Sigurður Jónsson[1]
var rúmlega tvítugur orðinn formaður á bát frá Bolungarvík og þótti mikill efnismaður. Hann fórst þar á víkinni í nóvember 1894 ásamt Bjarna Þorlákssyni mági sínum. Frá þeim atburði segir í kaflanum um Ytribúðafólkið hér að framan. Eini afkomandi Sigurðar var ófædda dóttirin Sigurða[2] sem unnusta hans, Elísabet Guðmundsdóttir[3], bar undir belti.
Elísabet fór eftir slysið út í Breiðaból í Skálavík til Jóns og Margrétar, foreldra Sigurðar, og var þar næstu árin með Sigurðu litlu. Margrét lést í mars árið 1900 en á þessum árum voru dætur þeirra viðloða heimilið, Vigdís og Kristín sem hafa séð um heimilishald ásamt Elísabetu. Þar á heimilinu var einnig Hafliði Bjarnason, sonur Jónu Jónsdóttur og systursonur Sigurðar. Í september 1901, rúmu ári eftir lát Margrétar, eignaðist Elísabet soninn Ágúst Guðbjörn með Jóni tengdaföður sínum en „yfirvöld á þessum tíma litu það alvarlegum augum ef kona eignaðist börn með feðgum en í gömlum dönskum lögum lá hörð refsing við þessu. Mun hafa komið til einhvers málarekstrar hjá embætti sýslumannsins á Ísafirði og hraktist Elísabet frá Breiðabóli af þessum sökum.“[4]
Ágústi var komið í fóstur á Hamri á Langadalsströnd hjá barnlausum en vandalausum hjónum, Hávarði Guðmundssyni[5] og Sigríði Guðmundsdóttur[6], en Elísabet fór með Sigurðu í vist til Jóhanns Sörensen Reyndal bakara og Halldóru G. Kristjánsdóttur konu hans í Bolungarvík. Sagt er að Jóhann eða jafnvel Halldóra hafi komið Elísabetu til hjálpar þegar til stóð að kæra hana fyrir siðferðisbrotið, þau hafi bent mönnum á að lögin um „brot“ hennar hefðu verið afnumin í Dönmörku og þar með á Íslandi fyrir mörgum áratugum.
Sumir segja reyndar að það hafi verið Theodóra Thoroddsen sem hafi reynst henni þessi haukur í horni en þau Skúli Thoroddsen bjuggu þá á Ísafirði þar sem hann var þá þingmaður, ritstjóri og athafnamaður. Málarekstur gegn Elísabetu var alltént felldur niður en hinsvegar er þess hvergi getið að Jón hafi fengið nokkrar kárínur fyrir barneignina.
Nokkru síðar gerðist Elísabet ráðskona og síðar þriðja eiginkona Gísla nokkurs Jónssonar[7] sem titlaður er sjómaður og skáld í Íslendingabók en Lína Dalrós, elsta dóttir þeirra Elísabetar, kallaði hann skáld og gleðimann og gaf með því til kynna að líf móður hennar hafi ekki verið dans á rósum í sambúðinni við Gísla föður hennar.
Gísli var 21 ári eldri en Elísabet, hann var ekki sagður drykkfelldur en kvensamur. „Hann hafði eignast tvær dætur með tveimur konum fyrir hjónaband, verið giftur tvisvar en báðar konur hans voru látnar. Samtals hafði hann eignast 11 börn en misst sex þeirra í æsku.“[8]
Ágúst kom aftur til móður sinnar þegar hún hóf sambúð með Gísla en ólst þó að mestu leyti upp á Hamri frá 8 ára aldri.[9] Gísli og Elísabet eignuðust fjögur börn sem komust upp. Elst var fyrrnefnd Lína Dalrós,[10] móðir Óskars Jóhannssonar kaupmanns sem skrifaði bókina Bernskudaga þar sem foreldrar hans og amma koma við sögu. Sveinfríður Pálína[11] var önnur, hún dó úr berklum rúmlega tvítug en hafði þá eignast einn son, Hávarð Olgeirsson skipstjóra á skipum Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík. Þriðji í röðinni var Hjörtur Gíslason[12] rithöfundur (Salómon svarti, Garðar og Glóblesi o.fl. bækur), faðir m.a. Gísla Braga bæjarfulltrúa á Akureyri, Sigurðar sagnfræðings og Reynis hestamanns, leiðbeinanda og hagyrðings. Fjórða barnið sem upp komst var Halldóra[13] sem bjó á Sleggjulæk í Stafholtstungum í Borgarfirði.
