestur að Fremri-Kotum í Norðurárdal og síðar í Bólu í Blönduhlíð.
Með þeim flutti Kristfinnur Guðjónsson þar sem hann ólst upp til fullorðinsaldurs. Arnbjörg fór sem sagt ekki langt til að finna sér maka en það gerðu bræður hennar ekki heldur.
Helga Sigríður hafði verið vinnukona í Glæsibæ, Dagverðareyri og Skipalóni þegar Pálmi var á Grjótgarði svo ekki var langt milli bæja. Margrét ólst upp á Laugalandi þegar Frímann var á Grjótgarði og þar var bæjarleiðin enn styttri.
Afkomendur Guðmundar og Steinunnar bjuggu í Garðshorni 1899-1977. Hér verður aðeins stiklað á stóru um þetta tímabil. Frásögnin er ekki skreytt tilþrifamiklum mannlýsingum, enda getur verið erfitt að lýsa ættingjum sínum af einhverju viti. Og þó svo að höfundur pistilsins þykist hafa nokkra reynslu af einkunnagjöf treystir hann sér ekki til að dæma seinni tíma ábúendur í Garðshorni með mælistiku Eiðs á Þúfnavöllum en er þó þess fullviss að leppar úr smiðju hans á borð við „þrekmenni en stirðvirkur“, „grimmlyndur og einrænn“, „greindarlítill og fávís“ eiga ekki við og óvíst hvort nokkur „frábær léttleikamaður“ hafi verið meðal þessa fólks. Úr þessum skorti á mannlýsingum er þó reynt að bæta með ljósmyndum sem til eru af flestum ábúendum. Þó er engin mynd til af Guðmundi Sigfússyni. Myndir segja þó fátt af atgervi fólk en við þetta verður að una.
Jörðin Garðshorn hafði verið í eigu sr. Arnljóts Ólafssonar (1823-1904) og síðan erfingja hans frá árinu 1884 en hann var prestur á Bægisá 1863-1889. Fyrstu tvo áratugina voru Helga og Pálmi leiguliðar í Garðshorni en árið 1920 keyptu þau jörðina og greiddu fyrir fimm þúsund krónur.
Jóhanna Guðrún Pálmadóttir (1899-1989) giftist Kristjáni S. Jónssyni (1891-1984), bróður Margrétar konu Frímanns, og þau hófu búskap á Laugalandi 1923. Árið 1925 tóku þau við búsforráðum í Garðshorni og bjuggu til 1927 en fluttu þá út í Bryta. Líklega hefur ekki verið auðvelt fyrir ungu hjónin að búa í Garðshorni með foreldrum Jóhönnu og bræðrum því að Helga mun hafa viljað ráða miklu um bústörf, innan húss og utan, eins og hún hafði gert frá því hún flutti í Garðshorn og þar til hún flutti þaðan. Á þessum tíma voru þau Pálmi og Helga alltaf í Garðshorni svo og synir þeirra Steindór og Frímann auk þess sem gamla Steinunn var þá enn á lífi. Loks má telja til heimilisfólksins og fjölskyldunnar Kára Angantý Larsen sem Helga og Pálmi höfðu tekið nýfæddan í fóstur 1913. Hann ólst upp í Garðshorni til fullorðinsára en bjó lengi á Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði áður en hann fluttist til Akureyrar. Kona hans var Arnfríður Róbertsdóttir, þau áttu 7 börn sem sum hver báru nöfn Garðshornsfólksins (Helgi, Pálmi, Steindór).
Þegar Jóhanna og Kristján fluttust út í Bryta var látið heita svo að Steindór og Frímann tækju við búsforráðum með Helgu móður sína sem bústýru, Steindór yfirleitt skráður bóndinn. Reyndar var hugmyndin til að byrja með að þeir hefðu ráðskonu og ein slík, Margrét Sigfúsdóttir, kom á staðinn og var hluta úr ári en fór þaðan ólétt að Kristjáni sem hún eignaði Frímanni. Líklega hefur Helga þó allan þennan tíma ráðið því sem hún vildi ráða í Garðshorni og hún réði því að Kristján var sóttur til móður sinnar nokkurra mánaða gamall og alinn upp hjá Helgu og Frímanni til fullorðinsaldurs. En Steindór og Frímann bjuggu með Helgu sem bústýru í óskiptu búi til 1942.
