Anna Skarphéðinsdóttir

Anna Skarphéðinsdóttir

Anna Skarphéðinsdóttir (1888-1968) var svo sterklík Friðgerði systur sinni í sjón að Guðfinna dóttir Friðgerðar þekkti ekki hvor var hvor þegar hún hitti móður sína aftur þegar hún kom til Bolungarvíkur eftir nokkurra ára dvöl í Botni og víðar. Anna var þó hávaxn­ari og stórgerðari en Friðgerður. Þær voru eineggja tvíburar en Friðgerður mun hafa fæðst minni, aðeins 7 merkur en Anna 13. Hugsanlega var Friðgerður líka alltaf minni í sér en Anna en þær systur voru hugsanlega ekki líkar í viðmóti því að Jón Ólafur Bjarnason sagði að honum hafi alltaf þótt Friðgerður þótti hlýlegri en Anna. Jón var líka sonur Friðgerðar en ekki Önnu. Anna var atorku- og dugnaðarkona sem skilaði miklu ævistarfi, segir Jón Ólafur.

Foreldrar Önnu og Friðgerðar, Skarphéðinn og Petrína, voru efna­lítið vinnufólk þegar tvíburarnir fæddust í Æðey og þeim var strax gerð grein fyrir því að þau gætu aðeins haft annað barnið hjá sér. Þessi stærðarmunur á Önnu og Friðgerði við fæðingu hefur væntanlega ráðið mestu um að það var Anna en ekki Friðgerður sem var sett í fóstur strax eftir fæðingu. Ljós­móðirin hafði hana með sér í land og lofaði að koma henni fyrir hjá góðu fólki sem hún og gerði. Anna fór að Laugalandi í Skjaldfannardal til hjónanna Guðrúnar Finnsdóttur (1832-1911) og Kristjáns Ólafs­sonar (1845-1914).

Anna Skarphéðinsdóttir

Kristján var seinni maður Guðrúnar sem hafði áður gifst Jóni Steindórssyni og þau hafið búskap á Laugalandi skömmu fyrir 1860. Guðrún var sunnan af Eyri í Gufudals­sókn, dóttir Finns Arasonar bónda, hrepp­stjóra og forlíknunarmanns (sátta­semjara) og Halldóru Gísladóttur konu hans sem bæði urðu háöldruð. Bróðir Guðrúnar var Ari bóndi á Bæ í Kollafirði sem hafði Pálínu Árnadóttur seinni konu Skarphéðins Elíassonar í fóstri 1870. Guðrún ólst upp í foreldra­húsum fram yfir tvítugt eins og Jón Steindórsson sem hafði alist upp hjá foreldrum sínum í Hafnardal á Langadalsströnd. Jón lést 1866 frá 4 börnum en Guðrún náði fljótlega í annan mann, Kristján frá Skjaldfönn, sem var 13 árum yngri, og hjá þeim ólust upp 4 börn Guðrúnar af fyrra hjónabandi, Steindór (1859-1892), Ólöf (1861-1929), Helga (1862-1948) og Samúel (1864-1890) og 2 dætur af því seinna, Halldóra (1872-1899) og Elín (1879-1881) sem reyndar dó á öðru ári, Guðrún þá komin nær fimmtugu.

Um Kristján segir nafni hans frá Garðstöðum í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 1958 bls. 28: „Kristján var meðalmaður á hæð með rauðleitt alskegg, snemma nokkuð fyrirgengilegur enda kenndi hann vanheilsu síðari árin. Hann var jafnan ræðinn og glaðlegur í viðmóti. Nokkuð var hann vínhneigður. Lengstum hafði hann allgott bú á Laugalandi og var jafnan vel látinn“.

Þegar Anna Skarphéðinsdóttir kom í Laugaland 1888 voru tvö börn Guðrúnar látin, Elín og Samúel, og Ólöf gift og flutt að Melgraseyri. Árið 1890 voru þar eftir Helga og Steindór Jónsbörn auk Halldóru dóttur Guðrúnar og Kristjáns. Þangað var þá líka kominn vinnumaðurinn Elías Elíasson, hálfbróðir Skarphéðins Elíassonar, en Elías var á Laugalandi fram yfir aldamót, eignaðist tvö börn með Halldóru Kristjáns­dóttur sem lést frá þeim ungum 1897, 27 ára að aldri. Elías giftist á ný og fluttist til Ísafjarðar og þaðan í Gil í Syðridal í Bolungar­vík og að lokum til Reykjavíkur. Á meðan hann bjó á Ísafirði skaut hann um tíma skjólshúsi yfir Önnu bróðurdóttur sína. Ekki er vitað hvort meiru réði um dvöl Önnu hjá föðurbróður sínum á Ísafirði skyld­leiki þeirra eða kunning­skapur frá því að þau voru samtíða í Lauga­landi í Skjald­fannardal í um áratug nema hvort tveggja hafi verið. Sjá nánar um Elías í kaflanum um Elísabetu Jónsdóttur.

