Barnafræðsla í Hörgársveit 1910-1963

Nútímafólki finnst sjálfsagt að börn séu í skóla frá eins og hálfs til tveggja ára aldri og fram á fullorðinsaldur. Yfirgnæfandi meirihluti ungs fólks lýkur framhaldsskóla af bóknáms- eða verknámsbrautum og því er oft haldið fram að grunnnám úr einhvers konar háskóla sé nú álíka mikilvægt og gagnfræðapróf var fyrir 30 til 40 árum. Nú til dags finnst okkur óhæfa að börn úr Innbænum á Akureyri þurfi að ganga daglega rúman kílómetra í Brekkuskóla, leiðin er erfið og hættuleg. Á meðal okkar eru þó fjölmargir einstaklingar sem gengu aðeins í skóla 8 til 12 vikur á vetri í þrjá til fjóra vetur og þurftu að ganga tveggja eða þriggja, jafnvel mun fleiri, kílómetra vegalengd í skóla á hverjum degi þá daga sem kennt var. Margir fræðimenn halda því fram að lausnir á vanda margra fátækustu landa heims sé aukin menntun, reyndar fyrst og fremst aukin menntun kvenna, en ekki þarf að fara lengra en 100 ár til baka til að sjá þau viðhorf í íslensku samfélagi að skólaganga sé óþörf. Saga farskóla í Hörgársveit sýnir okkur þetta.

Eftirfarandi pistill fjallar um skólahald í þremur af þeim fjórum hreppum, sem voru þar sem nú heitir Hörgársveit, á árunum 1910 til 1963 eða frá því að skipulegur skólarekstur hófst og þangað til Þelamerkurskóli tók til starfa. Heimaslóð hefur þegar birt ítarlega greinargerð Jóhannesar Hermannssonar um skólahald í Arnarnesskólahverfi 1910 til 1989 og þess vegna er fátt eitt sagt hér um barnafræðslu í þeim hluta Hörgársveitar.

Það er við hæfi að byrja skrifin á stuttu yfirliti um barnafræðslu á Íslandi fyrir 1910. Hér verður látið nægja að rekja í örstuttu máli hvernig alþýðufræðsla þróaðist á Íslandi á seinni hluta 19. aldar og þangað til sett voru lög um fræðsluskyldu barna árið 1907. Í Danmörku höfðu verið sett lög 1814 sem kváðu á um „að börn sem nytu ekki kennslu í heimahúsum skyldu sækja skóla sem kostaður væri af opinberu fé og læra hið minnsta kristinfræði, lestur, skrift og frumatriði í reikningi“ (Loftur Guttormsson o.fl., bls. 21). Sambærileg lög voru sett í Svíþjóð 1842 og í Noregi 1860 en af einhverjum ástæðum hafði kóngurinn okkar í Danmörku ekki gert þessar kröfur til þegna sinna á Íslandi. Hér var þó í gildi konungsbréf frá árinu 1790 „um kennslu og uppeldi barna“ þar sem ætlast var til að börn skyldu hefja lestrarnám áður en þau yrðu fullra fimm ára og fermingarkverið áttu þau að byrja að læra áður en þau yrðu 10 ára (Loftur Guttormsson o.fl., bls. 22) og kunna það utan að þegar þau fermdust 14 ára gömul. Prestarnir fylgdust með námsárangrinum og skráðu frammistöðu sóknarbarna í sóknarmannatalið um leið og þeir húsvitjuðu. Barnaskólar fyrirfundust varla fyrir 1870 en eftir það fóru þeir að skjóta upp kollinum á þéttbýlisstöðum, m.a. á Akureyri.

Það hafði sem sagt verið hlutverk heimilanna að kenna börnum lestur og kristnifræði og raunar líka skrift og reikning eftir 1879 og frá árinu 1878 styrkti landsjóður barnafræðslu, bæði í barnaskólum og svonefnda umferðarkennslu eða heimakennslu sem var undanfari farskólanna (Ingólfur Á. Jóhannesson, bls. 6). Foreldrar voru þó margir ófærir um að fræða börn sín, sjálfir illa læsir, óskrifandi og „fáfróðir“ um almættið en á efnaheimilum voru stundum ráðnir heimiliskennarar til að létta fræðslukvöðinni af foreldrunum (Loftur Guttormsson o.fl., bls. 63). Dæmi um þetta var heimilið á Þúfnavöllum en Eiður Guðmundsson segir frá því í Heimaslóð (17. hefti, bls. 149–150) í grein um vinnufólk foreldra hans að Aðalbjörn Kristjánsson og María Jónsdóttir hafi verið ráðin til að kenna honum og systkinum hans veturna 1893 og 1896. Börnin á Þúfnavöllum voru 8 og voru á skólaaldri frá 1893 og langt fram yfir setningu fræðslulaganna 1907 og þess vegna er líklegt að kennarar hafi verið á því heimili öll þessi ár en ógerlegt er að ráða það af sóknarmannatölum því að kennararnir voru ekki endilega heimilisfastir þar þegar prestur húsvitjaði. Hugsanlegt er að börn af nágrannabæjum hafi jafnvel notið góðs af kennslunni á Þúfnavöllum en allt of lítið er vitað um heimakennslu í hreppunum þremur sem hér eru til skoðunar og hana þyrfti að rannsaka með þeim hætti sem Bragi Guðmundsson hefur gert í byggðum í kringum Húnaflóa (Bragi Guðmundsson: Um barnafræðslu í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887-1905). Nánar verður gerð grein fyrir þessum tveimur heimiliskennurum Þúfnavallabarnanna í kaflanum um Skriðuhrepp og sagt er frá heimiliskennaranum Tómasi Davíðssyni í kaflanum um Glæsibæjarhrepp.

Auðvitað voru það ekki endilega börnin, sem þurftu mest á utanaðkomandi kennurum að halda, sem fengu heimakennslu. Greinarhöfundur heldur að hana hafi fyrst og fremst fengið börn betur stæðra bænda sem þurftu þó ekki alltaf að greiða hana fullu verði. Bragi Guðmundsson hefur hinsvegar komist að því að vestur við Húnaflóa hafi „drjúgmargir niðursetningar og tökubörn [verið] í hópi þeirra sem fræðslunnar nutu“ (Tölvuskeyti, 10. mars 2021). Eftir 1887 fengu svonefndir „umgangskennarar“ og „sveitakennarar“ styrki úr landssjóði til að stunda kennslu ef kennari var „ráðinn af hreppsnefnd eða sóknarnefnd og hann kenndi auk kristindóms og lesturs: skrift, reikning og réttritun.“ Í Eyjafjarðarsýslu kenndu 6 kennarar 138 börnum skólaárið 1890–1891 og 18 kennarar kenndu 316 börnum 1899–1900 með styrk úr landssjóði. Á þeim tíma voru hreppar í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum í fararbroddi á landsvísu með rekstur farskóla en svo nefndist fræðsla kennara sem fóru bæ frá bæ og kenndu börnum. Auk þessara ríkisstyrktu kennara munu fjölmargir hafa stundað kennslu án þess að fá styrk úr landssjóði (Loftur Guttormsson, 1992).

Svo kom að því að Alþingi Íslendinga setti lög um að skylt væri að sjá öllum börnum fyrir fræðslu. Í barnafræðslulögum frá 1907 var kveðið á um almenna fræðsluskyldu 10 til 14 ára barna en eftir sem áður bar heimilunum að kenna börnum til 10 ára aldurs að lesa, skrifa og reikna auk þess sem fræða átti þau um hinn eina, sanna guð sem þá þótti við hæfi að trúa á. Kostnaður við fræðslu eldri barnanna færðist þá frá heimilunum til hins opinbera því að hrepparnir áttu að greiða kennurum farskólanna laun og uppihaldskostnað auk þess sem þeir stóðu straum af byggingu og rekstri skólahúsa þar sem þau voru til og notuð. Eitthvað hefur þó ríkisvaldið lagt af mörkum líka til byggingar skólahúsa því að landssjóður styrkti byggingu skólahúss sem foreldrar byggðu í Sandgerðisbót í byrjun 20. aldarinnar og varla hefur það verið einsdæmi. Eftir 1919 greiddi landssjóður helming af launum kennara í dreifbýli, ef sveitarfélög skiluðu skýrslum um kennsluna og sóttu um styrk, sveitarfélagið greiddi annan kostnað við skólahaldið. Mestu máli skipti samt að eftir 1907 áttu öll börn rétt á kennslu fólks sem kunni til þeirra verka. Launakjör kennara í farskólum, m.a. í skólum hreppanna þriggja sem hér eru til umræðu, voru reyndar svo bágborin að sumstaðar lék grunur á að til starfsins veldust helst menn sem gátu ekki unnið neitt annað (Loftur Guttormsson o.fl., bls. 126–128). Ekkert bendir þó til þess að kennarar í umræddum hreppum hafi verið neinir undirmálsmenn, yfirleitt raunar þvert á móti.

Barnafræðslulögin tóku gildi 1908 en þar var gert ráð fyrir skólahéruðum annars vegar, þar sem kenndir skyldu að lágmarki 6 mánuðir á ári, og fræðsluhéruðum hinsvegar en þar þurfti kennslan ekki að standa nema í 8 vikur á ári og náði einungis til barna á aldrinum 10 til 14 ára. Í skólahéruðum voru reknir skólar sem höfðu fasta samastaði og starfsmenn, heimangönguskólar eða heimavistarskólar, sem voru reyndar fátíðir framan af. Í fræðsluhéruðum var börnum safnað saman á heimilum eða – eins og dæmin sanna – í byggingum sem voru meðal annars ætlaðar til skólahalds. Fyrir kom að foreldrar fengju að kenna börnum sínum sjálfir á heimilum sínum undir eftirliti fræðslunefnda, það nefndist heimakennsla. Fræðslunefndir hreppanna áttu að líta eftir að heimakennsla færi fram með sómasamlegum hætti, þess vegna var líka talað um eftirlitskennslu. Skólahéruðin voru fyrst og fremst í þéttbýli en hrepparnir þrír, sem fjallað er um hér á eftir, töldust vera fræðsluhéruð þangað til skólahérað varð til í Glerárþorpi 1937 (Loftur Guttormsson o.fl., bls. 96). Eftirlit presta með kunnáttu barna, sem þeir höfðu sinnt fram til setningar fræðslulaganna 1907, lagðist af nema að því leyti að þeir hafa eftir sem áður gert kröfur um lágmarkskunnáttu í biblíusögum til að börnin mættu fermast.

Farskólinn þarfnast þó nánari skilgreiningar. Loftur Guttormsson (1992, bls. 207) lýsir farskóla þannig að hann „tók ekki á sig neina merkjanlega ytri ásýnd í formi sérstakrar byggingar – skólahúss – heldur varð hann til á þeim bæ þar sem farkennarinn hafði lengri eða skemmri viðdvöl.“ Þessi skilgreining á þó ekki að öllu leyti við um Öxnadal og Glæsibæjarhrepp því að þar var ekki nema allra fyrstu árin kennt á mismunandi stöðum frá vetri til vetrar. Þessir hreppar komu sér upp eða leigðu skólahús þó svo að kennari færi á milli þeirra og kenndi tvær og tvær vikur á hverjum stað í senn og hvert barn fékk að lágmarki kennslu í 8 vikur á vetri. Þannig var skólahús á Þverá í Öxnadal frá upphafi formlegrar kennslu og í Glæsibæjarhreppi var að langmestu leyti kennt í sérstökum skólahúsum í Ási og síðar á Brúnastöðum á Þelamörk, Þinghúsinu í Kræklingahlíð og í Sandgerðisbót. Í Skriðuhreppi var hinsvegar alla tíð kennt heima á bæjum eftir því hvaða bændur buðust til eða létu undan þrábeiðni fræðslunefnda um að halda skóla í húsum sínum. Fyrir kom þar að kennt var fyrrihluta vetrar á einum bæ en seinnihluta vetrar á öðrum. Kennslubúnaður – skólaborð og -bekkir, hnattlíkön o.fl. í eigu hreppsins – var fluttur á milli. Í örfá ár var kennt í þinghúsinu á Öxnhóli. Í Arnarneshreppi var farskóli á mismunandi bæjum lengi vel en þar voru líka skólahús, bæði þinghúsið á Reistará og skólinn á Hjalteyri.

Tveggja vikna tarnirnar, sem nefndar voru hér að framan, virðast hafa verið meginreglan í þessum þremur hreppum en í lok farskólatímabilsins var þó annar háttur á í Skriðuhreppi. Þar var kennsluönnunum tveimur, fyrir áramót og eftir áramót, skipt þannig að helming annar voru í hverri viku kenndir fimm dagar í Auðbrekkutorfunni og einn dagur í fram-dalnum en á hinum annarhelmingnum snerist skiptingin við (Guðmundur P. Steindórsson, tölvuskeyti 4. janúar 2022).

Í nokkrum tilvikum fengu foreldrar í þessum hreppum leyfi fræðslunefnda til að kenna börnum sínum á skólaaldri heima, ef langt var að sækja skóla, og þá greiddi hreppurinn styrki til þeirra foreldra sem sáu sjálfir um kennslu barna sinna.

Löggjöfinni um almenna fræðsluskyldu var breytt árið 1926 þannig að öll börn á aldrinum 8 til 14 ára voru gerð skólaskyld og þeim gert að taka opinbert próf að vori. Margar undanþágur voru veittar og víða hélst skólaskyldan frá 10 ára aldri þar sem kennt var í farskólum. Foreldrar eða forráðamenn áttu enn að kenna börnunum að lesa, skrifa og reikna. Reyndar voru skiptar skoðanir um ágæti þess að fela skólum barnafræðsluna, sem hafði áður verið á höndum heimilanna, en niðurstaða þeirrar umræðu varð þó sú að ekki væri raunhæft að ætla heimilunum þetta hlutverk eftir að heimilisfólki fór að fækka og kvöldvökur og húslestrar lögðust af. Nýir tímar gerðu nýjar kröfur og sköpuðu nýjar forsendur (Ingólfur Á. Jóhannesson, 1983). Fræðslulögunum var aftur breytt árið 1936 og skólaskylda barna í föstum skólum í þéttbýli lengd og færð niður til 7 ára barna. Enn mátti gera undantekningar í farskólum þar sem víða urðu litlar sem engar breytingar. Þar var enn leyfilegt að kenna 8 vikur á ári en í heimangöngu- og heimavistarskólum var skylt að veita hverju barni 12–13 vikna kennslu á ári (Loftur Guttormsson, 1992). Þannig færðist kennslan ekki niður til 8 ára barna fyrr en 1946 í Öxnadal og í Skriðuhreppi 1953 en í Glerárþorpi var farið að kenna 8 og 9 ára börnum lestur og skrift 1929 og fljótt eftir það fengu þessir árgangar svipaða þjónustu í sveitaskólunum í Glæsibæjarhreppi. Það var þó að einhverju marki undir foreldrum komið og fjarlægð frá skóla eða kennslustað hvort yngstu börnin nýttu þá þjónustu þannig að skólaskyldu þeirra var ekki endilega fylgt fast eftir.

Enda til hvers? Þegar það blasir við að skólaganga barna í þessum tiltölulega þéttbýlu sveitum var svo miklu skemmri en gerðist í þorpum og kaupstöðum og að talsverður munur var á milli hreppa í sama dalnum hljótum við að staldra við og spyrja um ástæður. Ristu boðskapur Guðmundar Finnbogasonar um alþýðumenntun og hugsjónir ungmennafélaganna um „ræktun lýðs og lands“ ekki dýpra en svo í hjörtu fræðslunefndarmanna að þeir gengu eins langt og þeir gátu til að nýta undanþáguákvæði fræðslulaganna til að halda börnum frá skólabrölti í lengstu lög? Sáu hreppsnefndarmenn ekki aðra framtíð fyrir börnin í sveitunum en að þau mundu erfa landið og herfa bújarðirnar og halda áfram „að kemba kýrhala og skeina hænsni“ eins og einhver orðaði það? Eða voru þessar sveitir almennt svo blessunarlega lausar við þannig bóndasyni – og -dætur – sem Benedikt Gröndal lýsir með orðum sem hann leggur í munn föður sem ræðir við konu sína um framtíð sonar þeirra:

Hann er svo kargur, heillin mín,
hann nennir ekki neitt að gera;
látum strákinn stúdíera.
(Örn Snorrason, bls. 8).

