Bergþóra Skarphéðinsdóttir
Bergþóra (1910-1992) fæddist á Gunnarseyri við Skötufjörð, 9 árum yngri en næsta systkin, en fluttist þaðan til Hnífsdals með foreldrum sínum þar sem hún var til 8 ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og hjá henni og í sambýli við Jón föðurbróður sinn var Bergþóra framan af. Hún gekk í Miðbæjarskólann og lærði m.a. hjá Helga Hjörvari sem hældi henni fyrir fallega rithönd.
Skarphéðinn vildi að Bergþóra menntaði sig og hún hóf nám í MR en veiktist af brjósthimnubólgu sem var talin byrjun á berklum. Upp úr því var hún 16 ára gömul send sér til hressingar til góðra hjóna vestur á Ísafjörð sem áttu reyndar m.a. að gæta þess að hún lenti ekki í sollinum. Það tókst ekki betur en svo að hún kynntist þar manni sínum, Kjartani Guðjónssyni (1907-1953) sjómanni frá Ísafirði, bróður Óskars Aðalsteins vitavarðar og rithöfundar. Kjartan tók síðar matreiðslupróf frá Sjómannaskólanum og var jafnan matsveinn á skipum eftir það. Bergþóra og Kjartan giftu sig á Ísafirði og þar kenndi Bergþóra einn vetur ensku og dönsku við barnaskólann. Hún hafði mætur á dönskunni og las ætíð mikið á því máli. Þau Kjartan fluttu síðan til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu allan sinn búskap upp frá því, m.a. á Njálsgötu og Egilsgötu en síðan á Laugavegi.
Bergþóra vann við það sem til féll á kreppuárunum, var m.a. í atvinnubótavinnu, en á meðan var Kjartan á sjó, fyrst á togurum en síðan í siglingum á fraktskipum Eimskipafélagsins til Ameríku. Um tíma vann hann hjá bandaríska hernum en hann varð bráðkvaddur um borð í varðskipinu Ægi aðeins 45 ára gamall. Þau Bergþóra höfðu þá eignast fjórar dætur, Pálínu (1931-2010), Rannveigu Eddu (1936), Sjöfn (1938) og Hrönn (1940).
Það var þröngt í búi hjá Bergþóru eftir fráfall Kjartans enda þrjár yngstu dæturnar varla komnar á vinnufæran aldur en hún vann áfram úti í Kexverksmiðjunni Fróni og á Borgarbókasafninu en einnig vann hún töluvert við heimilishjálp og ræstingar eins lengi og heilsan leyfði.
Bergþóra átti vin á seinni árum, Sigurlaug Guðmundsson frá Flateyri, sem var henni stoð og stytta, fór með henni í ferðalög en þau bjuggu þó aldrei saman. Þegar Sigurlaugur lést 4 árum á undan Bergþóru „var eins og lífsneisti hennar fjaraði út,“ eins og segir í minningargrein um hana.
Hún var meðal fyrstu íbúa í öryrkjablokkinni við Hátún 10 á 8. hæð þar sem henni leið vel og naut útsýnisins. Hún var mikil félagsvera, gestrisin og vinamörg og barnabörn hennar sóttust eftir að koma til hennar. Hún var ljóðelsk og átti það til að setja saman vísur. Hún hafði gaman af að dansa. Kjartan eiginmaður hennar var drykkfelldur og um tíma átti hún sjálf við áfengisvandamál að stríða, starfaði lengi með AA-samtökunum og gegndi þar trúnaðarstörfum. Síðustu 3 árin bjó hún á Hrafnistu í Reykjavík.