Systkini Steinunnar Önnu Sigurðardóttur
Fáar heimildir eða engar eru til um heimilislíf á Æsustöðum í uppvexti Steinunnar Önnu en þó er ljóst að mikil og e.t.v. óvenjuleg samheldni hefur verið í þessari fjölskyldu og þar varð Steinunn sjálf þungamiðjan þegar á leið. Öll börn Sigurðar og Arnbjargar nema Helga voru meira og minna á Æsustöðum fram á fullorðinsár þótt þau væru til skiptis í vinnumennsku á nærliggjandi bæjum og stundum tvö samtímis, t.d. á Skáldstöðum. Steinunn sjálf var t.d. á Hallanda, Eyvindarstöðum, Hrísum, Kerhóli og fleiri bæjum rúmlega tvítug en virðist að öðru leyti hafa verið í foreldrahúsum fram að því. Reyndar eru eyður í sóknarmannatöl Möðruvallasóknar á árunum 1872-1874 sem valda því að ekki er hægt að leiða neinum líkum að því hvar og hvernig Steinunn kynntist Guðmundi Sigfússyni og það eitt er vitað að í desember 1875 voru Steinunn og Guðmundur á Æsustöðum, gift, hann vinnumaður hjá Páli bónda. Sigurður Bárðarson var þar húsmaður og Jóhannes sonur hans en önnur börn farin að heiman. Steinunn gæti hafa verið ráðskona eða bústýra hjá tengdaföður sínum en tveimur mánuðum síðar, í febrúar 1876, eignuðust þau Guðmundur sitt fyrsta barn. Þegar þarna var komið sögu voru aðeins tvö býli á Æsustöðum og annar bóndinn var Páll Pálsson frá Möðrufelli, búandi með Ingibjörgu konu sinni og með Hansínu dóttur þeirra og Guðjón son hans og Sigurlaugar, systur Guðmundar, Guðjón „alkunnur hrakfallabálkur“, segir Stefán Aðalsteinsson.
Í bréfum til Arnbjargar dóttur sinnar minnist Steinunn á systkini sín, Bárð, Jóhannes og Margréti en þó einkum á Harald og Hólmfríði. Önnur urðu ekki gömul. Helga lést 1894, rúmlega fertug. Kristján Frímann hefur líklega dáið skömmu eftir 1880, tæplega þrítugur. Stefán Aðalsteinsson fullyrðir að hann hafi flust til Vesturheims og sé það rétt hefur Kristján dáið þar fljótlega ef hann hefur þá náð þangað en engin merki hafa fundist um hann í vesturfaraskýrslum.
Bárður (1852-1940) var í vinnumennsku frá unga aldri. Sextán ára gamall fór hann frá Sölvahlíð að Halldórsstöðum, síðan var hann ýmist heima á Æsustöðum eða á Skáldstöðum þar sem þau Margrét systir hans voru stundum samtíða.
Hann fluttist frá Vatnsenda í Möðrufell og þaðan vestur um haf 26 ára gamall ásamt Jóhannesi bróður sínum sem þá var 16 ára. Það var árið 1878 en Jóhannes hafði þá verið vinnumaður hjá Steinunni Önnu systur sinni á Einarsstöðum. Bárður giftist Kristínu Teitsdóttur frá Ytra-Leiti á Skógarströnd, hún var lágvaxin kona og feimnisleg, segir Olga, dóttir Egils Hólm Haraldssonar, bróðursonar Bárðar. Þau stunduðu fyrst búskap á Mikleyju í Winnipegvatni en fluttu síðan til Winnipeg.
Jón Hjaltason segir frá því í ævisögu Káins að Bárður hafi tekið lítillega þátt í fasteignabraski í Winnipeg og hagnast vel á því. Engum öðrum sögum fer af störfum Bárðar.
Kristín var ófáanleg til að heimsækja skyldfólk Bárðar sem enn stundaði búskap, var víst búin að fá nóg af sveitinni. Þau Bárður eignuðust tvö börn, Kristínu og Jón en hvorugt þeirra eignaðist afkomendur. Bárður heimsótti Harald bróður sinn í fyrsta skipti árið 1924 eftir að þeir fluttust til Kanada og var þá 71 árs að aldri.
Tvær vísur hafa varðveist eftir Bárð sem sýna að hann hefur verið liðtækur hagyrðingur:
Lokst er snjóinn leysti í ár,
lands um flóa kunnan,
kom með lóu, grettur, grár
grallaraspói að sunnan.
Og svo þessi sem er persónulegri:
Ég er sestur öls við skál
orðinn hresstur bara.
Sjaldan brestur bragamál
hjá Bárði vesturfara.
Jóhannes (1862-1939) gerðist vinnumaður hjá enskri fjölskyldu þegar hann kom til Kanada og sameinaðist fjölskyldunni og tók sér eftirnafn hennar, Strang. Hann giftist Guðrúnu, sem kom 17 ára til Kanada og var ættuð úr Þingeyjarsýslu, og eignaðist með henni a.m.k. 3 börn, Harald, Ingu og Fanneyju. Þau bjuggu í Winnipeg. Hann virðist ekki hafa haft mikið samband við systkini sín en þó hafa Bárður og Jóhannes haldið sambandi því að þeir sáu sameiginlega um útför Margrétar systur sinnar þegar hún lést, líklega 1920. Fanney Jóhannesdóttir dvaldi á hverju sumri hjá Agli, bróðursyni Jóhannesar, og sendi börnum hans föt sem hún og fjölskylda hennar voru hætt að nota í kaupstaðnum. Jóhannes var fremur lágvaxinn maður sem er nánast það eina sem um hann er vitað umfram framanskráð. Um Bárð og Jóhannes er ekki getið í Vestur-íslenskum æviskrám og fátt er vitað um feril þeirra vestra nema þeir dóu báðir í Winnipeg, Jóhannes 1939 og Bárður 1940.
