Húsaskipan á árunum 1940-1990
Eftirfarandi mynd sýnir afstöðu íbúðarhúss og útihúsa á árunum 1940-1990 en lungann af þessum tíma bjuggu Frímann Pálmason og Guðfinna Bjarnadóttir í Garðshorni.
a Geymsla – gamla baðstofan
b Íbúðarhúsið frá 1932
c Skúr
d Fjóshlaða
e Fjós
f Fjárhúshlaða
g Fjárhús
h Bragginn
Skúrbyggingin (a) og (c) á grunnteikningunni er þar sem baðstofa gamla bæjarins stóð. Framhúsin voru þar sem nú er hlaðvarpinn en vestasti hluti skúrbyggingarinnar (a og c) var um það bil þar sem veggurinn var milli baðstofu og búrs, þó líklega heldur vestar. Fjósið var flutt 1923 eða 1924 þangað sem fjósið var síðan, meðan það var og hét, og nýja íbúðarhúsið byggt þar sem heytóttin og fjósið var. Gamli bærinn hefur síðan verið rifinn allur nema baðstofan en leifar af henni voru til fram undir 1960 eða þangað til steinveggurinn vestan við skúrinn var hækkaður, veggur steyptur að austan og skúrþak með halla í austur sett á skúrinn í stað torfþaks baðstofunnar sem var uppi þangað til og var með mæni í norður-suður og þakhalla í austur og vestur.
Á næstu mynd hefur skúrbyggingin (a - c) verið merkt gróflega inn á grunnmyndina af gamla bænum með skyggðum fleti. Staðsetning skúrsins byggir annarsvegar á minni höfundar um gömlu baðstofarleifarnar og hinsvegar á því sem Steindór segir um staðsetningu íbúðarhússins. Steinveggurinn vestan við baðstofuna gömlu er í beinu framhaldi af framhlið íbúðarhússins en Steindór segir íbúðarhúsið „nokkurn veginn þar sem fjóstóttin var áður“. Hér er gert ráð fyrir að íbúðarhúsið sé á austurhluta fjóstóttarinnar og yfir heytóttinni.
Hér er raunar ástæða til að gera fyrirvara um áttirnar á Þelamörkinni. Það sem þar var kallað austur og vestur var þvert á dalinn og norður og suður var út og fram dalinn. Vandinn er hinsvegar sá að dalurinn snýr í norð-austur og suð-vestur og austrið á Þelamörk er því meira í suður en rétt er samkvæmt korti og áttavita.
Engin ljósmynd er til af gamla Garðshornsbænum. Til eru ljósmyndir af einstaklingum, sem koma við sögu bæjarins, teknar á ljósmyndastofum á Akureyri en myndavélar voru ekki almenningseign á þessum árum. Þó hefur einhver eignast myndavél og tekið myndir um og jafnvel fyrir 1940 og þar berast böndin einkum að Kristfinni Guðjónssyni, sem lengi rak ljósmyndastofu á Siglufirði. Gæði myndanna styðja þá tilgátu.
Líklegt er að hann hafi komið í heimsókn og tekið fyrstu myndirnar sem teknar voru þar utanhúss. Kristfinnur var fóstursonur Guðmundar Sigfússonar og Steinunnar Önnu Sigurðardóttur sem fluttu með börnum sínum og fóstursonunum, Stefáni V. Sigurjónssyni og Kristfinni, í Garðshorn 1899. Kristfinnur átti þó ekki lengi heima í Garðshorni því að hann ólst upp á Efri-Rauðalæk og Fremrikotum í Norðurárdal hjá Arnbjörgu, dóttur Steinunnar, frá því að Guðmundur lést 1904. Kristfinnur hélt samt tryggð og tengslum við Steinunni á meðan hún lifði, kallaði hana mömmu, og syni hennar og bræður Arnbjargar, Pálma bónda í Garðshorni og Frímann bónda á Hamri og Efstalandi, til æviloka þeirra.