Elísabet var 47 ára þegar Gísli dó frá henni 68 ára að aldri. Hún lifði lengi enn, fyrst í Bolungarvík, þar sem hún vann alla almenna verkakvennavinnu, og síðan hjá Sigurðu dóttur sinni og Jóhanni manni hennar á Ísafirði þar til Sigurða dó 1947. Afkomendur hennar minnast hennar sem iðjusamrar konu sem aldrei féll verk úr hendi.
Vafalaust hafði Hjörtur Gíslason móður sína í huga þegar hann orti í kvæðinu Vökurím:
Bjó til plögg og peysurnar,
prjónunum sjaldan sleppti.
Mamma þekkti þarfirnar,
þreytumerkin skýrust bar.
Friðlaust stritið fingur hennar kreppti[14].
Síðustu árin, þegar heilsu hennar tók að hraka og hún orðin blind, bjó hún hjá Halldóru dóttur sinni á Sleggjulæk þar sem hún dó 88 ára gömul. Hún var jarðsett á Síðumúla í Hvítársíðu.
Sigurða Sigurðardóttir ólst upp hjá móður sinni fram yfir fermingu. Þá bar það til tíðinda að bakarahjónin, sem reynst höfðu móður hennar svo vel þegar hún kom frá Skálavík með Sigurðu og Ágúst, tóku sig upp og fluttu til Vestmannaeyja árið 1912. Jóhann bakari stofnaði bakarí í Vestmannaeyjum og rak það til 1920 en var eftir það bakari bæði á Akranesi og í Reykjavík og bjó um tíma í Danmörku. Bakaríið í Vestmannaeyjum heitir nú Magnúsarbakarí eftir Magnúsi Bergssyni sem giftist Halldóru Valdimarsdóttur frá Bolungarvík, fósturdóttur Jóhanns bakara, og tók við rekstrinum af tengdaföður sínum en það er allt önnur saga.
Árið eftir að bakarahjónin fluttu til Vestmannaeyja fór Sigurða í vist til þeirra og þar var hún til ársins 1918. Árið áður, þ.e. 1917, hafði Katrín nokkur Sigurðardóttir[15], jafnaldra Sigurðu, komið í vistina til Jóhanns bakara en Katrín hafði flust ofan úr Skaftártungum til Vestmannaeyja árið 1909 og verið til heimilis á Akri þangað til hún fór í vist til bakarahjónanna. Sennilega hefur það svo verið vorið 1918 sem stöllurnar Sigurða og Katrín réðu sig í kaupavinnu norður í Skagafjörð. Um haustið fóru þær með strandferðaskipi vestur um land, hugsanlega áleiðis suður, en sagan segir að þá hafi verið illt í sjóinn og þær sjóveikar þannig að þær söðluðu um á æskuslóðum Sigurðu og fóru í land í Bolungarvík. Sigurða hafði reyndar ærna ástæðu til að fara þar í land til að hitta fólkið sitt, móður sína og hálfsystkini, en Katrín hefur ráðið sig þar í vist. Þær ílentust báðar í Víkinni og kynntust þar karlmönnum.
Árið 1920 var Katrín trúlofuð Bolvíkingnum Þorgils Guðmundssyni frá Minnibakka í Skálavík og bjó á heimili tilvonandi tengdaforeldra sinna. Með Þorgils eignaðist hún m.a. Margréti og frú Elínu, konu sr. Þorbergs Kristjánssonar prests í Bolungarvík, en Margrét giftist í fyllingu tímans Þorkatli Jónssyni, syni Önnu Skarphéðinsdóttur sem segir frá í pistli um Barna-Betu og er reyndar getið hér í kafla um Bjarna Bjarnason. Sigurða eignaðist hinsvegar soninn Hjörleif[16] með Hafliða Jóhanni Jónssyni verkamanni og sjómanni sem hafði alist upp í Skálavík og Bolungarvík.
