Bjarni Bjarnason[1]
fæddist rúmum 7 mánuðum eftir að faðir hans, Bjarni Þorláksson, drukknaði. Fyrstu 7 árin var hann með Jónu móður sinni í vistum á ýmsum stöðum en þegar Matthildur systir hans fæddist, þremur árum áður en hún Jóna dó árið 1905, var honum komið í fóstur til Magnúsar Guðmundssonar og Þóru Kristínar Einarsdóttur á Gili í Syðridal í Bolungarvík og þar var hann sveitarómagi. Þegar Bjarni var 14 ára fluttust þau að Kleifum í Skötufirði en hann hefur líklega ekki verið lengi hjá þeim hjónum eftir það. Ekki þótti Bjarna vistin góð en hafði þó orð á því sjálfur að Kristín hefði reynst sér vel. Vitað er að Magnús var vinnuharður og Bjarna þótti líklega ekki mikið til hans koma. Annars var Bjarni afar fáorður um æsku sína og uppvöxt.
Bjarni hefur líklega kynnst Friðgerði Skarphéðinsdóttur[2] þegar þau voru samtíða í Meirihlíð í Bolungarvík 1912 en Friðgerður flutti til Bolungarvíkur það ár og gerðist vinnukona í Meirihlíð en árið 1915 voru þau bæði á Hóli, hann sem tvítugur húsmaður, og fyrstu tvíburar þeirra fæddust rétt eftir áramótin 1916.
Friðgerður fæddist í Æðey en missti móður sína þegar hún á þriðja ári. Hún var eftir það fáein ár á Látrum í Mjóafirði hjá móðurafa sínum, Ásgeiri Kristjánssyni, en lengst í Botni og Hörgshlíð í Mjóafirði hjá föðursystur sinni, Sigríði Markúsdóttur.
Um tvítugt fór hún í vistir, m.a. í Vigur, þar sem hún gætti sona hjónanna Gunnars G. Halldórssonar og Guðfinnu Hálfdanardóttur. Þaðan fór hún í vist í Grund í Skötufirði á meðan faðir hennar bjó á Gunnarseyri í sama firði en hjónin sem bjuggu á Grund fluttu í Meirihlíð í Bolungarvík 1912 og Friðgerður með þeim.
Þar var Bjarni vinnumaður það ár. Gunnar og Guðfinna fluttu úr Vigur í Hól í Bolungarvík 1914 og til þeirra fór Friðgerður sem vinnukona og þangað kom Bjarni sem vinnumaður eða húsmaður 1915.
Friðgerður var eineggja tvíburi á móti Önnu sem var strax eftir fæðingu sett í fóstur á Laugalandi í Skjaldfannardal. Móðir þeirra dó frá þriðju alsysturinni, Karitas, tæplega ársgamalli, en faðir þeirra kvæntist fljótlega aftur og eignaðist 5 börn og af þeim komust 4 upp. Þær tvíburasystur hittust fyrst aftur þegar Friðgerður var í Botni og Anna komin til föður síns sem barnfóstra í Efstadal í Laugardal, þær þá 12 ára gamlar. Næst hittust þær, svo vitað sé, í Bolungarvík 1912, 24 ára gamlar, þegar Friðgerður flutti þangað en Anna var komin þangað tveimur árum áður. Anna bjó síðan í Bolungarvík á meðan hún lifði eða til 1968. Skarphéðinn, faðir þeirra, hafði búið á nokkrum stöðum inni í Ögursveit, var lengst í húsmennsku á Laugabóli en síðan 7 ár bóndi í Efstadal og loks fáein ár á Gunnarseyri í Skötufirði. Hann flutti með fjölskyldu sína í Hnífsdal 1914 og síðan til Reykjavíkur, sem sagt nokkru eftir að Anna og Friðgerður fluttu til Bolungarvíkur.
