Ágúst Guðbjörn Jónsson[1]
Elísabet Guðmundsdóttur var unnusta Sigurðar, sonar Jóns og Margrétar á Breiðabóli, þegar hann fórst í sjóslysi á Bolungarvík í nóvember 1894. Elísabet gekk þá með barn þeirra Sigurðar sem fæddist í júlí árið eftir. Eftir slysið fór Elísabet með dóttur sína, sem nefnd var Sigurða eftir föður sínum, út í Breiðaból til tengdaforeldra sinna. Rúmu ári eftir að Margrét lést árið 1900 eignaðist Elísabet soninn Ágúst Guðbjörn með Jóni tengdaföður sínum sem Hafliði, dóttur- og fóstursonur hans, sagði að hefði verið kátur og glaðlyndur maður.
Óskar Jóhannsson, dóttursonur Elísabetar, segir svo frá í bók sinni Bernskudögum að „yfirvöld á þessum tíma [hafi litið] það alvarlegum augum ef kona eignaðist börn með feðgum en í gömlum dönskum lögum lá hörð refsing við þessu. Mun hafa komið til einhvers málarekstrar hjá embætti sýslumannsins á Ísafirði og hraktist Elísabet frá Breiðabóli af þessum sökum.“[2]
Elísabet fór með Sigurðu og Ágúst frá Breiðabóli í vist til Jóhanns Sörensen Reyndal bakara og Halldóru konu hans í Bolungarvík en Ágústi var fljótlega komið í fóstur á Hamri á Langadalsströnd hjá barnlausum en vandalausum hjónum, Hávarði Guðmundssyni og Sigríði Guðmundsdóttur. Sagt er að danski bakarinn Jóhann eða jafnvel bakarafrúin, sem var íslensk, hafi komið Elísabetu til hjálpar þegar til stóð að kæra hana fyrir siðferðisbrotið og bent mönnum á að lögin sem hún átti að hafa brotið hefðu verið afnumin í Dönmörku og þar með á Íslandi fyrir mörgum áratugum.
Ekki er þess getið að Jón hafi fengið nokkrar kárínur fyrir barneignina.
Fljótlega eftir komuna til Bolungarvíkur gerðist Elísabet ráðskona og síðar þriðja eiginkona Gísla Jónssonar[3], „Gísla skálda“, og eignaðist með honum fjögur börn sem komust upp. Ágúst kom aftur til móður sinnar þegar hún hóf sambúð með Gísla en ólst þó meira og minna upp á Hamri, líklega að mestu frá 8 ára aldri[4] en kirkjubókin segir þó að Ágúst Jónsson smali hafi flust frá Bolungarvík í Hamar árið 1917 og hann var skráður til heimilis hjá Elísabetu í manntali bæði 1910 og 1920. Hins vegar fermdist hann í Nauteyrarkirkju á Langadalsströnd. „Ágúst varð síðar vinnumaður hjá Halldóri á Laugabóli [í Ísafirði] þegar hann stálpaðist. Hann veiktist af taugaveiki og lá veikur langan vetur og Sigvaldi Kaldalóns stundaði hann.
Hann sagði frá því að læknirinn hefði lagt áherslu á að hann fengi frískt loft á sóttarsængina og því hefði gluggi verið hafður opinn, þegar hægt var, og á stundum hefði verið snjór á sænginni þegar hann vaknaði. Hann náði sér af veikindunum og varð hraustmenni og eins og segir í afmælisgrein um hann í Morgunblaðinu 23. okt 1951 þá sat hann ungur yfir ám og stundaði sjómennsku á árabátum frá 13 ára aldri. Hann sagði líka frá því að hann og annar unglingur á Hamri hefðu villst í hríðarveðri þegar þeir fóru til kinda inn á Blævadal laugardaginn fyrir páska. Víst er að þessi lífsreynsla fylgdi honum alla ævi því hann rifjaði oft upp þennan atburð um páska.
