Guðrún Friðfinnsdóttir frá Stóragerði

Nú er nefnd til sögunnar Guðrún Friðfinnsdóttir frá Stóragerði í Myrkárdal. Foreldrar hennar voru Friðfinnur Loftsson (1767-1826) bóndi í Baugaseli og Stóragerði og Herdís Jónsdóttir (1773-1828) kona hans. Þau eignuðust 14 börn á árunum 1800–1817 sem flest komust upp, tvö létust innan tveggja ára aldurs og tveir drengir innan við 10 ára. Börnin voru Kristín (1800-1847), María (1801-1868), Lilja (1802-1885), Friðfinnur (1804-1889), Loftur (1805-1814), Sigríður (1806-1851), Rósa (1807-1872), Guðrún (1808-1846), Jón (1810-1818), Hólmfríður (1811-1851), Gísli (1813-1882), Guðbjörg (1814-1891), Sveinn (1816-1818) og Soffía (1817-1818). Bæjarbragur hjá Friðfinni og Herdísi í Baugaseli og Stóragerði hefur verið allur annar en hjá Benedikt og Rósu á Ásgerðarstöðum og Flöguseli en þó áttu Stóragerði og Baugasel það sameiginlegt að vera afskekktir bæir í afdölum Hörgárdals, Baugasel fremsti bær í Barkárdal, Flögusel fremsti bær í Hörgárdal og Stóragerði fremsti bær í Myrkárdal. Ómegðin hjá Friðfinni og Herdísi var raunar ekki minni en í Flöguseli þótt börnin fæddust færri því að nánast öll börn þeirra komust upp eins og áður sagði. Stóragerðishjónin voru hins vegar í áliti hjá séra Gamalíel á Myrká sem kallaði Friðfinn dánumann og Herdísi sæmdarkonu enda bæði „dagfarsgóð og guðhrædd“. Stóragerðishjónin voru þó bláfátæk og samkvæmt hreppsbókunum jafnvel öllu verr stæð en hjónin í Flöguseli.

Ættingjar frá Stóragerði í Stóragerði.

Margt mennta- og skólamanna er út af þeim Herdísi og Friðfinni komið. Út af Friðfinni Friðfinnssyni eru t.d. Andri Ísaksson prófessor og Vestur-Íslendingurinn Rósalind Vigfússon kórstjóri. Út af Gísla eru Bernharð Haraldsson, fyrrum skólameistari VMA, háskólarektorarnir og bræðurnir Páll og Skúli Skúlasynir, sr. Þórhallur Höskuldsson og Guðmundur Ingólfsson matvæla­fræðingur frá Fornhaga, bræðurnir Ingimar Erlendur Sigurðsson skáld og Birgir Sigurðsson blaðamaður og Pálsbörnin frá Dagverðartungu. Meðal afkomenda Rósu er Jón Kristjánsson heilbrigðis­ráðherra og út af Guðbjörgu eru komnir Ásmundur Jónsson menntaskólakennari og dr. Hreinn Pálsson heimspekingur og eru þá ótaldir afkomendur Guðrúnar sem sagt verður frá hér á eftir.

Fjöldi afkomenda Herdísar og Friðfinns hefur búið í Hörgárdalnum og á Eyja­fjarðarsvæðinu en nokkur barna þeirra fluttust vestur í Hjaltadal og Viðvíkursveit og enn er að finna afkomendur þeirra í útsveitum Skagafjarðar að austan og á Ólafsfirði en auk þess er stór hópur þeirra meðal Vestur-íslendinga í Kanada.

Friðfinnsbörnin fengu yfirleitt góða dóma í kirkjubókunum hjá sr. Gamalíel og þegar Guðrún fermdist frá Lönguhlíð, 14 ára gömul, fékk hún þá einkunn að hún væri „afbrigðis unglingur að gáfum og kunnáttu“ og á öðrum stað segir að hún hafi verið „prýðisvel læs og vel uppfrædd“. Það telst þó ekki Stóragerðishjónunum til tekna eins og fram kemur hér á eftir.