 

Almennt um farskóla í hreppunum þremur

Áður en hrasað er að ályktunum um viðhorf foreldra í hreppunum þremur til menntunar barna sinna er rétt að skoða skilyrði til skólarekstrar í þessum sveitum á fyrri hluta 20. aldarinnar. Rekin hefur verið saman eftirfarandi tafla yfir fjölda barna á skólaskyldualdri í hreppunum þremur á fimm áratugaskilum. Breytingar á fræðsluskyldunni 1926 og aftur 1936 höfðu ekki mikil áhrif í þessum hreppum framan af og til að gæta samræmis er aðeins sýndur fjöldi 10 til 14 ára barna í hverjum hreppi þó að kennsla yngri barna hafi hafist að einhverju marki í Glæsibæjarhreppi eftir 1930. Börnin eru flokkuð eftir hverfum innan Skriðuhrepps og Glæsibæjarhrepps því að í báðum hreppunum var kennt á þremur til fjórum stöðum fyrstu áratugina, reyndar á mismunandi stöðum á mismunandi tímum. Barnafjöldinn 1960 er ekki skoðaður í Töflu 1 vegna þess að manntöl eftir þann tíma eru ekki enn aðgengileg á netinu.

Þegar Tafla 1 er skoðuð verður að hafa í huga að skiptingin niður á skóla í Skriðuhreppi og Glæsibæjarhreppi er heldur ónákvæm. Í fram-Hörgárdal var kennt á Þúfnavöllum, Gerði, Myrká, Myrkárbakka, Myrkárdal, Búðarnesi og Staðartungu en þar eru talin börn sem áttu heima fremst í dalnum og niður að Staðartungu austan Hörgár og niður í Féeggstaði vestan ár. Hér verður að hafa í huga að í tímabilum voru mörg börn á Einhamri, Ásgerðarstaðaseli, Ásgerðarstöðum og Baugaseli auk Staðarbakka sem kemur helst við sögu hér á eftir en frá þessum bæjum gat verið 8 til 10 km leið á bæinn þar sem skóli var hverju sinni. Til mið-Hörgárdals teljast börn vestan Hörgár frá Sörlatungu og niður í Lönguhlíð en þegar kom fram yfir 1930, jafnvel fyrr, var aðeins kennt á tveimur stöðum í hreppnum á hverjum tíma, í fram-Hörgárdal annarsvegar og í Auðbrekkutorfunni hinsvegar en börnin af þessu miðsvæði sóttu skóla ýmist frameftir eða úteftir. Þó var kennt í Hallfríðarstaðakoti á árunum eftir 1940 en ekki utar af því að börnin í Torfunni voru svo fá. Á fram-Þelamörk teljast börn frá Vöglum og fram að Bægisá en þar var fyrst kennt á Efri-Rauðalæk, Krossastöðum og Vöglum en lengst í Ási áður en farið var að kenna á Brúnastöðum. Á tímabili var kennt bæði á Þinghúsinu og Hlöðum eða Glæsibæ en börn í „út-Hlíðinni“ eru hér öll talin til Þinghússhverfis. Skólahverfið „Inn-Hlíðin og Glerárþorp“ tekur hér til allra barna í syðsta hluta hreppsins frá Pétursborg og Ásláksstöðum og suður að Glerá. Í þessu hverfi var þó lengi kennt á tveimur stöðum, í skólahúsinu í Sandgerðisbót og í Bitrugerði, og fyrir kom þegar á leið að kennt væri á fleiri stöðum vestan til í hverfinu. Mörg síðustu árin áður en Glerárþorp sameinaðist Akureyri 1954 gengu börn frá Hlíðarenda og bæjunum þar norðan við í skóla á Þinghúsinu, allt að 5 km leið og eftir að hætt var að kenna á Hlöðum þurftu börn af því svæði að ganga 5 til 7 km í skóla á Þinghúsinu.

Þessi venja, sem tíðkaðist í umræddum hreppum, að láta 8 til 14 ára skólabörn ganga langar vegalengdir í skóla er merkileg fyrir margra hluta sakir, ekki síst ef hún er borin saman við fyrirkomulagið sem Bragi Guðmundsson og Jón Torfason hafa lýst fyrir greinarhöfundi og var viðhaft í heimasveitum þeirra í Svínavatnshreppi og Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu á uppvaxtarárum þeirra. Þar gistu börn að jafnaði á bænum, þar sem farskólinn var hverju sinni, nema um mjög stuttan veg væri að fara. Þessa hlið á farskólahaldi þarf að rannsaka betur og skoða dæmi víðar að.

Tafla 1: Börn í farskóla á aldrinum 10 til 14 ára í Skriðuhreppi, Öxnadalshreppi og Glæsibæjarhreppi. Byggt á manntölum árin 1910, 1920, 1930 og 1940 og sóknarmannatali Glæsibæjarsóknar 1950.

 

Fram-Hörgárdalur
Mið-Hörgárdalur
Auðbrekkutorfan
Alls

Öxnadalur

Þelamörk
Þinghúsið
Glerárþorp
Alls

1910

13
7
7
27

20

12
19
32
63

1920

7
6
7
20

10

10
16
 26
52

1930

13
4
8
25

22

5
16
56
77

1940

8
5
2
15

12

10
23

33

1950

14
3
3
20

10

5
19

24

 

Eins og sjá má er barnafjöldinn sveiflukenndur sem endurspeglaðist í fjölda kennsluvikna á hverjum stað.

Til eru skýrslur frá Hagstofu Íslands um barnafræðslu á Íslandi á því tímabili sem þessi samantekt fjallar um. Þar má sjá fjölda nemenda, kennara og kennsluvikna á ákveðnum árum með reglulegu millibili, greint eftir sveitarfélögum. Greinarhöfundur hefur reynt að komast að því hversu margar kennsluvikur hvert barn fékk á hverjum tíma og hvenær byrjað var að kenna börnum yngri en 10 ára í farskólunum.

Tafla 2: Fjöldi barna og kennsluvikna í Glæsibæjarhreppi, Skriðuhreppi og Öxnadalshreppi árin 1914-1915, 1919-1920, 1934–1935 og 1947–1948 samkvæmt Barnafræðsluskýrslum.

 

Fjöldi barna

 

1914-1915

1919-1920

1934-1935

1947-1948

Glæsibæjarhreppur

55

51

51

103

Skriðuhreppur

22

12

16

19

Öxnadalshreppur

23

12

17

8

 

 

Fjöldi kennsluvikna

 

1914-1915

1919-1920

1934-1935

1947-1948

Glæsibæjarhreppur

49

31

36

54

Skriðuhreppur

24

24

24

16

Öxnadalshreppur

21

8

24

12

 

Fjöldi kennsluvikna í barnafræðsluskýrslunum segir þó ekki alla söguna því að stundum var nemendum skipt í yngri og eldri deild og í yngri deild lögð mest áhersla á lestur, skrift, réttritun og reikning auk kristinna fræða.

Í Öxnadal var skólinn t.d. deildaskiptur skólaárið 1912 til 1913 og það ár fengu nemendur frá 6 og upp í 12 vikna kennslu og fjöldi vikna virtist ekki fara eftir aldri. Líklega var þar frekar horft á hvernig hvert barn var á vegi statt í náminu sem hefur verið framúrstefnuleg hugsun. Meginreglan var þó lengi vel sú að hverju barni í þessum sveitum var kennt í 8 vikur.

Eftir 1930 lengist kennslutíminn en erfitt er þó að sjá af skýrslum og fundargerðum hve margar vikur hvert barn fékk. Algengt var að kennarar kenndu 12 vikur á hverjum stað en það táknar ekki endilega að hvert barn hafi verið 12 vikur í skóla á vetri. Eldri börnin voru gjarnan lengur í skóla en þau yngri, óháð því hvort skipt hafi verið í deildir. Byrjað var að leita eftir samkomulagi milli Öxnadalshrepps og Glæsibæjarhrepps strax 1932 um ráðningu kennara til að kenna á Þverá og í Ási en það varð þó ekki að reglu fyrr en skólaárið 1940–1941 en þá kenndi Ingimundur Þorsteinsson 12 vikur á hvorum stað. Kennsluvikur kennara voru þó oft færri á Þelamörk þar sem börnin voru fá um þessar mundir en að sama skapi fleiri í Öxnadal þar sem skólanum var stundum skipt í deildir. Líklegt er að börnum í Skriðuhreppi hafi að einhverju leyti verið skipt í deildir og viðmælendur segja frá því að þeir hafi verið fáa tíma í skóla í 10 ára bekk. Og þó svo að nú þyki ekki stórir bekkir með 15 til 17 nemendur þá verður að hafa í huga að það er ekki létt verk fyrir kennara að kenna öllum árgöngum saman í einni kennslustofu. Óvíst er hve gagnlegt það var t.d. fyrir elstu nemendurna að fylgjast með lestrarkennslu fyrir þá yngstu og öfugt, hvort það var gagnlegt fyrir 8 ára börn að sitja í tímum þar sem 13 og 14 ára börnum var kenndur reikningur eða þeim hlýtt yfir í landafræði. Þannig var þó kennt á Brúnastöðum á 6. áratugnum. Sem betur fer tíðkaðist ekki kennsla í fyrirlestrum heldur hafa kennarar gengið á milli nemenda í skólastofunni og hjálpað þeim við sjálfsnám en mikill tími fór í að hlýða börnum yfir heimanám.

Skoða þarf tölur úr barnafræðsluskýrslum um fjölda kennsluvikna með varúð og með hliðsjón af öðrum tiltækum opinberum gögnum. Sá hængur er þó á að talsverðar gloppur eru í skýrslur og fundargerðir fræðslunefnda og kennara. Engu að síður fer hér á eftir ágiskun um þá þjónustu sem greinarhöfundur heldur að börn hafi fengið á þessum árum.

Í Glæsibæjarhreppi var kennt á 5 stöðum skólaárið 1914–1915, 14 vikur í Sandgerðisbót, 9 vikur í Bitrugerði, 12 á Þinghúsinu (málvenja var að segja „á Þinghúsinu“), 8 vikur á Vöglum og 8 á Efri-Rauðalæk. Skólaárið 1920–1921 voru kenndar 12 vikur í skólahúsinu í Sandgerðisbót, 12 vikur í Bitrugerði, 12 á Þinghúsinu, 8 vikur í Ási og auk þess var boðin fjögurra vikna kennsla á Hlöðum gegn því að foreldrar tækju þátt í kostnaði. Líklega var kennt í yngri og eldri deild, þar sem 12 vikur voru kenndar, því að 1915 boðaði fræðslunefnd að börnum í Sandgerðisbót og Þinghúsi skyldi skipt í þrjár deildir „eftir aldri og þroska“, tvær deildir skyldu vera saman í skóla í einu og tryggja átti að hvert barn fengi 

 

Brúnastaðaskóli vorið 1954. Þessum börnum var öllum kennt saman í stofu. Fremst f.v.: Þorsteinn Baldursson (f. 1949, ekki í skólanum), Sverrir Brynjar Sverrisson f. 1945, Þóra Sverrisdóttir f. 1946, Fjóla Rósantsdóttir f. 1944, Signý B. Rósantsdóttir f. 1945, Jóhannes R.E. Jóhannesson f. 1945, Gunnar Frímannsson f. 1945. Aftar f.v.: Friðgerður Frímannsdóttir f. 1943, Hallgrímur Sigfússon kennari, Anna Soffía Sverrisdóttir f. 1943, Pétur Steingrímsson f. 1943, Reynir Rósantsson f. 1942, Óþekktur frá Ytri-Bægisá II, Pálmi Frímannsson f. 1944 og Rósa S. Rósantsdóttir f. 1941.

8 vikna kennslu.Árið 1934–1935 var kennt á þremur stöðum í Glæsibæjarhreppi, 36 vikur á tveimur stöðum í suður-hlíðinni, í Sandgerðisbót og á Ásláksstöðum, og þar starfaði Brynjólfur Sigtryggsson

„aukakennari“ við að kenna 30 átta og níu ára börnum.Á Þinghúsinu voru kenndar 12 vikur og 4 vikur í Ási en þar voru aðeins 5 börn á skólaaldri en eitt 8 ára barn hafði auk þeirra fengið tilsögn við skólann. Loks árið 1947–1948 var tveimur deildum kennt á Þinghúsinu, samtals 26 vikur, og 10 vikur var kennt á Vindheimum en þá var líka 6 mánaða kennsla komin á í nýju skólahúsi í Glerárþorpi eða í 24–26 vikur. Kennsla 8 og 9 ára barna hafði farið vaxandi, fjórir kennarar voru fastráðnir og þrír lausráðnir. Fjöldi kennara segir þó ekki alla söguna því að ekki kemur fram í skýrslum í hve stóru starfshlutfalli hver þeirra var.

Í Skriðuhreppi var kennt á fjórum stöðum 1914–1915, en ekki er ljóst hvaða staðir það voru. Ljóst er hinsvegar að ekki fengu öll börn 8 vikna kennslu þennan vetur. Kennt var á þremur stöðum 1920-1921, í fram-Hörgárdal, í þinghúsinu á Öxnhóli og í Auðbrekkutorfunni og þar hafa trúlega verið kenndar 8 vikur á hverjum stað. Skólaárið 1934–1935 var kennt í fram-Hörgárdal og í Auðbrekkutorfu (Fornhaga), væntanlega 12 vikur á hvorum stað en hugsanlega var að einhverju leyti skipt í deildir, yngri og eldri, og ekki ósennilegt að yngstu börnin hafi fengið færri kennslustundir. Sama fyrirkomulag gæti hafa verið 1947–48 nema þá hefur deildaskipting ekki verið viðhöfð sem skýrir færri kennsluvikur. Kennsla 8 og 9 ára barna virðist almennt ekki hafa staðið til boða fyrr en 1953 og um það leyti og síðar voru mörg dæmi um að nemendur væru aðeins 3 ár í skóla og lykju fullnaðarprófi 13 ára.

Í Öxnadal hafa 23 börn fengið kennslu í samtals 21 viku 1914–1915 og vafalaust var hópnum skipt í yngri og eldri deild. Skólaárið 1920–1921 hafa 12 börn fengið 8 vikna kennslu. Skólaárið 1934–1935 voru börnin 17, þá hefur þeim væntanlega verið skipt í deildir, jafnvel þrjár, og hver deild fengið 8–12 vikna kennslu. Vikufjöldinn gæti líka falist í því að kennarinn hafi kennt mánaðartíma í Bakkaseli eins og 1931. Börnunum hafði fækkað niður í 8 1947–1948 en þá voru kennsluvikurnar 12 samkvæmt barnafræðsluskýrslunum en þá var líka byrjað að kenna 8 og 9 ára börnum í Öxnadal. Árið eftir er þó vitað að kennarinn kenndi 14 vikur í Öxnadal en 10 vikur á Þelamörk en 1954 varð vikufjöldinn sá sami á báðum stöðum. Þetta síðasta skólaár sem taflan sýnir gætu Öxndælingar hafa gert vel við börnin sín og kennt þeim öllum 12 vikur.

Niðurstaðan er sú í grófum dráttum að almenna viðmiðið hafi verið að hvert barn fengi 12 vikna kennslu á vetri eftir 1930, 4–5 vikur fyrir áramót og 7–8 vikur eftir áramót en skólinn gat ekki byrjað fyrr en að loknum göngum og öðrum haustverkum, líklega snemma í október og skóla þurfti að vera lokið fyrir sauðburð sem hófst á þeim tíma um 10. maí. Lítið hefur verið kennt í desember og fyrstu vikur janúar. Þessi fjölgun kennsluviknanna hefur gerst smátt og smátt og líklega síðast í Skriðuhreppi þar sem það viðhorf hefur enst lengst að skólaganga barna væri frekar kvöð á hreppnum og heimilunum en hornsteinn að velgengni þeirra í lífinu. Því meiri menntunar sem barn aflaði sér, þeim mun ólíklegra var það til að setjast að í heimasveitinni og jafnvel taka við búi foreldranna.