Bjarni og Friðgerður eignuðust 11 börn, þar af þrenna tvíbura, en aðeins 4 börn komust á legg. Þau voru Gunnhildur Guðfinna[3], skírð í höfuðið á hjónunum á Hóli, Jóna Bjarnveig[4] sem hefur líklega heitið eftir foreldrum Bjarna, Jón Ólafur[5] sem hét eftir Jóni Ólafi manni Önnu Skarphéðinsdóttur, tvíburasystur Friðgerðar, en hann fórst í september 1923, og Skarphéðinn Sigmundur[6] sem hét eftir afa sínum og Sigmundi Viktor, hálfbróður Friðgerðar og Önnu sem lést úr Spönsku veikinni 1918.
Börnin sem dóu fæddust 1916 (sveinbarn, tvíburi á móti Guðfinnu), Halldór 1917, meybarn 1919, Péturína og Pétur 1920, Bjarni, tvíburi á móti Jónu 1921 og Jón Ólafur 1923. Þessi börn ýmist fæddust andvana eða dóu skömmu eftir fæðingu.
Bjarni og Friðgerður bjuggu fyrst í Bolungarvík og áttu þá heima inni á Grundum. Friðgerður var svo um tíma með Guðfinnu og Jónu í Botni eða Hörgshlíð. Þrjár skýringar eru á þeirri dvöl, allar geta verið réttar. Sú fyrsta er sú að Bjarni hafi verið farinn að halda við aðra konu, jafnvel búa með henni. Önnur skýringin er þessi: Þegar þau Bjarni höfðu eignast 8 börn árið 1921, þar af þrenna tvíbura og aðeins tvö þeirra lifðu, var Friðgerður búin að fá nóg og leitaði athvarfs á æskustöðvunum í Mjóafirði þar sem Sigríður frænka hennar og fóstra í Hörgshlíð hefur annaðhvort haft hana hjá sér eða útvegað henni vist hjá þáverandi ábúendunum í Botni, Bjarna Aron Þorlákssyni og Elínu Guðmundsdóttur, systur Guðmundar í Hörgshlíð sem giftur var Sigríði. Friðgerður hafði Guðfinnu og Jónu nýfædda með sér. Þriðja skýringin getur verið að Friðgerður og Bjarni hafi einfaldlega verið í húsnæðishraki í Bolungarvík og þurft að leysa húsnæðismál sín með þessum hætti.
Heimildum ber reyndar ekki fullkomlega saman um tímasetningu á dvölinni í Mjóafirði. Sumir segja að Jóna hafi ekki verið fædd þegar Friðgerður flúði inn í Mjóafjörð. En samkvæmt kenningunni um að Jóna hafi verið fædd braust Bjarni inn í Mjóafjörð í illviðri skömmu fyrir jól 1921 með vöggu handa Jónu. Í hrakningum á leiðinni hrapaði Bjarni fram af kletti og braut vögguna en sjálfur komst hann á leiðarenda og flutti fjölskylduna með sér út í Bolungarvík.
Eftir að Friðgerður og Bjarni komu innan úr Mjóafirði voru þau um tíma úti í Skálavík, fyrst á Breiðabóli og síðan í Grundarbænum sem var hjáleiga efst í túni Meiribakka. Þaðan fluttu þau inn í Bolungarvík þar sem þau bjuggu fyrst í steinhúsi sem Kristján nokkur Jónsson hafði byggt á Grundum.
Meirahraun í Skálavík séð frá Breiðabóli seint í júní 2013. Hraunsdalur liggur fram af Meirahrauni, Svartafjall hægra megin (sunnan) við dalinn, Kroppstaðahorn nær. Fyrir miðri mynd er fjallið Deilir með Lambaskál fulla af snjó, Lambahnjúkur yfir lengst til vinstri. Vinstra megin (norðan) við Lambahnjúk er Breiðabólsdalur sem endar í Heiðarskarði en þar liggur leiðin til Bolungarvíkur.