Skömmu síðar giftist Sigurða Jóhanni Jóni Jenssyni[17] (sterka) sem var m.a. bílstjóri hjá Einari Guðfinnssyni á meðan þau bjuggu í Bolungarvík. Þau eignuðust þrjá syni, Sturlaug, Ágúst og Sigurð Jóhann.
Sturlaugur Jóhannsson[18] var bifreiðastjóri og síðar húsvörður í grunnskólanum á Ísafirði. Kona hans var Anna Magnea Gísladóttir[19] og börn þeirra Páll Helgi, Sigríður Elísabet, Þórunn Lovísa og Guðrún Ingibjörg.
Ágúst[20] varð fyrir því slysi barnungur að detta út úr vörubifreið, sem faðir hans ók, og lenda undir henni. Hann mjaðmargrindarbrotnaði og lá lengi á sjúkrahúsi eftir slysið og gekk haltur upp frá því.
Hann fluttist um tvítugt að Sporði í Línakradal og bjó þar á móti tengdaföður sínum í 14 ár en vann síðan á vélskóflu og fleiri tækjum hjá Vegagerðinni á Hvammstanga fyrir utan eitt ár eða tvö þegar hann ók Skagastrandarrútunni og fleiri bílum og tækjum fyrir Ágúst frænda sinn Jónsson á Blönduósi. Kona hans var Birna Ragnheiður Þorbjörnsdóttir[21] og börn þeirra Þorbjörn og Jóhanna Sigurða.
Sigurður Jóhann[22] var skrifstofustjóri í Landsbankanum á Ísafirði en síðustu 10 starfsárin hjá bankanum eða frá 1988 var hann skrifstofustjóri í útibúinu í Mjódd í Reykjavík. Kona hans er Sæunn Sigríður Sigurjónsdóttir[23] og börn þeirra Sigurjón Jóhann og Sigurða.
Sigurða Sigurðardóttir stundaði ýmsa fiskvinnu í Bolungarvík, var m.a. í reitavinnu eins og það var kallað að breiða saltfisk til verkunar. Einar Guðfinnsson getur þeirra hjóna beggja í ævisögu sinni. Hann segir fyrst: „Jóhann Jensson varð síðar bílstjóri hjá mér um margra ára skeið. Hann var traustur maður og vann mér vel og þá ekki síður kona hans, Sigurða, mesti dugnaðarforkur og ágætis manneskja.“[24] Og enn segir Einar: „Sigurða kona Jóhanns Jenssonar, sem lengi var bílstjóri hjá mér, var í miklu afhaldi hjá mér vegna dugnaðar og samviskusemi. – Ég minnist þess að eitt sinn lá mér eitthvað mikið á að fá manneskju í verk og fór heim til Sigurðu. Hún var þá að þvo þvott uppúr bala. Hún hafði engin orð heldur hætti að þvo, þurrkaði sér um hendurnar og bjóst til ferðar. Ég sagði þá eitthvað sem svo að ekki lægi mér nú svo mikið á að hún mætti ekki klára að þvo úr balanum. Hún svaraði: „Þvotturinn skemmist ekki þótt hann bíði en það gerir fiskurinn.“
Svona var hugsunarhátturinn í þá daga. Fólkið vissi að framleiðslan þurfti að sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru.“[25]
Það segir sína sögu að Sigurða er nánast eina konan sem fær meira en nafnið sitt eða meira eina línu á fyrstu 275 blaðsíðunum í ævisögu Einars Guðfinnssonar eða þangað til nefndar eru þrjár konur sem þjónuðu vel í fyrirtækjum athafnamannsins. Og ein þeirra þriggja var Lína Dalrós, hálfsystir Sigurðu, sem var „mikil dugnaðarmanneskja“ og var eini lifrarbræðslumaðurinn í pilsi á landinu, að því að Einar taldi, eftir að hún fékk að ganga í starf eiginmanns síns hjá Einari þegar sá fyrrnefndi lést á miðjum aldri frá mörgum börnum og hefur hún því líklega fengið karlmannskaup.
