Maí 1921
- Amma og pabbi fóru fram að Efstalandi, amma reið Skjóna en pabbi reið á Bleik. Svo varð amma eftir fremra en pabbi fór með Skjóna að Neðstalandi og lét járna hann. Steini fór ofan að Krossastöðum ríðandi á Rauðku sinni en ég var heima lét út og svoleiðis. Svafa og Laufey komu með bréf til mín frá Eiríki um að koma á fótboltamót en ég gat ekki farið.
- Stúlkurnar voru við hreingerningu en ég, Steini og pabbi vorum að mala sauðatað.
- Ekki hægt að mala sauðatað fyrir frosti. Hreggi kom.
- Sveinn á Steinsstöðum kom. Ég ók fáeinum hjólbörum á völl, svo var stungið út undan hrútunum og malað um leið. Ég sótti hrossin út og ofan á eyrar um kvöldið.
- Einar kom og var nóttina. Hann bað að taka Báru næsta ár en það var ekki gert.
- Einar fór heim til sín, ekkert hægt að gera að marki.
- Við Steini ristum ofan af ofurlitlu móhorni. Jón á Skjaldarstöðum kom.
- Ég fór á fótboltamót út og ofan á Skógabakka og kom við í Ási. Svafa og Laufey komu við, þær ganga til yfirheyrslu. Anna á Bryta kom og var hér nóttina. Benedikt[1] á Bægisá kom. Ólöf og Sigurgeir[2] á Vöglum komu. Tryggvi[3] á N-Vindheimum kom.
- Pabbi flutti dót fyrir Tryggva frá Bægisá út að N-Rauðalæk, fór með hest og kerru. Jón Baldvinsson[4] kom og bað um fæði fram um hátíð og fékk það, sefur hér á næturnar. Við Steini voru að reyna að mala en það gekk illa því maskínan er léleg.
- Það var verið að mala og vélin varð ónýt. Pabbi fór ofan að Hamri til að reyna að fá vél en fékkst ekki svo fór hann ríðandi á Bleik, fyrst út í Þríhyrning, svo fór pabbi þangað og fékk Árna og kom með hann. Laufey kom með fundarboð.
- Árni setti nýjan möndul í vélina og fór svo. Pabbi fór inn í Krossanes og fékk 180 pund af signum fiski og fór inn á Akureyri um leið. Kári fór út í Rauðalæk og ofan í Hamar til að reyna að fá hjólsveifarnafar en hann fékkst ekki. Ég fór út í Bryta í sömu erindum en árangurslaust. Bára fór ofan að Hamri.
- Malað í krafti.
- Malað og herfað. Ég fór út í Rauðalæk.
- Nú hafa margir vistaskipti. Á Neðri-Rauðalæk sem er eign hreppsins verður næsta ár Tryggvi og Rósa frá N-Vindheimum og Anna[5] á Bryta, hefur Tryggvi helminginn og Steini hérna hinn helminginn og Sigvaldi tíundapartinn. Hann flytur inn í Bót. Gestur á Bægisá fer út í Hellu en Hreggi verður á Bægisá í sumar. Það kom margt fólk hér í dag. Magga[6] á Tréstöðum kom fyrst, svo kom Jósavin með piltunum sunnanað og fékk að borða. Jón Baldvinsson hætti að koma hér. Svo fóru Magnús Gunnarsson[7] og Steinunn Gunnlaugsdóttir fram í Bægisá og létu gefa sig saman í hjónaband. Í fylgd með þeim voru hjónin Björn og Gunnlaug[8] frá Lóni. Þetta fólk kom hér allt og tafði dálitla stund.
- Hvítasunnudagur. Messað á Bægisá og 3 drengir fermdir. Hér fór um fjöldi fólks en inn kom aðeins Lei á Vöglum og Rósa á N-Rauðalæk. Steindór fór í síðasta sinn til að hirða suður að Bægisá. Til kirkju fór Jóhanna og pabbi og Steindór. Ærnar byrja að bera
- Gemlingarnir látnir liggja úti. Katrín á Rauðalæk og Árni[9] Pabbi fór ofan að Hamri. Steini fór út í Rauðalæk.
- Herfað og stungið út úr hesthúsi.
- Herfað.
- Tryggvi á N-Rauðalæk kom til að sækja Steina því Einar skipti túninu
- Ég, Steindór og Jóhanna fórum út og ofan að Neðri-Rauðalæk til að mala fyrir Steina og mamma og Kári seinna.