Þar bjuggu tvíburasysturnar Anna og Friðgerður saman, höfðu hvor sitt herbergið og sameiginlegt eldhús. Þar fæddist Jón Ólafur. Friðgerður og Bjarni bjuggu líka einhverja mánuði í húsunum Skeiði og Jaðri og jafnvel víðar en fluttust í Efri-Hanhól 1928 og þaðan í Neðri-Hanhól 1930. Líklega fluttu þau fram í dal til að Bjarni ætti möguleika á að stunda búskap með vinnu sem landmaður á bátum. Honum hentaði illa sjómennska vegna sjóveiki. Á Neðri-Hanhóli bjuggu þau til 1933 en fluttu þá í Meirahraun í Skálavík.
Friðgerður fór hálfnauðug í Meirahraun og þau Bjarni e.t.v. bæði. Friðgerður setti það skilyrði að faðir hennar færi með þeim út eftir sem hann og gerði. Einhvern tíma þennan fyrsta vetur þeirra í Hrauni sinnaðist þeim Bjarna og Skarphéðni svo að sá síðarnefndi fékk menn innan úr Bolungarvík til að sækja hafurtask sitt og með það flutti hann inn í Bolungarvík.
Í Meirahrauni höfðu þau 2 kýr og 30-40 kindur. Jörðin var rýr, undirlendi lítið og litlir möguleikar á heyskap. Bjarni stundaði ýmsa vinnu með búskapnum svo að bústörfin komu mikið í hlut Friðgerðar og barnanna. Oft á það að hafa gerst að Bjarni sat að spjalli inni í Bolungarvík þegar Anna mágkona hans lét hann heyra að henni fyndist hann ætti heldur að drífa sig út í Skálavík og sinna búi og börnum.
Þegar Guðfinna var 9 ára var hún komin með beinkröm. Þá var henni komið til Bergþóru Jónsdóttur og Sigurðar Jónassonar sem þá voru nýflutt í Botn í Mjóafirði þar sem Friðgerður hafði alist upp áður og þar hafði Friðgerður dvalist nokkrum árum fyrr, eins og áður segir, með Guðfinnu og Jónu. Ekki er gott að segja hvers vegna Guðfinnu var komið fyrir í Botni því að hún var þar hjá vandalausu fólki. En þarna náði Guðfinna góðri heilsu, var víst alin á kaplamjólk til að byrja með, og ólst upp í Botni til fullorðinsaldurs.
Atlætið í Botni var gott en engu að síður sárnaði henni alltaf að hafa ekki fengið að vera með foreldrum sínum og systkinum í Bolungarvík og Skálavík. Bjarni á að hafa komið í Botn og áður en hann fór spurði hann Guðfinnu hvort henni liði ekki vel og því hlaut hún að játa. Þá spurði Bjarni hana hvort hún vildi ekki bara vera þar áfram og þá hafði hún varla tök á að svara öðru en því að hún vildi vera. Aldrei urðu fullar sættir með þeim feðginum út af þessu. Ekki bætti úr skák að þegar Guðfinna var fermd heimsótti hún foreldra sína og systkini í Hanhól í Syðridal þar sem þau bjuggu þá. Þá sótti hún í að heimsækja Önnu móðursystur sína og börn hennar niður í Bolungarvík en hún hafði mikið dálæti á þeim enda dvaldi Anna með Guðrúnu og Bjarna í Hörgshlíð mörg sumur eftir að eiginmaður hennar fórst á sjó skömmu eftir að Guðrún fæddist. Bjarni faðir Guðfinnu fann að þessu við hana og í brýnu sló milli þeirra sem lauk með því að hún fór aftur inn í Botn og hefur líklega orðið fátt um kveðjur með þeim feðginum.
