Ættforeldrar í Flöguseli og börn þeirra

Vorið 1899 flutti Guðmundur nokkur Sigfússon í Garðshorn á Þelamörk ásamt hyski sínu sem dvalið hafði á Grjótgarði í sömu sveit áratuginn á undan. Guðmundur var af svonefndri Flöguselsætt sem kennd er við eyðibýli framan við Ásgerðarstaðasel í Hörgárdal. Flögusel var fremsti bær í Hörgárdal þótt drjúgur spölur sé þaðan og inn í dalbotn. Bærinn stóð vestanvert eða réttara sagt norðanvert í dalnum, svo sem miðja vegu milli Hörgárinnar og fjallsróta undir Flöguselshnúk. Þar sem Hörgárdalurinn snýr í norðaustur-suðvestur er villandi að tala um að eitthvað sé austar eða vestar í dalnum þó að það sé málvenja að fram dalinn sé farið í suður og út dalinn í norður. Handan árinnar, á hálsinum milli Hörgárdals og Öxnadals en norðar (austar), teygir Hraundrangi sig upp fyrir fjallsbrúnina en mikil framhlaup eru í austurhlíð dalsins í stefnu á drangann. Þótt dalurinn sé þröngur þar fremra sér vítt yfir frá Flöguseli, nánast út á Eyjafjörð sé horft út dalinn, en skammt framan við Flögusel sveigir dalurinn til vesturs og jafnvel norðurs þannig að ekki sér inn í dalbotninn en þaðan er farið er upp á Hjalta­dalsheiði yfir í Skagafjörð. Þetta var nokkuð fjölfarin leið áður fyrr þeim sem erindi áttu út í Hjaltadal. Gásakaupmenn fóru þó frekar Heljardalsheiði upp úr Svarfaðardal og komu þá niður í Kolbeinsdal þaðan sem stutt var að fara í höfuðbólið á Hólum og á verslunarstaðinn á Kolkuósi. Hörgár­dalsheiðin hins vegar er fjall­vegur í beina stefnu fram af megin­dal Hörgárdals og liggur yfir í botn Norður­árdals í Skagafirði. Hörgárdalsheiði mun vera um 100 m hærri yfir sjávarmál en Öxnadalsheiðin og þess vegna liggur þjóðvegurinn ekki um Hörgárdalsheiði. Grösugt er við Flögusel en snjó­þungt á vetrum. Um stundar­fjórðungsgang framan við Flögusel er volg lind niðri á Hörgár­eyrum en engum sögum fer af því hvort eða hvernig dalbúarnir nýttu sér hana. Enn framar eru flögubergsklettar við árfarveginn, einstakt náttúrufyrirbæri og vel virði göngunnar til að skoða þá og einn fárra fossa í Hörgá og þann eina sem eitthvað kveður að.

Í Flögusel flutti árið 1809 Benedikt Sigfússon (1778-1847) Sigfússonar, sem fæddur var á Bryta á Þelamörk, ásamt konu sinni, Rósu Oddsdóttur (1777-1843) sem fæddist á Djúpárbakka í sömu sveit. Búskap sinn hófu þau í Dúnhagakoti í Möðruvallasókn árið 1800, bæði liðlega tvítug að aldri. Rósa átti þá fyrir soninn Sigfús Þórarinsson (1798-1803) tvævetra sem hún hafði lítið af að segja en hann var hjá föður sínum, Þórarni Sveinssyni, og Jóni föðurbróður sínum í Hátúni þangað til hann dó 1803.

Rósa og Benedikt fæddust bæði skömmu fyrir Móðuharðindin og Felliveturinn mikla 1783–1784 eftir Skaftárelda sem höfðu í för með sér að fíngerð aska dreifðist um lofthjúpinn og hindraði geisla sólar í að ná niður til jarðar. Öskufall frá gosinu var ekki mikið á Norðurlandi en öskumóðan í loftinu olli miklum kulda næstu 1 – 2 árin, ekki aðeins á Íslandi heldur víða um Evrópu. Við harðindin bættist svo landfarsótt sem fólkið þoldi verr en ella. Fyrir vikið fækkaði landsmönnum um 10 þúsund og á næstu árum voru Íslendingar innan við 40 þúsund. Harðindin komu auðvitað verst við fátækasta fólkið og þar með við fjölskyldur Rósu og Benedikts eins og nefnt verður hér á eftir. Þau nutu þess þó að fólki hafði fækkað mjög á harðindaárunum og þess vegna var auðveldara en áður – og síðar – fyrir fátæklinga að fá til ábúðar örreytiskot í afdölum og raunar víðar.