Hólmfríður Sigurðardóttir (1850-1932) var vinnukona á Hrísum flest árin frá 1877 til 1884 en var þó á Æsustöðum 1880-81. Skömmu síðar giftist hún Kristjáni Jónassyni frá Finnastöðum í Sölvadal og bjuggu þau fyrst á Finnastöðum í 2 ár frá 1887, síðan í Þormóðsstaðaseli í 15 ár og loks á Draflastöðum 1905–1930. Eina barn þeirra var Guðrún (1888-1954) en Gunnlaugur Haraldsson, bróðursonur Hólmfríðar, var að hluta alinn upp hjá þeim Kristjáni. Guðrún Kristjánsdóttir átti fyrst Sigfús Pál Sigurðsson (1888-1924) frá Helgafelli í Svarfaðardal. Þau bjuggu á Draflastöðum 1921-1924 en þá lést Sigfús. Guðrún bjó áfram á Draflastöðum og giftist aftur Kristni Einarssyni, ekkjumanni frá Möðruvöllum, og þau bjuggu á Draflastöðum til 1942.
Guðrún eignaðist aðeins eitt barn, Sigurlínu Hólmfríði Sigfúsdóttur (1920-2008). Hólmfríður yngri og Jón Guðmundur Hjálmarsson frá Hólsgerði, bróðir Angantýs Hjörvars, stóðu fyrir búi í Ytri-Villingadal frá 1946 og fram yfir 1980 eða þar til dætur þeirra, Ingibjörg og Guðrún, tóku við því. Sonur Hólmfríðar og Jóns er einnig Gunnar sem var aðstoðarskólastjóri í Lundarskóla.
Í ævisögu sinni „Fátækt fólk“ segir Tryggvi Emilsson frá því þegar faðir hans kom honum fyrir á Draflastöðum hjá Kristjáni og Hólmfríði en þar segist hann hafa verið um sumarið og síðan átti hann að vera þar veturinn eftir. Í minningu Tryggva – eða a.m.k. þegar minningin var komin á pappír – var þetta vondur tími því að á Draflastöðum áttu flestir að hafa verið vondir við hann, einkum þó ungu hjónin Guðrún og Sigfús. Hólmfríður gerði reyndar vel til hans. Þessi saga Tryggva er reyndar með öllum ólíkindum og ekki bara fyrir það að hún rímar engan veginn við það orð sem af Draflastaðafólkinu fór. Hér hefur Tryggvi af einhverjum ástæðum valið Draflastaðaheimilið til að búa til ímynd yfirstéttarinnar sem kúgaði aumingjann. Það var líka auðvelt fyrir Tryggva að selja sögu um þetta fólk sem gat ekki lengur borið hönd fyrir höfuð sér þótt einhverjir reyndu það reyndar fyrir þess hönd. En svo getur svo sem eitthvað hafa verið hæft í frásögn hans en eins víst að sagan hefur ekki batnað með árunum.
Gaman er – þótt lítið gaman sé að frásögn Tryggva af þessum atburðum – að bera sögu Tryggva saman við „Söguna af Hjalta litla“ eftir Stefán Jónsson. Niðursetningar og tökubörn voru látin vinna eins og önnur börn og auðvitað áttu þau börn bágt, sem fóru frá foreldrum sínum á heimili til ókunnugra, þó svo að allir væru þeim góðir. Og ekki var innræti allra tökubarna eins og Hjalta litla sem tókst að gera gott úr öllu og kom sér vel við flesta.
Lítið er vitað um ævi Önnu Margrétar Sigurðardóttur (1857-1920). Hún fór frá Æsustöðum að Skáldsstöðum 1874 og þaðan að Möðrufelli 1876 þegar Steinunn systir hennar var að eignast fyrsta barn sitt í Hraungerði (næsta bæ). Þaðan fór hún að Rúgsstöðum (síðar Rútsstöðum) í Öngulsstaðahreppi og síðan til systur sinnar í Einarsstaði í Kræklingahlíð 1878 og var þar vinnukona, þá 21 árs. Árið 1879 fór Margrét út í Syðstabæ á Árskógsströnd og 1881 frá Brakanda út í Höfða í Höfðahverfi. Árið 1884 var hún aftur komin fram í Eyjafjörð og var að flytjast þaðan út að Ósi í Arnarneshreppi en þaðan fór hún ári síðar aftur til systur sinnar á Einarsstöðum. Hún var vinnukona í Botni 1894, á Hrafnagili 1896 og húskona þar 1897, vinnukona á Garðsá 1898–1900 og 1901 og 1902 var hún ógift veturvistarstúlka á Hrafnagili. Hún var lausakona á Kroppi 1903 en eftir það rofnar slóð hennar. Vitað er að Margrét fluttist vestur um haf og þangað hefur hún líklega verið komin fyrir 1910, hugsanlega varð hún samferða Gunnlaugi og Ingibjörgu Haraldsbörnum, bróðurbörnum sínum, 1904 eða 1905. Árið 1914 skrifaði Margrét Steinunni systur sinni í Garðshorni en ekki er vitað hvaðan. Þar í Íslendingabyggðum, í eða nálægt Winnipeg, batt hún enda á líf sitt 1919 eða 1920, óhamingjusöm, ógift og barnlaus. Bræður hennar, Bárður og Jóhannes, önnuðust útför hennar og skiptu eignum hennar milli eftirlifandi systkina þar sem Steinunn og Hólmfríður, einu börnin frá Æsustöðum sem þá lifðu eftir á Íslandi, fengu sínar 500 krónurnar hvor.