Pálmi og þó aðallega Helga Sigríður, kona hans, bjó í Garðshorni frá 1899 en Jóhanna Guðrún, dóttir þeirra, bjó í Garðshorni 1925-1927 með Kristjáni S. Jónssyni, manni sínum, en synir Pálma og Helgu, Steindór og Frímann, tóku við búinu 1927 og höfðu móður sína sem bústýru. Á árunum 1943 til 1947 bjuggu Helga og Steindór, sonur hennar, á annarri hálflendunni en Frímann og Guðfinna, kona hans, á hinni. Frá 1947 til 1973 bjuggu Guðfinna og Frímann þar ein með 8 börnum sínum. Hér eru fyrst birtar tvær ljósmyndir sem sýna fjósið og baðstofuleifarnar á bak við steyptan framvegg sem átti eftir að þróast og hækka. Ljósmyndirnar gætu verið teknar um eða fyrir 1940, líklega báðar í sama skipti. Hér er búið að rífa frambæ gamla bæjarins og steypa vegginn framan við baðstofuna. Lengst til vinstri sést í fjósið sem flutt var norður fyrir bæinn. Leifar af norðurvegg baðstofunnar skilja á milli baðstofu og fjóssins.
Fyrir mitt minni var torfveggurinn fjarlægður og timburframþil fjóssins tengt við steinvegginn framan við baðstofuna.
Neðri myndin er frá sama eða svipuðum tíma og sú efri enda Helga amma á báðum myndunum. Veggurinn framan við „skúrinn“ (c) er kominn í endanlega hæð eða syðsti hluti þess sem síðar hefur verið nefnt geymsla (a/c).
Á árunum 1933-1958 fékk gamla baðstofan að halda sér að nokkru leyti. Gólfið í henni var 60-80 sm hærra en gólfið í skúrnum sem var steypt vestur við framvegginn, þar var rás meðfram veggnum í endanlegri gólfhæð, þrengst nyrst, varla meira en 80 – 100 sm breið. Skýringin á þessari mishæð kemur fram í grein Steindórs, baðstofugólfið var hærra en gólfið í framhúsunum, „upp í baðstofuna voru 3 trétröppur“.
Lengi vel fengu gamlir panelskápar að halda lífi við norðurvegg baðstofunnar og í þeim ýmislegt járnarusl. Í miðju gólfi skúrsins /baðstofunnar var steypt kartöflugeymsla niðurgrafin. Þak hennar var gólfið í gömlu baðstofunni.
Hér á eftir er fyrst svokölluð halarófumynd en þannig myndir voru reglulega teknar af Garðshornssystkinunum jafnóðum og þeim fjölgaði. Þær voru auðvitað teknar sem heimildir um fólkið á myndunum en nú nýtast þær sem heimildir um húsin.
Á myndinni sést í þakið á gömlu baðstofunni. Búið er að setja bárujárn á þakið að austanverðu en að miklu leyti er svo torf ofan á járninu en múrsteinar bornir á járnið, þar sem það er bert, svo að það fjúki ekki. Baðstofuþakið lak ekki svo orð væri á gerandi. Á myndinni eru öll Garðshornssystkinin en með þeim er 3. frá hægri Halldóra Guðmundsdóttir - Dódó - úr Reykjavík, óskyld stúlka sem var í Garðshorni nokkur sumur.
Nýja íbúðarhúsinu frá 1933 (b) verður lýst hér á eftir en fyrst gerð lítillega grein fyrir útihúsum. Í Byggðum Eyjafjarðar (2010) eru tiltekin byggingarár einstakra húsa í Garðshorni. Við þau ártöl verður miðað hér nema það sem að framan segir um geymsluna og um fjósið (e) sem er sagt byggt 1958 en upphaflega var það byggt 1923 eða 1924 eftir því sem Steindór segir.
Árið 1958 voru hinsvegar steyptir útveggir, fjósið lengt í norður og sett skúrþak á bygginguna með halla í vestur. Básar og flór héldu sér frá því sem áður hafði verið nema fjósið allt og flórinn þar með var orðið mun lengra en í upphafi. Ég held að þar hafi rúmast allt að 18 mjólkandi kýr þegar mest var. Fram að þessum tíma hafði verið timburþil á fjósinu og þakið var með mæni í norður-suður með halla í austur og vestur eins og baðstofan. Óhjákvæmilega vildi leka ofan í fóðurganginn upp við hlöðuna en að öðru leyti dugði þakið.
Framan við fjósið var hlandgryfja en þangað safnaðist kúahlandið úr niðurfalli í flórnum miðjum. Hlandinu var svo dælt upp úr gryfjunni í tank á kerruhjólum og því dreift um heimatúnin og það þannig nýtt sem áburður. Það var eftirminnilegt verk að dæla hlandinu upp í dreifarann með handdælu og lyktin ekki síst minnisstæð.
Uppi á bitum í fjósinu voru kartöflur látnar spíra þegar leið að vori.