En Sigurðu er minnst fyrir fleira en þjónustulund við vinnuveitandann. Eldri Bolvíkingar minnast hennar m.a. fyrir það að hún var síprjónandi og svo heklaði hún altarisdúk í Hólskirkju og keypti dönsk prjónablöð, önnur tveggja kvenna í Bolungarvík, en það þótti mörgum þar í bæ mikil fordild. Vera hennar hjá danska bakaranum hefur orðið til þess að hún gat nýtt sér þessi blöð en varla hefur hún notið mikillar dönskukennslu í skóla.
Þegar Sigurða greindist með berkla 1943 og þurfti að leggjast á sjúkrahús flutti fjölskyldan frá Bolungarvík til Ísafjarðar í september. Einar Guðfinnsson lánaði bát til að flytja búslóðina. Þar starfaði Jóhann m.a. sem vélstjóri í hraðfrystihúsinu Norðurtanganum en Sigurða lá lengst af á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Síðustu tvo mánuðina var hún á Kristneshæli í Eyjafirði þar sem hún lést rúmlega fimmtug. Áður en Sigurða og Jóhann fluttu til Ísafjarðar hafði Hjörleifur, sonur hennar, farið 16 ára gamall í vinnumennsku í Hrafnagil í Eyjafirði til Þórhalls Antonssonar og Guðlaugar Jónasdóttur sem reyndust honum vel og var vinátta milli þeirra æ síðan.
Hjörleifur flutti síðar til Akureyrar þar sem hann starfaði það sem eftir var starfsævinnar sem iðnverkamaður í verksmiðjum Sambandsins. Kona hans var Júlíana Hinriksdóttir,[26] hjúkrunarfræðingur á Akureyri. Þau eignuðust 5 börn en 3 þeirra komust á legg, Sigurður Hinrik, Elísabet og Jóhann.
[1] Sigurður Jónsson f. 6. 7. 1868, d. 17. 11. 1894
[2] Sigurða Sigurðardóttir f. 9. 7. 1895, d. 18. 1. 1949
[3] Elísabet Guðmundsdóttir f. 20. 8. 1872, d. 23. 5. 1963
[4] Óskar Jóhannsson: Bernskudagar bls. 22 – 23.
[5] Hávarður Guðmundsson f. 26. 6. 1878, d. 8. 2. 1945
[6] Sigríður Guðmundsdóttur f. 6. 4. 1872, d. 10. 2. 1948
[7] Gísli Jónsson f. 14. 4. 1851, d. 25. 9. 1919
[8] Óskar Jóhannsson: Bernskudagar bls. 25
[9] Jóhann Líndal Jóhannsson: Ágúst G. Jónsson, Blönduósi. Minningargrein 14. 9. 1983
[10] Lína Dalrós Gísladóttir f. 22. 9. 1904, d. 14. 12. 1997
[11] Sveinfríður Pálína Gísladóttir f. 11. 10. 1905, d. 12. 3. 1926
[12] Hjörtur Gísli Gíslason f. 27. 10. 1907, d. 7. 6. 1963
[13] Halldóra Gísladóttir f. 27. 10. 1910, d. 30. 8. 2002
[14] Hjörtur Gíslason: Kvæðið Vökurím í samnefndri bók, útg. á Akureyri 1947.
[15] Katrín Sigurðardóttir f. 30. 12. 1895, d. 21. 8. 1975
[16] Hjörleifur Hafliðason f. 12. 9. 1920, d. 30. 11. 2008
[17] Jóhann Jón Jensson f. 15. 4. 1898, d. 21. 4. 1967
[18] Sturlaugur Jóhannsson f. 27. 8. 1924, d. 24. 7. 2003
[19] Anna Magnea Gísladóttir f. 9. 6. 1924, d. 19. 2. 2008
[20] Ágúst Jóhannsson f. 31. 7. 1926, d. 25. 2. 2019
[21] Birna Ragnheiður Þorbjörnsdóttir f. 3. 8. 1928, d. 25. 3. 2010
[22] Sigurður Jóhann Jóhannsson f. 12. 12. 1934
[23] Sæunn Sigríður Sigurjónsdóttir f. 25. 6. 1936
[24] Ásgeir Jakobsson: Einars saga Guðfinnssonar, Skuggsjá 1978, bls. 200.
[25] Ásgeir Jakobsson: Einars saga Guðfinnssonar, Skuggsjá 1978, bls. 274 - 275
[26] Júlíana Hinriksdóttir f. 13. 2. 1920, d. 14. 6. 2017