Þegar Sigurður og Bergþóra fluttu í Botn voru foreldrar hennar þar með þeim í húsmennsku. Faðir hennar hvarf fljólega á braut en móðir hennar dvaldist hjá henni til æviloka 1941. Bergþóra og Sigurður áttu aðeins eina dóttur, Friðgerði[7], en þau ólu upp 3 fósturbörn auk Guðfinnu. Kristinn[8], bróðir Bergþóru, ólst þar upp hjá systur sinni en hann flutti til Akureyrar og gerðist þar umboðsmaður Flugfélags Íslands, oft kallaður flugmarskálkur. Hin börnin voru Jóhannes Páll Guðnason[9] sem var systursonur Bergþóru, síðar bóndi í Svansvík, og Halldór Kristjánsson[10] glerslípunarmeistari á Akureyri frá Hjöllum í Skötufirði. Hann kom í Botn 1929 eftir að hafa misst föður sinn en hann fluttist einnig til Akureyrar þar sem hann bjó til æviloka. Hann var óskyldur Botnshjónunum. Guðfinna hafði alltaf mikið samband við Kristin og Halldór þegar þau voru öll komin á svipaðar slóðir.
Börn Kristins voru oft í Garðshorni á sumrin, einkum Sveinn, og Sólveig dóttir Halldórs var þar bæði að sumar- og vetrarlagi um tíma. Sambandið við Friðgerði og Jóhannes var minna, enda bjuggu þau fyrir vestan, en Friðgerður og Kristmundur, maður hennar, komu a.m.k. einu sinni í heimsókn í Garðshorn.
Systkini Guðfinnu voru ekki mikið í Meirahrauni á veturna eftir að þau komust á skólaaldur því að þau sóttu skóla til Bolungarvíkur, bjuggu þar virka daga en fóru sjaldan heim í Meirahraun um helgar. Jóna var á veturna hjá Kristjáni Erlendssyni, sem var formaður á bát, og á sumrin var hún í vist hér og þar. Jón Ólafur var þrjá vetur hjá Önnu, móðursystur sinni, en þegar hann var 12 ára var hann í vist hjá Hjálmari og Kristjönu frá Grund í Skötufirði sem bjuggu þá í Meirihlíð, þeim sömu og Friðgerður hafði flust með til Bolungarvíkur 25 árum áður. Tveim dögum fyrir fermingu sína fór hann þrettán ára gamall til Magnúsar Hákonarsonar og Ingunnar Jónasdóttur á Ósi, þegar þau vantaði léttadreng, og hjá þeim var hann meira og minna til tvítugsaldurs.
Skarphéðinn Bjarnason var einn vetur með Jónu hjá Kristjáni Erlendssyni en eftir það á vetrum hjá Guðlaugi Magnússyni og Þorlaugu Þorleifsdóttur en þau bjuggu í næsta húsi við Önnu Skarphéðinsdóttur. Guðlaugur var háseti hjá Jakob Þorlákssyni skipstjóra en Skarphéðinn var síðar á bátum hjá honum.
Á Meirahrauni bjuggu Bjarni og Friðgerður til vors 1937 en þá fluttu þau út á Breiðaból þar sem þau voru næstu tvo veturna og hirtu búpening fyrir bónda. Þar höfðu þau eigin kýr en Bjarni hirti féð frammi í Hrauni og dró þangað hey. Vorið 1939 seldu þau Meirahraun og um haustið gerðust þau vinnuhjú í Keflavík vestra. Á miðjum vetri sinnaðist Bjarna við son húsbónda og fór samdægurs inn í Bolungarvík. Friðgerður, sem þótti vistin þar ytra erfið, taldi sig þá ekki lengur hafa skyldum þar að gegna og fór á eftir Bjarna inn í Bolungarvík þar sem þau voru í einu herbergi á Tröð til hausts 1940 ásamt Skarphéðni. Sumarið 1939 heyjuðu þau reyndar í Meirahrauni með Skarphéðin með sér eins og myndir Hjálmars R. Bárðarsonar bera með sér. Bjarni ætlaðist reyndar til þess af Jóni Ólafi að hann færi þangað líka en hann var þá búinn að ráða sig að Ósi og neitaði að fara - við litla hrifningu Bjarna. Fyrsta heila veturinn í Bolungarvík leigðu þau kjallaraíbúð en 1941 keyptu þau lítið hús í Árbæjartúni á Mölunum sem enn stendur. Húsið var lengi illa farið og helst notað sem geymsla en nú er Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum búinn að gera húsið upp. Húsið er nefnt Jónasínuhús eftir fyrsta íbúa í húsinu á þessum stað en foreldrar Guðmundar bjuggu þar lengi eftir að þau brugðu búi á Dröngum.