Helga Sigurðardóttir (1851-1894) var tökubarn á Halldórsstöðum frá fjögurra ára aldri og fram yfir fermingu, fyrst hjá hjónunum Jónasi Guðmundssyni og Guðlaugu Jónsdóttur. Guðlaug dó 1861 en Jónas fékk sér ráðskonu, Helgu Pálsdóttur sem var 33 árum yngri en hann, og giftist henni 1863. Hjá þeim ólst Helga Sigurðardóttir upp og var kölluð fósturdóttir þeirra þegar hún fermdist í Hólakirkju 1866 með ágætum vitnisburði um kunnáttu. Ekki hafa tengsl Helgu við foreldra og systkini þó rofnað því að árið 1880 fluttist hún á eftir Steinunni systur sinni frá Villingadal í Sólborgarhól í Kræklingahlíð ásamt Guðjóni Ágústi Jónassyni, þá fráskildum vinnumanni, og Sigtryggi syni hans, 8 ára. Árið 1881 eignuðust þau dóttur sem var nefnd Sigurbjörg. Ekki er vitað til að neitt barna Sigurðar og Arnbjargar á Æsustöðum hafi látið börn sín heita eftir Sigurði en bæði Steinunn og Haraldur eignuðust dætur sem fengu nafnið Arnbjörg. En hér var þó komin stúlka sem hét eftir bæði afa sínum og ömmu, Sigur(ður) – (Arn)björg.
Sama ár og Sigurbjörg fæddist fluttu Guðjón Ágúst og Helga að Blómsturvöllum en árið 1884 fóru Ágúst og Sigtryggur aftur í Sólborgarhól en Helga og Sigurbjörg í Steinkot. Árið eftir flutti Helga með Sigurbjörgu í Garðshorn í Kræklingahlíð og 1887 fóru þær þaðan í Rangárvelli. Allan þennan tíma var Helga í nábýli við Steinunni systur sína á Einarsstöðum.
Ágúst varð gjaldþrota þegar hann var á Sólborgarhóli 1886 og þrotabúið var skrifað upp. Hann átti ekki fyrir skuldum. Ágúst og Helga héldu þó sambandi lengur því að á árunum 1890-1893 var Helga ráðskona hjá barnsföður sínum sem þá var húsmaður á Neðri-Glerá og Sigurbjörg dóttir þeirra hjá þeim. Sambúðin – hvers eðlis sem hún var – slitnaði þó endanlega 1893 en þá flutti Helga ein vestur í Grjótgarð til Steinunnar systur sinnar og var þar vinnukona næsta árið. Vorið 1894 fór hún í Hraunshöfða í Öxnadal til að verða þar húskona en þar lést hún eftir skamma viðdvöl tæpra 43 ára að aldri. Kirkjubók Möðruvallaklaustursprestakalls segir hana 42 ára þegar hún fer frá Grjótgarði í Hraunshöfða en prestþjónustubók Bakkakirkju segir að sú Helga Sigurðardóttir sem dó í Hraunshöfða þetta sama ár hafi verið u.þ.b. 34 ára. Þetta er reyndar til marks um áreiðanleika kirkjubóka en engin ástæða er til að efast um að hér sé um sömu konuna að ræða. Um það taka skiptabækur sýslumanns af öll tvímæli. Dánarbú Helgu fór á uppboð og eignir voru seldar fyrir 104 krónur og 30 aura. Skiptikostnaður var 1 króna, útfararkostnaður 44 kr., uppskrift dánarbúsins, virðingarkostnaður og uppboðskostnaður var 15,24 kr. Þá hafði Helga skuldað Margréti í Skógum 4 kr. þannig að eftir stóðu 40 kr. og 6 aurar handa eina erfingjanum, Sigurbjörgu Ágústsdóttur, 13 ára. 17,50 kr. fékk hún beint en 22,56 kr. skyldu geymdar hjá Sigurði oddvita Jónassyni á Steinsstöðum á 4% vöxtum.
