Flöguselsættin

Flöguselsættin

Í þessum köflum um Flöguselsættina er fjallað um ætt, uppruna og æviferil Sigfúsar Benediktssonar frá Flöguseli og börn hans sem komust á legg, Sigurlaugu, Guðmund og Guðjón. Fyrst er reyndar gerð grein fyrir ættforeldrunum Benedikt og Rósu og börnum þeirra sem upp komust. Sigfús eignaðist 5 börn með 3 konum og giftist einni þeirra og einni í viðbót og lifði þær allar. Hér er einnig fjallað um barnsmæður hans og konur, Guðrúnu Gísladóttur, Ingveldi Benjamínsdóttur og Helgu Þorsteinsdóttur en einkum þó um Guðrúnu Friðfinnsdóttur sem einnig átti litríka barneigna­sögu. Hún giftist Sveini Ólafssyni og skildi við hann, eignaðist lausaleiksbörn með Páli Pálssyni og Sigurði Einarssyni en giftist síðan aftur og nú Sigfúsi Benediktssyni og eignaðist með honum 3 börn í stuttri sambúð áður en hún lést af barnsförum. Fjallað er um börn þeirra Sigfúsar sem upp komust, Guðmund og Guðjón sem áður eru nefndir, og Jóhann son Guðrúnar, Sigurðsson. Sigurlaug og Jóhann fá sjálfstæða kafla eins og Guðjón bróðir Guðmundar en umfjöllun um Guðmund langafa kemur síðar þegar sagt er frá búskap þeirra Steinunnar Önnu Sigurðardóttur.