Friðgerður Skarphéðinsdóttir var lágvaxin kona og fíngerð með áberandi nettar hendur, óframfærin, a.m.k. framan af. Hún mun ekki hafa gengið í skóla, hugsanlega þó eitthvað í farskóla á árunum í Botni. Hún var þó hafsjór af fróðleik og kunni mikið af ljóðum og lausavísum þó aldrei muni hún hafa komið nálægt miklum bókakosti. Erfiði og þrælkun þeirra tíma settu snemma mark sitt á hana. Sár fátækt, basl og hrakningar milli illa íbúðarhæfs húsnæðis munu líka hafa haft sín áhrif. Hún var mjúklynd og kom sér vel við alla sem kynntust henni. Hún var gestrisin og vildi hvers manns vandræði leysa. Um það voru þau samhent, hjónin, þó sambúðin við Bjarna hafi vafalaust oft verið erfið, hún 7 árum eldri. En þó að Bjarni hafi á þessum árum verið skapbráður og harður í horn að taka skeytti hann skapi sínu aldrei á Friðgerði.
Einsemd Friðgerðar var mikil eftir að þau fluttu út í Meirahraun þar sem hún var langtímum saman ein og stundum með einn eða tvo unga syni þeirra. Veður voru oft vond, hún var veðurhrædd en þar var hvorki sími né útvarp, engin blöð og rafmagn var ekkert[11].
Þremur árum eftir að Bjarni og Friðgerður fluttust til Bolungarvíkur frá Hrauni fékk hún blóðeitrun sem dró hana til dauða í júlí 1943. Árið áður höfðu Friðgerður og Anna farið saman til Reykjavíkur og hitt Karitas alsystur sína og frá þeim tíma eru til myndir af þeim systrum. Á einni myndinni er Bergþóra hálfsystir þeirra með þeim, 20 árum yngri.
Bjarni var heilsugóður og þrekmikill sem og margir ættmenn hans í móðurætt. Hann bjó áfram fyrir vestan næstu ár og var fyrst hjá Sigurgeiri Sigurðssyni, sem hafði flutt til Bolungarvíkur frá Fæti undir Folafæti og gerði út bátinn Húna, en var líka með kýr og kindur sem Bjarni hirti fyrir hann. Bjarni stundaði ýmis önnur störf, var m.a. við vegavinnu í Óshlíð þar sem hann slasaðist; steinn féll á bíl sem hann stóð við og bíllinn lenti á Bjarna og hann mjaðmarbrotnaði.
Bjarni vann líka við búskap í Hnífsdal, m.a. hjálpaði hann til í Heimabæ á búi Magnúsar og Ingunnar frá Ósi þar sem Jón Ólafur sonur hans var á árunum 1943 til 1945, síðasta árið ráðsmaður og Jóna systir hans ráðskona.
Þar var Ólöf Jóna Jónsdóttir[12] vinnukona síðasta árið og þar kynntust þau Bjarni og tóku saman upp úr þessu, giftust 1946 og eignuðust Friðgerði Elínu[13] en Jóna átti þá fyrir Erlu Guðmundsdóttur[14]. Jóna hafði alist upp í Hnífsdal hjá einstæðri móður sinni og stundað þar síðan almenna vinnu við fiskverkun og annað sem til féll eins og Erla dóttir hennar lýsir í bókinni Bergrúnum (2013).