Árið 1898 eða þegar Anna var 10 ára sótti faðir hennar hana og flutti í Efstadal í Laugar­dal. Þar voru aðstæður þannig að Pálína, seinni kona Skarp­héðins, hafði fætt barn um vorið, Sigmund Viktor, og misst heilsu, hefur líklega bilast tímabundið á geði, þannig að það kom í hlut Önnu og Karítasar systur hennar, sem var 2 árum yngri, að annast heimilið og gæta hálfsystkina sinna, Petrínu og Sig­mundar. Lík­lega þótti Skarphéðni líka tímabært að fá Önnu til sín eftir 10 ára fjar­veru hennar. Hugsanlega voru heimilis­aðstæður í Laugalandi líka teknar að þyngjast þegar þarna var komið sögu, Hall­dóra dóttir hjónanna látin frá tveimur ungum börnum og samkomulag gömlu hjónanna ekki upp á það besta, Kristján drykk­felldur og Guðrún farin að tapa heilsu. Alltént fór Anna í Efsta­dal og var þar meira og minna þangað til Skarphéðinn og Pálína fluttu þaðan 1904 en það ár var Anna á Laugabóli.

Á Laugalandi í Skjaldfannardal. Ása Ketilsdóttir húsfreyja segir ættarmótsgestum frá staðnum og sýnir garðrækt við ystu höf.

Árið sem Anna fermdist (1902?) mun hún hafa farið í vist að Sandeyri, yst á Snæfjallaströnd, og þar á hún að hafa verið eitt ár. Og þegar fóstra hennar á Lauga­landi, Guðrún Finnsdóttir, veiktist á Anna að hafa farið til hennar til að annast hana næsta árið en dóttursonur Guðrúnar, Elías Pálsson (1886-1977) kaup­maður á Ísafirði, tók Guðrúnu síðan til sín. Síðustu árin bjó Guðrún hjá Ólöfu dóttur sinni og Páli, föður Elíasar, á Markeyri í Ögursókn og var þá skilin við Kristján sem bjó enn á Laugalandi með ráðskonu. Kirkjubækur segja Önnu hafa verið á Eyri í Skötu­firði 1905, þangað sem faðir hennar og stjúpmóðir fluttu nokkrum árum síðar, og að árið 1906 hafi hún farið til Ísafjarðar.

Þegar Anna fór úr Skötufirði til að vinna á Ísafirði 1906 var hún fyrst til heimilis hjá Elíasi Elíassyni föður­bróður sínum eins og áður segir. Árið eftir leigði hún í húsi á Ísafirði ásamt þremur öðrum konum. Hún vann fyrst í niðursuðu­verk­smiðju en síðan á sjúkrahúsinu á Ísafirði þar sem hún kynntist Halldóri Sigur­liða Jónssyni (1878-1920) frá Bolungar­vík og varð ófrísk eftir hann.

Hún fluttist til Bolungarvíkur til væntan­legs barns­föður síns og elskhuga, að því er hún taldi, en komst þá að því að hann var trúlofaður þar.

Anna fór í vist í Meirihlíð til Hálfdáns Örnólfssonar og þar eignaðist hún tvíbura í desember 1908, önnur stúlkan fæddist andvana en hin, sem fékk nafnið Petrína, dó í júlí árið eftir. Halldór neitaði faðerninu en honum voru dæmd börnin.

Um þetta leyti virðist Anna hafa verið um tíma hjá föður sínum á Gunnarseyri og þar er hún skráð í manntalið 1910, kölluð leigjandi, en hún er líka færð í manntal í Meirihlíð 1910 sem hjú eins og Jón Ólafur Jónsson (1888-1923) bróðir Halldórs barnsföður hennar. Í Meirihlíð voru þau Anna og Jón Ólafur líka 1911, í Tröð 1912 þar sem þau hófu sambúð og 1913 og 1914 voru þau í Búð í Hnífsdal ásamt tveimur börnum sínum, Hrólfi og Bjarna Hjaltalín (1914-1915) sem dó á fyrsta ári. Þau giftust aldrei.

Anna Skarphéðinsdóttir með Bjarna Halldórsson og Guðlaugu Þorkelsdóttur

Halldór og Jón Ólafur voru frá Meiri­bakka í Skálavík. Foreldrar þeirra voru Jón Jóhannesson (1849-1900) frá Blámýrum í Ögursókn og Ríkey Helga Bjarnadóttir (1849-1924) sem fæddist í Seljalandi í Seyðisfirði og var síðar í Hattar­dal í sömu sveit. Þau ólust bæði upp í foreldra­húsum en 21 árs var Jón orðinn ráðsmaður hjá ungri ekkju á Borg í Ögursókn en á sama tíma var Helga vinnukona í Ögri. Fáum árum síðar hófu þau búskap á Breiðabóli í Skálavík en elsta barnið, Ríkey, fæddist þar 1875 og síðan 7 börn í viðbót til ársins 1888 þegar Jón Ólafur fæddist en þá höfðu þau flutt yfir að Meiribakka í Skálavík. Tvö barnanna komust ekki á legg. Jón lést árið 1900 en Helga bjó áfram á Meiribakka ásamt þremur börnum sínum, Ríkeyju, Jóhannesi og Jóni Ólafi en Halldór, Bjarni og Guðmundur voru fluttir að heiman.