Þrátt fyrir mjög skerta skólagöngu farskólabarnanna í þessum þremur hreppum miðað við skólagöngu kaupstaðarbarna höfðu sumir viðmælendur greinarhöfundar orð á því að þeim hafi fundist þeir standa bekkjarfélögum fyllilega á sporði þegar þeir komu í gagnfræðaskóla eða héraðsskóla og börn sem fóru í Héraðsskólann á Laugarvatni hlupu yfir fyrsta bekk ef þau stóðust þar til gert inntökupróf. Vissulega höfðu sveitabörnin ekki fengið neina kennslu í handavinnu og leikfimi en þau höfðu fengið verklega kennslu á heimilum sínum sem gaf skólakennslunni ekkert eftir. Og í bóklegu greinunum segjast þau ekki hafa gefið „langskólagengnu“ börnunum neitt eftir en þar verður að hafa í huga að kennsla í dönsku og ensku hafði almennt ekki hafist í barnaskólum í kaupstöðum á þessum tíma. Það skal líka ósagt látið hvort þessi munur á skólagöngu skipti einhverju máli fyrir lífshlaup og lífshamingju nemenda, það er efni í athugun sem aldrei verður gerð. Einhverjum kann að finnast þetta vera til umhugsunar fyrir skólayfirvöld samtímans en þeim skal þó bent á að íslenskt samfélag á fyrri hluta 20. aldar á lítið skylt við það samfélag sem við lifum í á 21. öldinni.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir því hvar var kennt, hverjum var kennt og hverjir kenndu í hverjum hreppi. Reynt hefur verið að skoða hve langan veg börnin þurftu að ganga í skóla. Skólahúsin í Öxnadal og Glæsibæjarhreppi eiga sínar sögur sem stiklað verður á. Það eiga kennararnir líka en lýsingar á þeim verða fáorðar, helst um þá sagt hvað og hvar þeir höfðu lært til verka og hver kennsluferill þeirra var. Þessu fólki er yfirleitt ekki lýst að öðru leyti hér þó svo að í einhverju tilvikum hafi tekist að grafa upp hlýlegar lýsingar á þeim í minningargreinum. Viðmælendum var yfirleitt hlýtt til kennaranna sem þeim fannst hafa verið góðir menn og konur. Konur voru reyndar fáar. Einstaka kennarar fengu lakari umsagnir, voru jafnvel sagðir hafa gert sig seka um kynferðislega áreitni við nemendur.

 

Öxnadalshreppur

Eftir setningu fræðslulaganna 1907 hófust sveitarstjórnir gömlu hreppanna í núverandi Hörgársveit handa við að koma á skipulegri barnafræðslu. Í nýja hreppnum í Öxnadal var greinilega hugur í fólki sem má eflaust setja í samhengi við almenna þjóðernisvakningu og stofnun ungmennafélaga víða um land. Ungmennafélag Öxndæla, sem fyrstu þrjú árin hét Íþróttafélag Öxndæla, var stofnað 4. júní 1900 og var eitt elsta ef ekki elsta ungmennafélag landsins (Kjartan Bergmann, 1956). Ungir menn úr dalnum hleyptu heimdraganum og öfluðu sér menntunar, sumir í Bændaskólanum á Hólum, aðrir í Möðruvallaskóla og Gagnfræðaskólanum á Akureyri og enn voru þeir til sem höfðu fengið kennaramenntun í kennaradeildinni í Flensborg á árunum 1892–1908 og Kennaraskóla Íslands sem var stofnaður með lögum 1907. Enginn vafi er á því að mikil áhrif á barnakennsluna í Öxnadal í upphafi höfðu bræðurnir á Þverá, Steingrímur (1885–1915), búfræðingur og helsti hvatamaður að stofnun ungmennafélagsins, og Bernharð (1889–1969) Stefánssynir en Bernharð var með bæði gagnfræðapróf frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og kennarapróf úr Flensborgarskóla 1908. Auk þeirra má nefna Brynjólf Sveinsson (1888–1980) sem var búfræðingur frá Hólum og átti eftir að leggja mikið af mörkum til fólksfjölgunar og sveitarstjórnarmála í Öxnadal. Hann var fræðslunefndarmaður lengi og prófdómari auk þess sem hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir hreppinn.

Bernharð Stefánsson

Bernharð var kennari í Öxnadal í 15 ár frá því að skóli var stofnaður þar og Steingrímur bróðir hans kenndi lítillega við skólann en dó ungur. Mikið lið gæti líka hafa verið að Þorsteini bónda á Bakka sem lengi hafði verið ráðsmaður hjá Stefáni skólameistara á Möðruvöllum en afkomendur hans urðu síðar öflugir ungmennafélagar í dalnum. Greinarhöfundi er t.d. minnisstæð innblásin hvatningarræða sem Kári Þorsteinsson hélt á samkomu ungmennafélaganna í núverandi Hörgársveit sem haldin var á Melum um 1960. Ungmennafélagsandinn sveif yfir Öxnadalnum og átti eftir að smita út frá sér og hafa áhrif á skólahald á Þelamörk eins og komið verður að hér á eftir.

Skömmu eftir að Öxnadalshreppur varð sjálfstætt sveitarfélag var kosin þar fræðslunefnd sem ákvað að hefja kennslu í litlu húsi „á Þverárhlaði“ en íbúðarhúsið á Þverá var þá reyndar talsvert ofar í túni en núverandi íbúðarhús. Um þetta litla hús segir í fundargerð hreppsfundar Öxnadalshrepps sem haldinn var 11. nóvember 1910:

„Meirihluti nefndar þeirrar er stóð fyrir prívat kaupum á skólahúsinu á Þverá svo og fræðslunefnd hreppsins, sem hefir séð um uppkomu skólans, afhenti hreppnum skólann sem eign með öllum hans réttindum, skuldum og skyldum.“

Á sama fundi bauðst ungmennafélagið til að taka þátt í kostnaði við lán frá landssjóði upp á 100 kr. og greiða af því vexti og afborganir gegn því að fá að nota húsið til samkomuhalds. Þetta var samþykkt með níu atkvæðum gegn þremur.

Ekkert kemur fram um hver fyrri eigandi skólahússins var en þar hljóta böndin að berast að Stefáni Bergssyni bónda og hreppstjóra á Þverá, föður þeirra Steingríms og Bernharðs. Fundargerð hreppsfundarins ber með sér að húsið hafi verið byggt einhverju áður og ekki í neinum tengslum við stofnun nýja hreppsins í Öxnadal sem gat nú nýtt þetta hús sem þinghús og selt hlut sinn í þinghúsi í Staðartungu sem Öxndælingar áttu þriðjungshlut í. Í vanþekkingu sinni getur pistilshöfundur sér þess til að Stefán bóndi á Þverá hafi reist þar timburstofu í líkingu við þá sem hann hafði áður byggt á síðustu árum sínum á Efri-Rauðalæk og enn stendur en hann flutti þaðan í Steinsstaði 1883 og síðan í Þverá.

Kennt var í elsta skólahúsinu til 1928 en þá var byggt nýtt þinghús eða félagsheimili neðan við þjóðveginn og kennslan flutt þangað. „Hreppurinn byggði húsið en ungmennafélagar lögðu fram vinnu og fengu þar aðstöðu fyrir starfsemi sína.“ (Byggðir Eyjafjarðar 1990, fyrra bindi, bls. 521).

Kennsla í skólahúsinu heima á Þverá hófst 1. nóvember 1910. Eftir fyrirmælum nýju fræðslulaganna var samin „Reglugerð um barnaskólann í Öxnadalsfræðsluhéraði“ en fullvíst má telja að Bernharð Stefánsson hafi átt drjúgan þátt í gerð hennar. Samkvæmt henni átti að kenna öllum 10 til 14 ára börnum en heimilt var að taka yngri og eldri börn til náms. Skólinn átti að byrja 1. nóvember og ljúka 30. apríl. Börnunum var skylt að vera í skólanum allan kennslutímann sem var tveir mánuðir, 30 fimmtíu mínútna kennslustundir á viku. Skólinn hefur því verið starfræktur með hléum á skólatímanum. Kennslugreinar skyldu vera lestur, skrift, réttritun, reikningur, kristnifræði, landafræði, saga, náttúrufræði og leikfimi en einnig átti að kenna börnunum að syngja ættjarðarlög. Reglugerðin sagði til um fjölda kennslustunda í hverri námsgrein en strax í upphafi urðu smávægileg frávik í tímafjölda. Sú krafa var gerð til foreldra að börnin kæmu læs í skólann við 10 ára aldur enda fékk lestur aðeins tvo tíma á viku en skrift og réttritun fengu 6 tíma samtals. Reikningur var yfirleitt kenndur 6 tíma í viku og kristnifræði, saga, landafræði og náttúrufræði fengu þrjá til fjóra tíma. Leikfimi fékk tvo til þrjá tíma en kennsla í teiknun sat á hakanum. Líklega hefur Bernharð ekki talið þá grein til sinna sterku hliða en hinsvegar lét hann börnin syngja tvær kennslustundir í viku.

Það var greinilega mikill hugur í Öxndælingum. Ári eftir að reglugerðin um barnaskólann var samþykkt var sett reglugerð um unglingaskóla á Þverá. Hann var settur 3. janúar 1912 og þar var 15 nemendum kennt í 12 vikur. Þeir voru á aldrinum 14 til 22 ára, þar af 2 af Þelamörk og einn frá Akureyri. Þessi unglingaskóli lagðist fljótt af og strax árið eftir hafði starfsemin dregist saman. Út á Þelamörk skrifaði Jóhanna G. Pálmadóttir í Garðshorni ungum frænda sínum fréttir í febrúar 1913, greinilega ætlaðar móður hans vestur á Fremri-Kotum:

Yngra skólahúsið á Þverá

 

„Við höfum heyrt að það eigi að verða einhver ungmennaskóli á Þverá svo sem hálfsmánaðartíma eftir páskana í vetur. Það kostar krónu fyrir þá sem eru allan tímann út en ekki nema 75 aura fyrir þá sem ætla ekki að vera með nema í sumu og þó maður komi og hlýði á einn eða tvo fyrirlestra, þeir þurfa ekki að borga neitt því það á að kenna í fyrirlestrum og eru kennararnir þessir: Bernharð í Hrauni, Brynjólfur á Steinsstöðum og Freysteinn á Bakka. Líka á að kenna söng og glímur.“ (Bréf til Boggu I).

Steingrímur Stefánsson hafði þá tekið við búi föður síns á Þverá sem hafði flutt sig yfir að Hrauni þar sem Bernharð bjó hjá foreldrum sínum. Steingrímur lést úr lungnabólgu árið 1915 og fáum árum eftir dauða hans fluttu þeir feðgar sig aftur yfir að Þverá og bjuggu þar saman. Brynjólfur bjó hjá foreldrum sínum á Steinsstöðum þegar þetta var en bjó síðan lengi í Efstalandskoti. Freysteinn á Bakka var Freysteinn Sigtryggur Sigurðsson (1886–1967) búfræðingur, bróðursonur Rósants á Hamri og Jóhannesar eldri á Vindheimum en Sigurður, faðir Sigurðar, hafði búið á nokkrum bæjum í Öxnadal tvo undanfarna áratugi.

Fræðslulögin frá 1907 kváðu á um að fræðslunefndir hreppanna ættu að ráða kennara og það gerði fræðslunefnd Öxnadalshrepps til að byrja með en síðar var lögunum breytt og fræðslunefndir fóru að gera tillögur til ríkisvaldsins um ráðningu kennara þannig að frá 1919 réði fræðslumálastjórn kennara að tillögu fræðslunefndar. Í fræðslulögunum voru lágmarkslaun kennara ákveðin en fræðslunefndirnar gátu gert betur við þá ef þeim sýndist svo en launakjör farskólakennara voru mun verri en laun kennara sem ráðnir voru að tilteknum skóla enda kennsluskylda minni (Almenningsfræðsla, bls. 126). Hrepparnir greiddu í upphafi laun kennaranna en fengu styrk úr landssjóði til að reka skólana. Fræðslunefndir héldu gjarnan fundi að vorlagi þar sem gengið var frá umsóknum um slíka styrki og með umsóknunum fylgdu skýrslur um kennsluna veturinn á undan. Með svonefndum launalögum frá árinu 1919 féll helmingur launakostnaðar kennara í sveitum á landssjóð en hreppunum bar að greiða dýrtíðaruppbót (Barnafræðsla 1916-20, bls. 17). Laun kennara þóttu lág og haustið 1928 ákvað fræðslunefnd Öxnadalshrepps að greiða Marinó L. Stefánssyni 50 krónur í viðbót við launin sem ákvörðuð voru af ríkinu með dýrtíðaruppbót en auk þess greiddi hreppurinn honum framlag fyrir fæði, húsnæði, ljós og hita. Uppihaldskostnað kennara höfðu sveitarfélögin raunar greitt frá upphafi enda þurftu þeir að gista, þar sem kennt var eða í nágrenni, og greiða fyrir gistinguna. Síðar sjást dæmi þess að fræðslunefndir hafi samið beint við bóndann sem hýsti kennarann.

Í fræðslunefndir hreppanna voru framan af kosnir þrír menn á almennum hreppsfundum og greinilega valdir þeir sem taldir voru bera skynbragð á kennslumál og vera áhugasamir um þau. Þar sem kennarar voru búsettir í hreppnum voru þeir gjarnan tilnefndir í fræðslunefndir. Síðar tilnefndi fræðslumálastjóri einn mann í skólanefnd en tveir voru kosnir af heimamönnum.

Fræðslunefndin gerði rekstraráætlun fyrir hvert skólaár og lagði fyrir hreppsnefnd. Í fundargerðum hreppsnefndar Öxnadalshrepps eru bókuð framlög til fræðslumála en þau yfirleitt ekki sundurliðuð frekar en í fundargerðum fræðslunefndarinnar sjálfrar. Þó er það gert árið sem Marinó fékk 50 krónurnar frá hreppnum í viðbót við kennaralaunin frá ríkinu, ekki á mánuði heldur fyrir allan veturinn. Auk þess fékk hann greiddar 192 krónur í uppihaldskostnað, húsnæðiskostnaður vegna skólans var 20 krónur, prófkostnaður 9 krónur, til kennsluáhalda var kostað 60 krónum og læknisskoðun skólabarna kostaði 12 krónur.

Frá upphafi var Bernharð Stefánsson ráðinn kennari við skólann á Þverá og kenndi allar greinar bæði í barnaskólanum og unglingaskólanum nema Steingrímur bróðir hans kenndi söng í unglingaskólanum þann eina vetur sem hann starfaði að marki. Bernharð kenndi til 1925 en var þá farinn að helga sig öðrum störfum, var bóndi á Þverá og síðar alþingismaður og bankaútibússtjóri. Steingrímur varð hinsvegar skammlífur eins og áður segir.

Skólinn á Þverá var vissulega miðsvæðis í Öxnadal en þó voru talsverðar vegalengdir fyrir þau börn sem lengst áttu að fara. Engar ferðasögur eru þekktar frá fyrstu árum og áratugum skólahaldsins en á 4. áratug aldarinnar muna nemendur eftir því að Baldur á Skjaldarstöðum hafi verið borinn yfir Öxnadalsána og þaðan gekk hann fram í Þverá og til baka, 6 km hvora leið. María Sigtryggsdóttir átti heima á Hraunshöfða fyrsta árið sem hún gekk í skóla og hún gisti á Þverá þær vikur sem skóli var þar. Börnin frá Hálsi þurftu að fara yfir óbrúaða ána á leið í skóla og voru borin yfir þegar áin var ekki væð börnum. Þau þurftu ekki að ganga „nema“ 4 km hvora leið.