Árið 1816 voru 10 barnanna heima í Stóragerði en auk þeirra var Guðrún Friðfinnsdóttir sem ólst upp hjá Jóni móðurbróður sínum frá blautu barnsbeini, m.a. á Grjótgarði á Þelamörk frá árinu 1810. Jón þessi Jónsson giftist aldrei en var þá bóndi þar og hafði ráðskonu, Ragnheiði Bjarnadóttur. Hún hafði verið gift Ólafi nokkrum Sveinssyni og búið með honum í Þverbrekku og Gloppu í Öxnadal en þau skildu að borði og sæng. Þau höfðu orðið gjaldþrota 1802 og Ólafur fór eftir það með Davíð (1800-1865) son þeirra vestur að Svínavatni í Svínadal þar sem Ólafur var það sem hann átti ólifað. Davíð kom til baka eftir nokkur ár og var á sveitarframfæri þangað til hann fermdist 17 ára, þótti gáfnalítill. Annar sonur Ragnheiðar var Sveinn Ólafsson (1801-1876), sem var léttadrengur á Grjótgarði og átti eftir að koma meira við sögu Guðrúnar. Þau voru samtíða á bæjum með þeim Jóni og Ragnheiði, m.a. í Lönguhlíð þar sem þau voru þegar Guðrún fermdist. Þar var Jón í húsmennsku ásamt Ragnheiði ráðskonu, Sveini syni hennar og Guðrúnu en bóndi í Lönguhlíð var Guðmundur nokkur Þorsteinsson, „fjölhæfur smiður“, síðar tengdafaðir Björns Benediktssonar frá Flöguseli. Eftir að Jón fór frá Lönguhlíð 1825 fóru þau Guðrún aftur í Grjótgarð, nú vinnuhjú, og voru þar næstu 2 ár, hugsanlega hluta úr seinna árinu á Pétursborg í Kræklingahlíð. Friðfinnur í Stóragerði lést 1826 en árið eftir fóru Jón og Guðrún í Baugasel, hann sem húsmaður og hún sem vinnukona. Guðrún var nú komin í nágrenni við Stóragerði þar sem móðir hennar og systkini bjuggu en hún hafði ekki kynnst mikið fram að þessu. Þau áttu eftir að reynast henni vel. Árið 1828 voru Jón og Guðrún áfram í Baugaseli en 1829 voru þau í Flögu. 1830 var Guðrún vinnukona á Þúfnavöllum og 1832 var hún vinnukona í Sörlatungu en það ár dó Jón hjá systurbörnum sínum í Stóragerði.

Frá Sörlatungu fór Guðrún 1832 inn í Sólborgarhól í Kræklingahlíð til að giftast áðurnefndum Sveini Ólafssyni sem bjó þar ásamt móður sinni. Svaramaður hennar var Bjarni, mágur hennar, Gunnlaugsson í Stóragerði en svaramaður Sveins var Grímur Bjarnason bóndi í Svellatungu (Sörlatungu). Kirkjubók Glæsi­bæjar­kirkju segir Svein hafa verið „þægðarmann“ og Guðrúnu „siðsama konu“. Samfarir þeirra urðu hins vegar ekki góðar því að árið 1835 hafði Guðrún flutt frá Sveini og gerst vinnukona á Einarsstöðum. Auðvitað er ómögulegt að segja nú hvað olli þessum skilnaði Guðrúnar og Sveins en þar þarf að hafa í huga að þau höfðu þekkst frá barnæsku. Þau hefðu því ekki átt að koma hvort öðru mikið á óvart. Til greina kemur að Sveinn hafi ekki verið allur þar sem hann var séður og ekki fær um að rækja hjúskaparskyldur sínar gagnvart Guðrúnu frekar en Hrútur á Hrútsstöðum forðum. Hann gæti sem sagt hafa verið samkynhneigður. Eða hvað eiga afkomendur Guðrúnar að halda sem ekki eru vanir að sætta sig við neinar refjar? En Sveinn gæti líka hafa verið rola því að hann vék fljótlega fyrir nýjum bónda á Sólborgarhóli og gerðist vinnumaður hans en hafði þó manndóm í sér til að giftast ekkju hans þegar nýi bóndinn dó, hún þá komin á sextugsaldur, 15 árum eldri en Sveinn. Hún lifði ekki lengi en Sveinn var eftir það húsmaður hér og þar, m.a. á Sólborgarhóli eftir að Gunnar Grímsson hóf þar búskap.