Anna og Jón Ólafur hófu staðfesta sambúð 1912 en áður hafði Hrólfur (1910-1999) fæðst 1910. Þau fluttu úr Búð í hús Hálfdáns Örnólfssonar á Grundum í Bolungarvík þar sem þeim fæddust 6 börn til viðbótar en af þeim komust upp Bjarni Jón Hjaltalín (1916-1944), Þorkell Erlendur (1917-1976), Petrína Halldóra (1918-2008) og Guðrún (1923-2020). Helga (1921-1924) lifði aðeins tæp fjögur ár. Á heimilinu var einnig Helga Bjarnadóttir móðir Jóns Ólafs þangað til hún lést 1924.

„Jón Ólafur fórst á sjó 1923 þegar Guðrún var á fyrsta ári. „Vélbáturinn Ægir úr Bolungarvík fórst í ofsaveðri er gerði 11. september 1923. Báturinn var á síldveiðum með reknetum á Vest­fjarðamiðum“ (Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880 – 1940, síðara bindi bls. 229). 

Þá gerði Sigríður í Hörgs­hlíð í Mjóafirði, föðursystir Önnu, henni boð um að hún mætti koma til sín næsta sumar og hafa eitt barn með sér en hún væri hinsvegar farin að tapa heilsu og treysti sér ekki til að hafa fleiri börn. Fyrsta sumarið tók Anna Þorkel með sér en á meðan var Guðrúnu komið í fóstur til Hallberu Jónasdóttur (1869-1942) á Kroppsstöðum í Skálavík. Næsta sumar fór Anna aftur í Hörgshlíð og hafði nú bæði Þorkel og Guðrúnu með sér og þar voru þau á sumrin til 1932. Þá var Þorkell farinn að vinna sem beitningamaður við báta í Bolungarvík og 1933 var síðasta sumarið sem Guðrún var í Hörgshlíð. Bjarni Jón Hjaltalín var á svipuðum slóðum á sumrin og þessi tvö systkini hans því að hann var í Botni í Mjóafirði hjá Bergþóru (1900-1985) og Sigurði (1886-1963). Bjarna Jóni hafði verið komið í fóstur til Guðmundar Jónassonar og Sigríðar Sigfreðs­dóttur í Bolungarvík en Guð­mundur og Sigurður í Botni voru hálfbræður.

Jón Ólafur Jónsson

Eftir lát Jóns Ólafs 1923 var Petrínu komið í fóstur suður í Dýrafjörð til Ríkeyjar föðursystur sinnar og þar var hún til 10 ára aldurs. Þá fékk Anna fregnir af því að hún ætti ekki of góða daga, væri t.d. ekki farin að læra að lesa. Anna fékk þá Bjarna Bjarnason, mág sinn, til að fara með sér til að sækja hana. Eftir það var hún í vist við barnagæslu í Bolungar­vík á meðan Anna, Þorkell og Guðrún voru í Hörgshlíð og Bjarni í Botni.

Upp frá þessu bjó Anna í Bolungarvík til æviloka í ýmsum húsum. Úr húsinu á Grundum flutti hún í verbúð á Mölunum til að geta verið nær vinnustað og þar bjó hún ásamt konu sem einnig átti ung börn. Þær skiptust á að gæta barna hvor fyrir aðra á meðan hin vann. Þar bjó hún þegar Jón Ólafur fórst. Þaðan flutti Anna aftur inn á Grundir og bjó þar með Friðgerði systur sinni. Þvínæst bjó Anna í eigin húsi sem hún lét byggja fyrir sig inni á Grundum. Það var reyndar aðeins 17,6 m2 að grunnfleti en á 2 hæðum. Þetta hús stóð handan við götuna sem hús Friðgerðar og Bjarna stóð við, það sem þau bjuggu í eftir að þau fluttu utan úr Skála­vík. Þarna gat Anna jafnvel leigt út herbergi á efri hæðinni en auk heimilis­fólksins var þar oft margt um manninn, þar var gestkvæmt og oft glatt á hjalla.Þaðan flutti Anna haustið 1934 í hús sem nefndist og nefnist enn Vinaminni og stendur uppi á Holtum. Þar bjó hún til 1963 en þá keypti Hrólfur sonur hennar íbúð af Jóni Friðgeiri, vinnu­veitanda sínum, í fjögurra íbúða húsi. Þar bjuggu þau Hrólfur þangað til Anna lést í maí 1968 eftir skamma sjúkrahúslegu. Og þar bjó Hrólfur áfram til æviloka.