Nýja íbúðarhúsið frá 1932
Byrjað var að byggja íbúðarhúsið 1932 en þá um veturinn var verkið undirbúið með því að sækja steypumöl niður að Hörgá. Guðmundur Víkingsson hefur það eftir Sverri Baldvinssyni bónda í Skógum, sem þá átti heima á Neðri-Rauðalæk, að mölin hafi verið grafin út úr frosnum melhól þannig að inn í hólinn var grafinn hellir sem myndaðist við malartekjuna. Síðan var mölin flutt á hestasleðum heim í Garðshorn og hún geymd þar til sumars eða þangað til uppsteypa gat hafist. Fyrst var suðurhluti hússins steyptur en síðan var norðurhlutanum undir skúrþakinu með halla til norðurs bætt við. Í suðurhlutanum voru steinveggirnir einfaldir og einangraðið að innan en í norðurhlutanum voru veggirnir tvöfaldir með einangrun á milli. Kjallari var undir vesturhluta beggja húshlutanna.
Meðfylgjandi grunnteikningar af nýja íbúðarhúsinu frá 1932 eru gerðar að nokkru leyti eftir minni og þess vegna má ekki taka nein mál á innveggjum, gluggum og dyragættum bókstaflega. Utanmál á húsinu eru þannig að suður-/norðurhliðin er rétt um 10 m og vestur-/austurhliðin um 8,9 m.
Hér á eftir fer lýsing á einstökum rýmum með sundurlausum minningum skrásetjara um notkun þeirra á mismunandi tímum.
Neðri hæðin
Forstofa
Komið var inn um aðaldyr í litla forstofu. Hurðin opnaðist til vinstri en á bak við hana var hengi þar sem hægt var að hengja útiföt og geyma skó. Yfirleitt var lokað fram í forstofuna, a.m.k. að vetri til. Útidyrahurðin var endurnýjuð á 6. áratugnum en innri hurðin var eins og aðrar hurðir í húsinu, fullningahurð með fjórum spjöldum en þessi hurð var með gleri í stað efsta spjaldsins.
Gangur
Lífæð hússins var gangurinn inn af forstofunni með dyrum inn í herbergi, stofu og eldhús og úr ganginum var gengið niður í kjallara og upp á loft. Undir stiganum upp á 2. hæð var skápur sem notaður var undir óhreinan þvott. Um eða fyrir 1960 kom á markað málning sem hægt var að lita með litum sem keyptir voru sérstaklega og blandað í hvíta málningu. Um tíma var gangurinn margmálaður í bókstaflega öllum regnbogans litum, stundum mjög dökkum.
Á vegg milli dyra inn í eldhús og stofu var símtæki fyrst eftir að síminn kom um 1957. Undir tækinu var ofn. Síðar var símtækið flutt inn í stofu þar sem betra næði var til að tala og ekki síst hlusta á samtöl sveitunganna. „Aldrei segi ég ljótt í símann, andskotinn hafi það,“ heyrðist Siggi á Hamri segja við Fúsa á Rauðalæk þegar þeir hneyksluðust á orðbragði sveitunga sinna í símann, vitandi að hálf Mörkin „lá á línunni“.
Vinnukompa og baðherbergi.
Fyrir enda gangsins var kompa sem mamma notaði framan af sem vinnuherbergi, hafði þar prjónavél og saumavél. Hún prjónaði t.d. ullarnærföt á börnin. Um 1963 var kompunni breytt í baðherbergi með baðkari undir glugganum og kompan um leið stækkuð inn í svefnherbergi hjóna – innfyrir – enda voru börnin þá hætt að sofa þar inni hjá þeim. Ég held að Pálmi hafi staðið fyrir þessum framkvæmdum enda þá kominn undir tvítugt og búinn að vinna við að byggja súrheysturna vítt um sveitir. Hann hefur nýtt sér reynslu sína af verklegum framkvæmdum við þessar breytingar. Fram að þessum tíma hafði heimilisfólk og gestir farið á klósett niður í kjallara og baðað sig í bala eða með öðrum hætti. Komum að þessu síðar.
