Garðshornsbærinn um og eftir 1900

Garðshornsbærinn um og eftir 1900
eftir Steindór Pálmason

Á hlaðinu voru tveir stórir steinar. Nyrðri steinninn var hár og flatur. Í gegn um hann ofarlega var höggvið gat. Í því var spotti og við hann voru bundnir hestar enda var hann kallaður Hestasteinn. Syðri steinninn sem var suður og fram af bæjardyrum var kollóttur að ofan. (Í minningu minni var steinninn ekki kollóttur heldur flatur að ofan. GFr). Á honum var barinn harðfiskur enda hét hann Fiskasteinn.

Framan við bæinn var steinalína sem markaði af ofurlitla stétt. Framan við bæjardyrnar var stór hella, kölluð varinhella. Bæjardyrnar voru svo lágar að allir fullorðnir þurftu að beygja sig þegar þeir gengu inn. Þær voru ofurlítið niðurgrafnar og innan við dyrnar var steinn sem myndaði tröppu.

Bæjardyr, skálar, göng og eldhús höfðu nokkurn veginn sömu gaflhæð en upp í búrið var trappa og 3 tröppur upp í baðstofuna. Bæjardyr voru með sperrum og lausholtum en hæð undir bita var ekki meiri en svo að háir menn þurftu að vara sig að reka sig ekki upp í þá. Stoðir undir lausholtum stóðu á steinum enda var moldargólf í öllum frambænum.

Langbönd voru á sperrum og torfþak. Á sama hátt voru skálarnir byggðir. Undir þilið á ytri skála var hlaðin ofurlítil stétt, líklega til að spara þilviðinn.

Garðshornsbærinn gamli frá aldamótum til 1917

 

Í ytri skála var geymdur eldiviður, sauðatað og svörður, einnig reiðingar og reipi en í bæjardyrum voru hengdir upp hnakkar og beisli. Í syðri skála var geymd matvara, kornvara, kjöt og fiskur. Þar stóðu 3 kistur sem notaðar voru til að geyma eitt og annað. Föt voru hengd upp í rjáfrið. Þetta var þurr og góður skáli og geymdist vel það sem í honum var. Hvergi var þiljað nema þilið að framan. Fyrir syðri skála var hurð rekin saman úr óplægðum borðum með okum og þannig voru allar hurðir í bænum, sumar með hespu eða snerli.

Útihurðin var með klinku sem notuð var á daginn en renniloka var einnig á henni til að loka með yfir nóttina. Þegar gengið var úr bæjardyrum inn göngin, var opnuð hurð og rétt innan við þá hurð voru eldhúsdyrnar, mjög lágar og þröngar og hlaðnar saman að ofan, engin hurð. Allur matur var eldaður á hlóðum í eldhúsinu. Þvottar voru þvegnir þar og önnur þess konar verk unnin. Á hlóðarsteinunum voru oft að vetrinum þurrkaðir sokkar því þeir voru heitir frá eldamennskunni. Ekki var húsgrind í eldhúsinu heldur hvíldu raftar á veggjum en ás mun hafa verið í miðju og sneri út og suður. Í búr var gengið suður úr göngunum. Þar á milli var gisið þil. Í búrinu var geymt slátur, skyr, mjólk, brauð og annað slíkt matarkyns, einnig hverskonar matarílát og leirtau. Þar var maturinn skammtaður og borinn til baðstofu. Hverjum var skammtað í sín sérstöku matarílát.

Garðshornsbærinn fyrir 1923. Málverk Jósefs Kristjánssonar eftir fyrirsögn Steindórs Pálmasonar

Úr göngunum og inn í baðstofuna voru tvennar dyr og hurðir fyrir. Fremri hurðin var kölluð skellihurð, hefur máske dregið nafn af því að á hana var hengt lóð eða steinn sem bundinn var í spotta sem látinn var leika í rúllu sem var efst á hurðinni. Þetta var gert til þess að hún lokaðist örugglega á eftir þeim sem gekk um en þegar hurðin féll að stöfum þá heyrðist töluverður skellur. Upp í bað­stofuna voru 3 trétröppur. Baðstofu­dyrnar voru fremur lágar. Þó mun laus­holtið í bað­stofu­grindinni hafa verið tekið sundur til að fá þær hærri en stoðirnar undir bað­stofu­grindinni hafa varla verið lengri en 120 sm. Þilgólf var í baðstofunni úr breiðum borðum. Innri baðstofan var afþiljuð en hliðarnar á fremri baðstofunni upp að lausholtum. Stafninn að norðan var óþiljaður torfstafn og súðir uppi óþiljaðar. Torf var á langböndum.

Eitthvað mun bærinn hafa lekið í stór­rigningum en þó furðanlega lítið.

Fyrsta breyting sem gerð var á bænum var gerð 1917. Þá var norðurstafninn á baðstofunni rifinn og kofinn norðan við. Þarna var byggt svokallað eldavélarhús (baðstofan lengd um tvö stafgólf). Það var hólfað af með panelþili. Í þessu eldavélarhúsi fór svo fram matseld og þar var borðað við sameiginlegt borð. Þá var hætt að elda í hlóðaeldhúsinu nema þar mun hafa verið soðið slátur og máske einhverjir stóreldar og eitthvað látið rjúka þar svo hægt væri að reykja kjöt.

Mikið hlýnaði í baðstofunni eftir að eldavélin kom þarna í norðvesturendann og mun það hafa komið sér vel frostaveturinn 1918.

Um eða eftir 1920 fór að hrynja úr veggnum milli eldhúss og ganga. Var hann þá tekinn burtu og sett þil í staðinn.

Árið 1923 eða 1924 var fjósið rifið og byggt upp norðan við þar sem það seinna (um 1960) var endurbyggt úr steini. Það var ein básaröð, 6 eða 8 básar.

Vorið 1932 var byrjað að byggja íbúðarhúsið. Það stendur nokkurn veginn þar sem fjóstóttin var áður. Í húsið var flutt rétt fyrir jólin við mikinn fögnuð þó það væri ekki nema að nokkru leyti innréttað. Innrétting var kláruð seinni part vetrarins.

Seinna var gamli frambærinn rifinn en baðstofunni var smátt og smátt breytt í steinhús.

1936 var fjóshlaðan byggð en 1939 voru fjárhúsin og hlaðan við þau byggð.