Ýmsir ábúendur 1882-1899

Ýmsir ábúendur 1882-1899

Frá árinu 1882 og fram til 1889 var enginn eiginlegur bóndi í Garðshorni heldur húsfólk, fyrst þrennt en síðan tvennt. Fyrstu þrjú árin bjuggu þar húshjónin Jón Björnsson (1835-1901) og Jóhanna Valgerður Jónsdóttir (1845-1922) ásamt Jóni syni þeirra. Jóhanna var vestan úr Húnavatnssýslu en Jón Skagfirðingur. Þau höfðu búið í Blönduhlíð og á Fremri-Kotum í Skagafirði en komu í Garðshorn úr Gloppu þar sem þau höfðu búið síðast. Eftir Garðshornsdvölina fóru þau í vinnumennsku en komu aftur í Garðshorn 1887-1890, og fóru þaðan aftur í vinnumennsku, m.a. í Steinsstaði 1890.

Guðrún Kristjánsdóttir (1842-?) frá Neðri-Rauðalæk, systir Kristjáns bónda á Hamri, var eitt ár í Garðshorni sem húskona ásamt Kristjönu Gunnarsdóttur (1877-1927), dóttur sinni. Guðrún var dóttir Guðrúnar Bergsdóttur frá Efri-Rauðalæk sem var bróðurdóttir Jóns Bergssonar fyrrum bónda í Garðshorni. Guðrún hafði eignast Kristjönu í lausaleik með giftum manni, Gunnari Magnússyni bónda á Syðri-Bægisá, eigin­manni Helgu dóttur Andrésar fyrrum bónda þar. Hálfbróðir Kristjönu, Magnús Gunnarsson, var afi Kára Larsen sem ólst upp í Garðshorni nánast frá fæðingu 1913 hjá Helgu Sigríði frænku sinni.

Símon Oddsson (1849-1897) og Guðríður Pálsdóttir (1848-1945) bjuggu sem húsfólk í Garðshorni 1883-1889. Oddur faðir Símonar var bróðursonur Jóns Bergssonar, hafði búið á Efri-Rauðalæk 1843-1844, síðan á Víðivöllum, Miðhúsum og Þorleifsstöðum í Blönduhlíð og í Garðshorni á Þelamörk 1856-1857. Guðríður var upprunnin í Skagafirði. Frá Garðshorni fluttust þau að Ytri-Bægisá og voru þar í húsmennsku og búskap til 1893 á móti sr. Theodór fyrst eftir að hann kom þangað. Með Símoni lýkur veru ættmenna Jóns ríka Bergssonar í Garðshorni í 75 ár.

Árið 1889 komu Bene­dikt Jónsson (1854-1930) og Jóhanna Halls­dóttir (1848-1921) í Garðshorn ásamt þremur börnum sínum, Önnu Rósu, Baldvin og Halli Sigurvin, og með þeim var einnig Jón Baldvinsson, sonur Jóhönnu og fyrri manns hennar. Ári síðar bættist Sveinn Geirmar í barna­hópinn.

Grunnmynd af gamla bænum í Garðshorni. Steinar Frímannsson teiknaði eftir fyrirsögn Steindórs Pálmasonar

Benedikt hét fullu nafni Jóhann Benedikt og var sonur Jóns Benedikts­sonar frá Flöguseli. Jón hafði búið í Flöguseli 1832-1844, fyrst með Salvöru Gísladóttur frá Bási, sem var fyrsta barnsmóðir Sigfúsar bróður hans, en með henni eignaðist Jón Jónatan, Pál og Rósu. Aðeins Jónatan lifði og varð m.a. forfaðir hinna landskunnu tónlistarmanna, Ingimars og Finns Eydal. Eftir dauða Salvarar giftist Jón Rósu Gottskálksdóttur og átti með henni dótturina Salvöru en hún var t.d. formóðir bræðranna Jóns og Aðalsteins í Hrauni og Sigurðar á Miðlandi/Hálsi. Rósa varð skammlíf í hjónabandi með Jóni og hann giftist í þriðja sinn, nú Herdísi Einarsdóttur og bjó með henni á Rúts­stöðum í Eyjafirði. Herdís var m.a. formóðir Gunnars Kárasonar, síðast fjármálastjóra MA. Eftir lát Herdísar giftist Jón fjórða sinni og nú Rósu Jóhannesdóttur sem lifði mann sinn en þau bjuggu í Hólakoti í Saurbæjarhreppi. Rósa var móðir Benedikts bónda í Garðshorni og hún lést í Garðshorni 1897.

Jóhanna Hallsdóttir var fædd og uppalin vestur í Skagafirði. Jón Baldvinsson, sonur hennar frá fyrra hjónabandi, giftist Guðrúnu Hallgrímsdóttur frá Úlfsstaðakoti í Blönduhlíð, systur Kristínar sem bjó á Neðri-Rauðalæk 1935-1993.

Á árunum 1897-1899 bjuggu í Garðshorni Sigurjón Friðrik Jónsson og Rósa Friðbjarnar­dóttir ásamt börnum sínum Gamalíel og Sigríði. Sigurjón var utan úr Arnarneshreppi en Rósa framan úr Sölvadal í Eyjafirði. Áður en þau tóku saman hafði Rósa eignast Fanneyju með Þorsteini syni sr. Arnljóts á Bægisá en hún giftist vestur í Skagafjörð og eignaðist fjölmarga afkomendur. Sigríður dóttir Sigurjóns og Rósu giftist Aðalsteini Jóhannssyni bónda á Skútum á Þelamörk en þau áttu mörg börn, m.a. Ásmund föður Þrastar framhaldsskólakennara og Jónas bónda á Grjótgarði og Ási, föður Gunnars myndlistamanns.