Guðjón Ágúst Jónasson (1851-1924) fæddist á Þórustöðum í Öngulsstaðahreppi og ólst upp hjá móður sinni, Sigríði Jónsdóttur, í Skálpagerði, Fjósatungu, Hvammi og loks Glerá en faðir hans, Jónas Þorleifsson bóndi á Þórustöðum, lést 1854. Ágúst hafði verið giftur áður en hann tók saman við Helgu. Börn hans og Guðrúnar Þorsteinsdóttur frá því hjónabandi voru áðurnefndur Sigtryggur (f. 1872, sem ólst upp hjá föður sínum en fór síðar til Ameríku), Svava (f. 1873, giftist Stefáni Benjamínssyni á Stekkjarflötum), Þorsteinn (f. 1874 í Torfufelli), Skúli (f. 1875 í Torfufelli, síðar bóndi í Hólsgerði í Kinn) og Bogi (f. 1878 í Torfufelli, bílstjóri á Akureyri, faðir skákmannanna Haralds og Júlíusar).
Eftir að sambandi þeirra Helgu lauk var Ágúst í húsmennsku á nokkrum bæjum í Kræklingahlíð ásamt Sigtryggi syni sínum. Ágúst var síðan vinnumaður á ýmsum bæjum, t.d. Þúfnavöllum í Hörgárdal 1899-1901 þar sem hann eignaðist synina Sigmar f. 1898 og Böðvar f. 1900 með Maríu Sigurðardóttur (1872-1943), dóttur Margrétar í Skógum sem hafði lánað Helgu Sigurðardóttur 4 krónur. Böðvar ólst upp hjá föður sínum frá 6 ára aldri en María fluttist til móður sinnar og bróður sem bjuggu þá á Þönglabakka í Hvalvatnsfirði. Ágúst var t.d. í Lögmannshlíð og Hesjuvöllum og á Akureyri var hann 1904 og 1906 bjó hann á Oddeyri en þá eignuðust þau María dótturina Ölveigu, María þá enn búandi úti í Fjörðum. María giftist skömmu síðar Birni Ólafssyni, bróður Aðalrósar konu Egils Hólm Haraldssonar, og eignaðist með honum 3 dætur en Ágúst flutti til Sigurbjargar dóttur sinni á Ánastöðum með Böðvar son sinn og þegar hann dó 1924 var hann heimilisfastur hjá henni í Öxnafellskoti (Fellshlíð).
Sigurbjörg Ágústsdóttir hefur farið úr foreldrahúsum um fermingu, þegar móðir hennar fór í Grjótgarð til Steinunnar Önnu, og farið að vinna fyrir sér eins og títt var um unglinga á þeim árum. Hún flutti ein til Akureyrar 1897 frá Hrafnagili en 1898 var hún á Þormóðsstöðum í Sölvadal ásamt Jóhannesi Jóhannessyni frá Finnastöðum en hann ólst upp hjá foreldrum Kristjáns Jónassonar, sem giftist Hólmfríði Sigurðardóttur, móðursystur Sigurbjargar. Þau Sigurbjörg og Jóhannes giftust og bjuggu síðan á Möðruvöllum í Eyjafirði, á Ánastöðum og í Öxnafellskoti. Börn þeirra voru Svavar, Hulda og Sigrún en auk þess fóstraði Sigurbjörg Sigurbjörgu Kristfinnsdóttur (Góu dóttur Kidda frá Kotum, sjá kafla um Kristfinn Guðjónsson) og Kristínar Gísladóttur en þau Sigurbjörg Ágústsdóttir og Kristfinnur voru „systrabörn“ eða a.m.k. systrafósturbörn því að Helga móðir Sigurbjargar og Steinunn Anna fósturmóðir Kristfinns voru systur.
Ekki hefur enn tekist að rekja sögu Kristjáns Frímanns (1853-1882?) til enda. Það eitt er vitað að hann var heima á Æsustöðum 1873, „þægkynntur“ eins og segir í vísunni, á Rútsstöðum 1877-78 og á Stokkahlöðum 1879-1881. Sálnaregistur fyrir Hrafnagilshrepp á þessum tíma er skemmt en færslubók Akureyrarprestakalls er greinargott og trúverðugt en þar er þess hvorki getið að Kristján Frímann hafi flust burt úr sókninni né að hann hafi dáið. Hann gæti þó hafa verið tímabundið annarstaðar þegar hann dó, sem gæti skýrt hvers vegna hann er ekki á skrá yfir dána á Akureyri eða í Hrafnagilshreppi, en hann hefur ekki fundist á skrá yfir dána í nágrannasóknunum. Stefán Aðalsteinsson segir í Eyfirðingabók að hann hafi flust vestur um haf en engar heimildir hafa þó fundist um hann vestanhafs.
Ekki verður annað séð en að systkinin frá Æsustöðum hafi verið sæmilega bjargálna lengst af nema Haraldur (1858-1946) sem var um tíma á sveitarframfæri og þurfti að láta börn sín flest frá sér til vandalausra. Var hann þó „harðskarpur nóg og listfengur“ eins og segir í vísunni svo að ekki var manndómsleysi um að kenna. Á 9. áratug 19. aldar voru harðindaár á Íslandi sem urðu mörgum fátæklingum erfið. Ekki bætti úr skák að allar sæmilegar bújarðir voru setnar og raunar heiðarbýlin einnig og margt ungt fólk átti ekki aðra kosti en að ráða sig í vinnumennsku eða vera í húsmennsku inni á heimilum annarra og fá að hafa með sér nokkrar rollur. Kjör margra voru því ömurleg á þessum tíma og fátækraframfærsla var um þessar mundir eitt meginverkefni hreppsnefndanna ásamt álagningu gjalda og vegagerð.