Bjarni og Jóna bjuggu fyrst í Hnífsdal en fluttu til Akraness 1953 þar sem þau áttu heima til æviloka. Bjarni vann þar sem verkamaður hjá Heimaskaga hf þangað til hann missti sjónina um 1960 en hann var blindur af gláku síðustu 20 árin.
Jón Ólafur, sonur Bjarna sem ólst upp hjá honum til 12 ára aldurs, lýsir föður sínum svo: „Hann var mjög bráðlyndur og það svo að stundum jaðraði við geðbilun en hann var sáttfús og hjálpsamur. Yrði hann fyrir andspyrnu var hann illskeyttur og orðhvatur en góður þeim sem fóru vel að honum og trygglyndur. Hann var fátækur alla ævi, mjög óstöðugur í vinnu. Búskapur hans gekk alltaf í basli, þó var hann snyrtimenni við öll verk. Hann fékk ásamt tveimur öðrum viðurkenningu og fjárupphæð fyrir björgunarafrek er þýskur togari fórst í Skálavík ytri 9. 10. 1924 en þá átti hann heima í Grundarbænum á Meiribakka.“
Við þetta má svo bæta að Bjarni var gallharður íhaldsmaður og dyggur Sjálfstæðismaður alla sína tíð, dæmigerður Bjartur í Sumarhúsum sem bjó við sára fátækt en dáði einstaklingsfrelsið og studdi auðmannaflokkinn. Hann sagði frá því stoltur á gamalsaldri þegar hann tók þátt í því að bera Hannibal Valdimarsson út í bát í Bolungarvík þegar hann fór um Vestfirði í erindum verkalýðshreyfingarinnar. Bjarni sagði ætlunina hafa verið „að koma honum á græn grös“.
Bjarni dvaldi stundum í Garðshorni hjá Guðfinnu, dóttur sinni, og fjölskyldu hennar og skömmu eftir 1950 dvöldu þau Jóna og Friðgerður dóttir þeirra þar að vetrarlagi. Bjarni gekk að verkum með Frímanni og fór vel á með þeim tengdafeðgum en fyrir kom að í brýnu sló milli mæðginanna sem e.t.v. voru að gera upp gamlar sakir en Guðfinna var alla tíð ósátt við að hafa ekki fengið að alast upp hjá móður sinni eins og hin systkinin. Þau feðgin voru líka á öndverðum meiði í pólitík.
Bjarni kom seinna til Akureyrar og dvaldi hjá Helgu, dótturdóttur sinni, og Stefáni manni hennar, þá orðinn blindur. Þá var hann orðinn meyr og mildur og barnabörn hans minnast hans ekki sem þess skaphunds og orðháks sem hann tvímælalaust var á yngri árum.
Hann var barngóður og gamansamur og hafði frá mörgu að segja. Hann lést á Akranesi tæpri viku eftir að Frímann tengdasonur hans og vinur lést á Akureyri í febrúar 1980.
Bjarni Bjarnason eignaðist 5 börn sem komust upp. Frá þeim segir lítillega í Jónubók en hér verður getið afkomenda þeirra.
Gunnhildur Guðfinna giftist norður í Eyjafjörð, Frímanni Pálmasyni bónda í Garðshorni á Þelamörk. Börn þeirra voru 8:
Friðgerður hjúkrunarfræðingur giftist Sigurði H. Jónssyni þjóni, hjúkrunarfræðingi, verslunarmanni og menningarvita á Akureyri. Þau eignuðust 4 syni. Hún lést úr brjóstakrabbameini á fimmtugsaldri.
