Júlí 1921
- Gunnar Valdemarsson hélt af stað laust fyrir hádegi, vestur. Steindór fór út í Rauðalæk til að sækja stúlku sem fór með Gunnari vestur. Við vorum í skurði.
- Steini fór í kaupstað, lausríðandi. Amma fór með honum ofan að Grjótgarði. Við vorum í skurðinum en það er grýtt og illt að vinna sumt.
- Ég fór ofan að Hamri með klippur sem Rósant dró fyrir mig. Kári fór snöttutúr út í Rauðalæk. Pabbi fór í grenjaleit fram á dal. Jóhanna er heldur betri í fætinum.
- Við fórum uppfyrir girðingu og rákum inn og rúðum á milli 50 og 60 ær. Pabbi fór suður að Bægisá.
- Þá var almennur samanrekstur háður til rúnings og fráfærna fyrr Glæsibæjarhrepp. Fáir held ég að hafi fært frá en allir rýja hverja kind. Allir karlmenn eru á ferðinni fram og aftur í kindaerindum. Allt gekk vel hér og við rákum margt af fénu fram á Bægisárdal hinn ytri um kvöldið en þá var ég orðinn lúinn.
- Benedikt á Bægisá kom og bað um byggingameistara því biskupinn ætlar að fara að koma. Steini og Steindór voru suðurfrá dagpart. Ég fór suðureftir með mat handa þeim. Þvegin ull heima. Ég sótti hross um kvöldið. Þá komu hér líka við Oddur á Lóni, Mangi á Gæsum og Halldór á Tréstöðum[1].
- Árni Júl. kom. Pabbi fór í kaupstað til að sækja Ingibjörgu. Hann lánaði Bensa hross inneftir. Steini var úti á Efri-Vindheimum við að reisa hlöðu fyrir Karl.
- Guðrún[2] á Vöglum kom með ömmu. Kári fór út og ofan að N-Rauðalæk og Anna kom með honum aftur og þvoði hér ull sem hún átti. Steini þvoði ullina sína og hélt öllum veislu með kakói og haldabrauði og lummum. Jóhanna klæddi sig stund í gær og svo aftur í dag en ekki getur hún farið í sokk á brennda fætinum. Við pældum[3] í skurðinum.
- Við kláruðum skurðinn, svo vorum við að þurrka ull og hreykja í görðunum og reyta arfann.
- Ég fylgdi Ingibjörgu fram fyrir neðan Þverá. Ég kom að Efstalandi og stansaði þar dáltila stund, tók þar þrjú ullarreifi og treyju af ömmu og reiddi fyrir aftan mig heim og lenti í mestallri rigningunni og var gegndrepa á lærunum þegar heim kom. Steindór fór út í Ás til að vera þar á Sambandsfundi[4] en þar varð enginn fundur af því að forsetana vantaði. Hér heima voru allir við að sortera ull, sumt af henni er blautt ennþá.
- Við Steindór byrjuðum að slá á túninu og slógum lengi af deginum en Steini fór að slá og raka út í Efri-Rauðalækjarengi. Ég sótti hross um kvöldið.
- Pabbi og Steini fóru í kaupstað með ullina og komu aftur um nóttina kl. 1. Við Steindór slógum fyrripartinn. Rétt fyrir miðjan daginn mölvaði ég orfið mitt svo að ég gat ekki slegið meira og líka höfðum við ekki meira til að slá svo að við rökuðum seinni partinn.
- Við Steindór fórum að slá suður og upp við girðingu. Einu sinni snúið í töðunni. Pabbi fór fram að Neðstalandi og Skjaldarstöðum til að járna Skjóna.
- Ef að lægir ætlar mývargurinn að klára mig. Við slógum og hinir rökuðu. Engið er afskaplega ónýtt en tún eru yfirleitt fullvel sprottin. Snúið í töðunni tvisvar og svo var fangað mikið af henni.
- Pabbi var lasinn, var sama sem ekkert úti. Við Steindór rökuðum með mömmu en slógum lítið. Það var snúið í töðunni og fangað það sem eftir var í útheyinu. Er öllu rakað í föng. Búið að taka saman tvær útheyshrúkur.
- Slegið og rakað.
- Ég sótti hross um morguninn því Steindór ætlaði inneftir en hann hætti við það vegna rigningarinnar. Rósant á Hamri rak kýrnar og var gripinn um leið til að járna Bleik. Kári fór ofan að Hamri til að fá hófjárn[5]. Umf. Vorhvöt fór skemmtiför fram að Möðrufellshrauni. Árni Jónsson kom með orf og ljá og ætlar að vera hjá Steina í 3 daga. Jóhanna[6] gamla á Hallfríðarstöðum dó í gærkvöld, hafði fengið slag og var búin að liggja í rúminu í 3 daga.
