Mars 1921

Mars 1921

  1. Kristmundur kom og Steindór girti pott fyrir hann.
  2. Steindór fór með vefjarverk út í Steðja, 22 hespur sem mamma átti og 8 hepur sem amma átti. Snorri[1] á Steðja liggur, er slæmur í maganum og víðar. Rósa[2] á Neðri-Vindheimum kom
  3. 6 gr. frost. Norðan grenjandi stórhríð allan daginn, hálfgert skítaveður, stokkhélaðir gluggar, hríðin bylur á þakinu. Það lá að að veturinn væri ekki búinn eins og Bensi[3] spáði.
  4. 11-12 gr. frost, illyrmislegt útlit. Jóhann Ó kom með fundarboð[4].
  5. Ég, Steindór, Steini og Jóhanna fórum á fund út í Ás kl. 5, var farið í leiki á eftir. Við komum heim kl. 2 um nóttina. Læknirinn kom að Steðja, sagði að það þyrfti að flytja Snorra inneftir til þess að skera hann upp. Elín[5] í Ási er slæm í vélindinu, selur upp. Guðrún[6] á Hamri liggur.
  6. Nonni[7] á Skjaldarstöðum kom inn
  7. Rósant á Hamri kom og fékk 2 skeifur. Pabbi fór suður að Ytri-Bægisá. Steinberg[8] í Skriðu kom
  8. Steindór gerði úti fyrir Kristmund. Kristmundur fór ofan að Grjótgarði og sótti sleðann og 200 pund af rúgmjöli og kom með það hingað heim. Snorri á Steðja var fluttur í rúmi á sleða inneftir. Bjarni á Hamri kom með fundarboð.
  9. Rósant kom og fékk hvíta tvinnarúllu. Þorleifur kom og fékk 3 skífur.
  10. Jón Hólm og Einar Sigvaldason[9] komu, Einar fékk lánuð skíði. Rósant á Hamri kom og Hreggviður
  11. Hreggviður kom með Kol en hann strauk aftur. Guðrún á Hamri var flutt inneftir, Steindór fór með henni. Þorlákur á Bryta kom og skoðaði kláðaskoðun. Einar gamli kom og skilaði skíðunum, sagði tvö mannslát, Kató[10] Jónsson og Þorsteinn[11] í Rauðuvík. Krabbinn. Sófus[12] kom og Alli[13] Jóhannsson.
  12. Steindór kom heim úr kaupstaðnum.
  13. Jóhanna fór út í Ás. Zóphús kom og Alli. Þorleifur. Steini fór útí Rauðalæk.
  14. Snorri á Steðja dó í gærkvöldi. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum og Neðri-Rauðalæk.
  15. Ég fór ofan að Hamri og út í Rauðalæk. Steini fór út í Rauðalæk og ofan að Laugalandi með tað. Pabbi fór ofan að Hamri.
  16. Bjarni á Hamri kom. Pabbi fór ofan að Hamri. Mamma, Kári og Bára fóru út í Bryta. Ekið taði frá húsinu út og niður[14] suður og ofan á sléttur. Sigvaldi kom og sótti svörð. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum.
  17. Sófus kom og Gestur[15]. Hreggviður. Steindór fór út að N-Vindheimum. Ekið út úr hesthúsi.
  18. Hreggi kom og Elísabet með fundarboð og kaupfélagsreikning til Steina. Pabbi fór fram að Efstalandi.
  19. Ég fór yfir að Lönguhlíð. Steindór fór út að N-Vindheimum, sótti síldarkvartil. Kári fór út í Bryta. Jóhann[16] á Neðstalandi kom og fékk 2 ½ hest svörð. Ekið heim sverði. Páll í Skriðu kom með hrosshár.
  20. Steindór fór út að N-Vindheimum, ég fór út í Ás.
  21. Steindór og Jóhanna fóru í kaupstað og komu heim um kvöldið.
  22. Páll í Skriðu kom með bréf.
  23. Hreggi kom.
  24. Steindór fór yfir að Þúfnavöllum. Hreggviður kom. Kristmundur gekk í burtu frá Bægisá að mestu leyti. Ég fór með hest og sleða með dóti á út og ofan að Hamri. Pabbi fór suður að Bægisá.
  25. Föstudagurinn langi. Ella og Laufey[17] gengu um. Stofumessa á Bægisá. Kristmundur kom.
  26. Steindór fór yfir að Lönguhlíð. Pabbi fór út að N-Vindheimum og Bryta. Ekið út úr hesthúsi . Einhver ólund í Skjóna. Hreggi var nóttina. Snorri Guðmundsson var jarðaður.
  27. Jóhanna og Bára fóru til kirkju. Steindór gerði úti suður á Bægisá. Eiríkur og Svafa gengu um.
  28. Kristmundur kom tvisvar, fyrst með 3 kindur sem eiga að vera hér og svo í seinna skiptið ti að fá sleða. Hreggviður er hér á nóttunni og Steindór gerir úti á Bægisá undir umsjá Jósavins. Pabbi fór ofan að Hamri.
  29. Páll í Skriðu kom og Kristín[18] og Lína. Ég fór ofan að Hamri. Á föstudaginn langa fæddist barn á Efstalandi[19].
  30. Kristmundur kom með 90 pund af heyi sem hann leggur til með kindunum sínum. Jón Þ[20] í Lönguhlíð kom til þess að finna Kristmund. Pabbi fór út í Ás á fund sem haldinn var þar fyrir fjóra hreppa til að ræða um kaup verkafólks næsta ár, 15 menn sátu fundinn. Pabbi kom með „Geisla“[21] utan úr Rauðalæk. Guðrún á Hamri liggur á spítalanum og Árni B. var skorinn upp á skírdag. Botnlangabólga.