Það er líka víst að honum líkaði vistin á Laugabóli vel og hann minntist Þórðar bónda og Höllu skáldkonu alltaf með virðingu.“[5]
Ágúst flutti að vestan í Austur-Húnavatnssýsluna árið 1921, fyrst að Tindum og síðan að Stóru-Giljá þar sem hann var til 1928 er hann hóf bílstjóraferil sinn. Hann var í hópi fyrstu bifreiðarstjóra í Austur-Húnavatnssýslu og var með ökuskírteini númer 2 í sýslunni, byrjaði að aka 1928.
„Á meðan Ágúst var á Hamri stundaði hann sjóróðra á vetrarvertíðum frá Bolungarvík bæði á árabátum og vélbátum, eins reri hann nokkrar vetrarvertíðir frá Suðurnesjum eftir að hann kom að Giljá. Búskapurinn átti hug hans allan og var hann ákveðinn í því að verða bóndi. Sem vinnumaður á Giljá hafði hann komið sér upp 200 fjár og verður það að teljast einsdæmi en ekki fékk Ágúst frændi minn neina jörð, sem honum leist á til ábúðar, og árið 1928, þegar hann var 27 ára gamall, seldi hann mikið af fé sínu, fluttist til Blönduóss og gerðist bifreiðarstjóri. Hann stundaði þá atvinnu til dauðadags, í samfellt 55 ár.“[6]
Á Blönduósi starfaði Ágúst ekki aðeins sem bifreiðarstjóri til æviloka heldur átti hann og gerði út hópferðabíla og vörubíla.
Þá rak fjölskyldan einnig Shell-bensínstöðina sem lengi stóð á bakka Blöndu. Þjóðvegurinn lá á þeim tíma framhjá húsi Ágústs og frændfólk, sem átti leið hjá, leit gjarnan við. Sigurður, sonur Ágústs, minnist t.d. heimsókna Hafliða Bjarnasonar, systursonar Ágústs, sem fór um á rauðum Ford-vörubíl með „boddý“ á pallinum þar sem fólk sat. Sigurður segir einnig:
„Eins og oft er með fólk sem flytur úr heimahögum, þá hafði pabbi sterkar taugar í átthagana og þegar hann komst í færi við fólk að vestan, spurði hann tíðinda og lagðist stundum í sögur af sínu fólki, þannig hefur maður alltaf verið meðvitaður um uppruna sinn, þótt tengsl hafi verið mjög lítil. Eitt sem hann gerði á fyrri árum, var að þegar skólastúlkur af Vestfjörðum komu á Kvennaskólann á Blönduósi, þá bauð hann þeim gjarnan heim eina kvöldstund til spjalls um lífið fyrir vestan og ekki var lakara ef einhver voru tengslin. Það var honum í blóð borið að greiða götur frændfólks að vestan. Þannig var t.d. með Hjört bróður hans sem reyndar hafði einnig verið sendur að Hamri sem unglingur og kom síðar á eftir honum í Húnavatnssýslurnar og vistaðist á Stóru-Giljá.“[7]
Því má svo bæta við þetta að Ágúst hafði slíkar taugar til Breiðabóls í Skálavík að hann nefndi hús sitt á Blönduósi Breiðaból og lét sandblása nafnið í glerið í útihurðinni. Húsið stóð við þjóðveginn sem áður lá ofan að Blöndubakka, drjúgan spöl utan við Blöndubrúna. Þar var Shell-stöðin sem fjölskyldan rak um árabil eða þangað til vegurinn var færður og stöðin var ekki lengur í alfaraleið. Breiðaból var þó ekki opinbert heiti á húsi fjölskyldunnar og nú er nafnið horfið af útihurðinni.
