Inngangur

Inngangur

Tilefni eftirfarandi samantektar er samkoma barnabarna tvíburasystranna Önnu og Friðgerðar Skarphéðinsdætra í Heydal í Mjóafirði 21. - 23. júní 2013. Þessar systur voru reyndar úr stærri systkinahópi en svo vill til að þær bjuggu báðar í Bolungarvík, Anna meirihluta ævinnar en Friðgerður með hléum, og afkomendur Önnu hafa margir búið þar. Meiri kunningsskapur er líklega milli afkomenda tvíburasystranna innbyrðis en milli þeirra og annarra afkomenda Skarphéðins, föður þeirra, og þess vegna var niðjamótið takmarkað við þennan hóp.

Heydalshópurinn reyndi að heimsækja helstu staði sem koma við sögu þeirra systra. Farið var í Unaðsdal á Snæfjallaströnd og horft út í Æðey þar sem þær fæddust 15. apríl 1888, farið var heim í Laugaland í Skjaldfannardal þar sem Anna ólst upp fyrstu árin og gengið á bæjartóttirnar í Botni þar sem Friðgerður ólst upp frá 5 - 6 ára aldri. Síðan voru skoðaðar bæjartóttir í Efstadal þar sem Skarphéðinn bjó nokkur ár og ekið út í Skálavík þar sem Friðgerður bjó um tíma og að sjálfsögðu farið í kirkju­garðinn í Bolungarvík þar sem þær systur hvíla hlið við hlið. Á hverjum stað var reynt að rifja upp það helsta sem vitað var um ævi systranna en þá kom auðvitað í ljós að margt vantaði og það er ein megin­ástæðan fyrir þessari samantekt en í henni er ýmis­legt sem gaman hefði verið að vita á Heydalshátíðinni.

Eftirfarandi greinargerð er tilraun til að undirbúa næsta ættarmót með því að draga saman það helsta sem vitað er um ævi systranna svo og um lífshlaup foreldra þeirra og nánustu forfeðra og -mæðra og ættingja. Sagan hefst með því að rakin er ævi Elísabetar Jónsdóttur – Barna-Betu – sem átti 8 börn með 6 mönnum. Reynt er að grafast fyrir um afkomendur hennar en þó einkum um Skarp­héðin son hennar, föður Önnu og Friðgerðar. Sérstakir kaflar eru um Önnu og Friðgerði en öðrum börnum hans eru gerð minni skil. Í Heydal var með í farteskinu ritgerð Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff um nöfnu hennar og ömmu og til er stutt frásögn Óskars Magnússonar um Petrínu Skarphéðinsdóttur, móður hans. Ennþá eru rýrir kaflarnir um Sigurjón Svanberg og Bergþóru Skarphéðinsbörn og lítið er sagt frá stuttri ævi Sigmundar Skarphéðinssonar sem fær þó mynd af sér. Nokkuð er um endurtekningar því að þess er ekki að vænta að fólk nenni að lesa alla kaflana þó að það hafi áhuga á að fræðast svolítið um fólkið sem næst því stendur. Og þá er ekki útilokað að einhvers staðar verði misræmi á milli kafla því að stöðugt voru að koma í ljós ný sannindi á meðan á þessum skrifum stóð og ekki víst að tekist hafi að lagfæra villur í öllum köflum þar sem fjallað er um sömu viðburði.

Við leiði Friðgerðar og Önnu í júní 2013. Við gröf Friðgerðar standa afkomendur hennar, Gunnar og Helga Frímannsbörn og Jón Ólafur Skarphéðinsson á bak við þau. Hægra megin, við gröf Önnu, eru Katrín, Helga Jóna og Guðlaug Þorkelsdætur og Anna Jóna og Jóhanna Hálfdánsdætur.

Hér er ekki sögð nein merkileg saga um fólk sem hafði mikil áhrif á Íslands­söguna heldur er sagan af alþýðufólki við Djúp á seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Hún hefur helst gildi fyrir afkomendur þessa fólks sem fjallað er um. Reynslan sýnir að áhugi fólks á uppruna sínum vaknar gjarnan þegar árin færast yfir en reynslan sýnir líka að þá eru oft glataðar margar verðmætar upplýsingar sem aðeins voru til „í munnlegri geymd“. Þess vegna er mikilvægt að koma þeim á blað áður en þær glatast.

Margar þær upplýsingar sem hér eru birtar eru skráðar á bækur og jafnvel komnar á vefinn, aðrar eru misaðgengilegar og mislæsi­legar í sóknarmanna­tölum og prest­þjónustu­bókum og enn aðrar fengnar frá fólki sem man eftir sögu­hetjunum, t.d. frá Jóni frænda í Hafnarfirði og Gunnu frænku í Bolungar­vík en þau eru börn Friðgerðar og Önnu. Hér er líka fróðleikur frá Óskari frænda á Eyrarbakka, syni Petrínu Skarphéðinsdóttur, en hann er minna þekktur í þessum hópi. Sumt er fengið frá afkomendum annarra skyld­menna sem koma við sögu, t.d. Ástu Magnúsdóttur og Sigríði Elefsen sem hafa sagt mér eitt og annað af fólkinu okkar. Ýmsa aðra mætti nefna sem hafa gaukað á mér broti hér og broti þar. Ég tek samt sjálfur ábyrgð á því sem hér er sagt og missagt, sem er eflaust ýmislegt, en vonandi er þó megingallinn á þessu skrifi það sem er ekki sagt.

Myndirnar eru úr ýmsum áttum, nokkrar teknar á ættarmótinu í júní 2013 en drýgstan þátt í að útvega eldri myndir eiga Gunna frænka í Bolungarvík og tvö barna hennar, Kristín og Bjarni. Sumar eru teknar úr bókum enda bera gæði þeirra þess vott.

Þessu verki verður aldrei lokið því að lengi er hægt að bæta við fróðleik um Barna-Betu og nánustu afkomendur hennar. Afkomendum Petrínu Ásgeirsdóttur, fyrri konu Skarphéðins Elíassonar, eru gerð mun betri skil í þessari samantekt en afkomendum Pálínu Árnadóttur, seinni konu hans, af því að ég þekki betur til þess fólks en ekki vegna þess að það sé merkara frásagnarefni. Ekki er heldur grafið djúpt í sögu Jóns beykis, hálfbróður Skarphéðins, og afkomenda hans og eins væri ástæða til að skoða betur æviferil Sigríðar Markúsdóttur hálfsystur þeirra. Þannig mætti lengi telja en það er þó ekki eftir sem búið er.

 

Akureyri í apríl 2014,
(með seinni tíma viðbótum og lagfæringum)

Gunnar Frímannsson