Vorið 1887 kom hreppsnefnd Saurbæjarhrepps saman „til að ræða um og ráða fram úr bjargarleysi fyrir menn og skepnur“. Samþykkt var að senda hreppsnefndarmann til að „semja við verslunarmenn á Akureyri um að fá korn til láns móti vörum og peningum í sumar“ (Hreppsbók Saurbæjarhrepps). Oddvita var falið „að skrifa amtmanni til um hvort hreppurinn geti ekki fengið neitt af legatssjóði Jóns heitins Sigurðssonar til að kaupa matbjörg handa bágstöddu fólki.“ Þetta vor þurfti Haraldur Sigurðsson að segja sig til sveitar. Því fór þó víðs fjarri að hann væri þar einn á báti enda kaus hreppsnefndin á hverju ári fátækrastjórn sem hafði það hlutverk að hlutast til um framfærslu þurfalinga og gera tillögur um skiptingu „legatskorns“.
Haraldur Sigurðsson hafði verið í vinnumennsku á nokkrum bæjum í fram-Eyjafirði á unglingsárum og fram yfir tvítugt. Hann var t.d. á Gilsá 1880 en á sama tíma var Helga Gunnlaugsdóttir frá Elivogum í Sæmundarhlíð vinnukona í Samkomugerði.
Foreldrar Helgu voru Gunnlaugur Guðmundsson frá Vatnshlíð á Vatnsskarði og Sigurbjörg Eyjólfsdóttir frá Gili í Svartárdal. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði vestanverðum og hvergi lengi. Síðast bjuggu þau í Elivogum 1870–1875 og þar voru þau síðan í húsmennsku þar til Gunnlaugur lést. Eftir dauða Gunnlaugs var Sigurbjörg húskona á ýmsum bæjum þar vestra og síðast á Sauðárkróki 1881–1893 en fór þá til Kanada til Gunnlaugs, sonar síns, í Brandon og andaðist þar.
„Gunnlaugur [Guðmundsson] missti heilsu á besta aldri og lifði við kröm nokkuð mörg ár uns hann dó. Gekk þá skjótt á efnahag hans því ómegð var mikil hjá honum. Hann var talinn merkismaður sem faðir hans en fátækur jafnan og hafði alltaf lítið bú.“ Gunnlaugur og Sigurbjörg eignuðust 15 börn en af þeim komust 5 á legg. A.m.k. þrjú þeirra fluttust til Ameríku. Gunnlaugur Einar Gunnlaugsson, f. 1849, fluttist þangað 1887 ásamt Ragnari syni sínum sem síðar kallaði sig Smith.
„Eftir að Gunnlaugur missti heilsuna gat Sigurbjörg ekki séð börnum sínum farborða hjálparlaust. Svo var þá fátækt hennar mikil að varla hafði hún málungi matar og ekki föt til skipta á börn sín. Varð hún að láta þau liggja í rúminu meðan hún þvoði föt þeirra og þurrkaði. Sigurbjörg var greindarkona, einbeitt, örlynd og stórlynd, dugleg til allrar vinnu en ekki að sama skapi hagsýn. Kom svo að hún leitaði sveitarstyrks í Bólstaðarhlíðarhreppi og voru þau þá enn í Elivogum. Gekk Sigurbjörgu alltregt að herja út styrk sem hún þurfti til að fleyta heimili sínu. Þótti þeim í Bólstaðarhlíðarhreppi hún þung á fóðrum og hugðu að framfærslan yrði léttari og kostnaðarminni ef Sigurbjörg væri tekin upp og börnum hennar komið niður. Þegar það var borið í mál við Sigurbjörgu, tók hún því mjög fjarri. Henni barst pati af því að til stæði að hreppstjóri kæmi að Elivogum ákveðinn dag að taka upp heimilið. Um morguninn lét hún börnin ekki klæðast og lágu þau öll allsnakin í einu fleti er hreppstjóri kom. Sigurbjörg var ekki mjúkmál er hann sagði erindið og krafði hana um föt barnanna því að ekki gat hann flutt þau strípuð. Hún svaraði illu einu – sagðist ekki vita betur en að þau hefðu komið nakin í þennan heim og þannig hefði hún tekið við þeim af skaparanum – hélt að hreppstjóra og sveitinni væri ekki vandara um en sér.“ (Skagfirskar æviskrár 1850-90 II. bindi, bls. 98 – 100. Þar eru tilvitnanir í ýmsar heimildir þar sem þetta fólk kemur við sögu).
Þegar Helga Gunnlaugsdóttir og Haraldur Sigurðsson fóru vestur í Skagafjörð í heimasveit hennar gerðust þau fyrst vinnufólk á kirkjustaðnum Ríp í Hegranesi. Þau giftust þar árið 1882 en fóru síðan í húsmennsku í Keflavík í sömu sveit og þar fæddist dóttirin Ingibjörg árið 1883. Sama ár fluttu þau á slóðir systkina Haralds að Blómsturvöllum í Kræklingahlíð þar sem Gunnlaugur fæddist 1884, fóru þaðan í Þinghól en Egill fæddist á Sólborgarhóli árið 1886, skírður eftir móðurbróður sínum. Árið eftir þurftu þau að segja sig til sveitar og voru send í heimasveit Haralds, Saurbæjarhrepp, og þar var Ingibjörg á sveitarframfæri næstu árin en Helga og Haraldur voru í húsmennsku, fyrst í Melgerði og síðan á Hólum. Síðan voru þau í húsmennsku á Vatnsenda og þar fæddust Arnbjörg 1889 og Lúðvík 1891. Árið 1892 syrti verulega í álinn þegar þau fluttu í Þormóðsstaði en það ár urðu þau að láta eldri synina frá sér á sveitarframfæri. Í Saurbæjarhreppi tíðkaðist að bjóða upp hreppsómaga á hreppsfundum eða hreppsskilum eins og fundirnir voru nefndir. Sá fékk ómaga sem bauðst til að taka hann að sér fyrir lægsta meðlagið frá hreppnum. Það var þó ekki sjálfgert að lægstbjóðandi fengi ómagann því að aðrir virðast hafa getað gengið inn í tilboð þeirra eins og dæmin sanna hér á eftir.