- Það var malað fyrir Steina út og niður en hann var heima við lambærnar sem eru flestar tvílemdar.
- Steindór fór suður að Bægisá með mjólk til frúarinnar. Pabbi fór út að Bryta.
- Túnið var ausið[10] það sem komið var á það og svo var farið yfir það með herfi með pörtum.
- Steini, Steindór og Jóhanna fóru út og ofan í N-Rauðalæk til að ausa túnið hans Steina.
- Hústóttin efra var rifin, þar er aðeins eftir ofurlítil tugga af heyi.
- Jósavin kom og Aðalbjörn Pálsson[11]
- Steindór fór í kaupstað með reiðingshest og kom heim um kvöldið
- Pabbi fór á „framfarafélagsfund“ inn í Þinghús, ríðandi á Bleik. Tvær lambær lágu úti í nótt, þær fyrstu á þessu vori, hér að segja. Flestar ærnar bornar. Bjarni búfræðingur[12] reið um.
- Við Steini fórum út og ofan að N-Rauðalæk og möluðum og jusum 6 hlössum af skít. Steindór var úti á N-Vindheimum við að stinga upp félagsgarðinn.
- Ég fór út og ofan að Neðri-Rauðalæk til að sækja skítavélina. Maímánuður er liðinn og hefur ekki verið blíður í sér.
[1] Líklega fyrrnefndur Benedikt sá sem áður bjó í Garðshorni, faðir Halls í Hallfríðarstaðakoti og Sveins Geirmars sem um þetta leyti var bóndi á Ytri-Bægisá á móti sr. Theódór en bjó síðar í Litlubrekku í Arnarneshreppi.
[2] Sigurgeir Guðmundsson (1858-1937) frá Stóra-Grindli í Fljótum og Ólöf Rósa Manasesdóttir (1866-1937), fædd á Steðja, systir Guðjóns föður Manasesar bónda á Barká og Kristfinns ljósmyndara á Siglufirði. Mikill vinskapur var milli Vaglahjónanna og Garðshornsfólksins.
[3] Sigtryggur faðir Maríu sem þarna var að flytja frá N-Vindheimum í N-Rauðalæk.
[4] Títtnefndur Benedikt á Ytri-Bægisá var giftur Jóhönnu Hallsdóttur, seinni maður hennar. Hún átti Jón Baldvinsson (1877-1955) í fyrra hjónabandi en Jón þessi átti á þessum tíma heima á Þverá í Öxnadal ásamt Guðrúnu konu sinni Hallgrímsdóttur (1891-1980), systur Kristínar eldri á Neðri-Rauðalæk.
[5] Anna Sigríður Sigurðardóttir (1852-1922), Anna stóra, var húskona í Garðshorni 1909-1915. Þær Steinunn langamma voru hálfsystkinabörn. Anna var þarna að flytjast í Neðri-Rauðalæk og árið eftir dó hún þar.
[6] Margrét Halldórsdóttir (1906-2009) frá Tréstöðum giftist síðar Friðriki Tryggva Jónssyni (1908-1986), Tryggva í Krossanesi, sem kom stundum til að laga Farmalinn í Garðshorni.
[7] Magnús Gunnarsson (1861-1939) var faðir Pálínu móður Kára Larsen. Helga Andrésdóttir, móðir Magnúsar, var systir Ingibjargar móður Helgu ömmu. Steinunn Gunnlaugsdóttir (1891-1971) var utan úr Arnarneshreppi.
[8] Björn Oddsson (1886-1956) og Gunnlaug Gunnlaugsdóttir (1882-1968) bjuggu síðar á Hellulandi í Kræklingahlíð. Björn hafði áður eignast Sigþór sem var bóndi á Hellulandi í mínu ungdæmi. Gunnlaug var systir Steinunnar sem var að fara að gifta sig á Bægisá.
[9] Árni Júlíus Haraldsson (1915-2002) sonur Katrínar og Haralds á Efri-Rauðalæk, hann bjó síðar lengi á Hallfríðarstöðum en vann í Bögglageymslu KEA með pabba eftir að báðir fluttu til Akureyrar.
[10] Túnið var ausið – möluðu sauðataði var ausið eða dreift á túnið
[11] Guðmundur Aðalbjörn Pálsson (1896-1944), hafði áður verið bóndi í Heiðarhúsum
[12] Bjarni búfræðingur?