- Rigningartíð. Búið að ná upp útheyinu og ná því inn, var það bundið á 16 hestum. Því var dreift úr föngum og svo bundið í flekkjunum heim í hlöðu. Steindór batt, svo er búið að ná upp mestallri elstu töðunni í bólstra og inn í tótt var borið sem svarar 4 hestum. Með allt þetta varð að flýja eins og undan dauðanum ef ekki átti að rigna ofan í heyið. Við höfum verið að slá túnið og erum langt komnir með það. Það hér um bil breiðir sig. Hér koma fáir og fáir fara. Pabbi sendi Brún inneftir undir fisk með Tryggva á N-Rauðalæk. Katrín á Rauðalæk kom og fékk af fiskinum. Frændi kom til að láta ömmu vita að Valdemar[7] á Kotum er fyrir norðan núna. Inflúensa er á gangi hér um sveit og eru margir slæmir af henni. Túnasláttur stendur nú sem hæst, fáir eru samt búnir með túnin sín og eiginlega enginn búinn að ná inn töðustrái en sumir eru búnir að ná inn útheyi. Heyrst hefur að allt sé fullt af ís við landið og skipin komist varla ferða sinna fyrir honum og er það vel trúlegt því hér er svo kalt að maður þolir ekki við við verk nema í treyju og með vettlinga. Oftast er hitinn 3-4 gráður, stundum 1 en varla frost í byggð en hríð í fjöllunum. Lítið held ég að spretti núna og allir kvarta um ónýt engi en tún eru yfirleitt góð.
25.-31. Vikan er liðin og lítið hefur hún verið hinni betri, kuldi og súld fyrripartinn á hverjum degi. Lítið rignt en ekkert þornaði. ... Steini er búinn að þurrka allt sitt hey og var bundið í gær 24 hestar og líklega um 9 hestar óbundið. Nú er búið að þurrka mikið úr allri töðunni og mikið af henni í föngum en dálítið flatt. Í gær voru bundnir 11 hestar af gömlu bólstrunum inni í tóft en einn gamall bólstur er eftir og 3 bólstrar voru teknir saman í gær, illa þurrkaðir. Við kláruðum að slá túnið á þriðjudaginn og fórum svo að slá á engi, erum búnir að slá upp á hallinu og erum farnir að slá hér ofan fyrir sunnan túnið. Það er dálítið þurrt úr öllu útheyinu og búið að fanga það allt en ekkert þurrt til fulls af því. Í dag sem er sunnudagur hefur verið utan gola, sólskinslaust og þurrklaust að mestu. Við höfum verið að fanga töðuna[8] seinnipartinn og eru eftir tveir flekkir sem hætt var við af því að það kom skúr ofan í þá áður en hægt var að fanga þá og sæmilega óþurrklegt orðið útliðið. Þá ekki líst mér á, segja menn og ekki að ástæðulausu.
Frændi kom í dag með hest handa ömmu og ætlar hann að fylgja henni fram í Bakkasel. Svo á að sækja hana þangað frá Fremri-Kotum og ætlar hún að verða þar í sumar.
[1] Oddur, sem var faðir Björns sem kom með Manga í giftingarerindum, og Mangi, Magnús Gunnarsson, eru fyrr nefndir en Halldór á Tréstöðum var faðir Stefáns á Hlöðum.
[2] Guðrún Sigurgeirsdóttir (1902-1929) var dóttir Sigurgeirs og Ólafar á Vöglum.
[3] Hér notar pabbi sögnina að pæla í upphaflegri merkingu, að vinna með pál.
[4] Ekki veit ég hvaða Samband þetta var, hugsanlega var verið að vinna að stofnun Ungmennasambands Eyjafjarðar, UMSE, sem var stofnað í apríl 1922.
[5] Garðshyrningar hafa þá að einhverju leyti ráðið við að járna sjálfir hesta fyrst þeir fengu lánað hófjárn á Hamri í stað þess að fá Rósant til að járna fyrir sig eins og venjulega. Sjálfsagt hefur þó Rósant verið lagnari við járningar.
[6] Jóhanna Hallsdóttir (1848-1921), kona Benedikts og móðir Sveins Geirmars á Bægisá og Halls á Hallfríðarstöðum, amma Billa og Tedda sem voru sumardrengir á Neðri-Rauðalæk síðar. Benedikt Brynleifsson, sonur Billa, var vinsæll slagverksleikari í Nuuk á Grænlandi á tónleikaferð þangað á síðasta áratug 20. aldar.
[7] Valdemar Helgi Guðmundsson (1877-1966) bóndi á Fremri-Kotum og í Bólu, eiginmaður Arnbjargar systur Pálma afa og Frímanns (Frænda) á Efstalandi.
[8] Setja heyið upp í föng sem voru söxuð og stærri en dríli.