Inngangur

Inngangur

Ég hef á seinni árum hallast að því að börnin mín og afkomendur þeirra ættu að vera fróð um forfeður sína og náin skyldmenni svo og um ættaróðalið í Garðshorni á Þelamörk. Ég hef svo sem engar sannanir fyrir því að það geri nokkrum manni gott að þekkja rætur sínar en ég veit mörg dæmi þess að fólki þyki það gaman þegar árin færast yfir. Þess vegna hef ég eytt talsverðum tíma í að tína saman fróðleik um forfeður og formæður, systkini þeirra og börn og nú síðast hefur sjónum verið beint að ábúendum í Garðshorni. Niðurstaðan er í eftirfarandi pistli. Heimilda verður yfirleitt ekki getið í þessari grein en þær eru fyrst og fremst sóknarmannatöl, prestþjónustubækur og viðlíka skrár en víða er þó vísað til skrifa Eiðs Guðmundssonar á Þúfnavöllum sem skrifaði grein í Súlur um Jón ríka Bergsson í Garðshorni og víðar.

Í fjölskyldu minni er orðið Garðshyrningar notað sem vinnuheiti á afkomendum hjónanna Frímanns og Guðfinnu sem bjuggu í Garðshorni á Þelamörk 1942-1973 en auðvitað verðskulda fleiri þetta heiti. Þessu orði bregður af og til fyrir í eftirfarandi pistli um fólkið sem hefur búið í Garðshorni á síðustu öldum. Til skýringar er líka rétt að taka strax fram að Garðshyrningar á fyrstu 8 áratugum 20. aldar tengjast sérstaklega fjölskyldunni sem bjó á Syðri-Bægisá mestan hluta 19. aldar og þeirri sem var í Flöguseli í Hörgárdal á fyrri hluta 19. aldar. Þar er þekktastur ættfaðirinn Benedikt í Flöguseli fyrir það hvað hann var vondur við börnin sín sem voru víst bæði heimsk og ljót nema helst synirnir Björn og Sigfús sem Eiður á Þúfnavöllum taldi hafa verið „sæmilega viti bornir“. Þessi börn hans og aðrir afkomendur koma víða við sögu í eftirfarandi frásögn. Fólki úr þessum tveimur fjölskyldum er gefinn sérstakur gaumur vegna skyldleika við Garðshyrninga 20. aldar en ekki vegna þess að það sé endilega frásagnarverðara en annað fólk.

Frá því fyrir miðja 18. öld má skipta sögu ábúenda í Garðshorni í þrjú megintímabil. Fyrst er tímabil sem kenna má við Gunnar meðhjálpara Jónsson og skyldmenni hans, það nær líklega frá 4. áratug 18. aldar og fram til 1814. Þá tekur við tími Jóns ríka Bergssonar en hann og skyldmenni hans bjuggu þar með ýmsum tilbrigðum til 1889. Með vissum sanni má segja að þá taki við tími Flöguselsættar fram til 1977 og 1981 gengur jörðin úr eigu þeirra ættmenna. Ábúendum eftir þann tíma eru ekki gerð mikil skil í þessari samantekt.