Komum aftur að Guðrúnu. Hún fór sem sagt sem vinnukona frá Sólborgarhóli í Einarsstaði og var örugglega ekki samkynhneigð. Þar var þá vinnumaður að nafni Páll Pálsson (1804-1891), upprunninn framan úr Kaupangssveit en hafði ráðið sig í kaupavinnu vestur í Öxnadal og kynnst þar stúlku, Sæunni Jónsdóttur, og gifst henni. Árið 1834 fluttust þau hjónin frá Barká í Hörgárdal í Einarsstaði en nú flækjast málin. Manntalið segir að Sæunn og Páll hafi verið vinnuhjú á Einarsstöðum 1835 en kirkjubókin segir að þar hafi Páll verið en engin Sæunn en hinsvegar hafi Guðrún Friðfinnsdóttir verið þar. Þeirri spurningu verður ekki svarað héðan af hvort Páll hafi átt einhvern þátt í því að Guðrún fór frá Sveini á Sólborgarhóli eða hvort Páll hafi farið að gera hosur sínar grænar fyrir henni eftir að hún flúði í Einarsstaði og þá hafi Sæunn flúið Einarsstaði, ólétt eftir Pál því að hún eignaðist þeirra eina barn í janúar 1836. Guðrún varð nefnilega ólétt eftir Pál líka og eignaðist með honum dóttur í júní, Önnu sem dó ársgömul. Ekkert varð þó meira úr sambandi Páls og Guðrúnar því að hann gerðist fyrst fyrirvinna ekkju í Hraukbæjarkoti en tók síðan aftur saman við Sæunni sína og bjó með henni til æviloka um 1890, fyrst á Litla-Eyrarlandi í Kaupangssveit en síðar á Akureyri.

En þar í Kræklingahlíðinni áttu fleiri eftir að verða Guðrúnu þungir í skauti því að árið 1837 eignaðist hún aftur barn og nú með Sigurði Einarssyni (1799-1859) „ógiftum vinnu­manni í Kræklingahlíð“ að því er kirkjubók Myrkárkirkju segir.

Sigurður Einarsson var sonur Einars Jónssonar bónda á Ytra-Laugalandi og konu hans Guðrúnar Péturs­dóttur. Sigurður fór að heiman 1828, fyrst að Beinakeldu á Ásum í Húnavatns­sýslu en síðan að Gerðihömrum í Dýrafirði. Hann kom aftur að Laugalandi 1832 frá Flateyri. Hann var svo vinnu­maður á ýmsum bæjum í Önguls­staða­hreppi til 1836 en fór þá að Einarsstöðum í Kræk­lingahlíð. Eftir það fór hann til Kaup­mannahafnar og kom þaðan 1843. Hann virðist þó ekkert hafa lært þar markvert því eftir að hann kom heim var hann stöðugt réttur og sléttur vinnumaður. Fór víða vistum, t.d. 1845 í Hrísey, en oftast var hann þó á Staðarbyggð eða í Glæsibæjar­hreppi. Hann var ekki jafn­dugandi ferðamaður og Vilborg Arna Gissurardóttir, afkomandi hans og Guðrúnar, því að hann drukknaði í Eyjafjarðará 22. september 1859, rétt sextugur. Þá taldist hann heimilisfastur á Tjörnum á Staðar­byggð. Hann var ókvæntur alla ævi og átti ekki önnur börn en Jóhann. (Heimild: Stefán Aðalsteinsson o.fl.)

Þegar Guðrún var komin að falli flutti hún til Lilju systur sinnar í Stóra­gerði og ól barnið þar, dreng sem skírður var Jóhann (1837-1914). Lilja bjó þar með manni sínum, fyrrnefndum Bjarna Gunnlaugssyni, og þremur systkina sinna, Friðfinni, Maríu og Sigríði, og hjá þeim var Guðrún með soninn fram á árið 1839. Þá fóru þau að Einhamri 1839–40, í Féeggstaði 1840–41, í Sörla­tungu 1841–43 og síðan í Lönguhlíð til 1846.