Bjarni Þorláksson

Bjarni Þorláksson[1]

var 9 árum eldri en Jóna Jónsdóttir. Hann fæddist á Hjöllum í Skötufirði og ólst að mestu leyti upp með foreldrum sínum, Þorláki Narfasyni, sjómanni og daglaunamanni, og Þórunni Hafliðadóttur, þó ekki alltaf báðum í senn. Bjarni var hjá þeim báðum á Höllum til 1863 en næstu ár var hann tökubarn á Hrafnabjörgum í Ögursveit til 1868. Þá var hann eitt ár tökubarn á Dröngum í Dýrafirði en síðan með föður sínum sem var vinnumaður í Dýrafirði, fyrst í Haukadal og síðan í Svalvogum. Þorlákur og Þórunn voru sem sagt í vistum hér og þar, Þórunn lengst af á Ísafirði og en Þorlákur hér og þar þangað til í byrjun 8. áratugarins að þau bjuggu bæði saman á Ísafirði með börnum sínum nema Mikael sem ólst upp hjá vandalausum á Bakka og síðan í Meðaldal í Dýrafirði. Þorlákur og Þórunn bjuggu sem sagt ekki alltaf saman framan af. Þau eignuðust 7 börn en 5 þeirra komust upp og öll þeirra nema Bjarni urðu roskin á þeirra tíma mælikvarða. Af þeim sem upp komust var Bjarni elstur, síðan Margrét Bárðlína, Mikael, Ólafur og loks Þorbjörg. Margrét hét fyrsta barn þeirra sem dó innan fjögurra ára. Síðast bjuggu Þorlákur og Þórunn og nokkur barna þeirra í Ísafjarðarkaupstað, Þórunn nærri 30 ár eftir að Þorlákur lést, og þaðan mun Bjarni hafa farið út í Bolungarvík til sjóróðra þar sem hann kynntist Jónu langömmu og giftist henni 23. nóvember 1890 eftir þrjár lýsingar. Þau voru þá sögð vinnuhjú í Ytribúðum en ýmislegt er þó á reiki um stöðu þeirra hjóna, þó aðallega Bjarna sem einnig var titlaður bæði húsmaður og bóndi en var þó sannanlega sjómaður.

Sagt er frá því í kaflanum um Ytribúðafólkið þegar Bjarni Þorláksson fórst, 33 ára gamall, í róðri frá Bolungarvík í nóvember 1894 ásamt Sigurði mági sínum og þremur mönnum öðrum. Hafliði, sonur þeirra Jónu, var þá á þriðja ári en þau höfðu misst tvö stúlkubörn og Jóna bar undir belti Bjarna sem fæddist í lok júní árið eftir. Lýkur þar með að segja frá Bjarna Þorlákssyni. Ýmsir höfuðsnillingar mannkynssögunnar, einkum á listasviðinu, náðu að skapa sér ódauðleika áður en þeir létust á fertugsaldri en aðstæður Bjarna langafa gáfu ekki tilefni til þess. Við vitum ekkert meira um þennan mann en það sem hér hefur verið tilgreint.

 

[1] Bjarni Þorláksson f. 16. 6. 1861, d. 17. 11. 1894