Minning um Bjarna Frímannsson f. 14.11.1952, d. 10.4.1970
Það greip okkur húmið á heiðbjörtum degi
er hann fór í rúmið af ákveðnum vegi.
Hann var okkur gæfa, sá góði drengur
sem guð okkar umsjá og örmum fól.
Hann engan grætti en eftir mætti
ávallt var hinum yngri skjól.
En lánið það örlögin léðu ei lengur.
Okkar húmdökki drengur og hugljúfi er farinn
en fjölskyldan döpur frá gröfinni gengur
og góðvina skarinn.
Við trúum hann lifi í ljósbjörtum geimi
og líf hans sé fegra en í okkar heimi
en við söknum hans samt.
Við erum svo einsýn og eigingjörn
sem óþroskuð óvitabörn
og að sakna hans er okkur svo tamt.
Við munum hann lengi muna
og minningin alltaf gleðja
en þó er það erfitt að þakka og kveðja.
Presturinn sem jarðsöng þekkti hann ekki en hóf mál sitt á hendingu úr gömlu erfiljóði svohljóðandi:
„Ég veit að þið eigið af þeim gnægð
frá ævidögum hugljúfs sonar
sem hafði unnið sér þá mestu þægð[1]
að vera það sem faðir og móðir vonar,
glaður og prúður góðra drengja jafni
genginn til hvíldar frá óflekkuðu nafni.“
Mér er þessi hending svo hugþekk og sönn að ég man varla annað en hún hafi sem eingöngu verið hugsuð um hann og í þrjú ár hefur það verið mín besta dægradvöl að tengja hana við minninguna um drenginn minn. Ég bið guð að blessa allar minningar um hann og ég veit að allir sem þekktu hann hugsa vel til hans.
Móðurkveðja með þökk fyrir allt,
Guðfinna Bjarnadóttir frá Garðshorni
[1] Hér skrifar mamma alstaðar frægð en það stendur ekki í stuðlum. Ég finn hvergi þetta erfiljóð sem hún vitnar í.