Sigmundur Viktor Skarphéðinsson
Sigmundur Viktor (1898-1918) var skírður eftir Sigmundi í Vigur og seinni konu hans, Viktoríu, en Skarphéðinn sagði sig hafa dreymt Sigmund skömmu fyrir fæðingu barnsins, hann hefði kallað eftir nafni og Skarphéðni fannst rétt að láta nafn Viktoríu fylgja með.
Það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi að Skarphéðinn hélt því fram að hann væri rangfeðraður, réttur faðir hans hefði verið Sigmundur í Vigur.
Sigmundur hefur líklega fæðst á Laugabóli en flust með fjölskyldunni fárra daga eða vikna gamall í Efstadal og það hefur verið eitt helsta verkefni Önnu, hálfsystur hans, að gæta hans fyrst eftir að Skarphéðinn sótti hana yfir í Laugaland 1898.
Sigmundur var með foreldrum sínum í Hvítanesi, Gunnarseyri og í Hnífsdal og síðan fluttist hann með þeim til Reykjavíkur. Hann hafði nýhafið nám í Stýrimannaskólanum þegar hann lést úr spænsku veikinni 1918.