Hér segir frá Elísabetu Jónsdóttur (1831-1876) sem kölluð var Barna-Beta fyrir þá sök að hafa eignast 8 börn með 5 eða 6 mönnum. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Botni í Súgandafirði en fór sem hjú að Seljalandi í Skutulsfirði. Tvítug að aldri eignaðist hún þar son með húsbónda sínum, harðgiftum manni sem var 37 árum eldri en hún. Tveimur árum síðar var hún í Hnífsdal þar sem hún eignaðist dóttur með vinnumanni úr öðru byggðarlagi. Bæði börnin dóu á fyrsta ári. Úr Hnífsdal fór hún að Folafæti í Seyðisfirði og þar átti hún dreng og stúlku með bóndasyninum sem tók síðan saman við aðra konu. Bæði börnin komust upp og drengurinn átti eftir að verða efnamaður í Reykjavík. Frá Folafæti fór Elísabet út í Vigur og þar eignaðist hún tvo syni með tveimur vinnumönnum en líklegt má telja að faðir beggja hafi verið stórbóndinn í Vigur. Eldri drengurinn dó ungur en sá yngri var Skarphéðinn langafi höfundar þessarar samantektar. Rúmlega þrítug giftist Elísabet ekkjumanni sem var 32 árum eldri en hún, og hann lést eftir fjögurra eða fimm ára sambúð en þau höfðu eignast þroskaheftan dreng, sem dó tæplega þrítugur, og stúlku sem ól að miklu leyti upp Friðgerði ömmu pistilshöfundar í Botni og Hörgshlíð í Mjóafirði vestra.
Í köflunum hér á eftir segir nánar frá æviferli Elísabetar, aðstandendum hennar og afkomendum.