Markúsar þáttur
Víkur sögunni nú enn og aftur til ættmóðurinnar Elísabetar Jónsdóttur. Árið 1862 var hún húskona í Strandseljum í Ögursveit en árið eftir giftist hún Markúsi Markússyni (um 1800-1868) á Skarði í Skötufirði sem þá hafði verið ekkill í 20 ár. Markús var um 33 árum eldri en Elísabet og því líklega ekki heillandi kostur fyrir hana sem sambýlismaður en með hjónabandinu gat hún þó gert sér vonir um að geta séð fyrir sonum sínum, Jóni og Skarphéðni, og haft þá hjá sér. Sú von rættist þó ekki hvað Skarphéðin varðaði því að ársgamall var hann kominn í fóstur að Garðstöðum í Ögursveit til Einars Magnússonar (1816-1899) og Karitasar Ólafsdóttur (1819-1886) sem ólu hann upp til fullorðinsaldurs eða til ársins 1886 þegar Karitas lést. Sumar heimildir segja að Sigmundur í Vigur hafi komið Skarphéðni í Garðstaði þar sem hann fékk líklega betra atlæti en búast mátti við á Skarði en engar sönnur eru fyrir því.
Markús Markússon var frá Hvítanesi við Skötufjörð. Hann var hjá Jóni bróður sínum á Hesti í Hestfirði 1835 ásamt Helgu Sveinbjörnsdóttur (1790-1842) konu sinni en þau eignuðust 2 börn sem komust upp. Frá Hesti fluttu þau að Skarði og þar lést Helga 1842. Markús bjó áfram á Skarði, ýmist með Elísabetu dóttur sinni eða öðrum ráðskonum en var þó farinn að linast við búskapinn þegar hann kynntist og giftist Elísabetu Jónsdóttur. Þá var hann skráður húsmaður á Garðstöðum 1862 en gerðist aftur bóndi á Skarði með nýju konunni. Árið 1864 voru Markús og Elísabet talin ábúendur á Skarði, hún þá 34 ára en Markús 66 ára. Á heimilinu voru einnig tvö börn Elísabetar, Jón Jónsson 10 ára og Sigríður Margrét Markúsdóttir (1864-1940) á fyrsta ári, en Skarphéðinn var þá fósturbarn á Garðstöðum sem fyrr segir. Markús féll frá 1868 en þá var Jón Jónsson farinn til föður síns og Ingibjargar alsystur sinnar á Folafæti.
Elísabet og Markús eignuðust einnig soninn Steindór (1865-1893) árið 1865, áttunda barn Barna-Betu, en hann lést tæplega þrítugur. Steindór var þroskaheftur, var settur niður á bæi, yfirleitt aðeins eitt ár á hvern stað, var fákunnandi og lærði ekki að lesa. Árið 1880 var hann á Eyri og þá var skráð í kirkjubókina að hann væri „fábjáni“. Fyrir kom þó að hann væri skráður „matvinnungur“ og síðustu árin var hann titlaður vinnumaður, m.a. þegar hann var í Bolungarvík 1892.
Af Sigríði Markúsdóttur er það að segja að hún átti langt líf fyrir höndum. Hún var alin upp sem niðursetningur á Þúfum inn af Vatnsfirði hjá Kristjáni Kristjánssyni, bónda þar, og Margréti Sigurðardóttur, konu hans. Hún giftist Guðmundi Guðmundssyni (1863-1944) bónda í Botni í Mjóafirði. Hann tók þar við búi af föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, en jörðin var í eigu þriggja barna Guðmundar, áðurnefnds Guðmundar, Elínar (1868-1922) og Jóns (1860-1921) föður Jóns Fannbergs sem síðar eignaðist alla jörðina. Elín var gift Bjarna Aron Þorlákssyni (1876-1946) sem tók við búskap í Botni árið 1904 þegar Sigríður og Guðmundur fluttu að Hörgshlíð í Mjóafirði en Bjarni hætti búskap í Botni eftir að Elín lést 1922. Dóttir þeirra var Gunnfríður (1905-1990) sem bjó á Björk í Eyjafirði og kemur við sögu síðar. Þetta er rakið svo vandlega hér vegna þess að dætur og dætrabörn Skarphéðins Elíassonar áttu síðar eftir að dvelja í Botni og Hörgshlíð í skjóli Sigríðar frænku sinnar um lengri og skemmri tíma.
Runólfur Þórarinsson segir um hjónin í Hörgshlíð: „Guðmundur og Sigríður voru hin mestu dugnaðarhjón, gestrisin þóttu þau með ágætum og veitul hjúum sínum. Sigríður fékkst mikið við vefnað og var ágætlega vandvirk. Guðmundur var maður vel skýr sem faðir hans. Hann var meðalmaður á vöxt, mikill göngumaður, enda fylgdi hann oft mönnum vestur yfir Glámu“ (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1957, bls. 140).
Sigríði og Guðmundi varð ekki barna auðið en þau ólu upp fósturbörn, m.a. Brynjólf Albertsson en Albert Brynjólfsson faðir hans og Sigríður voru systkinabörn – Elísabet og Brynjólfur frá Botni í Súgandafirði voru systkin. Sigríður og Guðmundur ólu líka upp Friðgerði Skarphéðinsdóttur hálfbróðurdóttur Sigríðar.