Friðgerður Skarphéðinsdóttir
Þegar Petrína Ásgeirsdóttir lést á Laugabóli árið 1890 fór Friðgerður (1888-1943) til Ásgeirs afa síns á Látrum en hann bjó þar enn með ráðskonu sinni og barnsmóður, Guðrúnu Elíasdóttur. Þegar Friðgerður var 5 ára varð mikill húsbruni á Látrum en hún var þar þó áfram til ársins 1896. Þá var afi hennar orðinn blindur og þá fór hún til Sigríðar föðursystur sinnar í Botn í Mjóafirði. Árið 1904 fluttu þau Sigríður og Guðmundur í Hörgshlíð en Elín, systir Guðmundar, og Bjarni Aron Þorláksson tóku við búskap í Botni (sjá Markúsar þátt á bls. 13 - 14). Í Hörgshlíð var Friðgerður fram á árið 1907. Þá var hún 19 ára en á þessum árum fékk hún mislinga og er sögð hafa verið þunglynd fyrst á eftir. Friðgerður fór sem vinnukona í Múla í Ísafirði 1907, þá til Bolungarvíkur og þaðan út í Vigur þar sem hún var 1910 og 1911.
Í Vigur gætti Friðgerður Högna Gunnarssonar (1906-1963) fyrir Guðfinnu Hálfdánardóttur (1888-1943) og Gunnar Guðmund Halldórsson (1881-1933). Guðfinna var fósturdóttir sr. Sigurðar í Vigur og sagan segir að Stefán (1893-1969), sonur Sigurðar, og Friðgerður hafi fellt hugi saman en verið stíað sundur. Stefán giftist aldrei. Friðgerður fór í vist til Hjálmars Guðmundssonar frá Efstadal og Kristjönu Runólfsdóttur sem bjuggu þá á Grund í Skötufirði en fluttu sama ár, þ.e. 1912, í Meirihlíð í Bolungarvík og tóku við jörðinni af Hálfdáni Örnólfssyni. Hjá Hálfdáni höfðu Anna Skarphéðinsdóttir og Jón Ólafur Jónsson (1888-1923) verið í vist á árunum 1910 til 1912.
Í Meirihlíð var Friðgerður hjá Hjálmari og Kristjönu 1912 og 1913 og fyrra árið var Bjarni Bjarnason (1895-1980) þar vinnumaður líka, 17 ára að aldri, en Friðgerður var 24 ára. Seinna árið var Bjarni á Gili. Úr Meirihlíð fór Friðgerður svo sem vinnukona að Hóli árið 1914 til Guðfinnu og Gunnars, fyrri húsbænda hennar úr Vigur, en þau höfðu flutt þangað árið áður. Þau áttu nú auk Högna soninn Halldór sem var faðir Bárðar menntaskólakennara og hótelrekanda m.m. Þegar Friðgerður kom í Bolungarvík 1912 hitti hún Önnu, tvíburasystur sína, hugsanlega í annað sinn, þær þá nýorðnar 24 ára gamlar.
Halldór Gunnarsson frá Hóli var síðar skipstjóri á Djúpbátnum og þegar þeir bræður, Jón Ólafur og Skarphéðinn, synir Friðgerðar, þurftu að ferðast með honum lét Halldór þá njóta uppruna síns, kallaði þá til sín upp í brú og lét þá ekki greiða fargjald.
Friðgerður var á Hóli 1914-1916 en 1915 var Bjarni Bjarnason kominn þangað sem tvítugur húsmaður en fyrstu börn þeirra fæddust strax eftir áramótin 1916. Friðgerður og Bjarni eignuðust 11 börn, þar af þrenna tvíbura, en aðeins 4 börn komust á legg. Þau voru Gunnhildur Guðfinna (1916-1981), skírð í höfuðið á hjónunum á Hóli, Jóna Bjarnveig (1921-1993) sem hefur líklega heitið eftir foreldrum Bjarna, Jón Ólafur (1925-2019) sem hét eftir Jóni Ólafi, manni Önnu Skarphéðinsdóttur sem fórst í september 1923, og Skarphéðinn Sigmundur (1927-2006) sem hét eftir afa sínum og Sigmundi Viktor, hálfbróður Friðgerðar sem lést úr Spönsku veikinni 1918. Börnin sem dóu fæddust 1916 (sveinbarn, tvíburi á móti Guðfinnu), Halldór 1917, meybarn 1919, Péturína og Pétur 1920, Bjarni, tvíburi á móti Jónu 1921 og Jón Ólafur 1923.
