Efri hæðin

Efri hæðin

Ris var yfir hluta íbúðarhússins að sunnanverðu og þar var eitt herbergi, Kvisturinn, í fullri lofthæð með tveimur gluggum í suður. Austurherbergi og Vesturherbergi voru undir súð og rými (a), (b), (c) og (d) á myndinni, þar sem lofthæðin var orðin minnst, voru stúkuð af. Hægt var að komast inn í rými (a), (b) og (c) í gegnum litlar lúgur og þar inni var geymt dót sem var í lítilli notkun. Í rými c man ég að Fríða og Pálmi léku sér að heimagerðum „dúkkulísum“ en ég fékk að horfa á en tók ekki þátt. „Litlu krakkarnir“, þ.e. þau sem yngri voru, fengu að sjálfsögðu ekki að vera með.

Í rými (d) voru bókahillur meðfram veggnum að Vesturherberginu. Í þessum hillum voru m.a. heil­brigðis­skýrslur og alþingistíðindi sem af einhverjum ástæðum höfðu borist inn á heimilið, e.t.v. vegna Lestrarfélagsins en það gat líka hafa verið vegna setu pabba í hreppsnefndinni. Í þessum hillum voru líka Kviðlingar Káins, Kabloona – hvíti maðurinn og fleiri bókmenntaverk sem hafa ekki komist fyrir annarstaðar í húsinu. 

Eftir mína daga í Garðshorni, þ.e. eftir að ég fór að vera í skóla og vinnu í öðrum húsum, var víst farið að geyma hveiti og sykur í þessari „sykurkompu“ sem reyndist ekki nema í meðal­lagi góð til þess. Mér skilst að maðkur hafi komist í mjölið en þó ekki í mysuna.

Í rými (e) voru skápar meðfram stiganum milli hæða. Í þessum skápum voru bunkar af báðum tímaritunum Vikunni og Fálkanum með teiknimyndasögum af Adamson, Gissuri Gullrass og fleiri hetjum.

Í rými (g) var skorsteinninn og skápur þar sem var vatnsfata sem þjónaði sem þrýstijafnari fyrir miðstöðina. Úr botni fötunnar var rör niður í kjallara sem tengdist þar inn á miðstöðvarkerfið. Vatn þurfti að vera í fötunni til að loft færi ekki inn á miðstöðvarkerfið en miðstöðvarofnar í húsinu voru allir á innveggjum að þeirra tíma sið til að spara lagnir eins og áður segir. Fyrir vikið var hitastig í húsinu oft lægra en nú þætti viðunandi.

Á Kvistinum bjuggu Pálmi afi og Helga amma þangað til þau fluttu til Akureyrar haustið 1947. Síðan átti Steindór þetta herbergi einhver ár og um tíma var Kvisturinn gestaherbergi. Þar bjuggu Bjarni afi og Jóna, seinni kona hans, ásamt Friðgerði dóttur sinni veturinn sem þau voru í Garðshorni. Það hlýtur að hafa verið um 1950 en þau fluttu suður á Akranes 1953. Síðar var Fríða á Kvistinum þangað til hún flutti að heiman fyrir 1960 en hún var líka í Vestur­herberginu á einhverjum tíma. Eftir 1960 riðlaðist allt skipulag hvað varðaði hver hafði hvaða herbergi jafnóðum og elstu Garðshorns­börnin fóru að tínast að heiman.

Garðshorn í maí 2006

Í Austurherberginu var Kristján, hálfbróðir okkar Garðshornssystkinanna, þegar ég man fyrst eftir mér og þar var Henný kona hans þegar hún eignaðist fyrsta barn sitt, Ingolf. Henný var úr hópi þýsku vinnukvennanna sem boðið var til Íslands úr atvinnuleysi í Þýskalandi og dreift um sveitir landsins 1949. Þessar vinnu­konur giftust íslensk­um bændum og bóndasonum eins og Henný sem kom ólétt að Ingolf eða Ingólfi og tók saman við Kristján.

Þau fluttu til Akureyrar fljótt upp úr 1950 og eignuðust þar Adólf, Harald, Frímann, Maríu og Helgu Laufeyju auk þess sem þau misstu a.m.k. eitt barn. Adólf og Frímann voru um tíma í Garðshorni, Adolf fá ár en Frímann miklu lengur. Við Pálmi vorum í Austur­herberginu þangað til Pálmi fór að fara að heiman og þá kom Siggi í hans stað.

Lengi vel var aðeins eitt útvarpstæki í Garðshorni og það var í efstu hillu í eldhús­skápnum. Pálmi fann upp á því að leggja rafmagnsleiðslur úr skápnum og upp í kompuna (a) við Austur­herbergið og þannig var hægt að tengja hátalara í Austurherberginu við útvarpið í eldhúsinu. Útvarpið var stundum í gangi þótt mamma væri ekki að hlusta niðri. Hún hirti ekki alltaf um að slökkva eftir hádegisfréttirnar, var sjálf kannski að stússa í öðrum herbergjum eða niðri í kjallara yfir þvotti, og ég minnist þess að hafa legið uppi í rúmi og lesið og hlustað með öðru eyranu á útvarpið. Þetta hefur verið um 1960. Þá var stundum flutt sígild tónlist á „gömlu gufunni“ en hún var ekki í uppáhaldi hjá móður minni sem var ekki mikið fyrir tónlist yfirleitt. Hún hafði þó skoðun á því sem flutt var, fannst t.d. söngur Erlu Þorsteins­dóttur væminn. Ég hafði mest gaman af að hlusta á sjómanna­þáttinn og sjúklingaþáttinn og á laugardags­kvöldum voru spiluð danslög og þar hélt ég mest upp á hljómsveit Carls Jularbo sem lék sænsk harmonikkulög. Einhverju sinni lá ég og heyrði útundan mér tónlist úr útvarpinu, það var sígild hljómsveitartónlist og ég fór að hugsa sem svo að þetta væri líklega alls ekki svo leiðinlegt áheyrnar. Þetta reyndist vera 6. sinfónía Beethovens, Pastorale-sinfónían, sem opnaði eyru mín fyrir þessari tegund tónlistar. Nú vill svo skemmtilega til að tónskáldið Jón Hlöðver Áskels­son hefur nákvæmlega sömu sögu að segja, þetta fallega tónverk hafi opnað eyru hans líka fyrir sígildri tónlist.

Í Vesturherberginu man ég að kaupamennirnir Úlli (Ingólfur Ingólfsson) og Óskar Gunnar voru einhvern tíma um miðjan 6. áratuginn og ég man að Alla – Aðalheiður Jónsdóttir frá Barká – var í þessu herbergi 1956-1957 þegar hún var heimilisföst í Garðshorni.

Í opna rýminu á stigapallinum (h) framan við herbergin var leiksvæði. Það var þó ekki skemmtilegt eða mikið notað því að þar var frekar dimmt, sérstaklega yst undir súðinni að norðan. Lítill, lekur þakgluggi var yfir stiganum en þaðan kom eina birtan utan frá nema opið væri inn í herbergin sem yfirleitt var ekki.