Benedikt og Rósa voru gefin saman á Möðruvöllum 29. nóvember 1800 en þá áttu þau tæplega ársgamla dóttur. Þau fluttu fram í Ásgerðarstaði árið 1802 og í Flögusel 1809 og þar bjuggu þau til æviloka eða í meira en 30 ár. Þau voru alla tíð bláfátæk af öðru en börnum sem urðu 18 þótt aldrei væru þau nándar nærri svo mörg í heimili. Elst var Guðrún (1800-1877), síðan fæddust Hólmfríður (1802-1871), Jón (1803-1866), Lilja (1804-1879), Sigfús (1805-1863), Oddur (1806-1807), Anna (1807-1808), Oddur (1809-1891), Anna (1801-1821), Friðfinnur (1811-1869), Björn (1812-1812), Björn (1813-1814), Rósa (1814-1904), Sigríður (1815-1900), Björn (1817-1866), Guðfinna (1818-1821), Jón (1820-1821) og Jón (1823-1823). Sagnaþulurinn Eiður á Þúfnavöllum segir að börnin hafi orðið 19 en höfundur þessa rits hefur ekki fundið það nítjánda þrátt fyrir vandlega leit á árinu 1808, þegar ekkert barn fæddist, og eftir 1818 og fram yfir þann tíma þegar Jón yngsti fæddist, Rósa þá orðin rúmlega fertug og hafði eignast 19 börn á 25 árum. Sumir hafa talið að barn, sem fæddist andvana í Flöguseli 21. mars 1829, hafi verið barn Rósu og Benedikts en þá hefur Rósa verið komin vel yfir fimmtugt. Það barn átti hins vegar Guðrún, dóttir Rósu og Benedikts. Hitt er þó víst að Rósa eignaðist ekki færri en 19 börn og vera má að þaðan sé sögusögnin komin en Benedikt eignaðist aldrei „nema“ 18 börn með Rósu sinni.

Einungis 11 barna Rósu og Benedikts í Flöguseli komust vel á legg, Guðrún, Hólmfríður, Jón, Lilja, Sigfús, Oddur, Anna, Friðfinnur, Rósa, Sigríður og Björn. Öll nema tvö ólust alveg upp hjá foreldrum sínum. Lilja fór á öðru ári í fóstur til móðursystur sinnar á Svíra í Auðbrekkutorfunni og var hjá henni til fullorðinsaldurs, þótti ekki mikil mannvitsbrekka og fékk meðlag frá Skriðuhrepp frá unga aldri. Björn var í fóstri í Ásgerðarstaðaseli skammt frá Flöguseli, fékk þar góðar einkunnir hjá séra Gamalíel á Myrká sem skrifaði annars skæting um Flöguselsfólkið í kirkjubækurnar. En það er til marks um þrautseigju þeirra Flöguselshjóna að framan af leið yfirleitt varla ár á milli fæðinga og nöfn voru yfirleitt endurnýjuð á næsta barni sem fæddist eftir að barn með sama nafni og af sama kyni hafði dáið.

Í Búskaparsögu Eiðs Guð­munds­sonar á Þúfnavöllum er mikilfengleg lýsing á Flöguselshjónunum og afkomendum þeirra. Segir Eiður að Benedikt hafi búið í Flögseli til 1844 „og alltaf við örbirgð og óvirðingu sveitunga sinna. Aldrei féll þó á hann þjófnaðargrunur eins og oft vildi brenna við um örbirga afdalamenn.“ Og enn segir Eiður: „Öll þóttu Benediktsbörnin frá Flöguseli vera greindarlítil og fáfróð nema þá helst Björn og Sigfús sem báðir töldust þokkalega vitibornir. Friðfinnur og Stutta-Sigga [Sigríður] jöðruðu við að vera hálfvitar en öll fengu þau lof fyrir trúmennsku og ráðvendni og komu sér hvarvetna vel. Smávaxin voru þau öll, andlitsgrett og fremur ófríð“ (Eiður Guðmundsson: Búskaparsaga í Skriðuhreppi hinum forna, 2. bindi, bls. 131-139).