Meirahraun í Skálavík séð frá Breiðabóli seint í júní 2013
Bjarni og Friðgerður bjuggu fyrst í Bolungarvík og áttu þá heima inni á „Grundum“, m.a. í „Gamla skóla“ en einnig á Jaðri og Skeiði sem voru kot í landi Hóls. Friðgerður var svo um tíma með Guðfinnu og Jónu í Botni eða Hörgshlíð í Mjóafirði. Tvær skýringar eru á þeirri dvöl, báðar geta verið réttar. Önnur er sú að Bjarni hafi verið farinn að halda við aðra konu, jafnvel búa með henni.
Reyndar hefur heyrst þriðja skýringin á dvöl Friðgerðar í Mjóafirði á þessum tíma. Samkvæmt henni voru þau Bjarni að leysa tímabundinn húsnæðisvanda í Bolungarvík með því að fá húspláss í Botni eða Hörgshlíð.
Eftir að Friðgerður og Bjarni komu innan úr Mjóafirði voru þau um tíma úti í Skálavík, fyrst á Breiðabóli og síðan í svonefndum Grundarbæ sem var hjáleiga efst í túni Meiribakka. Þaðan fluttu þau inn í Bolungarvík þar sem þau bjuggu fyrst í steinhúsi Kristjáns Jónssonar á Grundum þar sem tvíburasysturnar Anna og Friðgerður bjuggu saman, höfðu hvor sitt herbergið og sameiginlegt eldhús. Friðgerður og Bjarni fluttust 1928 í Efri-Hanhól í Syðridal og þaðan í Neðri-Hanhól 1930 en það var hjáleiga frá Efri-Hanhóli. Líklega fluttu þau fram í dal til að Bjarni ætti möguleika á að stunda búskap með vinnu sem landmaður á bátum. Honum hentaði illa sjómennska vegna sjóveiki. Á Neðri-Hanhól bjuggu þau til 1933 en fluttu þá í Meirahraun í Skálavík.
Friðgerður fór hálfnauðug í Meirahraun og þau Bjarni e.t.v. bæði. Friðgerður setti það skilyrði að faðir hennar færi með þeim út eftir sem hann og gerði. Einhvern tíma þennan fyrsta vetur þeirra í Hrauni sinnaðist þeim Bjarna og Skarphéðni svo að sá síðarnefndi fékk menn innan úr Bolungarvík til að sækja hafurtask sitt og með það flutti hann inn í Bolungarvík.
Hin skýringin er þessi: Þegar þau Bjarni höfðu eignast 8 börn árið 1921, þar af þrenna tvíbura, og aðeins tvö þeirra lifðu var Friðgerður búin að fá nóg og leitaði athvarfs á æskustöðvunum í Mjóafirði þar sem Sigríður frænka hennar og fóstra í Hörgshlíð hefur annaðhvort haft hana hjá sér eða útvegað henni vist hjá þáverandi ábúendunum í Botni, Bjarna Aron Þorlákssyni og Elínu Guðmundsdóttur, systur Guðmundar í Hörgshlíð. Friðgerður hafði Guðfinnu og Jónu nýfædda með sér. (Hér ber heimildum reyndar ekki saman: Sumir segja að Jóna hafi ekki verið fædd þegar þetta gerðist). Samkvæmt kenningunni um að Jóna hafi verið fædd braust Bjarni hinsvegar inn í Mjóafjörð í illviðri skömmu fyrir jól 1921 með vöggu handa Jónu. Í hrakningum á leiðinni brotnaði vaggan en Bjarni komst á leiðarenda og flutti fjölskylduna með sér út í Bolungarvík.
Í Meirahrauni höfðu Bjarni og Friðgerður 2 kýr og 30-40 kindur. Jörðin var rýr, undirlendi lítið og litlir möguleikar á heyskap. Bjarni stundaði ýmsa vinnu með búskapnum svo að bústörfin komu mikið í hlut Friðgerðar og barnanna. Oft á það að hafa gerst að Bjarni sat að spjalli inni í Bolungarvík þegar Anna mágkona hans lét hann heyra að henni fyndist hann ætti heldur að drífa sig út í Skálavík og sinna búi og börnum.