Stofan
Stofan var á hægri hönd þegar komið var inn á ganginn úr forstofunni. Á henni voru tveir gluggar, annar til suðurs en hinn til vesturs. Í lofti stofunnar voru listar og í hornunum þar sem listarnir mættust voru ferhyrningar úr sama efni, u.þ.b. 20 sm á kant. Dyrnar opnuðust með hurð til vinstri og í norðausturhorni stofunnar var skorsteinninn bak við hurðina. Húsgögn voru að sjálfsögðu ekki alltaf þau sömu en ég man ekki eftir neinum húsgögnum þar sem voru fyrirrennarar svefnsófa og borðs sem hægt var að stækka á tvo vegu. Þessar mublur hljóta að hafa komið í stofuna um eða fyrir 1960.
Stofan var ekki mikið notuð að jafnaði framan af nema til hátíðabrigða svo sem á jólum og þegar betri gestir komu. Ég minnist þess að þar hafi pabbi stjórnað fundum í Lestrarfélagi Þelamerkur þar sem hann var alltaf kosinn formaður. Hann annaðist útlán en bækurnar voru geymdar í smíðahúsinu handan við ganginn. Ásheimilið var alltaf með eitt bindi af Dalalífi í láni.
Í stofunni var Gröfu-Stebbi líka látinn gista á meðan hann var að vinna á beltagröfunni við að ræsa fram mýrar og stuðla að hlýnun jarðar. Stebbi var svo sköllóttur að hann skammaðist sín fyrir það svo að hann tók aldrei ofan svörtu derhúfuna, t.d. á meðan hann mataðist eða drakk kaffi, en ég álpaðist einhvern tíma óvart inn í stofu á meðan hann svaf þar og tók þá eftir að hann hafði ekki sofið með húfuna.
Stundum að vetrarlagi var stofan rýmd og inn í hana sett spunavél sem notuð var til að spinna, tvinna og þrinna lopaband, 25 hespur í senn. Þetta gátum við elstu bræðurnir gert, þegar ég man eftir, en þó þurfti notandinn að hafa náð einhverri lágmarkshæð til að geta snúið drifhjólinu sem ég sá síðast sem veggskraut heima hjá Jónu og Óla í Tungusíðu.
Á jólum var stofan skreytt með grenigreinum og pappírsdóti sem strengt var horn í horn. Jólatréð var í stofunni, framan af var það smíðað úr tré og geymt milli jóla og á það voru sett kerti sem pabbi var alltaf hræddur um að mundu kveikja í trénu og húsinu. Laufabrauð var skorið í stofunni.
Þegar á leið komst stofan í meiri notkun enda veitti ekki af að nýta húsrýmið eftir að börnin voru orðin 8 og yfirleitt einhver aukabörn, mest þó á sumrin. Þangað inn fór orgel Helgu sem pabbi reyndi að spila á eftir nótum. Hann hafði fengið tilsögn í þeirri list hjá Haraldi Pálssyni organista og söngstjóra á Efri-Rauðalæk en aldrei fengið tækifæri til að æfa sig neitt að ráði fyrr en orgelið kom.
Í stofunni var veggteppi sem Jóna frænka hafði saumað og þar var líka hengt upp málverk af Botni í Mjóafirði vestra sem Kristinn flugmarskálkur, uppeldisbróðir mömmu, fékk Baldur Eiríksson frá Dvergsstöðum (Dverg) til að mála eftir ljósmynd. Myndin var/er ekki alltof vel heppnuð enda hafði Baldur aldrei komið vestur og þekkti ekki vestfirsk fjöll sem eru gjarnan grónari uppi en þau eyfirsku. Myndin er samt góð heimild. Í stofunni héngu líka uppi myndir af Helgu ömmu og Pálma afa.
Á myndinni úr stofunni er mamma með myndina af Botni og veggteppið í baksýn. Á myndinni hér til hliðar má sjá sveitasímann bak við stofuhurðina og orgelið er á sama vegg. Jólaskraut er á veggjum og hangir úr loftinu.