 

 

[1] Snorri Guðmundsson (1886-1921) var bóndi á Steðja, faðir margfrægs Stefáns Guðmundar vörubílstjóra.
[2] Rósa gæti hafa verið Sigurrós Sigtryggsdóttir (1888-1942), húskona á Neðri-Vindheimum, kona Tryggva, móðir Maríu Sigtryggsdóttur. Rósa gæti líka hafa verið Sigurrós Pálsdóttir (1872-1926) húsfreyja á Neðri-Vindheimum og síðar Efri-Vindheimum, móðir Jóns Hólm Friðrikssonar, sem áður hefur komið fyrir. Seinni maður hennar var Karl bóndi á Efri-Vindheimum. Þriðji möguleikinn er Jóhanna Bergrós (1907-1924), dóttir Sigurrósar Pálsdóttur og systir Jóns Hólm.
[3] Bensi er líklega Jóhann Benedikt Jónsson á Hallfríðarstöðum, 67 ára, faðir Halls bónda þar. Benedikt þessi var bóndi í Garðshorni 1889-1897, þeir Guðmundur Sigfússon Garðshornsbóndi frá 1899 bræðrasynir af Flöguselsætt. Bensi þessi var afi Brynleifs Hallssonar tónlistarmanns og langafi Benedikts Brynleifssonar slagverksleikara sem er líklega einn af mjög fáum nútímamönnum sem rekja nafn sitt til Benedikts í Flöguseli. 
[4] Ungmennafélagsfundur daginn eftir.
[5] Elín Margrét Jónasdóttir (1876-1921), seinni kona Sigurjóns bónda í Ási, móðir Sigrúnar konu Kára á Þverá, hálfsystir Önnu ljósmóður á Þverá. Elín dó í ágúst þetta ár.
[6] Guðrún Bjarnadóttir (1866-1935), kona Rósants bónda á Hamri, móðir Þorleifs, Fríðu og Bjarna. Systir Guðrúnar var Sigríður móðir Sigmars Hóseassonar sem var faðir Sigga á Hamri, fóstursonar Fríðu og Þorleifs.
[7] Jón Jónsson (1885-1967) bóndi á Skjaldarstöðum, bróðir Aðalheiðar ljósmóður á Barká. Fóstri Baldurs Ragnars flutningabílstjóra og Steindórs Kristfinnssonar rafvélavirkjameistara. Magnús faðir Jóns og Aðalheiðar og Steinunn Anna í Garðshorni voru systrabörn. Aðalheiður á Barká og Pálmi í Garðshorni voru þremenningar. 
[8] Jón Steinberg Friðfinnsson (1901-1931) sonur Friðfinns Pálssonar sem var bóndi í Skriðu 1900-1917. Friðfinnur og Gísli á Neðri-Vindheimum voru bræðrasynir, báðir af Stóragerðisætt. Á þessum tíma var þríbýlt í Skriðu, ábúendur úr sömu fjölskyldu.