Eiði verður tíðrætt um harðýðgi þeirra hjóna og hrottaskap gagnvart börnum sínum og á Rósa ekki að hafa verið neinn eftirbátur Bensa í þeim efnum. Eiður getur sér til um skýringar á framferði Benedikts í bókinni „Mannfellirinn mikli“ þar sem hann segir frá afleiðingum móðuharðindanna í Hörgárdal og Öxnadal. „Árið 1784 voru hjá þeim [Sigfúsi og Hólmfríði, foreldrum Benedikts] sjö börn þeirra ung, auk þess voru þar þrjár konur, ein þeirra var ung stúlka en hinar rosknar. Konur þessar féllu allar og sex börnin svo að aðeins eitt þeirra [Benedikt] hélt lífi. ... Hvergi varð hér annað eins afhroð á fólki sem á Bryta og vera má að grimmd sú og harðýðgi sem Benedikt í Flöguseli var illræmdur fyrir, hafi að einhverju leyti átt rót að rekja til hryllilegrar bernskureynslu hans“ (Eiður Guðmundsson: Mannfellirinn mikli, bls. 78). Trúi þessu hver sem vill.

Og ekki hefur uppvöxtur Rósu verið mikið bermilegri því að Eiður segir í sömu bók: „Áður en Oddur fluttist að Svíra, bjó hann að Djúpár­bakka og missti þar úr hor og harðrétti fimm börn sín 1784 en tvær stúlkur lifðu [Rósa og Svanhildur].“

Sumir afkomendur Benedikts og Rósu hafa tekið lýsingar Eiðs á heimilinu í Flöguseli óstinnt upp og viljað meina að þær séu ekki trúverðug heimild, byggðar gagnrýnis­lítið á kirkju­bókarfærslum séra Gamalíels Þorleifs­sonar, sem var prestur á Myrká á fyrri hluta 19. aldar, og drykkjurausi framangreindrar Stuttu-Siggu, þroskaheftrar dóttur Benedikts og Rósu, sem á að hafa unnið það til víns að skálda ofsögur af föður sínum og meðferð hans á börnunum (Sjá greinar Sigríðar L. Árnadóttur í Súlum, 1. hefti 1973, og í Degi 1. ágúst 1973 og svör Eiðs í Degi. Sjá einnig skrif Jónasar Rafnar í tímaritið Grímu). Gamalíel prestur fór ekki dult með fyrirlitningu sína á Flögusels­hjónunum, kallaði Benedikt ýmist „bóndanefnu“ eða „bóndatetur“ í kirkjubókinni og Rósa var nefnd „konunefna“ eða „konumyndin“. En þegar Páll Jónsson varð aðstoðarprestur Gamalíels og fór að færa kirkjubókina, brá svo við að Flöguselsfólkið fékk allt í einu annan vitnisburð og skárri en þó fór ekki milli mála að Benedikt og Rósa voru aumlega læs og þekking á guðdómnum í molum. Sama var að segja um annað heimilisfólk þangað til Jóhanna, kona Odds Benediktssonar, kom inn á heimilið vestan úr Skagafirði. Hún var prýðilega læs og vel að sér.

Ekki er þó hægt að útiloka að eitthvað sé hæft í hrikalegum sögum Eiðs á Þúfnavöllum af því hvernig hjónin í Flöguseli fóru með börn sín en Eiður bætir bætir þó við:

„Bestur var Benedikt við Sigfús og mat hann mest barna sinna en sýndi honum þó enga hlífð. Einu sinni sendi hann Fúsa um hávetur vestur yfir Hjaltadalsheiði að Reykjum í Hjaltadal. Sigfús var þá enn á barnsaldri. Leiðin milli Flögusels og Reykja er röskur sex klukkutíma gangur og yfir há fjöll að fara. Daginn sem Sigfús fór vestur var gott veður og færi en um ljósaskiptin síðdegis brast á stórhríð. Varð Benedikt þá svo hverft við að hann þaut af stað vestur án þess að búa sig að nokkru eða láta Rósu, konu sína, vita. Hann komst slysalaust til Reykja um kvöldið. Ekki hafði hann fyrir því að guða á glugga og bíða útgöngu heimamanna heldur æddi hann inn á baðstofu­gólf, allur fannbarinn, og æpti án þess að heilsa: „Er Fúsi kominn?“

