Fyrstu ábúendur
Ekki er með öllu ljóst hvenær búskapur hefst í Garðshorni á Þelamörk. Einhverra hluta vegna er bærinn ekki nefndur í Landnámu, Íslendingasögum, Sturlungu né öðrum viðlíka fornum heimildum. Í Sturlungu eru þó nefndir nágrannabæirnir Bægisá hin syðri og Bægisá hin ytri, Rauðalækur og Langahlíð hin efri (nú Langahlíð) og Langahlíð (nú Skriða). Síðastnefndi bærinn kemur mikið við sögu eins og Bakki í Öxnadal, þar sem Guðmundur dýri bjó til forna, en einnig eru þar nefndir fjarlægari bæir eins og Steinastaðir, Varmavatn (sel), Þverbrekka og Fagranes í Öxnadal, Myrká og Myrkárdalur, Yxnahóll og Hallfríðarstaðir, Fornihagi, Dynhagi, Auðbrekka og Laugaland í Hörgárdal. Þögnin um Garðshorn bendir til að þar hafi ekki frá fornu fari búið miklir höfðingjar, enginn verið brenndur inni né drepinn með tilþrifum en þó er trúlegt að bæði hafi verið búið í Garðshorni og Hamri frá því á söguöld. Ekki er vitað um svo mikið sem eina draugasögu sem hefði getað komið þessari jörð eða ábúendum hennar á spjöld sögunnar, hvað þá trúlegri sögur.
Fyrstu ábúendur í Garðshorni, sem vitað er um með vissu, voru Halldór Guðmundsson (1653- eftir 1712) frá Rútsstöðum í Öngulsstaðahreppi og Björg Gunnlaugsdóttir (1647- eftir 1703) frá Gullbrekku í Saurbæjarhreppi en þau bjuggu í Garðshorni á seinni hluta 17. aldar og til a.m.k. 1712. Þessi hjón eru ekki síst merkileg vegna afkomenda sinna en Jóhanna Andrésdóttir (1839-1890) frá Syðri-Bægisá var afkomandi þeirra en hún var móðir Helgu Sigríðar Gunnarsdóttur húsfreyju í Garðshorni 1899-1947. Helga og Pálmi Guðmundsson bóndi hennar voru foreldrar Jóhönnu Guðrúnar sem bjó í Garðshorni 1925-1927, Steindórs Guðmundar sem var titlaður bóndi þar 1927-1947 og Frímanns sem bjó í Garðshorni 1927-1973.
Fyrrnefndur Halldór Guðmundsson bjó í Garðshorni 1712 þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skrifuðu Jarðabókina um jarðir í Glæsibæjarhreppi en konu hans var þá að engu getið, hvernig sem á því stóð. Hugsanlega var Björg þá ekki lengur á lífi en líklegri skýring er þó að þá voru konur almennt ekki skrifaðar fyrir jörðum né nefndar á nafn í Jarðabókinni. Á þessum tíma var Hólastóll eigandi jarðarinnar og ekki er ósennilegt að hún hafi verið í þeirri eign frá siðaskiptum og að Jón Arason hafi komið eign biskupsstólsins eða sinni eigin á jörðina. Jón gerði sér mjög far um að eignast góðar jarðir. En svo gæti Garðshorn hafa orðið stóljörð enn fyrr.
