Matthildur Guðbjörg Jónsdóttir[1]
var lengi rangfeðruð í Íslendingabók eða þangað til greinarhöfundur tók sér fyrir hendur að grafast fyrir um föður hennar í kirkjubókum og manntali. Jón Jónsson, faðir hennar, var sagður fæddur 1855 en ekkert var vitað um dánardægur. Árangurinn af þeirri leit fer hér á eftir og Íslendingabók hefur nú verið lagfærð hvað þetta varðar. Einhverjum kann að finnast óþarflega nákvæmlega tíundaðar upplýsingar um skyldmenni Jóns en greinarhöfundi finnst erfitt að láta þær týnast þegar svo mikið er búið að hafa fyrir að afla þeirra. En auk upplýsinga um Jón og fólkið hans verður hér farið nokkrum orðum um lífshlaup Matthildar sjálfrar.
Framundan Hnappadal á sunnanverðu Snæfellsnesi, ekki langt austan við Vegamót þar sem vegurinn lá í gamla daga yfir Kerlingarskarð norður í Stykkishólm, bjó á 4. tug 19. aldar bóndi á bænum Landbrotum sem hét Jón Jónsson, f. um 1797, ásamt konu sinni Valgerði Snæbjarnarsdóttur, f. um 1798. Þau áttu synina Guðmund, f. um 1819, og Jón, f. um 1831, og dótturina Guðrúnu, f. um 1837. Jón eldri dó skömmu fyrir 1840 og þá flutti Valgerður að Kolbeinsstöðum á sömu slóðum og bjó þar ásamt börnum sínum 1840 og 1845. Segir nú ekki meira af Valgerði nema hún hefur líklega endað ævina einhvern tíma eftir 1860 á bænum Hömluholti sem er ekki langt frá fyrrnefndum bæjum.
Það er hinsvegar af Jóni syni hennar að segja að hann fór tæplega tvítugur í vinnumennsku til prestsins í Hítardal árið 1848 og var þar næstu ár.
Þangað kom líka sem vinnukona Guðbjörg Jónsdóttir[2] sem hafði hleypt heimdraganum frá Höskuldsstöðum í Laxárdal árið 1847, fór fyrst að Svarfhóli, sem er skammt frá Landbrotum, og síðan að Ormsstöðum á Skarðsströnd en endaði sem sagt suður í Hítardal. Guðbjörg var dóttir hjónanna Jóns Jónssonar (en ekki hvað? Það er samt rétt að það komi fram að faðir þessa Jóns var Þórðarson!) f. 1797 og Ingibjargar Halldórsdóttur f. um líkt leyti en þau bjuggu á þessum sögufræga bæ, Höskuldsstöðum, og áttu mörg börn, Halldóru, Jóhann, Guðbjörgu, Ingibjörgu, Jóhönnu og Sigríði.
Einhverra hluta vegna fór það svo að Guðbjörg frá Höskuldsstöðum og Jón frá Landbrotum eignuðust saman sveinbarn sem fæddist þar í Hítardal 17. janúar 1852. Drengurinn fékk nafnið Jón[3] og var Jónsson eins og báðir afar og faðir. Á fardögum sama ár fóru þau saman með Jón litla norður í Höskuldsstaði til foreldra Guðbjargar. Jónarnir stöldruðu þar hinsvegar ekki lengi við því að árið eftir fóru þeir feðgar aftur á sömu slóðir og fyrr, Jón eldri fór til prestsins í Hítardal sem vinnumaður en Jón yngri til prestsins á Staðarhrauni sem er þar skammt frá Hítardal. Þar var Jón yngri tökubarn næstu árin en þaðan fór hann með prestdótturinni, Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur, í Múlasel þar í sveit þar sem hún var ráðskona 1860.
Jón eldri hóf búskap með móður sinni í Hömluholti skammt frá bernskuheimili hans og þangað var Guðbjörg Jónsdóttir komin 1855, ógift vinnukona, þannig að þau hafa eitthvað reynt að halda sambandi sínu til að byrja með. 1860 var hún samt orðin ráðskona Sveinbjörns Jónssonar í Stóru-Galtardalstungu á Fellsströnd í Dölum en Jón ekki lengur í slagtogi með henni. Árið 1870 var hún gift þessum Sveinbirni Jónssyni, bróður Saura-Gísla sem sagt er frá í kaflanum um Sigurjón Sigurbjörnsson. Sveinbjörn hafði misst tvær eiginkonur áður þannig að Guðbjörg var þriðja kona hans.
