Maí 1921

Maí 1921

  1. Amma og pabbi fóru fram að Efstalandi, amma reið Skjóna en pabbi reið á Bleik. Svo varð amma eftir fremra en pabbi fór með Skjóna að Neðstalandi og lét járna hann. Steini fór ofan að Krossastöðum ríðandi á Rauðku sinni en ég var heima lét út og svoleiðis. Svafa og Laufey komu með bréf til mín frá Eiríki um að koma á fótboltamót en ég gat ekki farið.
  2. Stúlkurnar voru við hreingerningu en ég, Steini og pabbi vorum að mala sauðatað.
  3. Ekki hægt að mala sauðatað fyrir frosti. Hreggi kom.
  4. Sveinn á Steinsstöðum kom. Ég ók fáeinum hjólbörum á völl, svo var stungið út undan hrútunum og malað um leið. Ég sótti hrossin út og ofan á eyrar um kvöldið.
  5. Einar kom og var nóttina. Hann bað að taka Báru næsta ár en það var ekki gert.
  6. Einar fór heim til sín, ekkert hægt að gera að marki.
  7. Við Steini ristum ofan af ofurlitlu móhorni. Jón á Skjaldarstöðum kom.
  8. Ég fór á fótboltamót út og ofan á Skógabakka og kom við í Ási. Svafa og Laufey komu við, þær ganga til yfirheyrslu. Anna á Bryta kom og var hér nóttina. Benedikt[1] á Bægisá kom. Ólöf og Sigurgeir[2] á Vöglum komu. Tryggvi[3] á N-Vindheimum kom.
  9. Pabbi flutti dót fyrir Tryggva frá Bægisá út að N-Rauðalæk, fór með hest og kerru. Jón Baldvinsson[4] kom og bað um fæði fram um hátíð og fékk það, sefur hér á næturnar. Við Steini voru að reyna að mala en það gekk illa því maskínan er léleg.
  10. Það var verið að mala og vélin varð ónýt. Pabbi fór ofan að Hamri til að reyna að fá vél en fékkst ekki svo fór hann ríðandi á Bleik, fyrst út í Þríhyrning, svo fór pabbi þangað og fékk Árna og kom með hann. Laufey kom með fundarboð.
  11. Árni setti nýjan möndul í vélina og fór svo. Pabbi fór inn í Krossanes og fékk 180 pund af signum fiski og fór inn á Akureyri um leið. Kári fór út í Rauðalæk og ofan í Hamar til að reyna að fá hjólsveifarnafar en hann fékkst ekki. Ég fór út í Bryta í sömu erindum en árangurslaust. Bára fór ofan að Hamri.
  12. Malað í krafti.
  13. Malað og herfað. Ég fór út í Rauðalæk.
  14. Nú hafa margir vistaskipti. Á Neðri-Rauðalæk sem er eign hreppsins verður næsta ár Tryggvi og Rósa frá N-Vindheimum og Anna[5] á Bryta, hefur Tryggvi helminginn og Steini hérna hinn helminginn og Sigvaldi tíundapartinn. Hann flytur inn í Bót. Gestur á Bægisá fer út í Hellu en Hreggi verður á Bægisá í sumar. Það kom margt fólk hér í dag. Magga[6] á Tréstöðum kom fyrst, svo kom Jósavin með piltunum sunnanað og fékk að borða. Jón Baldvinsson hætti að koma hér. Svo fóru Magnús Gunnarsson[7] og Steinunn Gunnlaugsdóttir fram í Bægisá og létu gefa sig saman í hjónaband. Í fylgd með þeim voru hjónin Björn og Gunnlaug[8] frá Lóni. Þetta fólk kom hér allt og tafði dálitla stund.
  15. Hvítasunnudagur. Messað á Bægisá og 3 drengir fermdir. Hér fór um fjöldi fólks en inn kom aðeins Lei á Vöglum og Rósa á N-Rauðalæk. Steindór fór í síðasta sinn til að hirða suður að Bægisá. Til kirkju fór Jóhanna og pabbi og Steindór. Ærnar byrja að bera
  16. Gemlingarnir látnir liggja úti. Katrín á Rauðalæk og Árni[9] Pabbi fór ofan að Hamri. Steini fór út í Rauðalæk.
  17. Herfað og stungið út úr hesthúsi.
  18. Herfað.
  19. Tryggvi á N-Rauðalæk kom til að sækja Steina því Einar skipti túninu
  20. Ég, Steindór og Jóhanna fórum út og ofan að Neðri-Rauðalæk til að mala fyrir Steina og mamma og Kári seinna.
  21. Það var malað fyrir Steina út og niður en hann var heima við lambærnar sem eru flestar tvílemdar.
  22. Steindór fór suður að Bægisá með mjólk til frúarinnar. Pabbi fór út að Bryta.
  23. Túnið var ausið[10] það sem komið var á það og svo var farið yfir það með herfi með pörtum.
  24. Steini, Steindór og Jóhanna fóru út og ofan í N-Rauðalæk til að ausa túnið hans Steina.
  25. Hústóttin efra var rifin, þar er aðeins eftir ofurlítil tugga af heyi.
  26. Jósavin kom og Aðalbjörn Pálsson[11]
  27. Steindór fór í kaupstað með reiðingshest og kom heim um kvöldið
  28. Pabbi fór á „framfarafélagsfund“ inn í Þinghús, ríðandi á Bleik. Tvær lambær lágu úti í nótt, þær fyrstu á þessu vori, hér að segja. Flestar ærnar bornar. Bjarni búfræðingur[12] reið um.
  29. Við Steini fórum út og ofan að N-Rauðalæk og möluðum og jusum 6 hlössum af skít. Steindór var úti á N-Vindheimum við að stinga upp félagsgarðinn.
  30. Ég fór út og ofan að Neðri-Rauðalæk til að sækja skítavélina. Maímánuður er liðinn og hefur ekki verið blíður í sér.