Pálmi var héraðslæknir og lýðheilsufrömuður í Stykkishólmi, giftur Heiðrúnu Rútsdóttur frá Vík í Mýrdal. Þau áttu 3 dætur. Hann lést á fimmtugsaldri. Banamein hans var krabbamein í höfði.
Gunnar starfaði við MA sem kennari og skólastjórnandi, var rekstrarstjóri Tónlistarskólans á Akureyri og síðast verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, starfaði í seinni tíð fyrir Rauða krossinn og var formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands fyrstu tvo áratugi starfstíma hennar. Hann var giftur Júlíu Björnsdóttur úr Reykjavík og þau eignuðust tvær dætur og tvo syni. Þau skildu.
Helga er menntaður handavinnukennari og starfaði fyrst í grunnskólum á Akureyri en færði sig yfir í öldrunarþjónustu Akureyrarbæjar, fyrst í tómstundastarf með öldruðum en vann síðar sem forstöðumaður sambýlis aldraðra. Hún giftist Stefáni Vilhjálmssyni matvælafræðingi úr Mjóafirði eystra, þau eignuðust tvo syni.
Sigurður tók við búi af föður sínum í Garðshorni en brá búi og flutti á höfuðborgarsvæðið þar sem hann var verslunarmaður og sundlaugarvörður. Hann var ógiftur og barnlaus þegar hann lést, tæplega sextugur. Banamein hans var krabbamein í ristli.
Jóna var lærð fóstra og starfaði sem leikskólakennari og leikskólastjóri á Akureyri. Hún giftist Ólafi Svanlaugssyni húsasmíðameistara og eignaðist með honum 3 syni. Hún lést tæplega fimmtug úr brjóstakrabbameini.
Bjarni lést úr bráðahvítblæði 17 ára gamall en hafði stefnt að því að taka við búskap af föður sínum í Garðshorni ásamt Sigurði bróður sínum.
Steinar er vélaverkfræðingur og starfaði framan af hjá orkufyrirtækjum en á seinni árum hefur hann unnið í ferðaþjónustu sem bifreiðastjóri og leiðsögumaður. Hann er ógiftur og barnlaus.
Jóna Bjarnveig Bjarnadóttir var í ýmsum vistum vestra á unglingsárum, var m.a. heimiliskennari vetrarpart á Galtarvita, en hún starfaði lengst hjá Loftleiðum, m.a. á Loftleiðahótelinu í Reykjavík, jafnframt því sem hún var heimilishjálp hjá Óskari B. Erlendssyni apótekara og fjölskyldu. Hún giftist ekki né eignaðist börn. „Fékk ekki það sem ég vildi og vildi ekki það sem ég fékk,“ sagði Jóna frænka.
Jón Ólafur Bjarnason ólst upp við störf við búskap, fiskveiðar og fiskvinnslu. Hann var tvo vetur á Bændaskólanum á Hólum en rúmlega tvítugur flutti hann suður og starfaði sem lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli og í Hafnarfirði á árunum 1947-1959. Hann vann um tíma hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði en 1966 gerðist hann gjaldkeri hjá Grænmetisverslun ríkisins. Frá 1981 til 1995 var hann fjármálastjóri hjá Rafveitu Hafnarfjarðar. Hann giftist Þorgerði M. Gísladóttur íþróttakennara. Dóttir þeirra er Sigríður, bankastarfsmaður og skrifstofumaður, sem á tvö börn, en fyrir hjónaband hafði Jón Ólafur eignast Bentínu sem eignaðist tvær stúlkur og tvo drengi með eiginmanni sínum, Halldóri Hermanni Ármannssyni. Jón Ólafur var virkur í félagsmálum í Hafnarfirði, var einn af stofnendum og forvígismönnum Félags óháðra borgara í Hafnarfirði (H-listans) í 20 ár og sat þá í ýmsum nefndum. Hann var lengi í stjórn Fríkirkjusafnaðarins, m.a. um tíma safnaðarformaður, auk þess sem hann lagði bæði Þjóðvarnarflokknum, Lionshreyfingunni og Frímúrarahreyfingunni lið.