Sveinbjörn hafði búið á ýmsum bæjum og árið 1870 bjuggu þau Guðbjörg á Kambsnesi í Miðdölum, skammt fyrir sunnan Búðardal og vestan við Saura. Þar á heimilinu var Jón Jónsson, 18 ára vinnudrengur, ranglega sagður fæddur í Hjarðarholtssókn í kirkjubók, en þar mun hafa verið kominn Jón sonur Guðbjargar sem hefur því verið samvistum við móður sína um eitthvert árabil.
Þarna höfðu Guðbjörg og Sveinbjörn eignast dótturina Andreu Kristínu[4] en börnin urðu ekki fleiri. Árið 1880 var Andrea komin til Reykjavíkur en Guðbjörg finnst ekki í manntali. Þær munu hafa farið saman til Vesturheims 1887, Guðbjörg þá orðin ekkja.
Jón Jónsson frá Hítardal skýtur næst upp kollinum í manntalinu 1880 og er þá kominn í útrás norður í Hraun í Hnífsdal og þar er líka Matthildur Þorsteinsdóttir, vinnukona frá Breiðabóli í Skálavík. Óvíst er hvar Jón var næstu ár en Matthildur var áfram í Hrauni til 1883. Árin 1890 og 1891 voru Jón og Matthildur gift en barnlaus vinnuhjú í Hvilft í Önundarfirði en þaðan fóru þau út í Skálavík, þar sem foreldrar hennar og forfeður/-mæður höfðu lengi búið, og þar á Breiðabóli (þar var margbýlt) bjuggu þau til dauðadags Matthildar árið 1900. Þau eignuðust aldrei börn.
Í sögu Gunnars M. Magnúss um „Skáldið á Þröm“ er stuttur kafli um samskipti söguhetjunnar Magnúsar Hjaltasonar við Jón á þessum árum:
„Á Breiðabóli í Skálavík var rímnavinur mikill, Jón Jónsson að nafni. Hann var húsmaður. Einhverju sinni er Magnús kom að Breiðabóli sat hann lengi á tali við Jón og féll öll samræðan um skáldskap og höfunda en þó einkum um rímurnar og rímnaskáldin. Báðum fannst hafa verið unnið af mikilli list þar sem skáldin tóku hinar fornu hetjusögur, riddarasögur og kappasögur, og sneru í ljóð sem lifðu á vörum manna í söng til yndis þessari fátæku þjóð. Þó fannst Jóni mörg ágætisverk liggja órímuð; hann furðaði sig til dæmis á því hvað skáldin hefðu lítið sinnt Hálfdanar sögu Barkarsonar, slíkri ágætis sögu. – Hérna er verkefni fyrir upprennandi rímnaskáld, taktu þessa sögu og kveddu fyrir mig rímur út af henni, það svíkur ekki efniviðurinn og hafðu hérna söguna.“[5]
Magnús orti rímur af Hálfdani Barkarsyni og færði Jóni nokkrum missirum síðar og seldi á 3 krónur. Jón „var þá svo staddur að ekki gat hann goldið skáldalaunin en hét að borga síðar um vorið með innskrift í verslun“.[6]
Nú ber að hafa í huga að á Breiðabóli bjuggu á þessum tíma alnafnarnir Jónar Jónssynir, annarsvegar faðir Jónu og hinsvegar barnsfaðir hennar er síðar varð, sá fyrri hefur væntanlega verið titlaður bóndi en sá síðari húsmaður. Þess vegna eru þeim síðari eignuð þessi samskipti við skáldið á Þröm. Magnús var síðar barnakennari í Skálavík veturinn sem snjóflóðið féll og lét illa af samskiptum við Skálvíkinga. Þar lenti hann t.d. í vandræðum með einn nemanda sinn sem kallaður var „Liði“ og hefur heitið Hafliði en þar hefur greinilega átt hlut að máli drengur á Meiribakka en ekki Hafliði Bjarnason sem var hjá afa sínum á Breiðabóli og kominn af skólaaldri. Jón faðir Jónu kemur hinsvegar ekki við sögu Magnúsar að séð verður enda hafði hann ekki börn á skólaaldri á framfæri sínu þegar þarna var komið sögu.
Eftir dauða Matthildar flutti Jón inn í Bolungarvík og var þar í einni sjóbúðinni í landi Ytribúða 1901 ásamt Jónu Jónsdóttur, sem var ráðskona hans, og Bjarna syni hennar. Þann 11. júní 1902 fæddist Matthildur Guðbjörg í Ytribúðum, móðirin Jóna Jónsdóttir, ekkja í Ytribúðum, og faðirinn Jón Jónsson, ekkill á Hóli í Bolungarvík. Barnið var skírt viku síðar í Hólskirkju eftir konu Jóns og eflaust var Guðbjargarnafnið komið frá móður hans. Jón hefur þá fengið að ráða öllu um nafngiftina.