Í skólaskýrslu Bernharðs segir hann á einum stað að „sökum eldiviðarskorts og annarra erfiðleika vegna dýrtíðarinnar féll hin lögákveðna barnakennsla niður veturinn 1917–1918. Hafði ég á hendi eftirlit með heimafræðslu í hreppnum þennan vetur. Starfaði ég alls að eftirlitinu 30 daga. ... Heimafræðslunni og eftirlitinu með henni sé ég ekki ástæðu til að lýsa hér, skal aðeins taka það fram að mér virtist hvort tveggja afar gagnslítið.“

Marinó L. Stefánsson

Þegar Bernharð lét af kennslu var Marinó Laxdal Stefánsson (1901–1993) frá Skógum á Þelamörk, búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum, ráðinn kennari á Þverá. Hann var kennari í Öxnadalshreppi og Skriðuhreppi 1924–1925 og við barnaskólann á Þverá 1927 til 1930 og aftur 1931–32 en þann vetur kenndi hann mánaðartíma í Bakkaseli. Hann lærði til kennara 1930-1931 og lauk kennaraprófi. Eftir kennsluna í Öxnadal kenndi hann eitt ár á Akranesi, síðan á Akureyri og loks í Reykjavík. Marinó var umhugað um að útbúa námsefni fyrir börn, endursagði þætti úr Íslendingasögum, þýddi og samdi barnabækur og forskriftarbækur.

Júlíus Stefánsson

Friðbjörn Júlíus Stefánsson (1904–1948) ólst upp í Þverbrekku en flutti síðar í Efstaland með foreldrum sínum. Hann var búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum en án kennsluréttinda. Hann kenndi fyrst á Þverá á meðan Marinó var í kennaranáminu og svo aftur 1932–1936.

Ingimundur Þorsteinsson

Þá tók Ingimundur Þorsteinsson (1912–1975) frá Bakka við sem kennari á Þverá og kenndi til 1942. Hann hafði gengið á Héraðsskólann á Laugavatni og síðan aflað sér kennsluréttinda í Kennaraskólanum 1934. Ingimundur kemur við sögu síðar þegar sagt er frá kennslu í Glæsibæjarhreppi. „Hann var boðinn og búinn að leysa öll þau verkefni sem honum voru falin og öll voru þau samviskusamlega og vel leyst af hendi. Hann var stjórnsamur og ákveðinn kennari, reglumaður mikill og snyrtimenni með afbrigðum“ (Gunnar Guðmundsson, 1976).

Fljótt upp úr 1930 hófust þreifingar um samstarf milli fræðslunefnda Öxnadalshrepps og Glæsibæjarhrepps um ráðningu kennara sem kenndu bæði á Þverá og í Ási. Engar áreiðanlegar heimildir hafa fundist um að slíkt samstarf hafi komist á fyrr en áratug síðar þegar Ingimundur Þorsteinsson var líklega fyrstur til að kenna á báðum stöðunum skólaárið 1940 til 1941.

Júlíus Stefánsson tók við því hlutverki haustið 1942 og hann kenndi á báðum stöðum til æviloka. Hann valdist til ýmissa trúnaðarstarfa í félagsmálum sveitarinnar, var virkur í ungmennafélaginu, sat í hreppsnefnd og fræðslunefnd og loks í sýslunefnd fyrir Öxnadalshrepp. Hann var heilsuveill hin síðari ár sín en kenndi þó nánast til síðasta dags í febrúar 1948.

 

Anna Elinórsdóttir

Eftir fráfall Júlíusar Stefánssonar 1948 var komið að því að ráða konur sem kennara. Anna Elinórsdóttir (1932–2004) frá Akureyri var ráðin, nýorðin 16 ára gömul, eftir að tveir umsækjendur, karlmenn, höfðu gengið úr skaftinu, annar með kennararéttindi. Þessi hugrakka stúlka kenndi 14 vikur á Þverá og 10 á Neðri-Vindheimum á Þelamörk og nemendur hennar þennan vetur bera henni afar vel söguna.

Frá haustinu 1946 hafði 8 ára börnum verið kennt á Þverá og alltént þennan vetur, sem Anna kenndi, og þá sem á eftir komu var 8 ára börnum á Þelamörk kennt í skóla. Anna hafði vorið áður lokið gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hún kenndi aðeins þennan eina vetur og veturinn eftir var hún í Húsmæðraskólanum á Akureyri. Skömmu síðar giftist hún austur í Mývatnssveit og bjó þar á Björk til æviloka.

Ragnheiður Guðmundsdóttir

Næsti kennari var ekki miklu eldri því að skólaárið 1949–1950 kenndi Ragnheiður Guðrún Guðmundsdóttir (1931–2014) frá Glæsibæ á Þverá og Brúnastöðum. Ragnheiður lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 en eftir eins vetrar kennslu í Öxnadal og á Þelamörk fór hún í Kennaraskólann og lauk þaðan prófi 1953. Föðurbróðir hennar var Jón Kristjánsson sem segir frá í kaflanum um Glæsibæjarhrepp og var í hópi þeirra, sem fyrstir stunduðu kennslu í þeirri sveit, og Guðmundur faðir hennar var skólanefndarformaður í Glæsibæjarhreppi. Ragnheiður flutti til Dalvíkur þar sem hún starfaði sem kennari til 1998.

Hallgrímur Sigfússon

Fyrir skólaárið 1950–1951 var auglýst eftir kennara á Þverá og á Þelamörk. Umsóknir bárust frá 6 einstaklingum og varð skólanefnd sammála um að mæla með Hallgrími Sigfússyni (1895–1982) sem verið hafði bóndi og kennari í Fnjóskadal, síðast á Illugastöðum. Hann var ekki með kennsluréttindi en með langa kennslureynslu þegar þarna var komið sögu. Hallgrímur var ráðinn og kenndi á Þverá og Brúnastöðum þangað til Þelamerkurskóli tók til starfa 1963. Vegna réttindaleysisins þurfti þó að auglýsa stöðu hans árlega en skólanefnd Öxnadalshrepps mælti alltaf með honum, líklega í samráði við skólanefnd Glæsibæjarhrepps. Fyrstu árin kenndi Hallgrímur 14 vikur á Þverá og 10 á Brúnastöðum eins og verið hafði árin á undan en þegar stórir barnahópar frá Skógum, Ási og Garðshorni fóru að komast á barnaskólaaldur í Brúnastaðaskóla var tímahlutfallið milli skólanna jafnað frá árinu 1954.

Prófdómarar við Þverárskóla voru nokkrir á þessu tímabili. Fyrstur var Kristinn Friðrik Benediktsson (1883-1960), síðar kaupmaður, kennari og póstafgreiðslumaður á Hólmavík og síðar gegndi fyrrnefndur Brynjólfur Sveinsson, bóndi og hreppstjóri í Efstalandskoti, því starfi og einnig Ármann Þorsteinsson bóndi á Þverá. Að hlutverki prófdómara verður komið síðar.

 

Glæsibæjarhreppur

Það er við hæfi að hefja kafla um barnakennslu í Glæsibæjarhreppi á frásögn af Tómasi Davíðssyni (1833-1910) sem stundaði heimakennslu þar og miklu víðar á seinni hluta 19. aldar og fram á þá tuttugustu. Hvar sem á þennan mann er minnst fær hann hina bestu dóma.

Séra Matthías Jochumsson skrifar minningargrein í Gjallarhorn 15. desember 1910 og segir: „Þau ár sem ég þjónaði hér í sóknum þekkti ég fáa heiðarlegri menn eða nytsamari en Tómas sáluga. Alúð hans og kunnátta við barnakennslu var eflaust dæmafá enda kvað hann sér ekkert verk vera kærara en að mennta og vekja unglinga – ef hann væri ekki að „mennta og vekja“ sjálfan sig. Hann hafði og fulla hálfa öld helgað allan vilja sinn, orku og kunnáttu kennslustarfi í þessu prestakalli, einkum í Hlíðarsókn þar sem hann lengst átti heima. Þar var hann og nærfellt 30 ár farandkennari og undirbjó alla eða flesta unglinga er mér bar að ferma. ... Því miður vann þetta valmenni fyrir hlægilega bágborin laun. Hinir bestu menn fá aldrei makleg laun!“

Tómas Davíðsson (1833–1910) fæddist á Hallfríðarstöðum í Hörgárdal. Í Kennaratali Ólafs Þ. Kristjánssonar er kennsluferill Tómasar rakinn frá tvítugsaldri hans og fram kemur að hann kenndi í „Eyjafjarðar-, Skagafjarðar-, og báðum Þingeyjarsýslum“ en lengst í Lögmannshlíðarsókn – í Alþingistíðindum 1907 er því haldið fram að hann hafi líka kennt í Húnavatnssýslu sem þá var ein og óskipt. Og í Kennaratalinu segir líka: „Stofnaði bindindisfélag í Lögmannshlíðarsókn og stjórnaði því. Lærði tungumál með sjálfsnámi, las þýsku og frönsku auk dönsku og ensku sem hann kenndi unglingum nokkuð.“

Loks vitnar Bernharð Haraldsson (Skriðuhreppur hinn forni, bls. 688) í Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar þar sem Friðrik J. Bergmann skrifar: „Var hann einn af elstu umferðarkennurum á Norðurlandi og var stundum nefndur tungumála-Tómas því hann var þá manna best að sér í tungumálum. Kenndi hann mörgum er síðar hafa vel að manni orðið og bera þeir allir til hans hlýjan hug því hann var ljúfmenni mikið og góður drengur og lagði ávallt alúð mikla við þá er nám stunduðu hjá honum.“

Það er ljóst að einhver barnakennsla fór fram í hreppnum áður en fræðslulögin voru sett 1907. Hér á eftir kemur fram að a.m.k. tveir kennarar, sem voru ráðnir til að kenna í Glæsibæjarhreppi eftir 1908, höfðu stundað kennslu áður, annar allt frá árinu 1895. Í grein í Degi 24. mars 1988 um barnafræðslu í Glerárþorpi er því haldið fram að farkennsla hafi tíðkast um árabil í Glæsibæjarhreppi þegar skólahald hófst í Sandgerðisbót í nýju húsi 1908. Þetta styður líka fundargerð almenns hreppsfundar í Glæsibæjarhreppi frá árinu 1905 þar sem segir að fundurinn samþykki „fyrir sitt leyti að gefa Tómasi Davíðssyni á Glerárholti eftir sveitarskuld hans að upphæð 247 krónur og 23 aura í viðurkenningarskyni fyrir hans nytsama kennslustarfa í þarfir sveitarfélagsins.“ Hreppsnefndin staðfesti þessa samþykkt á næsta fundi. Á hreppsnefndarfundi síðar þetta ár kemur fram að skuldina megi rekja til erfiðleika Tómasar við framfærslu konu hans og sonar „sem er fábjáni“, eins og það er orðað. Það þætti ekki kurteislegt orðalag nú. Árið 1907 urðu deilur um það á Alþingi við gerð fjárlaga hvort veita skyldi Tómasi 300 króna ellistyrk fyrir 54 ára kennslu en þar kom fram að hann hefði „alloft [haft] dálítinn styrk til þessa úr landssjóði.“ Fjárlaganefnd „sá ekki ástæðu til að veita þessum barnakennara styrk fremur en mörgum öðrum; almennt er þeim auðvitað illa launað og margir munu illa stæðir en engin sérstök ástæða til þess að taka þennan út úr hópnum og styrkja hann“ (Alþingistíðindi, bls. 570).

Þessi mörgu orð um Tómas kennara eru ekki hér til þess eins að minna á að kennarastarf getur verið þakklátt starf, ef vel er stundað, heldur líka til að sýna fram á að barnakennsla hófst ekki í sveitum með tilkomu barnafræðslulaganna 1907. Hinsvegar er höfundi þessa pistils ekki kunnugt um umfang og fyrirkomulag barnafræðslu í þessum sveitum fyrir þann tíma, sem hér er fjallað um, en rannsókn á því efni verður að bíða betri tíma og helst betri rannsakanda.

Glæsibæjarhreppur var vissulega mun víðfeðmara svæði en Öxnadalshreppur og erfiðara er að átta sig á helstu persónum og leikendum í skólahaldi þar en í Öxnadal. Tvö ungmennafélög störfuðu í hreppnum en aðeins Ungmennafélag Glæsibæjarhrepps kom nógu snemma til sögunnar til að hafa getað verið áhrifavaldur um upphaf skipulegrar barnakennslu í þessum sveitum. Félagið hafði reyndar sent hreppsnefndinni bréf 1907 og bent henni á að kaupa þyrfti ofn í þinghúsið á Sólborgarhóli og nefndin brást vel við og gerði betur því hún ákvað að kaupa bæði ofn og hrákabyttur. Hvergi er þess þó getið að það hafi verið til að gera húsið nothæft sem skólahús en þinghúsið var samt – eða fyrir vikið – notað sem skólahús allar götur frá því að formleg kennsla hófst í hreppnum og þangað til Þelamerkurskóli tók til starfa.

Ekki fer milli mála að hreppsnefndin hefur tekið snemma við sér og látið kjósa fræðslunefnd sem tók til starfa strax árið 1908. Fræðslunefnd Glæsibæjarhrepps ákvað í upphafi að kennt skyldi á fjórum stöðum í hreppnum, í Ási þangað sem börn frá Bægisá út að Vöglum skyldu sækja, á Hlöðum en þangað áttu að sækja börn frá Krossastöðum og vestan Moldhaugnaháls, í þriðja lagi á þinghúsinu á Sólborgarhóli fyrir börn úr út-Hlíðinni og loks í skólahúsinu í Sandgerðisbót en þangað áttu að sækja börn úr inn-Hlíðinni eins og það var orðað.

Og fræðslunefndin réði kennara. Gísli Rósenberg Bjarnason (1882–1936) frá Skógum – móðurbróðir fyrrnefnds Marinós L. Stefánssonar, sem kenndi síðar á Þverá,og Eiríks, sem kenndi í Skriðuhreppi – var ráðinn til að kenna í Ási. Gísli var fyrsti kennarinn sem ráðinn var til starfa í Skriðuhreppi eftir að fræðslulögin voru sett. Til að koma Gísla enn betur á kortið má geta þess að hann var hálfbróðir Frímanns B. Arngrímssonar raffræðings sem átti stórmerkan feril í Bandaríkjunum áður en hann kom til Akureyrar 1914 og fór að hvetja til rafvæðingar bæjarins. Halldór Friðjónsson (1882–1959) frá Sandi í Aðaldal, búfræðingur frá Ólafsdalsskóla og síðar ritstjóri, bæjarfulltrúi og verkalýðsfrömuður á Akureyri, var ráðinn til að kenna í Sandgerðisbót. Ólafur Tryggvason (1886–1949) bóndi í Dagverðartungu átti upphaflega að kenna á þinghúsinu á Sólborgarhóli en af einhverjum ástæðum breyttist það og Jón Kristjánsson (1881–1978), bóndasonur frá Glæsibæ, síðar bóndi í Bragholti í Arnarneshreppi, var ráðinn til starfans.

Jón Kristjánsson

Jón hafði lokið prófi frá Möðruvallaskóla 1901 og sótti kennaranámskeið 1909. Það er e.t.v. merkilegast við feril hans fyrir sögu barnafræðslu í Glæsibæjarhreppi að hann hafði verið heimiliskennari 1901–1902 og síðan kennari í Glæsibæjarhreppi 1902 til 1912 eftir því sem skráð er í Kennaratalið. Ekki hefur greinarhöfundi tekist að finna hvar hann kenndi á árunum 1902 til 1908, þ.e. áður en formlegt skólahald hófst í sveitinni. Jón var síðan kennari í Arnarneshreppi frá 1912 til 1919 með eins árs hléi og sat þar í fræðslunefnd. Jóni var margt til lista lagt því að hann var organisti í Möðruvallakirkju í 40 ár frá árinu 1904. Hann var föðurbróðir Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem segir frá í kaflanum um skólahald í Öxnadal.