Og Fúsi var kominn. Hafði hann náð að Reykjum rétt áður en hríðin brast á. Þá grét Benedikt í Flöguseli og var það víst í eina skiptið sem hann sást vikna. Er skammt var liðið nætur batnaði veður og birti. Hélt Benedikt þá heimleiðis með Fúsa sinn og beið ekki morguns.“

Og enn segir Eiður: „Benedikt mun hafa verið fyrirlitinn af sveitungum sínum og séra Gamalíel á Myrká kallaði hann í kirkjubókinni „bóndanefnu“. Allt til síðustu aldamóta [1900] mátti stundum heyra talað með lítilsvirðingu um þá er frá honum voru komnir og fyrir þá sök eina að þeir voru niðjar Benedikts frá Flöguseli.

Greind hafði Benedikt í fullu meðallagi. Hann var lágur vexti og þrekinn, knár vel og fylginn sér, frábær léttleikamaður og afar harðgerður. Kjarkur hans var óbilandi og þraut­seigjan undanlátslaus.“

Eiður segir það hins vegar til marks um dug þeirra hjóna að einungis tvær dætur þeirra voru aldar upp á sveitarframfæri. „Aldrei leitaði Benedikt á náðir hreppsins né nokkurra annarra að fyrra bragði og vildi ógjarnan hjálp þiggja, þó boðin væri. Og þegar Hólmfríður og Lilja, dætur hans, voru teknar að heiman til þess að létta á heimilinu, lá við borð að valdi þyrfti að beita.“

Hér skulu ekki bornar brigður á lýsingar Eiðs á skapferli Benedikts í Flöguseli en óhjákvæmilegt er að leiðrétta frásögn hans lítillega.

Eiður segir að Lilja og Hólmfríður hafi verið „teknar að heiman og komið niður annars staðar. Var meðferðin á Lilju talin sérstaklega hrakleg.“ Staðreyndin er hinsvegar sú að Lilja fór tvævetur til Svanhildar móðursystur sinnar og Böðvars manns hennar í Svíra skömmu eftir að Benedikt og Rósa fluttu fram í Ásgerðarstaði og ólst þar upp með börnum þeirra. Hún var þar fyrst sem tökubarn en síðar sem niðursetningur, þ.e. á framfæri hreppsins. Hjá þeim var hún þangað til þau fluttu frá Svíra, hún þá 16 ára. Þessi „hraklega“ meðferð á Lilju hefur orðið að vera á fyrstu tveimur árum ævi hennar eða áður en móðursystir hennar tók hana að sér og líklega kom hreppstjórinn ekkert við sögu þegar Lilja fór til móðursystur sinnar. Fyrst þremur árum síðar var hún skráð sveitarbarn, fimm ára gömul, fyrst með lítilli meðgjöf hreppsins, sögð „óefnileg, tornæm“. Síðar jókst meðgjöfin í fullt gjald. Þegar Lilja var á 11. ári fékk hún umsögnina í hreppsbók: „náttúruslæm, illa siðuð, ófróm og hneigð til lygi“ og árið eftir „mikið ónæm.“ Böðvar fóstri hennar hefur ekki fegrað eiginleika Lilju til að fá fulla meðgjöf með henni sem hann fékk næstu ár. Eftir að Böðvar og Svanhildur fluttu frá Svíra tvístruðust börn þeirra og Lilja var eftir þetta ógift vinnukona á ýmsum bæjum, „alla ævi annarra hjú, kom sér alls staðar vel,“ segir Eiður. Hún eignaðist tvö börn um ævina, annað hefur dáið ungt en hitt, Lilja Jónsdóttir, komst upp.