Eldhúsið
Aðrar dyr til hægri á ganginum lágu að eldhúsinu. Á móti eldhúsdyrunum var stærsti gluggi hússins með tveimur lóðréttum póstum – þremur rúðum á breiddina. Undir suðurglugganum var eldhúsbekkurinn á milli veggja með skápum og skúffum, óvenjulega lágur því að Helga amma var óvenju lágvaxin, líklega um eða innan við 150 sm. Vestast á bekknum var einfaldur stálvaskur en austast skápur frá bekk og upp í loft og geymdi leirtau og útvarpstækið og í efstu hillum voru jafnvel krydd og bökunarvörur.
Mamma sótti sér þangað matarsóda þegar hún var með brjóstsviða sem hún fékk helst þegar hún var ólétt sem var alltaf á árunum 1942 - 1954. Með vesturveggnum var fyrst ísskápur næst dyrum, síðan Rafha-eldavél og saltkassi. Síðar kom þvottavél í stað saltkassans en áður en þvottavélin kom í eldhúsið hafði verið þvottavél og þvottapottur í kjallaranum. Upphaflega hafði líka eldavélin – þá kolavél – verið næst dyrunum því að þar var skorsteinninn bak við vegg.
Í eldhúsinu var mælir sem sýndi spennuna á rafmagninu á meðan heimilisrafstöðin var í notkun. Þegar mörg raftæki voru í gangi og mörg ljós kveikt í húsinu lækkaði spennan og því þurfti að fylgjast með henni og slökkva ljós eða taka raftæki úr sambandi ef spennan varð of lág. Mælirinn hvarf þegar Rafveiturafmagnið kom. Rafstöðin truflaði alltaf útvarpssendingar en útvarpið var í efstu hillu í eldhússkápnum. Reynt var að hlusta á fréttir, sjómannaþáttinn og sjúklingaþáttinn svo og útvarpssöguna á kvöldin en öllum þessum flutningi fylgdu skruðningar í tækinu. Fyrir kom að pabbi slökkti á rafstöðinni til að börnin gætu hlustað á barnatímann, framhaldssögur um Árna í Hraunkoti og fleira menningarefni. Annað útvarpsefni var aðallega svokallað píanóglamur og sinfóníugarg sem mömmu fannst ekki skemmtilegt svo að hún slökkti gjarnan á útvarpinu.
Máltíðir voru reglulegar, líklega hafragrautur og súrt slátur á morgnana með lýsi sem allir áttu að taka en fengu eina skeið af gosi á eftir lýsisskeiðinni. Ýmsar gostegundir voru notaðar, oft Mix, Jolly Cola eða siglfirski eðaldrykkurinn Valash. Talsvert gos var í flöskunum fyrst eftir að þær voru opnaðar en þegar leið á hverja gosflösku varð vökvinn að flötu og bragðlitlu sykurvatni en þótti betra en ekkert. Í þá daga var lýsið bragðmeira en nú til dags, sérstaklega þegar leið á þriggja pela lýsisflöskuna.
Það var heitur matur í hádeginu, oftast kjöt en stundum fiskur, og hlustað á hádegisfréttir og veðurskeyti í útvarpi. Steini – síðast Steini á Hvannavöllum, mágur pabba – sendi öðru hverju kassa með nýjum fiski með mjólkurbílnum og það var alltaf tilhlökkunarefni, ekki síst ef steinbítur var í kassanum. Steinbíturinn var soðinn, steinbítsroðið skafið, hreinsað og étið og þótti lostæti. Ýmsir góðir réttir eru eftirminnilegri en aðrir, t.d. hrossasperðlar og steikt ungkálfakjöt.
Eftir matinn lagði pabbi sig innfyrir og las úr þjóðsögum Jóns Árnasonar fyrir yngri börnin áður en hann sofnaði smástund með þau utan á sér eða ofan á sér.
Síðdegiskaffi eða mjólk með bakkelsi var um 4-leytið, mér ekki verulega eftirminnilegt. Eitthvað hefur þurft að baka handa svo mörgu fólki en um tíma var sá vandi leystur að hluta með því að kaupa brauð og kökur af brauðbílnum sem fór um sveitir og heim á hvern bæ. Um tíma var samkeppni milli bíla frá Brauðgerð KEA og Kristjánsbakaríi. Bleik flórsykurstykki líða ekki úr minni frekar en franskbrauðið.
