Kjallarinn

Kjallarinn

Rými (a) og (b) voru óútgrafin undir austuhluta hússins. Undir vesturhluta hússins voru kjallararýmin.

Þegar komið var niður kjallaratröppurnar úr ganginum á aðalhæðinni var hægt að ganga beint áfram og út í „skúr“, þar sem mjólkin var síuð í brúsa, og þaðan út í fjós. Hinsvegar var hægt að fara til vinstri inn í fremri kjallarann sem ég man ekki að héti neitt annað. Komið var inn á smápall, steyptan, þaðan sem var ein trappa niður á gólf, reyndar að jafnaði gengið til vinstri en ekki beint í vestur eins og myndin sýnir.

Í fremri kjallara var geymdur súrmatur í tunnum, slátur, sviðalappir, lundabaggar og fleira gott. Meðfram gluggaveggnum var bekkur yfir tunnunum og að einhverju leyti að norðanverðu líka. Þetta var köld geymsla og þar gat hangið uppi hangikét, reyktar rúllupylsur og fleira af því tagi.

Úr fremri kjallara var gengið í gegnum kolastíuna inn í innri kjallarann. Í kolastíunni var skilrúm, lágt, og innan við það voru kolin í haug. Þau voru flutt þangað í pokum sem losaðir voru í stíuna. Að hausti var kolabingurinn talsvert hár en svo lækkaði hann þegar leið á veturinn jafnóðum og bætt var úr honum í miðstöðvarketilinn sem var við skorsteininn, merktur (g), rétt innan við dyrnar á innri kjallaranum.

Í innri kjallaranum voru geymd vinnuföt á snögum á veggjum og þar voru þvottasnúrur. Í innri kjallaranum var líka miðstöðvar­ketill, sem kyntur var með kolum, og frá honum lágu vatnsrör í alla ofna hússins. Eftir að rafstöðin var tekin í notkun 1947 var sett upp svonefnd miðstöðvartúba á austurvegginn. Hún gegndi því hlutverki að hita miðstöðvarvatnið með umframorku frá rafstöðinni þegar ekki var verið að elda eða nota önnur rafmagnstæki svo sem ryksugu, hrærivél o.s.frv. en ísskápur og frystikista voru að sjálfsögðu alltaf í gangi. Ég held að ekki hafi munað mikið um rafmagnshitunina en einhver sparnaður hefur þó verið að henni. Yfir rafmagnstúbuna var á 7. áratugnum settur hitadunkur sem geymdi heitt vatn í krana og baðker.

Í innri kjallara var lengi eina klósettið í húsinu í kompu, afþiljaðri með þunnum panel. Yfir klósett­skálinni var vatnskassi hátt á vegg og úr honum var sturtað í klósettið með því að taka í handfang á keðju. Salernispappír var ekki sérhannaður heldur var notast við Ísafold og Vörð og Dag nema þegar sumarfólk hafði með sér þann húðvæna en prentsvertusnauða pappír sem tíðkaðist í kaupstaðnum. Það þótti heimafólki fordild. Ég kynntist því vestur í Skagafirði um 1960 að fólk gekk örna sinna í flórnum en það var aldrei gert í Garðshorni svo ég muni, hvað svo sem fólk gerði þar fyrr og síðar þegar það trítlaði um tún, engi og úthaga.

Garðshorn í september 2018

Mér er minnisstætt þegar Krummi á Þúfnavöllum kom einu sinni í heimsókn í leigubíl innan af Akureyri, allölvaður eins og nokkrir ferðafélagar hans, líklega til að sníkja lán hjá pabba fyrir brenni­víni. Þá þurfti Örlygur kaupamaður að styðja Krumma niður í kjallara til að hann kæmist á klósett. Að öðru leyti eru mér klósettferðir ekki minnisstæðar nema ég man að pabbi byrjaði daginn alltaf stórt á þessum stað.

Frárennsli frá klósettinu var beint út í bæjarlækinn við húshornið að suðvestanverðu. Í þessum bæjar­læk, sem var leiddur úr lindum ofan við fjallsgirðingu sunnan og ofan við Háumóa, gegnum rafstöðina og heim að húsinu, var mjólkurkælir í kassa sem lækurinn rann í gegnum. Þar voru mjólkurbrúsarnir geymdir frá því að mjólkin var sett í þá og þangað til þeir voru fluttir í veg fyrir mjólkurbílinn. Tekið skal vandlega fram að frárennslið frá klósettinu kom út í lækinn nokkrum metrum neðan við mjólkur­kassann en í læknum sem rann niður að merkjum að Hamri og þaðan í merkjaskurðinum milli Hamars og Garðshorns sem veitti bæjar­læknum út í Rauðalæk, mátti víða sjá úrgang frá Garðshornsheimilinu í ýmsu formi.

Áður en kúabúskap lauk í Garðshorni með tilheyrandi mjólkurframleiðslu var komið upp löglegum mjólkurkæli í „skúrnum“ og þá var ekki lengur þörf fyrir mjólkurkælingu í bæjarlæknum. Og þegar frárennsli frá klósettum og vöskum var beint í nútímalega rotþró fyrir tilstuðlan Guðmundar og Sóleyjar var ekki lengur þörf fyrir bæjarlækinn sunnan við bæinn og því fór sem fór fyrir honum.

Niðurfall var á kjallaragólfinu í innri kjallaranum og mig rámar í að þar uppi á vegg eða á röri í loftinu hafi verið sturtu­haus en ég man ekki eftir að hann hafi verið notaður til að fara í sturtu. Fólkið hefur þvegið sér með öðrum hætti og börn böðuð í bala þangað til baðherbergið komst í notkun eftir 1960. Þrifnaður fólks í Garðshorni og á öðrum bæjum á fyrri tíð er í sjálfu sér forvitnilegt rannsóknarefni handa seinni tíma sagnfræðingum. En það er önnur saga en þessi.