Eiður heldur því fram að Hólmfríður hafi verið „tekin að heiman“ en allt bendir til að hún hafi alist upp hjá foreldrum sínum til 14 ára aldurs en gat er í kirkjubækur Myrkársóknar á árunum 1802-1816 þannig að torséð er hvar hún hefur verið á þeim tíma. Þegar manntalið var tekið 1816 var hún í Flöguseli. Hreppsbókin segir hana hafa verið 11 ára þegar fyrst var borgað með henni, talsverð meðgjöf, hún sögð „efnileg að vonum“ (kaldhæðni?), síðar sögð óefnileg. Árin 1814-1815 er Hólmfríður ekki nefnd á nafn í hreppsbókinni en greitt var fullt meðlag með „einu barni barnamannsins Benedikts í Flöguseli vegna fátæktar hans og ómegðar“. Þannig átti hún líklega heima í Flöguseli öll þessi ár. Árið 1816 er hún nafngreind, „barn fátækra hjóna í Flöguseli, frá þeim tekin bæði vegna ómegðar þeirra og vondrar meðferðar á barninu, bæði að líkams og sálar uppeldi.“ Árið 1818 er hún sögð 15 ára í Hólum í Öxnadal og að hluta í Fornhaga í Hörgárdal. Eiður gefur henni einkunnina „greindarlítil og afstyrmi“ en afkomendur hennar eru margir og langflestir gjörsneyddir þessum einkennum.

Björn Benediktsson var hinsvegar ekki alinn upp í Flöguseli heldur hjá Jóni Björnssyni í Ásgerðarstaðaseli, þeim sama og Eiður segir hafa slegist við Benedikt í baðstofunni í Flöguseli eftir að Bensi átti að hafa hent tveimur börnum sínum nöktum út í snjóskafl. Björn var fósturbarn í Ásgerðarstaðaseli án meðlags frá sveitinni og engum sögum fer af því hvernig það atvikaðist að hann fór þangað en hafa má í huga að hjónin þar voru barnlaus. Ekkert bendir til að hreppstjórinn hafi haft afskipti af þessari gerð. Björn þótti mannvænlegur í kirkjubókinni, annað tveggja barna Benedikts og Rósu sem var „sæmilega vitiborið“ að sögn Eiðs eins og fyrr segir. Við fermingu var hann sagður vel læs og skynugur. Björn giftist Guðrúnu dóttur Guðmundar Þorsteinssonar smiðs og bónda í Lönguhlíð sem kom nokkuð við sögu Sigfúsar bróður hans en þó meira við sögu Guðrúnar konu Sigfúsar. Björn tók við búi af fósturforeldrum sínum í Ásgerðarstaðaseli en hann átti lengi við vanheilsu að stríða, var líklega sullaveikur, segir Eiður, gafst upp á búskap og börn hans fóru mörg á sveitina. Uppkomin fluttu nokkur þeirra vestur í Húnavatnssýslu og Björn og Guðrún, kona hans og móðir þeirra, á eftir þeim. Björn lést tæplega fimmtugur. Þess má geta hér að Guðrún þessi var

Nú verður gerð grein fyrir nokkrum öðrum börnum Rósu og Benedikts sem komust upp, föðursystkinum Guðmundar Sigfússonar í Garðshorni sem er tilefni umfjöllunarinnar um Flöguselsfólkið. Fyrst verður fyrir elsta dóttirin, Guðrún.

Guðrún Benediktsdóttir fermdist 19 ára, var heima í Flöguseli fram yfir tvítugt en fór þá burt úr sókninni nokkur ár. Hún kom aftur í Flögusel 1928 og var þar heima á meðan hún fæddi andvana barn 1829 en faðirinn var Magnús, ógiftur vinnumaður í Hvammi í Hjaltadal. Hún var síðan vinnukona í Búðarnesi, Staðartungu og Öxnhóli en í Búðarnesi eignaðist hún soninn Jónatan sem skráður var sonur Árna nokkurs Sveinssonar sem var 12 árum yngri en Guðrún en þó tvítugur þegar barnið fæddist. Um hann segir Eiður: „Árni þessi var umkomulaus og atgervislítill unglingur, var almælt að hann væri ekki faðir Jónatans heldur hafi hann verið þvingaður til þess að gangast við faðerninu.“ Og á öðrum stað segir að altalað hafi verið að „faðir hans hafi verið ákveðinn prestur.“ Prestar fóru auðvitað víða og þó að Guðrún hafi á þessum tíma verið í vist á næsta bæ við prestsetrið Myrká er ótrúlegt að átt sé við sr. Gamalíel á Myrká ef haft er í huga hve háðulegum orðum hann fór um Flöguselsfjölskylduna. Jónatan prestsonur giftist hvorki né eignaðist börn svo vitað sé. Hann var sjómaður í Skriðulandi í Arnarneshreppi og drukknaði af bát 1882 ásamt 4 öðrum.

