Ævilok og ættingjar Elísabetar
Á meðan þessi kafli um Elísabetu Jónsdóttur var í smíðum stóð þar lengi vel um ævilok hennar að um síðustu áratugi ævi hennar væri ekkert vitað eða frá því að Markús bóndi hennar dó og þangað til hún lést árið 1897 samkvæmt Íslendingabók. Reyndar sást í manntali 1870 að hún hefði verið vinnukona hjá Sigríði Guðmundsdóttur verslunareiganda á Ísafirði og verslunarstjóranum Falk. Síðar sást í illa skrifuðu sóknarmannatali Eyrarkirkju í Skutulsfirði að hún hefði verið vinnukona í ýmsum húsum á Ísafirði fram á árið 1873. Þrátt fyrir ítarlega leit í sóknarmannatölum kirknanna við Djúp og í Súgandafirði og Önundarfirði fundust engin önnur merki um hana þar fram til ársins 1897. Loks fannst undanvillt færsla í prestþjónustubók Eyrarprestakalls þar sem Elísabet Jónsdóttir er sögð látin 27. september 1876 og greftruð 3. október. Nú hefur Íslendingabók leiðrétt dánardægur Barna-Betu því að nóg er að afkomendur hennar þurfi að lifa við að einn barnsfaðir hennar hafi dáið barnlaus þó að ekki bætist ofan á að Elísabet sjálf hafi verið í gröfinni síðustu 20 ár ævinnar.
Engin lýsing er til á Elísabetu Jónsdóttur. Skarphéðinn sonur hennar hafði lítið af henni að segja en sagðist hafa heyrt að hún hafi verið „alþýðuhagyrðingur“ en kunni enga vísu eftir hana.
Áður en skilið er alveg við Elísabetu langalangömmu má geta þess hér að hún átti nokkur systkini. Þeirra á meðal var fyrrnefndur Brynjólfur sem var afi Hólmfríðar Margrétar Jónsdóttur (1907-1986) enskukennara við Menntaskólann á Akureyri um árabil. Brynjólfur var faðir fyrrnefnds Alberts föður Brynjólfs fóstursonar Sigríðar og Guðmundar í Botni og Hörgshlíð en Albert var langafi Jónínu Sturludóttur á Akureyri. Systir Hólmfríðar hét Málfríður og var amma Finns Birgissonar arkitekts á Akureyri og síðar í Mosfellsbæ svo og Þórhildar S. Sigurðardóttur bókasafns- og upplýsingatæknifræðings í Kópavogi, stúdents 1968.
Það er ljóst að Elísabet Jónsdóttir átti hvorki langa ævi né hamingjuríka en þó var hún meðal fárra aðalpersóna þessarar sögu sem ólust upp í foreldrahúsum til fullorðinsaldurs, missti þó móður sína ung. Samkvæmt opinberum heimildum eignaðist hún 8 börn með 6 mönnum en hugsanlega voru barnsfeður hennar „aðeins“ 5 og þrívegis hefur hún þá eignast tvö börn með sama manninum. Fimm barna hennar komust upp en aðeins tvö þeirra eignuðust afkomendur svo vitað sé, Jón og Skarphéðinn Hinrik, en hugsanlega hefur Ingibjörg einnig eignast afkomendur en þá í fjarlægu landi.
Það er þó athyglisvert að börn Elísabetar voru hvert öðru ekki verri systkini en gerist og gengur. Tvö börn Elísabetar tóku börn Skarphéðins sonar hennar í fóstur, Jón Jónsson, sem ól að einhverju leyti upp Sigurjón Svanberg Sigurjónsson og kenndi honum beykisiðn, og Sigríður Markúsdóttir sem tók Friðgerði Skarphéðinsdóttur að sér frá 7-8 ára aldri auk þess sem Anna Skarphéðinsdóttir átti athvarf hjá henni á sumrum eftir að Jón maður hennar drukknaði. Loks er þess að minnast að þeir hálfbræðurnir, Jón beykir og Skarphéðinn, bjuggu um árabil í sama húsi og höfðu mikið samneyti þegar Skarphéðinn leigði íbúð í húsum Jóns á Klapparstíg 7 og 26. Börn Barna-Betu voru þannig ekki jafn tvístruð og hefði mátt vænta miðað við þá hrakhóla sem hún var alltaf á sjálf til æviloka eins og títt var um fátækt fólk á þessum tíma. Ekkert er þó vitað um þátt hennar sjálfrar í þessari aðdáunarverðu samheldni barna hennar. Víst er þó að hún heimsótti þau ekki í sumarleyfum og hún sendi þeim ekki SMS eða Snapchat til að spyrja frétta og minna þau hvert á annað.
Fólk getur haft sínar skoðanir á þessum fjölda barnsfeðra Elísabetar en hún var barns síns tíma og sinna aðstæðna. Var hún lauslát? Óheppin? Eða þurfti hún eins og fleiri konur af hennar kynslóð að þola nauðganir húsbænda og svik elskhuga sem stóðu skör hærra í þjóðfélagsstiganum? Greip hún til þess óyndisúrræðis að giftast öldruðum ekkjumanni til þess að geta séð sér og börnum sínum farborða? Ein sonardóttir hennar giftist barnung ekkjumanni sem var „aðeins“ 20 árum eldri og það þótti þá ekki tiltökumál þótt henni þætti það sjálfri þegar frá leið. Hvernig sem það hefur verið getum við afkomendur hennar alltént vitnað til orða Kristjáns frá Djúpalæk úr kunnum dægurlagatexta: „Hefði ... ekki ... ég væri sennilega ekki til“.