Matthildur naut ekki lengi foreldra sinna því að Jón lést hálfu öðru ári eftir fæðingu hennar og Jóna þegar Matthildur var tæpra þriggja ára. Fram að því hafði Matthildur verið hjá móður sinni sem hafði hinsvegar orðið að láta Bjarna son sinn frá sér til vandalausra. Eftir lát Jónu 1905 var Matthildur Guðbjörg hjá móðurfólki sínu. Hún var hjá Ingimundi móðurbróður sínum í Bolungarvík til 1913 en þá fluttu Ingimundur og Valdís, kona hans, út í Breiðaból og bjuggu þar næstu 5 árin.
Þegar Vigdís Steinunn, móðursystir Matthildar, flutti til Noregs með norskum eiginmanni og syni fór hún með þeim. Á leiðinni til Noregs hefur eitthvað komið upp á því að Matthildur sagði frá því að Vigdís hefði ekkert viljað með hana hafa þegar til kom, jafnvel viljað henda henni í sjóinn þannig að skipstjórinn á útleiðinni hafði hana með sér heim til Íslands aftur í næstu ferð. Líklega hefur þarna verið farin að segja til sín sú geðveila sem hrjáði Vigdísi á síðustu æviárunum.
Matthildur mun svo hafa verið nokkur ár í Bolungarvík, m.a. var hún tökubarn á Jaðri, útbýli frá Hóli, árin 1913 til 1915 en 1920 var hún vinnukona hjá Magnúsi Árnasyni og Guðmundínu Sigríði Sigurðardóttur á Suðureyri en þau ráku þar bakarí. Magnús var frá Bolungarvík – frá Hóli – og það skýrir líklega hvers vegna Matthildur fór að leggja leið sína í Súgandafjörð. Guðmundína var hinsvegar úr Dalasýslu eins og svo margir aðkomumenn við Djúp um þessar mundir.
Um 1930 var Matthildur vinnukona hjá prestinum í Vatnsfirði og hjá Magnúsi Hákonarsyni í Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit, þeim sama og Jón Ólafur Bjarnason, bróðursonur hennar, var síðar hjá á unglingsárum. Á meðan Matthildur var í Vatnsfirði var hún lánuð í stuttan tíma sem vinnukona inn í Botn í Mjóafirði þar sem Guðfinna, systir Jóns Ólafs, ólst upp. Eftir Vatnsfjarðardvölina fór Matthildur aftur til Suðureyrar og gerðist nú ráðskona hjá Bjarna Benedikt Bjarnasyni[7] sjómanni, vélgæslumanni og verkamanni á Suðureyri sem hafði þá nýlega misst konu sína, Maríu Sigríði Jóhannesdóttur[8], og unga dóttur en átti soninn Kristján Alberts[9]. Og eins og svo oft gerðist þar fyrir vestan og raunar víðar tókst ráðahagur með húsbóndanum og ráðskonunni.
Matthildur eignaðist tvö börn með Bjarna, Maríu Sigríði og Jóhann, og giftist honum síðar eða árið 1943. Þau bjuggu alla tíð á Suðureyri og eftir að Bjarni dó 1970 bjó hún með Kristjáni stjúpsyni sínum til dauðadags.
Að sögn brottfluttra Súgfirðinga var Matthildur indæl og afar vel látin kona og þau hjón bæði og Bjarni var kátur og hress en þótti þó orðhákur sem alltaf þurfti að eiga síðasta orðið.
María Sigríður Bjarnadóttir[10] var skírð eftir fyrri konu Bjarna á sama hátt og Matthildur sjálf var skírð eftir látinni konu föður hennar. Hún ólst upp á Suðureyri og bjó í foreldrahúsum þangað til hún giftist Hólmberg Guðbjarti Arasyni[11] verkamanni, stýrimanni, vélstjóra og bátasmið frá Súðavík. Hún fór þó ekki langt að heiman því að þau byggðu sér hús handan við Aðalgötuna úti á Mölum og bjuggu lengi í nábýli við foreldra og tengdaforeldra. Þau eignuðust þrjár dætur:
Guðrún Ágústa[12] (Gústa) var sjúkraliði og móttökuritari á Heilbrigðisstofnuninni í Ísafjarðarbæ. Hún eignaðist soninn Guðbjart Einar með Sveinbirni Reyni Einarssyni, þau skildu.
Matthildur Bjarney[13] hefur m.a. starfað við umönnun á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði og í Reykjavík. Hún bjó með Stefáni Þórissyni og eignaðist með honum Hólmberg Þóri.
Jóna[14] er bankafulltrúi á Ísafirði. Hún er gift Guðjóni Helga Ólafssyni og á með honum Önnu Maríu hjúkrunarfræðing á Akureyri, Anton Helga og Elías Ara.