Reyndar voru börnin ekki mikið í Meirahrauni á veturna eftir að þau komust á skólaaldur því að þau sóttu skóla til Bolungarvíkur og bjuggu þar en fóru sjaldan heim í Meirahraun um helgar. Jóna var á veturna hjá Kristjáni Sumarliðasyni sem var formaður á bát sem Bjarni var á vor og haust og á sumrin var hún í vist hér og þar. Jón Ólafur var þrjá vetur hjá Önnu móðursystur sinni en þegar hann var 12 ára var hann í um sumar í vist hjá fyrrnefndum Hjálmari og Kristínu frá Grund í Skötufirði. Þrettán ára fór hann til Magnúsar Hákonarsonar í Ósi og Ingunnar Jónasdóttur, þegar þau vantaði léttadreng, og hjá þeim var hann mest upp frá því til fullorðinsaldurs.
Skarphéðinn Bjarnason var einn vetur með Jónu hjá Kristjáni Sumarliðasyni en eftir það á vetrum hjá Guðlaugi Magnússyni og Þorlaugu Þorleifsdóttur en Guðlaugur var háseti hjá Jakob Þorlákssyni skipstjóra. Hjá Jakob var Skarphéðinn síðan á bátum en Guðlaugur bjó á þessum tíma í næsta húsi við Önnu Skarphéðinsdóttur.
Á þessum tíma var Guðfinna í fóstri í Botni í Mjóafirði, hafði verið komið þangað þegar hún var 9 ára, þá veik af skyrbjúg. Í Botni fékk hún kaplamjólk og braggaðist en fékk aldrei að koma aftur til foreldra sinna nema í skemmri tíma heimsóknir og það líklega ekki oft. Sjá meira um þá vist í kafla um börn Bjarna og Friðgerðar hér á eftir.
Á Meirahrauni bjuggu Bjarni og Friðgerður til vors 1939 en þá fluttu þau út á Breiðaból þar sem þau voru næsta vetur og hirtu búpening fyrir bónda. Þar höfðu þau eigin kýr en Bjarni hirti féð frammi í Hrauni og dró þangað hey. Næsta vetur gerðust þau vinnuhjú í Keflavík vestra en á miðjum vetri sinnaðist Bjarna við son húsbónda og fór samdægurs inn í Bolungarvík. Friðgerður, sem þótti vistin þar ytra erfið, taldi sig þá ekki lengur hafa skyldum þar að gegna og fór á eftir manni sínum inn í Bolungarvík þar sem þau voru í einu herbergi á Tröð til hausts 1940 ásamt Skarphéðni. Sumarið 1939 heyjuðu þau reyndar í Meirahrauni með Skarphéðin með sér eins og myndir Hjálmars R. Bárðarsonar bera með sér. Bjarni ætlaðist reyndar til þess af Jóni Ólafi að hann færi þangað líka en hann var þá búinn að ráða sig að Ósi og neitaði að fara - við litla hrifningu Bjarna. Um haustið fluttu þau svo endanlega til Bolungarvíkur. Fyrsta heila veturinn í Bolungarvík leigðu þau kjallaraíbúð en 1941 keyptu þau lítið hús á Mölunum sem enn stendur.
Húsið var lengi illa farið og helst notað sem geymsla en nú er Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum búinn að gera húsið upp. Húsið er nefnt Jónasínuhús eftir fyrsta íbúa í húsinu á þessum stað en í þessu húsi bjuggu lengi hjónin frá Dröngum, foreldrar Guðmundar Óla.
Friðgerður Skarphéðinsdóttir var lágvaxin kona og fíngerð með áberandi nettar hendur, óframfærin, a.m.k. framan af. Hún mun ekki hafa gengið í skóla, hugsanlega þó eitthvað í farskóla á árunum í Botni. Hún var þó hafsjór af fróðleik og kunni mikið af ljóðum og lausavísum þó aldrei muni hún hafa komið nálægt miklum bókakosti. Erfiði og þrælkun þeirra tíma settu snemma mark sitt á hana, sár fátækt, basl og hrakningar milli illa íbúðarhæfs húsnæðis munu líka hafa haft sín áhrif. Hún var mjúklynd og kom sér vel við alla sem kynntust henni. Hún var gestrisin og vildi hvers manns vandræði leysa. Um það voru þau samhent, hjónin, þó sambúðin við Bjarna hafi vafalaust oft verið erfið, hún 7 árum eldri. En þó að Bjarni hafi á þessum árum verið skapbráður og harður í horn að taka skeytti hann skapi sínu aldrei á Friðgerði. Einsemd hennar var mikil eftir að þau fluttu út í Meirahraun þar sem hún var langtímum saman ein og stundum með einn eða tvo unga syni þeirra. Veður voru oft vond en hún var veðurhrædd en þar var hvorki sími né útvarp, engin blöð og rafmagn var ekkert (Heimild: Jón Ólafur Bjarnason).