Það var ekki endilega heitur kvöldmatur eftir að komið var inn úr fjósi heldur gat verið skyrhræringur og heimabakað rúgbrauð með kæfu á borðum og fleira af því tagi. Stundum var farið út í heyskap eftir kvöldmat á sumrin en útvarpssagan var víst ekki fyrr en um 10-leytið, t.d. „Hver er Gregory?“ eftir Francis Durbridge. Svo þótti líka nauðsynlegt að hlusta á þætti Sveins Ásgeirssonar með snillingum hans og hagyrðingum en þeir voru á veturna.
Í eldhúsinu var spiluð vist og fleira þegar svo bar undir. Fyrir kom að Siggi á Hamri, Fúsi á Rauðalæk og einhver fjórði maður komu til að spila við pabba. Þá var spilað alla nóttina eða þangað til pabbi þurfti að fara í fjós.
Innfyrir
Hjónaherbergið inn af eldhúsinu var aldrei kallað annað en „Innfyrir“, t.d. af því að pabbi fór innfyrir og lagði sig eftir matinn. Í þessu herbergi fæddust öll Garðshornssystkinin, þau 7 fyrstu með hjálp Önnu ljósmóður á Þverá en það síðasta með hjálp hennar og Guðríðar ljósmóður á Myrká. Meðan börnin voru ung sváfu þau þar inni í kojum og víðar en fluttust síðan upp á loft enda hafði þá rýmkast í húsinu, afi og amma fluttu til Akureyrar haustið 1947 og Kristján og Henný, sem höfðu austurherbergið uppi fyrir sig, fluttu til Akureyrar 1951.
Herbergið var minnkað um 1962 eða 1963 þegar vinnukompan norðan við var stækkuð og henni breytt í baðherbergi. Þá sváfu engin börn lengur í herberginu.
Framan af svaf mamma á tvíbreiðum dívan sunnanmegin í herberginu og þar eignaðist hún öll sín 8 börn eins og áður segir. Dívan mömmu var sæmilega breiður enda hefur hún líklega haft börn uppi í hjá sér á meðan þau voru mjög ung. Hún mun hafa átt það til að lesa frameftir og þótti því gott að sofa frameftir á morgnana en líklega fékk hún ekki að sofa lengur en til 7 eða svo því að börnin vöknuðu fyrir allar aldir en voru syfjuð á kvöldin á yngri árum.
Pabbi svaf á mjórri svefnbekk við norðurvegginn. Hann fór á fætur kl. 6 til að mjólka því að mjólkin þurfti að komast í veg fyrir mjólkurbílinn sem kom um kl. 8.30, þá búinn að fara í Öxnadalinn eða Hörgárdalinn. Einhvern tíma, líklega fljótt eftir 1950, skiptu rúmin um stað og pabbi svaf upp frá því við suðurvegg en mamma norðanmegin. Við norðurvegg, innan við rúm þeirra hjóna, voru kojur fyrir yngstu börnin.
Á fyrstu myndinni úr svefnherberginu „innfyrir“ er pabbi að leggja sig eftir matinn og lesa fyrir tvö ráðskonubörn eins og hann las fyrir sín eigin börn á meðan þau voru ekki mjög fær um það sjálf.
Á næstu mynd er pabbi búinn að taka blundinn eftir matinn og aðgætir stofuklukkuna sem hann fékk í afmælisgjöf, væntanlega á sextugsafmælinu. Til hliðar við klukkuna eru Hansahillur með sumum uppáhaldsbókum hans.
Á næstu mynd er Steini á Hvannavöllum, mágur pabba, líka kominn innfyrir, gestkomandi.
Á veggnum yfir höfðalaginu á rúmi mömmu er skatthol eftir Franklín bróður Steina, hvað svo sem hefur nú orðið af því. Þriðji bróðirinn sem kemur við sögu var Árni sá sem var yfirsmiður við byggingu íbúðarhússins í Garðshorni og e.t.v. fleiri bygginga þar. Uppi yfir skattholinu er myndin af þeim alsystrum, Friðgerði móður mömmu, Önnu tvíburasystur hennar og Karítas, yngri systur þeirra.