Jóhann Bjarnason[15] giftist Olgu Maggý Ásbergsdóttur[16] sem var skrifstofukona á Suðureyri, m.a. á skrifstofu Kaupfélags Súgfirðinga. Frá 1979 var hún starfsmaður sveitarfélagsins en auk þess var hún um árabil umboðsmaður flugfélagsins Arnarflugs á Suðureyri. Þau eignuðust þrjú börn:
Kristín Björk[17] er leikskólakennari að mennt og starfar sem leikskólastjóri á Þingeyri. Hún var gift Ivon Stefáni Cilia og eignaðist með honum Stefán Má og Olgu Margréti varaþingmann Pírata.
Bjarni[18] er verktaki á Suðureyri (Gröfuþjónusta Bjarna), er giftur Bryndísi Ástu Birgisdóttur og á með henni Þórunni Birnu og Jóhann Kára.
Örvar Ásberg[19] er trésmiður/verktaki á Álftanesi, býr með Helenu Sigurjónsdóttur og börn þeirra eru Elma Katrín og Haukur Daði.
Jóhann var framan af skipstjóri á bátum frá Suðureyri en síðan verkstjóri í Frystihúsinu Freyju á Suðureyri. Síðustu árin, eftir að tók að síga á ógæfuhliðina með rekstur frystihússins, rak hann fiskbúð og eigin harðfiskverkun á Suðureyri, Fiskverkun Jóhanns. Jóhann og Olga gegndu ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í sveitarfélaginu. Jóhann var alla tíð krati eins og faðir hans og sat m.a. í sveitarstjórn fyrir flokkinn sinn og var formaður Verkalýðsfélags Súgandafjarðar um tíma en Olga var virk í starfi Sjálfstæðisflokksins á svæðinu. Jóhann var glaðsinna og skemmtilegur sögumaður, hvatvís í svörum en ekki tiltakanlega upprifinn við ókunnuga nema þegar hann hafði fengið sé í tána sem honum þótti gott en gerðist ekki oft og helst þegar Olga var ekki nærri. Þegar Pálmi Frímannsson var á námsárum sínum eitt sumar í fiskvinnu á Suðureyri náði hann ekki miklu sambandi við þennan frænda sinn og ekki fer sögum af samskiptum hans við Matthildi afasystur sína.
Til voru þeir sem þótti Jóhann ekki tiltakanlega framfarasinnaður í sveitarstjórninni eða fylgjandi breytingum. Það gæti sagt jafnmikið um heimildarmanninn, sem verður ekki tilgreindur hér, og um Jóhann. Annað orð fór af íhaldsmanninum Olgu sem beitti sér fyrir lagfæringum á umhverfinu í bænum.
Þau systkinin, Sigríður og Jóhann, létust með fárra vikna millibili árið 2013.
[1] Matthildur Guðbjörg Jónsdóttir f. 11. 6. 1902, d. 10. 11. 1982
[2] Guðbjörg Jónsdóttir f. 24. 5. 1825, d. í Vesturheimi
[3] Jón Jónsson f. 17. 1. 1852, d. 23. 12. 1903
[4] Andrea Kristín Sveinbjarnardóttir f. 25. 4. 1861, d. í Vesturheimi
[5] Gunnar M. Magnúss: Skáldið á Þröm, bls. 188, Rvk. 1957
[6] Gunnar M. Magnúss: Skáldið á Þröm, bls. 189, Rvk. 1957
[7] Bjarni Benedikt Bjarnason f. 21. 3. 1894, d. 30. 1. 1970
[8] Maríu Sigríði Jóhannesdóttur f. 2. 10. 1899, d. 19. 8. 1931
[9] Kristján Alberts Bjarnason f. 21. 6. 1930, d. 17. 3. 1988
[10] María Sigríður Bjarnadóttir f. 28. 12. 1934, d. 9. 9. 2013
[11] Hólmberg Guðbjartur Arason f. 11. 7. 1932
[12] Guðrún Ágústa Hólmbergsdóttir f. 27. 6. 1955, d. 12. 8. 2020
[13] Matthildur Bjarney Hólmbergsdóttir f. 28. 7. 1958
[14] Jóna Hólmbergsdóttir f. 1. 4. 1969
[15] Jóhann Bjarnason f. 19. 10. 1938, d. 21. 8. 2013
[16] Olga Maggý Ásbergsdóttir f. 23. 1. 1937, d. 7. 7. 2004
[17] Kristín Björk Jóhannsdóttir f. 20. 8. 1959
[18] Bjarni Jóhannsson f. 13. 7. 1963
[19] Örvar Ásberg Jóhannsson f. 8. 6. 1970