Sigurjón Sigurbjörnsson[1]
var annað barn Jónu Jónsdóttur eftir að Bjarni maður hennar fórst á Bolungarvík í nóvember 1894. Fyrsta barnið var Bjarni, sem fæddist rúmum 7 mánuðum eftir að Bjarni fórst. Eftir slysið fór Jóna fyrst með Bjarna son sinn til tengdamóður sinnar á Ísafirði. Tveimur árum síðar fór hún sem vinnukona í Engidal, bæ sem er í og nefndur eftir syðsta dalnum sem gengur inn úr Skutulsfirði, og þar var Sigurbjörn Gíslason[2] vinnumaður. Með honum eignaðist Jóna barn og þess vegna fer hér á eftir greinargerð um Sigurbjörn.
Faðir Sigurbjörns var Gísli Jónsson[3], „Saura-Gísli“, sem var um tíma bóndi á Saurum í Laxárdal í Dalasýslu. Oscar Clausen segir miklar sögur af Gísla og málaferlum hans og klækjum í stríði hans við samferðafólk og yfirvöld þar sem hann hafði oft betur. Sögur Oscars bera vitni um ófyrirleitinn lagamörð sem einskis sveifst í samskiptum við yfirvöld en engu að síður byrjar hann frásögn sína á þessari lýsingu á Gísla:
„Gísla er lýst þannig að hann hafi verið stakt snyrtimenni og mátti hann heita skartmaður; svo bar hann af öðrum bændum í klæðaburði. Hann var vel meðalmaður á hæð og gildvaxinn, dökkur á hár og skegg, svipmikill og vel á fót kominn, kraftamikill og óvanalega harður af sér. Augu hans voru snör og greindarleg en jafnframt hrekkjaleg og glettin. Hann var söngmaður með afbrigðum og hafði bæði mikla og fagra rödd. – Þrátt fyrir það að Gísli væri viðsjáll, hrekkjóttur og harðdrægur í öllum viðskiptum, átti hann það til að vera örlátur við snauða. Hann kom sér ávallt vel við nágranna sína og var fljótur til hjálpar við þá ef með þurfti. Hann var líka laginn að hjálpa skepnum, sem urðu veikar, og var hans oft leitað í þeim erindum. Óspar var hann á veitingar við gesti sína, þegar hann var í góðu skapi, eins gaf hann líka ríflega ef menn urðu fyrir fjárskaða eða öðrum óhöppum. Ráðhollur gat hann líka verið sumum en fáir þorðu að sækja ráð til hans vegna orðs þess er fór af ásælni hans og prettvísi.
Mjög voru misjafnir dómar samtíðarmanna um Gísla en flestum þótti hann alveg óhæfur óeirðaseggur og áfelldust yfirvöldin fyrir hversu lengi honum voru látnir haldast uppi óknyttir sínir. Sumir færðu Gísla það til vorkunnar að hann lenti svo ungur í málaþrasi og illdeilum. Hann átti líka oft við drambláta menn enda var honum sérstaklega uppsigað við þá. Svo var líka farið að honum, oft og einatt, með mestu frekju og forsi en það espaði hann til mótþróa. Skaplyndi hans var þannig farið að hann hafði í fullu tré við hvern sem hlut átti en gjarnast var honum að höggva upp fyrir sig.“[4]
Theodóra Thoroddsen frá Kvennabrekku í Dölum, sveitungi Gísla, tilfærir í ritsafni sínu vísu um hann sem bendir til að sveitungar hans hafi sumir hverjir a.m.k. litið hann öðrum augum en Oscar Clausen. Theodóru og Oscari ber ekki saman um höfund vísunnar en Theodóra ber Jónas Gíslason Skógstrendingaskáld fyrir henni og hefur hana svona:
Dalasýslu sæmd ég tel,
sakarísl þó nægi,
hvað hann Gísli ver sig vel
valdahrísluslagi.[5]
Samkvæmt Oscari var Gísli kvennamaður með afbrigðum, var með þrjár í takinu um tíma þar heima á Saurum sem skiptust á að samrekkja honum. „Það er nóttin mín í nótt,“ á ein þeirra að hafa heyrst segja við aðra. Gísli átti börn með þeim öllum en auk þess átti hann börn með fleiri konum. Þeirra á meðal var Rósa Athanasíusdóttir[6] sem Oscar segir hafa verið sonardóttur Hnausa-Bjarna sem hafi verið „alræmdur kvennagosi ... svo að ekki átti hún langt að sækja það þó að hún væri ör til ásta.“[7] Oscar segir Rósu hafa verið 17 ára þegar hún eignaðist barn með Gísla en það hafi verið drengurinn Sigurður, Gísli hafi þrætt fyrir barnið fyrst en síðar „þegar Gísli sá að drengurinn var mennilegur sagðist hann vera faðir hans.“[8]
Hér fer eitt og annað milli mála. Í fyrsta lagi hafa ekki sést nein rök fyrir því að Rósa hafi verið „ör til ásta“ umfram það sem almennt gerðist og eðlilegt getur talist. Það virðist Saura-Gísli hinsvegar hafa verið. Í öðru lagi hét drengurinn ekki Sigurður heldur Sigurbjörn. Í þriðja lagi var Rósa 24 ára en ekki 17 ára þegar drengurinn fæddist. Hugsanlega hefur Oscar Clausen haft það að leiðarljósi í skrifum sínum eins og fleiri „að láta ekki góða sögu líða fyrir sannleikann“ en hitt er rétt að framan af var Sigurbjörn skráður Rósuson. Þannig var hann skráður í manntalinu 1870 og 1880 en í manntalinu 1890 var hann Gíslason en þá var Gísli löngu farinn vestur um haf.