Myndin af mjaltafólkinu sýnir fjósið skömmu áður en það var endurnýjað 1958. Enn sést timburþilið og á þakinu er bárujárn. Í boga yfir mæninum voru partar af járni úr bretabröggunum. Vatnið af þakinu rann annarsvegar fram á hlaðið og hinsvegar upp á fóðurganginn upp við hlöðuna en á hann hafði verið sett járn sem skilaði mestu vatninu norður af ganginum. Vatnshallinn var þó lítill þannig að alltaf vildi leka ofan í fóðurganginn.
Á myndinni eru frá vinstri: Halldóra Guðmundsdóttir (Dódó), Gunnar, Jóna Bjarnadóttir (Jóna frænka), Pálmi og Fríða.
Fram að breytingunni 1958 var torfveggur á fjósinu að norðanverðu í líkingu við þann sem sést á myndinni að sunnanverðu. Undir þessum torfvegg var nautið á bás en ég held að yfirleitt hafi verið naut í Garðshorni og það lánað á næstu bæi eftir þörfum. Þetta var þarfanaut.
Ég man sérstaklega eftir Stormi sem var keyptur frá Litla-Hvammi í Hrafnagilshreppi og sóttur þangað á Ford-vörubílnum á Efri-Rauðalæk í hífandi roki. Þaðan kom nafnið á nautinu. Stormur varð nokkuð fullorðinn og stór að sama skapi en geðgóður sem betur fór.
Þó að í fjósinu væru sjálfbrynningartæki fyrir kýrnar þurfti alltaf að brynna bola úr fötu. Ég man eftir mörgum ferðum á næstu bæi með tarfinn í öllum veðrum á öllum árstímum, t.d. niður í Hamar og út í Vindheima, en stundum komu nágrannarnir með kýr og kvígur undir nautið. Boli var teymdur á snærisspotta sem bundinn var í hring í nösum hans. Ég man aldrei eftir óþægð eða erfiðleikum með Storm.
Í Garðshorni var oft mjólkað með mjaltavél sem ekið var eftir mjórri stéttinni meðfram flórnum en hún geymd milli mjalta í skáp á miðri stétt. Fyrst var hún knúin með háværum bensínmótor en síðar með rafmótor sem var mun hljóðlátari. Oft var hinsvegar mjólkað með höndum þegar börnin gátu farið að mjólka og þá mjólkuðu 3-4 í einu sem tók ekki endilega lengri tíma en að mjólka með mjaltavélinni.
Fjóshlaðan (d) var byggð 1936 með tveimur votheysgryfjum sem lengst af var verkað í meðan ég man eftir. Um 1955 var sett súgþurrkunarkerfi í hlöðuna, stór tréstokkur meðfram vesturvegg og minni stokkar út frá honum. Í niðurgröfnu byrgi sunnan undir hlöðunni var súgþurrkunarblásarinn knúinn af jafnstraumsmótor með straum frá heimilisrafstöðinni. Mótorinn tók allt afl frá rafstöðinni þannig að engin heimilistæki gátu verið í gangi á sama tíma nema frystikista og ísskápur. Á myndinni af Steinari með kálfinn sést í suðurstafn fjóshlöðunnar og súgþurrkunarklefinn undir bogaþaki. Járnþak hefur leyst torfþak baðstofunnar af hólmi. Á suðurstafni fjóssins var loftræstistrompur eða -strompar og á þessari mynd sést reykháfurinn fyrir „gamla eldhúsið“. Á stafni íbúðarhússins eru festingar fyrir rafmagnslínur frá rafstöðinni og frá íbúðarhúsi upp í fjárhús. Myndin hefur upphaflega átt að vera af Steinari og kálfinum.
Fjárhúshlaða og 180 kinda fjárhús var byggt 1939. Útveggir fjárhússins að norðan og sunnan voru steyptir en að framan var timburþil ofan á steyptum sökkli. Fjárhúsið var óeinangrað en upp með steinveggjunum voru torfhleðslur til einangrunar. Í hlöðunni var votheysgryfja sem var aldrei notuð sem slík í mínu minni, hugsanlega vegna þess að svonefnd votheysveiki eða Hvanneyrarveiki hafði komið upp í sauðfé á Hvanneyri eftir 1930 sem var fóðrað á lélegu votheyi. Krærnar voru 6. Í þremur nyrstu krónum voru kindur en innst í þeirri þriðju var hrútastía þar sem voru 2-3 hrútar. Innst í fjórðu krónni var stía með þurru taði sem dreift var í krærnar undir ærnar til að þurrka taðið undir þeim. Í fimmtu krónni var hrútastía innst, gemlingar í miðju en fremst voru 2-3 hross en einu þeirra var beitt fyrir sleða sem mjólkurbrúsar voru fluttir á niður á „braut“ þegar mikið hafði snjóað. Í betra færi voru brúsarnir hengdir á klakk eða klyfbera á hesti, 2-4 brúsar eftir þörfum. Hestar voru lítið notaðir til reiðar í Garðshorni eftir að ég fór að muna eftir mér.
