Vísur um heimilisfólkið í Botni

Vísur um heimilisfólkið í Botni[1]

Bergþóra[2] út á Eyri er
ætlar Rönku[3] að finna.
Bóndinn[4] henni fylgja fer
og fleira margt þau sinna.

Fríða[5] litla fótlétt er
að færa mömmu sinni.
Halldór[6] votur framhjá fer
og fær ei vera inni.

Halldór votur alltaf er
upp í hné og stundum meira.
Dável skemmtir drengur sér
draslari með fleira.

Malar kaffi mikið vel,
mörgum sopa gefur.
Sokka þvær og svo ég tel
silfurlokka hefur[7].

Sein er talin saumagná
sú er nefnist Finna[8].
Vill ei bókum fara frá
og fæst ei til að vinna.

Botn í Mjóafirði 1945

 

[1] Vísurnar eru líklega ortar á árunum 1936-1940 m.v. heimilisfólkið nema Jóhannes Páll Guðnason (1925-), síðar bóndi í Svansvík, hefur ekki fengið vísu þótt hann væri tökubarn í Botni frá 1933 til fullorðinsára.
[2] Bergþóra Jónsdóttir húsfreyja (1900-1985)
[3] Ragnhildur Jónsdóttir húsfreyja á Eyri (1869-1945)
[4] Sigurður Jónasson húsbóndi (1886-1963)
[5] Friðgerður Sigurðardóttir (1924-2011) dóttir Bergþóru og Sigurðar 
[6] Halldór Kristjánsson, Dóri slíp, tökubarn (1923-2011). Mamma gæti hafa misritað og ætlað að skrifa Jói hér eða í næstu vísu.
[7] Hér er líklega ort um Pálínu Kristjánsdóttur (1867-1941), móður Bergþóru.
[8] Guðfinna sjálf, skráð fósturdóttir. Hún var fyrst skráð í Botni í sóknarmannatali 1927, 11 ára tökubarn en 1929 var hún skráð fósturbarn. Hún var skráð hjá foreldrum sínum og Bjarnveigu Jónu (svo!) á Meiribakka í Skálavík 1924 og í húsi nr. 12 á Grundum í Bolungarvík 1925 og 1926 ásamt Jónu og Jóni Ólafi, þá í sambýli við Önnu Skarphéðinsdóttur, Þorkel og Guðrúnu. Árið 1927 er hún skráð hjá foreldrum sínum á Skeið (í landi Hóls) ásamt Jónu, Jóni Ólafi og Skarphéðni. 1928 og 1929 er fjölskyldan öll skráð á Efri-Hanhól og hjá þeim bæði árin er skráð lausakonan Matthildur Guðbjörg Jónsdóttir, hálfsystir afa. Það er fyrst 1930 sem mamma er ekki skráð til heimilis hjá foreldrum sínum en þá er hún örugglega búin að vera í Botni frá a.m.k. 1927, sennilega 2-3 árum lengur.