Friðgerður var hneigð til hannyrða en naut þess lítið þar sem hún fór snemma í vinnumennsku. Eftir hana lágu nokkrir munir sem báru handbragði hennar fagurt vitni en ekki er vitað um afdrif þeirra. Í smáritinu Tómstundum, 1. árg. 3. tbl., sem gefið var út í Bolungarvík árið 1921, segir frá heimilisiðnaðarsýningu sem þar var haldin 5.-6. maí það ár. Sýnendur voru 70, 11 karlar og 59 konur, en meðal þeirra voru systurnar Anna og Friðgerður Skarphéðinsdætur frá Grundum. Anna sýndi tvo útprjónaða trefla, annan með blúndu, tvenna laufaviðarvettlinga, útprjónaða illeppa, útprjónaða kvenvettlinga og barnasokka. Friðgerður sýndi laufaviðarvettlinga, grátt band, þrinnað, rúmteppabretti með krosssaumi og heklaðri blúndu, tvenn kvenbrjóst (heklaðir listar), eirlitaða sauðskinnsskó og prjónastokk með höfðaletri frá 1824. Ekki munu allir þessir munir hafa verið eftir Friðgerði en á lista yfir þá sem áttu flesta frumgerða muni á sýningunni var hún í 3. sæti ásamt 2 öðrum með 8 muni og Anna fylgdi fast á eftir með 7 frumgerða muni.
Þremur árum eftir að Bjarni og Friðgerður fluttust til Bolungarvíkur frá Hrauni fékk Friðgerður blóðeitrun og dó sumarið 1943. Árið áður höfðu Friðgerður og Anna farið saman til Reykjavíkur og hitt Karítas alsystur sína og frá þeim tíma eru myndir sem til eru af þeim systrum. Á einni mynd er Bergþóra hálfsystir þeirra með þeim, 20 árum yngri.
Bjarni bjó áfram fyrir vestan næstu ár og stundaði ýmis störf, var m.a. við vegavinnu í Óshlíð þar sem hann slasaðist; steinn féll á bíl sem hann stóð við og bíllinn lenti á Bjarna og hann mjaðmarbrotnaði. Hann var líka við búskap í Hnífsdal hjá Sigurgeiri Sigurðssyni sem þá var nýfluttur frá Folafæti, gerði út bát frá Bolungarvík en var líka með kýr og kindur sem Bjarni hirti fyrir hann. Þar kynntust þau Ólöf Jóna Jónsdóttir (1907-1992) og tóku saman upp úr þessu, giftust og eignuðust Friðgerði Elínu (1946). Þau fluttu til Akraness 1953 þar sem þau áttu heima til æviloka. Bjarni var blindur síðustu tvo áratugina.
Jón Ólafur, sonur Bjarna sem ólst upp hjá honum til 12 ára aldurs, lýsir föður sínum svo: „Hann var mjög bráðlyndur og það svo að stundum jaðraði við geðbilun en hann var sáttfús og hjálpsamur. Yrði hann fyrir andspyrnu var hann illskeyttur og orðhvatur en góður þeim sem fóru vel að honum og trygglyndur. Hann var fátækur alla ævi, mjög óstöðugur í vinnu. Búskapur hans gekk alltaf í basli, þó var hann snyrtimenni við öll verk. Hann fékk, ásamt tveimur öðrum, viðurkenningu og fjárupphæð fyrir björgunarafrek er þýskur togari fórst í Skálavík ytri 9. 10. 1924 en þá átti hann heima í Grundarbænum á Meiri-Bakka.“
Bjarni dvaldi stundum í Garðshorni hjá Guðfinnu dóttur sinni og fjölskyldu hennar og skömmu eftir 1950 dvöldu þau Jóna og Friðgerður dóttir þeirra þar að vetrarlagi. Bjarni gekk að verkum með Frímanni og fór vel á með þeim tengdafeðgum en fyrir kom að í brýnu sló milli mæðginanna sem e.t.v. voru að gera upp gamlar sakir en Guðfinna var alla tíð ósátt við að hafa ekki fengið að alast upp hjá móður sinni eins og hin systkinin. Bjarni kom seinna til Akureyrar og dvaldi hjá Helgu, dótturdóttur sinni, og Stefáni, þá orðinn blindur. Þá var hann orðinn meyr og mildur og barnabörn hans minnast hans ekki sem þess skaphunds og orðháks sem hann tvímælalaust var á yngri árum. Hann var barngóður og gamansamur og hafði frá mörgu að segja. Hann lést á Akranesi tæpri viku eftir að Frímann tengdasonur hans og vinur lést á Akureyri í febrúar 1980.