Gísli flosnaði upp af búi sínu á Saurum og fluttist norður í Hrútafjörð og þaðan í Skagafjörð en þaðan fór hann til Vesturheims og gerðist ferjumaður í Pembina-fylki í Norður Dakota þar sem hann lést 1894. Þar var hann samferðamaður og kunningi Káins.
Áður en Saura-Gísli hverfur alveg úr þessari frásögn er rétt að geta þess að hann átti a.m.k. tvo bræður sem koma við sögu þá sem Oscar Clausen segir af honum. Annar þeirra hét Sveinbjörn og bjó á ýmsum bæjum í Hvammsfirði, m.a. um skeið á móti Gísla bróður sínum á Saurum en einnig á Kambsnesi skammt vestur af Saurum. Sveinbjörn missti tvær fyrstu konur sínar en þriðja kona hans hét Guðbjörg Jónsdóttir og var frá Höskuldsstöðum í Laxárdal. Guðbjörg þessi var móðir Jóns Jónssonar sem eignaðist Matthildi Guðbjörgu með Jónu Jónsdóttur langömmu en sagt er frá Jóni og Matthildi í sérstökum kafla. Þessir tveir barnsfeður Jónu voru þó ekki bræðrasynir því að Guðbjörg hafði eignast Jón áður en hún tók saman við Sveinbjörn.
Og áður en lengra er haldið er rétt að gera svolitla grein fyrir Rósu, móður Sigurbjörns, þó að hún hafi ekki hlotið sömu frægð og faðir hans. Rósa var dóttir hjónanna Athaníusar Bjarnasonar og Bjargar Guðnadóttur sem bjuggu m.a. á Gunnarsstöðum á Skógarströnd en Rósa ólst upp sem niðursetningur hjá hjónunum í Vífilsdal fremri í Vífilsdal sem gengur suður úr botni Hvammsfjarðar. Eftir fermingu var hún vinnukona á ýmsum bæjum í Dölum, m.a. hjá Gísla á Saurum en þaðan fór hún ófrísk að Bæ þar sem Sigurbjörn fæddist. Hún var einnig í Hlíðarhúsum, Gilsbakka, Dönustöðum og eflaust á fleiri bæjum en síðast var hún leigjandi í Fjósi, allir bæirnir í Miðdölum. Rósa mun hafa verið þar í Miðdölum allt sitt líf, „ógift en átti börn“ eins og segir í Íslendingabók.
Í Hlíðarhúsum eignaðist Rósa soninn Jónas[9] með Þórði Rögnvaldssyni vinnumanni á sama bæ. Jónas var hjá foreldrum sínum í Hlíðarhúsum árið eftir en hann lést á öðru ári í júlí 1871. Rósa var svo komin að Gilsbakka þegar hún eignaðist þriðja soninn sem einnig var skírður Jónas[10] en skráður Rósuson í kirkjubókina eins og elsti bróðir hans því að Guðmundur Guðmundsson, giftur bóndi í Snóksdal, neitaði að gangast við barninu þegar Rósa lýsti hann föður að því. Engu að síður hefur hann verið skikkaður til að fóstra drenginn því að Jónas var sagður vera „barn frá Snóksdal“ þegar hann lést rúmlega fjögurra mánaða gamall.
