Petrína Sigrún Skarphéðinsdóttir
Petrína (1892-1933) var fyrsta barn Skarphéðins og Pálínu Árnadóttur, seinni konu hans, og hét eftir fyrri konu hans, Petrínu Ásgeirsdóttur. Hún fæddist í Hagakoti í Ögursókn þar sem foreldrar hennar voru í húsmennsku en árið eftir flutti fjölskyldan í Laugaból í Laugardal þar sem Petrína var hjá foreldrum sínum og Karítas hálfsystur sinni. Fjölskyldan flutti í Efstadal í Laugardal 1898. Friðgerður, hálfsystir Petrínu, var þá í fóstri inni í Botni í Mjóafirði en Anna tvíburasystir Friðgerðar var sótt inn á heimilið úr fóstri á Laugalandi í Skjaldfannardal þegar Sigmundur Viktor fæddist þetta vor. Sigurjón fæddist síðan 1901, Magnús Skarphéðinn 1903, dó ársgamall, og loks Bergþóra 1910. Um fermingu fór Petrína í vist á Garðstöðum í Ögursveit en á þeim bæ hafði Skarphéðinn sjálfur alist upp og þar var hún 4 ár. Síðan var hún vinnukona bæði á Skarði og Eyri í Skötufirði áður en hún fluttist til Hnífsdals með foreldrum sínum eða um svipað leyti og þeir.
Í Hnífsdal gerðist Petrína fanggæsla. Þar átti hún góða vinkonu, Guðmundu Guðmundsdóttur Sveinssonar kaupmanns. Einhverju sinni er þær stöllur voru úti að ganga, mættu þær nokkrum ungum mönnum og Guðmunda spyr vinkonu sína hvernig henni lítist á ungu mennina. „Bara vel,“ svaraði hún að bragði „en sá stóri, hvíti, hann þykir mér nú ófríðastur.“ Það liðu þó ekki margir mánuðir uns hún giftist þessum stóra, ljósa manni, Pétri Sigurði Péturssyni (1893-1921). Barnfóstran þeirra, sú sem gætti elstu dótturinnar, Sigríðar, lýsir Petrínu svo: „Hún sýndist ekki tápmikil eða dugnaðarleg við fyrstu sýn en hún leyndi á sér og vann húsmóðurstörf sín af mikilli prýði. Hún var fríð kona, greind og músíkölsk og spilaði á harmoniku þegar hún var yngri. Svo barngóð var hún að eftir var tekið og á orði haft, enda bæði blíðlynd og skapgóð.“
Árið 1921 fluttu þau hjónin með börnin sín Sigríði Aðalheiði (1915-1999), Hallgrím (1916-1941) og Magnús Björn (1920-1985) til Flateyrar ásamt 4 bræðrum Péturs. Þar bjuggu þau í fyrstu í Litlabýli. Pétur drukknaði svo nokkrum mánuðum síðar af báti sínum Helgu á Núpsbót í Dýrafirði, reyndar í blíðskaparveðri þannig að fráfall hans þótti undarlegt.
Magnús Guðni (1889-1964), bróðir Péturs, tók þá að sér fjárhagslega ábyrgð fjölskyldunnar og nokkrum árum síðar, árið 1925, kvæntist hann Petrínu. Þau voru þá flutt til Hnífsdals og bjuggu um skeið þar í Bakkabúð. Í Hnífsdal bættust tvö börn í fjölskylduna, Pétur Jóhann (1925-2015) og Eva (1926-2020). Árið 1927 fluttu þau að Kleifum í Seyðisfirði og þar eignuðust þau synina Pál (1928-1932), Skúla (1930-1930) og Óskar (1931). Skúli dó nokkurra daga gamall.
„Árin á Kleifum voru mestu hamingjuár ævi minnar“, sagði Magnús.
Vorið 1931 fluttu þau hjónin svo til Flateyrar og settust að á efri hæð í Gunnlaugshúsinu. Ári eftir flutninginn til Flateyrar misstu þau soninn Pál úr heilahimnubólgu en tvíburarnir María Guðný (1933) og Guðmundur Ingvar (1933-2012) bættust í hópinn ári síðar. Í maí sama ár veiktist Petrína af lungnabólgu og lést af völdum hennar skömmu síðar á 41. aldursári.
Erfitt reyndist að fá konu til að taka að sér ráðskonustarf hjá svo barnmargri fjölskyldu en fljótlega tók Sigríður, elsta systirin, við heimilinu og og gekk systkinum sínum í móður stað. Þegar litið er til þess hve öll heimilisstörf voru í þá daga margfalt erfiðari en nú getur enginn sem til þekkir annað en dáðst að því hvernig hún reyndist fjölskyldu sinni í þessum raunum. Sígríður hafði vissulega fengið dugnað og hlýju í arf frá móður sinni. Eldri bræðurnir tveir fóru til dvalar í sveit um skeið, Hallgrímur að Grafargili en Magnús að Holti. Nýfæddu tvíburarnir fóru í fóstur hvor á sitt heimilið.
Afkomendur Petrínu eru orðnir margir. Á Árborgarsvæðinu þekkja margir Óskar Magnússon skólastjóra á Eyrarbakka, son Petrínu, „mjög virtan borgara“ í sinni heimabyggð að sögn heimildarmanna en hann hefur tekið saman æviágrip hennar sem hér er að nokkru leyti notað orðrétt. Margir kannast við börn Magnúsar Péturssonar, sonar Petrínu, og Halldóru Kristínar Leopoldínu Bjarnadóttur (1918-1955) frá Drangsnesi en þau eru m.a. Sigríður Ella (1944) óperusöngkona, Bjarni Pétur (1948), frambjóðandi fyrir Alþýðuflokkinn á sínum tíma og um hríð sveitarstjóri Reykhólahrepps og loks Hallgrímur Þorsteinn (1949-2015) læknir sem þekktur var fyrir óhefðbundnar lækningar og sem „talsmaður heildrænnar nálgunar í læknisfræði“ eins og það er orðað í Íslendingabók. Einnig ættu allir að kannast við Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor Listaháskóla Íslands, dóttur Guðmundar Ingvars Magnússonar.