Á milli krónna voru garðar og fremst í nyrsta garðanum var baðker sem rollurnar voru baðaðar upp úr í desember til að drepa í þeim færilýs. Vatn var hitað í baðkerið og út í það sett eitthvert lúsaeitur. Einni og einni kind var dýft í baðkerið og hún síðan toguð upp í garðann þar sem rollurnar stóðu á meðan bleytan lak úr ullinni og ofan í baðkerið. Þannig nýttist baðvatnið út í hörgul. Það gekk mikið á daginn sem féð var baðað. Það var á slíkum degi sem þrjú yngstu börnin voru úti að leika sér en tvö þau eldri áttu að líta eftir því yngsta, tveggja ára gömlu. Í miðjum klíðum uppgötvaðist að það yngsta var horfið og fannst hvergi þrátt fyrir mikla leit allra sem vettlingi gátu valdið. Þetta var í svartasta skammdeginu rétt fyrir jólin og búið að hringja á nágrannabæi eftir hjálp við leitina og fyrstu menn á vettvang voru að koma frá Hallfríðarstaðakoti, handan ár. Þá var það Aðalheiður frá Barká, sem var heimilisföst í Garðshorni þennan vetur (1956-57), sem gekk út á Kvíhól og rak þar augun í drenginn sem hafði ráfað upp að fjallsgirðingu.
Í syðstu krónni á fjárhúsunum voru stundum kindur en ég man líka eftir að þar voru hafðar hænur. Annars voru hænsnin í litlum kofa sunnan undir fjárhúsveggnum.
Það þurfti að stinga út úr fjárhúsunum og það hefur líklega verið gert tvisvar á ári, einu sinni á miðjum vetri og aftur að hausti áður en fé var tekið á hús. Taðið var stungið í hnausa og þeir bornir til dyra á gaffli, einn og einn í einu, þannig að það voru farnar margar ferðir. Að vetrinum var taðið sett í haug framan við fjárhúsið. Ég heyrði af öðrum bæjum þar sem hnausarnir voru bornir á berum höndum. Herbert á Bægisá sagðist hafa komið á bæ þar sem bóndadóttir bar til dyra í fanginu en bóndi stakk hnausana sem gat verið erfitt ef rollurnar höfðu dregið mikið hey ofan í taðið. Bónda hafði hitnað í hamsi við að hoppa á stunguspaðanum, farið úr ullarbrókinni og „pískaði lærin“ eins og Hebbi sagði.
Fénu var brynnt í stokka sem voru steyptir í skilrúmin milli 2. og 3. króar og milli 4. og 5. króar. Í nyrstu og syðstu krónum munu hafa verið ker sem vatn var látið renna í með því að skrúfa frá krana. Ég minnist þess að einu sinni gleymdi ég að skrúfa fyrir kranann, þegar ég var að brynna fénu, með þeim afleiðingum að vatn flæddi ofan í aðra króna. Þá þurfti að stinga út úr þeirri kró sem var ekki gott. Pabbi var ekki glaður enda sat hann í súpunni.
Þá er loks komið að bogaskemmu (h) sunnan við fjárhúshlöðuna en henni var komið upp 1945. Í Byggðum Eyjafjarðar er reyndar sagt að hún hafi verið byggð 1946 en loftmynd frá árinu á undan bendir til annars. Þetta var – og er – svokallaður braggi sem breski herinn skildi eftir þegar Kaninn leysti hann af hólmi 1941. Í bragganum voru geymdar vélar að norðanverðu, Farmall A og síðar Massey-Ferguson 35, sláttuvél og jafnvel fleiri heyvinnuvélar. Í miðhlutanum voru ýmis heyvinnuverkfæri, aktygi, hnakkar, söðlar og margt fleira og í syðsta hlutanum, sem var aðskilinn með þili, var hefilbekkur Steindórs og margvísleg smíðatól sem smátt og smátt týndu tölunni eftir að við bræður fórum að nota þau til að smíða okkur leikföng. Í syðsta hlutanum var timburgólf en steingólf annarstaðar í bragganum.