Um Sigmund Erlingsson í Vigur

Um Sigmund Erlingsson í Vigur

Vegna sögusagna um að Sigmundur Erlingsson (1830-1897) í Vigur hafi verið einn af barns­feðrum Barna-Betu, faðir Skarphéðins Elíassonar, er tilhlýðilegt að gera hér grein fyrir ævi hans í stuttu máli. Sigmundur fæddist á Horni í Mosdal við sunnanverðan Önundarfjörð, sonur Erlings Sigmundssonar (1804-1838) og Guðbjargar Jónsdóttur (1796-1839) sem þá voru þar vinnuhjú. Þau fluttu til Flateyrar með drenginn þre­vetran og þar mun Sigmundur hafa verið alinn upp lengst af.

Sigmundur Erlingsson í Vigur

Hann kom í Vigur sem vinnumaður 1853 og þá frá Kaupmanna­höfn, skömmu eftir lát Kristjáns Guðmundssonar (1778-1852) hreppstjóra sem lengi hafði búið í Vigur við mikla rausn. Sigmundur hefur verið hagsýnn maður og giftist brátt ekkjunni í Vigur, Önnu Kristínu Ebenesersdóttur (1809-1878), sem þá var 44 ára eða rúmum 20 árum eldri en Sigmundur en hún var seinni kona Kristjáns. Anna og Kristján höfðu eignast eina dóttur sem upp komst, Mörtu Ragnheiði (1841-1900) sem kölluð var Vigur-Marta, en Kristján hafði ekki eignast barn með fyrri konu sinni. Efni Kristjáns hreppstjóra í Vigur, sem voru mikil, komu því öll í hlut mæðgnanna Önnu Kristínar og Mörtu þannig að Sigmundur kom að góðu búi í Vigur.

Fyrstu tvo til þrjá áratugi sína í Vigur rak Sigmundur stórbú bæði til sjós og lands og hafði mörg hjú, heimilið var umsvifamikið og Sigmundur titlaður óðals­bóndi. Seinna dróst búskapur hans saman sem rakið var til taumlausrar áfengis­neyslu eins og segir í ævisögu Sumarliða Sumarliðasonar sem um tíma var giftur Mörtu stjúpdóttur Sigmundar: „Sigmundur stjúpi Mörtu var einnig afar drykkfelldur og Vigur varð á þessum árum annálað drykkjubæli. Sigmundi tókst á skömmum tíma að sólunda arfi Önnu konu sinnar sem var þó ærinn ...“ (Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: Frá Íslandi til Vesturheims, bls. 67 – 68). Sumarliði orti m.a. þetta um ástandið:

Eg má muna ævir tvær,
eitt sinn mælti Vigur;
hér var áður höfðingsbær,
heiður, völd og sigur.

Nú er allt á annan veg,
orðinn svipur dapur,
hrösun, þræta hversdagsleg,
harmur, drykkjuskapur.

Guðs blessun er flúin frá
frægu höfuðbóli
en Bakkus, Simbi og syndin grá
sitja á tignarstóli.

Jón Ólafur Bjarnason, Jón frændi, lærði síðustu vísuna þannig:

Gæfan er nú flúin frá
fornu höfuðbóli.
Simbi, Marta og syndin grá
sitja á veldisstóli.

Sr. Jón Auðuns rekur hnignun búskapar Sigmundar til ótæpilegrar vínhneygðar þeirra mæðgnanna en þó einkum Mörtu og byggir þar á minnispunktum í prest­þjónustu­bók Ögursveitar þar sem m.a. segir: „Marta drakk alla ævi og varð ræfill að lokum.“ Líklega var Sigmundur þó enginn eftirbátur þeirra á þessu sviði. En Anna var að sögn sr. Jóns „lífsþyrst kona, stórgerð og ör, bæði til ásta og víns“. Sr. Jón tekur það upp úr fyrrnefndri prestþjónustubók að Vigur-Marta hafi alls ekki verið dóttir Kristjáns heldur Jóns Jenssen, faktors á Ísafirði sem bjó nokkur ár í Vigur, og Jón hafi raunar verið faðir eldri systurinnar líka sem dó barnung. Þegar Jón fyrirfór sér í ölæði 1846 setti Anna honum fallegan legstein eins og bónda sínum 6 árum síðar.

Vigur séð af Kambsnesi. Æðey í baksýn og Langadalsströnd. Ögurnes hægra megin.

Anna Ebenesersdóttir, kona Sigmundar, lést 1878 en þau voru barnlaus eins og við mátti búast. Árið 1879 er síðasta árið sem Sigmundur er aðalbóndinn í Vigur. Þá eru 24 heimilisfastir þar. Árið áður höfðu 30 manns verið í heimili hjá honum. 

Árið 1880 er Ólafur Jensson tekinn við búskapnum en Sigmundur er þar húsmaður en þó með 5 manns í heimili. Kristján frá Garðstöðum gefur í skyn að jörðin hafi verið véluð af Sigmundi í ölæði (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 1956).

Árið 1882 er Sigmundur giftur seinni konu sinni, Viktoríu Kristjánsdóttur (1856-1925) frá Veðraá í Önundar­firði, 26 árum yngri en Sigmundur og hafði verið vinnukona hjá Ólafi Jenssyni áður. Hjá þeim er aðeins einn maður í vist en á árunum á eftir voru þó vinnuhjúin fleiri. Viktoría og Sigmundur eignuðust ekki börn en tóku í fóstur systur­son Viktoríu, Daníel Waage Benediktsson, og 1890 var móðir Daníels, Marsibil, einnig til heimilis hjá þeim Sigmundi ásamt tveimur vinnukonum. Sigmundur er þá skráður húsmaður eins og 1880 og „lifir af eignum“.

Sigmundur mun fyrst og fremst hafa verið veiðimaður eins og þessi vísa gefur til kynna:

Gerist aldrei gæfuþrot,
gjarnan fylgir sigur.
Seigur er við selaskot
Sigmundur í Vigur.

Sigmundur var oft kallaður Simbi skytta eða Sigmundur selaskytta. Hann drukknaði í fiskiróðri frá Vigur 4. nóvember 1897, hafði farið þennan eina róður með Kristjáni Daðasyni frá Borg í Skötufirði vegna þess að háseti hans var veikur. Sigmundur var þá sextíu og sjö ára og hættur að stunda sjó.

Viktoría seinni kona Sigmundar giftist aftur og nú 20 árum yngri Dalamanni, Daða Halldórssyni. Þau bjuggu á Dönustöðum í Dölum, munu ekki hafa eignast börn og eru úr þessari sögu.

Þessi vafi um rétt faðerni Skarphéðins Hinriks setur auðvitað strik í allar ættar­tölur sem eiga að ná langt aftur í aldir en eftirminnilegust ummæli um málið verða sjálfsagt þau orð Skarphéðins Bjarnasonar, dóttursonar hans, sem sagðist vera ættlaus maður, langafi sinn hafi dáið barnlaus. Og vissulega dó Sigmundur í Vigur barnlaus ef marka má kirkju­bækur enda er löngu vitað að þær eru ekki óyggjandi heimildir. Þetta er raunar ekki eina dæmið um slík vafamál í þessari greinargerð um afkomendur Elísabetar Jónsdóttur án þess að farið verði nánar út í þá sálma hér.