En það kom babb í bátinn þegar farið var að ráða kennara til að kenna á Hlöðum. Þar varð engin kennsla því að Stefán bóndi á Hlöðum gerði það að skilyrði fyrir að hann léði húsnæði til skólahalds að Þorsteinn sonur hans yrði ráðinn þar sem kennari. Það gat fræðslunefndin ekki fallist á. Þess í stað var kennt í Glæsibæ og Jón Kristjánsson kenndi bæði þar og á Þinghúsinu, 10 vikur á hvorum stað.

Þessir kennslustaðir áttu eftir að breytast nema alla tíð var kennt á Þinghúsinu. Næsta vetur kenndi Jón Kristjánsson þar og á Krossastöðum. Jón kenndi aðeins tvö ár en Stefán Marzson (1872–1944) síðar bóndi í Spónsgerði, vegaverkstjóri og orgelleikari, eins og hann er titlaður í Íslendingabók, kenndi á Þinghúsinu 1912 til 1916. Hann hafði gengið á Möðruvallaskóla 1893 til 1895 og Kennaratalið segir hann hafa verið kennara í Arnarneshreppi 1895 til 1898, 1899 til 1903 og loks 1904 til 1912 (Kennaratal II, bls. 182) en hann kenndi lengur auk þess sem hann sat þar í fræðslunefnd (Jóhannes Hermannsson, bls. 215) og var um skeið prófdómari.

Einar G. Jónasson

Haustið 1909 stóð til að ráða Ingibjörgu Rannveigardóttur Jóhannesdóttur (1872–1950) til að kenna í Sandgerðisbót og á Efri-Rauðalæk. Ingibjörg vildi hinsvegar ekki kenna á Efri-Rauðalæk og var henni því hafnað en hún kenndi síðar í Glerárþorpi. Ingibjörg var greinilega hin merkasta kona og skörungur með kennarapróf úr Kennaraskólanum. Hún hefur verið framúrstefnukona í jafnréttismálum, nafnið bendir til þess, og hún skrifaði greinar í blöð og tímarit. En í stað Ingibjargar var Einar Gísli Jónasson (1885–1977) ráðinn til að kenna á þessum stöðum. Einar varð búfræðingur frá Hólum 1909 og gerðist strax kennari á Þelamörk og þar kenndi hann nær óslitið til 1940, stundum einnig á Þinghúsinu. Eftir það lét hann kennsluna víkja endanlega fyrir öðrum störfum. Hann var bóndi á Laugalandi frá 1925, hreppsnefndarmaður, fræðslunefndarmaður, oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður. Það er skemmtilegt að sjá að sem fræðslunefndarmaður tók Einar þátt í að ráða sjálfan sig sem kennara fyrstu árin en síðar hefur hann fengið varanlega ráðningu frá æðri stjórnvöldum.

Á fram-Þelamörk var á árunum 1909 til 1918 kennt í timburstofunni á Efri-Rauðalæk nema skólaárið 1911–1912 var kennt á Vöglum. Kennslustofan á Rauðalæk var í suðurenda timburhússins sem Stefán Bergsson byggði þar 1881 eða 1882 eða ári áður en hann flutti fram í Öxnadal. Í norðurenda hússins var eldhús og á efri hæðinni voru svefnherbergi.

Eiríkur Stefánsson (1904–1993) frá Skógum, áður nefndur, lýsir kennsluhúsnæðinu svo: „Á Rauðalæk var stofa í frambænum svo sem nokkuð var algengt á bæjum á þessum tíma. Í litlu stofunni á Rauðalæk var börnum kennt um skeið. Þar voru líka stundum haldnar skemmtisamkomur einu sinni eða tvisvar á vetri. Þá var Lestrarfélagið eina félagið sem stundum fékk Rauðalækjarstofuna léða til samkomuhalds“ (Eiríkur Stefánsson, bls. 3).

Frímann í Garðshorni sagði greinarhöfundi frá því að á árunum 1917 til 1928 hafi Haraldur Pálsson (1874–1938), bóndi og organisti á Efri-Rauðalæk, hóað saman fólki úr sveitinni og fengið það til að syngja með sér í skólastofunni. Frímann – eins og jafnaldri hans Eiríkur Stefánsson – var allan sinn skólaferil í stofunni á Rauðalæk nema Eiríkur gekk síðar menntaveginn og lærði til barnakennslu.

Barnakennslan á Þelamörk færðist aftur út í Ás 1918 og þar var kennt næstu áratugina. Hér kemur Ungmennafélagið Vorhvöt til sögunnar og hafði þannig óbein áhrif á skólahaldið á Þelamörk rétt eins og ungmennafélagshreyfingin hafði áður gert í Öxnadal. 

Framhúsið á Efri-Rauðalæk 2021. Skólastofan var innan við gluggann hægra megin við dyrnar. 

Áhrifin úr Öxnadalnum voru hinsvegar bein. 

Bræðurnir Árni (1885–1963) og Kristján Steinstrup (1891–1984) Jónssynir frá Laugalandi höfðu kynnst ungmennafélagsstarfinu í Öxnadal og fluttu það með sér á milli sveita. Árni var heimilisfastur í Hrauni í Öxnadal þegar ungmennafélagið var stofnað þar árið 1900. Á árunum 1913–1915 leigðu þeir bræður saman jörðina Auðnir í Öxnadal og voru þá í Ungmennafélagi Öxndæla. Þaðan fluttu þeir í Efri-Rauðalæk og beittu sér fyrir stofnun ungmennafélags á Þelamörk.

Ungmennafélagið Vorhvöt á Þelamörk var stofnað 1917 og byggði sér félagsheimili árið eftir sem viðbyggingu við íbúðarhúsið í Ási. Í Byggðum Eyjafjarðar II, 1973, bls. 200, segir að íbúðarhúsið í Ási hafi verið byggt í áföngum 1929–1930. Þar er væntanlega átt við steinhúsið sem lengst var búið í og sést baka til hægra megin á myndinni sem birtist með grein Eiríks í Súlum 1988. Ungmennafélagshúsið var rifið 1948 og í staðinn byggður vesturhluti íbúðarhússins í Ási sem enn stendur og sést vinstra megin á myndinni af íbúðarhúsinu í Ási frá um 1990.

Eiríkur rekur byggingarsögu félagsheimilisins og skólahússins í Ási í framannefndri grein í Súlum auk þess sem hann segir sögu ungmennafélagsins en hann lýsir ekki húsinu. Munnlegum heimildum ber ekki saman um stærð kennslustofunnar sem hefur þó líklega verið um 20 fermetrar. Ungmennafélagið Vorhvöt starfaði með talsverðum blóma á 3. áratug aldarinnar en lognaðist út af 1930, næstum jafnskyndilega og það var stofnað. 

Samkomuhús Umf. Vorhvatar í Ási. Mynd úr Súlum.

 

Þegar ungmennafélagið lagði upp laupana komst hús þess í eigu bóndans í Ási á hverjum tíma en stóð þó lengi enn og þar var „sparistofan“ í Ási.

Eftir 1945 var húsið ekki lengur falt til kennslunnar enda orðið hrörlegt. Þá var kennt á Efri-Vindheimum skólaárið 1946 til 1947 og tvo eða þrjá næstu vetur var kennt í kjallara nýja hússins á Neðri-Vindheimum.

Jóhannes Sigurðsson og Guðný Jónsdóttir, kona hans, höfðu búið á Neðri-Vindheimum frá 1934 á móti Jóhannesi syni sínum og Önnu Júlíusdóttur, konu hans. Jóhannes eldri og Guðný hættu búskap 1940 en byggðu steinhús niður við þjóðveginn ásamt Stefáni syni þeirra og Aðalheiði konu hans, systur Önnu á Neðri-Vindheimum. Húsið var nefnt og heitir enn Brúnastaðir. Árið 1944 brann bærinn á Neðri-Vindheimum og þá fluttu Jóhannes yngri og Anna niður í Brúnastaði með börn sín og tengdafólk. 

Skólahúsið á Brúnastöðum, myndin reyndar tekin allnokkru eftir að kennsla lagðist þar af.

 

Þá var byggt í fljótheitum lítið hús skammt neðan við Brúnastaðahúsið úr múrsteinum og timbri úr hermannaskálum sem Bretar höfðu skilið eftir á nokkrum stöðum á Þelamörkinni. Það er jafnvel hugsanlegt að þarna hafi staðið Bretaskúr sem byggt hafi verið norðan við. Þar voru tvö herbergi, annað líklega notað sem svefnherbergi en hitt sem stofa og eldhús eins og tíðkast nú á dögum. Þangað fluttu Jóhannes og Guðný til að rýma til fyrir Jóhannesi yngri og fjölskyldu hans í Brúnastaðahúsinu. Fljótlega eftir að nýtt íbúðarhús var byggt á Neðri-Vindheimum og tekið í notkun 1946 fluttu Jóhannes og Guðný upp eftir og litla húsið þeirra stóð tómt. Þetta hús keypti eða leigði skólanefndin fyrir skólahús og þar var kennt frá 1949 og þangað til Þelamerkurskóli tók til starfa 1963.

Stofan í sunnanverðu húsinu var notuð sem kennslustofa, kynt upp með kolaofni, en í hinu rýminu var leiksvæði í frímínútum. Þarna var öllum árgöngum kennt saman, tvær og tvær vikur í senn, og þegar greinarhöfundur var þar voru þar 13 til 14 börn á aldrinum 8 til 14 ára. Í kennslustofunni voru nokkur stök borð með hallandi borðplötum og áföstum trébekkjum með baki og sátu tveir nemendur við hvert borð. Sætin voru jafn óbólstruð og verstu kirkjubekkir en enginn kvartaði. Í leikrýminu var skápur sem gegndi hlutverki snyrtingar sem stundum var í lagi, aðallega þó þegar frost var lítið. Utan við húsvegginn opnaðist frárennsli frá klósettinu sem var óhagstætt þegar nemendur fóru í „Yfir“ í frímínútum og stóðu í tveimur hópum sitt hvoru megin við húsið og köstuðu bolta yfir húsið. Þá þurfti að gæta þess að missa ekki boltann ofan í forina og þaðan af óheppilegra var auðvitað að stíga ofaní.

Í lok 4. áratugarins urðu breytingar á kennaraliði farskólahverfisins. Einar G. Jónasson hætti kennslu en í stað hans var ráðinn Sigurður Jóhannesson (1913–2006) frá Neðri-Vindheimum sem var með stúdentspróf frá MA 1935 en engin kennsluréttindi. Sigurður stúdent, eins og hann var nefndur af því að það var svo sjaldgæft fyrirbæri í sveitinni, var tekinn fram yfir Eirík Stefánsson frá Skógum sem hafði þá ekki lokið kennaranámi. Sigurður kenndi í Ási og á Hlöðum og Þinghúsinu 1937–1942 en sumum nemendum hans þótti hann ekki tiltakanlega áhugasamur kennari. Við starfi hans á Þelamörk tók fyrrnefndur Júlíus Stefánsson sem varð aðalkennarinn í farskólunum í Ási og Þverá í Öxnadal frá 1942. Ingimundur Þorsteinsson frá Bakka, sem hafði kennt áður á Þverá, tók við kennslunni af Einari á Þinghúsinu og kenndi þar til 1957. Eftir það kenndi hann við Kársnesskóla í Reykjavík. Hann var farsæll kennari.

Í kaflanum um skólahald í Öxnadal er getið um Önnu Elinórsdóttur sem ásamt fleirum kenndu í farskólunum á Brúnastöðum og Þverá áður en Hallgrímur Sigfússon var ráðinn þangað en hann kenndi frá hausti 1950 og þangað til Þelamerkurskóli tók til starfa. Samstarf um kennara hefur hafist milli Öxnadals- og Glæsibæjarhrepps um 1940.

Á út-Mörkinni var ýmist kennt á Krossastöðum eða Vöglum til 1916 en eftir það munu þau fáu börn, sem voru á þeim slóðum, hafa sótt skóla „á Þinghúsinu“ eins og skrifað var – og sagt. Frá 1936 og talsvert fram á 5. áratuginn var kennt á Hlöðum en þegar lengra kom fram á 5. áratuginn sóttu skóla á Þinghúsinu börn ofan frá Kífsá og Ásláksstöðum, innan frá Mýrarlóni, utan af Djúpárbakka og Skipalóni og neðan frá Gæsum og Dagverðareyri. Börnin sem lengst þurftu að fara áttu drjúgan klukkutíma gang í skólann annan hvern dag, yngri deild í 10 vikur og eldri deild 14 vikur og þegar lengra leið 12 vikur fyrir hvora deild. 

Þinghúsið á Sólborgarhóli 1954, "Kuðungurinn".

 

Bílar komu ekki til sögunnar til að koma börnum í skóla fyrr en eftir 1951 en fram að þeim tíma og talsvert fram á 6. áratuginn áttu börnin í Kræklingahlíð og á út-Þelamörk líklega lengstu skólagönguna í þessum hreppum, sem hér um ræðir, ef undan er skilin skólaganga barna frá Staðarbakka í Hörgárdal. Börn þaðan þurftu að fara 5 km leið í skóla út í Myrká og 8 km í Þúfnavelli – fóru reyndar oft ríðandi – en börn frá Djúpárbakka, Skipalóni og Gæsum áttu ekki mikið styttri leið að fara á Þinghúsið. Þetta gengu þau yfirleitt, ekki endilega eftir neinum vegum því að oft var hægt að stytta sér leið yfir mýrar og móa. Börn frá Skipalóni gengu inn að Gæsum á morgnana í veg fyrir mjólkurbíl til að fá far með honum upp á Þinghús en gengu svo til baka um 6,5 km leið.

Árið 1951 samþykkti skólanefnd Glæsibæjarhrepps að gera tilraun með skólaakstur hluta vetrar að ósk foreldra. Skólabíllinn – trukkur í eigu Hjálpræðishersins – sótti þó alls ekki öll börnin.

Við þetta má svo bæta að Einar kennari í Staðartungu fór daglega 8 km leið þaðan út í Torfu til að kenna, ýmist gangandi eða ríðandi og síðast á bíl. Börn frá Sörlatungu gengu áleiðis á móti honum til að fá far með honum fram í Myrká. Og eins og áður hefur komið fram gekk Baldur á Skjaldarstöðum rúmlega 6 km leið í skólann á Þverá eftir að Jón fóstri hans hafði borið hann yfir ána þegar Baldur gat ekki vaðið hana sjálfur.

Gunnar Kristjánsson

Nú sárvorkennum við börnum sem eiga heima í Innbænum á Akureyri fyrir að þurfa að ganga alla leið út í Brekkuskóla, 700 til 1300 metra vegalengd, og megum ekki til þess hugsa að foreldrar þeirra þurfi að ganga með þeim áleiðis í skólann í vondum veðrum.

Síðustu árin áður en Þelamerkurskóli tók til starfa kenndi á Þinghúsinu Gunnar Kristjánsson (1912-1993) bóndi og oddviti á Dagverðareyri. „[Honum] fórst það vel úr hendi því að hann var bæði barngóður og laginn í umgengni við börn“ (Stefán Halldórsson, Dagur 1993). Jafnan er talað vel um fólk í minningargreinum en nemendur Gunnars staðfesta þessa einkunn sem hann fékk fyrir kennsluna. 

Á þessum árum var vaxandi þéttbýli í Glerárþorpi sem tilheyrði Glæsibæjarhreppi til 1954. Þar höfðu íbúar í þorpinu stofnað „Hlutafélag skólahússins í Glerárhverfi“ eða „Skólahúsfélag Glerárþorps“ og byggt að mestu af eigin rammleik skólahús í Sandgerðisbót sem tekið var í notkun 1. nóvember 1908. Ríkisvaldið lagði reyndar fram 400 krónur í púkkið sem var um 17% af byggingarkostnaði en foreldrar greiddu afganginn.