Guðrún var heima í Flöguseli 1838–1841, síðan á Ásgerðarstöðum og Saurbæ og aftur í Flöguseli 1844 en 1846 fór hún til Benedikts og Guðrúnar á Féeggstöðum og hjá þeim var hún lengi. Hún fluttist með þeim vestur í Hjaltadal þar sem þau bjuggu á Hrappsstöðum, Nautabúi og víðar. Guðrún kona Benedikts dó 1861 en hann giftist aftur. Hann og seinni konan dóu bæði 1869 en þá fór Guðrún aftur heim á æskuslóðirnar og var fyrst vinnukona og síðan tökukerling í Baugaseli þangað til hún dó 1877.

Jón Benediktsson kom víða við á þeim 63 árum sem hann lifði. Hann ólst upp í Flöguseli hjá foreldrum sínum en fór að heiman 1823 en það ár og 3 næstu var hann vinnumaður á Ytri-Bægisá. 1827 skipti hann um prestsetur og var vinnumaður á Myrká til 1832. 1833 til 1841 bjó hann í Flöguseli á móti foreldrum sínum, fyrst giftur Salvöru Gissurardóttur frá Bási og síðan Rósu Gottskálksdóttur innan úr Kræklingahlíð. Sigfús bróðir Jóns hafði áður eignast barn með Salvöru en það dó mánaðargamalt. Með Salvöru eignaðist Jón þrjú börn en aðeins Jónatan lifði. Jónatan var langafi tónlistarmannanna Ingimars og Finns Eydal. Með Rósu flutti Jón í Kaupang í Öngulsstaðahreppi og síðan í Finnastaði í Hrafnagilshreppi og eignaðist þar með henni dóttur sem nefnd var Salvör eftir fyrri konu Jóns. Rósa dó þremur árum síðar í Kristnesi. Ári síðar giftist Jón Herdísi Einarsdóttur og bjó með henni á Rútsstöðum þar til Herdís dó 1856 en þau höfðu þá eignast eina dóttur sem upp komst, Sigríði. Og enn giftist Jón og nú Rósu Jóhannesdóttur og bjó með henni í Hólkoti þar til hann dó 1866. Þau eignuðust tvö börn, Jóhann Benedikt sem bjó um tíma í Garðshorni á Þelamörk, og Guðbjörgu sem dó fárra ára.

Oddur Benediktsson fermdist 18 ára. Hann var hjá foreldrum sínum í Flöguseli þar til bæði voru látin, síðustu árin hafði hann tekið við búinu, þá giftur Jóhönnu Jónsdóttur, skagfirskri konu sem var miklu betur læs en Flöguselsfólkið, og í Flöguseli bjuggu þau áfram til 1860. Eftir það bjuggu þau á nokkrum bæjum í Hörgárdal en síðustu árin voru þau hjá dætrum sínum, Oddur hjá Sólrúnu móður Stefáns klæðskera, sem stofnaði elliheimilið í Skjaldarvík, og Jóhanna hjá Þóru Rósu, ömmu Þóru á Myrká. Börnin urðu 7 og af þeim lifðu 5.

Svo má alveg eyða nokkrum línum á Rósu Benediktsdóttur. Hún fermdist 15 ára, sem þótti nokkuð gott af barni frá Flöguseli, en var þá sögð aumlega uppfóstruð og menntuð mjög naumt en nokkuð skynug og siðgóð. Hún var komin úr barneign þegar hún giftist Guðmundi Guðmundssyni og bjó með honum í Ásgerðarstaðaseli og Nýjabæ. Hún hafði fyrst verið bústýra hjá Tómasi nokkrum Tómassyni og eignast með honum son sem varð skammlífur. Guðmundur hafði líka eignast barn fyrir hjónaband með Þóru Rósu dóttur fyrrnefnds Odds Benediktssonar. Guðmundur og Rósa höfðu vinnukonu, Sigurlaugu S. Guðmunds­dóttur, og með henni eignaðist Guðmundur fjögur börn sem Sigurlaug og Rósa ólu upp í sameiningu, í sátt og samlyndi. Eiður segir Rósu hafa verið dugnaðar- og þrifakonu.