[9] Einar Sigvaldason (1855-1936) átti heima á Hjalteyri, engin sjáanleg tengsl Einars gamla við Garðshyrninga.
[10] Óskar Kató Aðalsteinn Jónsson (1901-1921) átti heima í Hrísey.
[11] Þorsteinn Vigfússon (1849-1921) bóndi í Rauðuvík eða Rauðavík.
[12] Sigurgeir Sófus (Zóphus) Gissurarson (1883-1965) faðir Ragnheiðar Jóhönnu Báru tökubarns í Garðshorni. Sófus bjó á Þinghóli í Kræklingahlíð ásamt konu sinni, Kristjönu Jóhannsdóttur, og þremur dætrum. Ekki er ljóst af hverju Báru einni var komið fyrir hjá vandalausum, væntanlega vegna fátæktar.
[13] Væntanlega Aðalsteinn Jóhannsson (1892-1977) bóndi á Skútum. Kona hans var Sigríður Sigurjónsdóttir Friðriks Jónssonar sem bjó í Garðshorni 1897-1899. Aðalsteinn og Sigríður áttu t.d. Jónas sem bjó á Grjótgarði og í Ási, giftur Þrúði Gunnarsdóttur frá Sólborgarhóli, og þau áttu líka Ásmund föður Þrastar.
[14] Fjárhús sem stóð utan og neðan við bæinn, sjá byggingasögu Garðshorns.
[15] Ekki gott að segja hver Gestur var, hugsanlega Halldórsson (1910-1973) sonur þáverandi ábúenda í Bakkaseli. Annar möguleiki væri Gestur Sæmundsson (1903-2004) síðar bóndi á Efstalandi en móðir hans var vinnukona á Syðri-Bægisá um þetta leyti.
[16] Sigurður Jóhann Sigurðsson (1872-1953) bóndi á Neðstalandi, bróðir m.a. Rósants á Hamri, Jóhannesar föður Jóa á Vindheimum og Jóhönnu móður Gísla manns Maríu Valgerðar Sigtryggsdóttur.
[17] Systurnar frá Efri-Rauðalæk
[18] Kristín Hallgrímsdóttir (1876-1956) kona Kristmundar á Bægisá, móðir Hreggviðar Sveinssonar Björnssonar frá Flöguseli. Sá Sveinn Björnsson var þó ekki faðir Brynjólfs í Koti heldur var Soffía systir Sveins móðir Brynjólfs.
[19] Ásta Frímannsdóttir (1921-1996) Guðmundssonar og Margrétar systur Steina.
[20] Jón Stefánsson Thorarensen (1870-1961) bóndi í Lönguhlíð, frændi Þorláks á Bryta.
[21] Geisli var gamanblað sem kom fyrst út 1917, ritstjóri Ólafur Guðnason frá Signýjarstöðum. Fimm blöð komu út 1917 en síðan ekki meira enda var blaðið ekkert mjög skemmtilegt.