Janúar 1921

Janúar

  1. Einar[1], ég, Kári, Bára[2], Mamma[3], Jóhanna fórum til kirkju, um 70 manns við kirkju.
  2. Ég, Steini, Steindór, Jóhanna fórum á fund[4]. Þorleifur[5] kom og Haraldur[6].
  3. Pabbi fór í kaupstað með hest og sleða
  4. Pabbi kom heim. Árni B[7] Steini fór suður að Bægisá
  5. Ég fór út í Rauðalæk. Næturgestir Grímur[8] og Stefán[9] frá Engimýri. Pabbi fór ofan að Hamri.
  6. Þorleifur kom og fékk sleða.
  7. Katrín[10] kom og Jósavin[11]. Kristmundur[12]. Þorleifur kom með sleðann. Ég, Steini og Steindór sóttum síldartunnu út og ofan að vegi[13].
  8. Steindór fór suður að Bægisá með „Ógróin jörð“[14].
  9. Hreggviður[15] kom og Jón Hólm[16]. Stungið út úr hesthúsi.
  10. Laufey[17], Vilborg[18], Rósant[19] og Hreggviður komu. Ágætt skíðafæri. Ég fékk bréf[20].
  11. Hreggviður kom og Árni B. Pabbi fór suður í Bægisá.
  12. Hreggi kom
  13. Eitt lamb dó í nótt. Jósavin kom og Guðmundur[21] á Steðja. Jóhanna fór út á bæi.
  14. Pabbi fór út í Rauðalæk
  15. Pabbi fór í kaupstað með hest og sleða. Frændi[22] Ég fór ofan að Hamri. Þorlákur[23] sótti svörð
  16. Ég fór suður að Bægisánum. Pabbi kom heim úr kaupstaðnum með matarsíld og harðan fisk
  17. Ég fór út í Rauðalæk og í Syðri-Bægisá. Hreggviður kom
  18. Marinó L[24] kom
  19. Frændi kom, Sveinn[25] og Árni. Pabbi fór út í Bryta og Rauðalæk
  20. Sveinn kom, Haraldur og Kristmundur. Ég fór suður að Bægisá
  21. Sóttur svörður. Steindór fór að Bægisá
  22. Kristmundur og Hreggviður komu og fengu sleða. Jón Hólm kom. Steindór fór suður að Bægisá.
  23. Steindór gerði úti fyrir Kristmund á Bægisá. Ég fór ofan að Hamri, fékk rörsköfu[26]. Jóhann Ó[27] kom með fundarboð
  24. Steindór gerði úti fyrir Kristmund. Ég fór ofan að Hamri. Ég, Steindór, Steini og Jóhanna fórum á fund[28]
  25. Steindór gerði úti fyrir Kristmund. Bjarni[29] í Koti kom og Hreggviður.
  26. Ég fór suður að Bægisá. Pabbi fór ofan að Laugalandi með hest og sleða, sótti 200 pund af síldarmjöli og 200 pund af mjöli

 

 