 

Skólinn í Sandgerðisbót 1921

Skólahúsið var steinsteypt eða hlaðið úr múrsteinum, nefnt Ós og er talið eitt fyrsta steinhúsið í Glerárþorpi. Í húsinu var ein kennslustofa og þar voru í kringum 18 nemendur til að byrja með. Fræðslunefnd Glæsibæjarhrepps tók þetta hús á leigu og þar komu nokkrir kennarar við sögu fyrstu árin.

Stefán V. Sigurjónsson

Stefán V. Sigurjónsson (1886–1973), þá búsettur í Sandgerðisbót en síðar bóndi á Grjótgarði og Blómsturvöllum, kenndi nokkra vetur í Sandgerðisbót og Bitrugerði. Stefán hafði farið á unglingaskóla sem Ingimar Eydal hélt á Grund 1906–1907 og síðan hafði hann lokið prófi upp úr 2. bekk Gagnfræðaskólans á Akureyri 1908. Hann kenndi í Sandgerðisbót 1913–1917 og suma þessa vetur hélt hann kvöldskóla fyrir unglinga en auk þess hafði hann verið heimiliskennari. Þessi forðum niðursetningur í Glæsibæjarhreppi frá fjögurra ára aldri náði þeim þroska að verða oddviti hreppsnefndar á árunum 1938 til 1955.

Jóhann Scheving Jóhannesson

Árið 1920 var Jóhann Scheving Jóhannesson (1888–1969) frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal ráðinn kennari en hann kenndi til 1948, fyrst í Sandgerðisbót og á öðrum stöðum þar sem kennt var í suðurhluta Kræklingahlíðar, svo sem í Bitrugerði, Glerá og Kollugerði og var jafnvel titlaður skólastjóri í Sandgerðisbót. Frá árinu 1937 kenndi hann í nýja skólahúsinu í Glerárþorpi. Jóhann var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og með kennarapróf úr Flensborgarskóla, brautskráðist þaðan 1908 um leið og Bernharð Stefánsson. 

Hannes J. Magnússon sagði um hann í minningargrein: „Ég gæti trúað að hann hafi verið skemmtilegur kennari, að minnsta kosti þegar hann gat hamið mælsku sína, áhuga og allan fróðleik sinn.“ Og í grein í Degi um barnafræðslu í Glerárþorpi segir um Jóhann: „Jóhann var vinsæll kennari og farsæll í sínu starfi og hann gerðist brautryðjandi í því að koma á fót íþróttakennslu og kennslu í handavinnu þegar hann réðst að skólanum“ (Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára, bls. 8).

Elsta skólahúsið í Sandgerðisbót hefur líklega ekki verið upp á marga fiska til að byrja með. Fræðslunefndinni þótti leiga fyrir það há og á árunum 1916–1919 var húsinu lokað og kennt í Jötunheimum og Hvoli í Sandgerðisbót en kennsla hófst aftur í skólahúsinu eftir endurbætur. Þá var búið að setja nýjan ofn og trégólf í húsið og hafði hreppurinn lagt nokkrar krónur í þá framkvæmd. Þröngt var um börnin á þessum stöðum og þess vegna var strax 1915, jafnvel fyrr, tekin upp kennsla í Bitrugerði fyrir börn í inn-Hlíðinni og þau sem bjuggu efst eða vestast í Glerárþorpi. Í Bitrugerði var kennt fram yfir miðjan þriðja áratuginn en þá var farið að kenna á Glerá og Kollugerði, jafnvel á báðum bæjunum sama veturinn með eiginlegu farskólafyrirkomulagi. Einn vetur að minnsta kosti var kennt á Ásláksstöðum. Í nokkur ár fengu foreldrar á efstu bæjum í Hlíðinni sunnanverðri fjárstyrki frá fræðslunefnd til að standa straum af heimakennslu barna sinna vegna þess hve langt var fyrir þau að ganga í skóla.

Um 1930 var farið að ræða í fræðslunefndinni um að byggja nýtt skólahús fyrir Glerárhverfi og skyldi það helst standa sunnan við Grímsstaði. Fé lá ekki á lausu frá ríkisvaldinu en hreppurinn var tilbúinn að taka lán fyrir kostnaðinum. Nýtt skólahús komst þó ekki í gagnið fyrr en í janúarbyrjun 1938 og var of lítið strax í upphafi en haustið áður var ráðinn skólastjóri. Tíu umsóknir höfðu borist um stöðuna og skólanefnd ákvað að ráða eldhugann Pétur Finnbogason (1910–1939) frá Hítardal á Mýrum. Pétur var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og með kennarapróf frá Kennaraskólanum 1936. 

Nýrra skólahúsið í Glerárþorpi, síðar leikskólinn Árholt.

 

Hann hafði kennt á Dalvík veturinn á undan. Á vordögum veiktist hann af berklum og fór á Kristneshæli en skólanefndin treysti því að hann mundi ná heilsu og réði Vilhjálm Harald Vilhjálmsson (1908–1970) sem skólastjóra til bráðabirgða og skólinn var sótthreinsaður. Skólanefndinni varð ekki að ósk sinni því að Pétur lést sumarið 1939. Haraldur hélt áfram sem skólastjóri þó að ýmsa aðra langaði í stöðuna, m.a. Sigurð stúdent frá Vindheimum, en Haraldur og Jóhann Scheving kenndu í Glerárþorpi næstu ár. Jóhann hafði reyndar ekki fengið háa einkunn sem kennari hjá Pétri skólastjóra en Haraldur hefur látið gott heita enda báru aðrir Jóhanni betra orð.

Frá árinu 1942 voru tvær skólanefndir í Glæsibæjarhreppi. Guðmundur Kristjánsson (1889–1966) frá Glæsibæ var formaður nefndarinnar sem sá um farskólakennsluna en Halldóra Bjarnadóttir (1873–1981) var formaður skólanefndar Glerárþorpsskólahverfis.

Skriðuhreppur

Í inngangi þessa pistils var nefnt að Eiður Guðmundsson segi frá því að á Þúfnavöllum hefðu verið heimiliskennarar 1893 og 1896 (Heimaslóð, 2020) og vafalítið hefur sú kennsla verið samfelld á Þúfnavöllum þangað til skipuleg barnafræðsla hófst þar í sveit eða a.m.k. þangað til börnin á Þúfnavöllum voru komin af skólaaldri. Í grein Eiðs eru nefndir til sögunnar tveir kennarar, Aðalbjörn Kristjánsson og María Jónsdóttir. Aðalbjörn (1871–1941) var þar heimiliskennari 1893 og hugsanlega aftur 1895 því að þá var hann skráður þar til heimilis sem lausamaður. Þá voru elstu börnin á bænum orðin „dável læs“, 7–10 ára gömul. Aðalbjörn hafði verið óreglulegur nemandi við Möðruvallaskóla einn vetur og það var öll hans kennaramenntun. Engu að síður átti hann langan kennaraferil, í Bægisárprestakalli 1896–1897, Hrafnagilshreppi 1898–1906, í Saurbæjar- og Öngulsstaðahreppi 1906–1907, Glæsibæjarhreppi 1904–1905 og 1908–1909. Hann kenndi í Saurbæjarhreppi 1910–1915 og síðast annaðist hann smábarnakennslu á Akureyri einhver ár eftir 1915. Ráða má af Kennaratalinu (I, bls. 3) að hann hafi notið styrkja úr landssjóði til að stunda kennsluna fyrir 1908.

María Jónsdóttir

María Jónsdóttir (1872–1950) hafði gengið á kvennaskólann á Ytri-Ey á Skagaströnd en títt var að stúlkur sem völdust til kennslu í Strandasýslu og Húnavatnssýslu um svipað leyti hefðu menntast á kvennaskóla (Bragi Guðmundsson, bls. 11). Kennsluferill hennar var ekki langur, hún var kennari og vinnukona á Þúfnavöllum 1896–1899, þó aldrei skráð þar til heimilis (Kennaratal I, bls. 480, Eiður Guðmundsson, bls. 151, Davíð Hjálmar Haraldsson) en giftist það ár Davíð Sigurðssyni og bjó á Ytri-Reistará 1899–1909 og síðan á Stóru-Hámundarstöðum til dauðadags. Hún eignaðist 6 börn og af þeim eru Ingólfur grasafræðingur og Erlingur ritstjóri Dags líklega þekktastir og allir kannast við sonarsoninn Davíð Hjálmar Haraldsson hagyrðing.

En hvernig svo sem heimiliskennslu hefur verið háttað í Hörgárdal fyrir daga skipulegrar almennrar barnafræðslu þá virðist sem áhugi á skólahaldi hafi verið mun minni í Skriðuhreppi en í hinum hreppunum lengi framan af og þar eimdi lengi eftir af því viðhorfi að rekstur farskóla væri frekar baggi á hreppnum en tæki til að stuðla að bjartri framtíð ungdómsins. Færri gögn hafa varðveist um skóla- eða fræðslunefnd hreppsins en fyrir hina hreppana og líklega hefur engin fræðslunefnd verið skipuð í Skriðuhreppi fyrir 1919 því að hreppsnefndin fjallaði um fræðslusjóð hreppsins á fundi 1911 „sem er 2/3 hlutar af Barnaskólasjóði Skriðuhrepps hins forna“. Hreppsnefndin ákvað að hafa þessa sjóði „í sínum vörslum fyrst um sinn og færa árlega reikninga þeirra hvors um sig. ... Sömuleiðis [ákvað hreppsnefndin] að semja skipulagsskrá fyrir Fræðslusjóðinn.“ Og það var ekki fyrr en árið 1920 sem fræðslunefnd hreppsins á sínu öðru starfsári samdi fræðslusamþykkt fyrir hreppinn.

Það er þó ljóst að skipuleg barnafræðsla hefur farið fram í Skriðuhreppi fyrir þennan tíma. Varðveist hefur prófbók fyrir fræðsluhéraðið þar sem færðar eru einkunnir nemenda á vorprófum hvert ár frá 1913 til 1922. Kennaratalið segir að Guðmundur Benediktsson (1885-1919) hafi verið kennari í Skriðuhreppi 1909 til 1916 og það staðfestir prófbókin hvað árin 1913 til 1916 varðar. Reyndar hefur bein kennsla kennarans aðeins náð til hluta nemenda 1910 til 1914 en hinum börnunum hefur verið sinnt með heimakennslu undir eftirliti Guðmundar. Guðmundur var frá Árbakka á Árskógsströnd, gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1907 og lauk kennaraprófi 1909. Eftir að hann hætti kennslu í Skriðuhreppi kenndi hann í Arnarneshreppi til dauðadags sem var ekki langt undan.

Barnafræðsluskýrslur um skólaárið 1914-1915 eru nokkuð nákvæmar. Þá hafa nemendur í Skriðuhreppi verið 22 og þeim kennt á 4 stöðum, 8 nemendur fengu 4 til 7 kennsluvikur og 14 nemendum var kennt 8 til 11 vikur. Guðmundur kenndi 24 vikur og má geta sér þess til að hann hafi kennt eldri nemendum (11-14 ára?) á tveimur stöðum, 8 vikur hvorum hópi, og svo hafi hann kennt yngsta árganginum á sömu stöðum, 4 vikur á hvorum stað.

Á árunum 1916 til 1919 var efnahagskreppa á Íslandi sem afleiðing heimsstyrjaldarinnar en sú kreppa bitnaði m.a. á skólastarfi í mörgum sveitarfélögum. „Skólahald féll þá sumstaðar niður vegna dýrtíðarerfiðleika“ (Barnafræðsla 1916-1920, bls. 9). Í kaflanum um Öxnadal kemur fram að farskólakennslan hafi fallið niður skólaárið 1917-1918 en Bernharð Stefánsson hafi sinnt eftirlitskennslu um mánaðartíma. Í Skriðuhreppi var eftirlitskennsla látin duga bæði fyrrnefnd kreppuár en próf haldin að vori. Fyrra árið er Ármann Hansson (1888-1986) bóndi á Myrká skráður kennari og prófar 24 nemendur. Búfræðinám hans hefur verið látið duga til eftirlitskennslunnar. Vorið eftir skrifar Gísli R. Bjarnason undir prófskýrsluna sem kennari í Skriðuhreppi þetta ár. Hann var í hópi fyrstu kennaranna sem fræðslunefndin í Glæsibæjarhreppi réði 1908 en kenndi aðeins þann eina vetur í Glæsibæjarhreppi. Nemendur Ármanns og Gísla voru 10 til 14 ára, reyndar var aðeins einn af 21 nemanda 10 ára seinna árið en þegar regluleg kennsla hófst aftur skólaárið 1918-1919 voru nemendur aðeins 13 og fjórir þeirra tóku ekki próf í öllum námsgreinum.

Gísli R. Bjarnason

Það er fyrst árið 1919 sem skjalfestar heimildir eru til um að fræðslunefnd hafi komið saman í Skriðuhreppi, þá skipuð Aðalsteini Sigurðssyni á Öxnhóli, Gísla R. Bjarnasyni á Hallfríðarstöðum, þeim sem áður kenndi í Ási á Þelamörk og í Skriðuhreppi, og Ólafi Tryggvasyni í Dagverðartungu. Ákveðið var að kenna á þremur bæjum en erfiðlega gekk að finna heppilega staði. Niðurstaðan varð samt að kennt var í Lönguhlíð, Fornhaga og Þríhyrningi auk Staðartungu, líklega í gamla þinghúsinu, en ekki tókst að finna heppilegan kennslustað framar í dalnum. Í fundargerðinni segir að kennt verði í 8 vikur á hverjum stað eins og lög gerðu ráð fyrir. Brynjólfur Sigtryggsson (1895–1962) var ráðinn kennari og hann kenndi á þessum stöðum næstu ár. 

Brynjólfur Sigtryggsson

Reyndar er óljóst hver kenndi í Skriðuhreppi skólaárin 1922-1923 og 1924-1925 en Brynjólfur liggur undir grun. Hann var síðar bóndi í Flöguseli 1924–1926 og síðar á nokkrum stöðum í Glerárþorpi, lengst í Ytra-Krossanesi, og í Glerárþorpi var hann öðru hverju íhlaupa- og aukakennari. Hann var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1914 og þó að Brynjólfur hafi ekki haft mikla formlega skólamenntun sjálfur bendir ferill barna hans sumra til að hann hafi verið metnaðarfullur skólamaður. Sumir segja reyndar að þann metnað fyrir hönd barnanna hafi ekki síður mátt rekja til Guðrúnar Rósinkarsdóttur, konu hans. Ari sonur þeirra var virtur eðlisfræðingur í Boston í Bandaríkjunum, Sigurður Óli var kennari og bæjarstjórnarmaður á Akureyri og Áslaug, dóttir Brynjólfs og Guðrúnar, var kennari og fræðslustjóri í Reykjavík.

Eins og áður segir var það fyrst árið 1920 sem ráðist var í að semja fræðslusamþykkt fyrir Skriðuhrepp og hún samþykkt á hreppsskilaþingi en sambærilegar reglugerðir voru samdar fyrir Öxnadalshrepp og Glæsibæjarhrepp áratug fyrr. Í samþykktinni segir m.a.: „Fræðsla barna fer fram, þar til öðruvísi verður ákveðið (skólahús reist), á þeim stöðum sem álitnir verða heppilegastir á hverjum tíma.“ Ennfremur er það bundið fastmælum að kennarar skuli ráðnir fyrir 300 króna árslaun auk ókeypis fæðis, húsnæðis, ljóss, hita og þjónustu þann tíma sem skólinn stendur.

Þetta ár var ákveðið að kenna í Brakanda, á Öxnhóli og Þúfnavöllum. Kjör kennarans voru rædd og uxu fæðispeningar hans sumum nefndarmönnum í augum.

Árið 1921 birtist svo merkileg klausa í fundargerð fræðslunefndarinnar: „Að afstöðnum hreppaskilum að Staðartungu þann 20. þ.m. (í október) var af formanni fræðslunefndar leitast fyrir um hverjir vildu og gætu lánað hús til barnakennslu og jafnframt selt fæði kennara í vetur. Út af þessari málaleitun formanns kom það í ljós að hreppsbúar vildu helst enga barnakennslu í vetur.“ Fræðslunefndin var ekki á sama máli, m.a. vegna þess að ekki væri hægt að segja kennaranum upp fyrirvaralaust en auk þess væri það „brot á gildandi fræðslulögum og fræðslusamþykkt hreppsins, þar að auki hreppsbúum til lítils sóma.“ Kennslustaðir voru svo ákveðnir á Þúfnavöllum, Öxnhóli og í Fornhaga en farið fram á að „barnaaðstandendur“ sjái kennurum fyrir fæði allt að þriðjungi kennslutímans.