Skarphéðinn Bjarnason fór ungur til sjós og gegndi ýmsum störfum á skipum Eimskipafélags Íslands á árunum 1943-1955, síðast á Gullfossi. Hann lærði til flugumferðarstjóra og starfaði sem slíkur frá 1956 til ársins 1987 þegar hann hætti af heilsufarsástæðum. Eftir það starfaði hann við skipasölu sem hann hafði einnig gert í hlutastarfi með flugumferðarstjórastarfinu. Hann giftist fyrst Höllu Oddnýju Jónsdóttur skrifstofukonu frá Vík í Mýrdal en þau áttu 2 syni. Dr. Jón Ólafur er lífeðlisfræðingur og prófessor við HÍ, giftur Hólmfríði Jónsdóttur en þau eignuðust son og tvær dætur. Friðgeir Bjarni er endurskoðandi. Kona hans var Margrét Erna Ólafsdóttir Hallgrímsson, hún lést 2015. Þau eignuðust einn son en áður hafði Friðgeir eignast son og dóttur. Seinni kona Skarphéðins var Sigríður Karlsdóttir útstillingahönnuður frá Borgarnesi – af Kjarnaætt. Synir þeirra eru Karl tölvunarfræðingur, giftur Söru Gylfadóttur en þau eiga tvo syni. Karl á dóttur úr fyrri sambúð. Dr. Hjálmar er efnafræðingur sem býr með Elínu Ólafsdóttur, þau eiga tvo syni og dóttur. Óskar Bjarni er líffræðingur og tölvunarfræðingur. Hann býr með Dóru Bergrúnu Ólafsdóttur og á með henni son.
Friðgerður Elín Bjarnadóttir starfaði lengst sem stuðningsfulltrúi á Akranesi, fyrst í grunnskóla en síðan á sambýlum fyrir aldraða. Hún giftist Benedikt Rúnari Hjálmarssyni húsasmíðameistara og börn þeirra eru þrjú. Kolbrún hefur unnið almenn störf, m.a. í íþróttamiðstöð. Hún á eina dóttur. Ásta er leikskólakennari, er gift Hermanni Hermannssyni og þau eiga tvo syni. Dr. Ívar Örn er jarðfræðingur. Hann er giftur Svanhildi Þorsteinsdóttur af Kjarnaætt en þau eiga tvo drengi og stúlku.
[1] Bjarni Bjarnason f. 29. 6. 1895, d. 13. 2. 1980
[2] Friðgerður Skarphéðinsdóttir f. 15. 4. 1888, d. 24. 7. 1943
[3] Gunnhildur Guðfinna Bjarnadóttir f. 2. 1. 1916, d. 25. 3. 1981
[4] Jóna Bjarnveig Bjarnadóttir f. 30. 9. 1921, d. 3. 1. 1993
[5] Jón Ólafur Bjarnason f. 1. 10. 1925, d. 14. 3. 2019
[6] Skarphéðinn Sigmundur Bjarnason f. 21. 2. 1927, d. 10. 9. 2006
[7] Friðgerður Sigurðardóttir f. 21. 8. 1924, d. 27. 10. 2011
[8] Kristinn Jónsson f. 1. 12. 1911, d. 4. 8. 1971
[9] Jóhannes Páll Guðnason f. 6. 11. 1925
[10] Halldór Kristjánsson f. 19. 10. 1923, d. 6. 3. 2011
[11] Heimild: Jón Ólafur Bjarnason
[12] Ólöf Jóna Jónsdóttir f. 11. 6. 1907, d. 1. 1. 1992
[13] Friðgerður Elín Bjarnadóttir f. 31. 7. 1946
[14] Erla Guðmundsdóttir f. 5. 1. 1931, d. 4. 3. 2012