Gamla eldhúsið
Líklega hefur gamla eldhúsið verið notað sem slíkt fyrst eftir að húsið var byggt. Þar var eldhúsbekkur við austurvegg og suðurvegg með vask en kolaeldavél við norðurvegginn. Eftir að nýja eldhúsið var tekið í notkun var gamla eldhúsið áfram notað sem eldhús, líklega notaði Helga amma það eftir að mamma kom inn á heimilið og á meðan Kristján og Henný voru í Garðshorni höfðu þau það fyrir sig, þ.e. 1950-1951. Í upphafi var steyptur bráðabirgðaskorsteinn norðan við húsið sem nýttist eldhúsinu og á norðurveggnum voru loftrör út í gegnum vegginn til að halda eldhússkápum köldum. Það var ekki fyrr en eftir 1960 sem eldhúsbekkurinn var rifinn og herbergið notað sem þvottaherbergi og geymsla. Eftir 1960 var skorsteinninn brotinn niður, settur á hann kaðall og hann dreginn á hliðina með dráttarvél. Mörg ár liðu þangað til búið var að fjarlægja stærstu hluta skorsteinsins úr portinu á bak við húsið.
Búrið
Í búrinu var geymdur matur eins og geta má nærri. Búrið var óupphitað nema eftir að rafmagn komst á húsið 1947 var þar frystikista. Í skápum í búrinu, sem náðu út yfir kjallaratröppurnar, voru geymdar smákökur sem hægt var að ná sér í ef þannig stóð á, sérstaklega fyrir jól áður en mamma fór á fætur. Þar var líka rabarbarasulta og fleira í langtímageymslu. Austanvert í búrinu voru skápar þar sem geymd var mjölvara og fleiri matvæli. Fyrir norðurvegg var bekkur. Í horninu út við dyrnar, hægra megin þegar komið var inn, var skilvinda sem lengi var notuð. Mjólkin var skilin í rjóma og undanrennu, úr rjómanum búið til smjör og skyr úr undanrennunni. Smjörið var best nýgert, svokölluð lambatugga, áður en búið var að pressa úr því áfirnar. Þá var því klínt ofan á heimagert seytt rúgbrauð, algjört lostæti.
Kjallaratröppur
Aðalumgangur inn og út úr húsi fyrir vinnandi menn var um steinsteyptar kjallaratröppurnar. Innanhúss var auðvitað ekki vinnandi fólk, samt upplýstist það fyrir fáum árum að mamma hefði haft mikið að gera. Eftir þessu tók Jónsi úr Reykjavík, Jón Ólafur Skarphéðinsson, sem var í Garðshorni á sumrin eftir 1960, þá barnungur, en hennar eigin börn veittu þessu enga athygli.
Á pallinum framan við kjallaradyrnar lá heimilishundurinn, fyrst Gosi og síðar Fjára, raunar fleiri en ein. Þegar komið var niður tröppurnar var hægt að fara til vinstri ofan í kjallarann, þar sem klósettið var framan af og útiföt hengd upp, en einnig var hægt að fara beint áfram út í skúr og þaðan í fjós. Veggirnir meðfram tröppunum voru ópússaðir og ómálaðir.
Smíðahús
Þetta herbergi, til vinstri þegar komið var inn úr forstofunni, var kallað smíðahús. Líklega hefur Steindór haft þar aðstöðu með hefilbekk sinn fyrst eftir að húsið var byggt því að flutt var inn í húsið áður en allt var þar tilbúið eftir því sem Steindór segir sjálfur í greininni um gamla bæinn. Í herberginu var fjalagólf eins og á efri hæðinni en á öðrum gólfum á neðri hæð var dúkur nema í gamla eldhúsi og búri þar sem var steingólf.
Eftir að hætt var að nota smíðahúsið sem slíkt og Steindór fluttur endanlega til Akureyrar, var bókasafn Lestrarfélags Þelamerkur geymt í smíðahúsinu. Þarna voru nokkrir bókaskápar sem geymdu safnið en herbergið var ekki notað til margs annars. Sjaldan var gist í þessu herbergi, hversu margt sem var í heimili í Garðshorni en þar gat heimilisfólkið farið hátt í 20 manns yfir sumarið.