Árið 1712 var jörðin metin á 20 hundruð og var jafnvirði Hamars, Neðri-Rauðalækjar (Litla-Rauðalækjar), Efri-Vindheima, Áss og Skóga en Efri-Rauðalækur (Stóri-Rauðilækur) var metinn á 30 hundruð, Neðri-Vindheimar á 40 hundruð en Bryti á 10. Landsskuldin eða leigan af Garðshorni var þá 1 hundrað og hafði verið svo frá fornu fari. Hún skyldi greiðast í landaurum eða m.ö.o. með ýmsum búsafurðum sem höfðu skilgreint verðmæti á hverjum tíma, t.d. smjöri eða vettlingum. Gæti ábúandi ekki greitt alla landaurana að vori heima í Garðshorni skyldi afgangurinn greiddur í fiskafurðum í kaupstað, væntanlega á Akureyri. Leigukúgildi voru 4 og átti að greiða í smjöri til Hólastóls eða til umboðsmanns hans á Akureyri. Kvikfénaður í Garðshorni var þá 2 kýr, 40 ær, 15 tvævetrir eða eldri sauðir, 20 veturgamlir sauðir, 2 hestar og eitt hross. Sagt er m.a. í Jarðabókinni að torfrista og stunga sé næg og móskurður hafi verið nokkur áður en nú sé kynt með sauðataði. Enginu spillir bæjarlækurinn - Garðshornslækurinn utan við bæinn, kallaður Ytrilækur á seinni hluta 20. aldar eftir að rafstöðvarlækurinn var leiddur heim að bænum að sunnanverðu – sumstaðar með áburði sands og grjóts, það verði því mjög votlent (votsókt) svo að heyskapur geti brugðist. Einnig éti vatn allvíða úr rótina. Úthagar eru sagðir sæmilega grösugir en mjög litlir um sig. Kvikfé er hætt fyrir holgryfjulækjum sem oft verður mein af. Hugsanlega voru þessir sömu holgryfjulækir enn til fram yfir 1960 því einn slíkur rann gegnum túnin „suður og niður“ af bænum, suður og niður undir merkjum að Bægisá og Hamri þar sem jarðvegur er djúpur. Læknum hefur nú verið veitt í landamerkja- og framræsluskurði og jafnað yfir lækjarfarveginn.
Óstaðfestar heimildir segja að Gottskálk nokkur Jónsson (f. 1693) og Ingibjörg kona hans Gunnarsdóttir (f. 1697) hafi búið í Garðshorni um tíma án þess að sú ábúð sé skilgreind nánar. Þau hljóta þó að hafa búið þar einhvern tíma á árunum eftir 1712 eða eftir að Halldór og Björg bjuggu þar og fyrir 1750 (líklega fyrir 1735) eða áður en Gunnar Jónsson og Sigríður Ólafsdóttir bjuggu í Garðshorni en þeirra er getið hér á eftir. Gottskálk var sonur Jón bónda Brynjólfssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur konu hans en þau bjuggu á Hamri þegar manntalið var tekið 1703. Ingibjörg var frá Efstalandskoti. Sigfús sonur Gottskálks og Ingibjargar fluttist út í Svarfaðardal og bjó þar á Skáldalæk 1756-70, í Ytraholti 1770-1784 og loks á Hálsi til æviloka. Um hann segir: „Varð uppvís um þrjú legorðsbrot, það fyrsta 1750, annað 1755 en það þriðja 1775 en það var hórdómsbrot sem kostaði kýrverð.“ Einna kunnastur afkomenda Gottskálks og Ingibjargar í Öxnadal er Sigfús Sigfússon sem bjó á Steinsstöðum 1911 til 1942. Fyrri kona hans var Soffía Guðrún Þórðardóttir systir Snorra bónda á Syðri-Bægisá.
Árið 1744 var í Garðshorni Guðmundur nokkur Jónsson en um hann er fátt vitað með vissu nema að Björn Scheving, sonur Lárusar sýslumanns sem þá sat á Möðruvöllum, kærði Einar Jónsson á Stóra-Rauðalæk (Efri-Rauðalæk), Jón Jónsson á Litla-Rauðalæk (Neðri-Rauðalæk) og Guðmund Jónsson í Garðshorni fyrir að vera valdir áverkum sem drógu hest Björns til dauða. „Þeir neita og fara fram á að fría sig með eiði frá öllum grunsemdum af þessa hests áverka og dauða. Þeir sverja allir eið fyrir réttinum með þremur uppréttum fingrum.“
Guðmundur Jónsson (1725-1810) getur ekki hafa verið ábúandi í Garðshorni, þegar þessi saga gerðist, heldur má geta sér þess til að hann hafi átt þar heimili hjá Jóni föður sínum og Gunnari bróður sínum, tveimur árum eldri, og að Jón faðir þeirra hafi búið í Garðshorni. Svo mikið er víst að um 1735 bjó maður að nafni Jón í Garðshorni samkvæmt „Bændatölum og skuldaskrám“ fyrir Eyjafjarðarsýslu en ekkert meira er um þann Jón vitað. Vel gæti þetta verið sá Jón sem lést í Garðshorni 1756, níræður að aldri, og var líklega faðir Guðmundar hestamanns og Gunnars meðhjálpara sem lengi bjó þar. Íslendingabók segir Guðmund hinsvegar hafa síðar verið bónda á Stóra-Rauðalæk en samkvæmt kirkjubókinni bjó hann á Litla-Rauðalæk eins og síðar kemur fram. Hvort tveggja getur verið rétt.