Haraldur og Helga fluttu út að Grund í Hrafnagilshreppi árið 1894 og þar voru þau í húsmennsku næstu árin. Yngsta barn þeirra, Vilfríður, fæddist þar 1894 og þar lést Arnbjörg árið 1896. Árið 1902 fluttu þau með Vilfríði frá Grund og út að Möðruvöllum í Hörgárdal og bjuggu þar eitt ár á grasbýli, sem hét Nunnuhóll, en árið eftir fluttu Haraldur, Helga, Gunnlaugur og Vilfríður þaðan til Akureyrar. Þar bjuggu þau næstu árin, enn í sárri fátækt, og urðu að láta Vilfríði frá sér um tíma. 1904 voru Helga og Vilfríður í Aðalstræti 11 en Haraldur var vinnumaður í Aðalstræti 13. Árið eftir voru þau öll í húsmennsku í Aðalstræti 27 en 1906 voru Haraldur og Helga í Aðalstræti 62. Vilfríður var þá hjá Oddi Thorarensen lyfsala í Aðalstræti 4 og var þar m.a. samtíða Snorra Sigfússyni, 22 ára húskennara. Gunnlaugur og Ingibjörg fluttu til Kanada árið 1905 – Ingibjörg e.t.v. 1904 – m.a. að áeggjan Ragnars Gunnlaugssonar (Smith), frænda síns sem hafði flutt vestur tæpum 20 árum áður. Gunnlaugi líkaði vel vistin vestra og áskotnaðist fé sem hann gat sent foreldrum sínum til að þau gætu komið á eftir honum. Haraldur og Helga fluttu til Kanada 1907, Haraldur þá 48 ára og Helga 49 ára, ásamt Vilfríði og sonunum Agli og Lúðvík sem nú höfðu aftur bæst í hópinn.
Þegar vestur kom tók fjölskyldan upp ættarnafnið Hólm sem ekkert þeirra hafði borið fram að því nema Egill. Haraldur og Helga námu land í Víðirbyggð á Nýja-Íslandi og „bjuggu þar góðu búi með aðstoð barna sinna, aðallega Lúðvíks sem aðstoðaði þau lengi við búskapinn,“ eins og segir í Vestur-íslenskum æviskrám. Haraldur varð fjörgamall maður og í næstsíðasta bréfinu í meðfylgjandi safni frá árinu 1935 segir Margrét Jónsdóttir Arnbjörgu mágkonu sinni frá því að Haraldur hafi skrifað henni. Hann hefur þá verið 76 ára og orðinn blindur. Haraldur dó 1946, 88 ára að aldri. Helga missti hinsvegar heilsuna fljótt eftir komuna vestur og dó 1923.
Þegar Haraldur og Helga fluttust á heimasveitina Saurbæjarhrepp 1887, urðu þau að láta Ingibjörgu frá sér. Fyrst var hún í Melgerði í 3 ár en síðan í Torfufelli frá árinu 1890 til 1897 og þar var hún þegar hún fermdist með góðum vitnisburði. Árið 1893 fékk Daníel í Torfufelli 30 kr. frá hreppnum fyrir að hafa hana og 20 kr. árið eftir en árið 1895 bauðst Ólafur í Leyningi til að hafa hana meðgjafarlaust og það boð hefur Daníel hlotið að jafna til að halda Ingibjörgu hjá sér. Eftir vistina í Torfufelli fór Ingibjörg í Samkomugerði en árið 1900 fluttist hún til Akureyrar og gerðist vinnukona hjá Helga Schiöth póstafgreiðslumanni og Helgu konu hans í Aðalstræti 61. Árið 1904 hverfur Ingibjörg hins vegar sporlaust úr prestþjónustubók og manntali. Hún mun hafa flust vestur um haf 1904 eða 1905 og sest að í Brandon. Bogga, eins og hún var kölluð þar, giftist Ragnari Gunnlaugssyni Smith sem vann á mjólkurbúi en dó 36 ára. Þau Ingibjörg og Ragnar voru systkinabörn því Gunnlaugur faðir hans var bróðir Helgu móður Ingibjargar. Þau eignuðust börnin Huldu og Valtý (Walter). Eftir að Ragnar féll frá gerðist Bogga hótelhaldari þar og giftist aftur en eignaðist ekki fleiri börn. Hún var myndarleg kona, hávaxin, ljóshærð og elskuleg að sögn bróðurdóttur hennar, Olgu Hólm Egilsdóttur.