Víkur nú sögunni aftur að Sigurbirni syni Gísla og Rósu. Hann var sem sagt fæddur á Bæ í Miðdölum í Hvammsfirði og fjögurra ára gamall var hann niðursetningur á Hamraendum í Miðdölum þar sem vegurinn liggur suður yfir Bröttubrekku. Árið 1880 var hann smali hjá ekkjunni frá Hamraendum sem nú hafði flust ásamt tveimur börnum sínum í Seljaland þar skammt frá. Árið 1890 var hann kominn norður á Ísafjörð, skráður Gíslason og titlaður vinnumaður, og 1897 var hann vinnuhjú í Engidal eins og Jóna Jónsdóttir. Sigurbjörn var sagður karlmannlegur á velli, greindur og skemmtilegur – átti ekki langt að sækja það – og eftir að hann flutti til Ísafjarðar löngu síðar var hann virkur í verkalýðsbaráttunni. „Betur máli farinn en almennt gerist um verkamenn,“ sagði Hannibal Valdemarsson um hann í minningargrein.
Sigurbjörn var lengst af verkamaður og sjómaður. Sonur Jónu og Sigurbjörns, Sigurjón, fæddist í febrúar 1898. Barninu var komið í fóstur út í Ísafjarðarkaupstað til barnlausra hjóna, Kristínar Hákonardóttur[11] og Þórarins Guðbjartssonar[12], og þar ólst hann upp til fullorðinsára í góðu yfirlæti en Jóna á að hafa tekið það loforð af þeim hjónum að þau létu drenginn aldrei frá sér og við það stóðu þau. Kristín var 37 ára og Þórarinn 24 ára þegar þau tóku Sigurjón að sér en Þórarinn lést 1905 án þess að þau Kristín hefðu eignast barn. Sigurjón ólst upp hjá fósturmóður sinni fram á fullorðinsaldur en hún reyndist honum sem móðir og annaðist hann sem sinn eigin son og hann annaðist hana til dauðadags hennar.
Rúmu ári eftir að Sigurjón fæddist eignaðist Sigurbjörn son með Guðríði Jónsdóttur frá Eiríksstöðum í Ögurhreppi sem var barnlaus og 7 árum yngri en Jóna. Þau fluttu til Bolungarvíkur þar sem þau bjuggu næstu 24 árin. Frá 1929 til dauðadags bjuggu þau á Ísafirði. Synir þeirra voru Hafliði[13] matsveinn og sjómaður í Reykjavík og Halldór Ágúst[14] sjómaður á Ísafirði.
Einhver tengsl hafa verið milli Sigurbjörns og Sigurjóns á meðan báðir voru á Ísafirði því að Kristín, dóttir Sigurjóns, minnist þess að Guðríður hafi verið þeim Einari bróður hennar góð bæði fyrir og eftir lát Sigurbjörns 1940. Á þessum tíma vissi Kristín af því að Kristín Guðríður ömmusystir hennar væri á Ísafirði en ekkert samband var hinsvegar við hana.
Sigurjón vann fyrst í smjörlíkisgerð Elíasar Pálssonar á Ísafirði og það mun hafa verið Elías sem stuðlaði mest að því að Sigurjón fékk að ljúka prófi frá Verslunarskólanum. Á meðan Sigurjón var á Ísafirði var hann um skeið skrifstofustjóri og staðgengill Finns Jónssonar alþingismanns og ráðherra hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga.
Kona Sigurjóns var Guðrún Einarsdóttir[15] frá Hellissandi, þau áttu þrjú börn og eina fósturdóttur. Þegar Einar sonur þeirra þurfti að flytja til Reykjavíkur til að ljúka bókbandsnámi flutti fjölskyldan öll, Sigurjón, Guðrún og börnin. Eftir að Sigurjón flutti suður var hann fyrst í vinnu hjá Einari ríka úr Vestmannaeyjum. Honum líkaði ekki starfið þar, kunni t.d. ekki við að reikningar væru ekki greiddir á réttum tíma. Síðan var hann hjá Fjárhagsráði og síðar skrifstofustjóri Fiskiðjuvers ríkisins, seinna Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Eftir að hann hætti þar störfum sökum aldurs var hann afgreiðslumaður í Húsgagnaverslun Harðar Péturssonar og annaðist bókhald fyrir lítil útgerðarfyrirtæki.
Sigurjón var mikið snyrtimenni, gekk jafnan með þverslaufu og utan dyra í frakka og með hatt. Hann hélt alltaf á staf en stafurinn var montprik því ekki þurfti hann hans við. Svo hafði hann ánægju af að púa vindla á stórhátíðum en aldrei sást hann reykja annars.
Börn Sigurjóns og Guðrúnar voru Einar, Kristín og Kristján en auk þeirra ólu þau upp bróðurdóttur Guðrúnar, Svanhildi Snæbjörnsdóttur.