Einna þekktast barna Benedikts og Rósu í Flöguseli varð Sigríður, yfirleitt nefnd Stutta-Sigga. Um hana skrifaði Jónas Rafnar grein í 15. hefti Grímu 1940 og byggir á samtölum við bændur í Hörgárdal sem mundu Siggu. Jónas hafði heyrt að Sigríður hefði þroskast eðlilega fyrstu árin en augljóst er af færslum sóknarprestsins að hún var þroskaskert um og eftir 10 ára aldur eins og Friðfinnur bróðir hennar sem hafði þó eitthvað umfram Sigríði í greind en stóð henni að baki í líkamlegri heilsu og dó tæplega sextugur. En verulega var Sigríður frábrugðin öðru fullorðnu fólki hvað varðaði líkamlegan þroska því að Jónas áætlar að hún hafi náð um 125 sm hæð sem fullorðin kona. Jónas kennir uppeldinu a.m.k. að hluta um þessa þroskaskerðingu þótt fleira hafi getað komið til. Sr. Páll Jónsson Myrkárprestur fermdi Siggur þegar hún var þrítug og skráði þá í bókina: „Kann Lúters litlu fræði og Höfuðlærdómana aftan við lærdómsbókina, líka vers og bænir. Er ólesandi, málhölt og mjög skilningsdauf. Confirmeruð eftir leyfi hr. stiftprófasts Hr. A. Helgasonar.“

Sigríður Benediktsdóttir - Stutta Sigga. Jón J. Árnason á Laugalandi hefur líklega tekið þessa mynd þegar hún var í Auðbrekku eða Hólkoti, komin um eða yfir áttrætt.

Bæði Sigríður og Friðfinnur voru með foreldrum sínum í Flöguseli þar til þeir féllu frá eða til þrítugs en fóru síðan á flakk sem sveitarlimir eða í besta falli matvinnungar. Samkvæmt kirkjubókum var ferill Sigríðar þessi eftir að hún fór frá Flöguseli 1846: Hún fór það ár í Sörlatungu, síðan að Féeggstöðum, var á Steinsstöðum tvö ár, á Barká og Bási 1850 en í Bási eignaðist hún son sem var skammlífur. Ekki vitað um bústað hennar 1851 en þá var ekki greitt með henni úr sveitar­sjóði. Hún var á Bryta 1852, óvíst um 1853, á Mýrarlóni eitt ár, síðan á Hólum í Öxnadal þar sem hún eignaðist annan son sem lifði 5 ár á sveitarframfæri á Syðri-Bægisá. Hún var næst í Saurbæ í Hörgárdal, síðan tvö ár í Svíra en síðan var hún tvö ár á Neðsta­landi. 1861 fór hún í Auðbrekku og var þar til 1869, síðan í Ásgerðarstaðaseli hjá Rósu systur sinni til 1879, eitt ár í Stóragerði og síðan aftur tvö ár hjá Rósu sem þá var flutt í Flögu. Árin 1882 til 1884 var hún í Brakanda og 1884 til 1889 í Nýjabæ hjá Rósu systur sinni sem var flutt þangað með manni sínum. Frá Nýjabæ fór hún til bróðurdóttur sinnar í Auðnir og var þar eitt ár áður en hún fór til vandalausra í Auðbrekku vorið 1890. Þar var hún til 1898 og þaðan fluttist hún með húsbændum sínum í Skriðu 1898. en ári síðar fór hún í Hólkot þar sem hún lést árið 1900, 84 ára gömul. Hún hefur skipt um heimili einum 25 sinnum eftir að hún fór úr foreldrahúsum um þrítugt.  Hún var flökkukind, hafði gaman af að fara milli bæja og Jónas Rafnar segir hana hafa farið bæði vestur í Skagafjörð og norður á Siglufjörð og þar dvaldi hún vetrarlangt hjá Snorra kaupmanni, syni sr. Páls sem var um tíma prestur á Myrká. Sigga taldi sig eiga nokkuð í Snorra því hún hefði gætt hans sem ungbarns en hún hafði orð á sér fyrir að vera barngóð. Hún var þó aldrei skráð til heimilis á Myrká enda bjó sr. Páll í Stóragerði fyrstu árin eftir að hann gerðist aðstoðarprestur á Myrká. Líkega hefur hún ekki verið eftirsóttur heimilismaður en greinilegt er að Rósa systir hennar hefur reynt að hafa hana hjá sér eftir getu og Hólmfríður Oddsdóttir, bróðurdóttir hennar, hefur líka haft hana hjá sér. Fleira fólk hefur reynst henni vel, þrátt fyrir allt.