[1] Líklega Einar Gísli Jónasson (1885-1977), bóndi, kennari og síðar hreppstjóri á Laugalandi, þarna aðeins í stöðunni húsmaður á Laugalandi. Einar kenndi pabba alla hans  skólagöngu á Efri-Rauðalæk, líklega 8 vikur á hverjum vetri veturna 1914-1915 til 1917-1918.
[2] Ragnheiður Jóhanna Bára Sófusdóttir f. 23.8.1913, d. 2.4.1988. Giftist Jóni Gíslasyni húsasmíðameistara og tréskurðarlistamanni á Akureyri. Þau voru foreldrar Sveins Heiðars byggingameistara, Sigríðar konu Stefáns G. frá Munkaþverá, Sæbjargar konu Jóns Hlöðvers tónskálds og söngvara með kvartettinum „Los Handklæðæjos“ og Karls sem er minna þekktur. Bára var kölluð svo í Garðshorni en síðar Jóhanna. Hún var tökubarn í Garðshorni 1920-1921, þannig skráð eins og Kári Larsen.
[3] Heimilisfólkið í Garðshorni var á þessum tíma Helga amma (Mamma), Pálmi afi (Pabbi), Steinunn Anna (Amma) móðir Pálma afa, Steindór bróðir pabba, Jóhanna systir pabba, Steini (Kristján Steinstrup Jónsson) sem á þessum tíma var að taka saman við Jóhönnu, Kári Larsen, 7 ára tökubarn, og fyrrnefnd Bára, einnig 7 ára tökubarn.
[4] Væntanlega í Ási, fundur í Ungmennafélaginu Vorhvöt en í Ási höfðu félagsmenn byggt félagsheimili, timburhús sem varð síðar vesturhluti íbúðarhússins í Ási. Það var rifið 1948 og í staðinn byggt steinhús sem stendur enn.
[5] Þorleifur Rósantsson (1895-1968), Lolli á Hamri eða Þolleifur, tók við búinu á Hamri og bjó þar til dauðadags ásamt systur sinni, Fríðu (Hallfríði). Þorleifur var hagyrðingur góður og ungmennafélagsmaður en náði aldrei góðum tökum á Farmal Cub.
[6] Haraldur Pálsson (1874-1938) á Efri-Rauðalæk. Bjó fyrst á Dagverðareyri, síðan Ytri-Skjaldarvík og loks á Efri-Rauðalæk 1917-1928. Börn hans voru Jóhann Ólafur tónskáld, Elísabet á Öxnhóli, Laufey kona Eiríks Stefánssonar og Árni á Hallfríðarstöðum. Haraldur var organisti og söngstjóri. Kona Haralds, Katrín, kemur síðar við sögu.
[7] Árni Benedikt Sigvaldason (1907-1975), yngsti sonur Sigvalda á Neðri-Rauðalæk, bróðir Rósants í Ási.
[8] Hugsanlega Grímur Valdemarsson (1898-1986), systursonur Helgu ömmu, sonur Ingibjargar sem bjó á þessum tíma í Sólheimagerði í Blönduhlíð. Grímur var bróðir gamla Péturs á Rauðalæk og starfaði lengst sem trésmiður á Akureyri, smíðaði t.d. bókahillurnar mínar og hringborðið í stofunni.
[9] Stefán Jón Jóhannesson (1903-1955), eldri bróðir Jóhannesar Haraldar Rögnvaldar Jóhannessonar á Neðri-Vindheimum. Stefán átti þarna heima í Engimýri, síðar á Brúnastöðum 1938-1944 en var síðast bifreiðastjóri á Akureyri.
[10] Katrín Jóhannsdóttir (1876-1927) á Efri-Rauðalæk, vinkona og frænka ömmu. Grímur afi Helgu ömmu var langafi Katrínar. Amma og Katrín voru nágrannar þegar þær voru að alast upp á Dagverðareyri, Glæsibæ og fleiri bæjum þar í grennd. Amma skrifaði minningarorð um Katrínu þegar hún dó sem þótti tíðindum sæta því hvernig átti kona að geta skrifað minningargrein?
[11] Jósavin Guðmundsson (1888-1938) var húsmaður á Bægisá ásamt Hlíf (1897-1972), konu sinni af Flöguselsætt. Þau fluttu síðan í Miðhálsstaði og þaðan í Auðnir. Þau áttu mörg börn, Gunnar í Búðarnesi og Hrein, Ara og Guðmund Heiðmann á Auðnum auk dætranna Margrétar á Staðarbakka, Steingerðar í Brakanda, Esterar á Ytri-Másstöðum og Unnar á Skútum í Glerárþorpi, konu Bergvins sem gerði upp Faramal Cub sem ég sendi til Svíþjóðar. Aðalsteinn (1896-1977), Alli í Flögu, var yngsti bróðir Jósavins.
