Brot úr byggingarsögu Garðshornshornshorns tileinkað byggingarstjóranum Ólafi Svanlaugssyni.
Ort á jólaföstu 2012 af þjóðskáldunum Gunnari Frímannssyni og Stefáni Vilhjálmssyni.
Framhald af Kofakvæði 2011 eftir sömu höfunda og með sömu tileinkun.
Myndskreytingar: Ýmsir listamenn.
Útgáfuna styrktu Menningarsjóður KEA og Framkvæmdasjóður aldraðra.
Þetta eintak er númer ____ af 4 tölusettum eintökum.
Loksins kom vor, engjarósin rjóð
fór að rumska eftir veturinn liðinn.
Harðviðarbálkurinn bísperrtur stóð
í blóma við lækjarniðinn
Þrösturinn dritið sitt lagði á lóð,
sló ljóma á dumbdrauðan kviðinn
með fyrirheiti um hetjublóð
sem hnigi nú bráðum á viðinn.
Reis þá til verka hin vaskasta hjörð
og veruleg framkvæmdagleði.
Á lóðinni tré voru jöfnuð við jörð
og jafnóðum dregin af beði.
Skóflur og járnkarlinn sukku í svörð
með svita og heilmiklu streði.
Gilti þá einu þó grjót væru hörð,
um gólfhalla engu það réði.
Grafin var hola og skurður á ská
fyrir skolpið sem brátt tæki að renna.
Rotþróin kom, hana sælt var að sjá
sig þar á bakkanum glenna.
Að enduðu sumri hún ofan í lá
og aðfallsrör tengt mátti kenna.
Fólk ætti að komast hér klósettið á.
Þvílík kátína, tilhlökkun, spenna!
Úr háfjöllum vatni að veita í kot
verkhögum mönnum var falið.
Slangan í lækinn var lögð eins og skot,
lengri en menn höfðu talið.
Hönnun á vatnsbóli var ekkert pot,
það verkfræðiafrek ei galið
svo grunnurinn var nærri farinn á flot,
fældist þá húskarlavalið.
Nú mikið var hugsað og spaklega spáð
í sperrur og halla á þaki
og ofan í holurnar glögglega gáð
hvort gæti í þeim leynst nokkur klaki.
Af staðfestu og alúð til staura var sáð,
loks stóðu þeir keikir í baki
en annað á staðnum reis ekki í bráð
nema einmana skófla og haki.
Og svo liðu dagar, svo blánuðu ber.
Bóndinn af túnunum hirti,
sóttur á fjall var þá sauður hans hver
- svo tók þá Pólverji og myrti.
Þá lyftust úr grasinu langböndin þver,
þá lifnaði smiðurinn virti,
hreinsaði laufið úr hárinu á sér,
greip höndinni í brók sér og gyrti.
Og loks þegar kappinn var kominn á legg
af krafti hann lét í sér heyra.
Á svipstundu spratt þá upp veggur við vegg,
vindaugu, karmar og fleira.
Til verkanna gekk hann með oddi og egg
því áfram þau skyldi nú keyra.
Já þá var nú gaman að sjá þennan segg
syngja um Nínu og Geira.
En í október henti hann atvinnuslys,
allt að því hönd sína missti,
fjarri er öllum að gera að því gys
því grunnt ekki fræsarinn risti.
Kylfusveinn þessi þó komst erlendis
með konunni og viku þar gisti.
En húskofann skorti enn rjáfur og ris,
í rjóðrinu snjóaði og frysti.
Í Garðshornshornshorni er nú friðsælt en fátt
um framkvæmdir sem er til baga.
Um þiljurnar næðir í norðaustanátt
en norðurljós himinsins braga.
Upp úr hjarninu stendur samt hús upp á gátt
sem hagleiksmenn senn munu laga
og reisa þar burstir í heiðloftið hátt.
Við hlökkum til komandi daga.