Einar Hilmar Filipp Sigurjónsson[16] var bókbandsmeistari í Reykjavík. Hann hóf iðnnámið í Prentstofunni Ísrúnu á Ísafirði en þar voru engar bókbandsvélar þannig að Einar þurfti að fara til Reykjavíkur til að læra vélbókband. Að því námi loknu fór hann til Kaupmannahafnar til að bæta menntun sína. Þar kynntist hann konu sinni, Sigríði Guðrúnu Guðjohnsen[17] frá Húsavík. Einar vann framan af hjá Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg og var þar verkstjóri í bókbandi en síðan stofnaði hann eigið bókbandsverkstæði og rak áratugum saman. Börn Einars og Sigríðar eru þessi:
Oddur var prestur á Skagaströnd í nokkur ár en gerðist síðan bæjarstjóri í Njarðvík 1986-1990. Hann starfaði um tíma fyrir Sérleyfisbíla Keflavíkur og var forstjóri BSÍ sem leiddi hann til starfa hjá samgönguráðuneytinu sem nú er hluti af innanríkisráðuneytinu. Hann lauk MPA-prófi í stjórnsýslufræðum frá HÍ fyrir nokkrum árum og starfaði um tíma sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs.
Ómar lærði bifvélavirkjun og rak lengi eigið verkstæði en hefur í seinni tíð starfað hjá BL.
Sigurjón og Pétur lærðu báðir bókbandsiðn hjá föður sínum. Sigurjón flutti til Noregs og stofnaði þar eigið bókbandsfyrirtæki sem er umsvifamesta fyrirtæki á því sviði í Noregi. Pétur tók við fyrirtæki föður síns sem síðar var sameinað öðru fyrirtæki undir nafninu Pixel sem er prentsmiðja. Pétur vann um tíma hjá bróður sínum í Noregi en kom aftur heim og vinnur hjá Pixel.
Snjólaug fór í Verslunarskóla Íslands og hefur starfað sem verslunarmaður. Hún er nú innkaupastjóri hjá BYKO.
Kristín Jóna Sigurjónsdóttir[18] ber nöfn fósturömmu sinnar og ömmu. Hún var talsímakona á Ísafirði og í Reykjavík, vann síðan á skrifstofu hjá Símanum, þá hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og loks gjaldkeri hjá Búnaðarbankanum á Hótel Sögu.
Kristján Elías Sigurjónsson[19] dó í frumbernsku.
Svanhildur Snæbjörnsdóttir[20], fósturdóttir Sigurjóns og Guðrúnar, bjó framan af á Hellissandi, var þar bókavörður og happdrættisumboðsmaður.
[1] Sigurjón Sigurbjörnsson f. 6. 2. 1898, d. 23. 11. 1982
[2] Sigurbjörn Gíslason f. 7. 7. 1866, d. 17. 7. 1940
[3] Gísli Jónsson f. 8. 4. 1820, d. 12. 12. 1894
[4] Oscar Clausen: Saura-Gísla saga, bls. 6-7, Rvk. 1937
[5] Theodóra Thoroddsen: Ritsafn bls. 228, Rvk. 1960. Í Vísnasafni Sigurjóns Sigtryggssonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga er vísan einnig eignuð Jónasi.
[6] Rósa Athanasíusdóttir f. 1842, d. 16. 3. 1909
[7] Oscar Clausen: Saura-Gísla saga, bls. 21, Rvk. 1937.
[8] Oscar Clausen: Saura-Gísla saga, bls. 21, Rvk. 1937.
[9] Jónas Þórðarson f. 10. 10. 1869, d. 24. 7. 1871
[10] Jónas Rósuson f. 24. 7. 1874, d. 10. 12. 1874
[11] Kristín Hákonardóttir f. 3. 10. 1860, d. 13. 11. 1926
[12] Þórarinn Sigurður Guðbjartsson f. 17. 10. 1874, d. 7. 1. 1905
[13] Hafliði Sigurbjörnsson f. 3. 4. 1899, d. 4. 3. 1950
[14] Halldór Ágúst Sigurbjörnsson f. 10. 6. 1908, d. 6. 12. 1994
[15] Guðrún Einarsdóttir f. 14. 9. 1891, d. 2. 4. 1976
[16] Einar Hilmar Filipp Sigurjónsson f. 30. 8. 1926, d. 22. 6. 2002
[17] Sigríður Guðrún Guðjohnsen f. 28. 8. 1928
[18] Kristín Jóna Sigurjónsdóttir f. 24. 5. 1929
[19] Kristján Elías Sigurjónsson f. 10. 2. 1932, d. 13. 6. 1932
[20] Svanhildur Snæbjörnsdóttir f. 30. 11. 1922, d. 10. 11. 2011