Um timburhúsið á Efri-Rauðalæk

Um timburhúsið á Efri-Rauðalæk.

Á Efri-Rauðalæk á Þelamörk stendur timburhús sem búið var í frá byrjun 9. áratugar 19. aldar. Húsið heyrir undir lög nr. 80/2012 um menningarminjar en er ekki á skrá yfir friðlýstar minjar hjá Minjastofnun.

Á Efri-Rauðalæk hafði sama ættin búið framan af 19. öldinni til 1883. Fyrstur bjó þar Bergur Þórarinsson (1746-1811), „Smjör-Bergur“, síðan sonur hans Bergur Bergsson (1789-1852), „Mið-Bergur“, en sonur hans Bergur Bergsson (1813-1879) tók við búi af honum 1852 en hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Ástríður Jónsdóttir (1824-1857) og með henni átti hann einn son sem upp komst, Stefán (1854-1938), en með seinni konunni, Sigríði Pálsdóttur (1817-1873), átti hann Pál (1859-1919) sem var síðast kaupmaður í Reykjavík. Fyrst eftir að Sigríður Pálsdóttir lést 1873 bjó Bergur yngsti áfram með ráðskonu á Efri-Rauðalæk en 1875 tók Stefán Bergsson við búi af föður sínum, þá rúmlega tvítugur. Stefán hafði þá náð sér í konu framan úr Eyjafirði, Þorbjörgu Friðriksdóttur (1856-1934) frá Ytra-Gili í Hrafnagilshreppi. Stefán og Þorbjörg bjuggu á Efri-Rauðalæk til ársins 1883 en fluttu þá fram í Steinsstaði og þaðan í Þverá, bjuggu síðan í Hrauni nokkur ár en fluttu aftur í Þverá þar sem þau bjuggu til æviloka. Stefán og Þorbjörg áttu 7 börn, næstyngstur var Steingrímur (1885-1915) sem tók við búinu á Þverá þegar Stefán og Þorbjörg fluttu í Hraun. Hann var mikill félagsmálafrömuður í sveitinni og stofnandi fyrsta ungmennafélags á Íslandi, sem hét reyndar íþróttafélag fyrstu árin. Yngstur barnanna var Bernharð (1889-1969) alþingismaður, kennari og bankaútibússtjóri og reyndar skrifaður fyrir búi á Þverá um tíma.

Stefán Bergsson bjó sem sagt á Efri-Rauðalæk á árunum 1875 til 1883 og þar byggði hann timburhúsið sem enn stendur. Líklega er húsið byggt árið 1882, hugsanlega 1881, eftir teikningu Þorsteins Daníelssonar Dannebrogsmanns á Skipalóni en hann lést í desember 1882. Ekki er vitað hversu mikið Þorsteinn kom að smíði timburhússins á Efri-Rauðalæk. Þegar Stefán var kominn í Þverá byggði hann þar líka timburhús sem notað var sem samkomuhús og síðan skólahús frá því að skipuleg kennsla hófst þar í dalnum 1910 undir forystu sona hans, Steingríms og Bernharðs.

Efri-Rauðilækur 1954

 

Fyrsta árið sem skipuleg farskólakennsla stóð í Glæsibæjarhreppi, 1908-1909, var kennt í Ási en síðan var kennt í timburstofunni á Efri-Rauðalæk á árunum 1909 til 1918 nema 1911-1912 þegar kennt var á Vöglum. Kennt var í stofunni í sunnanverðu húsinu. Eiríkur Stefánsson (1904–1993) frá Skógum lýsir kennsluhúsnæðinu svo í grein í Súlum 1988: „Á Rauðalæk var stofa í frambænum svo sem nokkuð var algengt á bæjum á þessum tíma. Í litlu stofunni á Rauðalæk var börnum kennt um skeið. Þar voru líka stundum haldnar skemmtisamkomur einu sinni eða tvisvar á vetri. Þá var Lestrarfélagið eina félagið sem stundum fékk Rauðalækjarstofuna léða til samkomuhalds.“

Líklegt er að Ungmennafélagið Vorhvöt hafi verið stofnað í Rauðalækjastofunni 1917 en félagið byggði sér félagsheimili í Ási 1918 og þá fluttist farskólakennslan á fram-Þelamörk þangað.

Vorið 1917 fluttu í Efri-Rauðalæk hjónin Haraldur Pálsson (1874-1938) og Katrín Jóhannsdóttir (1876-1927) sem höfðu áður búið á Dagverðareyri og Ytri-Skjaldarvík. Haraldur var organisti við Bægisár- og Bakkakirkjur og mikill áhugamaður um tónlistariðkun. Hann safnaði saman fólki úr sveitinni og kenndi því að syngja ættjarðarlög og ýmis önnur vinsæl lög í stofunni á Efri-Rauðalæk og þar kenndi hann jafnvel unglingum orgelleik. Haraldur flutti frá Efri-Rauðalæk ári eftir að kona hans lést 1927. Börn þeirra voru Jóhann Ólafur (1902-1966) tónskáld á Akureyri, Elísabet Pálína (1904-1993) húsfreyja á Öxnhóli, Laufey Sigrún (1907-1957), húsfreyja í Skógum 1932-1938, kona fyrrnefnds Eiríks Stefánssonar, og loks Árni Júlíus (1915-2002) bóndi á Hallfríðarstöðum og víðar.

Ýmsir ábúendur voru á Efri-Rauðalæk eftir að Haraldur Pálsson flutti þaðan 1928 en Stefán Nikódemusson (1899-1988) og Guðrún Sigurbjörg Jónasdóttir (1899-1966) fluttu þangað 1944. Monika (f. 1938) dóttir þeirra heldur að neðri hluti suðurstafns timburhússins hafi verið steyptur 1953 eða 1954. Á þeim tíma – og hugsanlega alla tíð – var eldhús í norðurenda hússins og svefnherbergi á efri hæð, sem á seinni árum voru aðeins notuð á sumrin, en einnig var sofið í stofunni. Nokkuð austan við timburhúsið var gamla baðstofan þar sem voru tvö herbergi sem sofið var í. 

Stefán Nikódemusson (1899-1988) bóndi á Efri-Rauðalæk 1944-1979

 

Milli timburhússins og gömlu baðstofunnar var torfbygging og í gegnum hana lágu göng, sem Monika segir að hafi verið hundleiðinleg. Að norðanverðu var eldhús sem sneri stöfnum í austur og vestur en sunnan við göngin var búr með stöfnum í norður og suður.

Torfhúsið á milli timburhússins og baðstofunnar var rifið skömmu fyrir 1950 og steinhús byggt í staðinn. Í stað ganganna leiðinlegu kom gangur. Sunnan við ganginn voru tvö svefnherbergi, gengið inn í vestara herbergið af ganginum og úr vestara herberginu inn í það austara. Bæði höfðu glugga í suður. Að norðanverðu var þvottahús og geymsla og í þvottahúsinu var kynding, fyrst kolakynding en síðar olíukynding. Norðan við gamla timburhúsið var snemma byggð geymsla, sem enn stendur, innangeng úr eldhúsinu, og úr henni gengið inn á snyrtingu austan við geymsluna.

Þessi grein birtist í Heimaslóð 2022.