Árið 1893 þurftu Haraldur og Helga að láta Gunnlaug á sveitarframfæri. Hreppsbækur segja að 35 kr. hafi verið boðnar fyrir að hafa hann á Jórunnarstöðum 1893 og árið eftir voru boðnar 19 kr. fyrir að hafa hann á Skáldstöðum. Engu að síður var hann samkvæmt sóknarmannatali í Þormóðsstaðaseli á árunum 1893 – 1897 hjá Kristjáni Jónassyni og Hólmfríði föðursystur sinni sem hafa væntanlega fengið þessa meðgjöf og árið 1895 fengu þau 10 kr. með honum frá hreppnum en síðan ekki meira enda var Gunnlaugur þá orðinn matvinnungur. Og líklega hefur hann verið farinn fyrr til Hólmfríðar, jafnvel strax árið 1891, því að hann sagði sjálfur að hann hefði verið hjá henni í 6 ár og farið til hennar frá Vatnsenda en Haraldur og Helga fóru frá Vatnsenda í Þormóðsstaði 1892. Eftir að hann fór frá föðursystur sinni í Þormóðsstaðaseli, var hann nokkur ár í Ölversgerði og 1901 var hann vinnumaður í Hraungerði í Hrafnagilshreppi. Þaðan fór hann að Botni í sömu sveit. 1903 fluttist Gunnlaugur frá Botni inn í Kotá fyrir ofan Akureyri, líklega með viðkomu hjá foreldrum sínum á Nunnuhóli í Arnarneshreppi.
Gunnlaugur fór til Kanada árið 1905. Hann kvæntist þar Svanfríði Jakobsdóttur úr Eyjafirði og gerðist bóndi í Víðirbyggð 1907-1946, bjó síðan í Steveston BC og þvínæst í Vancouver og fékkst við smíðar og málningu. Haustið 1963 settist hann að á elliheimilinu Betel í Gimli. Hann kom til Íslands ásamt konu sinni 1963 og aftur 1966 og hefur þá komið í heimsókn í Garðshorn.
Pálmi Frímannsson sá hann þá og vildi meina að hann hafi verið áberandi líkur Frímanni frænda sínum í Garðshorni, nema Gunnlaugur var stærri og kraftalegri. Á meðfylgjandi mynd sést ekki síður svipur með Sigurði Frímannssyni. Þegar Gunnlaugur og Svanfríður komu til Íslands í seinna skiptið, tók Jón G. Hjálmarsson í Villingadal viðtal við þau hjónin sem hefur varðveist og rakið verður hér á eftir. Þau áttu 4 börn þar vestra, fædd á árunum 1909-1928. (Vestur-íslenskar æviskrár II).
Egill Hólm Haraldsson fór fyrst til barnlausra hjóna, Sigurðar Kristjánssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur í Hólakoti, og hjá þeim var hann næstu árin þar og síðan á Vatnsenda 1892-1895. Eftir það hraktist hann milli bæja eftir því hver bauð minnst fyrir að hafa hann. Eggert í Samkomugerði bauðst til að taka hann fyrir 40 kr. árið 1896 og árið eftir bauðst Þórður á Tjörnum til að taka hann með 15 kr. meðlagi en Sigurður í Gerði bauð 10 kr. Engu að síður fór Egill í Hólakot 1896 og að Gilsbakka 1897, þaðan að Miklagarði 1898, þá í Miðhús árið 1900 og loks að Möðrufelli en þar var hann á árunum 1901-1907.
Egill fluttist frá Hraungerði til Kanada um leið og foreldrar hans og yngri systkini og gerðist bóndi í Víðirbyggð. Egill var lágvaxinn maður, ljóshærður og bláeygur, hæglátur. Kona hans var Sigurmunda Aðalrós Ólafsdóttir ættuð af Flateyjardal.
Egill og Rósa eignuðust m.a. dótturina Olgu Hólm sem kom nokkrum sinnum til Íslands og hélt alltaf sambandi við Hólmfríði frænku sína í Villingadal. Olga giftist Jóhannesi Jónssyni smið og tónlistarmanni Pálssonar frá Ólafsfirði en hann stjórnaði kórum og kenndi og lék á fiðlu og píanó. Til eru upptökur með einleik hans á fiðlu við píanóundirleik Lilju systur hans. Dóttir þeirra er Una Rósalind hjúkrunarfræðingur, stofnandi og stjórnandi unglingakórs vesturíslenskra barna, „New Iceland Youth Choir“, sem gefið hefur út geisladiskinn „From the Heart“ og valinn var til að syngja fyrir Elísabetu drottningu við opinbera heimsókn hennar til Kanada 2003. Hún var gift Einari Vigfússon bónda og tréskurðarlistamanni sem hefur sýnt fuglalíkön sín bæði í Vesturfararsetrinu á Hofsósi og í Norræna húsinu í Reykjavík. Hann er látinn. Þau hjón heimsóttu Ísland oft og voru ágætlega íslenskumælandi. Synir þeirra eru af fimmta ættlið frá landnemunum í Kanada og hafa algjörlega óblandað íslenskt blóð.
Önnur börn Olgu og Jóhannesar eru Salin Jóna og Baldur Jóhannes (lést 1974).