„Þó það hafi ekki legið fyrir honum að verða búandi bóndi á jörð, þá losnaði hann aldrei við þann brennandi áhuga á að hugsa um búfénað, hann var alla tíð með kindur á Blönduósi á Einarsnesi og á tímabili komst hann aftur upp í það að eignast 200 fjár. Hann stundaði sinn búskap fyrir utan vinnutíma, eins og hann orðaði það, þó svo að venjulegur vinnutími hafi oft á tíðum verið fram undir miðnætti. Ágúst var einn af stofnendum vörubílstjórafélagsins Neista og heiðursfélagi þess. Hann átti sæti í hreppsnefnd í 8 ár. Var umsjónarmaður samkomuhússins á Blönduósi um árabil og sá á fyrri árum um út- og uppskipun á vörum á Blönduósi þegar flytja þurfti þær á smábátum að og frá landi áður en hafnarinnar naut við.“[8]
Eiginkona Ágústs var Margrét Jónsdóttir[9], dóttir Margrétar Valdemarsdóttur frá Akureyri sem var titluð leikkona en var fósturdóttir Jakobs Karlssonar bónda í Lundi og skipaafgreiðslumanns á Akureyri og Kristínar Jónsdóttur konu hans. Börn Ágústs og Margrétar voru Kristín, Jakob og Sigurður.
Kristín[10] hefur búið alla ævi á Blönduósi. Maður hennar var Valur Snorrason[11] rafvirkjameistari á Blönduósi og börn þeirra eru Þóra Lilja skrifstofumaður, starfaði um tíma hjá Sýslumanninum á Blönduósi, Ágúst Guðbjörn, sem lærði ferðamálafræði í Danmörku, og Valur Kristján búfræðingur. Fyrir hjónaband hafði Kristín eignast Margréti með Bjarna Sigfússyni[12]. Margrét býr á Hellu. Eftir lát Vals bjó Kristín með Sigursteini Guðmundssyni[13] héraðslækni á Blönduósi.
Jakob[14] var loftskeytamaður og verslunarmaður í Reykjavík, giftur Auði Björgu Franklín Jóhannsdóttur[15] frá Akureyri – þau eignuðust Maríu, búsetta í Reykjavík, og Ágúst kvikmyndagerðarmann sem er búsettur erlendis.
Sigurður Jóhannes[16] var rafveitustjóri á Sauðárkróki, giftur Önnu Rósu[17] dóttur sr. Skarphéðins í Bjarnarnesi, systur Guðjóns, Gunnars, Bergþóru og þeirra systkina. Sigurður og Anna Rósa eiga Héðin lækni í Reykjavík, Elísabetu búsetta í Lúxembúrg og Margréti Ágústu sem býr í Ósló. Héðinn var um tíma heilsugæslulæknir á Blönduósi, giftur Sunnu Gestsdóttur Guðmundssonar frá Karlsá.
[1] Ágúst Guðbjörn Jónsson f. 28. 9. 1901, d. 21. 7. 1983
[2] Óskar Jóhannsson: Bernskudagar bls. 22 – 23.
[3] Gísli Jónsson f. 14. 4. 1851, d. 25. 9. 1919
[4] Jóhann Líndal Jóhannsson: Minningargrein í Mbl. 14. 9. 1983
[5] Jóhann Líndal Jóhannsson: Minningargrein í Mbl. 14. 9. 1983
[6] Jóhann Líndal Jóhannsson: Minningargrein í Mbl. 14. 9. 1983
[7] Sigurður Ágústsson, tölvupóstur 19. 4. 2016
[8] Jóhann Líndal Jóhannsson: Minningargrein í Mbl. 14. 9. 1983
[9] Margrét Jónsdóttir f. 23. 1. 1915, d. 19. 6. 1988
[10] Kristín Ágústsdóttir f. 28. 6. 1940
[11] Valur Snorrason f. 15. 11. 1936, d. 7. 3. 1993
[12] Bjarni Sigfússon f. 13. 9. 1933
[13] Sigursteinn Guðmundsson f. 16. 11. 1928, d. 20. 4. 2016
[14] Jakob Ágústsson f. 14. 3. 1944, d. 18. 8. 2013
[15] Auður Björg Franklín Jóhannsdóttir f. 16. 10. 1944
[16] Sigurður Jóhannes Ágústsson f. 1. 3. 1949
[17] Anna Rósa Skarphéðinsdóttir f. 16. 10. 1948