[12] Kristmundur Jóhannsson (1877-1964) var stjúpfaðir Hreggviðs Sveinssonar sem kemur talsvert við sögu. Kristmundur bjó á Miðhálsstöðum 1919-1920, var með fjölskylduna á Ytri-Bægisá árið eftir en flutti til Akureyrar um vorið. Steindór hirti fyrir hann á Bægisá.
[13] Á þessum tíma var „þjóðvegurinn“ fyrir neðan Hamar og Rauðalæk, niður undir Hörgá á svipuðum slóðum og hann er núna. Svonefndur kirkjuvegur lá hinsvegar um hlaðið í Garðshorni og um hann sjást enn ummerki í Garðshornshorni. Mikið var „gengið um“ kirkjuveginn sem skýrir að hluta tíðar gestakomur í Garðshorni.
[14] Smásagnasafn eftir Jón Björnsson ritstjóra Mbl.
[15] Hreggviður Sveinsson (1907-1946). Hreggi var sonur Sveins Björnssonar Benediktssonar frá Flöguseli en Sveinn ólst upp sem niðursetningur hjá Jóni Bergssyni ríka í Lönguhlíð og á Auðnum. Jón var bóndi í Garðshorni á fyrri hluta 19. aldar. Móðir Hreggviðar hét Kristín Hallgrímsdóttir (1876-1956). Hreggviður var lausaleiksbarn en Kristín bjó með Kristmundi Jóhannssyni á Miðhálsstöðum 1919-1920.
[16] Jón Hólm Friðriksson (1904-1990) var sonur Friðriks Daníels Bjarnasonar bónda á Neðri-Vindheimum. Friðrik var dáinn þegar þetta var en móðir Jóns bjó með Karli Guðmundssyni á Efri-Vindheimum.
[17] Laufey Haraldsdóttir (1907-1957) frá Efri-Rauðalæk, síðar kona Eiríks Stefánssonar og amma Eiríks Haukssonar stórsöngvara og Haralds skurðlæknis á Akureyri.
[18] Væntanlega Vilborg Helgadóttir (1874-1960), hún var um tíma kaupakona á Syðri-Bægisá og Bryta, móðir Gests Sæmundssonar síðar bónda á Efstalandi.
[19] Rósant Sigurðsson (1865-1947) bóndi á Hamri, faðir Þorleifs og Fríðu, bróðir gamla Jóhannesar á Vindheimum og Jóhönnu móður Gísla í Engimýri, eiginmanns Maríu Sigtryggsdóttur sem var kaupakona í Garðshorni þegar þau Gísli voru að draga sig saman.
[20] Pabbi fékk stundum bréf frá Eiríki Stefánssyni í Skógum
[21] Stefán Guðmundur Snorrason (1898-1981), Stephan G á Steðja, síðast vörubílstjóri á Akureyri.
[22] Frændi var Frímann Guðmundsson (1878-1927) á Efstalandi, bróðir Pálma afa í Garðshorni. Frímann var giftur Margréti systur Steina. Þau bjuggu á Hamri 1908-1917 en höfðu þá makaskipti á jörðum við Rósant og Guðrúnu sem höfðu búið á Efstalandi ásamt börnum sínum.
[23] Þorlákur Thorarensen (1876-1960), Þollákur bóndi á Bryta, náskyldur fólkinu í Lönguhlíð.
[24] Marinó Laxdal Stefánsson (1901-1993) frá Skógum, bróðir Eiríks. Gerði forskriftarbækur sem notaðar voru í skólum. Faðir Grétars sálfræðings.
[25] Líklega Sveinn Björnsson (1852-1922) faðir Brynjólfs í Koti sem á þessum tíma var bóndi á Steinsstöðum. Árni sem var með honum í för var þá Árni Brynjólfsson (1913-1932) en ekki Árni í Koti (1932-2005) sem yngri kynslóðir muna eftir. Sveinn og Soffía, foreldrar Brynjólfs, voru hjá þeim á Steinsstöðum en Soffía var dóttir Björns Benediktssonar frá Flöguseli sem var föðurbróðir Guðmundar Sigfússonar sem flutti með Steinunni Önnu og börnum þeirra í Garðshorn 1899 en dó fáum árum síðar.
[26] Rörskafa var löng spíra með gyrðisbút eða öðru álíka fyrir sköfublað, notuð til að hreinsa sót innan úr skorsteinum
[27] Jóhann Ólafur Haraldsson (1902-1966) á Efri-Rauðalæk, tónskáld á Akureyri, faðir Yngva Rafns.
[28] Þetta hefur væntanlega verið fundur í Ungmennafélaginu Vorhvöt, haldinn í Ási. Greinilega var oft fundað.
[29] Bjarni Kristjánsson vinnumaður í Efstalandskoti, giftist Halldóru Sigfúsdóttur Sigfússonar á Steinsstöðum, foreldrar Dýrleifar píanókennara og Bjarna Rúnars tónmeistara RÚV. Móðir Halldóru var systir Snorra á Bægisá.