Vigdís Steinunn Jónsdóttir

Vigdís Steinunn Jónsdóttir[1]

var hjá foreldrum sínum og systkinum á býlinu Ytribúðum árið 1880 en var skráð tökubarn hjá öðrum hjónum í öðru húsi í „hverfinu“ Ytribúðum árið 1890 þó að bæði Sigurður, Jóna og Kristín Guðríður, systkini hennar, væru enn í föðurhúsum í Ytribúðum. Eflaust hefur hún verið í vist í næsta húsi, orðin 14 ára gömul. Rúmlega tvítug eignaðist Vigdís son, Kristján Harald[2], með Össuri Birni Kristjánssyni úr Dýrafirði sem bjó síðar lengi í Bolungarvík, giftist þar og eignaðist börn. Hann var um tíma fjármaður í Svansvík sem hefur líklega orðið til þess að hjónin í Svansvík tóku Kristján í fóstur og ólu upp.

Kristján Össurarson

Kristján drukknaði á Ísafirði tæplega þrítugur en Vigdís mun hafa haft lítið af honum að segja.

„Tveir heimamenn úr Svansvík ferjuðu menn á árabát yfir að Arngerðareyri 5. desember 1926. Er þeir voru aftur á heimleið yfir Ísafjörð skall á illviðri með mjög hvössum éljum og drukknuðu báðir mennirnir þar á firðinum.“[3]

Í texta með meðfylgjandi mynd Sverris Gíslasonar segir um Kristján: „Frumkvöðull í að slétta tún í Reykjafjarðarhreppi og einn af stofnendum Ungmennafélagsins Vísis í Reykjafjarðarhreppi“. Myndin er úr myndasafni Sverris sem geymt er á hótelinu í Reykjanesi.

Árið 1901 var Vigdís titluð leigjandi á heimili föður síns á Breiðabóli í Skálavík, hann þá orðinn ekkill. Þar var Vigdís ásamt Kristínu systur sinni sem skráð var ráðskona, Hafliða systursyni sínum og Elísabetu Guðmundsdóttur, Sigurðu dóttur hennar og Ágústi Guðbirni syni hennar og Jóns tengdaföður hennar. 

Árið 1910 var hún gift norskum sjómanni á Ísafirði, Ole Andres Konradsen[4] sem fæddist í Drage í Selje í Noregi en ólst upp á Venøy í Vestur-Noregi. Með Ole Konradsen, síðar Ole Venø, átti Vigdís soninn Martein[5] sem fæddist á Ísafirði. Þau fluttu til Haugasunds í Noregi, líklega árið 1911, og þar ólst Marteinn upp. Fjöl­skylda Ole tók síðar upp ættarnafnið Venø og það gerðu Ole og Marteinn líka og örugglega Vigdís einnig, a.m.k. um tíma, og það nafn fylgdi henni þegar hún dó. En í Noregi hét Marteinn Martin Konradsen Venø eða bara Martin Venø.

Vigdís eignaðist dótturina Margréti Karólínu[6] skömmu eftir komuna til Noregs og árið 1915 eignuðust þau Ole Guðrúnu Petrínu[7] sem dó árið 1918. Eftir það er ekkert vitað um Vigdísi þangað til hún lést í Haugasundi árið 1935, sextug að aldri, en þá var hún á framfæri hins opinbera og hafði verið geðbiluð með einum eða öðrum hætti. Margrét og Marteinn, sem var þó fjarverandi, tilkynntu um andlát móður sinnar en ekki Ole sem hafði þá yfirgefið fjölskylduna án þess að þau Vigdís væru þó formlega skilin. Hann átti heima í Haugasundi 1931/1932 og starfaði sem farandsali um þær mundir sem Vigdís féll frá. Þessi geðveila Vigdísar hefur líklega þegar verið farin að segja til sín þegar hún sigldi fyrst til Noregs með maka sínum og syni svo og Matthildi systurdóttur sinni, sem hún hafði ætlað að taka í fóstur, en Matthildur sagði að Vigdís hefði allt í einu ekkert viljað með sig hafa og jafnvel hótað að henda henni í sjóinn þannig að Matthildur sneri aftur til Íslands með næsta skipi.

Martin Venö

Ekkjumaðurinn Ole Venø lést svo á elliheimili (Sætre pleiehjem) í Suðurskógasveit (Sørskogbygda) í Elverum í Noregi árið 1965 og lét ekkert eftir sig sem hið opinbera þurfti að hafa afskipti af. Grethe Lange auglýsti andlát hans en þau gætu hafa búið saman eftir andlát Vigdísar en hún gæti líka hafa verið í stjórnunarstöðu á elliheimilinu og ekki vitað um Margréti – ef hún var þá á lífi. Þriðji möguleikinn er að Grethe Lange hafi verið (Mar)Grethe Lange, fædd Venø, en það hefur ekki fengist staðfest og ekki er vitað um dánardag Margrétar né annað um líf hennar.

Marteinn kom til Íslands og heimsótti Hafliða Bjarnason, frænda sinn, í Reykjavík og var þá í norska hernum. Eftir að nasistar hernámu Noreg og norski herinn varð óstarfhæfur hefur Marteinn tekið þátt í andspyrnunni gegn nasistum eins og svo margir aðrir norskir hermenn sem gengu til liðs við heri banda­manna. Þann 9. mars 1943 var hann vélstjóri á kaupskipinu m/s Bonneville sem fór hlaðið hergögnum fyrir skipalest á siglingu frá New York áleiðis til Mersey á Englandi. 26 þýskir kafbátar sátu um skipalestina og einum þeirra tókst að hæfa skipið með tundurskeyti í stormi og úfnum sjó. 42 sjómenn voru um borð og af þeim fórust 35, þeirra á meðal var Marteinn[8].

 

 

 

[1] Vigdís Steinunn Jónsdóttir f. 24. 12. 1875, d. 27. 2. 1935
[2] Kristján Haraldur Össurarson f. 3. 11. 1897, d. 5. 12.1926
[3] Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880 – 1940, annað bindi bls. 287
[4] Ole Andreas Konradsen Venö f. 10. 2. 1882, d. 11. 8. 1965
[5] Marteinn Konradsen (Martin Konradsen Venø) f. 24. 11. 1907, d. 9. 3. 1943
[6] Margrethe Karoline Venø f. 1911, d. ?
[7] Gudrun Petrine Venø f. 1915, d. 1918
[8] http://minnehallen.no/skip_2/bonneville-ms