Búskaparhættir í Garðshorni hafa líklega verið svipaðir og verið höfðu um aldaraðir þegar þarna var komið sögu, hús úr torfi og timbri, handverkfæri, hestar. Nú fór þetta að breytast í sveitum. Á þessum kreppuárum var íbúðarhúsið í Garðshorni steypt upp og innréttað, byggðar tvær hlöður og fjárhús, sléttuð tún, brotnar nýræktir og keyptar heyvinnuvélar fyrir hesta. Og upp úr 1940 dró enn til tíðinda.
Sumarið 1941 var Gunnhildur Guðfinna Bjarnadóttir (1916-1981) vinnukona í Garðshorni en hún átti ættir sínar í Bolungarvík og innar úr Ísafjarðardjúpi. Þau Frímann rugluðu saman reytum sínum og hófu saman búskap á hálfri jörðinni 1942 en Steindór og Helga bjuggu á hinni hálflendunni. Í reynd var skiptingin ekki svona skýr, Steindór var mikið að heiman við smíðar en Frímann annaðist búreksturinn fyrir báða.
Árið 1947 fluttu Helga og Pálmi úr Garðshorni til Akureyrar og Frímann og Guðfinna tóku við allri jörðinni. Þau eignuðust 8 börn sem ólust þar upp. Frímann hafði fengið þá 6 vikna skólagöngu sem almennt tíðkaðist í sveitinni á uppvaxtarárum hans en Guðfinna hafði fengið eitthvað lengri skólagöngu, m.a. var hún vetrarpart á Héraðsskólanum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.
Hún var áhugasöm um bóknám og átti eflaust stærstan þátt í því að Garðshornsbörnunum var komið í gagnfræðanám í Menntaskólanum á Akureyri og Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði og flest öfluðu sér meiri menntunar en það þótti ekki sjálfsagður hlutur í sveitinni á þeim tíma.
Líklega var Garðshornsheimilið í hópi þeirra sem voru fljót að tileinka sér tækninýjungar á ýmsum sviðum en þó ekki öllum. Árið 1946 var keypt ein fyrsta dráttarvélin í sveitinni, Farmall A, og árið eftir var komið upp 4 kw vatnsrafstöð sem sá húsunum fyrir ljósum og knúði heimilistæki á borð við ísskáp og þvottavél, frystikistu, hrærivél og mjaltavél og jafnvel súgþurrkun í fjóshlöðu þegar fram í sótti. Keypt var sláttuvél fyrir Farmalinn en snúningsvél og rakstrarvél var breytt þannig að þær mátti hengja við dráttarvélina. Gamla baðstofan úr torfbænum stóð lengi með mæni í norður og suður eins og gamla fjósið með þakhalla í austur og vestur.
Steyptur var veggur vestan við baðstofuna um leið og framhús torfbæjarins voru rifin fyrir 1940 en torfveggurinn að austan hélt sér. Um 1960 var vesturveggur baðstofunnar steyptur í núverandi hæð og lægri austurveggur steyptur, járnþak sett yfir með halla í austur og gamla baðstofan rifin innan úr geymslunni sem þar varð til.
Eins var farið með fjósið nema þakhallinn var í vestur. Mikið vantaði þó á að fjósið uppfyllti síðari tíma kröfur. Smám saman voru heyvinnuvélar endurnýjaðar og nýrri dráttarvél bætt við 1958, Massey-Ferguson 35.
Frímann og Guðfinna voru ábúendur í Garðshorni til 1973. Guðfinna hafði reyndar lamast af heilablóðfalli eða heilablæðingu 1968 og var mest á heilbrigðisstofnunum til æviloka 1981 en Frímann hafði ráðskonur síðustu árin þar til hann hætti búskap. Ætlunin hafði verið að synir þeirra, Sigurður og Bjarni, tækju við búinu en Bjarni lést úr bráðahvítblæði 1970. Árið 1973 tók Sigurður formlega við búinu en Frímann flutti til Akureyrar þar sem hann bjó til æviloka 1980.
Sigurði hélst illa á ráðskonum og 1977 gafst hann upp á búskapnum og flutti til Akureyrar og síðan Reykjavíkur, vann þar afgreiðslustörf til að byrja með en var síðan sundlaugarvörður þar til hann lést. Við búinu tóku Jóhann Frímann Stefánsson (1952-) og Anna Guðrún Bjarkadóttir (1956-) og bjuggu sem leiguliðar til 1980. Árið 1980-1981 telst jörðin hafa verið í eyði en börn Frímanns og Guðfinnu nýttu íbúðarhúsið sem sumarhús.