 

[1] Líklega fyrrnefndur Benedikt sá sem áður bjó í Garðshorni, faðir Halls í Hallfríðarstaðakoti og Sveins Geirmars sem um þetta leyti var bóndi á Ytri-Bægisá á móti sr. Theódór en bjó síðar í Litlubrekku í Arnarneshreppi.
[2] Sigurgeir Guðmundsson (1858-1937) frá Stóra-Grindli í Fljótum og Ólöf Rósa Manasesdóttir (1866-1937), fædd á Steðja, systir Guðjóns föður Manasesar bónda á Barká og Kristfinns ljósmyndara á Siglufirði. Mikill vinskapur var milli Vaglahjónanna og Garðshornsfólksins.
[3] Sigtryggur faðir Maríu sem þarna var að flytja frá N-Vindheimum í N-Rauðalæk.
[4] Títtnefndur Benedikt á Ytri-Bægisá var giftur Jóhönnu Hallsdóttur, seinni maður hennar. Hún átti Jón Baldvinsson (1877-1955) í fyrra hjónabandi en Jón þessi átti á þessum tíma heima á Þverá í Öxnadal ásamt Guðrúnu konu sinni Hallgrímsdóttur (1891-1980), systur Kristínar eldri á Neðri-Rauðalæk.
[5] Anna Sigríður Sigurðardóttir (1852-1922), Anna stóra, var húskona í Garðshorni 1909-1915. Þær Steinunn langamma voru hálfsystkinabörn. Anna var þarna að flytjast í Neðri-Rauðalæk og árið eftir dó hún þar.
[6] Margrét Halldórsdóttir (1906-2009) frá Tréstöðum giftist síðar Friðriki Tryggva Jónssyni (1908-1986), Tryggva í Krossanesi, sem kom stundum til að laga Farmalinn í Garðshorni.
[7] Magnús Gunnarsson (1861-1939) var faðir Pálínu móður Kára Larsen. Helga Andrésdóttir, móðir Magnúsar, var systir Ingibjargar móður Helgu ömmu. Steinunn Gunnlaugsdóttir (1891-1971) var utan úr Arnarneshreppi.
[8] Björn Oddsson (1886-1956) og Gunnlaug Gunnlaugsdóttir (1882-1968) bjuggu síðar á Hellulandi í Kræklingahlíð. Björn hafði áður eignast Sigþór sem var bóndi á Hellulandi í mínu ungdæmi. Gunnlaug var systir Steinunnar sem var að fara að gifta sig á Bægisá.
[9] Árni Júlíus Haraldsson (1915-2002) sonur Katrínar og Haralds á Efri-Rauðalæk, hann bjó síðar lengi á Hallfríðarstöðum en vann í Bögglageymslu KEA með pabba eftir að báðir fluttu til Akureyrar.
[10] Túnið var ausið – möluðu sauðataði var ausið eða dreift á túnið
[11] Guðmundur Aðalbjörn Pálsson (1896-1944), hafði áður verið bóndi í Heiðarhúsum
[12] Bjarni búfræðingur?