Rósalind Vigfússon kórstjóri, dótturdóttir Egils Hólm Haraldssonar, var fjallkonan á Íslendingadeginum í Gimli 2007 sem þykir mikill heiður. Að baki henni situr David Gislason skáldbóndi á Svaðastöðum í Geysisbyggð. Sigrún Jósefsdóttir amma hans og Helga Sigríður Gunnarsdóttir í Garðshorni voru þremenningar, barnabörn Helgu og Gríms sem voru börn Jóns „gamla“ í Arnarnesi. Greinarhöfundur og David eru því fimmmenningar.
Jóhannes faðir Rósalindar var afkomandi Stefáns sonar Jóns „gamla“ þannig að Rósalind og David eru skyld að 5. og 6. Stefán Jónsson var bróðir Gríms afa Helgu Sigríðar í Garðshorni. Greinarhöfundur er því skyldur Rósalind í 5. og 6. lið í gegnum Jón í Arnarnesi. Þau Rósalind eru fimmmenningar í gegnum Friðfinn og Herdísi í Stóragerði og þau eru fjórmenningar gegnum Sigurð Bárðarson og Arnbjörgu á Æsustöðum. Er nema von að hann veiti Rósalind og hennar fólki meiri athygli en öðrum ættingjum þar vestur frá?
Lúðvík (Lúlli) Haraldsson fæddist á Vatnsenda í Saurbæjarhreppi. Hann var hjá foreldrum sínum til ársins 1901 en þá fór hann til eldri hjóna á Kolgrímastöðum í Saurbæjarhreppi og var hjá þeim til 1907, ýmist skráður fósturbarn, tökubarn eða léttadrengur nema eftir fermingu var hann titlaður vinnupiltur. Lúðvík fór síðan vestur til Kanada með foreldrum sínum 1907. Hann giftist Fanneyju Hjálmarsdóttur sem ættuð var frá Hofi í Goðdölum í Skagafirði. Faðir hennar fluttist vestur 4 árum áður en hún fæddist 1892.
Þau Lúðvík eignuðust 4 börn, Elvu (f. um 1918), Albert Hólm (f. um 1919), Hjálmar Hólm (f. um 1921) og Helgu (f. um 1922) (Sjá Vestur-íslenskar æviskrár V-101). „Þau Lúðvík og Fanney voru vinsæl í sínum heimabyggðum og góðir Íslendingar. M.a. kenndu þau börnum sínum sjálf að tala, lesa og skrifa íslensku.“ (sjá V.-Ísl. æviskr. I, bls 118-119, og II, bls. 106 – 107).
Vilfríður – Fríða – tók kennarapróf í Brandon og varð barnakennari í Víðirbyggðinni og víðar tæpra 18 ára gömul. Hún bjó í Árborg ásamt manni sínum Unnsteini Vilberg Sigurðssyni (Eyjólfsson) frá Unaósi í Norður-Múlasýslu. Móðir Vilbergs – Villa – var Rósa Gísladóttir, ættuð úr Miðfirði. Hann var fæddur við Íslendingafljót 27. sept. 1892 og lést 17. sept. 1973. Þau áttu 3 börn, Edward Ragnar f. 1920, Sesselju Grace f. 1925 og Kathleen Helgu Rose f. 1929. (Sjá Vestur-íslenskar æviskrár I-bls. 119). Fríða og Vilberg bjuggu í Víðirbyggð til 1953 en eftir það í Árborg. Fríða tók mikinn þátt í kórstarfi og öðru félagslífi, m.a. var hún um 40 ára skeið virkur þátttakandi í Árborgardeild Rauðakrossfélagsins og forseti deildarinnar þegar dauða hennar bar að. Vilberg S. Eyjólfsson stundaði ungur landmælingar en síðar landbúnað og dýralækningar til 1964 og „var lipur og góðgjarn starfsmaður“.
Fríða kom til Íslands á 7. áratugnum og heimsótti þá m.a. Steindór Pálmason og Kristbjörgu á Hvannavöllum og þau Steindór voru í bréfasambandi. Síðasta bréfið sem Steindór fékk frá Fríðu var skrifað um 2 mánuðum fyrir lát hennar 1. febrúar 1973.
Fleiri afkomendur Haralds Sigurðssonar en Rósalind Vigfússon hafa heimsótt Ísland á undanförnum árum og haft samband við ættingja sína hér. Denise Thompson kom ásamt Floyd manni sínum til Akureyrar í júní 2015 og hitti ættingja frá Villingadal og Garðshorni. Móðir hennar var Svava Gunnlaugsdóttir f. 1925 Haraldssonar. Sumarið 2019 kom Elva Einarsdóttir Raymond ásamt eiginmanni sínum, Alan, en hún er dóttir Helgu Hólm Lúðvíksdóttur f. 1922, Haraldssonar. Þau hittu ættingjana frá Villingadal og Garðshorni en einnig frændfólk í gegnum móðurfólk Helgu en móðir hennar var Fanney Hjálmarsdóttir (1892-1956) en hennar fólk er fyrst og fremst framan úr Eyjafirði. Faðir hennar var Hjálmar Árnason, hálfbróðir þess fræga Markúsar Ívarssonar sem strauk úr fangelsi á Akureyri og leyndist vestur á Snæfellsnesi í 30 ár undir dulnefni. Það er allt önnur saga sem Jón Hjaltason hefur gert góð skil.