Friðfinnur Benediktsson (1811-1869) þroskaðist ekki vitsmunalega eins og fólk yfirleitt og hann var alla tíð heilsuveill. Hann fermdist 22 ára, „lítt læs, málfærnis daufur og mjög fáfróður“. Hann var í Flöguseli á meðan foreldranna naut við en var síðan matvinnungur eða vinnumaður á bæjum í Hörgárdal til æviloka en var aldrei á sveitarframfæri.

Anna Benediktsdóttir varð skammlíf. Um Sigfús verður fjallað hér á eftir.

Í stuttu máli sagt: Benedikt og Rósa í Flöguseli eignuðust 18 börn og af þeim komust 11 vel á legg og sum urðu mjög gömul. Öll nema tvö ólust upp í Flöguseli, eitt barn fór í fóstur til móðursystur sinnar og annað til barnlausra hjóna á næsta bæ. Hólmfríður var hjá foreldrum sínum í Flöguseli fram á fermingaraldur sem var reyndar býsna teygjanlegur þegar Flöguselsbörnin voru annars vegar. Börn Bensa og Rósu tíndust smám saman út af heimilinu nema Oddur, Friðfinnur og Sigríður en þau tvö síðarnefndu voru sögð vanvitar, einkum Sigríður. Sigríður og Friðfinnur fóru aldrei úr foreldrahúsum meðan báðir foreldrar lifðu. Jón og Sigfús hjálpuðu til við bústörfin fram yfir tvítugt og Oddur var alltaf á heimilinu. Hann tók við búi af foreldrum sínum en Jón bróðir hans hafði áður búið á móti þeim í 8 ár. Guðrún, Rósa og Hólmfríður voru öðru hverju í Flöguseli þegar á þeim þurfti að halda eða þegar þær þurftu á að halda.

Flöguselsbörnin fermdust misseint, aðallega seint. Ekki var við því að búast að systkinin frá Flöguseli, sem ólust þar upp, lærðu að lesa. Sigfús faðir Benedikts var nánast ólæs en Hólmfríður móðir hans stautaði eitthvað. Benedikt var lítt læs og Rósa lítið skárri. Þeim hjónum hefur því orðið ýmislegt fyrr fyrir að loknu dagsverki en að kenna börnum sínum að stafa eða hlýða þeim yfir kristni­fræðin sem þau kunnu lítil skil á sjálf.

Sagt er að fár bregði hinu betra ef hann veit hið verra. Einhver flugufótur má vera fyrir sögum um harðýðgi Flöguselshjónanna og hörku en ekki hafa þær batnað í meðförum sveitunganna og síst þeirra sem hvað ósárast var um sannleikann en lögðu þeim mun meira upp úr mergjuðum frásögnum. Ýmislegt bendir hinsvegar til að hjónin í Flöguseli hafi ekki verið börnum sínum jafnill og sögurnar herma. Óskilgetinn sonur Guðrúnar ólst upp í Flöguseli í nokkur ár þannig að hún treysti foreldrum sínum fyrir honum, var reyndar stundum sjálf með honum í Flöguseli fyrstu árin. Óskilgetin dóttir Sigfúsar ólst upp í Flöguseli til 7 ára aldurs eða þar til móðir hennar giftist og tók hana til sín. Nokkur ár voru óskyld tökubörn í Flöguseli. Hólmfríður lét heita í höfuðið á móður sinni og Jón lét heita í höfuðið á bæði móður sinni og föður og hann bjó um tíma á móti gömlu hjónunum í Flöguseli. Oddur lét heita í höfuðið á móður sinni, bjó 4 síðustu ár Benedikts á móti honum í Flöguseli og var hjá þeim til æviloka þeirra. Rósa og Björn létu bæði heita í höfuðið á föður sínum. Greinar­höfundi finnst þetta allt benda til að Flöguselsbörnunum hafi verið heldur hlýtt til foreldra sinna og verið artarleg við þau og að sú ræktarsemi hafi jafnvel verið gagnkvæm. Ýmis dæmi eru líka um að Flöguselsbörnin hafi leitast við að styðja við bakið hvert á öðru og afkomendum eftir því sem aðstæður leyfðu þannig að ýmislegt fleira en harðýðgi hafi komist að á Flöguselsheimilinu í uppvexti þeirra.