Húsið í skóginum 2011

Kofakvæði, ort á aðventu 2011

Bjartsýni ríkti í brjóstum í vor,
brátt skyldi fara að smíða.
Við mælingu á lóðinni mörg voru spor
og maður sat fundina tíða.
Húsasmið skorti þá hreint ekki þor
og hreyfing í kerfinu víða.
Heyrðist þó hvorki í hamri né bor
og húskofans enn megum bíða.

Framkvæmdum miðar þó aðeins í átt,
efnið er komið á staðinn,
feyskið og morkið og fúnar þar brátt
en fagur er eldspýtnahlaðinn
sem lóðbeinn sem turn rís í loftheiðið blátt
en lítill er framkvæmdahraðinn
og niðri í grasrótum gerist enn fátt
í Garðshorni. Mikill er skaðinn.

Rotþróin hönnuð og rennan er klár
svo raununum fer nú að ljúka.
Í Garðshorni ættinni gengur brátt skár
að geta nú farið að kúka
í húsgagnið hvítt eftir öll þessi ár.
Hún áður í skurði sást húka
og þoldi af hneisu á sálinni sár.
Já senn skulu hlussurnar fjúka.

Virkja skal lækinn, á vatni er ei þurrð,
víst hrekkur rafvirki í gírinn.
Heimtaug er komin í huglægan skurð,
senn hleypir hann straumi á vírinn,
reiknar fyrst lengdir og breiddir og burð
svo bognar við hryggur og svírinn.
Rafmagn við fáum á fjarstýrða hurð,
fartölvu, sjónvarp - og dýrin.

Skóflurnar bíða og trésmíðatól,
tiltæk á einhverjum morgni.
Á einhverjum degi kemst einhver á ról,
upp rís þá smiðurinn horfni,
styðst fram á reku og stingur í hól,
stælast mun dugurinn forni.
En óreist er húsið svo um þessi jól
verður enginn í Garðshornshornshorni.