Árið eftir ríkti gleði í fræðslunefndinni, bæði vegna þess að tekist hafði að lækka fæðiskostnað kennara en einnig vegna þess að prófdómarinn vorið áður hafði sagt í skýrslu sinni að kunnátta barnanna í þessu fræðsluhéraði væri best af þeim héruðum sem hann þekkti. Prófdómarinn var Stefán Marzson en hann hafði verið kennari í Glæsibæjarhreppi og hefur því þekkt vel til þar auk þess sem hann var einnig prófdómari í Arnarneshreppi þar sem hann bjó um tíma.

Varðandi kennsluna á Öxnhóli þarf að hafa í huga að þar hafði Aðalsteinn bóndi byggt þinghús 1920 sem var notað sem fundarstaður þangað til samkomuhúsið á Melum var byggt 1934 og á Öxnhóli var kennt allra fyrstu árin. Um 1936 var þinghúsinu breytt í fjós.

Fundargerðir fræðslunefndar eru stopular eftir 1923 eftir fjögurra ára þrotlaust starf en 1925 er skráð að 13 börn séu skólaskyld í hreppnum og skuli kenndar 7 vikur á tveimur stöðum. Auk þess skuli kennari hafa eftirlit með kennslu í heimahúsum og hefur það eftirlit átt að koma í stað vikunnar sem vantaði upp á til að uppfylla kröfu fræðslulaganna um 8 vikna kennslu handa hverju barni.

Eitthvað var um að nemendur, sem áttu langt að fara á kennslustaðina, fengju gistingu þar eða á næstu bæjum á meðan á kennslu stóð en hafa þurft að borga gestgjafanum fyrir fæði. Árið 1927 samþykkti fræðslunefnd að greiða uppihaldskostnað barna af tveimur bæjum vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra.

Eiríkur Stefánsson

Brynjólfur Sigtryggsson var ekki með kennsluréttindi og þess vegna þurfti að auglýsa kennarastöðuna á hverju ári. Og enn kemur Eiríkur Stefánsson (1904–1993) frá Skógum við sögu því að árið 1928 var hann tekinn fram yfir Brynjólf þegar umsóknir um kennarastarfið voru metnar. Eiríkur hafði verið tvo vetur á Alþýðuskólanum á Eiðum en hafði þó ekki lokið kennaranámi þegar þetta var. Hann kenndi í Skriðuhreppi til 1932 en gerðist þá bóndi í Skógum til 1938. Þá brá hann búi, kenndi smábörnum – 8 og 9 ára – á Akureyri einn vetur, fór svo í Kennaraskólann og lauk þaðan prófi 1940. Eftir það var hann kennari á Húsavík og Akureyri en lengst við Langholtsskóla í Reykjavík. Þar gekk hann enn um ganga veturinn 1985 til 1986, rúmlega áttræður að aldri.

Einhverju sinni á meðan Eiríkur kenndi í fram-dalnum bjó hann í Bási hjá Friðfinni Sigtryggssyni og Unu Zophoníasdóttur sem síðar bjuggu lengi í Baugaseli. Ingimar sonur þeirra telur að hann hafi þá kennt bæði á Myrká og Bústöðum og hann minnist þess líka að Eiríkur hafi kennt honum og fleiri ungum börnum þar heima í Bási. Það hefur eflaust verið utan kennsluskyldunnar. Eiríkur er einn þeirra kennara í þessum sveitum sem fær einstaklega gott umtal sem barngóður öðlingur.

Árið 1929 ákvað fræðslunefnd Skriðuhrepps að öll 12 ára börn og eldri skyldu fá 12 vikna kennslu en yngri nemendur fengu 8 vikur. Þetta skipulag hélst næstu ár. Einhver deildaskipting hefur verið viðhöfð því að 1931 voru kenndar 8 vikur í Auðbrekku, 6 vikur í Búðarnesi og 10 vikur á Þúfnavöllum. Ráða má af prófskýrslum frá þessum árum að 10 og 11 ára börn hafi ekki fengið kennslu nema í lestri, skrift og reikningi. Enginn fræðslunefndarfundur í Skriðuhreppi er svo bókaður fyrr en 1934 og þar kemur ekkert fram um ráðningu kennara. Engin gögn fyrirfinnast um störf fræðslu- eða skólanefndar Skriðuhrepps eftir þennan tíma og í gerðabók fyrir hreppsnefnd Skriðuhrepps var sjaldan komið inn á skólamál. Þó var þess getið árið 1937 að almennur sveitarfundur hafi samþykkt að byggja heimavistarskóla í samráði við Öxnadalshrepp og Glæsibæjarhrepp og var bent á Ytri-Bægisá og „samkomuhúsið við Hörgárbrú“ sem hentuga staði fyrir slíkan skóla. Bygging heimavistarskóla kemst aftur á dagskrá 1960 en þá var enginn einhugur í hreppsnefnd Skriðuhrepps um að taka þátt í skólabyggingu með hinum hreppunum. Þó varð það niðurstaðan.

Það sem hér fer á eftir um skólahald í Skriðuhreppi eftir 1940 byggir fyrst og fremst á viðtölum við fólk sem var sjálft í farskóla í Hörgárdal um og eftir 1940 og á upplýsingum í Kennaratali á Íslandi og minningargreinum auk upplýsinga úr barnafræðsluskýrslum. Samkvæmt þeim var á árunum 1920 til 1948 12 til 19 börnum kennt í Skriðuhreppi á hverju skólaári, kennsluvikur voru yfirleitt 24 en skólaárið 1924-1925 fengu 17 nemendur aðeins 12 vikna kennslu og 1947-1948 fengu 19 nemendur 16 vikur. Þær gætu hafa skipst jafnt milli tveggja kennslustaða. Á árunum 1950 til 1962 voru nemendur á bilinu 19 til 36 en kennarinn var alltaf einn. Ekki liggur fyrir hve margar kennsluvikur hver nemandi fékk á hverjum tíma því að nemendahópunum gæti hafa verið skipt í deildir.

Í fram-Hörgárdal var kennt í Myrkárdal, á Myrkárbakka, Myrká, Búðarnesi, Gerði, Þúfnavöllum og Staðartungu. Rýmt var til í stofu og þar komið fyrir tveimur langborðum og bekkjum sem hreppurinn átti og flutti milli kennslustaða. Kennt var tvær vikur í senn en hinar tvær vikurnar kenndi kennarinn niðri í Auðbrekkutorfu. Þó voru dæmi þess að öll kennslulotan var fyrir áramót eða alveg eftir áramót. Skólaganga barna í Skriðuhreppi var einskorðuð við börn á aldrinum 10 til 14 ára þangað til 1953 að 8 ára börn fengu almennt að ganga í skóla. Fyrsta árið sitt voru þau færri tíma á dag í skólanum en eldri börnin. Þó kom fyrir að elstu börnin sóttu skóla bæði í fram-Hörgárdal og í Auðbrekkutorfunni, sem sagt samfellt allan skólatímann, og fengu þá gistingu á skólastaðnum eða á næstu bæjum. Þetta hefur varla verið oft. Enn eitt tilbrigðið við lengd skólagöngu í þessum sveitum gilti síðasta áratuginn áður en Þelamerkurskólinn hóf störf. Þá gátu börn í Skriðuhreppi lokið barnaskólanum á þremur árum og tekið svokallað fullnaðarpróf 13 ára gömul. Í Glæsibæjarhreppi fengu börn að ljúka fullnaðarprófi 13 ára ef þau héldu áfram í héraðsskóla eða gagnfræðaskóla árið eftir en þetta var ekki krafa í Skriðuhreppi.

Höskuldur Magnússon

En snúum okkur nú aftur að kennurunum. Þegar Eiríkur Stefánsson hætti kennslu 1932 tók Höskuldur Magnússon (1906–1944) við af honum en hann var bóndi í Skriðu frá 1933 til dauðadags. Höskuldur var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1929. Hann kenndi í Skriðuhreppi frá 1932 til 1934 og var prófdómari til 1940.

Ingólfur Guðmundsson

Ingólfur Guðmundsson (1908–1983) ólst upp í Arnarnesi í Arnarneshreppi. Hann var með gagnfræðapróf frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og síðan kennarapróf frá Kennaraskólanum 1930. Hann var fyrst kennari í Haganeshreppi í Fljótum en kenndi síðan í Hörgárdal 1934 til 1944. Fyrstu árin var hann heimilisfastur í Auðbrekku og var formaður Verkamannafélags Arnarneshrepps 1936–1938 en 1939 giftist hann Herdísi Pálsdóttur í Fornhaga og þau byrjuðu þar búskap. Á þessum tíma var kennslan í út-Hörgárdalnum ýmist í Hallfríðarstaðakoti eða Fornhaga, hálfan veturinn á hvorum stað suma veturna, en auk þess kenndi Ingólfur á bæjunum í fram-Hörgárdalnum og gisti þar á meðan á kennslu stóð. Ingólfur flutti frá Fornhaga 1944 og var skólastjóri á Hólmavík 1945 til 1948 en flutti þá aftur í Fornhaga, þar sem hann bjó til dauðadags, og stundaði kennslu á Hjalteyri til 1954.

Fyrstu árin sem Ingólfur kenndi var kennt í Fornhaga. Ingimar Friðfinnssyni hafði þá verið komið fyrir í Stóra-Dunhaga á meðan kennslan stóð yfir en hann hóf ekki skólagöngu fyrr en hann var 11 ára og var aðeins þrjá vetur í skóla. Fyrsta veturinn fékk hann 8 vikna kennslu en seinni tvo veturna var hann 12 vikur hvorn vetur. Vera má að með þessari viðbót hafi verið ætlunin að bæta honum það upp að hann fékk ekki kennslu þegar hann var 10 ára. Aðrir viðmælendur muna aðeins eftir 8 vikna kennslu í Skriðuhreppi en hér má líka hafa í huga að á þessum tíma var Ingólfur ekki byrjaður að búa og hafði rýmri tíma til að kenna en síðar varð. 

Þess ber líka að minnast að í farskólunum var mörgum árgöngum kennt saman í litlum hópum þannig að kennslan var mikið einstaklingsmiðuð. Þess vegna hefur Ingimar getað setið í tímum með tveimur deildum og fengið leiðsögn við hæfi hvort sem hann var í eldri eða yngri deild.

Guðmundur Eiðsson (1917–2001) frá Þúfnavöllum kenndi í Skriðuhreppi í tvö ár, 1944 til 1946. Guðmundur var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1937. Hann var bóndi á Þúfnavöllum 1940–1973 og framan af þeim tíma í hlutastarfi við útibú Búnaðarbankans á Akureyri auk kennslunnar. Síðar var hann bankaútibússtjóri í Stykkishólmi og á Akureyri. Árin sem Guðmundur kenndi var skólahald aðeins í Hallfríðarstaðakoti í út-dalnum en börn í Auðbrekkutorfunni voru þá fá eða engin. Í Kennaratali Ólafs Þ. Kristjánssonar er Guðmundur ekki nefndur.

Einar Sigfússon

Árið 1946 hóf Einar Ingvar Sigfússon (1908–1966) að kenna í Skriðuhreppi og hafði þá tveimur árum áður hafið þar búskap með einni heimasætunni í Staðartungu, Helgu Friðbjarnardóttur. Einar var austan af Fljótsdalshéraði, hafði verið tvö ár á Alþýðuskólanum á Eiðum og stundað kennslu í Fljótsdalshreppi 1933–1944. Hann var bóndi í Staðartungu samhliða kennslunni og kenndi bæði í fram-Hörgárdal og í Auðbrekkutorfunni á árunum 1946 til 1963. Hann fór daglega á milli heimilis og kennslustaða, 9 km leið í Brakanda og 6 km í Myrká svo dæmi séu tekin, en sinnti gegningum á búi sínu á kvöldin. Hann hafði reyndar Erling son sinn til hjálpar þegar hann óx úr grasi og vetrarmann hafði Einar einn eða tvo vetur. 

Auk þessara starfa sat hann í hreppsnefnd og skólanefnd Skriðuhrepps og fræðsluráði Eyjafjarðarsýslu og mörg önnur félagsstörf hans mætti nefna (Ingvar Gíslason, 1966). Einar var virtur og vinsæll kennari, „öllum þótti vænt um Einar.“ Nemendum hans ber öllum saman um það, hann hafi gert sanngjarnar kröfur til þeirra og haldið þeim að námi.

Dæmi voru um að börn úr mið-Hörgárdalnum fengju far með Einari niður í Auðbrekkutorfu, fram og til baka, þá daga sem kennt var þar í Fornhaga, Brakanda, Skriðu eða öðrum bæjum þar en það hefur væntanlega verið eftir að Einar eignaðist bíl 1953. Börn frá Sörlatungu hafa þá þurft að ganga eina 4 km út að Melum í veg fyrir Einar og áttu þá eftir 6-7 km leið út í Torfu. Sum börn úr mið-Hörgárdal voru í skóla á Myrká og þeim bæjum, eins og fram kemur hér á eftir, en þess voru líka ýmis dæmi að börn þaðan fengju að gista í nágrenni kennslustaðarins á meðan á hverri námslotu stóð. Eins fengu börn frá Gerði far með Einari þegar hann kom úr Staðartungu til að kenna á Myrká, Myrkárbakka og Myrkárdal en Einar fór ýmist gangandi eða ríðandi á milli framan af, stundum með léttan hestasleða sem börnin fengu að sitja á með honum að heiman og heim.

Börnin sem lengst áttu að fara í skólann framar úr dalnum komu ýmist gangandi eða ríðandi og fengu að geyma hestana á skólastaðnum eða á næsta bæ. Þannig eru t.d. 5 km frá Staðarbakka út í Myrká og 8 km í Þúfnavelli. Stundum var hesti beitt fyrir sleða sem sæti voru fest á. Börnin sáu sjálf um að aka sleðanum og þau fengu ekki fylgd í og úr skóla nema eitthvað væri að veðri. Sama máli hefur eflaust gegnt um börn í hinum fræðsluhéruðunum á þessum tíma, þá gengu börn í skóla í bókstaflegri merkingu.

Elva frá Sörlatungu hefur athyglisverða sögu að segja af skólagöngu sinni. Hún fluttist þangað með foreldrum sínum 1952 og gekk í skóla á Myrká. Fyrsta veturinn var eftirlitskennsla að einhverju leyti látin koma í stað skólagöngu en þá setti Einar kennari krökkunum í Sörlatungu fyrir og kom þangað heim til að hlýða þeim yfir. Seinni veturna, tvo eða þrjá, gekk hún til móts við Einar, sem þá var kominn á bíl, og fékk far með honum fram í Myrká. Hún tók svo fullnaðarpróf 13 ára gömul og flutti þá með foreldrum sínum til Sauðárkróks þar sem hún tók landspróf eftir tvö ár. Þá fluttu þau til baka í Sörlatungu þar sem foreldrar hennar bjuggu til 1964. En áður en þau fluttu upphaflega í Sörlatungu höfðu þau átt heima á Hlöðum í Hörgárdal og þaðan gekk hún í skóla upp á Þinghús, um 8 km leið, 8 og 9 ára gömul.

Viðmælendur úr Skriðuhreppi minnast skóladaganna sem skemmtilegs tíma og það gera raunar aðrir viðmælendur greinarhöfundar líka úr öðrum sveitum. Enginn minntist á að sér hefði leiðst í kennslustundum og í frímínútum var farið í leiki. Þegar kennt var á Myrkárbakka/Bústöðum var dansað í frímínútum á steyptu haughúsþaki, ýmist með eða án tilsagnar Árdísar húsfreyju. Hljóðfæraleikur var enginn en í staðinn voru sungnir nýir og gamlir slagarar sem börnin lærðu m.a. í danslagaþætti útvarpsins frá 10 til 12 á laugardagskvöldum.

