Húsið í skóginum 2013

Húsið í skóginum 2013

 

Þiðnaði loft og þerrðist blóð[1],
Þelamörk gróðri væddist.
Karrinn orti í kjarri ljóð,
kerlingin ólétt mæddist.
Kofinn hálfgerði keikur stóð,
klakinn af gólfi bræddist.
Völundur komst í vígamóð,
vonin um þakið glæddist.


[1] sem úthellt var haustið áður

 

Vorþeyrinn kom úr vestanátt,
vindar í hæðir stigu,
lambfé í haga leikið grátt,
leirskáldin[2] á sig migu.
Kofaveggir sem hreyktust hátt
hriktu og gengu á svigu.
Festingar klénar misstu mátt,
til moldar þá veggir hnigu.


[2] höfundar þessa kvæðis

En endurreisnin varð ekkert streð,
unun er henni að lýsa.
Spóarnir höfðu sjaldan séð
svona fjótt veggi rísa.
Upp komust veggir og upp reis geð
áður en gerð var vísa.
Kofabyggingin byrjuð með
bravúr á sumri þvísa.

 

Ekki í fremsta forgang þó
framkvæmdir voru settar.
Einbýlishúsi út með sjó
allnokkrar hendur réttar.
Í Skagafirði var skemmtan nóg,
skyldu þar rifur þéttar.
Úr huga yfirsmiðs húsið smó.
Hann gat þá andað léttar.

En annað fór samt að angra smið
andsettan þungum fárum.
Marraði hátt í mjaðmarlið
meður svo verkjum sárum
að undan þeim aldrei fékk hann frið
farinn úr öllum hárum.
Handleggsbrotinn með herptan kvið
hélt varla inni tárum.

Byggingu fór svo fram um skeið
að festist í þagnargildi.
Gróður á feysknar fjalir skreið,
furða að allt þar tylldi.
Harðviður enn eitt árið beið,
eitthvað þó mygla vildi
uns smiður til berja lagði leið.
„Og þá var eins og blessuð skepnan skildi“.

Hófst nú á fætur hetjan pínd
hrokkin í gírinn taman.
Keypt var timbur og tólin brýnd,
tjaslað var sperrum saman.
Teikningin góða rædd og rýnd,
rissuð á hlið - að framan.
Skipulagsgáfan sanna sýnd.
Svakalega var gaman! 

Upp hófust sperrur, upp reis þak,
á öllu var góður skriður.
Skrúfur, naglar og Tonnatak
tjóðruðu byrðið niður.
Inn um gluggana lítið lak,
þó láku dyrnar, því miður,
og endahnútana enginn rak.
Það er iðnaðarmanna siður.

Nú er á smíðum nokkurt hlé,
nú sést þó bros á fési
smiðs sem í afturfót ekki sté
áður sem Snældu-Blesi[3].
Hann skipti um lið fyrir lítið fé,
léttist þá önd í hesi.
Á litlu jólunum lét í té
legg handa Sókratesi[4].

[3] Sjá t.d. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119807&pageId=1599724&lang=is&q=Snældu Blesi
[4] Á þessum tíma átti byggingarstjórinn hund með þessu nafni

Grenjar hríðin um gáttir inn,
gaddur og frostið bruna.
Hálfur af snjó er húskofinn,
hörð þarna veðrin duna
uns einhverjum hleypur kapp í kinn,
kannski þeim Bjarma og Funa,
sem erfa það verk eftir afa sinn
að upptendra kamínuna.

 

Af endemum varð margt frumhlaup frægt
farið á hundavaði.
Fyrir þeim sannleik víst skal vægt
að vont gerist oft með hraði
en góðir hlutir þeir gerast hægt,
að gönuhlaupum er skaði.
Garðshornshorn er enn gestum þægt
en gista þarf úti á hlaði.