Í vetrarlok voru haldin próf á Melum. Prófdómari var m.a. Eiður Guðmundsson á Þúfnavöllum sem var einstöku sinnum forfallakennari fyrir Einar í Staðartungu og lagði áherslu á að kenna börnunum að reikna í huganum. Hákon Aðalsteinsson minnist þess þegar hann var prófaður fyrsta vorið sem hann var í skóla, þá 10 ára gamall. Hákoni þóttu kennarinn og prófdómarinn vera fróðleiksfúsir menn þegar þeir lögðu fyrir hann ýmsar spurningar sem hann reyndi að svara eftir bestu vitund. Þó kom að því að honum fannst þeir spyrja um eitthvað sem honum fannst hann ekki kunna nógu góð skil á og svaraði: „Ég held það væri betra að þið spyrðuð Huldu systur um þetta, hún veit það ábyggilega betur en ég.“

Námskrá og námsmat

Svo virðist sem kennslugreinar og kennslustundafjöldi hafi verið svipaður í hreppunum þremur:

Móðurmál (lestur, skrift, réttritun)

7-8 stundir

Reikningur

5-6 stundir

Kristin fræði

2-6 stundir

Landafræði

3-4 stundir

Saga

3-4 stundir

Náttúrufræði

3-4 stundir

Teiknun

0-2 stundir

Söngur

0-2 stundir

Leikfimi

0-2 stundir

Handavinna

0-1 stund

Stundafjöldinn gat verið breytilegur í námsgreinunum milli ára en alltaf voru kenndar þrjátíu 50 mínútna kennslustundir. Ef fyrstu árin eru undanskilin hefur lítið verið kennt í teiknun, söng, leikfimi og handavinnu í farskólunum en þegar skólahérað varð til í Glerárþorpi með ráðnum skólastjóra og lengdum skólatíma má búast við að þessar greinar hafi verið kenndar þar. Greinarhöfundur minnist tilburða kennara síns í Brúnastaðaskóla til að láta nemendur gera einfaldar leikfimiæfingar – staðæfingar – en aldrei var sungið í skólastofunni nema á móðurmálsdeginum sem var einu sinni á vetri. Þá söng kennarinn eitt eða tvö ættjarðarlög titrandi tenórröddu og nemendur tóku undir. Hinsvegar kom það fyrir að skólabörnin í Brúnastaðaskóla fóru upp í Neðri-Vindheima þar sem Jóhannes bóndi og forsöngvari í Bægisár- og Bakkakirkju kenndi þeim að syngja nokkur lög í tveimur röddum við orgelundirleik. Það gerðist ekki á hverjum vetri. En svo þykist greinarhöfundur sjá á fullnaðarprófsskírteini sínu frá vorinu 1959 að honum hafi verið gefin einkunn fyrir teikningu, í sérflokki léleg einkunn, tvímælalaust fullkomlega verðskulduð en það er önnur saga.

Eftir að Jónasarlaug (nú „Þelamerkurlaug“) á Laugalandi kom til sögunnar 1946 voru haldin þar sundnámskeið að vori. Sundkennsla var vissulega þáttur í barnafræðslunni en fær þó enga umfjöllun hér nema þess minnst að skólabörnum úr Öxnadal og Hörgárdal var ekið á sundnámskeiðið á vörubílspalli, reyndar undir þaki krossviðarhúss með setbekkjum. Bílbelti komu þar hvergi við sögu og hægt er að leiða að því hugann hvað gerst hefði ef bílnum hefði hlekkst á en á þessum tíma voru kröfur um öryggi og allan aðbúnað skólabarna allt aðrar á öllum sviðum en nú þættu ásættanlegar.

Snorri Sigfússon

Frá fyrstu árum farskólakennslunnar hafa varðveist skýrslur prófdómara sem þeir hafa sent fræðslunefndunum að loknum prófum sem voru skylda og varðaði sektum ef börn gengust ekki undir próf. Framan af virðist það hafa verið hlutverk prófdómara að leggja heildarmat á skólastarfið og árangur nemenda heilt yfir en síðar hafa prófdómarar fremur verið kennurum til halds og trausts en einnig settir til að gæta hlutlægni í mati á frammistöðu einstakra nemenda. Sem dæmi um mat á skólastarfi á upphafsárum þess fer hér á eftir skýrsla til fræðslunefndar um skólahald í Glæsibæjarhreppi frá Snorra Sigfússyni prófdómara, síðar skólastjóra og námsstjóra. Snorri talar þar um þrjá farskóla en með þeim vísar hann líklega til kennslunnar sem þann vetur var á Vöglum, Þinghúsinu og í Sandgerðisbót.

 

 

Farskólarnir í Glæsibæjarfræðsluhéraði við vorpróf 1912

 

Fræðsluástandið í fræðsluhéraði þessu er allgott eftir efnum og ástæðum öllum. Þó er ýmislegt athugavert og skal hið helsta tekið fram.

  1. Ætlunarverk kennara við annan farskólann er um of. Börnin voru svo mörg á öðrum fræðslustaðnum og á svo afarmisjöfnu þroskastigi að lítil von er til að einn maður geti leyst það starf þannig af hendi að öll börnin fái það sem þau þurfa, eftir þroska og aldri hvers um sig, - og þó er það nauðsynlegt. Samt mun núverandi kennari vera mjög duglegur en þrátt fyrir það ber brýn nauðsyn til að aðstoða hann, að minnsta kosti í móðurmáli og reikningi.
  2. Mörg börn voru mjög stirðlæs í hinum umgetna farskóla. Fræðslunefndinni ber að áminna heimilin um að kenna börnunum að lesa fyrir skólaskyldualdur, annars á hún ekki að taka lítt læs börn inn í skólana nema bæta við kennslukröftum að mun.
  3. Reikningsþroska barnanna var yfirleitt fremur ábótavant. Mun það vera að minnsta kosti í öðrum farskólanum af greindum ástæðum.
  4. Of mörg börn áttu ekki „Skólaljóðin“; voru þeim því miður ekki kunn helstu kvæði og höfundar. Venja þarf börnin á að tala og mæla fram erindi hátt og greinilega.
  5. Æskilegt væri að börnin geti sagt frá efni biblíusagnanna með eigin orðum, annars voru börnin fremur vel að sér í kristnum fræðum, sérstaklega í innri farskólanum.
    Skrift var yfirleitt fremur góð og ritgjörðin sæmileg. Söngur var góður í innri farskólanum en fremur lítill í hinum fremri. Í náttúrufræði, landafræði og sögu vissu börnin mikið og sum mjög mikið. Hefi ég ekkert við þær greinir að athuga.
  6. Húsakynni farskólanna í fræðsluhéraðinu eru yfirleitt fremur góð eftir aðstæðum. Loftrými, eftir barnafjölda, alstaðar viðunanlegt og sumstaðar nægilegt.
    Birta fremur lítil á Vöglum og óhentug á Þinghúsinu, annarstaðar góð.
    Upphitun með kolaofnum á öllum fræðslustöðunum og efast ég ekki um að hægt sé að hafa nægilegan hita í hvaða veðri sem er ef vel er um það hugsað – og þess er þörf því kuldinn er börnunum skaðlegur á skólabekkjunum.
    Hið eina verulega sem ég hefi að athuga við skólastofurnar eru skólaborðin. Að undanteknum skólaborðunum í skólastofu í Sandgerðisbót eru skólaborðin slæm. Borðin eru flöt og samsvara bekkjunum ekki, ýmist of há eða of lág eftir hæð bekkjanna. Það er skaðlegt. Best eru hallandi borð og bekkir með baki, áfastir við borðin.

Hinni heiðruðu hlutaðeigandi fræðslunefnd, sem í ýmsum greinum hefir reynst röggsöm mjög, er vel treystandi til að lagfæra það sem hér hefir verið bent á og í hennar valdi stendur og væri þá vel farið.

Dalvík 28. maí 1912

Virðingarfyllst

Snorri Sigfússon

 

Til fræðslunefndar Glæsibæjar-fræðsluhéraðs

 

Heimildaskrá

Alþingistíðindi 1907, B-hluti, umræður.
Barnafræðsla árin 1909-1914, 1914-1915, 1916-1920 og 1920-1966. Hagstofa Íslands.
Bernharð Haraldsson: Skriðuhreppur hinn forni. Bændur og búalið á 19. öld. Akureyri 2021.
Bernharð Stefánsson: Skýrslur um störf barnaskólans á Þverá í Öxnadal 1910-1919. Varðveittar á
Héraðsskjalasafninu á Akureyri. H-2019/39.
Bragi Guðmundsson: Um sveitakennara í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887–1905,
sótt 7. mars 2021 á https://netla.hi.is/serrit/2020/menntakvika_2020/01.pdf.
Bragi Guðmundsson: Tölvuskeyti 10. mars 2021.
Bragi Guðmundsson: Um barnafræðslu í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887-1905,
sótt 9. nóv. 2021 á https://netla.hi.is/greinar/2021/rynd/11.pdf.
Bréfin til Boggu I, á vefnum, https://www.gunnarf.is/is/aettmennin-2/brefin-til-boggu/brefin-fra-
1911-til-1920
.
Byggðir Eyjafjarðar 1973, seinna bindi.
Byggðir Eyjafjarðar 1990, fyrra og síðara bindi. Búnaðarsamband Eyjafjarðar 1993.
Davíð Hjálmar Haraldsson, tölvuskeyti 8. apríl 2021.
Edda Hermannsdóttir og Óli Ívarsson: Guðmundur Eiðsson. Minningargrein í Morgunblaðinu
30. 9. 2001.
Eiður Guðmundsson: Vinnufólk í Sörlatungu og á Þúfnavöllum. Heimaslóð, 17. hefti, 2020.
Eiríkur Stefánsson: Ungmennafélagið Vorhvöt á Þelamörk. Súlur 1988.
Erlingur Davíðsson (ritstj.): Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára. Dagur 24. mars 1988.
Fundargerðir hreppsnefnda Glæsibæjarhrepps, Öxnadalshrepps og Skriðuhrepps. Héraðsskjalasafnið
á Akureyri, https://www.herak.is/is/skjalavefur/sveitarfelog.
Gjörðabók fræðslunefndarinnar í Skriðuhreppi. 1919-1934. Héraðsskjalasafnið
á Akureyri. H-7/24
Gjörðabók fyrir fræðslunefnd Glæsibæjarhrepps. 1908-1951. Héraðsskjalasafnið
á Akureyri. H-9/17-21
Gjörðabók Skólahússins í Sandgerðisbót 1908-1934. H-9/20.
Gjörðabók Öxnadalsskólahverfis 1928-1963. H-8/24.
Guðmundur P. Steindórsson: Tölvuskeyti 4. janúar 2022.
Gunnar Finnbogason: Í Hítardal og Kristnesi – Ævisaga Péturs Finnbogasonar. Reykjavík 1988.
Gunnar Guðmundsson: Kári Þorsteinsson kennari. Minningargrein í Þjóðviljanum 2. desember 1975.
Hannes J. Magnússon: Jóhann Jóhannesson Scheving kennari. Minningargrein í Morgunblaðinu
19. apríl 1969.
Hjörleifur Hjartarson (ritstj.): Ragnheiður Guðrún Guðmundsdóttir. Minningargrein í Norðurslóð
11. desember 2014.
Ingólfur Á. Jóhannesson: Menntakerfi í mótun. Barna- og unglingafræðslan á Íslandi 1908-1958.
Háskóli Íslands 1983.
Ingvar Gíslason: Sigurður Óli Brynjólfsson. Minningargrein í Íslendingaþáttum Tímans, 22. febr. 1984.
Ingvar Gíslason: Einar Sigfússon í Staðartungu. Minningargrein í Tímanum 12. febrúar 1966.
Jóhannes Hermannsson: Skólahald í Arnarnesskólahverfi 1910-1989. Heimaslóð, 12. hefti, 2015.
Jón Torfason: Tölvupóstsamskipti í janúarbyrjun 2022.
Kjartan Bergmann: Hvenær var fyrsta ungmennafélagið stofnað? Tíminn 6. janúar 1956.
Loftur Guttormsson: Farskólahald í sextíu ár (1890–1950). Uppeldi og menntun, 1. árgangur 1992.
Loftur Guttormsson o.fl.: Almenningsfræðsla á Íslandi 1880-2007. Reykjavík 2008.
Manntöl á Íslandi 1910, 1920, 1930 og 1940.
Matthías Jochumsson: Tómas Davíðsson kennari. Minningargrein í Gjallarhorni, 15. desember 1910.
Ólafur Þ. Kristjánsson og Sigrún Harðardóttir: Kennaratal á Íslandi, 1. til 5. bindi.
Reykjavík 1985–1988.
Prófbók fyrir Glæsibæjarfræðsluhérað, 1909-1936. Héraðsskjalasafnið á Akureyri. H-9/16.
Prófbók fyrir Skriðuhreppsfræðsluhérað, 1913-1922. Héraðsskjalasafnið á Akureyri.
Ragnar Þorsteinsson: Lög um barnafræðslu í 100 ár. Grein í Morgunblaðinu 21. ágúst 2008.
Skýrslur um barnaskólann á Þverá 1910 – 1918. H-2014/72.
Sóknarmannatöl Bægisár- og Möðruvallaklausturssókna. Þjóðskjalasafn Íslands –
skjalaskrar.skjalasafn.is
Stefán Halldórsson: Gunnar Kristjánsson. Minningargrein í Degi 24. nóvember 1993.
Þórunn Óskarsdóttir: Skólaganga á árunum 1933-1943. Frásögn úr Fljótshlíð og Austur-Landeyjum.
Kennaraháskóli Íslands 2008.
Örn Snorrason: Benedikt Gröndal á Möðruvöllum. Dagur 17. desember 1959.

Símaviðtöl/viðtöl, flest í febrúar og mars 2021:

Ármann Þórir Björnsson frá Myrká, f. 1944
Ásgerður Svandís Skúladóttir frá Staðarbakka, f. 1937
Bernharð Haraldsson, sonur Þorbjargar Sigursteinsdóttur frá Neðri-Vindheimum sem var f. 1919
Bryndís Hulda Búadóttir frá Myrkárbakka, f. 1943
Elva Sigrún Hafdal frá Hlöðum og Sörlatungu, f. 1942
Erling Einarsson frá Staðartungu, f. 1938
Guðmundur Heiðmann Jósavinsson frá Auðnum, f. 1931, d. 2021
Guðmundur Ingólfsson frá Fornhaga, f. 1946
Hákon Aðalsteinsson frá Öxnhóli, f. 1929
Hreiðar Aðalsteinsson frá Öxnhóli, f. 1933, d. 2021
Ingimar Friðfinnsson frá Baugaseli f. 1926
Jóhannes E. Jóhannesson frá Neðri-Vindheimum, f. 1945
Lovísa Snorradóttir frá Skipalóni, f. 1945
María Sigtryggsdóttir frá Hraunshöfða og Lönguhlíð, f. 1931
Ólafur Þ. Ármannsson frá Þverá, f. 1938
Rósa Septína Rósantsdóttir frá Ási, f. 1941
Róslín Jóhannesdóttir frá Neðri-Vindheimum, f. 1934
Seselía María Gunnarsdóttir á Dagverðareyri, f. 1947
Signý Björk Rósantsdóttir frá Ási, f. 1945
Sigríður Manasesdóttir frá Barká, f. 1937, d. 2019
Sigurður Sigmarsson frá Hamri, f. 1929, d. 2018
Steindór Hermannsson frá Myrkárdal og Hallfríðarstaðakoti, f. 1942
Steinþór Þorsteinsson frá Efri-Vindheimum, f. 1925
Sverrir Haraldsson í Skriðu, f. 1941
Sverrir Sigurvinsson á Djúpárbakka, f. 1941

Þessi grein birtist í Heimaslóð 2022.